Færsluflokkur: Kjúklingur/Kalkúnn
25.8.2009 | 18:41
Basil kjúlli með ofnbökuðum tómötum og stöppuðum grænum baunum
Eftirlíking af kvöldmat gærkvöldsins með örlitlum breytingum. Var einmitt að hugsa hversu marga mismunandi rétti, úr svipuðum hráefnum, ég gæti búið til. Kannsi ég geri smá leik úr þessu á næstu vikum.
Ég byrjaði amk á því að velta kjúllabringunni upp úr þurrkuðum basil, hvítlauk, salti og pipar og beint í Foremanninn.
Skar einn tómat niður í sneiðar og annan í tvennt. PAM-a bökunarpappír og raðaði tómatsneiðum og -helmingum á pappírinn. Kryddaði með oregano og basil. Inn í 200 gráðu heitan ofn þangað til tómatarnir urðu örlítið dökkir, mjúkir og safinn farinn að leka úr þeim. Í matvinnsluvél, setti ég 100 gr. grænar baunir, hvítlauk, cumin, kóríander, pipar, smá salt ásamt örlitlum sítrónusafa, tahini og létt AB-mjólk. Mín vél var of stór svo ég þurfti að stappa grænurnar í höndunum. Þetta ætti að verða að mauki... þarf að kaupa mér töfrasprota. Hrærði svo saman smá balsamik ediki, hunangi og hunangs dijon sinnepi og nýtti sem dressingu.
Setja baunamaukið á disk, raða kjúllanum ofan á baunamaukið og bökuðum tómatsneiðum ofan á kjúllann. Hella smá dressingu yfir heila klabbið og hafa tómathelmingana aukalega með. Sætar baunir, sætur/súr tómatur, basil, hvítlaukur.. himneskt. Dressingin er líka æðisleg með kjúllanum - á alltaf vel við og bakaðir tómatar eru nammi. Svoo gott og gleðilegt - bæði fyrir bragðlaukana, skrokkinn og sálartetrið! Mmhmm!
Kjúklingur/Kalkúnn | Breytt 23.9.2010 kl. 22:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.8.2009 | 18:42
Einföld hráefni, æðisleg útkoma
Gott, gott, gott! Fjögur hráefni umbreyttust í æðislega máltíð með aðstoð herra Foreman og náins vinar hans, örbylgjuofnsins! Jújú, nútíma letieldamennska í sinni hreinustu mynd! Ungfrúin var svöng þegar hún kom heim úr vinnunni og skrokkurinn hreinlega gargaði á mat hið snarasta.
Frosin kjúklingabringa inn í örbylgju og afþýdd með hraði. Eftir það var dýrið kryddað með oregano, timian, basil, pipar og smá salti og skellt í grillun a-la Foreman, ásamt tómötum og rauðlauk. Á meðan hitaði ég sæta kartöflu í örbylgjunni. Þegar mín heittelskaða sæta kartafla var að verða til skellti ég henni í grillið með hinu gúmmulaðinu svo hún fengi nú líka fallegar grill rendur. Allt fyrir útlitið!
Yfir tómatana fór smávegis þurrkuð steinselja og salt. Aukalega hafði ég með þessu lauk-chutney blandað saman við AB-mjólk. Kom æðislega vel út. Hefði eiginlega ekki þurft því kjötið og tómatarnir voru svo safarík blanda, en kjúllinn og kartaflan áttu vel saman með sósunni. Mmmmhh...
Voila! Hollt, gott, fljótlegt - hráefni sem flestallir eiga til á lager! Bambinn kátur í dag!
Kjúklingur/Kalkúnn | Breytt 23.9.2010 kl. 22:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.8.2009 | 18:18
Endurnýtanlegar umbúðir
Það held ég nú. Þótti ég afar sniðug í kvöld og klappaði sjálfri mér á bakið fyrir vikið. Ekkert sorglegt við það... ekkert uppvask heldur. Notaði boxið frá Siam í gær undir kvöldmatinn minn í dag. Geimvísindi í gangi hérna gott fólk! Geimvísindabox!
Kjúlli, sæt kartafla, GRÆNAR BAUNIR, niðurskorið grænmeti, smá brún hrísgrjón og krydd eftir smekk. Bjó mér til balsamic dressingu og hellti yfir.. hún var geeeðveikt góð!
Fyrir ykkur sem ekki hafa tekið eftir því, þá er ég föst í matarfari! Er með grænar baunir og kjúkling á heilanum! Get svo svarið það. Ætli þetta sé ekk um það bil það eina sem ég er búin að borða í næstum 2 vikur! Það er bara svo auðvelt að fá sér það sem maður vill, sérstaklega þegar Wicked Paulsen er lasinn og lystarlítill. Ég lofa samt sem áður að fara að bæta úr þessu matarhallæri, keypti mér tígrisrækjur í dag.. ohh, get ekki beðið með að útbúa einhvern ofurrétt úr þeim! Er þó búin að bæta svolítið upp fyrir matarfarið (þó þetta tiltekna far sé gleðifar í minni bók) með bakstri og sætabrauðsgerð. Hvað haldið þið að ég hafi fengi mér í eftirrétt?
Ójes! Er að smjatta á einni núna - ómæholymoly! Þær eru lovelyness í kúluformi! MMMhhh....
Kjúklingur/Kalkúnn | Breytt 23.9.2010 kl. 22:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.8.2009 | 18:35
Banana og peru kjúlli
Enn einn ofnbakaður kjúklingaréttur...
...en þeir eru bara svo góðir, og þessi... oh men! Hann heppnaðist æðislega vel. Verst að ég skrifaði ekki niður nákvæmlega hvað ég setti í hann! Það vill oft verða þannig - gúmsla einhverju saman og húha, gleði og hamingja í dós... eða fati... eða bökunarformi...
Bjó til marineringu úr létt-AB mjólk, ögn sýrðum rjóma, hunangi, hunangs dijon sinnepi, paprikukryddi, engifer, chilli, salti, pipar og þurrkaðri steinselju. Skar svo niður 1 banana og 1 peru ásamt 1 bolla af grænum baunum. Hræði öllu saman og leyfði kjúklingalundunum að marinerast í 2 tíma tæpa. Stráði loks yfir herlegheitin rauðlauk, og osti yfir helminginn. Inn í ofn í 40 mínútur, um það bil, eða þangað til kjúllinn er eldaður í gegn.
Skemmtileg tilraun. Mikið bananabragð af kjötinu og smá engiferspark í eftirbragð. Perur og bananar með kjúlla er alveg að gera sig. Nú þarf bara að prófa sig áfram þangað til eitthvað stórmerkilegt gerist! Mér þykja þessi hráefni t.d. æpa hástöfum á kókosmjólk og eitthvað gott karrý!
Kjúklingur/Kalkúnn | Breytt 23.9.2010 kl. 22:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.8.2009 | 12:11
Föstudagar eru góðir dagar
Við erum með svo mikið af kjúkling á lager að kjúklingur hefur verið á boðstólnum í nánast hvert mál í þessari viku. Mér er að takast að rýma frystinn, þetta er allt að koma. Ekki kvarta ég svosum, kjúklingur er gleðimatur.
Tók með mér enn eitt kjúklingasalatið í vinnuna. Hafði að sjálfsögðu grænu gleðina með í þessu mixi, tómat, hunangs dijon dressingu og indversk-ættaðan hýðis-hrísgrjónakladda (reynið að segja þetta 10 sinnum hratt), sem ég bjó til sem meðlæti með kvöldmatnum í gær. Þeir eru góðir. Stökkir að utan, mjúkir að innan... gaaman að borða þá. Ég stalst líka niður í mötuneyti og rændi mér tveimur sneiðum af grillaðri papriku. Æði!
Er svona að spögúlera í því að hádegismata sjálfa mig út ágústmánuðinn. Ég er þeim 'kostum' gædd að elda, undantekningarlaust, of mikið af mat. Við erum yfirleitt bara tvö, en ég virðist alltaf elda fyrir 5 fullfríska Spartverja, sem þýðir afgangur í viku! Stundum frysti ég, en því miður er frystirinn oft síðasta stoppistöð, þeirra skammta, á undan ruslinu. Við verðum að bæta okkur í afgangsáts málum! Svo er þetta flott leið til að halda öllum skammtastærðum innan skynsemismarka. Ég er svartholið sem fer 2 - 3 ferðir og svo eina aukalega til að narta! Græðgin svo mikil að stopptakkinn aftast í hnakkanum er óvirkur. Óhemja er þetta!
Kjúklingur/Kalkúnn | Breytt 23.9.2010 kl. 22:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.8.2009 | 12:05
Heimalagað hádegissnarl
Fyrir matarperra, eins og sjálfa mig, þá þykir mér alltaf skemmtilegt að borða mat sem búið er að blanda saman eins og salat, burrito, pasta, pizzu, Móaflatarkjúlla. Það er að sjálfsögðu alveg jafn fínt að hafa kartöflurnar á einum helming disksins, grænmetið á hinum og kjötið sér, en það er bara einhver fílíngur í því að hræra allt saman.
Bjó mér einmitt til kjúklingasalat í gær. Niðurskorin, grilluð, kjúklingabringa, 2 niðurskornir tómatar og grænar baunir. Kryddað eftir smekk, komið fyrir í glæsilega fínu plastíláti, hitað í örbylgju daginn eftir og toppað með balsamic ediki.
Einfalt, fljótlegt og gott hádegis-spis. Ég og grænar baunir erum miklir félagar þessa dagana!
Kjúklingur/Kalkúnn | Breytt 23.9.2010 kl. 22:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.8.2009 | 20:40
Herra Foreman er vinur minn
Þetta galdragrill fékk ég lánað hjá mömmu. Ég eeelska þessa græju! Þarf ekki að hita "grillið" þessi snilld hitnar strax. Auðvelt að þrífa og eldun tekur enga stund.
Grilluðum nokkrar sætar kartöflur í Formanninum. Þær heppnuðust vel. Urðu stökkar og fínar að utan, mjúkar og djúsí að innan.
Grilluðum svo kjúlla, tók heilar 3 mínútur! Mikil snilld. Kjúllinn var þakinn HP BBQ og kornóttu dijon sinnepi. Virkilega gott.
Með þessu voru svo brún grjón blönduð saman við gular- og grænar baunir.
Ég fékk mér aukaskammt af grænum baunum. Er með mikið fetish fyrir þeim þessa stundina.
Virkilega góður og léttur kvöldverður. Samt sem áður mettandi og jákvæður fyrir bragðlaukana og átvaglið. Maginn stendur ekki út í loftið, núna 3 tímum eftir átið, en samt sáttur og ekki svangur. Gleði gleði!
Kjúklingur/Kalkúnn | Breytt 23.9.2010 kl. 22:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.7.2009 | 18:59
Kvöldmatur 1, 2 og 3
Sársvöng þegar vinnu lauk klukkan 17:00 í dag. Ekkert merkilegt til í gúmmulaðihellinum svo við hentumst inn í Hagkaup og keyptum lauk, sveppi, papriku og tilbúinn kjúlla! Hvað svo? Inn í ísskáp sá ég graskersmaukið góða og hálftóma dós af tómatpúrru. Skyndilega kviknaði pínkulítið ljós! Graskers kjúklinga kássa! Hljómar ekki vel, en kom á óvart og bragðaðist sérstaklega gleðilega!
Graskers 'kjúklinga' kássa
Fyrir 3 svanga eða 4 ekki svo svanga.
Sauð upp kjúklingakraft (notaði tening) og setti til hliðar. Steikti á pönnu, uppúr 1 msk olíu, 1 rauðlauk, nokkra niðurskorna sveppi, papriku og 1 smátt skorið hvítlauksrif. Þegar rauðlaukurinn var orðinn mjúkur þá færði ég rúmlega helminginn af gumsinu í skál (hélt þetta yrði of mikið). Kryddaði laukgumsið sem eftir var á pönnunni með 2 tsk paprikukryddi, 1 tsk kanil, 1 tsk cumin og chillipipar. Ef ég hefði átt kóríander hefði ég notað það líka. Þessu leyfði ég svo að malla í 2 - 3 mínútur. Þá hellti ég 1,5 bolla af kjúklingasoðinu saman við, ásamt 1 bolla graskersmauki, 1/2 niðurskornu epli og 1 msk tómatpúrru. Þessu leyfði ég svo að malla þangað til þeirri þykkt og áferð, sem mér þykir best, var náð. Rétt áður en ég bar gumsið fram þá kreysti ég smá sítrónusafa út í. Hér er þetta enn bara graskers kássa. Sem er reyndar líka æðisleg og hægt að nota í, og með, allskonar réttum.
Ég guggnaði og bætti kjúllanum ekki samanvið, eins og ég litla ljósið sem kviknaði hafði ætlað - hafði hann sér til að byrja með.
En bara til að byrja með!
Hér verður graskers 'kjúklinga' kássan til. Það væri örugglega æðislegt að stinga þessu inn í pítabrauð eða rúlla upp í tortillu.
Þetta var virkilega gott. Graskersmaukið er alger snilld í svona. Væri hægt að útbúa pottrétt (fisk eða kjúkling) og setja ost yfir og inn í ofn, lasagnað sem ég tala endalaust um, pastasósu! Næst prófa ég pastasósu og fiffa uppskriftina aðeins. Bæti út í hana einhverjum góðum osti! Bara æðislegt, sérstaklega þar sem 1 bolli af graskersmauki eru 80 hitaeiningar. Það er ekki neitt!
Mjög gaman þegar tilraunir heppnast vel!
Kjúklingur/Kalkúnn | Breytt 23.9.2010 kl. 22:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
27.7.2009 | 22:44
Móaflatarkjúlli
Uppáhalds, best í heimi!
Hefð í fjölskyldunni minni! Á rætur sínar að rekja til þeirra daga þegar amma og afi áttu heima á Móaflötinni. Um helgar skúbbaðist öll heila familían til þeirra í kjúkling og almennt helgarstuð. Þegar þessi máltíð er innbyrð fylgja henni mikil læti, mikið stuð, mikið hams og át. Afi leggur undir sig grindurnar og fær að pilla í þær á meðan úlfarnir rífa í sig kjúllakjöt og meðlæti. Amma æpir í sífellu "Verið óhrædd" meinandi "Borðið meira, ekki hætta" og átið stendur yfir í 20 mínútur upp á sekúndu. Enfaldlega af því að maturinn klárast á þessum tímaramma!! Undirstaðan í Móaflatarkjúlla, og það sem gerir hann að besta kjúlla í heimi, er:
Ofnbakaður kjúklingur.
Spaghetti.
Salat og kartöfluflögur eru í raun viðbót frá Dossu frænku. Líka hundurinn sem liggur í bakgrunn, biðjandi til hundaguðsins um að kjúklingabiti fljúgi á gólfið.
Brúnaðar kartöflur.
Brún sveppasósa.
Vantaði reyndar sósulitinn í þessa en hverjum er ekki sama um það - góð var hún.
Heilög hamingja og gleði á einum disk! Það sem mér þykir best, hræðilegt að segja frá, er að skera kjúlla og kartöflur smátt, blanda í spaghettíið og hella sósunni yfir! HOLY SPAGHETTI! Tók því mynd af disknum hjá pabba, hann leit töluvert betur út en minn!
Allir nýliðar í fjölskyldunni, sem dæmi mister Paulsen, eiga það til að fetta upp á trýnið og fussa yfir samsetningunni en trúið mér, eftir eitt smakk er ekki aftur snúið! Við fjölskyldan hittumst reglulega til að graðga í okkur Móaflatakjúlla við mikið slurp, kjams og smjatt! Þetta er kannski ekki hollasti matur í heimi, meira að segja langt frá því - en þessari snilld er ekki hægt að sleppa! Allir nýliðar í dag eru sáttir og geta yfirleitt ekki beðið eftir að herlegheitin verði borin á borð!
Til gamans má geta að þegar við vorum á Ítalíu síðasta sumar rákumst við á ítalskan matargúrú sem heitir Fransesco. Ég sagði honum frá þessari eðal brúnsósu-spaghetti-sykurkartöflu kjúklingahefð og ég hélt að maðurinn myndi flagna úr skinninu "Kartöflur OG spaghetti með brúnsósu? Hvernig kemur kjúlli þessu við?". Iss.. hann veit ekki af hverju hann missir! Hann ætti að heimsækja okkur einn daginn og upplifa fyrsta flokks Móaflatarkjúlla stemningu a la Spaghettisen Mafioso!
Kjúklingur/Kalkúnn | Breytt 23.9.2010 kl. 22:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
24.7.2009 | 19:57
Pizzakvöld
Komst að því um daginn, mér til mikillar furðu, að ég hef ekki sett inn á þetta blogg mitt heimatilbúna pizzu! Af hverju, veit ég ekki - en tók mig til og útbjó æðislegt gums í tilefni föstudagsins!
Kjúklingapizza á heilhveitibotni
Bjó til pizzasósu úr því sem ég átti. Nennti ekki út í búð. Var komin í gúmfey heimafötin mín. Sauð saman 1 dós af niðursoðnum tómötum, tómatpúrru, balsamic edik, pínku hunang, dropa af tómatsósu, oregano, basiliku, tveimur hvítlauksrifjum og niðurskornum sveppum. Ofboðslega bragðgóð og skemmtileg. Ætla að prófa að bæta kanil í sósuna næst. Ójá.
Pizzabotninn fékk ég lánaðan frá Café Sigrún. Hann klikkar aldrei 100% heilhveiti, hollusta og gleði. Ég reyndar henti honum saman, áleggið ofan á og beint inn í 180 gráðu heitan ofn í 15 mín, svo grill í 10. Kom ekki að sök. Hann var æði. Notaði reyndar heilhveiti, alveg frábært. Ég og þunnir pizzabotnar erum vinir! Ofan á herlegheitin fóru steiktar kjúklingalundir, steiktir sveppir og laukur...
...paprika, tómatur og sæt kartafla frá því í gær. Á minn helming fór sveppa léttostur og smá mozzarella. Á helminginn hans mister Paulsen fór camembert og mozzarella! Þið megið geta hvor helmingurinn tilheyrir undirritaðri!
Ekkert ævintýralegt í gangi eins og döðlubitar, kanill, jalapeno, pestó, avocado... bara venjuleg "þetta á ég til í ísskápnum" pizza. Sé mest eftir því að hafa ekki grillað dýrið en góð var hún.. mmmm!
Á morgun ætla ég hinsvegar að leika mér svolítið, bjó til nægilega mikið deig í aðra pizzu með...?
Beikonbitum, döðlum, fetaosti og furuhnetum?
Döðlum, banana og hráskinku?
Heimagerðu pestó sem sósu, hnetum og osti?
Svissuðum lauk og sveppum í balsamikgljáa og eitt egg ofan á?
... og svo framvegis!
Uhh.. valkvíði! Sjáum hvað gerist á morgun! Kannski dreymi ég eitthvað sniðugt í nótt sem gefur mér hugmynd um pizzategund morgundagsins!
Kjúklingur/Kalkúnn | Breytt 23.9.2010 kl. 21:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)