Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
8.9.2009 | 21:42
Kjúklinga tortillu fiesta
Annarskonar kjúllahittingur hjá fjölskyldufólkinu mínu. Dossu tortillur, ofnhitaðar með nachos og mexico meðlæti.
Valdimar var settur í grænmetisskurð! Með eindæmum vandvirkur og vel að sér í gúrkuskurði! Gúrkan bjóst ekki við þessu... svo mikið er víst! Bolurinn segir alla söguna
Hér eru svo tortillurnar að verða til. Kúskús, ostasósa, kjúlli, grænmeti, salsasósa og nachos krums. Tortillurnar fara svo ofan í fat og ofan á þær bbq sósa og ostur. Inn í ofn þangað til osturinn er bráðinn.
Dekurrófan ég fékk að taka frá gums í mína tortillu áður en púsluspilið, hér að ofan, hófst.
Fjölskyldan mín er yndi. Umburðarlyndara og skilningsríkara fólk er ekki til, hvað mig og mitt matarræði varðar. Mér þykir að sjálfsögðu frábært að geta haldið át-Ellunni í skefjum en, almáttugur, ég missi svo sannarlega ekki svefn yfir því þó átvaglið sleppi laust af og til. Hér koma fjölskyldumeðlimir hinsvegar sterkir til leiks. Þegar allir voru að snæða þetta ofurflotta tortilla hlaðborð...
... þá fékk ég að útbúa mína eigin tortillu, í heilhveiti köku, með minna af sósu o.fr. Ótrúlegt að þetta sé látið eftir mér! Kjúlli, smá grænmeti, salsasósa, smá sýrður og fullt af jalapenos. Eeelska jalapenos í svona mat!
Spáið svo í því... fjölskyldan mín er orðin svo innvinkluð í matarræðið mitt að þau eiga það til að hafa til hliðar eitthvað spes fyrir mig í matarboðum. Amma hafði t.d. heilhveitibrauð með rækjukokteilnum sínum um daginn og móðir mín kær er alltaf með fisk eða kjúlla! Það á að sjálfsögðu ekki að láta svona dillur eftir fólki... ekkert leiðinlegra en að bjóða í mat sem er pillaður til bana eða verra, ekki borðaður! (Ekki að ég geri slíkt) En almáttugur, þetta er ekkert nema yndislegt og auðveldar mér 'réttu brautina' stórkostlega. Sérstaklega þegar matarboð eru jafn tíð og raun ber vitni.
Ég hef oft heyrt sagt, að til að ná árangri á einhverju sviði, breyttur lífstíll á jafn vel við í þessu samhengi og hvað annað, þá sé mikilvægt að fjölskylda og vinir styðji við bakið á manni. Þessari staðreynd er ég hjartanlega sammála. Ég veit ekki hvað ég gerði til að eiga þetta skilið en eitt veit ég þó - Fjölskyldan mín er það flottasta sem ég veit!
Vinir og fjölskylda | Breytt 24.9.2010 kl. 10:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
3.9.2009 | 12:41
Villibráðahlaðborð í hádeginu
Ekki amalegt það!
Enn og aftur heldur dekrið áfram. Inger tók við í dag sem gestakokkur mánaðarins og bauð okkur upp á hreindýrapaté, hreindýrabollur, anda- og gæsabringu carpaccio og risarækjur. Hreindýrið skaut hún sjálf, hvorki meira né minna!
Fiðurféð - það sem eftir er af því!
Hreindýrapaté og RISARÆKJUR! JÍÍÍHAAA! Rækjuævintýrið heldur áfram.
Hreindýrabollur! Leeengst uppi í horninu vinstramegin.
Diskurinn minn! Eintóm hamingja og gleði!
Mikið er nú gleðilegt að vera ég stundum!
Vinir og fjölskylda | Breytt 24.9.2010 kl. 10:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
30.8.2009 | 10:46
Bananapönnsur með hnetusmjörs-súkkulaðisnúning
Jæja, mér tókst það! Kom afmælisdrengnum loks á óvart í morgun, þar sem ég klúðraði því í gær, með sjóðandi heitum afmælispönnsum við vakningu! Svaaakalega góðar verð ég að segja. Ef ég ætti pönnukökupönnu þá hefðu þær orðið rosalegar! Ég er alltaf svolítið hrifnari af þunnu pönnsunum, kannski af því mamma ofurpönnsa setti viðmiðið, en hinar eru alls ekki síðri kostur!
Bananapönnsur með hnetusmjörs - súkkulaðisnúning
1/2 tsk salt
2 tsk lyftiduft
1 tsk kanill
1 egg
1 tsk vanilludropar
1 msk hunang
1 og 3/4 bolli fjörmjólk
1 stappaður, mjög vel þroskaður, banani - má sleppa
Hnetusmjörs súkkulaðiblanda
2 msk hnetusmjör blandað saman við 2 msk eplamauk og 1 msk kakóduft.
Blanda þurru saman, svo blautu. Svo þurru og blautu. Ef þið viljið hafa deigið þynnra, þá er í góðu að bæta við meiri mjólk. Hnetusmjörsblönduna setti ég í lítinn poka sem ég klippti svo eitt hornið af. Auðveldara að skreyta pönnsurnar þannig. Hella deigi á heita pönnu og sprauta hnetusmjörs-súkkulaðiblöndunni strax á pönnukökuna. Þegar bubblur eru komnar í pönnsuna, og hún laus af pönnunni, snúdda henni við í smá stund.
Svona líka flottar og fínar! Tölustafurinn 7 er líka afskaplega ánægður með útkomuna - hann er í miklum breikdans þarna á pönnsunni! Elvis bliknar í samanburði!
Afmælis'hlaðborðið' þegar 'gamli' maðurinn reis úr rekkju!
Úr fókus, mjög ferskur, ný vaknaður (rauð augu og allt) og nokkuð kátur með supplæsið...
...sumar pönnsurnar voru það líka!
Ohh hvað þessar voru barasta fullkomnar. Meiriháttar góðar. Bæði bragðið og áferðin. Bananinn gerir þær líka mjúkar og djúsí. Palli er svakalega hrifinn. Ég á eftir að gera þessar mjög oft í náinni framtíð. Ég ætla svosum ekki að lofa þær neitt frekar - ég gæti það en þið verðið bara að trúa mér. Þær voru MEIRIHÁTTAR! Mmhmm...*pönnsugleði*
Til lukku með daginn þinn Palli minn! Nú er það berjamó í Húsafelli!!
Vinir og fjölskylda | Breytt 24.9.2010 kl. 10:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
22.8.2009 | 22:24
Allt er þegar þrennt er!
Menninganótt og ég sit hér heima, á erfitt með að loka augunum sökum seddu, með bumbuna út í loftið og góni á bíómynd! Gullfalleg sjón, ég get lofað ykkur því. Nokkur kerti eru heiðruð með litlum loga og lamparnir mínir fá að njóta sín fullkomlega.
Allir lamparnir mínir! Líka þessir tveir litlu undir loðkollinum!
Ahh hvað það er notalegt að vera hér heima! Við vorum að koma úr þriðju matarveislu þessarrar viku. Síðasta matarboð sumarsins. September verður meinlæta-mánuður mikill og áti verður haldið í lágmarki. Amk áti umfram það sem þarf til að halda skrokknum gangandi. Fiestan átti sér stað í Gúmmulaðikastalanum. Ég læt myndirnar tala sínu máli!
Fyrsti hluti!
Bananabrauð a-la amma, koníaksleginn-, reyktur- og graflax, rækjukokteill a-la amma (best í heimi) og ávaxabakki.
Annar hluti!
Þriðji hluti!
Sítrónu frómas a-la Amma, ís, hollustu-afmæliskakan, innbakaður Camembert með möndlum, sultu og döðlu ásamt vínberjum a-la Moi.
Guð minn góður! Ef þetta er ekki matarklám þá veit ég ekki hvað! Ég er að springa - ég veit ekki hversu mikið magn af ís ein kroppur getur í sig látið, en ég held ég toppi alla skala! Hollustu-afmæliskakan, það sem eftir var af henni, þótti ofur, mér til mikillar hamingju og gleði!
Jæja mín kæru. Hollustu múrar heimsins hrundu í dag og urðu að dufti! Njótið þess að vera til á menningarnótt og hafið ljúft það sem eftir lifir kvöldsins! I know I will
Vinir og fjölskylda | Breytt 23.9.2010 kl. 22:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
21.8.2009 | 20:51
Afmælis.. jú.. mamma!
Byrjuðum á því að taka óvænt á móti Múmfey í ný-tiltekinni Gúmmulaðihöllinni með Fresítu glasi, einni lítilli afmælismuffins, með kertum, og afmælispökkum...
...svona útlítandi! Svabban var fljót að þrífa þetta framan úr sér!
Afmælispakki númer eitt var iPod fullur af uppáhalds rokkaralögum mömmunar. Þar á meðal Dr. Hook, Elo, Creedence Clearwater, Nazareth, Fleetwood Mac, Frank Sinatra, Aretha Franklin, Mahalia Jackson, Janis Joplin... svaka kát með það. Nú er tími diskaskrifa liðinn!
Meðal innihalds afmælispakka voru að sjálfsögðu myndir af okkur systrum... af hverju að sjálfsögðu veit ég ekki en ungviða-myndahallæri Gúmmulaðihallarinnar var farið að hafa áhrif á lendaávextina svo við redduðum því! Hryllilega prúðar og fínar...
...svona yfirleitt! Ahh.. betra!
Eftir það fékk hún rúman klukkutíma til að gera sig reddí í svaðalegt át á Basil og Lime. Maturinn var æði. Basil og lime er æði. Pasta er að sjálfsögðu mikið í uppáhaldi en ég prófaði í þetta skiptrið humar-risotto og risarækjur á salatbeði. Þvílíkt nammi!
Haldið var heim á leið og fresítan kláruð. Afmæliskakan tekin fram. Hollustukaka með meiru og svona líka hræðilega góð! Með henni voru fersk jarðaber, bláber, sprauturjómi og kókos'sósa'. Mmhmm! Hún vakti lukku! Uppskrift væntanleg!
Gott afslappelsi, gott kvöld, eitt stykki góð mamma!
Svo má ekki gleyma ofurveislunni sem verður í Gúmmulaðikastalanum á morgun. Meðal áts mun verða graf- og reyktur lax, rækjukokteill, Móaflatarkjúlli, heimabökuð bananabrauð, ís og fleira undursamlegt sem ég get ekki beðið með að setja ofan í mig! Uhh.. þessi vika er búin að vera svakaleg.
Vinir og fjölskylda | Breytt 23.9.2010 kl. 22:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
19.8.2009 | 21:54
Afmælis amma
Sjáið nú bara hvað hún er sæt og fín! Óvænt myndataka enda amman sérlega hissa á svipinn.
Allir að góna í matseðlana, nema yfirlýstu ættarhöfðingjarnir og Abbý ofurfrænka!
Ég byrjaði á grænmetissúpu og eggi, smá brauði og eplakrumsi. Eplakrums og brauð ekki myndað sökum ljótleika á disk. Þvílíkt subb hefur sjaldan eða aldrei verið fest á mynd!
Afmælisbarnið byrjaði á koníaksleginni humarsúpu sem reyndist vera rúmir tveir lítrar, afa til mikillar gleði. Gamlan fékk sér þrjár skeiðar og svo gekk súpan í erfðir eftir aldri og græðgis-stuðli!
Aðalréttur hjá mér var steinbítur í mangósósu með rækjum! Barasta fínn. En... barasta fínn!
Í Spaghettisen afmælisgleðinni fannst svo leynigestur. Hann sat með okkur allt kvöldið, ánægður með lífið, tilveruna, bílinn sinn og lætin í okkur þegar afmælissöngurinn var fluttur. Fengum loks formlega staðfest að herramaðurinn heitir Rökkvi. Ekki partur af Nielsen liðinu en svakalega fínn kandídat!
Rúmum tveimur tímum seinna, fjórum afmælissöngvum, óvæntum afmælis-eftirrétt og mikilli gleði hjá Rökkva var förinni heitið heim! Mamma tók sig til og kvaddi fyrir hönd Potts og Pönnu með stórkostlegum tilþrifum. Þetta vakti mikla kátínu borðgesta.
Jæja, þá er ein veisla búin af þremur! Næstu tveir laugardagar fara í mikið át og almenna hamingju. Það mætti halda að jólin væru mætt á svæðið, svo þétt er matardagskráin!
Vinir og fjölskylda | Breytt 23.9.2010 kl. 22:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
19.8.2009 | 12:44
Heimatilbúið slangur
Ofan- og neðangreint tengist mat afskaplega lítið, biðst forláts á því, en ég er búin að vera flissandi yfir þessu síðan í gær og ákvað því að deila með ykkur gleði minni. Lítið brot af fjöslkylduslangri sem sýnir hvað felst í því að vera partur af Spaghettisen! Þetta er að öllum líkindum ekki fyndið fyrir neinn nema mig
Ég geri ráð fyrir því að allar fjölskyldur eigi sitt eigið tungumál. Brandara og orðatiltæki sem enginn utanaðkomandi skilur nema útskýrt sé.
Við í minni fjölskyldu erum miklir slangrarar og Ásbúðaríska og Spaghettihjal er mikið notað.
Orð:
Musi = rass.
Dabbinn = stóru tærnar á mömmu. Því þær líta út eins og hausinn á Davíði Oddssyni.
Gúmmulaðikastalinn = heima hjá ömmu og afa.
Gúmmulaðihöllin = heima hjá mömmu og pabba.
Gúmmulaðihellirinn = heima hjá mér.
Skrandi, skrandmann = hundur, þó yfirleitt Monsi, gamli hundurinn hennar ömmu.
Vondvatna = sódavatn, pepsimax eða moldvarpa eftir atvikum.
Jesúskór, sandalefem = Sandalarnir hans pabba. Einu skórnir sem hann notar. Líka í snjó!
Spaghettisen = fjölskyldan mín
Krilla = lítil stelpa eða kettlingur.
Sleppa, grásleppa = stelpa á aldrinum 8 -13 ára. Mjög nákvæmt hérna.
Bambi = magi.
Bobbi = nafli.
Hafnafjarðarkræklur = fæturnir á systur minni, mér og pabba.
Gúmfey = eitthvað sem er notaleg.
Krumsulegur = slappur.
Orðatiltæki/athæfi:
Joð = t.d. olía. Líka notað þegar laga þarf eitthvað. "Penslum það með joði".
Baka einhvern = klóra á bakinu, gera gott við bak. "Viltu baka mig?"
Verið þið óhrædd = "má bóða þér meira" - "Fáðu þér meira".
Klæja ferlega = Sólarexem. Vitnað í Spánarferð. Hótelið hét Playa Ferrera og allir fengu hræðilegt sólarexem.
"Natten skratten" og "nótt í hausinn á þér" = góða nótt.
Á ég að dreka þig? = ef ógna skal fjölskyldumeðlim t.d. þegar hann er að stela síðustu kökunni.
Fuglenpipendansen = Dansa nakinn kringum rúm konunnar, í svörtum sokkum einum fata, á aðfangadagskvöld, svo konan æpi af skelfingu, uppfull af seddu og gjöfum, og skríði aftur undir sængina í mikilli geðshræringu.
Pútta = Breiða sæng yfir einstakling og pakka honum inn í hana eins og pulsu. "Viltu pútta mig?"
Brúmfadda = purra á maga.
Skranda = vesenast. "Var að skranda til klukkan 4 í gær...". Monsi, hundurinn hennar ömmu var alltaf að vesenast eitthvað.
Einstaklingar:
Gæji svali = afi.
Jesúmaðurinn, sandalafem, evil jesus, Eggið = pabbi.
Jóseppur og Mörfía = pabbi og mamma.
Múmfey = Mamma.
Biðukolla = gráhærð kona, yfirleitt átt við ömmu.
Löggi = Jökull frændi.
Fúfú eða Villimann = systir mín.
Dossa = Soffía frænka (já.. Soffía frænka).
Legga, Sprella, álegg, Leggos, Egglos, Sprelliband, Elli frændi = Ég.
"Þöngull og Þrasi", "Leðurtöskurnar" = afi og amma.
Snepill og Snigill = Ég og systir mín.
Mister Paulsen, Wicked Paulsen = Palli.
Góðir tímar! Annars á hún amma mín afmæli í dag, 72 ára takk fyrir góðan daginn. Til lukku með daginn þinn elsku besta. Við ætlum að koma henni á óvart í kvöld með út-að-borðelsi á Pottinum og Pönnunni. Heppin ég að biðukollan noti ekki netið
Annað í fréttum: Til að halda í tilgang þessa bloggs þá er hér örlítil mynd af því sem ég fékk mér í hádegismat í dag!
Vinir og fjölskylda | Breytt 23.9.2010 kl. 22:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
14.8.2009 | 18:52
Gaman saman... með mat
24.04 Búlgarskar pylsur, sæt kartöflusúpa og byggbrauð.
26.04 Kosningasamkoma. Túnfisksteikur, hambó, kjöt af öllum gerðum og súkkulaðikaka aldarinnar.
10.05 Mæðradagur. Hafraskonsur og heilhveitibollur.
17.05 Júróvision fiesta, ofurhambó og át fram eftir nóttu.
26.05 Heilhveiti crepe í Gúmmulaðihöllinni.
07.06 Hachala, æðislegi arabíski þorskrétturinn.
17. júní. Marbella kjúklingurinn góði, samviskulausa eplakakan og pönnsur.
28.06 Sumarið mætt á svæðið. Grillpinnar, kjúlli og nom brokkolísalatið.
10.07 Æðislegur glænýr Makríll, handsamaður af pabba.
11.07 Systra fiesta. Doritos kjúlli og með því.
12.07 Góður sumardagur. Humar, kjúlli og meðlæti.
17.07 Helgarveisla í Gúmmulaðihöllinni. Smokkfiskur, Marbella kjúlli og banana ís.
26.07 Hádegisbrunch fyrir foreldrasettið.
27.07 Móaflatarkjúllinn sívinsæli!
02.08 Verslunarmannahelgin. Hambó, humar, túnfiskur, smokkfiskur, hörpudiskur... ómægod!
Spáið svo í því, að inn í þetta safn vantar amk. fjórar matarsamkomur sem ekki voru myndaðar, skjalfestar eða skráðar. Það þýðir að vikulega hafi verið matar-hittingur af einhverjum toga. Engin furða að mamma hafi tekið tiltektarkast og rifið aumingja ofnotaða eldhúsið sitt niður!
Okkur þykir svo sannarlega gaman að hittast, borða og hafa það gott. Við virðumst nýta hvert tækifæri til að slá upp matargleði og éta á okkur gat og ekki er allt búið enn! Ónei! Þrenn afmæli núna í lok ágúst, 19, 20 og 30, eldhúsfögnuður móður minnar, heimkoma veiðipabbans... Ég meina, er nokkuð óeðlilegt að halda upp á að ég hafi farið til tannlæknis í vikunni?
Vinir og fjölskylda | Breytt 23.9.2010 kl. 22:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
14.8.2009 | 09:27
Súkkulaðifiesta fyrir Fríðu
Hana Fríðu, í vinnunni minni, langaði svo óstjórnlega í súkkulaðiköku í gær. Ég bjó því til tvennskonar 'heilsusamlegri' útgáfur af súkkulaði-þarfar slökkvurum!
Súkkulaðikaka - skorin í litla bita! Fullkomin með kaffinu var mér tjáð.
Glúteinlausar súkkulaði muffins! Þessar þóttu ofur. Miklar nom muffins!
Báðar útgáfur komu verulega vel á óvart. Þið viljið ekki missa af þessu mín kæru. Uppskriftir svo sannarlega væntanlegar!
Vinir og fjölskylda | Breytt 23.9.2010 kl. 22:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
8.8.2009 | 11:53
Grísaflensa
Erna vinkona á tvo litla naggrísi og bað mig um að passa þá yfir helgina. Hún skrapp út úr bænum. Báðir tveir, greyin, eru með lungnabólgu og það þarf mikið að hugsa um þá og gefa þeim til að koma aftur á legg. Þetta er brot af leiðbeiningunum sem hún skildi eftir handa mér.
Það þarf að gefa þeim sýklalyf, sveppalyf, recovery mat, c-vítamín og magnyl svo eitthvað sé nefnt. Sumt af lyfjunum er grísunum gefið með sprautu, eins og sýkló og sveppó!
Grísunum til mismikillar skemmtunar. Greyið!
Annar grísinn er líka veikur í kjálkunum og getur því ekki tuggið sjálfur. Hann þarf að handmata gegnum sprautu. Tilfæringarnar eru miklar...
...stundum aðeins of miklar!
Fúsi og Gnúsi.
Gnúsi er mikill heygrís og borar sig ofan í heyið sitt þegar færi gefst. Rétt glittir í bakið á honum í græna búrinu.
Annars fékk ég mér banana-ís í morgunmat. Gerði svolítið sniðugt. Í staðinn fyrir að planda próteininu við, í matvinnsluvélinni, bleytti ég upp í því og bætti svo banana-ísnum við það, eftir að hann fékk að maukast. Þá veður blandan ekki svona svakalega fluffy! Með þessu hafði ég svo rúsínu-kanil möndlusmjör í skeiðinni og múslí mér til gmans og gleði. Þetta var gott. Svaka gott!
Næst á dagskrá: Ræktin, stúss, meiri grísagjöf og brúðkaup. Muna bara að mæta ekki í brúðkaupsfötunum í grísagang í eftirmiðdaginn! Útkoman gæti orðið skrautleg!
PS: Engir grísir eða sófar hlutu skaða á meðan grísagjöf stóð.
Vinir og fjölskylda | Breytt 23.9.2010 kl. 22:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)