Færsluflokkur: Svindl

Stundum er bara ekki hægt að segja nei!

Sama hvað þið þrætið fyrir það.

kökugleði

Stundum... þá er bara ekki hægt...

ostagleði

...að segja nei!

bláberjaskyrtorta og súkkulaðikaka

Þó svo þið bítið ekki í dýrðina þá er heilinn á yfirsnúning, átvaglið óstýrlátt og bragðlaukagúbbinn í 120% vinnu við að framleiða munnvatn!

Ómælord

Mér er sama hvað þið segið.

Pönnsuhrúga

Þó svo út úr ykkur heyrist pent "Nei takk!" og fólk heldur að sjálfsstjórnin sé svo massíf að heilagur andi kæmi ekki til með að hræra við villikvikindinu hið innra!

ofurkaka

Þá er ekki ein fruma innan veggja þinnar sérlega yfirveguðu persónu sem er sátt við það! 

Hlaðborð

Borðið mitt er t.d. geymslusvæði fyrir bollurnar sem hvíla sig í hægra neðra horni myndarinnar hér að ofan!

hummus með sólþurrkuðum tómötum

Það er mjög krefjandi að vera ég ákkúrat þessa stundina!

Mjög... krefjandi!


07.09.1993

17 ár og einn dagur síðan foreldrarnir mínir elskulegir giftu sig.

Þau giftu sig líka snarlega.

Múmfey: "ELÍN... KOMDU INN...".

Átvaglið: "ÆJIIIII, ÉG NEEEENNEKKI... AF HVERJU???".

Múmfey: "VIÐ ERUM AÐ FARA AÐ GIFTA OKKUR!!!".

Upp í kirkju - já ókei þá og já - út í bíl - bílalúgan á McDonalds og brúðkaupsveislan haldin með stæl.

Þar af leiðandi héldum við daginn hátíðlegan og fórum út að borða í gær, ekki á McDonalds þó. Hefði verið mikil kómík í því en sökum jákvæðs brotthvarfs, þessa annars ófögnuðar af matsölustað af vera, af landinu létum við Tapas nægja. Hneisa.

morogfar

Hneisa?

Læt það nú vera.

Leyfum þessari mynd að tala og segjum bara að ég muni fara þangað aftur.

Oft...

Hólíhell

33 árum, átvagli og ófriðarsegg, giftingu, krömdum giftingarhring, Fuglenpipendansen, jólaönd, Gúmmulaðihöll, ofurgarði, musa, hengirúmi, 27 köttum og nokkrum hestum seinna hanga gömlu hrossabjúgun enn saman. Það er nú aldeilis ágætlega fínt segi ég nú bara.

Áfram team hrossabjúgu!

uppahalds

Til hamingju með daginn ykkar í gær mín kæru! Þið eruð það bestaðasta sem ég veit Heart

HEY.... EKKERT SVONA! ÉG VEIT HVAÐ ÞÚ ERT A HUGSA... 

... OG JÚVÍST!

Ég má sko alveg vera vemmileg og væmin inn á milli þess sem ég tek hnébeygjur með þvílíku offorsi að æðin í enninu á mér verður fjólugræn!

Útlendingapistill væntanlegur ásamt endurheimtu þoli. Krossið fingur fyrir mig, þessi mánuður verður drepsótt fyrir skrokkinn.

Yfir og út lundapysjur.


Guðmóðirin

Monday... tuesday... 

Með kökukefli í annarri og chia fræ í hinni situr la mama grande og starir á einn einmana vesaling sem situr á móti henni við matarborðið. Með svitaperlur á enninu, sem glampa í morgunsólinni, og tárvot augun heldur auminginn á "Good morning sunshine" og gónir ofan í bláa Buddahskálina. Skjálfhentur stingur hann skeiðinni ofan í gumsið sem skálin hefur að geyma og við það fellur ein svitaperlan af enninu á honum ofan í skálarmallið.

Guðmóðirin: "Já svona nú vinurinn. Áfram. Borðaðu endilega grautinn þinn. Það eru hörfræ í honum og smá kaffi... eggjahvítur. Rosalega góður."

Ólánsamur einstaklingur: "Gerðu það... ég bið þig... mig langar ek...."

Guðmóðirin leggur kökukeflið varlega á borðið en heldur þéttingsfast um annað handfangið og horfir stíft í augun á manninum.

Guðmóðirin: "Borðaðu... grautinn þinn!"

Ahh... ekkert jafnast á við ofurdrama á mánudagsmorgni eyy??

godmother2

godmothers

Litli snúðurinn fékk hið virðulega nafn Garðar Freyr. Garðar Freyr Valdimarsson. Hljómar vel. Skírður í höfuðið á don Gasso, afa mínum kærum. Ég, sem skírnarvottur og sérleg guðmóðir, átti í miklu basli með að halda neðri vörinni í skefjum þegar uppáhalds gamli hélt á litla múmínálfinum, hálf skjálfandi og biðukollan sömuleiðis.

bidukollanoggasso

Litli fíni frændinn minn. Stóra háværa fína fjölskyldan mín.

Hér er svo Dossan, Valdinn, Valdísin og glænýji Garðarinn.

finafolkidmitt

Veislan var svaðaleg með meiru. Þvílíkt og slíkt át hefur ekki átt sér stað hjá undirritaðri í háa herrans tíð enda var úr miklu að velja. Veiiiiii. Þvílík hamingja.

Ofurveisla

Meiri... óhollustuhamingja

Mömmupönnsur, eplakrumsið mitt (besta hingað til), ofurbananakaramellusprengjukaka (a la moi), muffins, skyrtertur, heitir réttir í tonnatali, rjómasprengjur, pestóbrauð, kransakökugleði, svaðalegasta skírnaterta hérnamegin Alpafjallanna, ostasalöt, ávextir... guð minn góður. Hvernig er ekki hægt að éta þetta allt?

Kemur í ljós að það er barasta ekki... ekki hægt!

Glæzt

Kransakökur eru elskaðar af... mér

Ég fór eina ferð, svo tvær... þegar ég var búin með sjöttu ferðina ákvað ég að nú væri komið gott og fékk mér einn kaffi.

Smá hollusta

Eplakrums, skyrterta

En það var ekki komið gott. Ónei. Ó hvað ég var grunlaus á þessum tímapunkti um hvað átvaglið væri að plotta. Pillið gott fólk, ég mun aldrei losna við pillið.

Valdabrauðið sívinsæla og heitur réttur

Til að gera langa sögu stutta þá var ég ennþá södd þegar ég vaknaði í morgun.

Þetta var góður og gleðilegur dagur. Svo mikið er víst.

Risa súkk, bananaofursprengja með karamellu

Tók annars svaðalegan intervalhring í morgun. Mæli með honum. Æp og vein í fótleggjum, miðju, öxlum og þríhöfða.

5 sek hvíld, 40 sek í vinnu, 3 umferðir af eftirfarandi og alls 18 mínútur. Skuluð gefa vel í í þessari.

  1. Hnébeygja með hoppi - hoppa saman með fætur og beint niður í hnébeygjuna aftur. (27, 23, 23)
  2. Sumo armbeygjur - Armbeygja og þegar þú þrýstir upp, lyfta upp hægri hendi. Svo önnur armbeygja og þegar þú þrýstir upp fer vinstri upp. Alltaf hafa 90° á olnboganum. Sundur með fætur. (12, 8, 7)
  3. Rassabrú, vinstri upp. Liggja á baki, vinstri fótur upp og þrýsta mjöðmum upp. (30, 28, 27)
  4. Rassabrú, hægri upp. (30, 28, 27)
  5. Froskur með armbeygju + hoppi, á einum fæti. Vinstri. (8, 7, 7)
  6. Froskur með armbeygju + hoppi á einum fæti. Hægri. (8, 7, 7)
  7. Liggja á baki með hendur á hnakka og standa upp án þess að nota handleggi. Hratt. (12, 8, 8)
  8. Neðsta staða armbeygjunnar, halda bringu eins nálægt gólfi og kostur er á og lyfta fótleggjum upp til skiptis. (24, 22, 23)

Var sveittari en Hlöðver grís og kátari en þessi sem sprakk úr hamingju þarna um árið þegar ég komst heim í grautinn. Sami gamli kaffi-hvító nema... aha... heslinetusýrópið góða!

sykurlaust hezlihnetusýróp

Og já, það var sko "góða"!

Með kaffinu... ohhh. Hafragrautarhimnaríki.

Redda mér heslihnetum næst sem "Knúsið" í grautinn.

Kaffigrautur með heslihnetusýrópi og kanil

Nákvæmlega 87 gr. eggjahvítur takk! 20 gr. hafrar, 1 msk chia, 1 tsk hörfræ og vatn inn í öbba með hrærustoppum. Út kom dýrðin og við hana var blandað kanil, salti, Néscafé, vanilludropum og heslihnetusýrópi. Toppað með möndlum og fersku, glænýju kaffi. Oojjjjj hvað hann var góður í morgun. Uss.

Kaffigrautur með heslihnetusýrópi og kanil

Nýlagað kaffi, sjóðandi heitt

Hello my pretty

Fann líka þessar krúttusprengjur í Hagkaup. Eflaust til á fleiri stöðum. Kosta meira en eggjabakki samt sem áður svo ég mæli með Garranum og risadunki af hvítum þaðan. En þessi litli peli friðar eggjarauðu-sálina eilítið.

Eggjahvítur

Jæja mín elskulegu bestu. Játningar á játningar ofan. Helgin tækluð í rituðu máli og myndum. Euan vinur minn, hinn ástralski súper kokkur, kemur í átheimsókn í vikunni. Verður spennandi að sjá hvernig hann plummar sig í sláturtíðinni, Hrefnuáti og sviðasmjatti. Þið megið sko alveg búast við allskonar séríslensku fæði á þessari síðu á næstunni.

Annars eru mjög spennó tímar framundan. Allskonar gleðilegt að fara að eiga sér stað og ég mæli með því að þið fylgist með! Held ykkur eigi eftir að finnast svolítið sniðugt það sem komandi mánuðir bera í skauti sér og með ykkar hjálp verður það ofur. Cool


Marzipan mascarpone ostakaka með súkkulaðihjúp

Vakna, búðast, baka, sturta, skírn, át, meira át, ofát, heim, syfja, leti = sunnudagsóhollustupistill.

Ef þér þykir marzipan gott þá klikkar þessi ekki.

Þannig er það nú bara. Ég lýg ekki... hún er... djöðbilaðslega fín!

Mascarpone marsipan ostakaka með súkkulaðisósu og flöde

Botn

200 gr. hobnobs, hafrakex, hvað sem er.

1/2 bolli bráðið smjör

1/4 bolli púðursykur

100 gr. möndlur, ristaðar upp úr smá af smjörinu og saltaðar

Fylling

250 gr. 60% marzipan

1/2 bolli sykur

680 gr. rjómaostur. Ég notaði 500 gr. mascrapone, 180 gr. rjómaost.

5 egg

Innan úr einni vanillubaun

1 tsk vanilludropar

3/4 tsk möndludropar

 

Aðferð

Botn

Allt í matvinnsluvél nema bráðið smjerið. Hræra þangað til smátt, þá hræra smjörinu samanvið og loks þrýsta ofan í 23 cm. smelluform og um það 2,5 cm upp kanntana. Inn í ísskáp á meðan fylling er útbúin.

Botninn

Fylling

Í matvinsluvél hræra vel saman marzipan og sykur. Loks bæta við rjómaosti, vanillu og dropum og hræra þangað til vel blandað. Þá bæta eggjunum út í, einu í einu, og rétt blanda inn á milli. Ekki ofhræra.

Hella loks gumsinu ofan á botninn og inn í miðjan 175 gráðu heitan ofn þangað til kanntarnir eru stífir, en um það bil 3cm hringur í miðjunni hristist. Láta svo kólna inn í ofni í 10 mínútur. Renna hníf með hliðum kökunnar til að losa frá móti. Kæla svo í bökunarforminu á rekka í um það bil klukkustund og svo inn í ísskap í allt að 4 daga.

Ég keypti Anton Berg súkkulaði. Skar niður í litla bita og raðaði ofan á kökuna fyrir bakstur. Þrýsti svo ofan í fyllinguna og bakaði þannig.

Mascarpone marsipan ostakaka með súkkulaðisósu og flöde

Þar sem þessi bjútíbomba var á leiðinni í matarboð, óformlegt matarboð, en matarboð engu að síður, þá skilaði ég módelinu að sjálfsögðu aftur á sinn stað.

Mascarpone marsipan ostakaka með súkkulaðisósu og flöde

Ekkert sem súkkulaðisósa felur ekki!
 
Það er hægt að hella súkkulaðisósunni yfir dýrið og láta harðna, en kannski betra að leyfa fólki að skammta. Sovsan getur falið svolítið marzipanbragðið. Ofboðslega góð þessi köka, það verður bara að segjast. Þétt og góð. Langsamlega best beint út úr kæli þykir mér þó. Gaman að bíta í hana og áferðin fullkomin. Næstum karamellukennd. Spurning um að minnka aðeins marzipanmagið, 150 - 200 gr? Fer eftir því hvort osta eða marzipanfíkilinn hið innra er sterkari. Marzipanið gerir áferðina að sjálfsögðu aðeins kornóttari, 250 gr. sluppu vel til.

Svakalega góð, þétt, mjúk - æði.

Voila. Marzipan ostakaka með súkkulaðisósu og rjóma.

Ég borðaði þessa sneið... aðra til... og svo um það bil 1/4 af allri kökunni eftir að ég andaði hinum tveimur sneiðunum að mér. Þið megið geta ykkur til um magn rjóma sem fylgdi með.

Mmmhmmmarzipan!

Já... ég nota z.


Djúsí gulrótarkaka

Sökum veikinda og uppdópunar hendi ég inn föstudagskökunni. Útbjó þessa fyrir 2 vikum.

Fyrsta skipti sem ég útbý gulrótarköku held ég. En hún er svakalega... svakalega góð og ég er ekki mikið fyrir gulrótarkökur sjálf. Reyndar er þessi útbúin með olíu, þyrfti að finna eina góða með smjeri. Það er hinn alheilagi kaleikur baksturs. Smjör, smjör og meira smjör. Ekkert sem slær því við!

Gulrótarkaka nohm

Gulrótarkaka, mjúk og bragðgóð

2,5 bollar hveiti

1 1/4 tsk lyftiduft

1 tsk matarsódi

1,5 tsk kanill (já, ég nota mikið)

1/2 tsk múskat (nutmeg)

1/8 tsk negull

1/2 tsk salt

3 bollar rifnar gulrætur

1,5 bollar sykur

1/2 bolli púðursykur

4 stór egg

1,5 bolli olía

Vanilludropar, eftir smekk

Sítrónubörkur, eftir smekk

Aðferð:

Hræra saman í stórri skál hveiti - salt. Setja til hliðar. Í matvinnsluvél, saxa niður gulrætur með því rifjárni sem fylgir vélinni. Ég notaði minnsta rifjárnið svo gulræturnar yrðu næstum að hálfgerðu mauki, þykir betra að bíta ekki í gulrótarbita í kökunni minni. Felurætur! Rífa niður um það bil 3 bolla af rótum, kannski 5 - 7 gulrætur. Fjarlægja gulrótahrat úr matvinnsluvélar-skálinni og setja til hliðar. Í matvinnsluvélinni hræra saman eggjum og sykri þangað til létt og ljóst. Kannski 20 sek. Hella olíunni þá hægt og rólega út í og láta vélina ganga á meðan. Hella síðan blautu saman við þurrt, ásamt rótum, þangað til allar hveitirákir eru horfnar og bæta þá út í deigið vanilludropum og sítrónuberki.

Hella í bökunarform og baka í 175 gráðu heitum ofni í 30 - 40 mín, eða þangað til prjónn, sem stungið er í kökuna miðja, kemur til baka hreinn og fínn.

Gulrótarkaka nohm

Leyfa köku að kólna vel áður en kreminu er smurt á!

Þetta veit ég... svona er ég nú klár.

Þetta ætti ég amk. að vita. En átvögl eru og verð átvögl. 

Smjör-rjómaostakremssmurningur á heita múshí köku eru mistök sem ég endurtek ekki aftur í bráð. Litla þunna kremröndin sem sést þarna í kökunni miðri átti einmitt að vera millilagið en nei, nei Elín Helga... smurningin þurfti að eiga sér stað strax.

Dýrið var því penslað með kreminu ógurlega og kakan bókstaflega lak í sundur. Það sem þið sjáið hér er eitthvað sem ég náði að púsla saman með allskonar prjónum og öðrum tiltækum eldhúsáhöldum. Ágætis redding svosum, kakan ekki síðri á bragðið og meira krem fyrir mig að "bjarga".

Krem (hræra saman)

close up450 gr rjómaostur

140 gr. smjör

1 - 2 msk sýrður rjómi

1 tsk vanilludropar

2,5 bollar flórsykur (eða eftir smekk)

Ég bætti svo út í þetta handfylli af ristuðum kókos

 

Hún er æðisleg á bragðið. Virkilega. Kannski svolítið sæt, mætti jafnvel sleppa vanilludropunum (ég er samt svoddan vanillukerling, get aldrei af þeim séð). Hún er mjög djúsí og mjúk og deigó og gaman að bíta í og kremið - kremið er æði! Sítrónubörkurinn kemur líka með skemmtilegt spark í hvern bita.

Þeir sem vilja gætu svo t.d. bætt út í degið rúslum og/eða hnetum.


Strumpar, uppáhalds fólk, matur

Dæmi um strumpa.

Strumpar

Rúslur

Viktor sæti

Dæmi um uppáhalds fólk.

Ernan mín

Svangur?

Dagurinn

Egili

Ernan og Þorbjörg

Mjög svangur.

Dagur orðinn svangur

Brynjan og Lalli litli

Dæmi um mat.

Dáinn?

Snilldarlega vel grillað a la Jens. Með betra lambaketi sem ég hef fengið í sumar held ég barasta.

Lambalundir

Þessi átti upphaflega að vera handa mér!

Sumir eru brenndari en aðrir

Sætar eru sætar

Það sem Egill fékk

En ákveðið var að brenndi bitinn yrði það eina sem Egill fengi að borða af því hann gleymdi ristaða brauðinu.

Sem hefði að sjálfsögðu skipt öllu máli í þessari máltíð!

Brennt... já.. brennt er gott

Mascarpone marsipan ostakaka með súkkulaðisósu og flöde

Svakalega góð, þétt, mjúk - æði.

Hún var ofur þessi... innifalið í marsipan-ostagleðinni voru Anton Berg bitar.

Uppskrift væntanleg.

Rjómi, elsku rjómi

Þetta var dæmi um eitt geypilega notalegt kvöld.

Uppáhaldsfólk er gott fólk.


Vanillu mascarpone ostakaka með möndlubotni

Svona af því að það er að koma helgi.

Gerið þessa í dag, borðið hana á morgun.

Þið sjáið ekki eftir því! 

Vanillu mascarpone ostakaka með möndlubotni

Ofur ostakaka með vanillubaunum

Botn

200 gr. hobnobs, hafrakex, hvað sem er.

1/2 bolli bráðið smjör

1/4 bolli púðursykur

100 gr. möndlur (væri æðislegt að salta þær og rista áður - þá sleppa saltinu hér að neðan)

Smá salt, eftir smekk

Fylling

900 gr. rjómaostur (ég notaði 250 mascarpone)

1 bolli sykur (200 gr. um það bil)

3 msk hveiti

5 stór egg við stofuhita

1/3 bolli rjómi

sítrónubörkur eftir smekk

1 tsk vanilludropar

Baunir innan úr 1 vanillustöng

Toppur - hræra saman í lítilli skál

1 dolla sýrður rjómi

2 msk sykur

1/2 tsk vanilludropar

 

Aðferð

Botn:

Allt í matvinnsluvél nema smjör. Mylja smátt og bæta svo smjöri út í í restina. Hræra saman þangað til úr verður smávegis deig eða bolti. Þrýsta í 23 cm. smellukökuform og upp með hliðum. Kannski 2,5 cm upp með hliðum. Setja inn í ísskáp á meðan fylling er útbúin.

Mmmhmmm

Fylling (tips, hræra á mög hægri stillingu, þú vilt ekki fylla degið af lofti):

Rjómastur -> hveiti í hrærivél. Hræra þangað til vel blandað, 2 - 3 mínútur. Bæta þá við eggjum, einu eggi í einu, og hræra í blöndunni á milli. Bæta þá við rjóma, sítrónuberki, vanilludropum og vanillubaunum og hræra þangað til vel blandað. Taka botninn út úr ísskáp, hella fyllingunni í og inn í miðjan 175 gráðu heitan ofn í 15 mínútur. Lækka þá hitann í 120 gráður og baka þangað til hliðar kökunnar eru stífar og gylltar, en miðjan enn nokkuð blaut. Ef þú kemur við kökuformið þá hristist miðjan smá. Um það bil 1 - 2 tímar, ágætt að byrja að fylgjast með henni eftir 1,5. Ég var með mína inni í um það bil 2 tíma.

Taka dýrið út úr ofninum og bæta toppnum ofan á heita kökuna og aftur inn í ofn í 15 mín.

Taka þá út, losa hliðar kökunnar frá formi með hníf svo ekki komi rifur í kökutoppinn þegar hún kólnar (hún skreppur smá saman) og leyfa að kólna smá í smelluforminu. Setja þá inn í ísskáp (enn í smelluformi) og leyfa að kólna yfir nótt. Best að gera kökuna deginum áður og geyma jafnvel í sólarhring inn í ísskáp.

Mmmhmmm

Svo bara skreyta, gleðjast og borða eins og hugurinn girnist.

Ég bjó til karamellu og hafði með þessu vanillurjóma og bláber. Það var æði!! Og þessi kaka! Fyllinging er algerlega... ohh my god! Hver biti þéttur og silkimjúkur. Vanillan skilar sér vel með smá hinti af sítrónu og smá jógúrtfílíngur í topplaginu. Stökkur saltur botninn er svo toppurinn yfir i-ið. Áferðahimnaríki, vá. Þið getið líka tvöfaldað botninn ef þið viljið meira af ofurkrami, ég ætla að gera það næst - botninn er nú alltaf svo mikið nohm. 

Ég þarf að prófa að útbúa fleiri ostakökur, svo mikið er víst. Amaretto/hvítt súkkulaði, kaffi, súkkulaði, banana/karamellu, hnetusmjörs, kökudeigs...

...óguð!!

Leit að hinni fullkomnu ostaköku er hér með hafin!


Móaflatarkjúlli taka 208377388716...n

Þar sem Spaghettifjölskyldan kemur saman, þar er borðað!

Ég náði mynd af rækjukokteil a la amma áður en honum var alveg stútað.

Rækjukokteill

Sömu sögu er ekki hægt að segja um kjúklinginn og Móaflatarmeðlætið. Hvað þá dúkinn. Hamagangurinn var svo mikill að úlfarnir tættu upp borðið með óhljóðum, búkhljóðum og einstaka urri.

Minn... kjúklingur

Hver sér um sig í þessum átfiestum og þeir sterkustu fá mest að borða!! Ójá! Magn af mat sem hægt er að gúlla skiptir að sjálfsögðu höfuðmáli í þessum efnum. Við vitum ekkert hvað það er að vera fjölskylda, siðmenntuð eða þolinmóð þegar þessar veislur eru haldnar. "FRÁ.. NEI... ÉG VAR FYRST.. KOMDU MEÐ ÞESSA KARTÖFLU - LEGÐU KJÚKLINGALEGGINN FRÁ ÞÉR.. MJÖG.. HÆGT" Spaghetti í hárinu, sósa í eyrunum, kjúlla og kartöflum stungið í vasann ...

Amma að ræna og pilla

...vondu frönskurnar skildar eftir...

evil fries

...sötrað...

spaghettisen

...drukkið...

Sósan drukkin með röri

...verksummerki...

verksummerki

...slátrað...

slátruðum púddunni

...sleikt...

Sykurteitur

...meiri verksummerki og eitt einmana spaghetti að reyna að flýja...

Spaghetti að reyna að flýja

...ÉTIÐ!

Allt horfið

Meira að segja eftirréttirnir áttu ekki séns í myndatöku! Allt eftirátsísskrautið og ísinn er horfið af borðinu.

eftirréttaleyfar

Afgangs kökur síðan í ofurbakstrinum í gær. Svo veðbjóðslega góðar! Ojbara!

Mmmhmmm

15 mínútum, 1 kg af spaghetti, 5 púddum, 2 lítrum af sósu, 1 kg af kartöflum og epískum eftirrétti síðar! Elskubesti sætaðasti nýjaðasti spaghettifrændinn. Lundi í öllu sínu veldi. Yndislega fínt eintak.

Og já, þetta tók bara 15 mínútur. Ótrúlegt að þessi litla púpa eigi eftir að umbreytast í Móaflatarkjúllaætu á komandi árum.

Lundi litli

Og uppáhalds minnsta frænkan en stærsta systirin, Valdísin mín.

Litla fína frænkan

Jebb, þetta er án nokkurs vafa litla frænkan mín!! Cool

Rjóma takk

Buxnastrengurinn orðinn þrengri. Fitumúrinn sprengdur, dáinn... grafinn! Stopptakinn óvirkur.

Allt of langt síðan við Móaflatarkjúlluðum síðast.

Þetta var ekkert.... nema gott!


Varúð... ekki fyrir viðkvæma!

Ekki skamma mig...

...en mig langaði svo í.

Búin að dreyma þetta síðan hér (neðsta setning). Ég naut þess líka í sóðalegasta botn hérnamegin jarðkringlunnar!

Svo langt síðan. Svo langt.... langt síðan.

Já... þetta er sykur!

Lifrarpylsa

Já... þetta er rúgbrauð og sulta!

rúgbrauð og sulta

Já... þetta er subbulegra en ánamaðkur á rigningardegi!

Lifrarpylsa

Já... þetta er steikt lyfrarpylsa með sykri og steikt lyfrarpylsa á milli tveggja rúgbrauðssneiða með sultu! Og já...

...þetta var svo ógeðslega gott að ég fékk gæsahúð á eyrnasneplana!

Húhh. Þetta tók á. Játningum dagsins lokið - ég hef skriftað!

20 armbeygjur

20 froskar með hoppi

150 hnébeygjuhopp

...og þá ætti ég að vera laus allra mála!


Dagur mikillar og góðrar átu

Ákvað að prófa að hlaupa mér til einskærrar brennsluhamingju í morgun. Það er möguleiki að öll rassatækin hafi verið upptekin, rassatæki verandi stigvél, og þar af leiðandi hlaupabrettið tekið með trompi. Ég er nefnilega eins og dvergarnir gott fólk, mjög hættuleg á stuttum vegalengdum! Skæð jafnvel. En mikið lengra en hlaup út um dyrnar og ég sit eftir rymjandi og stynjandi eins og strandað búrhveli! En viti menn! Ég hljóp tæpa 9 km. á 45 mínútum i morgun. Það þykir mér heljarinnar afrek fyrir vanaðan hlaupadurg eins og mig! Ég hleyp aldrei! Ætla að prófa aftur á morgun og sjá hvernig gengur.

Byrjaði daginn eftir brennslu á ávexti sem ég hef ekki fengið mér í langan tíma. Mango! Ó allir heilagir, fullkomlega rétt þroskað. Mjúkt, súrt, sætt - lak í sundur í hverjum bita. Þessi ávöxtur fær fullt hús stiga í minni bók.

mango

Einum bita minna!

Sjáið bara hvað þetta er fín mynd, ljósblátt og heiðgult! Glæsilegt.

meira mango

Ásamt ávextinum var kanilskyr gúllað og möndlurnar mínar.

Kanilskyr og möndlur

Uppgötvaði líka nýja stillingu á myndavélinni minni. Ofurmegamacro sem ég kem án efa til með að nota héðanaf! Gladdi mig óstjórnlega.

almondres

Kvöldmaturinn. Pabbinn kom heim af sjónum, og eins og sönnum veiðara sæmir, með nýveiddan smokkfisk. Þetta er kóngafæða mín kæru. Svakalega gott. Gerist varla betra. Sjáið hvað hann er flottur!!

 Flundurnýr smokkfiskur

Humar og rækjur a la mamma. Prófuðum að setja anís í rjómasósuna og steikja með humrinum! Það er æði!

Anís

Mikil veisla að baki og maginn töluvert meira en barasta sáttur. Vá hvað þetta var svakalega gott elsku fólk. Vildi óska að þið hefðuð getað smakkað. Ef ég ætti að velja mér eitthvað til að borða að eilífu, þá væri það smokkfiskur og íslenskur humar. Oghhh...

Flottur sjávarréttadiskur

Svakalegt svakalegt át

Góður dagur að kveldi kominn. Nú byrjar vika undirbúnings og skipulagningar! Það er eins gott að lát verði á blessuðu frekjukastinu í Eyjafjallajökli! Ég er að fara til Ástralíunnar næsta laugardag elskurnar mínar!

Krossleggið fingur og tær fyrir átvaglið - jafnvel augu!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband