Færsluflokkur: Uppáhalds
24.10.2009 | 11:07
Prótein bygg grautur
Það er búið að vera svo mikið að gera hjá mér undanfarið að ég hef hvorki haft tíma né nennu til að búa mér til eitthvað svaðalegt í hádeginu eða á kvöldin. Síðustu tvær vikur hafa þessar máltíðir yfirleitt verið samsettar úr kjúkling, grænmeti og hnetum sem ég borða svo allt í sitthvoru lagi. Ekki spennó, en gottó og hvaða eðal einstakling sæmandi. Hinsvegar, í þessu róti öllusaman, þá hafa poppað upp allskonar millimál sem ég hef ekki gert áður en kem til með að búa til aftur. Eins og td. þessi snilld.
Blendingur á milli hrísgrjónagrauts og hafragrauts. Áferðin svipuð og á grjónagraut eða sago, gefið að sago grjónin væru stærri. Mmmm hvað þetta var gott fyrir öll skilningarvit sem tengjast bragði og áferð! GRS5 prótein blandað saman við smá vatn. Byggi bætt út í próteinið ásamt kanil og vanilludropum.
Væri örugglega æði að setja út í þetta hnetur eða hnetusmjör, niðurskorið epli, banana, bláber... ohhh geggjað!
Svo mikið er víst - þetta verður tíður gestur í mínu matarplani héreftir!
Uppáhalds | Breytt 24.9.2010 kl. 10:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
16.10.2009 | 17:48
Hvað er hægt að gera við prótein?
Allskonar!
Að sjálfsögðu er hægt að útbúa drykki. Það er eitthvað sem allir kunna.
Prótein ís.
Prótein berjabúðingur. Hita ber í muss og blanda próteini þar út í.
Prótein pönnsur.
Líka hægt að setja próteinið út í grauta og skyr.
Hnetu og hafra- prótein kökur.
Ídýfa fyrir ávexti.
Prótein flögur.
Próteinstangir, kökur, smákökur, brauð, granolastangir.
Bæta út í próteinið hnetusmjöri og útbúa hálfgerðan búðing.
Stappa svo út í búðinginn banana og bæta eplabitum útí?
Eiiiiiinmitt það sem ég gerði áðan!
Voila.. hálfgerður búðingur sem seðjar fullkomlega vel og slekkur á allri hungurpínu. Miklu skemmtilegra að borða próteinið í þykkara formi heldur en í drykk... heldur átvalginu amk sáttu í lengri tíma
Lumar kannski einhver á sinni uppáhalds próteinuppskrift sem hann/hún vill deila?
Uppáhalds | Breytt 24.9.2010 kl. 10:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
13.10.2009 | 11:23
Naglinn umbreytir
Ástæðan fyrir því að ég hef ekki verið að baka mikið, elda stórkostlegar risa máltíðir eða ofurgrauta, síðasta mánuðinn, er sú að ég vildi breyta til og prófaði fjarþjálfun hjá þessari skvísu. Hún heitir Ragnhildur, öðru nafni Ragga Nagli og ber nafn með rentu. Ég fékk sumsé úthlutað hjá henni æfinga- og matarprógrammi sem ég hef verið að fara eftir. Svolítið skemmtilegt að fá á blaði ákveðin hráefni sem má borða, á ákveðnum tímum dags, og reyna að útbúa fjölbreyttan matseðil út frá því. Það er einnig ástæðan fyrir því að ég hef ekki verið að skrá og skjalfesta uppskriftir eftir nákvæmum mælingum - ef þið viljið sjá matseðilinn hennar, þá er um að gera að byrja í þjálfun hjá henni. Það er sko eitthvað sem þið sjáið ekki eftir.
Hún er svoddan eðal íþrótta-kvendi að annað eins hefur ekki sést eða heyrst. Hefur brennandi áhuga á því sem hún er að gera, enda skín það mjög vel í gegn. Hún er ekkert að skafa af hlutunum, fegra eða einfalda á nokkurn hátt. Þú færð hreinan og beinan sannleikann í æð, hvort sem þér líkar það betur eða verr. Á einum mánuði hefur skrokkurinn á mér umbreyst heilan helling. Ég hef ekki lést um gramm, búin að styrkjast mikið og sentimetrarnir fjúka út í veður og vind og fötin gera ekkert annað en að stækka... hoho. Hlakka mikið til að fylgjast með þróun þessara breytinga.
