Færsluflokkur: Hafragrautur
29.10.2009 | 09:45
Hakkgums vs. snittur
Jæja. Námskeiðið leið og ungfrúin varð svöng. Var að sjálfsögðu búin að pakka niður kvöldmatnum í fyrradag og átti hann tilbúinn í plasti ofan í Hagkaupspoka. Námskeiðið var haldið á Nordica, stútfullt af allskonar fólki í jakkafötum og "fínni" klæðum. Ég, að sjálfsögðu, í sveitó grænu úlpunni minni með loðkraganum og hálf mygluðum bomsum yfir gallabuxurnar. Í fyrsta hléi var boðið upp á léttar veitingar - eins og venjan yfirleitt er. Ég lét það nú ekki á mig fá og vippaði upp Hagkaupspokanum, teygði mig í hakkboxið mitt fyrir framan námskeiðsgesti, sem jöpluðu á samlokum og snittum í rólegheitunum, og hamsaði hakkið með bestu lyst. Mörg augu góndu á átvaglið - sérstaklega þegar myndavélin lét sjá sig, með flassi og heyallíúbba! Þetta var svoo mikið gott hakkgums!
Annars er ég búin að vera að tilraunast með eggjahvítur, steiktar eða örbylgjaðar, í grautinn minn á morgnana. Hafrar, krydd, vatn og smá eggjahvítur hitað saman. Annaðhvort í bylgjunni eða á hellu. Á meðan eru eggjahvítur hitaðar í örbylgju, þangað til nokkuð stífar, brytjaðar niður og bætt út í grautinn ásamt berjum eða ávöxtum.
Ég á nú eftir að prófa meira og 'fullkomna' dýrðina. Þegar það gerist, þá hendi ég almennilegri "útfærslu" hingað inn. Þangað til eru þessar gulleitu myndir það eina sem er á boðstólnum, þar sem sólin er ekki risin kl. 06:00 á morgnana og myndavélin lifir á dagsbirtunni.
En þessi grautur gleður mig. Svo mikið veit ég.
Hafragrautur | Breytt 24.9.2010 kl. 10:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
23.10.2009 | 06:59
Morgunverðarpönnsa
Jebb. Pönnukökur klukkan 6 að morgni. Rændi þessari uppskrift frá Röggu. Átti ekki grasker svo ég lét hafrana liggja í eggjahvítunum yfir nótt. Bætt þá út í deigið smá kanil/vanilludropum/lyftidufti á hnífsoddi. Berin örbylgjaði ég í muss, blandaði 1 msk af þykkt blönduðu próteini og smurði yfir pönnsurnar.
Eggjahvítu- og hafrapönnsur
40 gr. hafrar
5 eggjahvítur
60 gr. grasker (ég sleppti, átti ekki grasker)
vanilludropar
kanill
sætuefni ef vill
Gums af öllum sortum - hörfræ, hnetur, ávextir, krydd...
Hræra saman, hella á heita pönnu - voila. Má hræra saman í blender, með handþeytara, skeið eða einhverju exotísku ef þú ert í stuði.
Afskaplega fínt, áferðaperrinn kátur og maginn sáttur. Stundum er hægt að plata átvaglið með því að bíta í mat sem er í laginu eins og "bannmatur" - kökur, búðingur, pönnukökur... þessar plötuðu svo sannarlega. Síðan væri hægt að bæta allskonar gúmmulaði út í degið. Hnetum, banana, muldum hörfræjum. Eða taka American Style á þetta með eggi og beikoni. Möguleikarnir eru endalausir. Þetta var virkilega mikill gleðimatur.
Jæja, ætla að gera mig klára á æfingu. Hringþjálfun og brennsla, vinna, kvöldmatur, kvöldnasl, svefn, lyftingaræfing, borða, gera Gúmmulaðihellinn upp, borða... NAMMIDAGUR! Svakalegt hvað tíminn líður!
