Færsluflokkur: Fiskur

Hvernig skal laxinn framreiða?

Ég var ekki viss. Eina sem ég vissi var að mig langaði í reyktan lax. Svo hann var keyptur! Eggjahvítuburrito með reyktum lax, capers, tómat, rauðlauk og dillsósu? Hrísgrjóna-laxaréttur með grænum baunum og niðurskornu grænmeti? Laxaklattar með rjómaosti, avocado og góðri dressingu? Nennti ekki að standa í því að hita eitt né neitt svo ég tók þann pólinn í hæðina að rúlla laxinum utan um brún grjón og grænmeti og búa til þykjustunni "Inside out" sushi!

Hráefni í þykjustunni

Lagði laxaflökin á disk og dreifði brúnum grjónum þar yfir.

Reyktur lax og brún grjón

Þarnæst gúrku, smá tómat, mango og loks wasabi-dressingu sem var ææðisleg. Létt AB-mjólk, wasabi mauk, smá hunangs dijon og dropi hunang.

Reyktur lax, brún grjón, grænmeti og wasabi dressing

Rúllaði upp og hananú! Þykjustunni sushi! Reykt laxarúlla með brúnum grjónum, grænmeti, mango og wasabi dressingu!

Þykjustunni sushi rúlla með brúnum grjónum, grænmeti og wasabi dressingu

Yfir rúlluna sáldraði ég svo Dukkah með möndlum og aðeins meira af dilli.

Reykt-laxarúlla með brúnum grjónum, grænmeti, mango og wasabi sósu

Þetta var geypilega gott þó ómerkilegt sé. Wasabi dressingin var fullkomin á móti reyktum laxinum. Wasabi-ið gaf gott kikk og bragðið af laxinum, á móti sætunni í sósunnu, mildu grænmetinu og sæt/súru mangó, var fullkomið! Grjónin voru svo toppurinn því þau eru aðeins undir tönn og gaman að bíta í!

Reykt-laxarúlla með brúnum grjónum, grænmeti, mango og wasabi sósu

Gleði og hamingja! Aðeins öðruvísi, gaman að búa til, skemmtilegt að borða. Þetta ætla ég að gera einhverntíman aftur með meiri tilþrifum. Rúlla þéttar, geyma í ísskáp... Ætli ég verði samt ekki kærð fyrir að bendla þennan gjörnin við sushi?


Laxa og quinoa salat

Endurtekning á hádegismatnum - blandað gums. Ég tek uppáhaldstarnir í mat og matarvali! Nú verður það salat út ágúst, get svo svarið það!

Laxa og quinoa salat

100 gr. reyktur lax, 3 niðurskornar eggjahvítur, 1 sneið smátt skorinn rauðlaukur, 1 dl grænar baunir (hverjum hefði dottið það í hug?), 1/2 smátt skorinn tómatur og 1/2 bolli soðið quinoa. Sett í skál og hrært saman. Svo sullaði ég yfir þetta sítrónusafa, dilli, dijon sinnepi, pínkulítið af hunangi, balsamic og létt AB-mjólk og toppaði með capers, steinselju og rifnum sítrónuberki.

Laxa og quinoa salat

Jújú, þetta var ágætasta salat, kom vel út. Flottur og einfaldur kvöldmatur enda maginn sáttur og saddur! Reyktur lax er bjútifúl!


Humarsalat með léttri hunangs-sinnepssósu

Létt og laggott! Einfalt og fljótlegt að setja saman. Bragðgott. Hollt!

Salat og kirsuberjatómatar í grunninn. Steikja papriku, rauðlauk og sveppi á pönnu - setja til hliðar. Steikja humar og krydda með því sem vill. Salt, pipar, fiskikrydd. Rétt áður en humarinn er til setja möndluflögur út á pönnuna. Fyrst setja salat og tómata í skál, þar á eftir steikta grænmetið og ofan á grænmetið fer humarinn. Ofan á humarinn góða fara ristuðu möndlurnar og yfir allt heila klabbið fer hunangs sinnepssósan.

Humarsalat með léttri hunangs sinnepssósu

Sinnepssósuna hrærði ég saman úr 1 dl Létt AB-mjólk, rúmlega msk. honey Dijon sinnepi, smá hunangi, salti, sítrónusafa og pínkulítið tahini. Hún var eðal fín! Væri hægt að nota hana á samlokur, með hrísgrjónum, kjúlla... alveg að gera sig. Mmm.

Létt og laggott humarsalat með hunangs sinnepssósu

Næst þegar ég geri svona sleppi ég kálinu alveg, steiki meira af grænmeti og nota tonn af möndlum. Möndlur, humar, sinnepssósa, steikt grænmeti = AMEN!

Létt og laggott humarsalat með hunangs sinnepssósu

Þetta var gott. Mjög gott. Ég er sérlega hrifin af sinepssósunni með humrinum!


Stórgóður Makríll

Já, pabbi kom heim af sjónum í gær. Með honum fylgdi glænýr, nánast spriklandi Makríll sem var snæddur í kvöld af forvitnum og gráðugum fjölskyldumeðlimum!

Flundurnýr Makríll

Velt upp úr kryddi og hveiti og steiktur á pönnu. Virkilega, virkilega góður fiskur. Áferðin skemmtileg, bragðið æðislegt - minnti kannski á þorsk eða ál hvað áferð varðar. Mjöög gleðilegt smakk!

Glænýr steiktur Makríll

Með þessu var ferskt salat og Mango Chutney sem kom frábærlega vel út með fiskinum. Við ætlum að prófa að grilla hann næst. Nokkrir fiskar eftir! Enginn smá lúxus að eiga pabba sem kemur heim með allskonar gúmmulaði, flundurnýtt upp úr sjónum til prufu - lovit!

Eftirréttur kvöldsins, ef eftirrétt má kalla, var besta vatnsmelóna sem ég hef fengið í ár! Ég segi það satt. Rosalega safarík, sæt og crunchy! Nákvæmlega eins og vatnsmelónur eiga að vera. Í bakgrunn sést Wicked Paulsen gúmsla einni sneið græðgislega í sig! Á eftir þessari sneið fylgdi önnur!

Fullkomin vatnsmelóna

Garðurinn hennar mömmu er í blómstra. Ég eeelska... garðinn hennar mömmu! Er svo fallegur ákkúrat núna. Það er svo notalegt að sitja út á palli, út á grasi nú eða í hengirúminu og njóta þess að vera til. Lyktin af öllum blómunum... ahh! Sumar!

Alparós

Gult er gleðilegt

img_5094.jpg

img_5093.jpg

img_5098.jpg

Ohhh hvað þessi fiskur var ógeðslega góður!


Humarhátíð

Það var ákveðið í snarhasti að skunda til Hafnar á Humarhátíðina sívinsælu. Palli er að sjálfsögðu Hafnarmaður frá blautu barnsbeini og við kíkjum þangað af og til þegar vel stendur á. Elska að fara til Hafnar, það er svo notalegt.

Ég, borgarbarnið sem ég er, hafði ímyndað mér að humarhátíðin sjálf samanstæði af fólki, af öllum stærðum og gerðum, kastandi-, sveiflandi-, bjóðandi-, gefandi og syndandi í humar. En nei... ég held nú ekki! Jú, það er fullt af allskonar humarréttum til sölu á þeim 5 'veitingastöðum' sem Höfn hefur upp á að bjóða, en það er nú þannig allan ársins hring. Palla var mjög skemmt yfir hneykslun minni og fáfræði í þessum efnum og kallaði mig græðgisátvagl! Ég get svosum ekki neitað, það er hárrétt hjá honum! Cool

Ég hafði ekki tíma til að taka til nesti sökum skyndiákvörðunar og slappleika sem enn var til staðar í systeminu. Ferðin byrjaði því á Subway kjúklingasalati sem var bara alls ekki svo slæmt og, mér til mikillar furðu, nokkuð ódýrt. Eftir það var brunað af stað enda 5 tíma keyrsla fyrir höndum. Á miðri leið keyptum við okkur epli og skyr til að narta í. Ég notaði eplið mitt til að dýfa í skyrið - það er bara svo miklu skemmtilegra en að borða með skeið! Eins og þið sjáið kannski þá var ekki mikið stoppað á leiðinni...

Viðbitið, skyr og epli

Þegar á Höfn var komið beið okkar að sjálfsögðu eðal fínt humarsalat. Það gladdi mig óstjórnlega enda hungrið farið að segja til sín. Mjööög gott!

Humarsalat á Humarhátíð

Svo er bara að bíða og sjá hvað kvöldið ber í skauti sér. Kannski er einhver Hornfirðingur að gefa humar eftir alltsaman. Ég þarf bara að finna viðkomandi!


Aðkeypt veikindasalat með humri

Hið langþráða humarsalat Saffran kom í hús í dag! Palli kom heim með kvöldmat handa veika kvendinu alveg upp úr þurru! Gladdi mig óstjórnlega þar sem:

1. Ég hef hvorki getu né vilja til að elda nokkuð.

2. Ég var orðin mjöög svöng.

3. Ég hef viljað prófa þetta salat síðan ég sá það.

Gripurinn leit svona út... doldið sjabbí á að sjá í plastboxi, en gefum þessu séns. Þetta er ekki náttúrulegt umhverfi þessa salats! Cool

Humarsalat a la Saffran

Ohhh... stóðst ekki væntingar! Saffran kjúklingasalatið hefur enn vinninginn! Þetta var í raun bara steiktur humar með hálfgerðri sinnepssósu. Ekki misskilja, humar er alltaf númer 1, 2 og 3. En salatið og dressingin gerðu ekkert fyrir réttinn. Ojæja... ég fékk þó humar í magann og það er alltaf jákvætt.

Humarsalat a la Saffran

Ahh, gott að eiga góðan kall.


Laxasneiðar í eggjaköku með capers, rauðlauk og rjómaosti

Ég bjó þetta til um daginn og átti alltaf eftir að birta pistilinn... svo, versogú!

Laxasneiðar í eggjaköku með capers, rauðlauk og rjómaosti

Átti lax í frystinum sem ég vildi nýta í eitthvað. Skar mér um það bil 200 gr. stykki af fiskinum, skar stykkið í þunnar sneiðar og leyfði að marinerast í, hálfgerðri graflaxsósu, dressingu yfir nótt. Dijon sinnep, hunang, sítrónusafi, smá salt og dill. Ég hrærði þessu saman eftir smekk. Væri líka hægt að nota sætt sinnep og sleppa hunanginu. Ég hrærði svo saman 3 eggjahvítum, smá salti, pipar, mjólk og dilli. Raðaði nokkrum laxabitum á miðlungs heita pönnu, hellti eggjahvítublöndunni yfir fiskinn og svo meira af laxi ofan á eggin. Ætli ég hafi ekki notað 100 gr., rúmlega, af laxi.

Eggjakaka með laxabitum

Þessu leyfði ég í raun bara að malla þangað til eggin voru steikt í gegn. Þá braut ég kökuna saman og færði yfir á bökunarpappír. Smurði á kökuna smá rjómaosti, kannski msk. Kom henni svo vandlega fyrir inn í 175 gráðu heitum ofni, grill, í 3 mínútur. Rétt til að fá smá crisp.

Laxasneiðar í eggjaköku og rjómaostur

Eftirleikurinn er nú auðveldur. Skera niður rauðlauk, mjög smátt, ásamt steinselju og krækja í nokkur capers korn. Dreifa því yfir kökuna og hananú, þessi líka snilldarinnar glæsilegi hádegis- eða kvöldmatur tilbúinn!

Laxasneiðar í eggjaköku með capers, rauðlauk og rjómaosti

Þetta var ekkert smá frábært. Maginn sérstaklega sáttur eftir gjörninginn og bragðlaukarnir líka. Dressingin sem laxinn var í gaf ofboðslega gott bragð í eggjakökuna, sinnepið kom sterkt þar inn. Gaf skemmtilegan keim á móti hunanginu. Rjómaostur með capers og rauðlauk er að sjálfsögðu æði og biti af fisk með fær mann bara til að brosa. Mikill samhljómur, í bragði, í gangi á þessum disk!

Laxasneiðar í eggjaköku með capers, rauðlauk og rjómaosti

Virkilega, virklega skemmtilegt og bragðgott!

Laxasneiðar í eggjaköku með capers, rauðlauk og rjómaosti

Til gamans má geta að næringargildið í þessari máltíð er æðislegt! Um það bil 300 hitaeiningar, 32 gr. prótein og 16 gr. fita. Mjög flott fyrir þá daga sem hvílt er. Lítið af kolvetnum, meira af fitu og próteinum! Frekar flott!


Stiklað á stóru

Sumarið er komið og grillið orðið partur af eldamennskunni... mér líkar það vel. Kvöldmaturinn var æði. Grillaður lax og rækjur á spjóti. Laxinn var eðal.

Grillaður lax og rækjur

Fengum okkur sætar grillaðar kartöflur með. Sumar voru kanilstráðar... mmmhmm!

Kanilstráðar sætar kartöflur með origano

Salatskál með tahini dressingu. Tahini, dijon, hunang, ab-mjólk...

Salatskál með tahini dressingu

Ég veit... ég er ógeð... en ég borða roðið af laxinum þegar búið er að grilla það í döðlur! Skelfilega gott!

Grillað laxaroð

The end! Út að leika...


Kæld mango súpa og humar

Hornafjarðarhumar létt kryddaður og steikur á salatbeðiÞað er nú ágætt að eiga kall sem er ættaður frá Höfn. Ómælt magn af humri sem streymir inn um dyrnar hjá manni! Ég kvarta ekki... humar er uppáhalds maturinn minn!

Ég gerði kalt mango og avocado humarsalat í vetur sem kom svo skemmtilega vel út. Humarinn og mangoið áttu mjög vel saman, enda var þetta bragðgóð og, ó svo gleðileg máltíð. Ákvað því að taka smá twist á þetta og búa til mango súpu sem ég er búin að vera að hugsa um í nokkurn tíma. Köld, fersk súpa sem auðvelt er að bragðbæta að vild. Sæt, súr, sterk - virkar í allar áttir! Væri jafnvel hægt að nota hana sem "dressingu" á salöt, fisk... eða sem lítinn smakk forrétt. Setja smá skammt af súpu í staupglas og rjóma yfir! Þá þykir öllum mikið til þín koma!

Kæld mango súpa - fyrir 2 til 3 sem máltíð ásamt meðlæti

Grunnur

1 skrapað og skrælt mango, tæplega 500 grömm. Þarf að vera nokkuð vel þroskað.

1/4 bolli rúmlega, létt AB-mjólk. Má nota líka nota jógúrt eða t.d. kókosmjólk.

1/2 bolli appelsínusafi. Meira eða minna eftir smekk.

1 msk hunang

Svona er uppskriftin í grunninn. Flóknara er það ekki. Svo kemur að því að ákveða hvort súpan eigi að vera sæt, t.d. sem sósa yfir e-n girnilegan eftirrétt eða vel krydduð... þið ráðið.

Krydd

Dass kanill, múskat. Rétt þannig að bragðið finnist. En bara rétt svo.

Smá wasabi paste, eftir smekk. Jafnvel engifer. Ég notaði reyndar ekki engifer, átti ekki, en það hefði komið vel út.

Salt og pipar

Fyrst set ég grunninn, eins og hann leggur sig, í blender og hræri saman þangað til nokkuð mjúkt. Þá fer ég að bæta við kryddum og smakka mig áfram.

Kæld mango súpa

Blanda svo vel, inn á milli þess sem þú kryddar þessa elsku, þangað til súpan lítur um það bil svona út.

Kæld mango súpa

Þá er ágætt að setja hana inn í ísskáp í 1 - 2 tíma. Ég reyndar gerði það ekki, græðgin alveg að drepa mig. En allt sem ég notaði var búið að vera inn í ísskáp, mangoið, AB-mjólkin og safinn, svo þetta slapp bara vel. Ég tók mig svo til og skreytti súpudiskinn með AB-mjólk. Svona er maður svaðalega pro.

Kæld mango súpa

Nokkrum humarskottum komið vel fyrir ofan á súpunni og smá kóríander yfir.

Kæld mango súpa með humri

Svei mér þá. Þetta fannst mér geggjaðslega gott. Súpan er að sjálfsögðu ein og sér ótrúlega góð og kom mjög skemmtilega á óvart. Súrt, sætt bragðið af mango með smá keim af appelsínusafanum. Létt AB-mjólkin gerir skemmtilega áferð, mjúka og rjómakennda. Meiriháttar fersk og fín! Í hverju smakki veist þú að það er kanill í súpunni, múskatið rétt læðir sér með og í enda hvers bita sparkar wasabíið vel í bragðlaukana! Ég ætla svo sannarlega að leika mér með þetta í sumar. Svo ferskt og bragðgott. Hægt að nýta þetta á marga mismunandi vegu! Sérlega ánægð með að hafa látið á þetta vaða.

Kæld mango súpa með humri

Humarinn og súpan saman virkuðu vel fyrir mig. Ég kryddaði humarinn með fiskikryddi, smá wasabi salti og pipar, og steikti upp úr örlítilli olíu. Þessi tvenna á góða samleið. Næst þegar ég geri þetta kem ég þó til með að hafa humarinn kaldan og skera í smærri bita. Kryddið af humrinum, seltan á móti sætri súpunni var skemmtileg og yfirgnæfði ekki sætt bragðið af kjötinu. Svo kom að sjálfsögðu wasabi bragðið í endann með hint af kanil, löngu eftir að súra bragðið af mangoinu var farið. Ohh þvílíkt nammi!

Kæld mango súpa með humri

Humarinn sem var svo ekki notaður í súpuna hvíldi sig á salatbeði, þó ekki í langan tíma því hann kláraðist á mettíma. Úff... mikið ofboðslega er humar góður.

Eðal humar, léttilega kryddaður og steikur.

Að sjálfsögðu fékk ég mér sætan bita eftir matinn. Keypti mér ferskar döðlur í Bónus um daginn, þær eru æði. Skar steininn úr einni, setti inn í hana macadamia hnetu, súkkulaðibita og smá hnetusmjör! Alveg hægt að sleppa sér í svona nammiáti! Mælimeð'essu!

Fersk daðla með macadamia hnetu, dökku súkkulaði og hnetusmjöri


Þorskur í basil og hvítlaukslegi með ofnbökuðu grænmeti og banana

Fiskiprinsinn er frábær! Auðvitað kom ég við hjá þeim og greip mér þennan dýrindis þorsk! Þvílíkur snilldar lögur sem hann var í! Þeir eru nefnilega svo sniðugir að setja fiskinn í álbakka sem bókstaflega er hægt að fleygja inn í ofn á ferð og maturinn til eftir 20 mín!

Þorskur í basil og hvítlaukslegi með bökuðu grænmeti og banana

Basilika, tómatar og hvítlaukur. Þessi blanda.. ó guð! Þessi hráefni eiga svo vel við hvort annað og lyktin sem kemur þegar þessu er blandað saman! Mmhmm!

Jæja, jazzaði aðeins upp á réttinn. Skar að sjálfsögðu niður 1/2 sæta kartöflu, 1,5 gulrætur, smá brokkolí og blómkál og 2 hvítlauksgeira. Henti því í fat og inn í ofn í 20 mín, rétt til að mýkja grænmetið. Eftir dvöl grænmetisins í ofninum tók ég fatið út og lagði fiskinn yfir. Skar svo í tilraunaskyni niður banana og raðaði, ó svo pent, yfir fiskinn. Inn í ofn aftur í 20 mínútur, eða þangað til fiskurinn er eldaður.

Þorskur í basil og hvítlaukslegi með bökuðu grænmeti og banana

Ó gvöð hvað þetta kom vel út. Bananinn alveg að blessa fiskinn og hefði mátt vera meira af! Þvílíkt sælgæti. Þið sem lesið þetta hjá mér vitið svosum af framhjáhaldi mínu við ofnbakað rótargrænmeti og grænmeti yfir höfuð... mikið gúmmulaði í mínum huga.

Þorskur í basil og hvítlaukslegi með bökuðu grænmeti og banana

Vel heppnuð og skemmtileg máltið. Kostaði minna en ekki neitt, ég þurfti bara að skera grænmeti og að sjálfsögðu á góða listanum!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband