Færsluflokkur: Uppáhalds
2.8.2009 | 09:50
Notalegar stundir
Mikið er nú ljúft þegar góða veðrið ákveður að sýna sig um helgar. Þá geta allir, vinnandi og óvinnandi, notið þess. Eimitt það sem ég ætla að gera í dag eftir að ég hef klárað þessa skál af goodness.
Hræra saman:
1/2 bolla graskersmauki. Um það bil 122 grömm nú eða 1 dl. Gæti gefið ykkur fleiri mælieiningar, jafnvel á kínversku ef það er æskilegur kostur.
Skeið af GRS-5 vanillu próteini.
Kanil
Skreyta, toppa, gleðja með:
1 dl. sykurlausu múslí. Ég notaði 1/2 dl. grófa hafra og 1/2 dl. uppáhalds múslí með rúsínum og þurrkuðum banana.
Graskerið og próteinið verða eins og þykkur grautur, jafnvel eins og "pumpkin-pie" fylling með kanilnum, fyrir ykkur sem hafa smakkað slíka böku. Mjöög jákvætt fyrir deigætu eins og mig. Múslíið gefur svo hið langþráða crunch. Mjög gleðilegt. Ég er líka sérstaklega sátt við nýja próteinið mitt. Keypti það til prufu um daginn og það er að skora nokkur stig í próteinbókinni! Gott á bragðið og skemmtileg áferðin á því.
Ég þyrfti með einhverjum hætti að nálgast graskerið sem Öskubuska átti. Það myndi endast mér ríflega út árið 2010!
Uppáhalds | Breytt 23.9.2010 kl. 22:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.8.2009 | 12:43
Nýja uppáhalds uppáhald
Myndirnar segja ekki helminginn af sögunni, en þetta er eðal nasl í mínum kladda!
1/2 bolli köld hýðishrísgrjón blandað saman við 100 gr. kotasælu og niðurskorið epli. Toppað með kanil að sjálfsögðu. Þið sem þekkið grjónagraut - þá er þetta svo til aaalveg eins! *slef*
Mmhmm þetta var svo gott. Hitti beint í mark!
Farin út í sólina aftur. Fiskiveisla í gúmmulaðihöllinni í kvöld - humar, harpa, smokkfiskur! Eeeek... get ekki beðið!
Uppáhalds | Breytt 23.9.2010 kl. 22:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.7.2009 | 22:44
Móaflatarkjúlli
Uppáhalds, best í heimi!
Hefð í fjölskyldunni minni! Á rætur sínar að rekja til þeirra daga þegar amma og afi áttu heima á Móaflötinni. Um helgar skúbbaðist öll heila familían til þeirra í kjúkling og almennt helgarstuð. Þegar þessi máltíð er innbyrð fylgja henni mikil læti, mikið stuð, mikið hams og át. Afi leggur undir sig grindurnar og fær að pilla í þær á meðan úlfarnir rífa í sig kjúllakjöt og meðlæti. Amma æpir í sífellu "Verið óhrædd" meinandi "Borðið meira, ekki hætta" og átið stendur yfir í 20 mínútur upp á sekúndu. Enfaldlega af því að maturinn klárast á þessum tímaramma!! Undirstaðan í Móaflatarkjúlla, og það sem gerir hann að besta kjúlla í heimi, er:
Ofnbakaður kjúklingur.
Spaghetti.
Salat og kartöfluflögur eru í raun viðbót frá Dossu frænku. Líka hundurinn sem liggur í bakgrunn, biðjandi til hundaguðsins um að kjúklingabiti fljúgi á gólfið.
Brúnaðar kartöflur.
Brún sveppasósa.
Vantaði reyndar sósulitinn í þessa en hverjum er ekki sama um það - góð var hún.
Heilög hamingja og gleði á einum disk! Það sem mér þykir best, hræðilegt að segja frá, er að skera kjúlla og kartöflur smátt, blanda í spaghettíið og hella sósunni yfir! HOLY SPAGHETTI! Tók því mynd af disknum hjá pabba, hann leit töluvert betur út en minn!
Allir nýliðar í fjölskyldunni, sem dæmi mister Paulsen, eiga það til að fetta upp á trýnið og fussa yfir samsetningunni en trúið mér, eftir eitt smakk er ekki aftur snúið! Við fjölskyldan hittumst reglulega til að graðga í okkur Móaflatakjúlla við mikið slurp, kjams og smjatt! Þetta er kannski ekki hollasti matur í heimi, meira að segja langt frá því - en þessari snilld er ekki hægt að sleppa! Allir nýliðar í dag eru sáttir og geta yfirleitt ekki beðið eftir að herlegheitin verði borin á borð!
Til gamans má geta að þegar við vorum á Ítalíu síðasta sumar rákumst við á ítalskan matargúrú sem heitir Fransesco. Ég sagði honum frá þessari eðal brúnsósu-spaghetti-sykurkartöflu kjúklingahefð og ég hélt að maðurinn myndi flagna úr skinninu "Kartöflur OG spaghetti með brúnsósu? Hvernig kemur kjúlli þessu við?". Iss.. hann veit ekki af hverju hann missir! Hann ætti að heimsækja okkur einn daginn og upplifa fyrsta flokks Móaflatarkjúlla stemningu a la Spaghettisen Mafioso!
Uppáhalds | Breytt 23.9.2010 kl. 22:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
18.7.2009 | 10:36
'Pumpkin Pie' hafragrautur
Ár og aldir síðan ég fékk mér hafragraut! Hlakkaði líka mikið til að dýfa mér ofan í þessa skál eftir sprettina í morgun. Um að gera og nota graskersmaukið góða og skella í Pumpkin Pie í morgunmat. Amerískur þakkargjörðar-eftirréttur um mitt sumar á Íslandinu! Mikil gleði!
'Pumpkin Pie' hafragrautur
30 gr. hafra, ég notaði grófa. Um það bil 1 dl.
1 skeið hreint prótein (má sleppa)
60 gr. grasker. Um það bil 1/4 úr bolla.
Kanill
Nutmeg (múskat?)
Mætti jafnvel setja einn negulnagla eða mulin negul. Ég gerði það reyndar ekki.
vanilludropar
1,5 dl vatn
Hafragrautsskraut:
Skyrsletta, 3 muldar valhnetur og kókos. Ef þið viljið vera extra góð við ykkur, þá setjið þið örlítið af púðursykri ofan á grautinn, sjóðandi heitan, og slettu af þeytirjóma í staðinn fyrir skyrið! Mmmmmm...
Þessi var geggjaður! Algerlega geggjaður! Held að graskersmauk verði mikill vinur minn í framtíðinni!
Uppáhalds | Breytt 23.9.2010 kl. 21:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.7.2009 | 10:44
Banana soft serve
Veðrið er ótrúlegt!!
Ég bara varð að prófa þetta aftur síðan í gær. Þegar ég vaknaði í morgun stökk ég beint upp úr rúminu og inn í frystinn að sækja bananana!
Þeir fóru ofan í matvinnsluvélina og eftir nokkra stund litu þeir svona út!
Svo svona.. aðeins byrjaði að maukast! Ég þurfti að stoppa nokkrum sinnum til að skafa hliðarnar á matvinnsluvélinni! Ég gleymdi nú að taka mynd af bananakúlunni sem myndast og matvinnsluvélin byrjar að hoppa út um allt!
Fimm mínútum seinna... LOKSINS! Lítur ekkert smá vel út! Athugið að þetta eru bara... bananar! Engu bætt við! En ef maður maukar þá svona lengi þá gerist eitthvað magnað... segið það satt. Væri kannski hægt að setja út í þetta vanilludropa en svei mér þá, það þarf ekki! Muna bara að bera fram strax! Ég sleikti líka blaðið á matvinnsluvélinni og var nokkuð sama um öryggi minnar eigin tungu!
Ávaxta og berjabomba í morgunmat! Mikið svakalega hefur maður það nú gott!
Með möndlusmjörinu góða og muldum hörfræjum! Möndlusmjörið var geggjað með þessu!
Þetta var alveg svakalegt! Og hugsið ykkur bara... ekkert prótein með þessari máltíð hjá undirritaðri! Ætti að fá verðlaun fyrir þetta!
Ég er farin á pallinn hennar mömmu! Sjáumst kannski í kvöld, töluvert viðbrenndari en núna!
Uppáhalds | Breytt 23.9.2010 kl. 21:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.6.2009 | 09:50
Brokkolísalat sem kemur á óvart
Eitt orð - ÆÐI!
Ég fór í útskriftarveislu til Ernu vinkonu um daginn. Þar smakkaði ég eitt besta salat sem ég hef smakkað í langan tíma. Brokkolísalat með rúsínum, sólblómafræjum, rauðlauk og æðislegri dressingu. Nú veit ég ekki nákvæmlega hvaða undur var sett í dressinguna en ég prófaði að leika þetta ævintýri eftir og viti menn!! GEGGJAÐ! Varð ekkert smá hamingjusöm þegar ég smakkaði hjá sjálfri mér. Svo gerði ég það líka nokkuð hollt. Hunang, sýrður rjómi í staðinn fyrir majones og sykur geri ég ráð fyrir!
Brokkolísalat
1 - 2 hausar smátt skorið brokkolí, svolítið eftir smekk.
1,5 dl rúsínur
1,5 dl sólblómafræ. Ég ristaði mín uppúr 1/4 tsk olíu og smá salti.
1 smátt skorinn rauðlaukur.
Forsteikt beikon, smátt skorið og kælt (ég sleppti því)
Hræra öllu saman nema beikoni.
Dressing:
1,5 dl 5% sýrður rjómi
2 - 3 msk hunang. Ég notaði Acacia hunang, 3 msk. Væri líklega alveg jafn gott með 2 msk.
3 tsk rauðvínsedik
smá salt ef vill
Hræra dressinguna saman og hella yfir salatið.
Ég lét salatið mitt bíða í nokkra tíma inn í ísskáp. Aðallega af því að ég útbjó það klukkan 14:00 og maturinn var ekki fyrr en 19:00. Ef hafa á beikonið með, bæta því þá við eftir að salatið hefur fengið að standa inn í ísskáp, rétt áður en það er borið fram. Ég sleppti reyndar beikoninu alveg, en hafði til hliðar steikt beikon sem hægt var að strá yfir salatið ef viðkomandi vildi. Kom flott út... mjög fott. Þetta salat er brjálæðislega gott og betra eftir geymslu! Hægt að nota með kjúlla, fisk, grillkjöti... hverju sem er! Þetta kláraðist líka upp til agna í matarboðinu!
Prófið þetta salat - þið verðið ekki vonsvikin!
Uppáhalds | Breytt 23.9.2010 kl. 21:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
26.6.2009 | 06:37
Salsa, hvenær dags sem er
Góðan daginn mín kæru!
Gerði einn af mínum uppáhalds grautum í morgun. Yfirleitt set ég nú heilt egg ofan á grautinn en æfingin á eftir kallar. Væri líka gott að bæta við þetta avocado, skinku.. setja ost út í grautinn svo eitthvað sé nefnt!
Salsa hafragrautur með ostsneið, eggi og tómötum
Sjóða saman:
1 dl grófa hafra
1 dl undanrenna
1/4 skeið prótein (má sleppa)
1 eggjahvíta
sletta hot sauce
Hræra blönduna vel saman áður en hún er soðin. Hræra líka vel í grautnum á meðan suðu stendur - eggið gæti annars fest sig skemmtilega við botninn á pottinum.
Hafragrautsskraut:
Ostsneið, að eigi vali, lögð ofan á heitan grautinn. Þar á eftir steikti ég eggjahvítu á pönnu, má vera heilt egg að sjálfsögðu. Mjög gott þegar rauðan lekur yfir grautinn. Lagði eggjahvítuna yfir ostinn. Þar á eftir setti ég kúskús og tómatbland ofan á eggjahvítuna, smá salsasósu, pipar, steinselju og loks sáldraði ég parmesan osti yfir herlegheitin.
Bjúútifúl morgunverður! Gersamlega æðislegur - eins og einn amerískur, ég segi það satt!
Osturinn að bráðna yfir grautinn... mmmm! Jæja, nóg í bili. Ætla að skella mér í ræktarhús og gera eitthvað sniðugt!
Uppáhalds | Breytt 23.9.2010 kl. 21:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.6.2009 | 10:03
Marbella kjúklingaréttur - svíkur engan
Ég lofaði ykkur uppskriftinni síðan í 17. júní matarboðinu og hér kemur hún. Ekki láta þessa snilld fram hjá ykkur fara!
Marbella kjúklingaréttur
1/2 hvítlaukshaus. Um það bil 5 rif.
1/4 bolli origanó
1/2 bolli balsam- eða rauðvínsedik.
1/2 bolli ólífuolía
1 bolli hvítvín
Salt og nýmalaður svartur pipar
1 bolli steinlausar sveskjur. Við notuðum döðlur.
1/2 bolli steinlausar, grænar ólífur.
1/2 bolli kapers ásamt svolitlum vökva
6 lárviðarlauf
1 bolli púðursykur
1/4 bolli fínskorin steinselja
Kjúklingurinn skorinn í bita, raðað í ofnskúffu og saltaður. Mörðum hvítlauk, origanó, ediki, ólífuolíu og hvítvíni er blandað saman í skál og hellt yfir kjúklingabitana. Þarnæst er rétturinn saltaður og pipraður, döðlum, ólífum og kapers dreift yfir og á milli og lárviðarlaufunum stungið á milli bitanna. Kjúklingurinn er svo bakaður við 200 gráðu hita. Fyrstu 20 mínúturnar er gott að ausa vökva yfir kjúklingabitana öðru hvoru. Eftir þann tíma er rétturinn tekinn út úr ofninum, púðursykri er stráð yfir bitana og bakað í 30 - 40 mínútur til viðbótar. Loks er kjúklingabitunum, döðlunum, ólífunum og kapers raðað á fat. Steinselju er dreift yfir og vökvanum hellt í sósuskál. Gott að bera fram með grjónum og brauði.
Við bárum þetta reyndar bara fram í fatinu sem kjúklingurinn var eldaður í og notuðum brauð til að dýfa í soðið eftir að kjúllinn kláraðist. Algerlega geggjað! Það eru því miður ekki til betri myndir af þessum meiriháttar góða rétti, græðgin og hungrið yfirstigu allan vilja til að taka krúttaralegar og fínar myndir
Uppáhalds | Breytt 23.9.2010 kl. 21:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
14.6.2009 | 19:59
Saffran - hollt og gott út að borða
Ég bara varð að deila þessu með ykkur. Einn af mínum uppáhalds "út að borða" stöðum er Saffran. Fæ mér yfirleitt alltaf Saffran kjúklinga salatið. Langsamlega best! Pizzurnar þeirra eru líka æðislegar - á það til að fá mér svoleiðis gúmmulaði á "nammidögum".
Þetta verður nú ekki langt - langaði bara að sýna ykkur hvernig dýrðin lítur út!
Hinn helmingurinn fékk sér Saffran kjúklinginn.
Saman fengum við okkur kjúklinga krakkapizzu. Sem var æði! Kom í ljós að það var KANILL á kjúklingnum!! Þvílík gleði og meiriháttar góð pizza! Héldum reyndar að þetta yrði lítil pizza en sú varð ekki raunin, enda bara rétt tæplega helmingnum torgað!
Undirrituð fékk sér að sjálfsögðu Saffran kjúklingasalat með sesamdressingu - om nom! Þetta er risastór skál skal ég ykkur segja og FULLT af kjúkling!
Saffran kjúklingasalat í þátíð!
Uppáhalds | Breytt 23.9.2010 kl. 21:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.6.2009 | 21:12
Hachala, arabískur þorskréttur
Fórum til mömmu í mat og fengum snilldarlegan þorskrétt, arabískan að uppruna. Það er víst íslensk skvísa að vinna sem kokkur erlendis sem á þessa uppskrift og húrra fyrir henni segi ég nú bara. Þetta var svakalega gott. Grænmeti, smá kúskús og þorskur. Afskaplega skemmtilegt á bragðið og gleðilegt að borða. Einfalt að elda og fljótlegt að sjálfsögðu. Móðir mín kær fiffaði uppskriftina þó aðeins að sinni eldamennsku, breytti og bætti hér og þar. Notaði meira af sveppum, hvítlauk og ólívum svo eitthvað sé nefnt. Kom vel út, segi það satt!
Hachala, Arabískur þorskréttur
1 græn paprika - og rauð
1/2 dolla svartar ólífur - heil dós
1 bakki sveppir - meira af sveppum
2 hvítlauksgeirar - töluvert meira af hvítlauk
nokkrar rúsínu - rúsínum sleppt hjá okkur
smjör
1 sítróna
400 gr þorskur (flök)
gratínostur
tómatur
Þorskurinn látinn liggja í sítrónusafa. Kúskúsið eldað eftir leiðbeiningum og olía og sítrónusafi sett út á þegar tilbúið. Paprika steikt í örstutta stund á hægum hita, þar á eftir er sveppum, hvítlauk og ólívum bætt við. Láta malla í smá stund og kúskúsinu svo bætt við. Eins og með annað kúskús, þá er alveg hreint ágætt að bæta smá smjöri við á þessum tímapunkti en það þarf ekki. Kúskúsblöndunni er hellt í fat, þorskurinn steikur og svo lagður yfir kúskúsblönduna.
Tómötum er þarnæst raðað ofan á fiskinn og osturinn yfir. Grillað í ofni þangað til osturinn byrjar að brúnast.
Mmhmm.. maginn kátur. Ég veit ekki hvað ég borðaði mikið af þessu en við vorum 4 sem sátum við borðið og eftir 20 mínútur voru 2 kíló af fisk horfin af yfirborði jarðarinnar!
Uppáhalds | Breytt 23.9.2010 kl. 21:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)