Færsluflokkur: Prótein

Myndavélaklikk

Haldið þið að myndavélin mín, þessi elska, hafi ekki bara ákveðið að éta upp batteríin! Líkur sækir líkan heim svosem.. eigandinn er átvagl! Ofurgrauturinn sem ég fékk mér í morgun verður því skilinn útundan og fær enga mynd af sér í bili, en mikið ofboðslega var hann góður!

Skyrgrautur með banana, muldri granola stöng, sultu og hnetusmjöri

1 skeið hreint prótein

1/3 bolli soðinn grautur

2 msk hörfræ 

kanill

Skjóta þessu inn í örbylgju þangað til nokkuð vel þykkt. Hræra þá saman við:

50 gr. hreinu skyri

1 tsk sykurlausri sultu

Hafragrautsskraut

1/2 niðurskorinn banani

1/2 mulin granola stöng

1 tsk hnetusmjör í skeiðina - sem ég að sjálfsögðu hræði saman við. Granola stöngin var æði með banana og smá hentusmjöri í hverjum bita. Mmm...

...þið leyfið bara hugmyndafluginu að njóta sín!

Þessum yndælis morgunverð lauk svo með mjög gómsætri plómu og tebolla.


Einfaldleiki

Stundum er matur bestur þegar notuð eruð fá hráefni. Þó góð hráefni. Þegar við vorum í Toscana sýndi það sig og sannaði trekk í trekk... pasta með smá olíu og kannski basil! Fullkomið!

Einfaldur grautur - hafrar, hveitikím, próteinBjó mér til 'gamaldags' graut í morgun. Sauð upp í 1,5 dl mjólk - 1 dl hafra, 2 tsk hveitikím og prótein að sjálfsögðu. Toppaði grautinn með jaðraberi og hunangi, sem ég sósaði, og setti smá heimagert hnetusmjör í skeiðina. Jarðaberið setti ég frosið inn í örbylgju þangað til það varð að mauki. Hrærði svo saman við það hunangi í restina.

Gamaldags er kannski ekki rétta orðið, það hefði líklegast þýtt grautur með smá salti, sykri og mjólk út á. En það er ágætt að bæta próteininu í grautinn, sérstaklega fyrir æfingu. Gamaldas þýðir frekar að ég notaði t.d. ekki kanill (herre gud), vanilludropa, krydd.. ávexti, grænmeti, skinku, hnetur....

Ohh hvað þessi skál var ákkúrat fín!

Hver vill koma með mér til Toscana? Langar svo til Ítalíu aftur, yndislegur staður!


Hornafjörður um helgina

Fast og slegið. Beint í sveitasæluna til tengdó, oh það er svo notalegt. Get ekki beðið. Ætla að vera mikil kreppukerling og útbúa nesti fyrir 10 tíma keyrsluna, fram og til baka, sem bíður okkar. Stoppa... hafa smá picnic, teygja úr fótum og passa vel upp á að fá ekki rasssæri! Skráði mig líka í Fit Pilates í dag. Hef aldrei prófað og hlakka mikið til að sjá hvernig það kemur út. Hef heyrt margar góðar sögur af þessum æfingum.

Hvað er annað í fréttum...

... fékk mér súkkulaði kanilsnúning í morgun. Hann var massafínn! Hrærði saman próteini, möndlum, hnetum, hörfræjum, kakódufti, kanil og soðnum graut - beint inn í örbylgju í 30 sek. Grauturinn stífnar svolítið upp og verður eins og kaka. Sem er gleðilegt. Sullaði aðeins meira af graut þar yfir og toppaði með múslíi. Nei... ekki fallegasti grautur sem til er - en gott var gumsið!

Kanil og súkkulaðigrautur með trefjamúslí

Grautnum fylgdu svo nokkrir bitar af granola stöngunum sem ég gerði í gær. Þær eru að slá í gegn, rosalega góðar.

Biti úr granola prótein stöng

Einhverntíman var ég nú búin að lýsa yfir ást minni á mötuneytinu í vinnunni. Þetta er ástæðan fyrir því...

Salatbar - Vinnubar

...og þetta! Svo ég tali nú ekki um skyrkælinn, kexskúffuna, ávextina og hrökkbrauðið! Ég elska skvísurnar í mötuneytinu!

Hádegismatur - Vinnumatur

Svona leit t.d. hádegismaturinn minn út í dag! Þetta gerist nú varla betra?

Kjúlli og grænmeti

Fékk mér svo mitt venjubundna viðbit. Prótein, eplabitar og kanill saman í bolla og hitað í örbylgju. Stráði svo nokkrum rúslum yfir til að fá eplakökufílínginn. Rest af epli smurt með skyri og kanil stráð yfir. Heldur manni assgoti góðum fram að kvöldmat! Ekki láta ljótmyndina skelka ykkur... þetta er gúmmulaði!

Semi prótein eplakaka ásamt kanilstráðum eplasneiðum

Nú er það bara út að skokka, beint í sturtu, sturta í mig "ég er að fara að sofa" próteini, góna smá á sjónvarpið og beinustu leið í rúmið.


Granola prótein stangir

Geri yfirleitt granola stangir til að eiga. Sem viðbit, eftirrétt, nart eða til að mylja yfir grauta og jógúrt. Gerði meiriháttar góðar stangir um daginn, prótein og eggjalausar. Stangirnar áttu svolítið til að molna, hefði líklegst þurft að setja meira hunang eða agave. Vildi því breyta smá til og sjá hvort próteinið og eggjahvíturnar gæfu skemmtilegri áferð á kostnað sykurs og olíu. Nánast sömu hráefni en 'bindiefnin' eru önnur.

Granola prótein stangir - 16 stangir +/-

Granola prótein stangir1 bolli hafrar

1 bolli puffed wheat

1/2 bolli sólblómafæ

1/3 bolli 5 korna blanda

1/3 bolli hörfræ

1/4 bolli graskersfræ

1/2 bolli heilar möndlur eða hnetubland

1/2 bolli skornar ferskar döðlur

4 smátt skornar fíkjur

nokkrar rúsínur

2 skeiðar hreint prótein 1/2 bolli. Má sleppa eða nota t.d. mjólkurduft.

1 msk 100% hnetusmjör, lífrænt. Ég notaði reyndar heimatilbúið. 

3 msk hunang

2 eggjahvítur

1 tappafylli vanilludropar

kanill eftir smekk

Blanda öllu mjög vel saman. Setja á bökunarpappír og í eldfast mót. Þrýsta blöndunni vel ofan í mótið og inn í 375 gráðu heitan ofn í 20 - 25 mínútur, eða þangað til brúnað í kanntana. Bíða eftir því að blandan kólni alveg og skera þá í bita. Mér þykir persónulega best að halda öllum fræjum, hnetum og krumsi heilu í staðinn fyrir að mylja það niður. Gefur skemmtilegri áferð í hvern bita og gerir stöngina mun girnilegri. Ef þið viljið stökkari stöng þá hafa gumsið lengur inn í ofni.

Granola prótein stangir

Frábærar! Finnur ekki fyrir próteininu á nokkurn hátt. Próteinið gerir áferðina karamellukennda og límir hráefnin skemmtilega saman. Stangirnar sjálfar eru ekki stökkar eins og hinar, heldur seigar og skemmtilegar að bíta í. Allt bragð af fræjum, hnetum og ávöxtum skilar sér fullkomlega. Rosalega fínar og vel heppnaðar. Ég er að sjálfsögðu rómaður hnetu- og fræ sjúklingur. Eeelska bragðið!

Granola prótein stangir

Niðurstaða: Jú, það er hægt að bæta próteindufti í granola stangir án þess að það hafi áhrif á bragð hráefnanna og án þess að bæta við meiri sætu í formi hunangs eða agave... ekkert nema jákvætt! Fullar af flóknum kolvetnum, hollum fitum, vítamínum, próteini og gleði!


Kvennahlaup, útskriftir og afmæli

Tek nú reyndar ekki þátt í kvennahlaupinu í dag vegna skorts á tíma. Ætlaði þó að sýna lit og bæta upp fyrir það með því að útbúa bleikan 'ís' í tilefni dagsins. Fór nú ekki betur er svo að spínatgr'ís'inn lét í sér heyra og bleikur ís vék fyrir grænum. Þvílík og slík staðfesta er fáheyrð! Um það bil sama formúla og um daginn, með smá breytingum. Ég hlakkaði svo mikið til að komast heim úr ræktinni og búa þetta til að ég hélt ég yrði ekki eldri. Bætti töluvert af múslí og flögum í þennan skammt. Gerði hann stærri en vanalega þar sem ég er að fara í útskriftarveislu á eftir og afmæli í kvöld. Kem því ekki til með að fá mér hádegismat per se. Fæ mér eitthvað smotterí um tvö leitið og flýti kvöldmat til kl. 5. Jújú, koma matnum fyrir!

Grænt bjútí fyrir tvo svanga kroppa innihélt í dag:  200 gr. af hreinu skyri, 2 skeiðar hreint prótein, 1 frosinn banana, 5 frosin jarðaber, 100 ml. Undanrennu, 3 msk hörfræ, nokkra klaka og 100 gr. spínat. Hrærði saman í matvinnsluvél og byrjaði að púsla saman morgunmatnum. Fyrst smá múslí í botninn á skálinni. Hér er ég farin að hlakka mikið til þess að dýfa mér ofan í matinn!

Morgunmatnum púslað saman.

Svo ís yfir, þarnæst quinoa flögur og meiri ís. Aðeins meira múslí...

Morgunmatnum púslað saman - alveg að verða tilbúinn

...og restin af ísnum. JÍHAA! Toppað með bláberjum, 1/2 niðurskornum banana, möndlum, múslí og létt AB-mjólk. Flott skál! Hér er ég alveg að komast í það að geta byrjað að borða.

Banana og spínat, prótein ís með frosnum jarðaberjum, bláberjum og quinoa fögum

Þið getið ekki ímyndað ykkur hvað það er erfitt að byrja ekki að háma í sig um leið og maturinn er til - heldur taka nokkrar myndir af gúmmulaðinu fyst. Sérstklega þegar hungrið er farið að segja til sín! Shocking

Banana og spínat, prótein ís með frosnum jarðaberjum, bláberjum og quinoa fögum

Skálin var svo full að það flæddi næstum út fyrir! Græðgislegt, ég veit en... Nohm! Þetta var svo gott! Áferðin 'per-a-fecto'! Ísinn þéttur í sér en samt mjúkur. Sérstaklega gleðilegt fyrir mig að bíta í múslí og quinoa flögur þegar leið á átið. Crunchið faldi sig í mörgum lögum alla leið niður á botn. Þið verðið að prófa!

Þá er ég búin að fá grænmeti fyrir hádegi ásamt öllum vítamínum sem því fylgir. Andoxunarefni og vítamín úr berjunum, vítamín úr ávöxtunum, holla fitu úr möndlum og hörfæjum, flókin kolvetni, tefjar og smá prótein úr múslímixinu ásamt próteini úr skyri og.. jah, próteindufti! Þetta gerist bara ekki betra!


Banana og hafra pönnukaka

Yndislegt veður!!

Langaði í pönnsu í morgunmat. Langaði líka í hafra og jú, er á leiðinni í ræktina eftir klukkutíma tæpan. Breytti því aðeins uppskriftinni í takt við það, en set samt báðar hingað inn.

Banana og hafra pönnukaka - fyrir einn svangan maga

Banana og hafra prótein pannsaÞað sem ég gerði:

15 gr hafrar, rúmlega 1/2 dl.

1/3 stappaður banani

1/3 skammtur hreint prótein

2 eggjahvítur

1 tsk hnetusmjör

Það sem ég hefði gert:

1/2 bolli hafrar

Heill stappaður banani

2 eggjahvítur

1 tsk hnetusmjör

Hræra saman og voila! Steikja á heitri pönnu báðum megin þangað til pönnukakan er elduð í gegn. Ég steiki mínar yfirleit stutt því þá verða þær ofurmjúkar. Sérstaklega ef ég nota prótein því það gerir pönnsuna þurrari en ella. Ef þið notið prótein, setjið þá meira af banana eða eggjum. Jafnvel AB-mjólk. Fullkomið! Ekki hafa áhyggjur samt sem áður, þetta smakkast ekki eins og eggjakaka. Rosalega gott og skemmtilegt. Hægt að setja hvað sem er ofan á. 'Stappa banana, smyrja yfir með hnetusmjöri og sultu', 'skinka, ostur og egg','hnetusmjör og múslí','prótein-skyrblanda og múslí', 'jarðaber og banani','hunang og kanill'....

Banana og hafra prótein pannsa

...farin að rækta mig og pína hinn helminginn í leiðinni! Ahh, gott að byrja daginn á góðu veðri, heitri pönnsu og svakalegum lyftingum!

Banana og hafra prótein pannsa


Það er alltaf föstudagur

Finnst ykkur það ekki? Tíminn líður eins og honum sé borgað fyrir það. Um leið og vinnu líkur á föstudegi kemur laugardagur, þarnæst mánudagur og svo áður en þú veist af er föstudagur genginn í garð á nýjan leik. Mjög ruglingslegt að fá frídag í miðri viku. Ég er búin að vera með föstudagsfílínginn í stóru tánni í allan dag og bjóða góða helgi í þónokkuð mörg skipti. Þar af leiðandi gladdi það mig mjög þegar ég komst að því að það var grautur í vinnunni í morgun en ekki brauð - eins og er alltaf á föstudögum.

Múslígrautur með banana Agave skyrdrykk

Múslígrautur með banana Agave skyrdrykkHrært saman og hitað í örbylgju: 

1/3 bolli soðinn grautur

1 skammtur hreint prótein

3/4 stappaður banani

1 msk hörfræ

1 tsk heimagert hnetusmjör

kanill

Hafragrautsskraut:

Skvetta Agave skyr. Má nota hvað sem er svosum. venjulegt skyr, AB-mjólk... og trefjamúslí.

Gott mál, glaður magi!

Prófaði líka nýtt mix nýtt í dag. Að minnsta kosti nýtt fyrir mér. Hráefni síðdegisbitans samanstóðu af einu litlu epli og hreinu próteini. Var samt að leita mér að einhverju heitu til að bíta í. Blandaði því próteinið mitt út í smá vatn, frekar þykkt. Skar eplið smátt og stappaði niður 1/4 hlut úr banana. Bætti banananum út í próteinið ásamt slatta af kanil og hrærði vel saman. Loks hrærði ég eplabitana út í og skellti inn í örbylgju í 30 sek.

Prótein, stappaður banani, kanill og epli í örbylgjuna

NAMM - fílaði þetta í botn! Eins og heit eplakaka. Eplin urðu "Al Dente" ef svo má að orði komast. Svolítið mússí, heit en crunchy í miðjunni. Alveg frábært. Myndirnar svolítið subbó, afsakið það. Snyrtipinninn ég er ekki færari bland-mæster en svo þegar blöndunartækin eru lítill bolli og skeið!

Heit maukuð epli í banana, kanil próteinblandi.

Lét svo loks verða af því að kaupa bæði rándýran ís og fillet sem ég hef verið að forvitnast um. Afurðir sem sérstaklega eru ætlaðar fyrir grænmetisætur - "vegan" matarræði. Sykurlaus soja ís og fillet. Ég er yfirleitt skeptísk á allt sojatengt en er mjög forvitin því ísinn, svo ég taki sem dæmi, telur ekki nema 171 hitaeiningar fyrir hver 100 gr. af ís. Þar af eru 2,3 gr. prótein, 0,77 gr. fita og 17 gr. kolvetni. Ekki slæmt það! Ætla að prófa þetta tvennt á morgun. Verður gaman að sjá hvort þetta geri það sem það á að gera! Ef prufudýrin virka vel, þá gæti þetta verið sniðug leið til að hrista aðeins upp í matarræðinu!

Prufudýr - vörur fyrir grænmetisætur.


Síðdegisviðbitið og nýtt dót

Yfirleitt fæ ég mér próteinshake, grænt monster eða skyr/jógúrt í síðdegiskaffi og ávöxt -"síðdegisviðbitið". Ég hlakka alltaf til þessa tíma dags, sérstaklega þegar ég veit að ég fæ að bíta í íískalt brakandi epli eða mjúkt, safaríkt mango. Það eru sumsé uppáhalds síðdegisávextirnir mínir að meðtöldum ýmsum gestaávöxtum sem smokra sér inn á milli af og til. Stundum blanda ég ávöxtunum í shake-inn, stundum blanda ég shake-inn sér og nýt þess að borða ávöxtinn og stundum, þegar gúmmulaðiálfurinn sparkar í rassgatið á mér, læðist ég niður í mötuneyti og ræni mér handfylli af múslí. Hohooo... múslíinu blanda ég í próteinið mitt eða skyrið...

Prótein með trefjamúslí

...sker ávöxtinn niður...

Prótein með trefjamúslí og niðurskorið epli

...og skófla múslíblandinu upp með ávextinum. Það er, ef ávöxturinn leyfir það. Væri töluvert erfiðara að eiga við þetta með t.d. bláberjum - en þið megið reyna.

Prótein með trefjamúslí á eplaskeið!

Þetta þykir mér sérstaklega gleðileg leið til að borða viðbitið mitt og góð tilbreyting. Svo er að sjálfsögðu alltaf gott að skera ávöxtinn í litla bita og hræra saman við próteinið. Létt og gott, heldur manni ansi góðum fram að kvöldmat. Það er líka miklu skemmtilegra að borða t.d. prótein og epli saman en í sitthvoru lagi. Munið þið... ís og nóakropp! Fullkomin blanda.

Annars kom móðir mín kær í óvænta heimsókn í vikunni og gaf mér.. já, gaf mér nýtt dót!

Nýja ofurdótið

Ótrúlega fínt!! Milljón rifjárn og gleðilegheit sem sniðugt er að nota. Get ekki beðið með að nýta þetta í næstu máltíð... næstu máltíðir! Mamma er svo yndislega fín, algerlega best í heimi!


Tvíþætt hafragrautsveisla

Af því að það er nú sunnudagur þá ákvað ég að ganga aðeins yfir hafragrautsstrikið og leika mér svolítið. Þar sem ég átti afgangs hráskinku og melónu síðan í gær, nýtti ég mér tækifærið. Ég er nokkuð viss um að margir taki andköf og hugsi með sér hvað verið sé að bruðla með úrvals hráefni í eina grautarskál - en þetta var mjög gott og trúið mér, þetta er ekki daglegt brauð á mínu heimili! Þó það væri að sjálfsögðu ekkert slor!

Þar sem ég var búin að ákveða hráefni í graut fyrir hinn helminginn þá vildi ég gera sætari graut handa sjálfri mér. Endaði að sjálfsögðu á því að við borðuðum grautana í mikilli sameiningu.

En getið þið nú bara hvað ungfrúin frékk sér!! Hafragrauts Splitt! Ójá!

Hafragrautur ríka mannsins

Grautur með hráskinku, döðlum, camembert og cantaloupe melónuSjóða saman:

1/3 bolli grófir hafrar

1/3 bolli kotasæla

2/3 bollar vatn

Nokkrir bitar cantaloupe melóna

2 niðurskornar ferskar döðlur

Nokkrir möndlubitar

Smá bútur af hráskinku. Kannski 1 msk

Hafragrautsskraut:

Einni sneið niðurskornum Camembert raðað fagmannlega yfir heitan grautinn svo hann nái að bráðna. Nokkrar þunnar sneiðar af Cantaloupe melónunni lagðar yfir ost og graut og restin af hráskinkusneiðinni ofan á melónuna. Þarnæst er niðurskorinni ferskri döðlu komið fyrir, bæði á hráskinkunni og yfir grautinn. Loks er meistaraverkið toppað með hunangsdreitli.

Grautur með hráskinku, döðlum, camembert og cantaloupe melónu

Rosalega skemmtilegur þessi. Hráskinkubitinn sem soðinn var með gefur mjög gott bragð í grautinn sem vinnur vel með sætunni í döðlunum og melónunni. Kotasælan gerir áferðina mjúka og rjómakennda og einstaka sinnum bítur maður í möndlu. Algerlega geggjað. Það er líka æðislegt að fá bragðið af ostinum með í spilið. Kemur flott út!

