Færsluflokkur: Kvöldmatur

Allt er þegar þrennt er!

Menninganótt og ég sit hér heima, á erfitt með að loka augunum sökum seddu, með bumbuna út í loftið og góni á bíómynd! Gullfalleg sjón, ég get lofað ykkur því. Wink Nokkur kerti eru heiðruð með litlum loga og lamparnir mínir fá að njóta sín fullkomlega.

Uppáhalds steinalampi

Allir lamparnir mínir! Líka þessir tveir litlu undir loðkollinum!

Kattalampi

Ahh hvað það er notalegt að vera hér heima! Við vorum að koma úr þriðju matarveislu þessarrar viku. Síðasta matarboð sumarsins. September verður meinlæta-mánuður mikill og áti verður haldið í lágmarki. Amk áti umfram það sem þarf til að halda skrokknum gangandi. Fiestan átti sér stað í Gúmmulaðikastalanum. Ég læt myndirnar tala sínu máli!

Fyrsti hluti!

Bananabrauð a-la amma, koníaksleginn-, reyktur- og graflax, rækjukokteill a-la amma (best í heimi) og ávaxabakki.

Forréttir - Síðasta matarboð sumarsins

Annar hluti!

Móaflatarkjúlli!

Aðalréttur - Síðasta matarboð sumarsins

Þriðji hluti!

Sítrónu frómas a-la Amma, ís, hollustu-afmæliskakan, innbakaður Camembert með möndlum, sultu og döðlu ásamt vínberjum a-la Moi.

Eftirréttir - Síðasta matarboð sumarsins

Guð minn góður! Ef þetta er ekki matarklám þá veit ég ekki hvað! Ég er að springa - ég veit ekki hversu mikið magn af ís ein kroppur getur í sig látið, en ég held ég toppi alla skala! Hollustu-afmæliskakan, það sem eftir var af henni, þótti ofur, mér til mikillar hamingju og gleði!

Jæja mín kæru. Hollustu múrar heimsins hrundu í dag og urðu að dufti! Njótið þess að vera til á menningarnótt og hafið ljúft það sem eftir lifir kvöldsins! I know I will Smile


Eggjahvítu burrito með reyktum laxi, 'wasabi baunum' og grænmeti

Ég held áfram að rúlla matnum mínum upp. Það er bara svo gaman að borða hann þannig!

3 eggjahvítur hrærðar saman, má krydda eftir smekk. Hellt á heita pönnu og hálfgerð pönnukaka útbúin. Það væri líka hægt að útbúa heilhveiti crepe ef eggjahvítukakan er ekki spennó. Nú eða bara nota búðarkeypta heilhveiti tortillu. Þær eru flottar.

Eggjahvítukaka

100 gr. af reyktum laxi raðað á pönnukökuna, þarnæst smá hrísgrjónum og "salsa" mauki. Hallæris mauk verð ég að segja. Skar 2 tómata smátt, sneið af smátt skornum rauðlauk, pínkulítið af hvítlauk og hrærði saman með þurrkaðri steinselju. Var samt gott á bragðið. Smile

Eggjahvítukaka með reyktum laxi og salsamauki

Ofan á hallærismaukið fóru 'wasabi-baunir'. Svipað og í laxarúllunni um daginn þá hrærði ég saman létt AB, wasabi mauki, hrísgrjónaediki, hunangi, dilli, dijon og sítrónusafa.

Eggjahvítukaka með reyktum laxi, salsamauki og baunum.

Ofan á baunirnar avocadosneiðar.

Eggjahvítukaka með reyktum laxi, salsamauki, wasabi baunum og avocado.

Burritonum rúllaði ég svo upp, skv. lögum og reglum burrito upprúllunar, og borðaði með mikilli áfergju. Passa bara, að ef notuð er eggjahvítu tortilla þá á hún til að rifna. Rúlla dýrinu varlega upp svo laxinn leggi ekki á flótta.

Eggjahvítuburrito með reyktum laxi, wasabi baunum, salsasósu og avocado

Ég vafði mínum meira að segja upp í álpappír.

Eggjahvítu burrito með reyktum laxi, wasabi baunum, salsasósu og avocado

Þetta var fínt. Afskaplega gott og gleðilegt. Setti slatta af wasabi-dressingunni.. mmmmm! Inn í þetta má svosum setja hvað sem er. Hvað er ykkar uppáhalds uppfyllingarefni?

Eggjahvítutortilla með reyktum laxi, wasabi baunum, salsasósu og avocadosneiðum

Mikið er reyktur lax æðislega góður!


Hallærismatur...

...bítlafæði, tækifærisnart!

Slappleiki búinn að angra mig í allan dag. Er búin að liggja eins og pönnukaka frá því ég opnaði augun í morgun. Áætlun kvöldsins hafði gert ráð fyrir tígrisrækjum en heilsan hélt nú ekki! Ég veit ekki hvort ég eigi að þora að skjalfesta gumsið, sem ég fékk mér í 'kvöldmat' í dag, eða ekki. Furðuleg samsetning á fæðu en virkaði flott fyrir mig. Ég held að allir eigi sér a.m.k. eina dularfulla matarsamsetningu sem enginn fær að vita um nema viðkomandi. Ég veit um einn sem fær sér t.d. flatköku með kokteilsósu og osti Shocking. Af hverju maður segir ekki frá uppgötvuninni er til þess að losna við "Ugghh.. af hverju þetta tvennt?" eða "Ohj, þetta er hræðilegt" og njóta þess að háma í sig furðugumsið.

Til að gera langa sögu stutta þá blandaði ég saman 100 gr. af skyri við 100 gr. af kotasælu. Fyrir ykkur sem ekki hafa prófað, og getið borðað bæði kotasælu og skyr, þá mæli ég með þessu. Eeelska þessa blöndu. Út í kotasælublönduna fóru að sjálfsögðu grænu baunirnar mínar og sem uppskóflunartól, fyrir utan skeiðina, hitaði ég sæta kartöflu.

Slappleikafæði

Ég játa það frjáls- og fúslega, hér og nú - þetta var barasta fínt! Ég kem án efa til með að fá mér svona einhverntíman aftur þegar bítla- og slappleikaandinn kallar!

Slappleikafæði

Það er bannað að segja oj fyrr en búið er að smakka... en það er í lagi að hugsa það. Wink


Hvernig skal laxinn framreiða?

Ég var ekki viss. Eina sem ég vissi var að mig langaði í reyktan lax. Svo hann var keyptur! Eggjahvítuburrito með reyktum lax, capers, tómat, rauðlauk og dillsósu? Hrísgrjóna-laxaréttur með grænum baunum og niðurskornu grænmeti? Laxaklattar með rjómaosti, avocado og góðri dressingu? Nennti ekki að standa í því að hita eitt né neitt svo ég tók þann pólinn í hæðina að rúlla laxinum utan um brún grjón og grænmeti og búa til þykjustunni "Inside out" sushi!

Hráefni í þykjustunni

Lagði laxaflökin á disk og dreifði brúnum grjónum þar yfir.

Reyktur lax og brún grjón

Þarnæst gúrku, smá tómat, mango og loks wasabi-dressingu sem var ææðisleg. Létt AB-mjólk, wasabi mauk, smá hunangs dijon og dropi hunang.

Reyktur lax, brún grjón, grænmeti og wasabi dressing

Rúllaði upp og hananú! Þykjustunni sushi! Reykt laxarúlla með brúnum grjónum, grænmeti, mango og wasabi dressingu!

Þykjustunni sushi rúlla með brúnum grjónum, grænmeti og wasabi dressingu

Yfir rúlluna sáldraði ég svo Dukkah með möndlum og aðeins meira af dilli.

Reykt-laxarúlla með brúnum grjónum, grænmeti, mango og wasabi sósu

Þetta var geypilega gott þó ómerkilegt sé. Wasabi dressingin var fullkomin á móti reyktum laxinum. Wasabi-ið gaf gott kikk og bragðið af laxinum, á móti sætunni í sósunnu, mildu grænmetinu og sæt/súru mangó, var fullkomið! Grjónin voru svo toppurinn því þau eru aðeins undir tönn og gaman að bíta í!

Reykt-laxarúlla með brúnum grjónum, grænmeti, mango og wasabi sósu

Gleði og hamingja! Aðeins öðruvísi, gaman að búa til, skemmtilegt að borða. Þetta ætla ég að gera einhverntíman aftur með meiri tilþrifum. Rúlla þéttar, geyma í ísskáp... Ætli ég verði samt ekki kærð fyrir að bendla þennan gjörnin við sushi?


Endurnýtanlegar umbúðir

Það held ég nú. Þótti ég afar sniðug í kvöld og klappaði sjálfri mér á bakið fyrir vikið. Ekkert sorglegt við það... ekkert uppvask heldur. Notaði boxið frá Siam í gær undir kvöldmatinn minn í dag. Geimvísindi í gangi hérna gott fólk! Geimvísindabox!

Kjúklingagums klikka aldrei

Kjúlli, sæt kartafla, GRÆNAR BAUNIR, niðurskorið grænmeti, smá brún hrísgrjón og krydd eftir smekk. Bjó mér til balsamic dressingu og hellti yfir.. hún var geeeðveikt góð!

Kjúklingagums í geimvísindaboxi

Fyrir ykkur sem ekki hafa tekið eftir því, þá er ég föst í matarfari! Er með grænar baunir og kjúkling á heilanum! Get svo svarið það. Ætli þetta sé ekk um það bil það eina sem ég er búin að borða í næstum 2 vikur! Það er bara svo auðvelt að fá sér það sem maður vill, sérstaklega þegar Wicked Paulsen er lasinn og lystarlítill. Ég lofa samt sem áður að fara að bæta úr þessu matarhallæri, keypti mér tígrisrækjur í dag.. ohh, get ekki beðið með að útbúa einhvern ofurrétt úr þeim! Er þó búin að bæta svolítið upp fyrir matarfarið (þó þetta tiltekna far sé gleðifar í minni bók) með bakstri og sætabrauðsgerð. Hvað haldið þið að ég hafi fengi mér í eftirrétt?

Kókoskúla

Ójes! Er að smjatta á einni núna - ómæholymoly! Þær eru lovelyness í kúluformi! MMMhhh....


Banana og peru kjúlli

Enn einn ofnbakaður kjúklingaréttur...

...en þeir eru bara svo góðir, og þessi... oh men! Hann heppnaðist æðislega vel. Verst að ég skrifaði ekki niður nákvæmlega hvað ég setti í hann! Það vill oft verða þannig - gúmsla einhverju saman og húha, gleði og hamingja í dós... eða fati... eða bökunarformi...

Banana og peru kjúlli í lett-AB mjólkur dressingu

Bjó til marineringu úr létt-AB mjólk, ögn sýrðum rjóma, hunangi, hunangs dijon sinnepi, paprikukryddi, engifer, chilli, salti, pipar og þurrkaðri steinselju. Skar svo niður 1 banana og 1 peru ásamt 1 bolla af grænum baunum. Hræði öllu saman og leyfði kjúklingalundunum að marinerast í 2 tíma tæpa. Stráði loks yfir herlegheitin rauðlauk, og osti yfir helminginn. Inn í ofn í 40 mínútur, um það bil, eða þangað til kjúllinn er eldaður í gegn.

Banana og peru kjúlli í lett-AB mjólkur dressingu

Skemmtileg tilraun. Mikið bananabragð af kjötinu og smá engiferspark í eftirbragð. Perur og bananar með kjúlla er alveg að gera sig. Nú þarf bara að prófa sig áfram þangað til eitthvað stórmerkilegt gerist! Mér þykja þessi hráefni t.d. æpa hástöfum á kókosmjólk og eitthvað gott karrý!


Laxa og quinoa salat

Endurtekning á hádegismatnum - blandað gums. Ég tek uppáhaldstarnir í mat og matarvali! Nú verður það salat út ágúst, get svo svarið það!

Laxa og quinoa salat

100 gr. reyktur lax, 3 niðurskornar eggjahvítur, 1 sneið smátt skorinn rauðlaukur, 1 dl grænar baunir (hverjum hefði dottið það í hug?), 1/2 smátt skorinn tómatur og 1/2 bolli soðið quinoa. Sett í skál og hrært saman. Svo sullaði ég yfir þetta sítrónusafa, dilli, dijon sinnepi, pínkulítið af hunangi, balsamic og létt AB-mjólk og toppaði með capers, steinselju og rifnum sítrónuberki.

Laxa og quinoa salat

Jújú, þetta var ágætasta salat, kom vel út. Flottur og einfaldur kvöldmatur enda maginn sáttur og saddur! Reyktur lax er bjútifúl!


Herra Foreman er vinur minn

Þetta galdragrill fékk ég lánað hjá mömmu. Ég eeelska þessa græju! Þarf ekki að hita "grillið" þessi snilld hitnar strax. Auðvelt að þrífa og eldun tekur enga stund.

George Foreman er snilingur

Grilluðum nokkrar sætar kartöflur í Formanninum. Þær heppnuðust vel. Urðu stökkar og fínar að utan, mjúkar og djúsí að innan.

Sætar kartöflur að grillast í Formanninum

Grilluðum svo kjúlla, tók heilar 3 mínútur! Mikil snilld. Kjúllinn var þakinn HP BBQ og kornóttu dijon sinnepi. Virkilega gott.

HP BBQ og sinneps grillaður kjúlli

Með þessu voru svo brún grjón blönduð saman við gular- og grænar baunir.

Brún grjón með gulum- og grænum baunum

Ég fékk mér aukaskammt af grænum baunum. Er með mikið fetish fyrir þeim þessa stundina.

Foreman grillaður kjúlli með grillaðri sætri kartöflu, brúnum hrísgrjónum og grænum baunum

Virkilega góður og léttur kvöldverður. Samt sem áður mettandi og jákvæður fyrir bragðlaukana og átvaglið. Maginn stendur ekki út í loftið, núna 3 tímum eftir átið, en samt sáttur og ekki svangur. Gleði gleði!


Verslunarmannahelgarveisla

Höfum þetta stutt, maginn er of fullur til að heilinn starfi rétt. Öll heilastarfsemi fer í að melta og ég er næstum því hætt að sjá! Familían saman komin í Gúmmulaðihöllinni í kvöldmat. Myndirnar eru því miður ekki meistaralega bjútifúl sökum græðgi!

Fyrir

Humar, hörpudiskur, smokkfiskur, hambó, lamb, túnfisksteikur og HP BBQ.

Verslunarmannahelgarmatur - óeldaður

Hörpuskel vafin inn í hráskinku með döðlubita, laukchutney með hambó og meira lamb sem slapp við grillið í þetta skiptið.

Verslunarmannahelgarmatur - óeldaður

Eftir

Forréttur

Hráskinku harpan og túnfiskurinn með ofur wasabi-sósunni a la Mamma.

Risaharpa vafin inn í hráskinku með döðlu ásamt túnfisksteik með wasabisósu

Hvítlauksristaður humar og hörpudiskur í rjómasósu og smokkfiskur með kryddsmjöri og papriku.

Forréttar veisluborðið. Humar, hörpuskel og smokkfiskur í forgrunni

Aðalréttur

Grillaðir risahambó.

Hambó

Sætar ofnbakarað kartöflur með osti.

Sætar ofnbakaðar kartöflur með osti

Það sem vantar í aðalréttamyndum eru venjulegar ofnbakaðar kartöflur, lambið, salatdiskurinn, milljón og ein sósa og laukchutneyið sem er án efa mesta nom sem ég set á hambó, fyrr og síðar!

Löngu eftir

Dáinn hambó! Ekki minn hambó... en dáinn engu að síður!

Hambó, alveg að hverfa af yfirborði... disksins!

Eftirréttur samanstóð af ís, bláberjum, ostaköku, rjóma og almennri hamingju! Ég fékk mér meira af eftirrétt en góðu hófi gegnir. Ég held ég sé hóflaus... í öllum merkingum þessa orðs!

Gúmmulaðihöllin klikkar aldrei. Þetta var æðislegur matur og æðislegt kvöld!


Kvöldmatur 1, 2 og 3

Sársvöng þegar vinnu lauk klukkan 17:00 í dag. Ekkert merkilegt til í gúmmulaðihellinum svo við hentumst inn í Hagkaup og keyptum lauk, sveppi, papriku og tilbúinn kjúlla! Hvað svo? Inn í ísskáp sá ég graskersmaukið góða og hálftóma dós af tómatpúrru. Skyndilega kviknaði pínkulítið ljós! Graskers kjúklinga kássa! Hljómar ekki vel, en kom á óvart og bragðaðist sérstaklega gleðilega!

Graskers 'kjúklinga' kássa 

Fyrir 3 svanga eða 4 ekki svo svanga.

Sauð upp kjúklingakraft (notaði tening) og setti til hliðar. Steikti á pönnu, uppúr 1 msk olíu, 1 rauðlauk, nokkra niðurskorna sveppi, papriku og 1 smátt skorið hvítlauksrif. Þegar rauðlaukurinn var orðinn mjúkur þá færði ég rúmlega helminginn af gumsinu í skál (hélt þetta yrði of mikið). Kryddaði laukgumsið sem eftir var á pönnunni með 2 tsk paprikukryddi, 1 tsk kanil, 1 tsk cumin og chillipipar. Ef ég hefði átt kóríander hefði ég notað það líka. Þessu leyfði ég svo að malla í 2 - 3 mínútur. Þá hellti ég 1,5 bolla af kjúklingasoðinu saman við, ásamt 1 bolla graskersmauki, 1/2 niðurskornu epli og 1 msk tómatpúrru. Þessu leyfði ég svo að malla þangað til þeirri þykkt og áferð, sem mér þykir best, var náð. Rétt áður en ég bar gumsið fram þá kreysti ég smá sítrónusafa út í. Hér er þetta enn bara graskers kássa. Sem er reyndar líka æðisleg og hægt að nota í, og með, allskonar réttum.

Graskers grænmetis kássa

Ég guggnaði og bætti kjúllanum ekki samanvið, eins og ég litla ljósið sem kviknaði hafði ætlað - hafði hann sér til að byrja með.

Graskers kássa, svissaður laukur og sveppir ásamt kjúlla

En bara til að byrja með!

Hér verður graskers 'kjúklinga' kássan til. Það væri örugglega æðislegt að stinga þessu inn í pítabrauð eða rúlla upp í tortillu.

Graskers kjúklinga kássa

Þetta var virkilega gott. Graskersmaukið er alger snilld í svona. Væri hægt að útbúa pottrétt (fisk eða kjúkling) og setja ost yfir og inn í ofn, lasagnað sem ég tala endalaust um, pastasósu! Næst prófa ég pastasósu og fiffa uppskriftina aðeins. Bæti út í hana einhverjum góðum osti! Bara æðislegt, sérstaklega þar sem 1 bolli af graskersmauki eru 80 hitaeiningar. Það er ekki neitt!

Mjög gaman þegar tilraunir heppnast vel!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband