Færsluflokkur: Millimál

Prótein bygg grautur

Það er búið að vera svo mikið að gera hjá mér undanfarið að ég hef hvorki haft tíma né nennu til að búa mér til eitthvað svaðalegt í hádeginu eða á kvöldin. Síðustu tvær vikur hafa þessar máltíðir yfirleitt verið samsettar úr kjúkling, grænmeti og hnetum sem ég borða svo allt í sitthvoru lagi. Ekki spennó, en gottó og hvaða eðal einstakling sæmandi. Hinsvegar, í þessu róti öllusaman, þá hafa poppað upp allskonar millimál sem ég hef ekki gert áður en kem til með að búa til aftur. Eins og td. þessi snilld.

Blendingur á milli hrísgrjónagrauts og hafragrauts. Áferðin svipuð og á grjónagraut eða sago, gefið að sago grjónin væru stærri. Mmmm hvað þetta var gott fyrir öll skilningarvit sem tengjast bragði og áferð! GRS5 prótein blandað saman við smá vatn. Byggi bætt út í próteinið ásamt kanil og vanilludropum.

Prótein bygg grautur

Væri örugglega æði að setja út í þetta hnetur eða hnetusmjör, niðurskorið epli, banana, bláber... ohhh geggjað!

Prótein bygg grautur

Svo mikið er víst - þetta verður tíður gestur í mínu matarplani héreftir!


Sætar kartöflur og prótein?

Ekki verða brjáluð út í mig... en ég gerði það samt! Og já - þetta var dónalega gott!

Sætu kartöflu og próteingrautur 

Þykkt blandað prótein (GRS5), sæt kartafla, vanilludropar og kanill. Kartöfluna ofnsteikti ég í mauk, stappaði í muss og blandað saman við próteinið, kanilinn og vanilludropana, átvaglinu til flundrandi hamingju!

Þennan graut kem ég til með að blanda oftar en einusinni í viðbót, svo mikið er víst.


Settu hnetusmjör á þetta...

Er ekki allt betra með smá hnetusmjöri?

Hnetusmjör, prótein, vanilla, kanill og epli aðstoða hvert annað, og mig, í að útbúa þetta svaðalega gúmmulaði. Þetta er án efa uppáhalds millimálið mitt þessa dagana!

Hnetusmjörsblandaður prótein búðingur og eplaskeið

Hnetusmjörs prótein búðingur og ískalt brakandi epli. Fullkomin tvenna! Skúbba upp búðing með eplaskeiðinni, borða græðgislega og hananú! Orð fá ekki lýst hamingju minni yfir þessu snarli - eins og að svindla en með hreinni samvisku!


Kanilepli og hnetusmjör

Fullkomið viðbit! Ég segi það satt.

Skera niður epli og strá yfir sneiðarnar kanil.

Kanilepli, ískalt úr ísskápnum

Nota eplanseið til að skúbba upp hnetusmjöri. Eða barasta smyrja hnetusmjöri á eplanseið.

Kanilepli með hnetusmjöri

Borða og brosa út að eyrum!

Brosboxið mitt


Dularfullt viðbitsval

Harðfiskur. Ohh.. ég eelska harðfisk!

Eðal íslenskur harðfiskur

Ávextir.

Ííískaldir og ferskir ávextir

Stjörnur dagsins... möndlurnar mínar!

Möndlur - best í hemi!

Allt úr sitthvorri áttinni - en gott var það, og einmitt það sem mig langaði í!


Orkubitar - orkubombur

*B*O*B*A*

Keypti um daginn undanrennuduft. Vissi nákvæmlega ekkert hvað ég ætlaði að nota það í! Svo af hverju ekki að prófa það í hafrabita? Komu svona líka fínt út. Stútfullir af allskonar gúmmulaði og skemmtilegir að bíta í.

Orkubitar

Orkubomba1 bolli hafrar

1/2 bolli sólblómafræ

1/2 bolli hveitikím

1/2 bolli Undanrennuduft

1/4 bolli heil- eða spelt hveiti

1/2 bolli möndlur. Ég notaði reyndar möndlumjöl, átti ekki möndlur.

1/2 bolli þurrkaðar apríkósur

1/2 bolli þurrkaðar döðlur

1/2 bolli þurrkaðar fíkjur

1/4 bolli rúsínur

1/2 tsk kanill

1/2 tsk vanilludropar

1/3 bolli hunang

2 egg

Setja allt nema hunang og egg í matvinnsluvél og hræra saman þangað til blandan verður nokkuð fín. Bæta þá hunangi og eggjum samanvið og hræra þangað til blandan verður eins og þykkt/gróft mauk. Setja á smurðan bökunarpappír, ofan í eldfast mót, þrýsa örlítið á (blandan er mjög klístrug) og inn í 175 gráðu heitan ofn í 20 mínútur, eða þangað til fallega gyllt. Má vera lengur ef vill - passa bara að brenna ekki.

 Orkubomba

Kæla og skera í bita. Ég gerði bitana mína svo til smáa. Bútaði plötuna niður í 21 stykki. Bitarnir eru svo þéttir og góðir að einn er nóg til að seðja það sárasta! Frábær áferð. Geymast vel í ísskáp/frysti.

Orkubomba

Karamellukenndir, djúsí og bragðgóðir bitar... bara gleði!


Banana og möndlusmjörsloka mínus brauðið

Nákvæmlega það sem titilinn segir. Banani og heimagert möndlusmjör á milli! Æðislegur biti í eftirmiðdaginn! Mjúkur sætur banani, stamt möndlusmjör með eilítið sætum keim.

Banani og heimagert möndlusmjör

Grísinn í bakgrunn er líka ánægður með viðbitsvalið. Leifði honum að vera með til að halda í bleika þemað síðan í morgun. Gleðigrís með meiru!


Vatnsmelónugleði

Hvernig er skemmtilegast að borða vatnsmelónu? Jú... beint upp úr vatnsmelónunni sjálfri!

Vatsmelóna tilbúinn í slaginn

Ég og Palli kaupum okkur sunnudagsvatnsmelónur reglulega og gúllum þeim í okkur í morgun- og/eða hádegismat. Ekkert uppvask, ekkert subb.. bara gleði í mélónuskinni!

Vatsmelóna - alveg að tapa greyið

Horfin! Held að uppfinningamaður vatnsmelónunnar hafi verið í góðu skapi daginn sem hann ákvað að búa hana til. Ííískaldar vatnsmelónur eru bara æðislegar.

Vatnsmelóna - horfin

Eins og bragð og áferð skiptir mig nú miklu máli þegar ég er að borða mat, þá get ég svo svarið það, að hvernig ég borða matinn, komi sterklega til greina í 3ja sætið.


Bananabrauð með hörfræjum

Ef þér þykja bananabrauð góð, þá má þetta brauð ekki fram hjá þér fara! Létt í sér, en samt djúsí, ótrúlega bragðgott og áferðin æðisleg. Virkilega gaman að bíta í þetta gúmmulaði! Stútfullt af hollri fitu, trefjum, flóknum kolvetnum og smá próteini. Fullkomið morgunverðarbrauð.

Heilhveiti- og hörfræ bananabrauð

Bananabrauð með hörfræjumStilla ofn á 175 gráður.

1/2 bolli Undanrenna

2 msk mulin hörfræ

2 bollar heilhveiti

1 tsk kanill

1/2 tsk múskat

1 og 1/2 tsk matarsódi

1/4 tsk salt

1/4 bolli olía

1 tsk vanilludropar

4 mjög vel þroskaðir stappaðir bananar

1/2 bolli hnetur, þurrkaðir ávextir, hvað sem er (má sleppa). Ég braut niður 5 valhnetur.

Í stórri skál, blanda saman hörfræjum og mjólk. Setja til hliðar. Í annarri skál hræra saman heilhveiti, kanil, múskat, salt og matarsóda og því blandi sem þú vilt nota. Setja til hliðar. Blanda saman olíu, vanilludropum og bönunum í stóru skálinni þar sem mjólkin og hörfræin hvíla sig. Þarnæst hella hveitiblöndunni í stóru skálina, með bananagumsinu, og hræra létt. Mega alveg vera kögglar. Hella í smurt brauðform, toppa með t.d. möndlum, og inn í ofn í 50 mínútur, eða þangað til prjónn, sem stungið er í brauðið mitt, kemur út svo til hreinn.

Bananabrauð með hörfræjum

Leyfa brauðinu að kólna í 10 - 15 mínútur, í brauðforminu, eftir að það hefur verið tekið út úr ofninum. Eftir þann tíma flytja það á grind og leyfa að kólna alveg. Muna bara, ekki taka undirritaða á þetta og reyna að skera brauðið heitt. Leyfa því að kólna vel fyrst.

Bananabrauð með hörfræjum

Niðurstaða:

Bara gott! Æðislegt á bragðið. Áferðin fullkomin. Að hafa möndlur ofan á brauðinu er eins og að borða súkkulaði með jarðaberjum! Ment to be!

Hvað myndi ég gera öðruvísi næst?

Held barasta ekki neitt! Þetta brauð er virkilega, virkilega gómsætt. Er einmitt að borða eina sneið núna með hnetusmjöri og sultu Cool 

Verður eitthvað næsta skipti?

Það held ég nú. Búin að nóta það niður á uppáhaldslistann.


Nýja uppáhalds uppáhald

Myndirnar segja ekki helminginn af sögunni, en þetta er eðal nasl í mínum kladda!

Hýðishrísgrjón, kotasæla, epli og kanill

1/2 bolli köld hýðishrísgrjón blandað saman við 100 gr. kotasælu og niðurskorið epli. Toppað með kanil að sjálfsögðu. Þið sem þekkið grjónagraut - þá er þetta svo til aaalveg eins! *slef*

Mmhmm þetta var svo gott. Hitti beint í mark!

Hýðishrísgrjón, kotasæla, epli og kanill

Farin út í sólina aftur. Fiskiveisla í gúmmulaðihöllinni í kvöld - humar, harpa, smokkfiskur! Eeeek... get ekki beðið!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband