Færsluflokkur: Prótein

Múslígrautur og ber

Morgunmatur - betra seint en aldrei.

Vinnugrauta malla ég yfirleitt alltaf í örbylgjunni. Það er svo gott þegar búið er að stappa bananann við grautinn og hræra próteinið út í að skella öllu inn í örbylgju í smá stund. Þá stífnar blandan svolítið upp og verður skemmtilegri að borða. Múslíið fæ ég yfirleitt hérna í vinnunni en stundum á ég það til að grípa með mér smá extra skraut að heiman, ef ég er í miklu græðgiskasti þann daginn. Þessi skál var frábær!

Múslígrautur og berInn í örbylgju, 35 sek:

1 skeið hreint prótein

1/3 bolli soðinn grautur

1/2 stappaður banani

kanill

Hafragrautsskraut:

4 jarðaber, sneidd og skorin

nokkur bláber

5 möndlur

1 msk hörfræ

Quinoa "Keen-wa" flögur

Trefjamúslí

Já, þetta var góð skál af höfrum og fullkomið start á deginum.  Ég elska að hafa múslí í grautunum mínum. Crunch í hverjum bita. Sérstaklega skemmtilegt þegar ég bít í möndlu þar sem ég set þær heilar út á grautinn. Berin gefa skemmtilega súrt bragð á móti kanilnum á meðan bananinn fluffar og sætar allt upp.

Múslígrautur og ber

Með þessu fékk ég mér hvorki meira né minna en Womans Energy yogi te í þar til gerðum jólabolla. Ég er ekki mikil tekerling, en drekk endalaust af þessari tegund!

 Womans Energy Yoga te

Svolítið jóló stemmari svona í byrjun sumars!

 Múslíhafrar, ber, te og jólastemmari að sumri til

Mikil hafragrautsvísindi í byrjun dags, og mikil dramatík yfir einni grautarskál. En svona er þetta, grauturinn er bara svo góður!


Hunangs hnetu hafragrautur

Hunangs hnetu hafragraturuHnetur eru góðar - tékk!

Hunang er gott - tékk!

Hafragrautur er góður - double tékk!

Hnetusmjör er gott - tékk!

Rúsínur eru góðar - amk á þessum bæ - tékk!

Kanill er góður - téhékk!

Vanilla í flestöllu formi - tékk!

Skellum þessu saman og þá fáum við yndislega fínan morgunmat, mjög bragðgott og skemmtilegt að borða! Hnetusmjör og hafragrautur er að sjálfsögðu heilög tvenna, klikkar aldrei.

Hunangs hnetu hafragrautur

Sjóða saman:

1 dl grófa hafra

1 skeið hreint prótein (má sleppa)

1/2 stappaðan banana

vanilludropa

kanil

1,5 dl vatn

Smá hveitikím og hörfræ. Hörfræin halda manni svakalega góðum, hvort sem er í shake eða graut.

Hafragrautsskraut:

4 muldar möndlur, 2 valhnetur, tæplega 1 tsk hunang, nokkrar rúslur og 1 tsk hnetusmjör. 

Mmm.. hnetusmjörið og hunangið bráðnar yfir grautinn. Hneturnar góðar á bragðið, gefa skemmtilegt kikk í hvern bita og rúsínurnar með sem gleðigjafar!

Góðir hlutir að gerast í þessari skál af höfrum mín kæru!


Hafragrautur yfir nótt

Ég geri þetta stundum ef ég veit að tíminn er naumur á morgnana og ég veit í mínu gráðuga hjarta að mig langar í graut. Þetta er líka ágætis tilbreyting frá venjubundnu grautarmalli.

Maður tekur hafrana sína, grófa eða fína, jafnvel eitthvað múslí eða morgnunkorn og setur í skál. Ef þér er sama að múslíið eða morgunkornið verði mjúkt, það er að segja. Svo má bara leika sér með restina. Bæta í blönduna kanil, hnetum, ávöxtum, próteini... Bleyta upp í þessu með vatni eða mjólk og henda inn í ísskáp yfir nóttina. Um morguninn hefur gumsið drukkið allan vökvann í sig og til verður ískaldur og frískandi hafragrautur sem hægt er að gúlla í sig á nó tæm! Enginn sem bannar það að henda gumsinu inn í örbylgjuna ef þið viljið grautinn heitan. Verður reyndar mýkri, eða meira mússí, eftir ískápsveru heldur en pottamall, mér þykir það ekki verra. Hann er ekkert síðri svona kaldur.

Klassískur banana og prótein grautur

Grautur yfir nótt - kaldur20 gr. grófir hafrar eða trölla hafrar

20 gr. sólskynsmúslí (uppáhalds múslíið mitt)

20 gr. crunchy hnetumúslí

1/4 stappaður banani

kanill

vanilludropar

1,5 dl mjólk

1 skammtur hreint prótein

Þessu hrærði ég saman, kom fallega fyrir inn í ísskap og muldi loks yfir þetta 1/2 granola stöng sem ég bjó til um daginn. 

Ísí písí fráránlega flott! Ætli það sé eðlilegt að hlakka til þess að vakna á morgnana til að geta fengið sér hafragraut í morgunmat?


Grænir dagar - grænir grautar

Gat bara ekki stillt mig! Búin að vera óviðræðuhæf síðan í gær, hugsandi um græna ofurgrautinn og í dag varð hann að veruleika. Mér til mikillar hamingju og gleði að sjálfsögðu! Ég hef nefnt þennan graut því frábærlega nafni Shrek, eða Skrekkur, á góðri íslensku. Hugmyndarflugið svakalegt á þessum annars ágæta sunnudegi. Vonandi verður mér ekki stefnt af Dream Works. Þau hljóta að fyrirgefa mér þegar þau sjá þessa snilld!

Ef þið hafið betri hugmynd að nafni, því ég ætla svo sannarlega að nefna kvikindið, endilega leyfa mér að heyra!

Einn Skrekk takk!

Bananagrautur með spínatiSjóða saman

1 dl hafra

1 skammt prótein, ég notaði banana M&M

1/4 banani

1,5 dl vatn

Blender

Hafragrautsmallið

Rúmlega lúka af fersku spínati

Hafragrautsskraut

1/4 niðurskorin banani, smá múslí og dreitill létt AB-mjólk.

Eins og með drykkinn í gær þá var ekkert bragð af spínatinu og grænmetið komið í skrokkinn án nokkurrar fyrirhafnar. Snilld að gefa krökkum svona, grænt monster, í morgunmat. Ég er alveg að fíla þennan lit í botn. Þarf svo lítið til að gera mig glaða.

Bananagrautur með spínati, grænn eins og grasið

Með próteininu kostaði þessi máltíð mig rúmlega 370 hitaeiningar. Án próteins, 170 hitaeiningar og með hreinu próteini um það bil 270. Meiriháttar!

Bananagrautur með spínati


Allt er vænt sem vel er grænt

Grænt monster!

Hef lengi viljað prófa að búa þetta til og lét loks verða af því í dag. Varð ekki fyrir vonbrigðum! Ekkert nema jákvætt og rosalega bragðgott! Kom mér skemmtilega á óvart. Manni líður líka svo vel eftir að hafa gúllað þessu í sig, prótein, ávextir, grænmeti - allt undir sama hatti! Svo er spínat svo gott sem laust við hitaeiningar, ef þú ert í þeim gírnum. 30 grömm spínat = 7 hitaeiningar og milljón vítamín. Hollt, hollt, hollt. Drykkurinn er líka æðislegur á litinn!

Banana og spínat prótein drykkur - fyrir 2

Banana og spínat prótein drykkur - geggjaðMorgun-/hádegis- eða kvöldmatur

2 frosnir bananar

2 skammtar prótein, ég notaði banana muscle milk. Má sleppa.

1 bolli ísköld undanrenna/fjörmjólk/sojamjólk...

1 bolli ískalt vatn

Slatti af fersku spínati. Rúmlega tvær lúkur.

Mætti bæta við höfrum, hörfræjum, hnetum, hnetusmjöri....

Þessi verður töluvert þykkari en sá sem ég fékk mér áðan, ef þið fílið ekki svleiðis bara bæta við meiri vökva.

Viðbit

1 frosinn banani

1 (eða 2) skammtur prótein, má sleppa

1 bolli ísköld fjörmjólk/undanrenna/sojamjólk...

1 bolli ískalt vatn

Slatti af fersku spínati. Rúmlega tvær lúkur.

Allt saman í blender og blanda eins og þú eigir lífið að leysa. Mætti setja í þetta klaka, ég sleppti því af því að bananinn var frosinn. Kom skemmtilega út, bragðgott og ekki minnsta bragð af spínati. Kom kannski smá, pínkulítill keimur, ég veit ekki - ég rembdist eins og rjúpan við að reyna að finna fyrir spínatinu en allt kom fyrir ekki. Þetta er æði og þessu ætla ég pottþétt að koma inn í matardagskrána mína. Hversu mikil snilld er það að fá grænmetisskammt í vökvaformi með bananabragði? Spínatið hentar líka svo vel í mall sem þetta því það er tiltölulega hlutlaust á bragðið. Gleði...

Banana og spínat prótein drykkur - geggjað

... ég sé grænan hafragraut í minni nánustu framtíð!


Hafragrautur með peru, eplum, valhnetum og kókos.

Ahh, venjubundin matardagskrá! Einstaklega ljúffengur morgunmatur og skrokkurinn heldur hamingjusamari en um helgina. Byrjaði daginn, enn einn sólardaginn, á skokki í Garðabænum. Mjög upplífgandi og æðislegt. Allir sem hafa kost á að vera úti eru úti, hjólandi, hlaupandi, labbandi, hlæjandi!

Það er æðislegt þegar sólin lætur sjá sig á Íslandinu, verða allir svo kátir í hjartanu!

Hafragrautur með eplum, peru og valhnetum

Sjóða saman:

1 dl hafrar

1 skammtur prótein (ég notaði banana M&M - NOM)

1/4 stappaður banani

1/2 pera, smátt skorin

1/2 epli, smátt skorið

Gomma af valhnetum 

smá kanill

smá vanilludropar

Hafragrautsskraut: 

Kókos og múslí 

Hnetusmjör í skeiðina 

 

Mikið er nú almennilegt að borða almennilegan mat.

Eigið góðan dag elsku fólk, njótið hans í botn og njótið þess að vera til! 


Nammiskápar á öllum vígstöðvum!

Ég hélt ég myndi nú ekki hafa það af í hamaganginum í morgun. Tók rassavélina svoleiðis í bakaríið að undirritið var eins og fullþroskuð plóma á sumardegi í framan! En það er bara flott, það er æðislegt að byrja daginn á smá púli. Ekkert sem mér þykir verra en að vakna "5 mínútur" í vinnu með koddakrumpur í andlitinu og sængina girta ofan í brók! (ekki spyrja hvernig það gerist)

Þið sem ekki þekkið til þá er rassavélin alræmda kölluð "Stigvél" á mannamáli! Ég er búin að djöflast svoleiðs á þessu tæki síðastliðna 6 mánuði - ég er nokkuð viss um að ef ég væri í raun að ganga upp stiga, þá væri ég komin langleiðina út fyrir lofthjúpinn! Ekki slæmt það!

Byrjaði daginn á ljúffengu, æðislega ísköldu og brakandi epli. Mikið geta epli verið góð þegar þau eru góð! Gekk svo galvösk að hafragrautspottinum í vinnunni og bætti smá graut í próteinið mitt ásamt crunchy-hunangsristuðu rúslumúslí! Mikil snilld sem það er!

Prótein, smá grautur og múslí - nam

Komst að því í leiðinni hversu mikil hamingja það er að geta borðað þessa blöndu beint upp úr bolla.

Hafragratursbollinn góði

Nammiskápurinn í vinnunni er ekki alveg jafn yndislega ljúffengur og skemmtilegur og sá sem ég á heima. Vinnugumsið samanstendur einungis af próteini, M&M, og nokkrum próteinsúkkulaðistykkjum. Þar með töldu þessu, sem er blanda af súkkulaði, mjúkri karamellu og karamellu ís-kenndri miðju. Ofboðslega hræðilega gott! Svo sætt að maður fær spékoppa á rasskinnarnar en ég fæ bara ekki nóg! Sykurdýrið hið innra ræður í þessum efnum!

Muscle Mikla mjólkursúkkulaði karamellusprengja

Ég borða samt ekki mikið af svona súkkulaðigumsi, en á það til að bíta í eitt og eitt þegar súkkulaðiguðinn kallar! Fyrir þá sem geta gúllað í sig próteini, ég meðtalin, þá er mikil snilld að eiga svona milli mála. Sérstaklega þegar skyr.is er komið á "Ohg... ég get ekki borðað þetta" listann! Svo er Muscle Milk próteinið bara svo gott á bragðið - eins og ís! Sem gleður mitt ísgráðuga hjarta mikið!

Nammiskápurinn í vinnunni - Muscle Milk heaven

En ekki misskilja - það er nákvæmlega ekkert betra en matur. Alvöru matur sem er gott og gleðilegt að bíta í og borða! Hjartað í mér myndi krumpast saman eins og álpappír ef ég þyrfti að broða próteinduft allan daginn, en það er ágætis tilbreyting og fljótlegt "snakk". Ég mæli því hiklaust með að eiga svona falið upp í skáp til að grípa í. Og jújú, það er einn staur í nammiskúffunni - þeir sem finna hann fá eitt hrós!

Svo er barasta einn dagur í laugardaginn og hamborgarann góða. Einn dagur í tveggja vikna sumarfrí og einn dagur þangað til ég get eytt eins miklum tíma í að búa mér til eitthvað gómsætt á hverjum degi eins og ég vil!


Súkkulaðihafrar með hvítum súkkulaðibitum, banana og jarðaberjum

Eins og að bíta í súkkulaðiköku!

Í þetta sinn ákvað ég að vera góð við sjálfa mig og hafa með hvítt súkkulaði... hvað er betra en bráðið súkkulaði snemma á morgnana? Vinnugrautur með meiru sem þýðir engir hafraskúlptúrar fyrir myndatöku - mjög súrrealískt alltsaman. Enda er þessi blessaða mynd ekkert til að hrópa húrra yfir. En grauturinn var góður, trúið mér!

Gaman saman í ofur örbylgjunni:Súkkulaðihafrar með hvítum súkkulaðibitum, banana og jarðaberjum

Hafragrautur, tilbúinn

Prótein (má sleppa)

1 msk kakóduft

Hafragrauts skraut:

1/2 banani, niðurskorinn

2 niðurskorin jarðaber

Nokkrir bitar af hvítu uuundursamlega ljúffengu súkkulaði

Múslí og kókos

Annars er mikil át-fiesta framundan. Laugardagurinn, júróf visjón dagurinn sjálfur, mun verða lengi í manna minnum sem át-dagur Elínar! Mitt eina og sanna markmið er að velta út úr uppeldisstöðvunum með bros á vör. Hún móðir mín serstaklega frábæra ætlar að elda ofan í ungviðið stærstu hamborgara sem ég hef á ævi minni litið; Hambó A-La Mamma getur.. það bara getur ekki klikkað! Mikið hlakka ég til!!

Ég geri því ráð fyrir að um helgina verði mikið dansað, sungið, hlegið, borðað, tekið mynd af því sem er borðað og bloggað! Þó aðallega borðað og hlegið... óskaplega er maður nú góðu vanur!

Stay tuned elsku fólkið mitt - laugardagurinn verður epískur!


Ís fyrir svefninn

Já, þið lásuð rétt. Ís... alvöru, alvöru ís!

Ég keypti mér ísvél - hún lítur svona út!

Nýjasta undur og stórmerki í eldhúsi Elínar 

Í blender setti ég 1 dl vatn, 1 dl undanrennu og 1 skammt af próteini. Blandan var næfurþunn.

Blanda hráefnum saman í blendar áður en hellt er í ísvélina 

Ég hellti blöndunni í ísvélina

Próteinís rétt fyrir svefninn 

Fyrst leit hún svona út...

Próteinís - vatn, undanrenna, prótein í ísvél 

...svo leit hún svona út - léleg mynd engu að síður....

Ísinn alveg að verða til - komin ís  

... ó gott fólk... VOILA, MUAHAHHHAAAA... IT'S ALIVE! ÍS!

Fulkomin áferð, æðislegur ís - prótein, undanrenna, vatn 

Hellti yfir þetta hnetusmjöri og krumsi!

Æðislegt fyrir svefn nasl! Góð tilbreyting! Prótein-ís! 

Áferðin alveg eins og á "ekta" ísvélar búðarís! Ég segi ykkur satt! Þetta er æðislegt! 

Ég á eftir að nota þetta tæki svo mikið! Hugsið ykkur allt sem er hægt að búa til með þessari snilld. Allir ávextir heimsins - jógúrtís, kókoshnetuís, banana og jarðaberjaís, súkkulaðiís, skyrís, hnetusmjörsís, ís með kökudeigi, múslí, próteini.... HÖFRUM - svo margir möguleikar og allir samviskulausir!

Prótein ís með hnetusmjöri - gott fyrir svefninn! 

Nú get ég dáið hamingjusöm! 


Vinnugrautur - vinnumatur

Grauturinn lengi lifi.

Vinnan mín bíður upp á hafragraut alla virka daga nema á föstudögum. Mér líkar það vel, heppin heppin ég. Föstudagar eru brauð og áleggsdagar svo ég ákvað því að koma með mitt eigið hafragrautsmall í vinnuna í dag. Engin flottheit svosum en góðheit engu að síður.

Soðið saman í herra Örra (örbylgjunni)Eðal vinnugrautur - prótein, hafrar, banani og múslí

1 dl hafrar

1 skeið hreint prótein

1/2 stappaður banani

kanillinn góði

1,5 - 2 dl vatn

Haft í og með

1/2 niðurskorinn banani, múslí og dust af kanil.

Það er ágætt, þegar maður mallar hafra í örbylgjunni, að taka grautinn út og hræra í honum af og til svo hann stífni ekki upp. Sérstaklega þegar maður hefur próteinduft í honum. Það tekur um 1,5 - 2 mínútur fyrir hafrana að drekka í sig vatnið og fyrir grautinn að þykkna. Ohh hvað þetta var nú góð skál í einfaldleika sínum!

Annars er mötuneytið í vinnunni minni frábærlega fínt. Æðislegur salatbar, heitur matur í hádeginu og ávextir og skyr í tonnatali! Kjúlli í dag - enn og aftur, hamingjusamt er átvagl með fullan maga!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband