Færsluflokkur: Kjúklingur/Kalkúnn

Allt annað en stórmerkilegt

Búin að vera hálf krumsuleg í allan dag. Var alls ekki í skapi fyrir eldamennsku þegar ég kom heim úr vinnu og þakkaði öllum englunum fyrir mín sérlega vel unnu skipulagsstörf í gær! Kalkúnabringa beið mín í ofvæni inn í ísskáp ásamt hinu sígilda ofurblandi Elínar, tómötum, grænum, jalapeno, pipar og smá hot sauce. Húha!

Kalkúnabringa, grænar, tómatar og jalapeno

Eftirrétturinn var að sjálfsögðu handfylli af möndlum. Ég hitaði þessar í örbylgju og stráði pínku salti og kanil yfir. Hvað annað? Þetta er bara nammi!

Ristaðar möndlur með kanil og smá salti

Hinsvegar verða stórmerkilegheitin haldin hátíðleg á morgun. Ég hef ég ákveðið að útbúa mér... jesús, ég hlakka svo til... roast beef samloku í hádegismat fyrir morgundaginn! Hihiii! Það eru 100 ár og 2 mínútur síðan ég fékk mér síðast roast beef. Onei, ekki þessi typical remúlaði laukklessa heldur grænmetisfyllt loka með smá sinnepi. Þær eru svo svaðalega góðar. Átti mjög erfitt með að skipta ekki út kvöldmat dagsins fyrir hádegismat morgundagsins. En ég stóðst prófið!

Þriðjudags roast beef - here I come!


Inglorious Basterds og harðfiskur

Fór í þrjú bíó í dag. Hahh... eitthvað sem ég hef ekki gert í ansi langan tíma. Myndin kom mér nokkuð á óvart, væri vel til í að góna á þessa ræmu aftur. Eins og sönnum Íslending sæmir tók ég galvösk til harðfisk og pecanhnetur áður en lagt var af stað í bíóför. "Bíónamminu" kom ég fallega fyrir í tveimur aðskildum pokum og arkaði, stórum skrefum, framhjá nachos, ostasósu og bíópoppinu sem tekur á móti manni í bíóhúsum landsins. Svellköld! Mynd af herlegheitunum var ekki fest á filmu sökum myrkurs í bíósal, en harðfiskinn ákvað ég að geyma eftir mikið hugsana- og átvaglastríð við sjálfa mig - það er líklegast ástæða fyrir því að 'illa' lyktandi fæða er ekki seld til snæðings í litlum, þröngum rýmum!

Beint úr bíó og heim til ofur ömmunnar í mat. Kjúlli og grænmeti. Einfalt, fljótlegt, nom.

Léttur og ljúffengur ömmukjúlli

Að sjálfsögðu var ís í eftirrétt. Myndin segir ekki alla söguna en góður var hann. Heslihnetur og smartís skreyttu dýrðina. Margfaldið þessa skál með 2,5... og nokkrum smartísum!

Eðalís - ís er bestur

Gúmmulaðihellirinn tók loks við og undirbúningur, fyrir morgundaginn og vikuna, hófst. Grillaði kalkúnabringu í herra Foreman. Hún kemur til með að fæða okkur tvö í hádegis og kvöldmat. Gleðilegt nokk. Það sem kemur, meðal annars, til með að fylgja mér í vinnuna á morgun er biti af ofurbringunni.

Kalkúnabringa - dugir í 2 máltíðir f/2

Valhnetu-, banana og kanilgums.

Valhnetu-, banana- og kanilgums

Já gott fólk... Lucky Charms! Ég mæli ekki með þessu í morgunmat fyrir nokkurn mann - ekki einusinni kettina mína. En þetta kemur til með að fara ofan í mig eftir æfingu á morgun. Það skal líka viðurkennast, hér og nú, að það er ekkert slæmt að narta í Charmsið!

Hræðilegt eftir æfingu lucky charms gums - en samt svo skammarlega gott

Það er alltaf að verða erfiðara og erfiðara að taka fínar flasslausar myndir á kvöldin. Sérstaklega með rassmusar týpunni af mini-vél sem fylgir mér hvert sem ég fer. Ætli ég endi ekki á því að útbúa mér ponsulítið stúdíó í einu horni Gúmmulaðihallarinnar. Þar gæti ég stundað brjálæðislegar matarmyndatökur langt frameftir nóttu...