Finnst einhverjum öðrum eins og að pönnsurnar, á myndinni hér að ofan, séu að ulla á sig?
Hafragrautur | Breytt 24.9.2010 kl. 10:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
18.10.2009 | 11:27
Bruscettu hafrar með ólífum og eggi
Fallegur morgunn. Virkilega notalegur. Sit hérna frammi með morgunmatinn minn, kisarnir sofandi í sitthvoru horninu.
Pallinn sefur inn í herbergi og það heyrist ekki múkk úti! Mikil kyrrð yfir öllu.
Bruscettu hafrar með ólífum og eggi
dl af höfrum, rúmlega
1 - 2 eggjahvítur
3 - 4 svartar ólífur
1/4 marið hvítlauksrif
salt, pipar, hot sauce, basilika eftir smekk
2 dl vatn
Hrært saman eftir suðu
1 þunn sneið smátt skorinn rauðlaukur
1 niðurskorinn tómatur
2 - 3 steiktar/örbylgjaðar eggjahvítur
Hafragrautsskraut
1 heilt steikt egg, salsasósa og smá steinselja.
Svo gott þegar eggjarauðan ákvað að leka ofan í grautinn. Hólý mólýness og allir englarnir! Ef þið hafið ekki prófað að setja egg á hafragraut, mæli ég með því að þið gerið það núna! Svaakalega gott!
"Eftirrétturinn" voru frosin jarðaber sem ég stakk ofan í pínkulítið af þykkt blönduðu próteini með kanil.
Væri til í að prófa graut með t.d. blöndu af kryddunum sem voru í kjúllanum í gær. Kanill, cumin, kardimommur, engifer, hvítlaukur og blanda út í hann vel steiktu grænmeti - væri ábyggilega geggjað! Jafnvel útbúa amerískan morgunverð úr graut og bæta við eggjum, beikoni og smá sýrópi!
Hohoooo... ætla að leggjast í víking í grautarkryddi á næstu vikum og sjá hvort eitthvað stórkostlegt eigi sér stað!
Hafragrautur | Breytt 24.9.2010 kl. 10:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
14.10.2009 | 10:24
Laumuber
Haldið þið ekki að ég hafi funduð laumuber í kökudeigsgrautnum mínum í morgun. Jarðaberið sem vildi mest af öllu vera bláber, nú eða vildi bara vera memm! Ó hvað það átti ekki von á því sem koma skal...
...ég hefði nú bara verið heima hefði ég verið þetta jarðaber!
Gott var gumsið og gott var laumuberið.
Hafragrautur | Breytt 24.9.2010 kl. 10:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
30.9.2009 | 10:38
Kökudeigsgrautur
Ohh hvað þessi grautur var geggjaður! Eins og karamella... eins og kökudeig fólkið mitt!! Kökudeig í morgunmatinn!!
Tók mig til í gær og örbylgjaði nokkur frosin jarðaber í múss. Bæti út í þau einni skeið af GRS-5 próteini, kanil og vanilludropum og hrærði vel saman. (mætti örugglega alveg vera annað prótein, hreint, máltíðar.. hvað sem er) Eftir það fór smá sletta af vatni, kannski 1 - 2 msk, út í herlegheitin og loks hafrar þannig að þegar ég hrærði blandið saman, þá var það stíft og mjög þétt. Loks fór lúka af frosnum bláberjum (ekki hituðum) ofan í volgan grautinn, hrært létt saman og inn í ísskáp.
Ég elska vel heppnaða ísskáps/næturgrauta. Þessi var svona blanda á milli hafraköku og næturgrauts. Ég held reyndar að próteinið hafi haft svolítið að segja hérna, er ekki alveg viss. Þarf að prófa aftur með hreinu próteini. Hann var svo fullkomlega fínn að ég hefði getað rúllað upp litlar kúlur og útbúið konfekt. Karamellukenndur með bláberja og kanilkeim. Mhmm..
Þennan geri ég pottþétt aftur. Eins og að borða nammi í morgunmat. Hamingja og gleði í plastboxi fyrir nammigrísinn og áferðaperrann!
Búið... *grát*
Hafragrautur | Breytt 24.9.2010 kl. 10:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
27.9.2009 | 09:51
Grautar-réttari
Skondið hvað allir virðast leggjast í hýði þegar veðrið lætur eins og raun ber vitni. Meira að segja kisarnir mínir fara ekki út heldur hangsa hér inni og sofa. Þetta er hinsvegar fullkomið hafragrautsveður og grautur hinn fullkomni afréttari eftir "fyllerí" gærkvöldsins
Blá- og jarðaberjagrautur. Ósköp klassískur grautur, kanill og vanilludropar og berjunum blandað út í rétt í endann, engin fínheit svosum. Nokkrum berjum er svo komið fallega fyrir ofan á heitum grautnum (frosin blá- og jarðaber). Þegar bláberin byrja að hitna, springa þau og útbúa hálfgerða sósu sem rennur yfir grautinn. Virkilega gómsætt. Væri eflaust geggjað að setja nokkur bláber í pott ásamt smá balsamic ediki/hunangi, sjóða niður og hella yfir. Úhh...
Annars eru fleiri en ég sem telja sjónvarpsgláp góða hugmynd í innipúkaveðrinu!
Njótið sunnudagsins mín kæru. Ég held heilagri letiför minni áfram og ætla að góna á Finding Nemo. Æðisleg teiknimynd!
Hafragrautur | Breytt 24.9.2010 kl. 10:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
22.9.2009 | 09:52
Bláberjagrautur
Hvað er það fyrsta sem þið hugsið um þegar þið heyrið hafragraut nefndan? Heitt gums, stundum hálf bragðlaust, sykur, mjólk... ég er nú búin að útbúa nokkra grauta og þeir geta verið miklu skemmtilegri til átu og ásýndar en margur heldur! Ójá!
Lítið brot af því sem ég hef verið að malla. En... ég hef meðal annars búið til ofurgrauta...
...ísskápsgrauta...
...banana og perugrauta með hörfræjum...
...sætu kartöflu grauta...
...hnetugrauta...
...smákökugrauta...
...pumpkin pie grauta...
...grautarkökur...
...ofnbakaða grauta...
...hafragrauts splitt...
...hráskinku og hunangsmelónuhafra og salsa-egg hafra...
...bolla grauta...
...múslígrauta...
...hnetusmjörskrukkugrauta...
...ljóta grauta...
...bleika grauta...
...græna grauta...
...og síðast en ekki síst. Fjólubláa grauta! Vantar reyndar allt hafragrautsskraut á þessa elsku en það kom ekki að sök. Bláber eru ekkert nema æðisleg! Þó þau séu frosin!
Grautur eins og þér þykir hann bestur (bananagrautur með kanil væri æði hér), 1 skúbba prótein og vanilludropar hitað í potti - nú eða örbylgju. Hella frosnum bláberjunum út í sjóðandi heitan grautinn, hræra sama og sjá hann breyta um lit. Ég setti minn reyndar inn í ísskáp yfir nóttina og gleymdi að taka mynd eftir að skrautið var komið á. En það er allt í lagi. Hann var barasta wünderbar.
Grauturinn er einfaldlega bestur! Það held ég nú.
Hafragrautur | Breytt 24.9.2010 kl. 10:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
16.9.2009 | 10:09
Litli ljóti grauturinn
Mér tókst, í gær, að búa til hræðilegasta lit á hafragraut fyrr og síðar! Mér líður svolítið eins og brjáluðum vísindamanni að búa til sinn fyrsta Franken-graut! Hvernig varð þessi ljótgrautur að veruleika?
Tilraunin fólst í örbylgjuhituðum jarðaberjum, hreinu próteini og ósoðnum höfrum. Setti nokkur ber í skál og inn í örbyglju þangað til þau urðu að hálfgerðu gumsi og byrjuð að bubbla. Út í berin hrærði ég svo próteininu. Fagurbleikt og krúttaralegt. Gomma af ósoðnum höfrum fékk svo að fylgja með ásamt köldu vatni eða þangað til grauturinn var orðinn að mínu skapi. Inn í ísskáp yfir nótt (hafrarnir drekka í sig vökvann). Í morgun blandaði ég svo kanil og vanilludropum út í herlegheitin.. og viti menn! Franken grauturinn varð til! Ég er ekki frá því að einni eldingu hafi lostið niður þegar kanillinn fór út í grautinn og smá "MUAHAHAAAA..." komið frá mér af einhverjum dularfullum ástæðum!
Ljótari graut hef ég ekki gónt á í langan tíma. Hræðilegri lit er ekki hægt að hugsa sér á mat af þessum toga. Húðlitað, semi ljós-fjólubleikt, glansandi... ((hrollur)). En gott var gumsið! Ójá! Karamellukenndur eftir ísskápsveru, rétt hitaður í vinnu örra til þykkingar... mmm! Enda kláraðist hann á met tíma.
Fyrir utan að vera besti morgunmatur í heimi, þá má lærdóm draga af hafragrautsmalli gærdagsins. Ekki er allt gull sem glóir mín kæru! Ljótgrauturinn var góðgrautur engu að síður.
Úff... það er svakalegt hafragrauts zen í gangi hérna! Alveg svakalegt!
Hafragrautur | Breytt 24.9.2010 kl. 10:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.9.2009 | 10:35
Hafrar í margskonar myndum
Sunnudagsmorgunverðurinn tæklaður af einskærri snilld.
Undirrituð.
Frosin jarðaber og próteingrautur með múslí.
Mister Paulsen.
Pönnusteiktir hafraklattar með hnetusmjöri, bönunum, sultu og kókos.
Átti afgangs soðinn graut sem ég bætti út í 2 eggjum, 1/4 bolla kotasælu, 1/2 tsk lyftidufti, 1/2 tsk vanilludropum, 1 tsk kanil, smá hunangi og 'fyllti' svo upp í gumsið með haframúslí, eða þangað til hafrarnir voru rétt húðaðir með blöndunni. Steikti þá svo á pönnu þangað til þeir urðu stökkir að utan en mjúkir að innan. Úr herlegheitunum urðu til 6 klattar. Mjöög góðir og skemmtilegir, með allskonar óvæntum hnetubitum, rúsínum og fræjum! Mmmmm....
Dagurinn rétt að byrja og allt í glimrandi gleðilegheitum!
Hafragrautur | Breytt 24.9.2010 kl. 10:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
10.9.2009 | 10:03
Ég fæ mér bara appelsínu í staðinn!
Eðalgrautur á eðaldegi. Slatti af graut, 1 skeið GRS-5, 1/2 stappaður banani og kanill bundust vinaböndum í glæstri skál og mynduðu þennan langþráða snilldargraut fyrir mig!
Ofan á grautinn setti ég svo vinnumúslí og vinnurúslur. Meðfylgjandi var pínkuponsulítið epli og vatn með C-vítamíni. Þegar grautargleðin var yfirstaðin hlakkaði í mér þar sem fyrsti bitinn af eplinu var að renna upp... en nei! Þegar ég beit, í annars vel útlítandi epli, gerðist ekki neitt. Þetta var ekki epli fyrir nokkurn pening, fyrsti bitinn varð að engu og grænu gleðinni var gefið nafnið Steini!
Örvæntið þó eigi - á rápi mínu um vinnuna fann ég þessa æðislegu skál af appelsínum og fékk mér, sem jafngildir, 1/2 appelsínu. Úff... ég var búin að steingleyma því hvað appelsínur eru æðislegar á bragðið. Sérstaklega nýkomnar út úr ísskáp!
Hafragrautur | Breytt 24.9.2010 kl. 10:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)