Færsluflokkur: Kvöldmatur
8.7.2009 | 20:04
Grænmetis sjúklingur
Ég er búin að vera sjúk í ofnbakað grænmeti alla vikuna og það virðist ekkert lát vera þar á. Ofnbakaðar sætar kartöflur, gulrætur, blómkál, laukur (allskonar), paprika... ohh það er svo gott! Bjó mér til semi tortillu í kvöld fyllta af ofnbökuðu ofurgrænmeti og afgangs kjúkling. Hitti svona líka beint í mark!
Tortilluna hrærði ég saman úr 1 dl eggjahvítum, 1 msk próteini, hot sauce, oregano, salti og pipar. Steikt á pönnu þar til eggin eru steikt í gegn. Tók þá grænmetið, kryddaði með chilli, papriku, engifer, dukkah og smá curry paste - nánast copy paste (Curry paste - copy paste.. hahh!) af síðustu máltíð, þið sjáið kannski mynstrið?
Rúllaði eggjahvítu tortillunni upp, utan um gumsið...
...afrakstur "erfiðisins" myndaður í bak og fyrir!
Ojjjj hvað þetta var gott! Endalaust kátur maginn ákkúrat núna! Holl, GÓÐ og fljótleg máltíð, full af hamingjusömum og gleðilegum kolvetnum, próteinum, fitum og guð má vita hverju öðru! Ég sit líka hérna með bumbuna út í loftið svoleiðis pakksödd!
Vona svo sannarlega að þið hafið notið kvöldmatarins jafn vel og ég! Mmhhhmm...
Kvöldmatur | Breytt 23.9.2010 kl. 21:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.7.2009 | 19:58
Bragðgóður hallæris kvöldmatur
Verður ekki einfaldara. Næstum því ekki hægt að kalla þetta eldamennsku. Réttara að kalla þetta samsetningu! Tilbúinn kjúlli, frosið grænmeti, ferskt niðurskorið grænmeti, krydd og tadaa! 'Tandoori' kjúklingur með grænmeti og dukkah kryddi.
1. Kaupa tilbúinn kjúkling eða nota afgangs kjúkling. Ef þú ert grand á því, steikja, baka, hita, grilla kjúlla sem þú þegar átt.
2. Kaupa frosið grænmeti, nema að sjálfsögðu þú eigir það í ísskápnum. Asian stir mix eða wok blöndu.
3. Bæta við fersku grænmeti að vild. Ég bæti yfirleitt við mix eins og þetta, gulrótum, sætum kartöflum, lauk, sveppum, brokkolí ofr. Stundum set ég ananas og baunir saman við.
4. Henda grænmeti inn í ofn, eða steikja á pönnu, þangað til gulræturnar eru al dente.
5. Setja grænmeti og kjúkling í skál og krydda með því sem vill. Ég notaði engifer, chilli, papriku, hvítlauk og dukkah krydd með möndlum. Það er æðislegt! Líka gaman að bæta við svona sambland hnetum - kasjú! Oghh..
6. Í lokin hræri ég saman við gumsið blöndu af létt AB-mjólk og Tandoori curry paste. Alltaf gaman að eiga svona krukku í ísskápnum. Sérstaklega þegar hippa-máltíð eins og þessi er á boðstólnum!
Flott ét, þó myndin gefi kannski annað til kynna. Bragðið er frábært, rétturinn fullur af grænmeti, prótein úr kjúllanum og maturinn til á innan við 30 mínútum! Það held ég nú!!
Kvöldmatur | Breytt 23.9.2010 kl. 21:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.7.2009 | 19:24
Aðkeypt veikindasalat með humri
Hið langþráða humarsalat Saffran kom í hús í dag! Palli kom heim með kvöldmat handa veika kvendinu alveg upp úr þurru! Gladdi mig óstjórnlega þar sem:
1. Ég hef hvorki getu né vilja til að elda nokkuð.
2. Ég var orðin mjöög svöng.
3. Ég hef viljað prófa þetta salat síðan ég sá það.
Gripurinn leit svona út... doldið sjabbí á að sjá í plastboxi, en gefum þessu séns. Þetta er ekki náttúrulegt umhverfi þessa salats!
Ohhh... stóðst ekki væntingar! Saffran kjúklingasalatið hefur enn vinninginn! Þetta var í raun bara steiktur humar með hálfgerðri sinnepssósu. Ekki misskilja, humar er alltaf númer 1, 2 og 3. En salatið og dressingin gerðu ekkert fyrir réttinn. Ojæja... ég fékk þó humar í magann og það er alltaf jákvætt.
Ahh, gott að eiga góðan kall.
Kvöldmatur | Breytt 23.9.2010 kl. 21:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.6.2009 | 20:15
Stiklað á stóru
Sumarið er komið og grillið orðið partur af eldamennskunni... mér líkar það vel. Kvöldmaturinn var æði. Grillaður lax og rækjur á spjóti. Laxinn var eðal.
Fengum okkur sætar grillaðar kartöflur með. Sumar voru kanilstráðar... mmmhmm!
Salatskál með tahini dressingu. Tahini, dijon, hunang, ab-mjólk...
Ég veit... ég er ógeð... en ég borða roðið af laxinum þegar búið er að grilla það í döðlur! Skelfilega gott!
The end! Út að leika...
Kvöldmatur | Breytt 23.9.2010 kl. 21:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.6.2009 | 18:38
Sumarið er komið
Þetta veit ég... svona er maður nú klár! Þegar garðurinn hennar mömmu er í blóma, ég get legið í grasi, hita, lokað augunum, fundið grilllykt og hlustað á fuglasöng að kvöldi til, þá er sumarið mætt á svæðið! Fullkomið kvöld í kvöld! Matarboð hjá mömmunni, allir saman, grillandi, hlæjandi, borðandi! Notalegast í heimi.
Grillpinnar og kjúlli a la mamma.
Geggjaðar, ofnbakaðar, niðurrifnar sætar kartöflur með púðursykri og hestlihnetum, a la Dossa, ásamt fersku salati.
Sumarsósa a la mamma, til hægri, (sýrður, gúrkur og pickles) og dásamlega gott brokkolísalat a la Moi! Það kláraðist alveg! Þarf að setja inn uppskriftina við tækifæri.
Afinn og Valdís í góðum gír í hengirúminu sívinsæla. Lítið brot af ofurgarðinum hennar mömmu. Hann er mjög bjútifúl ákkúart núna.
Hveitilaus súkkulaði bananakaka með jarðaberjum og ís, í eftirrétt, a la Moi.
Kvöldmatur | Breytt 23.9.2010 kl. 21:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.6.2009 | 13:46
Portobello pizza
Já... ekkert nema risastór fylltur sveppur! Þessi pottlok eru jafn stór og andlitið á mér!
Hreinsa með smá vatni og þerra. Taka stilk í burtu ásamt svarta krumsinu (sem ég man ekki hvað heitir ákkúrat núna) og stilla ofn á 180 - 200 gráður, grill.
Pensla sveppinn með smá olíu, setja sveppinn á bökunarpappír, toppinn upp, og inn í ofn, 5 mínútur. Snúa þá dýrinu við og grilla í 2 mínútur. Taka sveppinn út úr ofninum.
Setja pizzasósu, pastasósu, salsasósu... ef vill, ofan í sveppinn...
...og raða því áleggi ofan á sem vill. Svissaður rauð-, skallot og hvítlaukur, kalamata ólívur, sólþurrkaður tómatur og paprika.
Ég bætti líka við 1/2 kjúklingabringu sem ég steikti upp úr smá olíu, saltaði og pipraði.
Toppaði með osti, tómötum og oregano.
Aftur inn í ofn með sveppinn, grilla þangað til osturinn byrjar að bubbla og sveppurinn mjúkur. Mætti líka grilla hann á útigrilli.
Óbeibí - nahaaam! Grillaður portobello pizza sveppur! Woohoo!
Ég er alveg að fíla það að fylla grænmeti af gumsi! Þetta var gott... svakalega gott.
Geri þessar elskur pottþétt aftur! Pizza og 0% samviskubit! Óje!
Kvöldmatur | Breytt 23.9.2010 kl. 21:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.6.2009 | 18:54
Hvað er í kvöldmatinn?
Hinn helmingurinn tók við kvöldmatsbraski í dag. Við mættum heim úr vinnu, mér var hent út úr eldhúsinu og mátti ekki, undir neinum kringumstæðum, stíga fæti þar inn fyrr en ég heyrði gargað "VERSOGOOOO"! Ég held það sé kominn tími til að gefa aumingja manninum nafn. Hinn helmingurinn heitir sumsé Páll.. Palli. Mister Paulsen eða Wicked Paulsen, á Spaghettisen-ísku, af óútskýranlegum ástæðum!
Mjög stressandi að vita ekki hvað er í matinn. Sérstaklega fyrir forvitnisátvagl eins og mig. Voðalega fín frú... sat og góndi á Rachael Ray á meðan ég beið eftir matnum! Ég var samt mjög dugleg og gargaði bara einusinni "PALLI...."! Og viti menn, í matinn var hvorki meira né minna en...
...KANIL Kjúklingur! Woohooo... með döðlum, afgangs hráskinku og Dukka kryddi. Með þessu var vatsmelónu, appelsínu og möndlusalat ásamt tómötum.
NAMMÓ!! Læt strákinn henda uppskriftinni hérna inn bráðum. Þennan fugl ætla ég að elda aftur! Salt á móti sætu, karamelliseraðar döðlur inn á milli þess sem maður bítur í sesamfræ. Dukka kryddið gefur skemmtilegt spark í hvern bita og kanilbragðið viðloðandi allan tímann. Bara gott!
Hip hip húrra fyrir Wicked Paulsen!
Kvöldmatur | Breytt 23.9.2010 kl. 21:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.6.2009 | 10:03
Marbella kjúklingaréttur - svíkur engan
Ég lofaði ykkur uppskriftinni síðan í 17. júní matarboðinu og hér kemur hún. Ekki láta þessa snilld fram hjá ykkur fara!
Marbella kjúklingaréttur
1/2 hvítlaukshaus. Um það bil 5 rif.
1/4 bolli origanó
1/2 bolli balsam- eða rauðvínsedik.
1/2 bolli ólífuolía
1 bolli hvítvín
Salt og nýmalaður svartur pipar
1 bolli steinlausar sveskjur. Við notuðum döðlur.
1/2 bolli steinlausar, grænar ólífur.
1/2 bolli kapers ásamt svolitlum vökva
6 lárviðarlauf
1 bolli púðursykur
1/4 bolli fínskorin steinselja
Kjúklingurinn skorinn í bita, raðað í ofnskúffu og saltaður. Mörðum hvítlauk, origanó, ediki, ólífuolíu og hvítvíni er blandað saman í skál og hellt yfir kjúklingabitana. Þarnæst er rétturinn saltaður og pipraður, döðlum, ólífum og kapers dreift yfir og á milli og lárviðarlaufunum stungið á milli bitanna. Kjúklingurinn er svo bakaður við 200 gráðu hita. Fyrstu 20 mínúturnar er gott að ausa vökva yfir kjúklingabitana öðru hvoru. Eftir þann tíma er rétturinn tekinn út úr ofninum, púðursykri er stráð yfir bitana og bakað í 30 - 40 mínútur til viðbótar. Loks er kjúklingabitunum, döðlunum, ólífunum og kapers raðað á fat. Steinselju er dreift yfir og vökvanum hellt í sósuskál. Gott að bera fram með grjónum og brauði.
Við bárum þetta reyndar bara fram í fatinu sem kjúklingurinn var eldaður í og notuðum brauð til að dýfa í soðið eftir að kjúllinn kláraðist. Algerlega geggjað! Það eru því miður ekki til betri myndir af þessum meiriháttar góða rétti, græðgin og hungrið yfirstigu allan vilja til að taka krúttaralegar og fínar myndir
Kvöldmatur | Breytt 23.9.2010 kl. 21:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
21.6.2009 | 16:01
Kósý sunnudagur og grillaðar fylltar paprikur
Einn af þessum dögum sem maður vill bara kúra heima hjá sér, horfa á góða mynd og njóta þess að vera í fríi. Nákvæmlega það sama og þessi loðkúla er að gera!
Dagurinn byrjaði þó á brennslu og kviðæfingum í stíl. Mjög jákvætt start, kemur blóðinu á hreyfingu. Eftir púlið var ég í miklu stuði fyrir eitthvað kalt og frískandi. 100 gr. hreint skyr, 1 skeið hreint prótein, 1/2 niðurskorið íískalt epli, 5 frosin jarðaber, 1 msk hörfræ og quinoa flögur urðu því fyrir valinu. Stökk epli, sæt jarðaber, crunch í flögunum og hörfræin gefa skemmtilegt bit. Slær alltaf í gegn!
Bjó mér annars til mikla snilld í hádeginu. Búin að rekast á þetta nokkuð oft, bæði í bókum og á netinu en aldrei búið mér til svona sjálf eða smakkað. Grillaðar fylltar paprikur! Þvílíkt sælgæti! Byrjaði á því að steikja kjúkling sem ég átti inn í frysti ásamt soja fillet-inu sem ég keypti um daginn. Kryddaði með oregano, timian, smá papriku og hvítlauk. Setti svo til hliðar í sér skál.
Upp úr safanum, sem kjúllinn skildi eftir sig á pönnunni, steikti ég sellerí, hvít-, rauð-, scallot lauk og lauk (lauk og lauk) ásamt kúrbít, gulrótum, tómötum og sveppum. Stútfull panna af goodness!
Eftir að grænmetið hafði hjaðnað um svo gott sem helming, mjúkt undir tönn, tók ég rúman helming og setti til hliðar. Ástæðan er einföld - þetta var of mikið af grænmeti! Restina setti ég í stóra skál ásamt kjúllanum og sojakjötinu og afgangs kjúklingabaunum og quinoa.
Gumsið hrærði ég svo vel saman, bætti út í það, salt og sykurlausri, tómat-pastasósu ásamt einni eggjahvítu. Fyllti svo fjóra papriku helminga með gúmmulaðinu, toppaði með smá fetaosti og steinselju. Glææææsilegt ekki satt?
Skellti þessum elskum á grillið þangað til paprikurnar voru orðnar mjúkar. Kannski 30 mínútur...
...eða þangað til þær litu um það bil svona út!
NAAHHMMM!! Ohh hvað þetta var gott. Stútfullt af grænmeti og kjúkling. Þetta er með eindæmum jákvætt fyrir skrokkinn! Ég segi ykkur það satt. Létt og gott en samt mettandi. Skemmtilegt á bragðið, áferðin fullkomlega fín! Gaman að borða og svo meiriháttar flott á litinn. Paprikan ofboðslega safarík og sæt. Gumsið sem stóð upp úr paprikunni aðeins stökkt og gaf gott bragð. Ég geri þetta pottþétt aftur. Þessi réttur er hér með matar-boðslegur!
Ég naut hvers bita í botn. Vel hægt að nota þetta sem meðlæti, aðalrétt nú eða forrétt. Hægt að fylla paprikurnar með hverju sem er, þarf ekki að vera kjötkyns. Jafnvel setja meira af quinoa eða hrísgrjón/couscous.
Takk fyrir mig mín kæru. Græðgispúkinn er sáttur!
Kvöldmatur | Breytt 23.9.2010 kl. 21:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
9.6.2009 | 20:42
Tvennskonar kalkúnaborgarar
Eins og ég hef áður sagt. GABB! Gaman að borða burger! Grillið góða er reyndar ennþá að ná sér eftir veturinn, var því ekki notað. Hefði verið töluvert skemmtilegra að vippa kalkúninum á grillið en ekki örvænta, sumarið er rétt að byrja. Hver veit nema 100.000 kalkúnaborgarar verði grillaðir í sumar? Hvað eru margir kalkúnar í því?
Hunangs dijon kalkúnaborgari með höfrum - 2 stórir hamborgarar
200 gr. hakkað kalkúnakjöt
1 eggjahvíta
Rúmlega 1/2 bolli hafrar
Tæplega 2 msk hunang
Tæplega 2 msk grófkorna dijon sinnep
1 msk Worcestershire sauce
Ég kaupi tilbúið kalkúnakjöt í t.d. Hagkaup, tíu, 100 gr. stykki saman í pakka. Hræri 200 gr. saman í matvinnsluvél.
Eftir að búið er að hakka kjötið er rest af hráefnum hrært saman við, hamborgarar mótaðir og steiktir á pönnu. Blandan er nokkuð blaut!
Klassískur kalkúnaborgari - 2 stórir hamborgarar
200 gr. hakkað kalkúnakjöt
1 smátt skorinn skallot laukur
1/2 epli, smátt skorið
1/2 stilkur smátt skorið sellerí
Dass tabasco
Laukur, epli og sellerí steikt á pönnu þangað til mjúkt. Þá er því blandað saman við kalkúnakjötið og tabasco bætt við eftir smekk. Hamborgarar mótaðir úr blöndunni og viti menn, steikt á pönnu. Saltað og piprað eftir smag og behag.
Hvað get ég sagt. Þetta slær alltaf í gegn. Hristir vel upp í matarræðinu hjá manni og er skemmtilegt að borða. Klassíski kalkúninn er að sjálfsögðu betri valkostur ef matarræðið á að vera 150%, hann klikkar aldrei. Mjúkur og djúsí, skemmtilegur á bragðið.
Hunangskalkúnninn varð til í smá tilraunastarfsemi. Langaði svo geypilega mikið að bæta við höfrum í eitt stk. burger í staðinn fyrir t.d. ritz í venjulegum hambó. Uppskriftina mætti betrumbæta að mínu mati en þetta sló í gegn hjá hinum helmingnum. Hunang og sinnep klikka náttúrulega ekki svo auðveldlega. Æðisleg blanda.
Borgararnir voru nokkuð þéttir í sér, ekki alveg jafn djúsí og hinn klassíski. Það væri því snjallt að setja minna af höfrum næst og jafnvel bæta lauk í blönduna. En bragðgóðir voru þeir og mikil snilld að bíta í. Fullkomið í hádeginu í samlokur eða skera niður í bita yfir salat. Mmhmm! Sé þetta vel læða sér inn í matarræðið hjá mér í sumar.
Við höfðum með þessu kanilstráðar sætar kartöflufranskar, sem við bökuðum í ofni, og salat. Steiktum svo eplasneið, stráðum að sjálfsögðu yfir hana kanil, og höfðum með hamborgaranum. Svona leit því kvöldmaturinn minn út í dag!
Þetta átti allt svo vel saman. Eplið, sætu kartöflurnar og kalkúnninn - nahmm! Hinn helmingurinn púslaði sínum burger inn í brauð. Útkoman varð eftirfarandi.
Fullkominn biti!
Þetta er svo einfalt og fljótlegt að elda. Það væri hægt að búa til marga pínkulitla borgara og raða yfir salat eða kúskús-rétt. Fyllir magann á manni af eintómri hamingju og samviskubitið hreinna en Herra Ajax! Mikil snilld sem þetta er! Eins og sagt var yfir matnum: Þetta er eitthvað sem ég hefði borgað pening fyrir á matsölustað!
Svo þurfti að sjálfsögðu að fullnægja nammigrísnum. Endi af grófu pítabrauði með 100% hreinu hnetusmjöri, sykurlausri sultu og bananasneið! Ohmn!
Kvöldmatur | Breytt 23.9.2010 kl. 21:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)