Hafrakaka að morgni

Ég veit ekki hvað skal kalla þetta. Þetta er í raun ekkert annað en hafragrautur, nær því að vera næturgrautur, sem búið er að fletja út á disk! En þar sem það er kökulag á þessari annars bragðgóðu klessu af höfrum og gumsi, þá skal gjörningurinn kaka kallast. Hrákaka jafnvel?!? Ekkert nýtt í þessum heimi svosem, bara enn ein leið til að borða hafragraut á morgnana. Skemmtileg leið líka. Grauturinn verður ekki nærri jafn mjúkur og næturgrautur nú eða venjulegur hafragrautur. Nokkuð þéttur eftir veru í ísskápnum enda lítill sem enginn vökvi í þessu. Athugið samt að 'kakan' er ekki hörð og ég borða þessa snilld yfirleitt alltaf með skeið. Mjög skemmtileg áferð og mjöög gott á bragðið að sjálfsögðu.

Hafrakaka með skyr-próteinblandi, ávöxtum og hnetumKöld hafrakaka

Þurrt:

1/3 bolli hafrar, eða uppáhalds múslí t.d.

1/2 skeið hreint prótein

1 msk hörfræ

kanill

smá hnetusmjör

Blautt:

1 msk mjólk. Ég notaði undanrennu.

1/2 vel þroskaður og stappaður banani

vanilludropar

Hafra-köku-skraut:

Jarðaber, bláber, banani, skyr-prótein blanda og muldar möndlur og valhnetur.

Hræra hnetusmjörinu saman við þurrefnin þangað til það hefur blandast nokkuð vel við. Þar á eftir hræra blautu vel saman við þurrt, setja grautinn á disk, móta köku og inn í ísskáp yfir nóttina.

Hafrakaka - þarf ekki að baka

Ég hrærði 1/2 skeið af hreinu próteini saman við 100 gr. af skyri og smurði yfir kökuna á mjög virðulegan hátt. Raðaði svo yfir þetta jarðaberjum, bláberjum og restinni af banananum. Draup yfir ávextina smá hunangi og muldi valhnetur og möndlur yfir allt heila klabbið í restina. Nahmmm!

Hafrakaka með skyr-próteinblandi, ávöxtum og hnetum

Svo er að sjálfsögðu hægt að leika sér með þetta og bæta hnetum í 'grunninn', döðlum, hunangi, kryddum, í raun hverju sem þér dettur í hug. Sama gildir um toppskrautið. Alveg magnað hvað litlir hlutir og fjölbreytileiki geta glatt hamingjusamt matargat!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég borðaði múslígrautinn þinn í morgunmat, algjört æði Þessa köku ætla ég að fá mér á morgun, vá hvað hún er girnileg. Það er svo frábært að borða morgunmat eftir að ég fann síðuna þína, reyndar kann ég ekkert á prótín þannig að ég hef sleppt því.

Takk fyrir mig! nú er bara gaman að breyta um lífstíl

Elísa (IP-tala skráð) 13.6.2009 kl. 12:49

2 Smámynd: Elín Helga Egilsdóttir

Sæl Elísa, takk kærlega fyrir innlitið og bestu þakkir fyrir mig

Ég er geypilega kát með að þú hafir fundið eitthvað sniðugt fyrir sjálfa þig hérna á síðunni og þó sérsaklega að þú látir á reyna, þó það vanti t.d. eitthvað eins og prótínið, sem má líka alveg sleppa. Gætir t.d. stappað banana og hrært saman við skyr eða gríska jógúrt og smurt það á kökuna. Strá svo yfir með múslí... rooosalegt namm! 

Elín Helga Egilsdóttir, 13.6.2009 kl. 13:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband