Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
2.8.2009 | 00:07
Verslunarmannahelgarveisla
Höfum þetta stutt, maginn er of fullur til að heilinn starfi rétt. Öll heilastarfsemi fer í að melta og ég er næstum því hætt að sjá! Familían saman komin í Gúmmulaðihöllinni í kvöldmat. Myndirnar eru því miður ekki meistaralega bjútifúl sökum græðgi!
Fyrir
Humar, hörpudiskur, smokkfiskur, hambó, lamb, túnfisksteikur og HP BBQ.
Hörpuskel vafin inn í hráskinku með döðlubita, laukchutney með hambó og meira lamb sem slapp við grillið í þetta skiptið.
Eftir
Forréttur
Hráskinku harpan og túnfiskurinn með ofur wasabi-sósunni a la Mamma.
Hvítlauksristaður humar og hörpudiskur í rjómasósu og smokkfiskur með kryddsmjöri og papriku.
Aðalréttur
Grillaðir risahambó.
Sætar ofnbakarað kartöflur með osti.
Það sem vantar í aðalréttamyndum eru venjulegar ofnbakaðar kartöflur, lambið, salatdiskurinn, milljón og ein sósa og laukchutneyið sem er án efa mesta nom sem ég set á hambó, fyrr og síðar!
Löngu eftir
Dáinn hambó! Ekki minn hambó... en dáinn engu að síður!
Eftirréttur samanstóð af ís, bláberjum, ostaköku, rjóma og almennri hamingju! Ég fékk mér meira af eftirrétt en góðu hófi gegnir. Ég held ég sé hóflaus... í öllum merkingum þessa orðs!
Gúmmulaðihöllin klikkar aldrei. Þetta var æðislegur matur og æðislegt kvöld!
Vinir og fjölskylda | Breytt 23.9.2010 kl. 22:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.7.2009 | 22:44
Móaflatarkjúlli
Uppáhalds, best í heimi!
Hefð í fjölskyldunni minni! Á rætur sínar að rekja til þeirra daga þegar amma og afi áttu heima á Móaflötinni. Um helgar skúbbaðist öll heila familían til þeirra í kjúkling og almennt helgarstuð. Þegar þessi máltíð er innbyrð fylgja henni mikil læti, mikið stuð, mikið hams og át. Afi leggur undir sig grindurnar og fær að pilla í þær á meðan úlfarnir rífa í sig kjúllakjöt og meðlæti. Amma æpir í sífellu "Verið óhrædd" meinandi "Borðið meira, ekki hætta" og átið stendur yfir í 20 mínútur upp á sekúndu. Enfaldlega af því að maturinn klárast á þessum tímaramma!! Undirstaðan í Móaflatarkjúlla, og það sem gerir hann að besta kjúlla í heimi, er:
Ofnbakaður kjúklingur.
Spaghetti.
Salat og kartöfluflögur eru í raun viðbót frá Dossu frænku. Líka hundurinn sem liggur í bakgrunn, biðjandi til hundaguðsins um að kjúklingabiti fljúgi á gólfið.
Brúnaðar kartöflur.
Brún sveppasósa.
Vantaði reyndar sósulitinn í þessa en hverjum er ekki sama um það - góð var hún.
Heilög hamingja og gleði á einum disk! Það sem mér þykir best, hræðilegt að segja frá, er að skera kjúlla og kartöflur smátt, blanda í spaghettíið og hella sósunni yfir! HOLY SPAGHETTI! Tók því mynd af disknum hjá pabba, hann leit töluvert betur út en minn!
Allir nýliðar í fjölskyldunni, sem dæmi mister Paulsen, eiga það til að fetta upp á trýnið og fussa yfir samsetningunni en trúið mér, eftir eitt smakk er ekki aftur snúið! Við fjölskyldan hittumst reglulega til að graðga í okkur Móaflatakjúlla við mikið slurp, kjams og smjatt! Þetta er kannski ekki hollasti matur í heimi, meira að segja langt frá því - en þessari snilld er ekki hægt að sleppa! Allir nýliðar í dag eru sáttir og geta yfirleitt ekki beðið eftir að herlegheitin verði borin á borð!
Til gamans má geta að þegar við vorum á Ítalíu síðasta sumar rákumst við á ítalskan matargúrú sem heitir Fransesco. Ég sagði honum frá þessari eðal brúnsósu-spaghetti-sykurkartöflu kjúklingahefð og ég hélt að maðurinn myndi flagna úr skinninu "Kartöflur OG spaghetti með brúnsósu? Hvernig kemur kjúlli þessu við?". Iss.. hann veit ekki af hverju hann missir! Hann ætti að heimsækja okkur einn daginn og upplifa fyrsta flokks Móaflatarkjúlla stemningu a la Spaghettisen Mafioso!
Vinir og fjölskylda | Breytt 23.9.2010 kl. 22:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
26.7.2009 | 15:43
Þakklæti
Ég held að maður staldri aðeins of sjaldan við og hugsi vandlega um þá hluti sem gera sálina hoppandi hamingjusama! Hlutir, stórir og smáir, einstaklingar, sambönd, umhverfi - sem maður tekur annars sem sjálfsögðum hlut dags daglega. Sérstaklega núna, þegar svínaflensa og bullandi kreppa dansa trylltan stríðsdans fyrir framan nefið á fólki og gera grín.
Það er ansi margt sem ég er þakklát fyrir í lífinu og ég hef nákvæmlega ekkert til að kvarta yfir. Mér verður það hinsvegar alltaf deginum ljósara hversu dýrmæt fjölskyldan mín og vinir eru og hversu frábæru fólki ég virðist hafa náð að sanka að mér undanfarin ár.
Hinsvegar, þá er þessi bloggfærsla tileinkuð foreldrum mínum. Þau eiga hana alveg út af fyrir sig! Jú, ég ætla sko að vera væmin og nýta mér vefinn til að auglýsa vel og vandlega hversu meyr í hjartanu ég er á þessum annars ágæta sunnudegi! Frábærara fólk og betri foreldra er ekki hægt að hugsa sér. Óteljandi margt sem þau hafa fyrir okkur systur gert!
Þau eru, og hafa alltaf verið, til staðar þegar ungviðið (ég og systir mín) höfum veinað. Allt frá magakveisu upp í mjög dramatíska og hormónatengda ástarsorg. Þau hafa lifað af frekjuköst af öllum stærðum og gerðum, gelgjulæti, prófstress, árekstra, bílskutl, matarnasista og horsnýtt gluggatjöld! Okkur systrum hefur aldrei nokkurntíman vanhagað um neitt og allaf þegar ég stíg fæti inn í gúmmulaðihöllina fylgja því notalegheit og kósýness!
Þar af leiðandi ákvað ég að skella mér til þeirra í morgun og útbúa smá "American style" hádegismat. Þetta er nú hálf ómerkileg matarveisla, til vitnis, um hversu vel ég kann að meta þau, en lítið er meira en ekkert ekki satt? Næst verður það kvöldmatur af stærri gerðinni! Jæja, í boði voru amerískar heilhveiti pönnukökur, steikt egg...
... brokkolísalatið sívinsæla...
...svissaður laukur og sveppir, niðurskornir tómatar, steikt djúsí beikon, bakaðar baunir og vatnsmelóna.
Forréttarnasl var svo hnetumix frá því í gær ásamt nýju hnetumixi. Sætt, karrýristað hnetu- og fræbland! Kom skemmtilega út en ég er hrifnari af hnetum gærdagsins.
Í tilrauna eftirrétt, ef eftirrétt skal kalla, bjó ég til hálfgert flatbrauð úr afgangs pizzadeginu síðan á föstudaginn. Sætt flatbrauð. Innihaldsefni meðal annars bananar og döðlur. Kom ekkert smá vel út. Fullt hús stiga í mínum sætabrauðskladda. Ég set uppskriftina inn í vikunni.
Skál í botn fyrir besta foreldrasetti hérnamegin Alpafjalla og takk fyrir að vera til bæði tvö!
Vinir og fjölskylda | Breytt 23.9.2010 kl. 22:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
17.7.2009 | 23:53
Ég elska nammidagana mína
Höfum þetta einfalt. Matur í gúmmulaðihöllinni, nammidagur = matarsprengja!
Smokkfiskur í bígerð!
Smokkfiskur í hvítlauk og engifer og Marbella kjúklingur! Með smokkfisknum var brjálæðislega góð wasabi sósa!
Banana-ís, breytti lífi margra matargesta í dag! Sló rækilega í gegn hjá ungum sem öldnum!
Meiri ís, rjómaís, ekki myndaður... aðeins meiri ís og... já, meira af ís! Eins og ég gef vel til kynna í titlinum... ég eeelska nammidagana mína!
Vinir og fjölskylda | Breytt 23.9.2010 kl. 21:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
12.7.2009 | 21:09
Nákvæmlega eins og sumardagar eiga að vera
Þvílíkt og annað eins veður... ahhhh! Ég er mikil hitadrós! Ég plumma mig vel í mikilli sól. Vona að ég endurfæðist sem eitthvað dularfullt hitabeltisdýr!
Fórum annars í Ásbúðina í dag. Gúmmulaðihöllin, uppeldisstöðvarnar. Þar tók hann karl faðir minn svona á móti okkur. Frekar góður á því að ditta að hengirúminu. Með flottasta hatt í heimi!
Það var ekki mikið gert í dag annað en að njóta þess að vera til. Hanga á pallinum í sólbaði með fjölskyldunni, narta í nart, spjalla og liggja í hengirúminu! Algerlega bjútifúlt! Kom að Palla 'lesandi' í forsælunni.
Ég troddaði mér auðvitað með í hengirúmið!
Eitt útsýni úr hengirúminu góða!
Annað útsýni... töluvert fínna!
En svo ég komi mér nú að punktinum yfir I-ið. Fullkominn endir á æðislegum degi! Kjúklingur, sætar kartöflur með osti, hýðishrísgrjón, ferskt salat....
...og uppáhaldið mitt! HUMAR! Jííhaaa!
Fyrsti diskur af þremur ásamt narti! Kjúklingurinn fékk systir mín kær að erfa þar sem hún borðar ekki humar. Ótrúlegt að við séum skyldar.
Nú er ég farin út að skokka. Gerist ekki betra veður til skokks. Njótið þess sem eftir er af deginum - hinn fullkomni afslöppunar-leti sumardagur. Vel að mínu skapi!
Vinir og fjölskylda | Breytt 23.9.2010 kl. 21:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.7.2009 | 22:44
Systra fiestaa
Laugardagur, nammidagur.... svo sannarlega!
Bauð brúna Spánardýrinu heim til mín í sjónvarpsgláp og mikið ét! Á boðstólnum var hinn sívinsæli Doritos kjúlli, sem hún er búin að þrá í hundrað ár, og eftirlíking af Doritos kjúllanum fyrir sjálfa mig.
Doritos kjúlla er, eins og flestir þekkja, púslað saman úr Doritos, ostasósu, salsasósu, kjúlla og osti.
Eftirlíkingin var góð. Rauðlaukur, sveppir, paprika og hvítlaukur steikt á pönnu þangað til meyrt, þá kryddað eftir smekk. Smá salsasósu bætt út á pönnuna og gumsinu helt í fat. Smá bbq sósa og hot sauce þar yfir, kjúllinn ofan á og smá salsasósa yfir. Næst er tómatsneiðum raðað ofan á kjúllan, nokkrum Camembertsneiðum ofan á tómatana og pínkulítið af gratínosti þar yfir. Æææðislega gott!
Með þessu var svo heimagert guacamole! Það er einfaldlega best!
Svabba að teygja sig í Doritos! Með þessu var salsasósa, auka Doritos, ostasósa og sýrður rjómi. Skar líka niður heilhveiti tortillur og ofnsteikti - mitt Doritos! Sumardrykkurinn ógurlegi hangir hress á kanntinum, sprite zero (eða kristall), appelsínusafi og frosin jarðaber! Mmmm...
Pínkulítið af þessu En ég var dugleg, fékk mér bara smá! Græna gumsið í fremri skálinni, wasabi hneturnar, er best! Hræðilega ávanabindandi!
Svo bjó ég til hálfgert banana soft serve. Banana ís! Frosnir bananar settir í matvinnsluvél og hrærðir saman í um það bil 5 mínútur. Fyrst mynda þeir hálfgerða kúlu, svo fer matvinnsluvélin á fullt og allt í einu gerist eitthvað stórkostlegt og þeir maukast saman.
Áferðin er fullkomin! Þetta er bilaðslega gott! Ég segi ykkur það - ég aulaðist til að bæta út í þetta próteini, sem var fínt líka en miklu betra þegar bananinn var bara! Ætla að fá mér svona í hádeginu á morgun, kem með flotta mynd þá!
Með berjum, nýbakaðri möndluköku, granola stöng og möndlusmjöri! Óguð!!
Jæja, ætla að halda áfram að horfa á fína skrokka í 300! Mjög greinilegt að þeir hafa aldrei upplifað nammikvöld eins og þetta!
Vinir og fjölskylda | Breytt 23.9.2010 kl. 21:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.7.2009 | 22:51
Stórgóður Makríll
Já, pabbi kom heim af sjónum í gær. Með honum fylgdi glænýr, nánast spriklandi Makríll sem var snæddur í kvöld af forvitnum og gráðugum fjölskyldumeðlimum!
Velt upp úr kryddi og hveiti og steiktur á pönnu. Virkilega, virkilega góður fiskur. Áferðin skemmtileg, bragðið æðislegt - minnti kannski á þorsk eða ál hvað áferð varðar. Mjöög gleðilegt smakk!
Með þessu var ferskt salat og Mango Chutney sem kom frábærlega vel út með fiskinum. Við ætlum að prófa að grilla hann næst. Nokkrir fiskar eftir! Enginn smá lúxus að eiga pabba sem kemur heim með allskonar gúmmulaði, flundurnýtt upp úr sjónum til prufu - lovit!
Eftirréttur kvöldsins, ef eftirrétt má kalla, var besta vatnsmelóna sem ég hef fengið í ár! Ég segi það satt. Rosalega safarík, sæt og crunchy! Nákvæmlega eins og vatnsmelónur eiga að vera. Í bakgrunn sést Wicked Paulsen gúmsla einni sneið græðgislega í sig! Á eftir þessari sneið fylgdi önnur!
Garðurinn hennar mömmu er í blómstra. Ég eeelska... garðinn hennar mömmu! Er svo fallegur ákkúrat núna. Það er svo notalegt að sitja út á palli, út á grasi nú eða í hengirúminu og njóta þess að vera til. Lyktin af öllum blómunum... ahh! Sumar!
Ohhh hvað þessi fiskur var ógeðslega góður!
Vinir og fjölskylda | Breytt 23.9.2010 kl. 21:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.7.2009 | 16:59
Notaleg helgi að baki
Þrátt fyrir víkjandi veikindi þá var þessi helgi eðalfín. Bæði hvað mat, afslappelsi og athafnir varðar. Engin orð, bara myndir. Enda eldaði ég ekki bofs alla helgina!
Klettabrekkan, hótel a la mamma a la Palli.
Sumir orðnir aðeins stærri.
Hádegismatur. Undirrituð.
Hádegismatur. Hornfirðingurinn aka. Palli.
Kaffi Tulinius...
...og hlaðborðið sem því fylgdi! Mjög gleðilegt! Hörð á því og þefaði ekki einusinni af kökunum!
Ekki alveg jafn gleðilegt.. en smakkanlegt.
Ógleðilegt - ósmakkanlegt!
Smá hlé tekið á matarsmkakki, áti og kökusniffi og steinar veiddir af áfergju... einn af mínum laumulegu uppáhalds hlutum!
My prrreccioous! Auðvitað bara hvítir steinar.
Steinarnir voru veiddir á Holtaseli þar sem amma og afi Palla eiga heima. Ekta íslenskur bóndabær sem hefur að geyma amk 200 kindur og lömb. Þar fær maður mjólk beint af kúnni ásamt heimabökuðum kleinum og kringlum.
Fann einn Hornafjarðarmann grillandi humar... en þó ekki gefins!
Af grillinu og beint í brauðið! Humarloka, nahama! Aðeins betra en Hlölli!
Síðdegisát númer 1.
Síðdegisát númer 2.
Og ein svakalega dónaleg gulrót! Síðdegisát númer 3.
Hoffellsjökull.
Kvöldmatur númer 1. Humar! Hvílík tilviljun!!
Kvöldmatur númer 2. Ójá!
Haldið heim kjúklingasalat.
Þá er ég búin að skúbba helginni saman á mjög stórum stiklum í máli og myndum. Það er nú ekkert voðalega erfitt að halda sig réttu megin við línuna þegar farið er í frí!
Vinir og fjölskylda | Breytt 23.9.2010 kl. 21:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.7.2009 | 20:07
Humarhátíð
Það var ákveðið í snarhasti að skunda til Hafnar á Humarhátíðina sívinsælu. Palli er að sjálfsögðu Hafnarmaður frá blautu barnsbeini og við kíkjum þangað af og til þegar vel stendur á. Elska að fara til Hafnar, það er svo notalegt.
Ég, borgarbarnið sem ég er, hafði ímyndað mér að humarhátíðin sjálf samanstæði af fólki, af öllum stærðum og gerðum, kastandi-, sveiflandi-, bjóðandi-, gefandi og syndandi í humar. En nei... ég held nú ekki! Jú, það er fullt af allskonar humarréttum til sölu á þeim 5 'veitingastöðum' sem Höfn hefur upp á að bjóða, en það er nú þannig allan ársins hring. Palla var mjög skemmt yfir hneykslun minni og fáfræði í þessum efnum og kallaði mig græðgisátvagl! Ég get svosum ekki neitað, það er hárrétt hjá honum!
Ég hafði ekki tíma til að taka til nesti sökum skyndiákvörðunar og slappleika sem enn var til staðar í systeminu. Ferðin byrjaði því á Subway kjúklingasalati sem var bara alls ekki svo slæmt og, mér til mikillar furðu, nokkuð ódýrt. Eftir það var brunað af stað enda 5 tíma keyrsla fyrir höndum. Á miðri leið keyptum við okkur epli og skyr til að narta í. Ég notaði eplið mitt til að dýfa í skyrið - það er bara svo miklu skemmtilegra en að borða með skeið! Eins og þið sjáið kannski þá var ekki mikið stoppað á leiðinni...
Þegar á Höfn var komið beið okkar að sjálfsögðu eðal fínt humarsalat. Það gladdi mig óstjórnlega enda hungrið farið að segja til sín. Mjööög gott!
Svo er bara að bíða og sjá hvað kvöldið ber í skauti sér. Kannski er einhver Hornfirðingur að gefa humar eftir alltsaman. Ég þarf bara að finna viðkomandi!
Vinir og fjölskylda | Breytt 23.9.2010 kl. 21:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
28.6.2009 | 18:38
Sumarið er komið
Þetta veit ég... svona er maður nú klár! Þegar garðurinn hennar mömmu er í blóma, ég get legið í grasi, hita, lokað augunum, fundið grilllykt og hlustað á fuglasöng að kvöldi til, þá er sumarið mætt á svæðið! Fullkomið kvöld í kvöld! Matarboð hjá mömmunni, allir saman, grillandi, hlæjandi, borðandi! Notalegast í heimi.
Grillpinnar og kjúlli a la mamma.
Geggjaðar, ofnbakaðar, niðurrifnar sætar kartöflur með púðursykri og hestlihnetum, a la Dossa, ásamt fersku salati.
Sumarsósa a la mamma, til hægri, (sýrður, gúrkur og pickles) og dásamlega gott brokkolísalat a la Moi! Það kláraðist alveg! Þarf að setja inn uppskriftina við tækifæri.
Afinn og Valdís í góðum gír í hengirúminu sívinsæla. Lítið brot af ofurgarðinum hennar mömmu. Hann er mjög bjútifúl ákkúart núna.
Hveitilaus súkkulaði bananakaka með jarðaberjum og ís, í eftirrétt, a la Moi.
Vinir og fjölskylda | Breytt 23.9.2010 kl. 21:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)