Matseðilinn er líka æðislegur. Fjölbreyttur og svo margt hægt að malla á "löglegan" og einfaldan hátt en samt hafa það "gúrmey". Sést svosum á myndunum hér að ofan, ég hef það ekkert alslæmt! Allskonar sem "má" borða sem ég persónulega hélt að væri á ímynduðum bannlista yfir matvörur á meðan verið er að grenna sig. Ég lít amk. á næringu og líkamsrækt allt öðrum augum en ég gerði. Nammidagarnir sívinsælu eru leyfilegir, svo lengi sem þú heldur þig á mottunni hina dagana og kemur þér aftur á sporið daginn eftir. Þið hafið nú fengið að sjá nokkra allsvaðalega nammidaga hjá átvaglinu, hver öðrum græðgislegri.
Ég ætla amk að halda áfram að púsla saman máltíðum úr því sem ég hef úr að moða! Nammidagarnir verða nýttir í eitthvað meiriháttar skapandi og næsti mánuður er ekkert nema spennó!
Uppáhalds | Breytt 24.9.2010 kl. 10:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
6.10.2009 | 13:13
Prótein hnetukaka
Þetta eru nú ekki merkileg vísindi en ég geri þetta nú samt stundum til að breyta til og gleðja áferðaperrann. Prótein, vatn, hnetur og krydd. Alltið og sumtið sem þarf til að búa þetta til. Taka hnetur og mylja smátt. Ég notaði möndlur hérna (nota líka pecan- og valhnetur), setti í lítinn plastpoka og muldi með kökukefli.
Hnetur í skál, um það bil 1 msk próteinduft (ég notaði GRS-5) og kanill eftir smekk.
Blanda létt saman.
Ponsulítið af vatni, rétt þannig að próteinið leysist upp og nái að þekja hneturnar.
Inn í örbylgju í 40 - 60 sek. Ég var með mitt inni í 40.
Setja á disk, þjappa saman og móta í köku... eða gíraffa... eða stjörnu...
Setja inn í ísskáp/frysti og hohooo!
Hnetukaka sem er mjöög gaman að bíta í!
Uppáhalds | Breytt 24.9.2010 kl. 10:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
5.10.2009 | 12:13
Settu hnetusmjör á þetta...
Er ekki allt betra með smá hnetusmjöri?
Hnetusmjör, prótein, vanilla, kanill og epli aðstoða hvert annað, og mig, í að útbúa þetta svaðalega gúmmulaði. Þetta er án efa uppáhalds millimálið mitt þessa dagana!
Hnetusmjörs prótein búðingur og ískalt brakandi epli. Fullkomin tvenna! Skúbba upp búðing með eplaskeiðinni, borða græðgislega og hananú! Orð fá ekki lýst hamingju minni yfir þessu snarli - eins og að svindla en með hreinni samvisku!
Uppáhalds | Breytt 24.9.2010 kl. 10:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
1.10.2009 | 18:57
Kjötætufjall
Mikið er rautt kjöt stundum yndislega fínt. Datt allt í einu í rauða kjöts gírinn og get ekki beðið eftir öllu gúmmulaðinu sem ég kem til með að útbúa úr ofurhakkinu sem ég keypti um daginn. Hrísgrjóna kjötbollur í tómatsósu, pottréttir, sugo, hambó...jeee haaw!
Til að fullnægja villimannslegri kjötlöngun minni heimsótti roastbeef samloka matardiskinn minn í kvöld - mínus brauðið! Raðaði káli og tómötum á disk. Krullaði upp og hrúgaði kjöti þar ofan á með sinnepi (dijon/honey vinegar dijon) inn á milli. Steikti loks tonn af lauk upp úr olíu og kom fallega fyrir ofan á kjötfjallinu mínu. Skreytti með steinselju og stakk mér til sunds! Úhhh viljið þið bara sjá...
Þetta var svoooo gott!!! Sinnep, roastbeef og laukur eru alheilög þrenna sem bannað er að aðskilja! Þið sem ekki hafið tekið eftir því, þá er eitthvað dularfullt rauðlaukstímabil búið að yfirtaka græðgispúkann. Ekki neikvætt... svo mikið er víst!
Kjötætan hið innra hoppar og skríkir af hellisbúalegri kæti. Ég er enn með vatn í munninum! Takk kærlega fyrir mig mín kæru.
Uppáhalds | Breytt 24.9.2010 kl. 10:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
30.9.2009 | 10:38
Kökudeigsgrautur
Ohh hvað þessi grautur var geggjaður! Eins og karamella... eins og kökudeig fólkið mitt!! Kökudeig í morgunmatinn!!
Tók mig til í gær og örbylgjaði nokkur frosin jarðaber í múss. Bæti út í þau einni skeið af GRS-5 próteini, kanil og vanilludropum og hrærði vel saman. (mætti örugglega alveg vera annað prótein, hreint, máltíðar.. hvað sem er) Eftir það fór smá sletta af vatni, kannski 1 - 2 msk, út í herlegheitin og loks hafrar þannig að þegar ég hrærði blandið saman, þá var það stíft og mjög þétt. Loks fór lúka af frosnum bláberjum (ekki hituðum) ofan í volgan grautinn, hrært létt saman og inn í ísskáp.
Ég elska vel heppnaða ísskáps/næturgrauta. Þessi var svona blanda á milli hafraköku og næturgrauts. Ég held reyndar að próteinið hafi haft svolítið að segja hérna, er ekki alveg viss. Þarf að prófa aftur með hreinu próteini. Hann var svo fullkomlega fínn að ég hefði getað rúllað upp litlar kúlur og útbúið konfekt. Karamellukenndur með bláberja og kanilkeim. Mhmm..
Þennan geri ég pottþétt aftur. Eins og að borða nammi í morgunmat. Hamingja og gleði í plastboxi fyrir nammigrísinn og áferðaperrann!
Búið... *grát*
Uppáhalds | Breytt 24.9.2010 kl. 10:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
22.9.2009 | 15:08
Meiriháttar roast beef samloka
Allt of góður matardagur. Það er svoleiðis dekrað við átvaglið að annað eins hefur ekki sést í langan tíma! Mín langþráða roast beef loka. Óalmáttugurherregudogallirenglarnir! Bjó hana til klukkan 06:00 í morgun með hellisbúaglampann í augunum.
Þessi hádegismatur toppar allt! Algerlega allt. Gróft brauð, ég notaði Fitty, dijon sinnep smá honey dijon, kál, KJÖT, tómatur, smátt skorinn rauðlaukur... ohmn! Sinnepið með rauðlauknum með pipruðu kjötinu = himneskt!
Ef einhverntíman hefur vottað fyrir grænmetisætu í skrokknum á mér, þá hvarf hún með öllu af yfirborði jarðar á meðan þessi loka var gleypt! Ég held ég hafi meira að segja urrað smá þegar samstarfsfólkið mitt kom of nálægt á meðan áti stóð! Roast beef-ið var fullkomið. Meyrt, safaríkt - keypti það hjá kjöthöllinni.
Eftirmiðdagurinn samanstóð svo af kanil-epla og valhnetu kalkúnasalati! Allt skorið smátt, sett í ílát og hitað í örbylgju þangað til eplin voru orðin heit og smá mjúk. Afskaplega bragðgott og áferðaglatt en ferlegt að mynda. Þið verðið því bara að ímynda ykkur dýrðina... ef þið getið það - ég get ekki hætt að horfa á þessar roast beef myndir!
Uppáhalds | Breytt 24.9.2010 kl. 10:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
22.9.2009 | 09:52
Bláberjagrautur
Hvað er það fyrsta sem þið hugsið um þegar þið heyrið hafragraut nefndan? Heitt gums, stundum hálf bragðlaust, sykur, mjólk... ég er nú búin að útbúa nokkra grauta og þeir geta verið miklu skemmtilegri til átu og ásýndar en margur heldur! Ójá!
Lítið brot af því sem ég hef verið að malla. En... ég hef meðal annars búið til ofurgrauta...
...ísskápsgrauta...
...banana og perugrauta með hörfræjum...