Hafragrauts Splitt fyrir undirritaða

Hafragrauts SplittSjóða saman:

1/3 bolli grófir hafrar

1 skeið hreint prótein

1 tappafylli vanilludropar

1 msk hörfræ

1/3 bolli Undanrenna

1/3 bolli vatn

Hafragrautsskraut:

1 banani, skorin langsum og lagður á disk. Grautnum er þarnæst hellt á milli banana-helminganna og yfir þetta er stráð 1 tsk dökku súkkulaði, 1 msk hnetusmjöri og 1 tsk sykurlausri sult. Ég notaði hnetusmjör sem ég bjó til í gær. Þarnæst er jarðaberjum og hindberjum dreift yfir grautinn. Dropa af skyri er vandlega komið fyrir í miðju grautsins og herlegheitin toppuð með uppáhalds múslíinu.

Hafragrauts Splitt

Hversu ógeðslega skemmtilegt er að borða þetta? Tala nú ekki um gleðina sem fylgir því að fá bráðið súkkulaði í morgunmat. Mmhmm!

Hafragrauts Splitt og Hafragrautur ríka mannsins

Þó svo sætir grautar séu að sjálfsögðu góðir, þá er alveg jafn frábært að fá sér grauta sem eru hinum megin við strikið. Hafrarnir bjóða svo vel upp á það!

Góðir grautar á góðum degi!


Hafrakaka að morgni

Ég veit ekki hvað skal kalla þetta. Þetta er í raun ekkert annað en hafragrautur, nær því að vera næturgrautur, sem búið er að fletja út á disk! En þar sem það er kökulag á þessari annars bragðgóðu klessu af höfrum og gumsi, þá skal gjörningurinn kaka kallast. Hrákaka jafnvel?!? Ekkert nýtt í þessum heimi svosem, bara enn ein leið til að borða hafragraut á morgnana. Skemmtileg leið líka. Grauturinn verður ekki nærri jafn mjúkur og næturgrautur nú eða venjulegur hafragrautur. Nokkuð þéttur eftir veru í ísskápnum enda lítill sem enginn vökvi í þessu. Athugið samt að 'kakan' er ekki hörð og ég borða þessa snilld yfirleitt alltaf með skeið. Mjög skemmtileg áferð og mjöög gott á bragðið að sjálfsögðu.

Hafrakaka með skyr-próteinblandi, ávöxtum og hnetumKöld hafrakaka

Þurrt:

1/3 bolli hafrar, eða uppáhalds múslí t.d.

1/2 skeið hreint prótein

1 msk hörfræ

kanill

smá hnetusmjör

Blautt:

1 msk mjólk. Ég notaði undanrennu.

1/2 vel þroskaður og stappaður banani

vanilludropar

Hafra-köku-skraut:

Jarðaber, bláber, banani, skyr-prótein blanda og muldar möndlur og valhnetur.

Hræra hnetusmjörinu saman við þurrefnin þangað til það hefur blandast nokkuð vel við. Þar á eftir hræra blautu vel saman við þurrt, setja grautinn á disk, móta köku og inn í ísskáp yfir nóttina.

Hafrakaka - þarf ekki að baka

Ég hrærði 1/2 skeið af hreinu próteini saman við 100 gr. af skyri og smurði yfir kökuna á mjög virðulegan hátt. Raðaði svo yfir þetta jarðaberjum, bláberjum og restinni af banananum. Draup yfir ávextina smá hunangi og muldi valhnetur og möndlur yfir allt heila klabbið í restina. Nahmmm!

Hafrakaka með skyr-próteinblandi, ávöxtum og hnetum

Svo er að sjálfsögðu hægt að leika sér með þetta og bæta hnetum í 'grunninn', döðlum, hunangi, kryddum, í raun hverju sem þér dettur í hug. Sama gildir um toppskrautið. Alveg magnað hvað litlir hlutir og fjölbreytileiki geta glatt hamingjusamt matargat!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband