Færsluflokkur: Kvöldmatur

Avocado er yndislegt

Ég elska avocado. Smjörkennt og frábærlega fínt, sérstaklega þegar það er ákkúrat rétt þroskað! Nota það stundum í staðinn fyrir smjer á brauð. Mmm! Stóð við það sem ég sagði í gær og fékk mér avocado og hakkgums.

Avocado og hakkgums

Steikti hakk á pönnu og kryddaði vel með öllu því sem ég fann... næstum því öllu, að auki við smá dijon og hot sauce. Hellti svo hakki á disk, setti salsasósu þar yfir og loks avocadomauk með smá rauðlauk. Lék sama leik að nýju með hakki, salsa, avocado, lauk og loks toppaði ég fjallið mitt með smá auka salsa.

Avocado og hakkgums

Æji, þetta var svo gott. Einfalt, fljótlegt og kryddað hakkið með smjörkenndu avocadoinu var fullkomið! Algerlega fullkomið. Hefði reyndar orðið fullkomið++ ef ég hefði átt tómata og smá hvítlauk - en það gerði ekkert til.

Avocado og hakkgums

Þetta var gott gums og gleðilegt fjall!


Krydd og aftur krydd

Með réttum kryddum er hægt að gera "lala" mat svo öönaðslega stórkostlega fínan! Það er líka hægt að eyðileggja frábæran mat með of mikið af kryddi eða "röngu kryddi". Sum matvæli eru best kryddlaus og annað verður að krydda til að kynda upp í átvaglinu! Aldrei gott að stija með súrt átvagl á bakinu. Það boðar sjaldan gleði.

Eins og svo oft áður Formannaði ég kjúlla og steikti uppáhalds grænmetið mitt, þessa stundina, upp úr olíu. Kjúllan kryddaði ég einfaldlega með salti og pipar og skar í litla bita. Punkturinn yfir I-ið, í þessum annars dags daglega kjúllarétti, var mitt ástkæra Dukkah krydd. Dukkah með hnetum og karrý! Vá hvað það púslaðist skemmtilega saman með þessu blandi.

Kjúlli og grænmeti með Dukkah kryddi, karrý og salthnetur

Bragðlaukarnir tóku Carmina Burana þegar hlutlaust kjúklingakjötið heilsaði með smjörkenndu sætu grænmetinu og þessu líka flotta kryddi. Mjög jákvætt alltsaman... mjög jákvætt!


Þykjustunni bolognese sósa

Þykjustunni bolognese af því að alvöru kjötsósur eru stútfullar af krafti og gleðilegheitum. Ég notaði í raun bara það sem ég fann hérna heima. Ekkert- rauðvín, sellerí, sveppir, fersk krydd... en assgoti var hún samt vel heppnuð þessi. Holl, góð, 'fersk' og virkilega skemmtileg! Þarf ekki endilega að setja út á hakk. Væri líka hægt að hræra t.d. saman við spaghetti.

Þykjustunni bolognese sósa - fyrir 2

þykjustunni bolognese sósa og hakk. Ekkert nema gott.2 msk olía 

1/2 nokkuð stór rauðlaukur

1/2 stór gulur laukur

3 niðurrifin hvítlauksrif

1/2 tsk kanill

1 msk, tæplega, oregano þurrkað

1 msk, tæplega, basil þurrkað

salt og pipar eftir smekk

2 meðalstórar gulrætur, niðurskornar

4 ferskir tómatar, niðurskornir

2 jalapeno hringir, niðurskornir

1,5 msk, um það bil, tómatkraftur.

Vatn þegar líður á eldunina. Ég notaði 1 dl.

Byrja á því að hita olíuna á pönnu. Þegar olían er orðin heit hella öllum lauk út á pönnuna og steikja þangað til meyr. Bæta þá við kryddum, steikja í 1 - 2 mínútur aukalega, og setja tómatkraftinn út í. Eftir það bæta grænmeti og jalapeno út á pönnuna...

Þykjustunni bolognese sósa í bígerð

...og leyfa að malla í 30 - 40 mínútur. Jafnvel lengur - eða þangað til sósan lítur um það bil svona út. Á þessum tímapunkti væri snjallt að bæta hakkinu út í sósuna, ef þess er óskað, og leyfa að malla í svolítinn tíma. Það er æði. Við gerðum það reyndar ekki í þetta skiptið. Höfðum hakkið til hliðar, settum í skál og bættum sósu út á eftir smekk.

Þykjustunni bolognese sósa að verða reddí

Bæta núna við 1 dl af vatni, meira eða minna eftir smekk, (hvort sem hakkið er komið út í eður ei) og sjóða í nokkrar mínútur í viðbót, eða þangað til sósan hefur náð þeirri þykkt og áferð sem þér þykir best.

þykjustunni bolognese sósa og hakk. Ekkert nema gott.

Ohh þetta var svo gott. Virkilega gott. Ég er mikill kjötsósu/bolognese aðdáandi og þessi var æði. Bragðið flott, kanillinn sparkaði skemmtilega í hvern bita, aðeins sterk. Ójá, kem pottþétt til með að nota þessa í lasagna á næstunni. Prófa að bæta við sellerí og sveppum... mmmmhh, góður, góður miðvikudagsmatur. Svo mikið er víst!


Quinoa og jalapeno rækjuréttur vafinn inn í kálblað

Jújú, ég datt ofan í rækjupokann minn, matur af svipuðum toga hefur einkennt síðasta 1,5 dag og sterkt hefur alveg verið að gera sig hjá mér undanfarið! Hvernig voru rækjurnar framreiddar í kveld?

Byrjum á því að velja okkur falleg og fín kálblöð.

Ofurfínu kálblöðin

Komum rækjugumsinu fyrir á kálblöðunum miðjum.

Ónáttúrulega sterku rækjugumsi komið fallega fyrir

Rækjugumsið er mjög sterkt. Skar niður 5 jalapeno sneiðar (niðursoðið) og 1 hvítlauksrif og setti í skál. Í skálina blandaði ég smá safa af jalapenoinu, 1 msk, rúmlega, þurrkað cilantro, 1 tsk, tæplega, cumin, salt, pipar og pínku sítrónusafa. Rækjunum hrærði ég út í og leyfði að sitja á meðan ég skar niður smá lauk og 2 tómata. Laukinn og tómatana steikti ég á pönnu upp úr tæplega msk isio4 olíu, bætti þá við örlitlu oregano og skellti loks rækjunum út á pönnuna, þegar tómatarnir voru orðnir mjúkir. Þegar rækjurnar voru orðnar bleikar hrærði ég um það bil 5 msk soðnu quinoa saman við. Ofan á gumsið fóru að sjálfsögðu nokkrir dropar af hot sauce, smá létt AB-mjólk og steinselja.

Quinoa og jalapeno rækjur á kálblaði

Kálblöðin notaði ég eins og tortillu og vafði gumsinu upp í þau. Þetta var mjög gleðileg leið til að borða rækjurnar og ég kem til með að nýta mér þetta aftur. Kálblaðið helst stíft og stökkt í hverjum bita og gefur réttinum skemmtilega og ferska áferð.

Quinoa jalapeno rækjur vafðar inn í kálblað

Sterk... sterk, sterk hamingja í kálblaði!

Ég get ekki, með hreinni samvisku, sagt að þetta ævintýri hafi endað á snyrtilegan hátt. Við skulum bara segja að ég þurfi að æfa mig í kálvafnings áti eða passa upp á að kálblaðs-fyllingin sé ekki of blaut! Halo

Quinoa og jalapeno rækjur vafðar inn í kálblað

Aftur er nefið farið að leka, varir og kinnar rauðar, kollurinn heitur og skrokkurinn ánægður með vel heppnað val á kvöldmat! 


Kjúklinga tortillu fiesta

Annarskonar kjúllahittingur hjá fjölskyldufólkinu mínu. Dossu tortillur, ofnhitaðar með nachos og mexico meðlæti. 

Kjúllastrimlar steikir á pizzapönnu

Valdimar var settur í grænmetisskurð! Með eindæmum vandvirkur og vel að sér í gúrkuskurði! Gúrkan bjóst ekki við þessu... svo mikið er víst! Bolurinn segir alla söguna Wink

Valdimar gúrkuskurðameistari

Hér eru svo tortillurnar að verða til. Kúskús, ostasósa, kjúlli, grænmeti, salsasósa og nachos krums. Tortillurnar fara svo ofan í fat og ofan á þær bbq sósa og ostur. Inn í ofn þangað til osturinn er bráðinn.

Dossu tortillur

Dekurrófan ég fékk að taka frá gums í mína tortillu áður en púsluspilið, hér að ofan, hófst.

Ellu s�rf��i

Fjölskyldan mín er yndi. Umburðarlyndara og skilningsríkara fólk er ekki til, hvað mig og mitt matarræði varðar. Mér þykir að sjálfsögðu frábært að geta haldið át-Ellunni í skefjum en, almáttugur, ég missi svo sannarlega ekki svefn yfir því þó átvaglið sleppi laust af og til. Hér koma fjölskyldumeðlimir hinsvegar sterkir til leiks. Þegar allir voru að snæða þetta ofurflotta tortilla hlaðborð...

Kjúklinga tortilla hlaðborð

... þá fékk ég að útbúa mína eigin tortillu, í heilhveiti köku, með minna af sósu o.fr. Ótrúlegt að þetta sé látið eftir mér! Kjúlli, smá grænmeti, salsasósa, smá sýrður og fullt af jalapenos. Eeelska jalapenos í svona mat!

Ellu heilhveiti tortilla með jalapenos og grænmeti

Spáið svo í því... fjölskyldan mín er orðin svo innvinkluð í matarræðið mitt að þau eiga það til að hafa til hliðar eitthvað spes fyrir mig í matarboðum. Amma hafði t.d. heilhveitibrauð með rækjukokteilnum sínum um daginn og móðir mín kær er alltaf með fisk eða kjúlla! Það á að sjálfsögðu ekki að láta svona dillur eftir fólki... ekkert leiðinlegra en að bjóða í mat sem er pillaður til bana eða verra, ekki borðaður! (Ekki að ég geri slíkt) En almáttugur, þetta er ekkert nema yndislegt og auðveldar mér 'réttu brautina' stórkostlega. Sérstaklega þegar matarboð eru jafn tíð og raun ber vitni.

Ég hef oft heyrt sagt, að til að ná árangri á einhverju sviði, breyttur lífstíll á jafn vel við í þessu samhengi og hvað annað, þá sé mikilvægt að fjölskylda og vinir styðji við bakið á manni. Þessari staðreynd er ég hjartanlega sammála. Ég veit ekki hvað ég gerði til að eiga þetta skilið en eitt veit ég þó - Fjölskyldan mín er það flottasta sem ég veit! Cool


Pestó rækjur með tómötum og basil

Jú, rækjurnar eru enn á topplista hjá mér. Held það sé nú bara af því að ég veit af þeim í frystinum og það er einfalt/fljótlegt að elda þær! Skellti í einn skammt Pesto-risarækjur með tómötum og basil. Svakalega gott, sérstaklega með ristaðri heilhveiti- eða speltbollu!

Pestó rækjur með tómötum og basil

Blandaði 1 msk rauðu pestó og einu niðurrifnu hvítlauksrifi saman við 150 gr. risarækjur. Steikti svo smá niðurskorinn lauk og 2 niðurskorna ferska tómata á pönnu með dass af þurrkaðri steinselju og basiliku. Tómatarnir soðna niður og búa til hálfgerða sósu/súpu. Út á pönnuna hellti ég svo rækjugumsinu, þegar tómatarnir voru farnir að losna úr skinninu, og léttsteikti, eða þangað til rækjurnar voru orðnar bleikar. Skreytti með þurrkaðri steinselju og ... ójá... raspaði smá parmesan yfir herlegheitin. Punkturinn yfir I-ið!

Þetta er æðislegur réttur. Einfaldur, hollur, bragðgóður en smakkast eins og flókið ofurgums. Þarf svosum ekkert að krydda frekar því pestóið er fullt af kryddi og hvítlaukur, tómatar og basil klikka aldrei. Svo verður til smá "súpa/sósa" í botninum á skálinni, út af tómötunum, sem er æðislegt að dýfa brauði í! Bara frábært - sérstaklega yfir síðasta þættinum af True Blood. Ég er alveg að fíla þessa þætti í botn!


Risarækjur í hunangs-chilli kryddlegi

Rækjur eru svo góðar! Nú virðist rækjutímabilið, í mínu matarræði, vera gengið í garð! Búin að fara í gegnum kjúlla og lax á síðustu vikum. Gaman að þessu!

Hunangs-chilli kryddlögur

  • 1 tsk, rúmlega, hunang
  • 1 msk chilli krydd
  • 1/4 tsk gróft salt
  • 1/2 tsk cumin
  • 1/2 tsk koriander
  • 1/2 tsk þurrkað oregano

Hrærði hunangi saman við rest af kryddum í skál. Bætti þá út í kryddskálina um það bil 300 gr. af rækjum, stórum sem smáum, velti upp úr kryddblöndunni þangað til rækjurnar voru vel þaktar, og setti til hliðar. Næst steikti ég 1/2 lauk, niðurskorna papriku og 2 niðurskorin hvítlauksrif, upp úr 1,5 msk olíu. Rækjunum bætti ég loks út á pönnuna, þegar grænmetið var orðið meyrt, og snöggsteikti.

Hunangs- chilli rækjuréttur

Ég elska þessi krydd. Cumin, koriander, oregano - sérstaklega þegar allir leika saman! Virkilega góður réttur. Virkilega góður kvöldmatur. Smá hint af sætu frá hunanginu og chilli-ið sparkar skemmtilega á móti. Væri örugglega æðislegt að þræða þetta upp á spjót með mangó!

Rækjur í hunangs-chilli kryddlegi

Það er svo gaman að borða góðan góðan mat, sérstaklega þegar eldunartími er undir 30 mínútum!


Kryddaður rækjuréttur

Langaði svo í rækjur í kvöld - vissi hinsvegar ekki alveg hvað ég vildi gera við þær. Tók því Elluna á þetta og hrærði því sem ég fann, í eldhúsinu, saman! Ekkert smá vel heppnað og bragðið frábært. Ég geri þennan rétt pottþétt aftur! Nú er það bara að fjárfesta í frosnum rækjum og nýta þær í eitthvað gleðilegt eins og... jah... þetta!

Kryddaður rækjuréttur - fyrir 2

Kryddaður rækjuréttur300 gr. afþýddar rækjur

1 bolli soðin hrísgrón. Hefði notað brún- eða hýðis en átti ekki á lager.

1 bolli grænar baunir

2 msk olía

3 raspaðir hvítlauksgeirar

Niðurskorinn rauðlaukur. 2 - 3 sneiðar, eða eftir smekk.

1 tsk paprikuduft

1,5 tsk cumin

1/2 tsk, rúmlega, niðurrifinn engifer

1/2 tsk tæplega chilliduft

dash, mjög smá handfylli þurrkuð steinselja og cilantro

salt og pipar eftir smekk

Hita olíuna á pönnu og svissa hvít- og rauðlaukinn upp úr olíunni í 2 - 3 mínútur. Eftir það, sameina öll krydd á pönnunni og steikja þangað til góð lykt kemur í eldhúsið. Og já, lyktin er sko góð! Eftir það, þerra rækjurnar (ef þær voru t.d. frystar), hella út á pönnuna og þekja með kryddblöndunni. Hella þá grænu baununum út á pönnuna og leyfa dúóinu að velkjast um í 1 - 2 mínútur. Hella þá grjónunum út á pönnuna, hræra gumsinu vel saman og beinustu leið á disk.

Æðislegur rækjuréttur

Gott gott á bragðið þó ég segi sjálf frá. Virkilega góður og hollur réttur. Prótein, flókin kolvetni, holl fita og yndislega fínu grænu baunirnar. Palli varð himinlifandi með þetta alltsaman, þar sem hann er ekki mikill rækjumaður sjálfur, og þótti svakalega vel til takast! Kryddaður rétturinn með sætum baununum er æði og rækjurnar, rétt hitaðar í gegn, er gaman að bíta í á móti grjónunum. Passa bara að steikja rækjurnar ekki of mikið - gúmmírækjur eru góðar en ekki frábærar! Næst myndi ég jafnvel bæta smá blómkáli í réttinn og valhnetum. Það væri líka æðislegt að setja þetta inn í burrito!

Mhhmm hvað þetta var gott. Vel heppnað, verður reglulegur gestur í framtíðinni, svo mikið er víst!


Basil kjúlli með ofnbökuðum tómötum og stöppuðum grænum baunum

Eftirlíking af kvöldmat gærkvöldsins með örlitlum breytingum. Var einmitt að hugsa hversu marga mismunandi rétti, úr svipuðum hráefnum, ég gæti búið til. Kannsi ég geri smá leik úr þessu á næstu vikum.

Ég byrjaði amk á því að velta kjúllabringunni upp úr þurrkuðum basil, hvítlauk, salti og pipar og beint í Foremanninn.

Basil-kjúlli með ofnbökuðum tómötum og stöppuðum grænum baunum

Skar einn tómat niður í sneiðar og annan í tvennt. PAM-a bökunarpappír og raðaði tómatsneiðum og -helmingum á pappírinn. Kryddaði með oregano og basil. Inn í 200 gráðu heitan ofn þangað til tómatarnir urðu örlítið dökkir, mjúkir og safinn farinn að leka úr þeim. Í matvinnsluvél, setti ég 100 gr. grænar baunir, hvítlauk, cumin, kóríander, pipar, smá salt ásamt örlitlum sítrónusafa, tahini og létt AB-mjólk. Mín vél var of stór svo ég þurfti að stappa grænurnar í höndunum. Þetta ætti að verða að mauki... þarf að kaupa mér töfrasprota. Hrærði svo saman smá balsamik ediki, hunangi og hunangs dijon sinnepi og nýtti sem dressingu.

Basil-kjúlli með ofnbökuðum tómötum og stöppuðum grænum baunum

Setja baunamaukið á disk, raða kjúllanum ofan á baunamaukið og bökuðum tómatsneiðum ofan á kjúllann. Hella smá dressingu yfir heila klabbið og hafa tómathelmingana aukalega með. Sætar baunir, sætur/súr tómatur, basil, hvítlaukur.. himneskt. Dressingin er líka æðisleg með kjúllanum - á alltaf vel við og bakaðir tómatar eru nammi. Svoo gott og gleðilegt - bæði fyrir bragðlaukana, skrokkinn og sálartetrið! Mmhmm!


Einföld hráefni, æðisleg útkoma

Gott, gott, gott! Fjögur hráefni umbreyttust í æðislega máltíð með aðstoð herra Foreman og náins vinar hans, örbylgjuofnsins! Jújú, nútíma letieldamennska í sinni hreinustu mynd! Ungfrúin var svöng þegar hún kom heim úr vinnunni og skrokkurinn hreinlega gargaði á mat hið snarasta.

Grilluð kjúklingabringa með grilluðu grænmeti og AB-mjólk og lauk-chutney sósu

Frosin kjúklingabringa inn í örbylgju og afþýdd með hraði. Eftir það var dýrið kryddað með oregano, timian, basil, pipar og smá salti og skellt í grillun a-la Foreman, ásamt tómötum og rauðlauk. Á meðan hitaði ég sæta kartöflu í örbylgjunni. Þegar mín heittelskaða sæta kartafla var að verða til skellti ég henni í grillið með hinu gúmmulaðinu svo hún fengi nú líka fallegar grill rendur. Allt fyrir útlitið!

Grilluð kjúklingabringa með grilluðu grænmeti ásamt AB-mjólk og lauk-chutney sósu

Yfir tómatana fór smávegis þurrkuð steinselja og salt. Aukalega hafði ég með þessu lauk-chutney blandað saman við AB-mjólk. Kom æðislega vel út. Hefði eiginlega ekki þurft því kjötið og tómatarnir voru svo safarík blanda, en kjúllinn og kartaflan áttu vel saman með sósunni. Mmmmhh...

Glæsilega fínt grillað grænmeti

Voila! Hollt, gott, fljótlegt - hráefni sem flestallir eiga til á lager! Bambinn kátur í dag!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband