Þriggja rétta mergjuð sjávarréttaveisla!

Nammidagur í dag - kvöldmáltíð vikunnar tekin með stæl! 

Ég er farin að kunna vel við þá tilhugsun að borða fisk og fiskmeti. Fiskur hefur fært sig ofarlega á vinsældarlista hjá mér og ótrúlegt en satt, þá fær hann aðeins fleiri stig en rautt kjöt þessa dagana! Fiskur er léttur í maga, bragðgóður og það er auðvelt að elda hann án þess að skemma - sem er að sjálfsögðu kostur fyrir hellisbúa eins og mig!

Óunnið fiskmetið

Í kvöld var ég með þrennskonar fiskmeti. Humar, risa hörpu og smokkfisk. Yirleitt þá er þetta hráefni tekið og kryddað, steikt upp úr hvítlauk og olíu eða einhverju rjómakyns og maturinn er til. Ekki misskilja, það er guðdómlegt og klikkar aldrei, en mig langaði að prófa að útbúa eitthvað aðeins öðruvísi í þetta skiptið.

 

Le beast - smokkfiskurinnEyddi heillri viku í að hugsa hvað væri sniðugt að gera og í kvöld small þetta allt saman. Fullt af afgangs ávöxtum og grænmeti sem ég átti ásamt fiskmetinu að sjálfsögðu. Ó elsku lesandi, þetta var máltíð sem ég vildi óska að ég hefði notað í matarboð! Þetta er eitthvað sem allir þurfa að smakka, þvílíkt og annað eins lostæti þó ég segi sjálf frá! Svo mikil synd að enginn annar hafi fengið að smakka líka....

 

Þetta var kvöldmáltíð sem verður elduð í annað sinn! 

Ferskt mango- og avocado salat með humarhölum og kókos

Ferskt avocado- mango salat með humri.

Geggjað, kalt og fersk sumarsalat. Tilvalið á góðu sumarkvöldi með yndislegu hvítvíni. 

Humarinn var steikur upp úr fiskikryddi og olíu og eftir það kældur. Muna bara að steikja humarinn rétt svo að hann nái smá lit. Annars verður kjötið eins og gúmmí, þá er minna gaman að borða hann. En það er aðallega fyrir matar-áferða perra eins og mig. Ég er mjög hrifin af mismunandi áferðum á hráefnum og hvernig bragðið kemur fram þegar bitið er í tiltekinn bita. Þið vitið hvað ég á við! Er ekki miklu skemmtilegra að borða ís þegar það er nóa kropp á honum? Allavega....

Mango og avocado er skorið í litla bita, ég notaði eitt stk. af hvoru, og sett í skál. Ég bjó til dressingu úr ólívu olíu, balsamic ediki, sítrónusafa og hunangi sem ég svo saltaði og pipraði. Dressingunni hellti ég svo yfir mango-/avocado salatið og blandaði vel saman. Eftir það raðaði ég humarhölunum yfir ávextina, sáldraði kókosflögunum yfir og skreytti með smá steinselju, salatblaði og jarðaberjum. Avocadoið á það til að verða brúnt við geymslu, ef þið viljið losna við það þá er best að setja bitana í sítrónusafa áður en þeim er blandað saman við mangóið. Rétturinn er svo kældur í minnst hálftíma inn í ísskáp áður en hann er borinn fram.

Snilldar humarsalat

Þetta var meiriháttar góð tilbreyting. Mangóið og humarinn áttu jafn vel saman og súkkulaðisósa á ís. Humarkjötið eilítið sætt/saltað á móti sætunni/sýrunni í mangó ávextinum. Kókosinn er tilvalinn með mangóinu og avocado bitarnir gefa skemmtilega áferð þegar bitið er í þá inn á milli. Rjómakennt avocado kjötið er að sjálfsögðu snilld - þið sem lesið þetta hjá mér hafið eflaust tekið eftir ástfóstrinu sem ég hef tekið við þennan ávöxt! Ég myndi segja að það sé nauðsynlegt að hafa mangóið nokkuð vel þroskað í þessum rétti til að fá sem best bragð og áferð á móti humrinum. Rétturinn er kaldur og ískalt mangóið, bragðsterkt en mjúkt undir tönn, úff. Ferskara gerist þetta ekki. Dressingin kom líka vel út með ávöxtunum og gaf skemmtilegt eftirbragð!

Smokkfiskur (Calamari) hjúpaður með stökkum hafra- og Dukka mulningi. 

Hafra- og dukka hjúpaður smokkfiskur

Hef sagt það áður og segi það aftur. Smokkfiskur er æðislegur. Það er gaman að bíta í hann og áferðin er æðisleg. Pínkulítið gúmmíkenndur en kjötið samt svo silkimjúkt. Minnir mig á humarkjöt, sætur keimur og bragðið að vissu leiti hlutlaust.

Ég byrjaði nú á því að vinna fiskinn og skar hann í þunna strimla. Muldi þarnæst niður hafra sem ég átti inn í skáp, blandaði saman við þá Dukka kryddi frá Yndisauka, smá salti og pipar. Dukka kryddið er blanda af karrý, sesamfræjum og muldum hnetum. Meiriháttar gott! Líka gott að nota það sem ídýfu-mylsnu með baguette og góðri olíu. Smokkfiskinn setti ég svo ofan í hafra- og Dukka mulninginn og hjúpaði vel. Þarnæst steikti ég gúmmulaðið upp úr isio4 olíu og hafði með þessu steiktar gulrætur og sykurbaunir. Æðislegt grænmetisbland til steikingar. Þetta kom snilldarlega vel út. Dukka kryddið er bjútifúl með smokkfisknum og ég fann fyrir hnetunum og sesamfræjunum í hjúpnum. Meiriháttar skemmtilegt bragð og átti vel við. Gaman að bíta í smokkfiskinn þar sem kjötið sjálft er flundurmjúkt á móti krydduðum og stökkum hafrahjúpnum. Æðislegt!

Mmmhmm

Smokkfisk kjötið krullast líka svo skemmtilega upp þegar það er eldað. Þó það geri það reyndar ekki á myndinni hér til vinstri!

Það er gleðileg upplifun fyrir átvagl eins og mig að borða smokkfisk. 

 

 

Risa hörpudiskur með karmelliseraðri döðlu, vafinn inn í kalkúnaskinku ásamt hunangsristuðum bönunum, gómsætri bananaskyrsósu og ristuðum möndlum.

Punkturinn yfir I-ið. Þetta var uppáhalds rétturinn minn þó þeir hafi reyndar allir slegið í gegn. Ég er sykursnúður og það vita það allir sem þekkja mig. Þessi réttur var sætastur af þeim öllum og kom skemmtilega vel á óvart. Banani, daðla, skinka og hörpudiskur - æðislegt, æðislegt bland!

Inpökkuð risaharpa í kalkúnaskinu með döðlubita

Útbjó svipaða dressingu fyrir hörpuna og ég útbjó fyrir mango- og avocado salatið. Balsamic edik, olía, hungang, sítróna og smá fiskikrydd. Marineraði fiskinn í rétt rúmar 15 mínútur. Mætti þó alveg vera lengur. Á meðan kjötið marineraðist þá skar ég einn banana til helminga og steikti á pönnu. Hér væri að sjálfsögðu langsamlega best að grilla kvikindið en ég var ekki með grillið uppi við. Saltaði bananana eilítið og smurði með hunangi, steikti þangað til karamelluhjúpur hafði myndast utan um þá og tók þá af pönnunni. Í leiðnni skar ég niður döðlur og steikti samhliða - rétt til að mýkja og hita. Þar næst var harpan tekin og léttsteikt á pönnu til að fá utan á hana stökkan hjúp. Henni pakkað inn í kalkúnaskinkuna og döðlubitunum raðað ofan á hvern hörpudisk. Þessu var svo öllu skúbbað inn í 180 gráðu heitan ofn, ásamt bönunum, og eldað í 5 - 6 mínútur. Þá var harpan orðin perfecto! Stökk skel, mjúk í miðjunni. Skinkan orðin stökk, saltbragðið í henni búið að brjótast fram og döðlubitinn orðinn crunchy eins og karamella. Bananarnir karamellukenndir og mjúkir - hryllilega góðir maður! Uss.

Banana skyrsósa á kanntinum

Með þessu bjó ég til banana skyr sósu. Köld sósa, létt með sætum keim að sjálfsögðu. Stappaði vel þroskaðan banana, blandaði saman við skyr og eina matskeið af sýrðum rjóma. Ein tsk hunang, smá dijon sinnep og pínkulítið af salti. Stráði svo yfir þetta ristuðum möndlum og viti menn, himnesk sósa! Dijon sinnepið gefur líka alltaf svo skemmtilegt bragð, sérstaklega þegar notað er súrt hráefni eins og skyr. Sætan í banananum vinnur líka vel á móti sýrunni og hunangið gefur skemmtilegt eftirbragð. Sýrði rjóminn var svo til að milda allt og þá smallt þetta svona líka vel saman.

Ég veit ekki hvar ég á að byrja! Saltið í skinkunni á móti sætri döðlunni er eitthvað sem við þurfum ekkert að ræða. Daðlan var líka orðin crunchy sem gaf skemmtilegt kikk í hvern bita. Sætan í réttinum vann líka svo vel á móti hörpunni, stökkri skinkunni og kryddinu og leyfði kjötinu alveg að njóta sín. Enginn yfirgangur í skinkunni, þó það hefði alveg mátt nota hráskinku, held ég prófi það næst. Bananinn og skyrsósan voru svo alveg til að fara með sykurfíkilinn í mér. Allt innan skynsemis-sykurmarka þó, og sætan í réttinum kom aðallega frá döðlunum og banananum. Held ég hafi notað, allt í allt, tæplega 2 tsk af hunangi í þetta lostæti! Biti af skinku, hörpu, döðlu, skyrsósunni, hunangsristaða banananum og möndlunum - guð... minn... góður! Öll þessi brögð og mismunandi áferðir - fullkominn biti! Salt, sæta, smá sýra, stökkt kjöt á móti mjúku kjöti og allt vann þetta fullkomlega vel saman. Jesús minn - trúi því ekki að maturinn sé búinn!

Vonandi varð ykkur að góðu í kvöld mín kæru því mér varð það svo sannarlega! 

Meistaramáltíð

Kvöldmaturinn eins og hann lagði sig! 

ÉTIР

Om nom! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Elín...hvernig stendur á því að svona matarhugmyndir koma til þín eins og enginn sé morgundagurinn.

Ég bjó til dótið með eggjahvítunum og smá osti í gær! Namm!

Inam (IP-tala skráð) 5.4.2009 kl. 13:02

2 identicon

Það eru engin orð!

Almighty Elin of the healthy kitchen, we bow down to you :)

Dossa (IP-tala skráð) 5.4.2009 kl. 13:24

3 Smámynd: Elín Helga Egilsdóttir

Já, eggjahvítukakan er alltaf góð. Líka hægt að éta ógeðslega mikið af henni án þess að maturinn fari að leka út um nasirnar!! :O

Doss, þú verður að smakka hörpudiskinn - herre gud, hann var ógó góður!

Elín Helga Egilsdóttir, 5.4.2009 kl. 14:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband