Færsluflokkur: Fiskur

Kósý inniveður

Þetta veður býður ekki upp á neitt annað en inniveru, kúr og bíómyndir! Vafin inn í teppi, útötuð í köttum og fletið fyrir framan sjónvarpið reddí! Eina sem vantar, til að gera inniveruna fullkomna...

Risarækjuréttur með grænmeti og hýðisgrjónum

...matur!

Ástæðan fyrir því að þið sjáið ekki pizzu, sveittan burger eða ís á þessari mynd (sem væri hið fullkomna vondaveðurs snakk) er einföld. Inniveður = að vera inni og það að panta mat kostar svo gott sem handlegg. Ég hljóp því inn í eldhús, þegar hungrið fór að segja til sín, steikti risarækjur, þurrristaði grjón og blandaði öllu saman í skál með grænmeti! Endaði nú reyndar á því að skera risarækjurnar niður í smærri bita til að létta átvaglinu lífið.

Risarækjuréttur með grænmeti og hýðisgrjónum

Rækjunum leyfði ég að liggja í sítrónusafa, smá sítrónuberki, engifer, hvítlauk og cumin fræjum. Saltaði loks gumsið og pipraði, eftir að rækjurnar voru tilbúnar. Bragðið var flott, skemmtileg blanda með grjónunum og virkilega fínn innipúkamatur!


Möndlu- og kanilrækjur

Ójess! Mmmmmm... ég og kanill! Ég og möndlur!!! Kanill + möndlur = heilög hamingja og gleði!

Möndlu- og kanilrækjur - Fyrir 2

Möndlu og kanilrækjurTæp 400 gr. rækjur (ég notaði þessar litlu sætu)

1/2 tsk kanill

1/4 tsk chilli pipar

1/2 tsk paprika

salt og pipar eftir smekk

1 bolli möndluspænir

Tómatar, grænar baunir, laukur....

 

Byrja á því að þurrrista möndluflögurnar og setja svo til hliðar. Blanda saman rækjum, kanil, chilli pipar, papriku, salti og pipar og þekja rækjurnar vel í blöndunni. Steikja grænar baunir, niðurskorna tómata og lauk á pönnu þangað til tómatarnir eru orðnir mjúkir. Salta og pipra eftir smekk. Taka meginpart grænmetis af pönnu og setja til hlipar. Bæta þá rækjunum út á pönnuna og léttsteikja. Koma grænmeti fyrir á disk, rækjum þar ofan á og hella svo möndluflögum yfir.

Möndlu og kanilrækjur

Þetta var svaka fínt og bragðgott. Næst ætla ég þó að sleppa grænmetinu, steikja rækjurnar upp úr smá olíu og útbúa avocadomús (næstum eins og kartöflumús) til rækjudýfingar! Yrði án efa geggjað! Tómatarnir eru jú nokkuð blautir og að steikja rækjurnar upp úr tómatsafanum deyfði kannski svolítið bragðið, en gott var gumsið engu að síður!

Ætla að sjá hvernig olíusteiking og avocadomús fara með í næsta holli. Alveg spurning hvort þetta nái ekki á uppáhaldslistann eftir slíkt make over!


Quinoa og jalapeno rækjuréttur vafinn inn í kálblað

Jújú, ég datt ofan í rækjupokann minn, matur af svipuðum toga hefur einkennt síðasta 1,5 dag og sterkt hefur alveg verið að gera sig hjá mér undanfarið! Hvernig voru rækjurnar framreiddar í kveld?

Byrjum á því að velja okkur falleg og fín kálblöð.

Ofurfínu kálblöðin

Komum rækjugumsinu fyrir á kálblöðunum miðjum.

Ónáttúrulega sterku rækjugumsi komið fallega fyrir

Rækjugumsið er mjög sterkt. Skar niður 5 jalapeno sneiðar (niðursoðið) og 1 hvítlauksrif og setti í skál. Í skálina blandaði ég smá safa af jalapenoinu, 1 msk, rúmlega, þurrkað cilantro, 1 tsk, tæplega, cumin, salt, pipar og pínku sítrónusafa. Rækjunum hrærði ég út í og leyfði að sitja á meðan ég skar niður smá lauk og 2 tómata. Laukinn og tómatana steikti ég á pönnu upp úr tæplega msk isio4 olíu, bætti þá við örlitlu oregano og skellti loks rækjunum út á pönnuna, þegar tómatarnir voru orðnir mjúkir. Þegar rækjurnar voru orðnar bleikar hrærði ég um það bil 5 msk soðnu quinoa saman við. Ofan á gumsið fóru að sjálfsögðu nokkrir dropar af hot sauce, smá létt AB-mjólk og steinselja.

Quinoa og jalapeno rækjur á kálblaði

Kálblöðin notaði ég eins og tortillu og vafði gumsinu upp í þau. Þetta var mjög gleðileg leið til að borða rækjurnar og ég kem til með að nýta mér þetta aftur. Kálblaðið helst stíft og stökkt í hverjum bita og gefur réttinum skemmtilega og ferska áferð.

Quinoa jalapeno rækjur vafðar inn í kálblað

Sterk... sterk, sterk hamingja í kálblaði!

Ég get ekki, með hreinni samvisku, sagt að þetta ævintýri hafi endað á snyrtilegan hátt. Við skulum bara segja að ég þurfi að æfa mig í kálvafnings áti eða passa upp á að kálblaðs-fyllingin sé ekki of blaut! Halo

Quinoa og jalapeno rækjur vafðar inn í kálblað

Aftur er nefið farið að leka, varir og kinnar rauðar, kollurinn heitur og skrokkurinn ánægður með vel heppnað val á kvöldmat! 


Pestó rækjur með tómötum og basil

Jú, rækjurnar eru enn á topplista hjá mér. Held það sé nú bara af því að ég veit af þeim í frystinum og það er einfalt/fljótlegt að elda þær! Skellti í einn skammt Pesto-risarækjur með tómötum og basil. Svakalega gott, sérstaklega með ristaðri heilhveiti- eða speltbollu!

Pestó rækjur með tómötum og basil

Blandaði 1 msk rauðu pestó og einu niðurrifnu hvítlauksrifi saman við 150 gr. risarækjur. Steikti svo smá niðurskorinn lauk og 2 niðurskorna ferska tómata á pönnu með dass af þurrkaðri steinselju og basiliku. Tómatarnir soðna niður og búa til hálfgerða sósu/súpu. Út á pönnuna hellti ég svo rækjugumsinu, þegar tómatarnir voru farnir að losna úr skinninu, og léttsteikti, eða þangað til rækjurnar voru orðnar bleikar. Skreytti með þurrkaðri steinselju og ... ójá... raspaði smá parmesan yfir herlegheitin. Punkturinn yfir I-ið!

Þetta er æðislegur réttur. Einfaldur, hollur, bragðgóður en smakkast eins og flókið ofurgums. Þarf svosum ekkert að krydda frekar því pestóið er fullt af kryddi og hvítlaukur, tómatar og basil klikka aldrei. Svo verður til smá "súpa/sósa" í botninum á skálinni, út af tómötunum, sem er æðislegt að dýfa brauði í! Bara frábært - sérstaklega yfir síðasta þættinum af True Blood. Ég er alveg að fíla þessa þætti í botn!


Risarækjur í hunangs-chilli kryddlegi

Rækjur eru svo góðar! Nú virðist rækjutímabilið, í mínu matarræði, vera gengið í garð! Búin að fara í gegnum kjúlla og lax á síðustu vikum. Gaman að þessu!

Hunangs-chilli kryddlögur

  • 1 tsk, rúmlega, hunang
  • 1 msk chilli krydd
  • 1/4 tsk gróft salt
  • 1/2 tsk cumin
  • 1/2 tsk koriander
  • 1/2 tsk þurrkað oregano

Hrærði hunangi saman við rest af kryddum í skál. Bætti þá út í kryddskálina um það bil 300 gr. af rækjum, stórum sem smáum, velti upp úr kryddblöndunni þangað til rækjurnar voru vel þaktar, og setti til hliðar. Næst steikti ég 1/2 lauk, niðurskorna papriku og 2 niðurskorin hvítlauksrif, upp úr 1,5 msk olíu. Rækjunum bætti ég loks út á pönnuna, þegar grænmetið var orðið meyrt, og snöggsteikti.

Hunangs- chilli rækjuréttur

Ég elska þessi krydd. Cumin, koriander, oregano - sérstaklega þegar allir leika saman! Virkilega góður réttur. Virkilega góður kvöldmatur. Smá hint af sætu frá hunanginu og chilli-ið sparkar skemmtilega á móti. Væri örugglega æðislegt að þræða þetta upp á spjót með mangó!

Rækjur í hunangs-chilli kryddlegi

Það er svo gaman að borða góðan góðan mat, sérstaklega þegar eldunartími er undir 30 mínútum!


Loksins!!

Sushi í hádeginu. Fiskimarkaðs Sushi! Pantaði mér Sashimi.

Fiskimarkaðs Sushi

Þarf engin orð. Þetta var bara wünderbar!

Fiskimarkaðs Sushi - þátíð


Kryddaður rækjuréttur

Langaði svo í rækjur í kvöld - vissi hinsvegar ekki alveg hvað ég vildi gera við þær. Tók því Elluna á þetta og hrærði því sem ég fann, í eldhúsinu, saman! Ekkert smá vel heppnað og bragðið frábært. Ég geri þennan rétt pottþétt aftur! Nú er það bara að fjárfesta í frosnum rækjum og nýta þær í eitthvað gleðilegt eins og... jah... þetta!

Kryddaður rækjuréttur - fyrir 2

Kryddaður rækjuréttur300 gr. afþýddar rækjur

1 bolli soðin hrísgrón. Hefði notað brún- eða hýðis en átti ekki á lager.

1 bolli grænar baunir

2 msk olía

3 raspaðir hvítlauksgeirar

Niðurskorinn rauðlaukur. 2 - 3 sneiðar, eða eftir smekk.

1 tsk paprikuduft

1,5 tsk cumin

1/2 tsk, rúmlega, niðurrifinn engifer

1/2 tsk tæplega chilliduft

dash, mjög smá handfylli þurrkuð steinselja og cilantro

salt og pipar eftir smekk

Hita olíuna á pönnu og svissa hvít- og rauðlaukinn upp úr olíunni í 2 - 3 mínútur. Eftir það, sameina öll krydd á pönnunni og steikja þangað til góð lykt kemur í eldhúsið. Og já, lyktin er sko góð! Eftir það, þerra rækjurnar (ef þær voru t.d. frystar), hella út á pönnuna og þekja með kryddblöndunni. Hella þá grænu baununum út á pönnuna og leyfa dúóinu að velkjast um í 1 - 2 mínútur. Hella þá grjónunum út á pönnuna, hræra gumsinu vel saman og beinustu leið á disk.

Æðislegur rækjuréttur

Gott gott á bragðið þó ég segi sjálf frá. Virkilega góður og hollur réttur. Prótein, flókin kolvetni, holl fita og yndislega fínu grænu baunirnar. Palli varð himinlifandi með þetta alltsaman, þar sem hann er ekki mikill rækjumaður sjálfur, og þótti svakalega vel til takast! Kryddaður rétturinn með sætum baununum er æði og rækjurnar, rétt hitaðar í gegn, er gaman að bíta í á móti grjónunum. Passa bara að steikja rækjurnar ekki of mikið - gúmmírækjur eru góðar en ekki frábærar! Næst myndi ég jafnvel bæta smá blómkáli í réttinn og valhnetum. Það væri líka æðislegt að setja þetta inn í burrito!

Mhhmm hvað þetta var gott. Vel heppnað, verður reglulegur gestur í framtíðinni, svo mikið er víst!


Reyktur lax með avocado mauki, krumpueggi og möndlum

Krumpuegg, fyrir ykkur sem vilja vita hvað það er, eru á góðri íslensku "Scrambled eggs". Enn eitt orðið í orðabók Ásbúðarmanna!

Búin að vera að hugsa um reyktan lax í allan dag. Vissi af laxi, bíðandi, aleinum í ísskápnum, sem dauðlangaði að vera nýttur í eitthvað létt og gott. Einmitt það sem úr varð! Kjúllatörn vikunnar var farin að segja til sín og bragðlaukarnir biðu í ofvæni eftir... jah... nákvæmlega þessu!

Reykt laxasalat með avocado mauki, hrærðum eggjum, salati, dukkah kryddi og möndlum

Átti reyndar ekki iceberg, bara hvítkál. Notaði hvítkálið með miklum semingi - það reddaðist en iceberg, spínat, eitthvað hlutlaust á bragðið hefði verið miklu betra. Hvítkálið var aðeins of beiskt með laxinum. Skar niður smá kál, tómat og rauðlauk. Blandaði saman og kom ofur fallega fyrir á disk. Ristaði nokkrar möndluflögur á meðan ég steikti 2 eggjahvítur og 1/2 eggjarauðu með pipar á pönnu. 100 gr. af reyktum laxi kom ég fyrir á salatbeðinu og sáldraði möndlu dukkah yfir. Eggjahræran fór svo ofan á laxinn og möndluflögur ofan á eggin. 'Skreytt' með þurrkaðri steinselju.

Avocado mauk - avocado, létt AB-mjólk, pipar og smá sítrónusafi

Avocado maukið hrærði ég saman úr um það bil 1/2 avocado, pipar, smá sítrónusafa og létt AB-mjólk. Ef ég hefði átt rjómaost hefði hann orðið fyrir valinu. Mmm... rjómaostur og reyktur lax! Avocado og reyktur lax! Rjómaosta avocado mauk með reyktum laxi og smá rifnum sítrónuberki. Ohhh getið þið ímyndað ykkur? En þetta bland virkaði flott!

Reyktur lax með avocadomauki, steiktu eggi og grænmeti

Allar hollar fitur alheimsins hittast í þessum rétti og dansa villtan stríðsdans! Lax, möndlur, avocado - meiriháttar! Dukkah kryddið kom sterkt inn, rosalega gott með laxinum. Mmmhh hvað þetta var nákvæmlega það sem ég var að leita eftir - alltaf bestu máltíðirnar, sama hversu 'ómerkilegar' þær eru!


Hádegiskokteill

Fékk nesti með mér heim í gær...

Rækjukokteill að hætti ömmu

...vínberin fengu líka að vera með.

Gott að vera ég!


Eggjahvítu burrito með reyktum laxi, 'wasabi baunum' og grænmeti

Ég held áfram að rúlla matnum mínum upp. Það er bara svo gaman að borða hann þannig!

3 eggjahvítur hrærðar saman, má krydda eftir smekk. Hellt á heita pönnu og hálfgerð pönnukaka útbúin. Það væri líka hægt að útbúa heilhveiti crepe ef eggjahvítukakan er ekki spennó. Nú eða bara nota búðarkeypta heilhveiti tortillu. Þær eru flottar.

Eggjahvítukaka

100 gr. af reyktum laxi raðað á pönnukökuna, þarnæst smá hrísgrjónum og "salsa" mauki. Hallæris mauk verð ég að segja. Skar 2 tómata smátt, sneið af smátt skornum rauðlauk, pínkulítið af hvítlauk og hrærði saman með þurrkaðri steinselju. Var samt gott á bragðið. Smile

Eggjahvítukaka með reyktum laxi og salsamauki

Ofan á hallærismaukið fóru 'wasabi-baunir'. Svipað og í laxarúllunni um daginn þá hrærði ég saman létt AB, wasabi mauki, hrísgrjónaediki, hunangi, dilli, dijon og sítrónusafa.

Eggjahvítukaka með reyktum laxi, salsamauki og baunum.

Ofan á baunirnar avocadosneiðar.

Eggjahvítukaka með reyktum laxi, salsamauki, wasabi baunum og avocado.

Burritonum rúllaði ég svo upp, skv. lögum og reglum burrito upprúllunar, og borðaði með mikilli áfergju. Passa bara, að ef notuð er eggjahvítu tortilla þá á hún til að rifna. Rúlla dýrinu varlega upp svo laxinn leggi ekki á flótta.

Eggjahvítuburrito með reyktum laxi, wasabi baunum, salsasósu og avocado

Ég vafði mínum meira að segja upp í álpappír.

Eggjahvítu burrito með reyktum laxi, wasabi baunum, salsasósu og avocado

Þetta var fínt. Afskaplega gott og gleðilegt. Setti slatta af wasabi-dressingunni.. mmmmm! Inn í þetta má svosum setja hvað sem er. Hvað er ykkar uppáhalds uppfyllingarefni?

Eggjahvítutortilla með reyktum laxi, wasabi baunum, salsasósu og avocadosneiðum

Mikið er reyktur lax æðislega góður!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband