Færsluflokkur: Fiskur
7.6.2009 | 21:12
Hachala, arabískur þorskréttur
Fórum til mömmu í mat og fengum snilldarlegan þorskrétt, arabískan að uppruna. Það er víst íslensk skvísa að vinna sem kokkur erlendis sem á þessa uppskrift og húrra fyrir henni segi ég nú bara. Þetta var svakalega gott. Grænmeti, smá kúskús og þorskur. Afskaplega skemmtilegt á bragðið og gleðilegt að borða. Einfalt að elda og fljótlegt að sjálfsögðu. Móðir mín kær fiffaði uppskriftina þó aðeins að sinni eldamennsku, breytti og bætti hér og þar. Notaði meira af sveppum, hvítlauk og ólívum svo eitthvað sé nefnt. Kom vel út, segi það satt!
Hachala, Arabískur þorskréttur
1 græn paprika - og rauð
1/2 dolla svartar ólífur - heil dós
1 bakki sveppir - meira af sveppum
2 hvítlauksgeirar - töluvert meira af hvítlauk
nokkrar rúsínu - rúsínum sleppt hjá okkur
smjör
1 sítróna
400 gr þorskur (flök)
gratínostur
tómatur
Þorskurinn látinn liggja í sítrónusafa. Kúskúsið eldað eftir leiðbeiningum og olía og sítrónusafi sett út á þegar tilbúið. Paprika steikt í örstutta stund á hægum hita, þar á eftir er sveppum, hvítlauk og ólívum bætt við. Láta malla í smá stund og kúskúsinu svo bætt við. Eins og með annað kúskús, þá er alveg hreint ágætt að bæta smá smjöri við á þessum tímapunkti en það þarf ekki. Kúskúsblöndunni er hellt í fat, þorskurinn steikur og svo lagður yfir kúskúsblönduna.
Tómötum er þarnæst raðað ofan á fiskinn og osturinn yfir. Grillað í ofni þangað til osturinn byrjar að brúnast.
Mmhmm.. maginn kátur. Ég veit ekki hvað ég borðaði mikið af þessu en við vorum 4 sem sátum við borðið og eftir 20 mínútur voru 2 kíló af fisk horfin af yfirborði jarðarinnar!
Fiskur | Breytt 23.9.2010 kl. 21:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.6.2009 | 18:57
Ljúffengur lax og sætu kartöfluflögur
Eins og ég hef sagt áður, þá tek ég fullan þátt í því að elda góðan mat á stuttum tíma. Hvort sem ég þurfi að galdra allt frá grunni eða kaupa það sem þarf til að gera eitthvað æðislegt. Ég ákvað að vinna mér inn smá tíma í kvöld og kom við í Fiskiprinsinum á leiðinni heim í dag. Ég elska þessa fiskibúð. Æðislegt starfsfólk, skemmtilegt hráefni sem hefur aldrei klikkað. Keypti mér tvennskonar lax. Annar í sweet chilli og hinn þakinn kókosblöndu. Eftirleikurinn auðveldur! Skar niður gulrætur, brokkolí og sætar kartöflur. Ein varð eins og hjarta í laginu - ótrúlega fín!
Henti grænmetinu í eldfast mót, setti inn í ofn í 20 mín. Eftir það tók ég grænmetið út úr ofninum og bætti laxinum ofan á grænmetið og inn í ofn aftur. Ohh hvað þetta lítur vel út... mmhm! Við ætluðum að hafa grillpartý en þar sem gaskúturinn ákvað að gefast upp þá varð ofninn fyrir valinu.
Á meðan laxinn var að hangsa í ofninum ákvað ég að prófa að búa til sætu kartöfluflögur. Ekkert nýtt á nálinni svosum. Skar sæta kartöflu í mjög þunnar sneiðar, lagði sneiðar á disk, spreyjaði pínkulítið með olíu og inn í örbylgju í 2 - 3 mínútur. Flögurnar brennast auðveldlega, best að fylgjast með þeim.
Komu ótrúlega vel út fannst mér. Ég er að fíla þetta í botn! Crunch factorinn alveg að gera sig, sætu kartöflu bragðið skemmtilegt. Kemur líka "snakk" bragð af þessum flögum. Get í raun ekki útskýrt það betur nema hvað það er að virka flott og eins og 'alvöru' snakk. Svo er hægt að krydda með t.d. kanil, sterku nú eða bara smá salti. Þetta er sko samviskulaust snakk mín kæru. Algerlega samviskulaust og gerir allt sem snakk á að gera - nema að fita ykkur!
Loks var kvöldmáltíðsbiðin ógurlega á enda og fiskurinn bjútifúl nýkominn út úr ofninum.
Smakkaðist vel, tók innan við 40 mínútur, hollt, gott og hamingjusamur magi!
Fiskur | Breytt 23.9.2010 kl. 21:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.5.2009 | 20:47
Hornafjarðarhumar
Það er fátt fiskikyns sem mér þykir betra en humar. Íslenskur, Hornafjarðarhumar. Hvítlauks humar, grillaður humar, humarsalat, humar á brauð... humarsúpan hennar mömmu. Jújú, mömmumatur er góður matur!
Íslenski humarinn, þrátt fyrir að vera smár, er svo ofboðslega bragðgóður. Kjötið með smá sætum keim.. úff! Það þarf ekki einusinni að stússast mikið í kringum hráefnið til að það smakkist vel. Smá salt og pipar og máltíðin fullkomin.
Jæja, þið vitið svosum hvað kemur næst. Ungfrúin fékk sér humar í kvöldmatinn, eldaðan af hinum helmingnum. Humar í appelsínusósu með sætum kartöflum. Gómsætt! Fullkomlega gómsætt.
Fyrir utan grænu gleðina í morgun og humarinn í kvöld þá fengum við okkur smá nasl í eftirmiðdaginn, kotasælu og skyr, blandað saman, ásamt niðurskornu epli og smá kanil. Ekki fussa yfir kotasælunni og skyrinu, það er svakalega fín blanda. Sætt epli og kanill eyðileggur það gums svo sannarlega ekki. Kanill er eitt af mínum uppáhalds kryddum... bjútí.
Þessari snilld fylgdi svo skál af ískaldri, niðurskorinni vatsmelónu...
...og einn biti af epli með ostsneið. Það klikkar aldrei.

Fiskur | Breytt 23.9.2010 kl. 21:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.5.2009 | 18:48
Heitreyktur lax og mango - góð blanda
Keypti rosalega fínan heitreyktan lax í Hagkaup með provensal kryddblöndu. Hann er æði. Kemur í 120 * 4 gramma sneiðum. Tilbúin matvara, gott á bragðið bæði kalt og heitt. Hægt að spisa fiskinn beint úr pakkanum, hita, grilla eða baka. Mjög skemmtilegt. Fljótleg, einföld máltíð sem er alltaf kostur fyrir lummur eins og mig.
Ég var hinsvegar svo svöng þegar ég kom heim í kvöld að ég reif pakkann opinn, greip mér sneið, skar niður smá mango og borðaði með bestu lyst. Ofboðslega gott og mikið ofboðslega er mango og lax góð blanda! Ætla að prófa mig áfram með það á grillinu í sumar!
Fór annars með Ernu á Kryddlegin hjörtu í hádeginu. Þetta er alveg að verða uppáhalds hádegisstaðurinn minn! Ég dýrka brauðið þeirra, salatbarinn er blanda af öllu - ferskur og fínn. Súpurnar... hnetu og kjúllasúpan, oh men! Tók nú reyndar enga myndavél með mér þangað, þið verðið bara að trúa mér :)
Fiskur | Breytt 23.9.2010 kl. 20:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.5.2009 | 19:38
Gómsætir sætu kartöflu og túnfisk klattar
Æji, átti sætar kartöflur og dósatúnfisk. Alltaf gott að geta nýtt afganga í eitthvað og yfirleitt þýðir það túnfiskur, eggjakökur eða hunts-tómatmauk réttir! Þessi kom bara svo vel út að ég ákvað að henda honum hingað inn! Svo kom hann bara frekar vel út næringarlega séð, prótein, holl fita, góð kolvetni og vítamín!
Sætu kartöflu og túnfisk klattar - Fyrir 2

1 dós túnfiskur - 140 gr. ca.
1,5 bollar stöppuð, ofnhituð sæt kartafla
1/2 smátt skorinn laukur
1/2 stilkur sellerý
1 kramið hvítlauksrif
2 eggjahvítur
Smá sítrónusafi
Dash cumin, chilli, múskat, paprika og pínkupons kanill
Splash hot sauce
Salt og pipar eftir smekk
Sigta vatn frá túnfisk og þarnæst setja fiskinn í skál ásamt öllu sem talið er upp hér að ofan. Hræra vel saman og forma í klatta.
Ég mótaði 4 klatta úr blöndunni, næst þegar ég geri svona ætla ég að hafa þá 6 eða 8. Verður bæði skemmtilegra og auðveldara að steikja þannig utan á þá komi góð og stökk skorpa. Þessir voru heldur stórir og þar af leiðandi mýkri en ella. Ekkert brauð eða slíkt til að halda þessu saman en þessir voru flottir.
Bragðaðist svakalega vel. Fannst lítið bragð af túnfisknum. Sæta kartaflan og öll góðu kryddin komu vel út! Sterkt og sætt - ég er að segja ykkur það! Ég hafði með þessu ostsneið, kotasælu, mango chutney og gúrkur. Frábært alveg!
Skammtur fyrir 1 er á 200 hitaeininga línunni, tæplega rúmlega. Tæplega þó. Um það bil 20 gr. af próteinum og vítamín í tonnavís! Túnfiskur er frábær uppspretta próteina, sæt kartafla er vítamínsprengja og full af góðum kolvetnum - maginn líka sáttur eftir matinn og þetta er svo til laust við hitaeiningar! Er hægt að biðja um það betra? Þetta er barasta æðisleg máltíð!
Fiskur | Breytt 23.9.2010 kl. 20:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
1.5.2009 | 19:16
Túnfisk eggjakaka með tómatmauki, kanil og banana

Ekkert sem ég hef ekki mallað í graut áður, en kom skemmtilega út.
Kanill er góður, lykt af kanil er góð og kanill fer vel með sterku. Banani og kanill fara vel saman, túnfiskur og hunts tómatmauk líka - flest allt fer vel í eggjaköku svo af hverju ekki prófa þetta allt saman?
1 dós túnfiskur
1 dós hunts niðursoðnir tómatar
krydd
auðvitað kanill
1,5 dl eggjahvíta
bananasneiðar eftir smekk
Steikti eggjahvíturnar á pönnu þannig úr varð pönnukaka - taka af hita.
Steikja túnfisk úr dós með því kryddi sem til er upp í skáp.. og auðvitað því sem þér þykir gott. Ég notaði t.d. papriku, chilli, hot sauce (vel af henni) og svo yndislega, yndislega kanilinn minn. Hellti svo tómatmaukinu yfir og leyfði að malla þangað til úr varð þykkur pottréttur.
Á helminginn af eggjakökunni setti ég svo gumsið, eina ostsneið þar yfir, lokaði kökunni, sáldraði yfir með smá mozzarella og áröðuðum bananasneiðum! Setti þetta svo alltsaman inn í ofn þangað til osturinn bráðnaði ofan á kökunni, kanntarnir krispý og bananinn steiktur! Út úr ofni og smá kanill yfir!
Gott gott gott - kom vel út. Næst set ég bananann með í maukið! Ekki vera hrædd, þegar búið er að krydda, steikja og bragðbæta túnfiskinn finnst ekkert bragð af honum annað en það sem þú notaðir til að krydda hann með. Skemmtileg tilbreyting og bragðgóð. Gaman að finna bragðið af sterkri tómatsósunni á móti kanilnum og bíta í sætan bananann í leiðinni... ójá! Hafði með þessu guacamole og smá kasjúnetur ásamt ííísköldu mango í eftirrétt!
Máltíðin í heild sinni innan við 400 hitaeiningar og rúmlega 35 gr. prótein. Fullt af omega3, hollri fitu, andoxunarefnum. Létt og laggott!
Fiskur | Breytt 23.9.2010 kl. 20:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.4.2009 | 23:07
Þriggja rétta mergjuð sjávarréttaveisla!
Nammidagur í dag - kvöldmáltíð vikunnar tekin með stæl!
Ég er farin að kunna vel við þá tilhugsun að borða fisk og fiskmeti. Fiskur hefur fært sig ofarlega á vinsældarlista hjá mér og ótrúlegt en satt, þá fær hann aðeins fleiri stig en rautt kjöt þessa dagana! Fiskur er léttur í maga, bragðgóður og það er auðvelt að elda hann án þess að skemma - sem er að sjálfsögðu kostur fyrir hellisbúa eins og mig!

Í kvöld var ég með þrennskonar fiskmeti. Humar, risa hörpu og smokkfisk. Yirleitt þá er þetta hráefni tekið og kryddað, steikt upp úr hvítlauk og olíu eða einhverju rjómakyns og maturinn er til. Ekki misskilja, það er guðdómlegt og klikkar aldrei, en mig langaði að prófa að útbúa eitthvað aðeins öðruvísi í þetta skiptið.

Þetta var kvöldmáltíð sem verður elduð í annað sinn!
Ferskt mango- og avocado salat með humarhölum og kókos.

Geggjað, kalt og fersk sumarsalat. Tilvalið á góðu sumarkvöldi með yndislegu hvítvíni.
Humarinn var steikur upp úr fiskikryddi og olíu og eftir það kældur. Muna bara að steikja humarinn rétt svo að hann nái smá lit. Annars verður kjötið eins og gúmmí, þá er minna gaman að borða hann. En það er aðallega fyrir matar-áferða perra eins og mig. Ég er mjög hrifin af mismunandi áferðum á hráefnum og hvernig bragðið kemur fram þegar bitið er í tiltekinn bita. Þið vitið hvað ég á við! Er ekki miklu skemmtilegra að borða ís þegar það er nóa kropp á honum? Allavega....
Mango og avocado er skorið í litla bita, ég notaði eitt stk. af hvoru, og sett í skál. Ég bjó til dressingu úr ólívu olíu, balsamic ediki, sítrónusafa og hunangi sem ég svo saltaði og pipraði. Dressingunni hellti ég svo yfir mango-/avocado salatið og blandaði vel saman. Eftir það raðaði ég humarhölunum yfir ávextina, sáldraði kókosflögunum yfir og skreytti með smá steinselju, salatblaði og jarðaberjum. Avocadoið á það til að verða brúnt við geymslu, ef þið viljið losna við það þá er best að setja bitana í sítrónusafa áður en þeim er blandað saman við mangóið. Rétturinn er svo kældur í minnst hálftíma inn í ísskáp áður en hann er borinn fram.

Þetta var meiriháttar góð tilbreyting. Mangóið og humarinn áttu jafn vel saman og súkkulaðisósa á ís. Humarkjötið eilítið sætt/saltað á móti sætunni/sýrunni í mangó ávextinum. Kókosinn er tilvalinn með mangóinu og avocado bitarnir gefa skemmtilega áferð þegar bitið er í þá inn á milli. Rjómakennt avocado kjötið er að sjálfsögðu snilld - þið sem lesið þetta hjá mér hafið eflaust tekið eftir ástfóstrinu sem ég hef tekið við þennan ávöxt! Ég myndi segja að það sé nauðsynlegt að hafa mangóið nokkuð vel þroskað í þessum rétti til að fá sem best bragð og áferð á móti humrinum. Rétturinn er kaldur og ískalt mangóið, bragðsterkt en mjúkt undir tönn, úff. Ferskara gerist þetta ekki. Dressingin kom líka vel út með ávöxtunum og gaf skemmtilegt eftirbragð!
Smokkfiskur (Calamari) hjúpaður með stökkum hafra- og Dukka mulningi.

Hef sagt það áður og segi það aftur. Smokkfiskur er æðislegur. Það er gaman að bíta í hann og áferðin er æðisleg. Pínkulítið gúmmíkenndur en kjötið samt svo silkimjúkt. Minnir mig á humarkjöt, sætur keimur og bragðið að vissu leiti hlutlaust.
Ég byrjaði nú á því að vinna fiskinn og skar hann í þunna strimla. Muldi þarnæst niður hafra sem ég átti inn í skáp, blandaði saman við þá Dukka kryddi frá Yndisauka, smá salti og pipar. Dukka kryddið er blanda af karrý, sesamfræjum og muldum hnetum. Meiriháttar gott! Líka gott að nota það sem ídýfu-mylsnu með baguette og góðri olíu. Smokkfiskinn setti ég svo ofan í hafra- og Dukka mulninginn og hjúpaði vel. Þarnæst steikti ég gúmmulaðið upp úr isio4 olíu og hafði með þessu steiktar gulrætur og sykurbaunir. Æðislegt grænmetisbland til steikingar. Þetta kom snilldarlega vel út. Dukka kryddið er bjútifúl með smokkfisknum og ég fann fyrir hnetunum og sesamfræjunum í hjúpnum. Meiriháttar skemmtilegt bragð og átti vel við. Gaman að bíta í smokkfiskinn þar sem kjötið sjálft er flundurmjúkt á móti krydduðum og stökkum hafrahjúpnum. Æðislegt!

Smokkfisk kjötið krullast líka svo skemmtilega upp þegar það er eldað. Þó það geri það reyndar ekki á myndinni hér til vinstri!
Það er gleðileg upplifun fyrir átvagl eins og mig að borða smokkfisk.
Risa hörpudiskur með karmelliseraðri döðlu, vafinn inn í kalkúnaskinku ásamt hunangsristuðum bönunum, gómsætri bananaskyrsósu og ristuðum möndlum.
Punkturinn yfir I-ið. Þetta var uppáhalds rétturinn minn þó þeir hafi reyndar allir slegið í gegn. Ég er sykursnúður og það vita það allir sem þekkja mig. Þessi réttur var sætastur af þeim öllum og kom skemmtilega vel á óvart. Banani, daðla, skinka og hörpudiskur - æðislegt, æðislegt bland!

Útbjó svipaða dressingu fyrir hörpuna og ég útbjó fyrir mango- og avocado salatið. Balsamic edik, olía, hungang, sítróna og smá fiskikrydd. Marineraði fiskinn í rétt rúmar 15 mínútur. Mætti þó alveg vera lengur. Á meðan kjötið marineraðist þá skar ég einn banana til helminga og steikti á pönnu. Hér væri að sjálfsögðu langsamlega best að grilla kvikindið en ég var ekki með grillið uppi við. Saltaði bananana eilítið og smurði með hunangi, steikti þangað til karamelluhjúpur hafði myndast utan um þá og tók þá af pönnunni. Í leiðnni skar ég niður döðlur og steikti samhliða - rétt til að mýkja og hita. Þar næst var harpan tekin og léttsteikt á pönnu til að fá utan á hana stökkan hjúp. Henni pakkað inn í kalkúnaskinkuna og döðlubitunum raðað ofan á hvern hörpudisk. Þessu var svo öllu skúbbað inn í 180 gráðu heitan ofn, ásamt bönunum, og eldað í 5 - 6 mínútur. Þá var harpan orðin perfecto! Stökk skel, mjúk í miðjunni. Skinkan orðin stökk, saltbragðið í henni búið að brjótast fram og döðlubitinn orðinn crunchy eins og karamella. Bananarnir karamellukenndir og mjúkir - hryllilega góðir maður! Uss.

Með þessu bjó ég til banana skyr sósu. Köld sósa, létt með sætum keim að sjálfsögðu. Stappaði vel þroskaðan banana, blandaði saman við skyr og eina matskeið af sýrðum rjóma. Ein tsk hunang, smá dijon sinnep og pínkulítið af salti. Stráði svo yfir þetta ristuðum möndlum og viti menn, himnesk sósa! Dijon sinnepið gefur líka alltaf svo skemmtilegt bragð, sérstaklega þegar notað er súrt hráefni eins og skyr. Sætan í banananum vinnur líka vel á móti sýrunni og hunangið gefur skemmtilegt eftirbragð. Sýrði rjóminn var svo til að milda allt og þá smallt þetta svona líka vel saman.
Ég veit ekki hvar ég á að byrja! Saltið í skinkunni á móti sætri döðlunni er eitthvað sem við þurfum ekkert að ræða. Daðlan var líka orðin crunchy sem gaf skemmtilegt kikk í hvern bita. Sætan í réttinum vann líka svo vel á móti hörpunni, stökkri skinkunni og kryddinu og leyfði kjötinu alveg að njóta sín. Enginn yfirgangur í skinkunni, þó það hefði alveg mátt nota hráskinku, held ég prófi það næst. Bananinn og skyrsósan voru svo alveg til að fara með sykurfíkilinn í mér. Allt innan skynsemis-sykurmarka þó, og sætan í réttinum kom aðallega frá döðlunum og banananum. Held ég hafi notað, allt í allt, tæplega 2 tsk af hunangi í þetta lostæti! Biti af skinku, hörpu, döðlu, skyrsósunni, hunangsristaða banananum og möndlunum - guð... minn... góður! Öll þessi brögð og mismunandi áferðir - fullkominn biti! Salt, sæta, smá sýra, stökkt kjöt á móti mjúku kjöti og allt vann þetta fullkomlega vel saman. Jesús minn - trúi því ekki að maturinn sé búinn!
Vonandi varð ykkur að góðu í kvöld mín kæru því mér varð það svo sannarlega!
Kvöldmaturinn eins og hann lagði sig!
Om nom!
Fiskur | Breytt 23.9.2010 kl. 20:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)