...sætu kartöflu grauta...
...hnetugrauta...
...smákökugrauta...
...pumpkin pie grauta...
...grautarkökur...
...ofnbakaða grauta...
...hafragrauts splitt...
...hráskinku og hunangsmelónuhafra og salsa-egg hafra...
...bolla grauta...
...múslígrauta...
...hnetusmjörskrukkugrauta...
...ljóta grauta...
...bleika grauta...
...græna grauta...
...og síðast en ekki síst. Fjólubláa grauta! Vantar reyndar allt hafragrautsskraut á þessa elsku en það kom ekki að sök. Bláber eru ekkert nema æðisleg! Þó þau séu frosin!
Grautur eins og þér þykir hann bestur (bananagrautur með kanil væri æði hér), 1 skúbba prótein og vanilludropar hitað í potti - nú eða örbylgju. Hella frosnum bláberjunum út í sjóðandi heitan grautinn, hræra sama og sjá hann breyta um lit. Ég setti minn reyndar inn í ísskáp yfir nóttina og gleymdi að taka mynd eftir að skrautið var komið á. En það er allt í lagi. Hann var barasta wünderbar.
Grauturinn er einfaldlega bestur! Það held ég nú.
Uppáhalds | Breytt 24.9.2010 kl. 10:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
4.9.2009 | 09:52
Hafraklattar sem ekki þarf að baka - taka 1
Nanna Gunnarsóttir spurði mig að því um daginn hvort ég ætti til uppskrift af hafraklöttum svipuðum þeim sem Matarkistan er að selja. Hér á eftir kemur uppskrift af hafraklöttum sem ég geri stundum. Hráefnin eru ekki alltaf þau sömu en útkoman er ávallt að mínu skapi. Hafraklattarnir sem Matarkistan framleiðir eru æðislegir enda smjör og hrásykur í þeim. Maður finnur það meira að segja á lyktinni. Mmmm... Ég nota helst hunang í staðinn fyrir sykur, og smjör, jah... maður deyr svo sannarlega ekki af smá smjörklípu. En það er án efa hægt að nota eplamauk eða kókosolíu í staðinn. Ég ætla svo að setja inn hinar tvær uppáhalds hafraklatta/viðbits-stanga uppskriftirnar mínar við tækifæri!
Hafraklattar
1/2 bolli kókosmjöl
1/2 bolli sólblómafræ
1/4 bolli hveitikím
1/4 bolli uppáhalds múslí eða t.d. sesamfræ.
1/4 bolli niðurskornar aprikósur
1/4 bolli niðurskornar döðlur
1/3 bolli hunang
1,5 msk smjör
1/2 tsk vanilludropar
Hræra saman höfrum, kókosmjöli, sólblómafræjum og hveitikími í stórri skál. Setja döðlur, aprikósur, hunang, smjör og vanilludropa saman í pott og hræra saman þangað til döðlur og apríkósur eru farnar að bráðna saman við hunangsblönduna og hunangið rétt farið að bubbla. Færa þá pott af hita og byrja á því að skófla þurrefnum ofan í hunangspottinn þangað til áferðin er orðin að þínu skapi. Það var smá eftir af þurrefnum í mínum skammti. Rúmlega 1/2 bolli kannski?
Hella blöndunni á smjörpappír, móta í ferhyrning, og þrýsta á með t.d. skurðabretti! Móta aftur, þrýsta hliðum saman og aftur þrýsta á með skurðabrettinu, eða þangað til blandan er orðin þétt og helst vel saman. Setja þá inn í ísskáp og bíða eftir að hún kólni vel - taka þá út úr ísskápnum og skera í minni bita. Ég skar mitt niður í 8 bita. Hægt að hafa færri/fleiri ef vill.
Virkilega þéttir og góðir bitar. Haldast vel saman við stofuhita og bragðið og áferðin meiriháttar flott. Munið bara að hunangið sem þið notið kemur vel fram. Svo veljið hunangið ykkar vel! Pallinn fílar þessa í botn og vinnufólkið mitt líka. Gott að hafa svona tilraunadýr í vinnunni... ekkert nema jákvætt!
Uppáhalds | Breytt 24.9.2010 kl. 10:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)