Færsluflokkur: Uppáhalds
2.9.2009 | 18:36
Risarækjur í hunangs-chilli kryddlegi
Rækjur eru svo góðar! Nú virðist rækjutímabilið, í mínu matarræði, vera gengið í garð! Búin að fara í gegnum kjúlla og lax á síðustu vikum. Gaman að þessu!
Hunangs-chilli kryddlögur
- 1 tsk, rúmlega, hunang
- 1 msk chilli krydd
- 1/4 tsk gróft salt
- 1/2 tsk cumin
- 1/2 tsk koriander
- 1/2 tsk þurrkað oregano
Hrærði hunangi saman við rest af kryddum í skál. Bætti þá út í kryddskálina um það bil 300 gr. af rækjum, stórum sem smáum, velti upp úr kryddblöndunni þangað til rækjurnar voru vel þaktar, og setti til hliðar. Næst steikti ég 1/2 lauk, niðurskorna papriku og 2 niðurskorin hvítlauksrif, upp úr 1,5 msk olíu. Rækjunum bætti ég loks út á pönnuna, þegar grænmetið var orðið meyrt, og snöggsteikti.
Ég elska þessi krydd. Cumin, koriander, oregano - sérstaklega þegar allir leika saman! Virkilega góður réttur. Virkilega góður kvöldmatur. Smá hint af sætu frá hunanginu og chilli-ið sparkar skemmtilega á móti. Væri örugglega æðislegt að þræða þetta upp á spjót með mangó!
Það er svo gaman að borða góðan góðan mat, sérstaklega þegar eldunartími er undir 30 mínútum!
Uppáhalds | Breytt 24.9.2010 kl. 10:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
31.8.2009 | 18:50
Kryddaður rækjuréttur
Langaði svo í rækjur í kvöld - vissi hinsvegar ekki alveg hvað ég vildi gera við þær. Tók því Elluna á þetta og hrærði því sem ég fann, í eldhúsinu, saman! Ekkert smá vel heppnað og bragðið frábært. Ég geri þennan rétt pottþétt aftur! Nú er það bara að fjárfesta í frosnum rækjum og nýta þær í eitthvað gleðilegt eins og... jah... þetta!
Kryddaður rækjuréttur - fyrir 2
1 bolli soðin hrísgrón. Hefði notað brún- eða hýðis en átti ekki á lager.
1 bolli grænar baunir
2 msk olía
3 raspaðir hvítlauksgeirar
Niðurskorinn rauðlaukur. 2 - 3 sneiðar, eða eftir smekk.
1 tsk paprikuduft
1,5 tsk cumin
1/2 tsk, rúmlega, niðurrifinn engifer
1/2 tsk tæplega chilliduft
dash, mjög smá handfylli þurrkuð steinselja og cilantro
salt og pipar eftir smekk
Hita olíuna á pönnu og svissa hvít- og rauðlaukinn upp úr olíunni í 2 - 3 mínútur. Eftir það, sameina öll krydd á pönnunni og steikja þangað til góð lykt kemur í eldhúsið. Og já, lyktin er sko góð! Eftir það, þerra rækjurnar (ef þær voru t.d. frystar), hella út á pönnuna og þekja með kryddblöndunni. Hella þá grænu baununum út á pönnuna og leyfa dúóinu að velkjast um í 1 - 2 mínútur. Hella þá grjónunum út á pönnuna, hræra gumsinu vel saman og beinustu leið á disk.
Gott gott á bragðið þó ég segi sjálf frá. Virkilega góður og hollur réttur. Prótein, flókin kolvetni, holl fita og yndislega fínu grænu baunirnar. Palli varð himinlifandi með þetta alltsaman, þar sem hann er ekki mikill rækjumaður sjálfur, og þótti svakalega vel til takast! Kryddaður rétturinn með sætum baununum er æði og rækjurnar, rétt hitaðar í gegn, er gaman að bíta í á móti grjónunum. Passa bara að steikja rækjurnar ekki of mikið - gúmmírækjur eru góðar en ekki frábærar! Næst myndi ég jafnvel bæta smá blómkáli í réttinn og valhnetum. Það væri líka æðislegt að setja þetta inn í burrito!
Mhhmm hvað þetta var gott. Vel heppnað, verður reglulegur gestur í framtíðinni, svo mikið er víst!
Uppáhalds | Breytt 24.9.2010 kl. 10:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
28.8.2009 | 11:55
Marakóskur kjúklingaréttur - GEGGJAÐUR
Ó vá... eina sem ég get sagt! Almáttugur hvað þetta var svakalega gott! Takk fyrir Antje mín!
Marakóskur kjúklingaréttur í vinnunni í dag, í boði Antje minnar. Starfsmenn fyrirtækisins taka sig til, einn og einn í einu, einusinni í mánuði, og elda sinn uppáhalds mat fyrir hina úlfana. Antje tók þetta svona líka með stæl. Geggjaður réttur, æðislegur hádegismatur!
Antje er með ofnæmi fyrir lauk svo honum var með öllu sleppt í þessari uppskrift. Kom svo sannarlega ekki að sök, mikið gúmmulaði sem þetta var! Örn, vinur hennar, matreiðslumeistari með meiru á þessa uppskrift. Er með æðislega veisluþjónustu! Ég mátti til með að segja frá, svo gott var Þetta! Döðlur, aprikósur, hnetur, negull, engifer, cumin fræ, kanill... ómægod!
Ég át of mikið. Guð minn góður ég er að springa - en ég gat bara ekki hætt! Uppskriftina má nálgast hér! Mmmmhmm.... búin að nóta þetta niður á uppáhaldslistann!
Uppáhalds | Breytt 23.9.2010 kl. 22:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
27.8.2009 | 18:51
Reyktur lax með avocado mauki, krumpueggi og möndlum
Krumpuegg, fyrir ykkur sem vilja vita hvað það er, eru á góðri íslensku "Scrambled eggs". Enn eitt orðið í orðabók Ásbúðarmanna!
Búin að vera að hugsa um reyktan lax í allan dag. Vissi af laxi, bíðandi, aleinum í ísskápnum, sem dauðlangaði að vera nýttur í eitthvað létt og gott. Einmitt það sem úr varð! Kjúllatörn vikunnar var farin að segja til sín og bragðlaukarnir biðu í ofvæni eftir... jah... nákvæmlega þessu!
Átti reyndar ekki iceberg, bara hvítkál. Notaði hvítkálið með miklum semingi - það reddaðist en iceberg, spínat, eitthvað hlutlaust á bragðið hefði verið miklu betra. Hvítkálið var aðeins of beiskt með laxinum. Skar niður smá kál, tómat og rauðlauk. Blandaði saman og kom ofur fallega fyrir á disk. Ristaði nokkrar möndluflögur á meðan ég steikti 2 eggjahvítur og 1/2 eggjarauðu með pipar á pönnu. 100 gr. af reyktum laxi kom ég fyrir á salatbeðinu og sáldraði möndlu dukkah yfir. Eggjahræran fór svo ofan á laxinn og möndluflögur ofan á eggin. 'Skreytt' með þurrkaðri steinselju.
Avocado maukið hrærði ég saman úr um það bil 1/2 avocado, pipar, smá sítrónusafa og létt AB-mjólk. Ef ég hefði átt rjómaost hefði hann orðið fyrir valinu. Mmm... rjómaostur og reyktur lax! Avocado og reyktur lax! Rjómaosta avocado mauk með reyktum laxi og smá rifnum sítrónuberki. Ohhh getið þið ímyndað ykkur? En þetta bland virkaði flott!
Allar hollar fitur alheimsins hittast í þessum rétti og dansa villtan stríðsdans! Lax, möndlur, avocado - meiriháttar! Dukkah kryddið kom sterkt inn, rosalega gott með laxinum. Mmmhh hvað þetta var nákvæmlega það sem ég var að leita eftir - alltaf bestu máltíðirnar, sama hversu 'ómerkilegar' þær eru!
Uppáhalds | Breytt 23.9.2010 kl. 22:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.8.2009 | 09:20
Hollustukaka sem ekki þarf að baka
Bjó til ofurheilsu-afmælisköku fyrir mömmu. Fann uppskrift um daginn sem ég Ell-aði svolítið upp. Hrákaka full af döðlum og gleðilegheitum. Mamman er eins og ég, döðluæta. Uppskriftina er hægt að dúlla sér með eftir hentisemi. Bæta í hana fleiri/færri hnetum, þurrkuðum/ferskum ávöxtum, múslí - í raun hverju sem er.
Döðlu- og banana súkkulaðikaka með valhnetum og kókos
500 gr. döðlur. Ég notaði 300. gr. þurrkaðar og 200. gr ferskar.
2 mjög vel þroskaðir bananar
1 tappi vanilludropar. Má sleppa.
3 msk. kakó. Meira ef vill.
1 bolli hafrar. Mætti mylja hafrana í matvinnsluvél.
70. gr kókosolía
100 gr. muldar valhnetur
50 gr. dökkir súkkulaðibitar. Má sleppa ef vill.
Hræra döðlur saman í matvinnsluvél þangað til nokkuð vel blandaðar. Bæta þá bönununum við. Rest af hráefnum bætt út í nema valhnetum og súkkulaðibitum. Ef það er ekki til matvinnsluvél á heimilinu þá er flott að hita döðlurnar í t.d. örbylgju, merja þær og blanda svo bönununum við. Hella blöndunni í skál og bæta út í hana valhnetum og 30 gr. súkkulaðibitum. Hella blöndunni í mót og inn í ísskáp í amk 2 tíma.
Ég blandaði svo smá olíu, hunangi og salti saman við möndluflögur og ristaði í ofni. Möndlurnar setti ég yfir kökuna og stráði rest af súkkulaðibitum og kókos yfir þær.
Þetta var æði. Virkilega góð og skemmtileg að borða. Væri flott að setja hana í frystinn rétt áður en hún er borin fram því blandan verður aldrei eins og "kaka". Meira eins og þykkur búðingur. Til að gera kökuna "kökulegri" væri t.d. hægt að setja meira af höfrum og jafnvel nota bara þurrkaðar döðlur. En mér fannst hún æði nákvæmlega eins og hún var. Fór með hana í ömmuveislu um helgina og komst að því að ís og þessi kaka eiga afskaplega vel saman (má ekki vera of hollt á nammidögum ) Mmmmm... þessa geri ég pottþétt aftur!
Uppáhalds | Breytt 23.9.2010 kl. 22:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
17.8.2009 | 09:59
'Hollari' súkkulaðikaka
Heilhveiti, hunang, kakóduft. Það er alveg hægt að fá sér nokkrar sneiðar af þessari án þess að fá sorry-álfinn í heimsókn. Hún kom líka á óvart. Hún kom svo sannarlega á óvart þessi!
Heilusamlegri súkkulaðikaka
1 bolli létt AB-mjólk eða ósætað eplamauk. Ég notaði AB.
3 msk hunang eða agave.
1 tsk vanilludropar
3/4 bolli heilhveiti
4 msk kakóduft
2 tsk lyftiduft
1/2 tsk matarsódi
1/2 tsk salt
1/4 bolli muldar möndlur eða t.d. valhnetur
1 msk mulið súkkulaði (mætti setja upp í 1/4 bolla ef vill. Ég notaði dökkt, 75%.)
Aðferð:
Hræra saman Ab-mjólk, hunangi og vanilludropum í stórri skál. Blanda saman við AB-mjólkurblönduna hveiti, kakódufti, lyftidufti, matarsóda, salti, hentum og súkkulaði. Passa að ofhræra ekki. Hella í bökunarform, ég notaði 20 * 20 cm álbakka, og baka í 20 - 30 mínútur, eða þangað til prjóni, sem stungið er í kökuna miðja, kemur út svo til hreinn.
Niðurstaða:
VÁ! Ég var sko ekki að búast við þessari útkomu! Ég á eiginlega ekki orð.. vá! Mjúúúk, létt í sér en samt djúúsí eins og brownie! Mjög sterkt kakóbragð af henni ef ykkur þykir svoleiðis gott. Palli kjammsaði og spurði hversu mikið af súkkulaði ég hefði bætt út í þetta.. jah, 1 msk! Þið verðið að prófa, þessi kaka er æðisleg! Bragðast mjög óhollt en er full með flóknum kolvetnum og trefjum, andoxunarefnum (hoho.. 75% súkkulaðið) smá próteini og hollu fitunni sem allir þurfa í skrokkinn!
Hvað myndi ég gera öðruvísi næst?
Ég held ekki neitt. Kannski nota valhnetur í staðinn fyrir möndlur. Það væri æði! Ég er samt enn að furða mig á þessum æðislegheitum. Ofboðslega er þetta gott!
Verður eitthvað næsta skipti?
Hahh... hefði vel getað sleppt þessari spurningu. Uppáhaldslistinn minn hefur eignast nýjan vin!
Uppáhalds | Breytt 23.9.2010 kl. 22:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
14.8.2009 | 18:52
Gaman saman... með mat
24.04 Búlgarskar pylsur, sæt kartöflusúpa og byggbrauð.
26.04 Kosningasamkoma. Túnfisksteikur, hambó, kjöt af öllum gerðum og súkkulaðikaka aldarinnar.
10.05 Mæðradagur. Hafraskonsur og heilhveitibollur.
17.05 Júróvision fiesta, ofurhambó og át fram eftir nóttu.
26.05 Heilhveiti crepe í Gúmmulaðihöllinni.
07.06 Hachala, æðislegi arabíski þorskrétturinn.
17. júní. Marbella kjúklingurinn góði, samviskulausa eplakakan og pönnsur.
28.06 Sumarið mætt á svæðið. Grillpinnar, kjúlli og nom brokkolísalatið.
10.07 Æðislegur glænýr Makríll, handsamaður af pabba.
11.07 Systra fiesta. Doritos kjúlli og með því.
12.07 Góður sumardagur. Humar, kjúlli og meðlæti.
17.07 Helgarveisla í Gúmmulaðihöllinni. Smokkfiskur, Marbella kjúlli og banana ís.
26.07 Hádegisbrunch fyrir foreldrasettið.
27.07 Móaflatarkjúllinn sívinsæli!
02.08 Verslunarmannahelgin. Hambó, humar, túnfiskur, smokkfiskur, hörpudiskur... ómægod!
Spáið svo í því, að inn í þetta safn vantar amk. fjórar matarsamkomur sem ekki voru myndaðar, skjalfestar eða skráðar. Það þýðir að vikulega hafi verið matar-hittingur af einhverjum toga. Engin furða að mamma hafi tekið tiltektarkast og rifið aumingja ofnotaða eldhúsið sitt niður!
Okkur þykir svo sannarlega gaman að hittast, borða og hafa það gott. Við virðumst nýta hvert tækifæri til að slá upp matargleði og éta á okkur gat og ekki er allt búið enn! Ónei! Þrenn afmæli núna í lok ágúst, 19, 20 og 30, eldhúsfögnuður móður minnar, heimkoma veiðipabbans... Ég meina, er nokkuð óeðlilegt að halda upp á að ég hafi farið til tannlæknis í vikunni?
Uppáhalds | Breytt 23.9.2010 kl. 22:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
13.8.2009 | 18:41
Hvernig skal laxinn framreiða?
Ég var ekki viss. Eina sem ég vissi var að mig langaði í reyktan lax. Svo hann var keyptur! Eggjahvítuburrito með reyktum lax, capers, tómat, rauðlauk og dillsósu? Hrísgrjóna-laxaréttur með grænum baunum og niðurskornu grænmeti? Laxaklattar með rjómaosti, avocado og góðri dressingu? Nennti ekki að standa í því að hita eitt né neitt svo ég tók þann pólinn í hæðina að rúlla laxinum utan um brún grjón og grænmeti og búa til þykjustunni "Inside out" sushi!
Lagði laxaflökin á disk og dreifði brúnum grjónum þar yfir.
Þarnæst gúrku, smá tómat, mango og loks wasabi-dressingu sem var ææðisleg. Létt AB-mjólk, wasabi mauk, smá hunangs dijon og dropi hunang.
Rúllaði upp og hananú! Þykjustunni sushi! Reykt laxarúlla með brúnum grjónum, grænmeti, mango og wasabi dressingu!
Yfir rúlluna sáldraði ég svo Dukkah með möndlum og aðeins meira af dilli.
Þetta var geypilega gott þó ómerkilegt sé. Wasabi dressingin var fullkomin á móti reyktum laxinum. Wasabi-ið gaf gott kikk og bragðið af laxinum, á móti sætunni í sósunnu, mildu grænmetinu og sæt/súru mangó, var fullkomið! Grjónin voru svo toppurinn því þau eru aðeins undir tönn og gaman að bíta í!
Gleði og hamingja! Aðeins öðruvísi, gaman að búa til, skemmtilegt að borða. Þetta ætla ég að gera einhverntíman aftur með meiri tilþrifum. Rúlla þéttar, geyma í ísskáp... Ætli ég verði samt ekki kærð fyrir að bendla þennan gjörnin við sushi?
Uppáhalds | Breytt 23.9.2010 kl. 22:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
12.8.2009 | 09:07
Kókoskúlur
Held áfram að útrýma hráefnunum sem ég á í nammiskápnum. Það er barasta að ganga nokkuð vel! Kúlur, hnettir og boltar af ýmsum toga hafa orðið til úr því sem eftir var, allt assgoti vel heppnað verð ég að segja.
Kókoskúlur
150 gr. döðlur og 150 gr. gráfíkjur. Rétt rúmlega bolli. Ég notaði þurrkað.
30 gr. þurrkaðar bananasneiðar. Tilraun síðan í gær - má sleppa.
1/2 bolli möndluflögur
2 msk möndlusmjör. Notaði heimagert rúsínu og kanil.
1/2 - 1 bolli kókos. Ég notaði 1/2.
3 - 5 msk kakó. Ég notaði 3.
1 tsk vanilludropar
1 tsk kanill
1 - 3 msk hunang. Ég notaði 2 msk.
Byrjaði á því að hita döðlur og gráfíkjur aðeins í örbylgju, því ég geymdi þær í ísskáppnum, svo í matvinnsluvél og matvinnsluvélaði smátt. Bætti þá rest af hráefnum út í, nema hunangi. Bætti hunangi við í restina eða þangað til áferðin á blöndunni var orðin flott að mínu mati, og hægt var að rúlla í kúlur. Döðlurnar og fíkjurnar gera þó sitt gagn. Það gæti farið svo að engu hunangi þurfi að bæta við, sérstaklega ef döðlurnar eru ferskar.
Hér væri líka hægt að bæta einhverjum góðum líkjör við eða rommi. Úha! Jæja, kúla massann og velta svo upp úr kókos, kakó, flórsykri, engu ... og voila!
El subbó!
Væri líka sniðugt að nota litla ísskeið til að skúbba í kúlur.
Ef þú vilt meira súkkulaðibragð, bæta við 1 - 2 msk., aukalega, af kakódufti. Ég eelska bragðið af döðlum og fíkjum og vildi ekki týna því. Að nota 3 msk. af kakódufti gefur gott súkkulaðibragð en ekki nógu mikið til að yfirgnæfa bragðið af þurrkuðu ávöxtunum. Mmhmmm! Þessi uppskrift þolir líka, mjög vel, meira af kókos. Ef þú ert kókosæta, þá er um að gera að kókosa þetta upp þangað til þú segir stopp.
Heimagerðar kókoskúlur fyrir utan allt samviskubit! Ég er ekki að segja að maður eigi að raða þessum elskum ofan í sig bara af því að þær eru hollari en Snickersbiti. En ef nammiguðinn er alveg að gera þig geðveika(n), þá er þetta mjög samviskulaust snarl. Ein kúla er nóg til að fullnægja sykurþörf vikunnar. Mjög sætar, yndislega bragðgóðar, þéttar í sér og gaman að bíta í.
Uppáhalds | Breytt 23.9.2010 kl. 22:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
3.8.2009 | 20:47
Pistasíuís - hreint lostæti
Hentar það ekki fullkomlega að skella inn eins og einni ísuppskrift í þessu glæsilega fína veðri? Ís er uppáhaldið mitt. Ég gæti borðað hann þyndarlaust. Ofur 3ja kílóa pistasíupokinn sem ég keypti um daginn er við það að klárast svo ég ákvað að nýta síðustu pistasíurnar mínar í þennan gjörning. Ég sé ekki eftir því! Hann heppnaðist vel... of vel!
Pistasíu ís - 3 bollar
1 og 1/4 bolli ósaltaðar, óristaðar, skelflettar pistasíur.
1/3 bolli sykur
2 bollar nýmjólk
2 msk maizamil. Sterkja, fæst í Bónus.
2 msk hunang
1 msk sítrónusafi eða eitthvað gott hnetu eða ávaxta líkjör. (amaretto, grand marnier...) Ég notaði sítrónusafa úr ferskri sítrónu. Átti ekki líkjör. Hjálpar til við að halda blöndunni mjúkri inn í frystinum.
Aðferð:
1. Mylja pistasíur og sykur, smátt, í matvinnsluvél. Setja til hliðar.
2. Hella 1/4 bolla, af mjólkinni, saman við sterkjuna þangað til vel blandað. Setja til hliðar.
3. Í potti, yfir meðalhita, hella saman pistasíum og rest af mjólk (1 og 3/4). Hræra í af og til með sleif og leyfa bubblum að koma upp. Ekki sjóða.
4. Hella þá sterkjublöndunni saman við og hræra í 2 - 3 mínútur aukalega yfir hitanum. Blandan er tilbúin þegar pistasíublandan þekur skeiðina og sé fingri rennt niður eftir skeiðinni þá myndast far.
5. Þá er tímabært að færa pottinn af hitanum og leyfa blöndunni að kólna í nokkrar mínútur.
6. Blanda út í pottinn hunangi og sítrónusafa eða líkjöri. Leyfa blöndunni að kólna þar til hún nær stofuhita en hræra í henni af og til svo ekki myndist húð ofan á ísnum. Nú er gott að breiða yfir ísinn, eða setja hann í lokað ílát, og inn í ísskáp þangað til vel kaldur. Yfir nótt er best.
7. Hella ofurísböndunni í ísvél og bíða eftir að eitthvað stórkostlegt gerist!
Úff... hvar á ég að byrja? Ég get a.m.k. sagt ykkur það að þegar ég og Palli tókum fyrsta bitann, litum við á hvort annað og flissuðum! Ég bjóst ekki við þessu bragði og þessari áferð! Ef ykkur þykja pistasíur bragðgóðar þá mun þessi ís ekki svíkja ykkur. Flauelsmjúkur ísinn með þessu ljúfa pistasíubragði og stútfullur af pistasíubitum. Sætan nægjanleg og vinnur vel á móti hnetubragðinu. Maður saknar þess ekki að hafa eggjarauður til að mýkja hann upp. Ææææðislegur ís, auðvelt og fljótlegt að búa hann til. Kannski ekki á holla listanum, ekki á ofur-óholla listanum heldur - ég held ég finni ekki nógu lýsandi lýsingarorð til þess að gera undrinu nægjanlega frábær skil, get svo svarið það.
Myndirnar gætu því miður litið betur út, en þið vitið hvernig þetta er stundum hjá mér - ég gat ekki beðið lengur með að smakka. Þetta bjútí var að bráðna fyrir framan trýnið á mér! Athugið samt að ég laug ekki þegar ég sagði að ísinn væri stútfullur af hnetum - en persónulega þykir mér það geggjað!
Þennan ís kem ég til með að bjóða upp á í matarboði, á næstunni, með vanillurjóma! Ég á líka afgang, ójá. Ég hlakka mikið til næsta laugardags!
Uppáhalds | Breytt 23.9.2010 kl. 22:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)