...matarklám af sverustu gerð! Herre gud og allir englarnir!


Möndluhúðuð kjúklingabringa

Möndlur eru bara ekki nóg í kaffinu! Ekki þegar möndlu-craving er allsráðandi, jafnvel sterkara en grænubaunalöngun mín um daginn! Nokkuð mikið sagt þar!

Jæja. Hrærði saman 1 msk dijon sinnepi, 1 msk grófu dijon, rúmlega tsk hunangs dijon og 1 tsk balsamic ediki, í skál. Bringunum velti ég upp úr sinnepsblöndunni og þarnæst upp úr möndluflögum sem ég hafði stráð á grunnan disk. Beinustu leið þaðan ofan í eldfast mót og inn í 180 gráðu heitan ofn. Ætli þær hafi ekki fengið að malla í 25 - 30 mínútur.

Möndluhúðuð kjúklingabringa

Möndlurnar festast ekki vel á, þarf að vanda vel til verks ef þú vilt að bringan líti svaðalega vel út. Kjúllinn, með möndlunum og sinnepinum, bragðaðist samt afskaplega vel og ég kem pottþétt til með að útbúa þetta aftur.

Með kjúllanum hafði ég 2 niðurskorna tómata, 1/2 bolla grænar baunir og jújú.. meira af möndlum!


Hver er sætastur?

Get ekki dásamað sætar kartöflur nógsamlega! Ég er yfir mig hrifin af þessu fyrirbæri og borða meira af þeim en góðu hófi gegnir. Er, samt sem áður, nokkuð viss um að góði hófskvarðinn, í sætu-kartöfluáti, sé fyrirgefanlegri en aðrir kartöflukvarðar, enda eru þessir appelsínugulu gleðigjafar stútfullir af allskonar heilsusamlegum eindum og atómum! Flókin kolvetni, lár GI stuðull, vitamin A og C, járn, kalk, prótein, trefjar. Könnun á vegum CPSI setur sætu kartöfluna einnig í fyrsta sæti yfir næringarríkasta grænmeti sem fyrirfinnst.. já takk!

Kálblaðs kjúklinga vefja með grænmeti, sætri kartöflu og jalapeno

Fékk mér einmitt, kálblaðs, kjúklingavefjur í hádegismat. Þær innihéldu meðal annars, sæta kartöflu, tómata, papriku, krydd, hot sauce og jalapeno. Eftirrétturinn var að sjálfsögðu sæt kartafla útötuð í kanil! Úhhúhúh... það er svoo gott!


Grænubaunakjúlli

Af hverju ekki að tengja allar máltíðir dagsins saman með einhverjum hætti? Frá bleikum graut yfir í möndlusmjörs bananaloku, í fylgd bleiks gleðigrís, (langsótt en vel-sótt) yfir í grænubaunakjúlla með möndlum.

Grænubaunakjúlli með engifer, hvítlauk, chilli og möndlum

Bleikt, gult, grænt!

Þá er degi stuttra, en gleðilegra, bloggskrifa formlega lokið! Njótið kvöldsins mín kæru.


Hermikráka

Nýtti mér kvöldmatarhugmynd miðvikudagsins í hádeginu í dag.

1. Af því að ég fíla upprúllaðan mat í kálblöðum þessa stundina!

2. Af því að ég á kálhaus heima sem er jafn stór og tunglið Shocking Hann skal nýta!

Bjó mér til hálfgert kjúklingasalat í gær, svipað og ég hef gert áður, með tómötum, sætri kartöflu, grænum baunum, jalapeno, dukkah og öðrum gleðilegheitum. Pakkaði svo niður kálblöðum og salati og skúbbaði með mér í vinnuna.

Kjúklingasalat umvafið kálblaði

Eins og ég hef sagt svo oft áður, þá er, af einhverjum ástæðum, miklu meira fútt í því að borða mat, þegar búið er að rúlla honum upp! Kannski af því að það er svo gaman að geta borðað matinn með höndunum, sem gæti mögulega leitt þá staðreynd af sér að kannski sé svona stutt síðan átvaglið sveiflaði sér niður úr trjánum, ég veit það ekki - en hver sem ástæðan er, þá kætir þessi framsetning á mat mig alltaf jafn mikið!

Húrra fyrir þeim sem bjó til burrito númer 1!


Serrano andinn yfirtekur líðinn

Get svo svarið það. Held að hver einasta vinnusála, sem situr í 10 metra radíus við mig, hafi tekið sig til og valhoppað á Serranos. Ég var að sjálfsögðu ekki minna kvendi og fylgdi í humátt á eftir, svo til nýbúin að hamsa í mig Mexico mat!

Heilhveiti Serrano með 2* kjúlla og gúmmulaði 

Tvöfaldur kjúlli í heilhveiti tortillu með pinto baunum, grænmeti, ost, mildri + miðlungs sósu, smá sýrðum, káli og slatta í poka af jalapenos að sjálfsögðu! Út á hvern bita bætti ég svo 1 - 2 dropum af tabasco. Þegar átið var yfirstaðið voru kinnarnar rauðar, hausinn heitur, andardráttur aðeins tíðari og nefið snýtt stanslaust í amk. 10 mín. 

Smá hádegishiti í skrokkinn er bara jákvætt og gleðilegt mál!


Kjúklinga tortillu fiesta

Annarskonar kjúllahittingur hjá fjölskyldufólkinu mínu. Dossu tortillur, ofnhitaðar með nachos og mexico meðlæti. 

Kjúllastrimlar steikir á pizzapönnu

Valdimar var settur í grænmetisskurð! Með eindæmum vandvirkur og vel að sér í gúrkuskurði! Gúrkan bjóst ekki við þessu... svo mikið er víst! Bolurinn segir alla söguna Wink

Valdimar gúrkuskurðameistari

Hér eru svo tortillurnar að verða til. Kúskús, ostasósa, kjúlli, grænmeti, salsasósa og nachos krums. Tortillurnar fara svo ofan í fat og ofan á þær bbq sósa og ostur. Inn í ofn þangað til osturinn er bráðinn.

Dossu tortillur

Dekurrófan ég fékk að taka frá gums í mína tortillu áður en púsluspilið, hér að ofan, hófst.

Ellu s�rf��i

Fjölskyldan mín er yndi. Umburðarlyndara og skilningsríkara fólk er ekki til, hvað mig og mitt matarræði varðar. Mér þykir að sjálfsögðu frábært að geta haldið át-Ellunni í skefjum en, almáttugur, ég missi svo sannarlega ekki svefn yfir því þó átvaglið sleppi laust af og til. Hér koma fjölskyldumeðlimir hinsvegar sterkir til leiks. Þegar allir voru að snæða þetta ofurflotta tortilla hlaðborð...

Kjúklinga tortilla hlaðborð

... þá fékk ég að útbúa mína eigin tortillu, í heilhveiti köku, með minna af sósu o.fr. Ótrúlegt að þetta sé látið eftir mér! Kjúlli, smá grænmeti, salsasósa, smá sýrður og fullt af jalapenos. Eeelska jalapenos í svona mat!

Ellu heilhveiti tortilla með jalapenos og grænmeti

Spáið svo í því... fjölskyldan mín er orðin svo innvinkluð í matarræðið mitt að þau eiga það til að hafa til hliðar eitthvað spes fyrir mig í matarboðum. Amma hafði t.d. heilhveitibrauð með rækjukokteilnum sínum um daginn og móðir mín kær er alltaf með fisk eða kjúlla! Það á að sjálfsögðu ekki að láta svona dillur eftir fólki... ekkert leiðinlegra en að bjóða í mat sem er pillaður til bana eða verra, ekki borðaður! (Ekki að ég geri slíkt) En almáttugur, þetta er ekkert nema yndislegt og auðveldar mér 'réttu brautina' stórkostlega. Sérstaklega þegar matarboð eru jafn tíð og raun ber vitni.

Ég hef oft heyrt sagt, að til að ná árangri á einhverju sviði, breyttur lífstíll á jafn vel við í þessu samhengi og hvað annað, þá sé mikilvægt að fjölskylda og vinir styðji við bakið á manni. Þessari staðreynd er ég hjartanlega sammála. Ég veit ekki hvað ég gerði til að eiga þetta skilið en eitt veit ég þó - Fjölskyldan mín er það flottasta sem ég veit! Cool


Marakóskur kjúklingaréttur - GEGGJAÐUR

Ó vá... eina sem ég get sagt! Almáttugur hvað þetta var svakalega gott! Takk fyrir Antje mín! 

Marakóskur kjúklingaréttur í vinnunni í dag, í boði Antje minnar. Starfsmenn fyrirtækisins taka sig til, einn og einn í einu, einusinni í mánuði, og elda sinn uppáhalds mat fyrir hina úlfana. Antje tók þetta svona líka með stæl. Geggjaður réttur, æðislegur hádegismatur!

Antje ofureldari

Antje er með ofnæmi fyrir lauk svo honum var með öllu sleppt í þessari uppskrift. Kom svo sannarlega ekki að sök, mikið gúmmulaði sem þetta var! Örn, vinur hennar, matreiðslumeistari með meiru á þessa uppskrift. Er með æðislega veisluþjónustu! Ég mátti til með að segja frá, svo gott var Þetta! Döðlur, aprikósur, hnetur, negull, engifer, cumin fræ, kanill... ómægod!

Antje og ofurkjúllinn

Ég át of mikið. Guð minn góður ég er að springa - en ég gat bara ekki hætt! Uppskriftina má nálgast hér! Mmmmhmm.... búin að nóta þetta niður á uppáhaldslistann!


Meiri kjúlla takk

Ég hef mikið verið spurð út í það hvernig ég haga matarræðinu hjá mér, bæði hvað varðar prótein, lengd milli máltíða, máltíðaval, nammidaga ofr. Hvernig ég æfði til að ná kjörþyngd og hvernig ég hef æft til að viðhalda henni síðan ég tók 'lífstíls' breytinguna með trompspjaldinu á síðasta ári. Þetta er mér mikið hjartans mál og áhuginn gríðarlegur í þessum efnum. Reyni að vera hvatning fyrir fólkið í kringum mig án þess þó að predika. Stundum er barasta ágætt að fá smá start, sérstaklega ef grunnurinn er ekki mikill. Virkilega gaman að geta gefið örlítið meðaljónaráð, þó það sé ekki nema bara að beina einstaklingum á rétta braut. Athugið samt að:

1. Ég er ekki næringarfræðingar spesíalisti.

2. Ég er svo sannarlega ekki einkaþjálfarakyns.

3. Lífstílsbreytingin var 100% fyrir sjálfa mig. Heilbrigð sál í hraustum líkama. Átvaglið samt sem áður ánægt og 'mjónubrækurnar' á lista yfir föt sem má nota.

4. Ég er ekki vaxtarræktar ofurkvendi eða fitness keppandi. Er ekki endilega að leita eftir útliti gríska guðsins, vil þó ekki vera með búddah bumbuna eða sýna á mér rifbeinin, en sækist í tónaðan og fínan skrokk.

5. Meðaljón sem náði af sér tæplega 20 kg. og hefur haldið þeim í burtu.

6. Hugarfarið mín kæru! Þetta er ógeðslega skemmtilegt Smile

Ef þið hafið áhuga á að spyrja mig út í eitthvað þessu tengt, þá skal ég glöð svara ykkur eftir bestu getu. Ég kem til með að svara í takt við það sem ég hef verið að gera og hvað hefur hentað mér hingað til. Það er alltaf gott að tala við aðra meðaljóna og bera saman bækur í þessum efnum, en ekki endilega fyrir alla á veraldarvefnum til að sjá. Netfangið mitt er kunigund [hjá] gmail [punktur] com og ykkur er velkomið að senda á mig spurningu ef ykkur langar til.

Fékk mér svosum ekkert merkilegt í kvöldmatinn. Enn og aftur að leika mér með svipuð hráefni og ég hef veirð að nota í vikunni. Steikti saman lauk, tómat, hvítlauk og papriku. Kryddaði með salti, pipar, oregano og basil. Steikti þangað til meyrt og bætti þá við nokkrum dropum af hot sauce. Kjúllanum velti ég upp úr pipar, papriku og chilli. Jú.. kjúlli í Foreman og dressingin útbúin úr balsamic ediki, smá hunangi og sinnepi. Ég eelska sætt með sterku!

Grilluð kjúklingabringa með steiktu grænmeti

Svo þurfti ég auðvitað að skreyta með steinselju og Dukkah möndlukryddi. Það er svo gott á bragðið. Bara flott og góð máltíð! Endaði hana að sjálfsögðu á einni þurrkaðri döðlu, möndlusmjöri, macademia hnetu og 80% súkkulaðibita! Ójes beibís!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband