Færsluflokkur: Skyr
14.7.2009 | 16:16
Eins og grillaður banani
Ég er assgoti vel steikt eftir sólböð og almenna útiveru síðan á sunnudaginn! Notalegt engu að síður, sumarið er komið, skráð og skjalfest í minni bók!
Fékk mér Skyr.is í eftirmiðdaginn. Skyr.is með kanil, að sjálfsögðu, 1/2 niðurskornu örbylgjuhituðu epli og blandi af muldum hör-, sólblóma- og graskersfæjum ásamt möndlum.
Ég get nú ekki í hreinskilni sagt að mér þyki Skyr.is gott! Var búin að steingleyma hversu hræðilega væmið það er. Hrært eða hreint KEA er algerlega málið en það er því miður ekki til hérna í vinnunni! Ekki aftur snúið þegar ég hafði hrært herlegheitin saman. Smakkaði og mundi, mér til mikils ama, af hverju ég hætti að borða þetta skyr-kvekendi. Viðbitið gerði þó sitt gagn og kanillinn og eplin stóðu sig vel í því að fela væmnisbragðið! Hefði fengið mér hrökkbrauð með kotasælu og eplasneiðum ef kanilepli og krums hefðu ekki kallað svona stíft á átvaglið!
Horfur til kvöldsins: Humar!
Skyr | Breytt 23.9.2010 kl. 21:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.7.2009 | 11:06
Eiki veiki og ísinn
Fyrsti hiti ársins. Svimi, beinverkir og slappleiki! Ekki alveg nógu kát með framvindu mála enda mikill súri þegar ég vaknaði í morgun.
Hvað er samt betra, þegar maður er illa haldinn, en ís? Blandaði mér jarðaberjaís í morgun eftir hita- og verkjastillandi pilluát! Mikið var það nú gott! Í blender hrærði ég saman skyri, próteini, mjólk, vatni, hörfræjum, frosnum jarðaberjum og hnetusmjöri. Beinustu leið þaðan í ísvélina góðu!
Beinustu leið úr ísvélinni ofan í skál. Með 'ísnum' hafði ég nokkrar möndlur og múslí ásamt hafra- og hnetubita sem ég bjó til um daginn! Rosalega góðir!
Notaði svo hnetubitann til að skófla ísgumsinu upp! Úff... alls ekki slæmt!
Alls, alls.. ekki slæmt! Ískaldur ísinn og sýran úr jarðaberjunum á móti sætum hafrabita með karamelliseruðum döðlum! Bara æðislegt!
Ég set uppskriftina af hnetubitunum inn sem fyrst en ákkúrat núna á ég stefnumót við rúmið mitt og sængina!
Skyr | Breytt 23.9.2010 kl. 21:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.6.2009 | 12:43
Gamalt en gott
Þegar ég vaknaði í morgun voru bláber það eina sem ég gat mögulega hugsað mér að borða í morgunmat. Í miðjum 5 km. var ég mikið að spá í því hvernig best væri að snæða berin ef ég skyldi nú láta verða að því að kaupa einn kassa eða svo. Setja þau í pönnukökur, búa til ofnbakaðan hafragraut með bláberjum, bláber ofan á beyglu með smá hunangi... eintóm bláber? En nei, þegar ég kíkti inn í ísskáp og sá skyrið mitt góða var það, það eina sem ég gat hugsað um! Bláber og skyr. Mhhhh... svo gott! Ekkert vesen... virkar alltaf. Bláberin voru keypt og í kassanum leyndist lítil pláneta...
... hún smakkaðist mjög vel! Ég afrekaði samt meira en að gleypa í mig plánetu og bætti próteini í skyrið mitt. Skar niður 1/2 banana og 3 frosin jarðaber. Sótti mér 6 möndlur upp í skáp og granola stöng í frystinn. Gumsinu kom ég fyrir ofan á skyrinu og sáldraði loks yfir herlegheitin hörfræjum... það er skyrmix þarna undir einhverstaðar.
Fullkominn, fullkominn morgunmatur. Granola stöngin er alveg að gera sig í svona blandi. Æðisleg. Ég fann líka hjarta í skálinni minni.
Svo þegar myndatökutími er liðinn og átvaglið tekur við verður glæsilega fína ávaxtaskálin svona útlítandi!
Kannski ekki jafn fín, en alveg jafn góð ef ekki betri! Mmmmm...
Skyr | Breytt 23.9.2010 kl. 21:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
27.6.2009 | 10:48
Gult er gleðilegt
Hljóp 5km í morgun í þessu meiriháttar góða veðri. Enginn vindur, hlýtt og notalegt. Nákvæmlega eins og það á að vera. Var hinsvegar ekki með heitan graut í huga þegar ég steig fæti inn í gúmmulaðihellinn!
Það er svo fínt þegar maður rótar í frystinum og finnur, sér til mikillar hamingju, niðurskornar frosnar gersemar. Eins og t.d. banana og mango. Gladdi mig óstjórnlega í morgun þegar ég fann þessa fínu gulu ávexti í felum undir wok grænmetispoka, bíðandi í örvæntingu eftir því að verða notaðir í eitthvað æðislegt!
Blandaði mér þar af leiðandi hinn fullkomna, eftir hlaups, gula sumardrykk/smoothie. Fyrir tvo kroppa blandaði ég saman 200 gr. hreinu skyri, 1 niðurskornum frosnum banana, 1 niðurskornu frosnu mango, 1 skeið hreinu próteini, 2 msk hörfræjum og klaka. Þynnti drykkinn svo með vatni þangað til hann náði þeirri áferð sem mér þykir best. Skar niður eitt frosið jarðaber fyrir lit og hamingju. Líka endalaust gaman að bíta í frosið jarðaber inn á milli!
Þeim sem ekki þykir skyr gott geta notað jógúrt eða AB-mjólk. Jafnvel minna af skyri og notað mjólk í staðinn. Ef ég hefði verið með annan frosinn banana þá hefði ég notað hann líka. Aðallega af því að bananabragð er ofarlega á lista yfir góða hluti í minni bók og bananar gefa fullkomna áferð í svona mix. Próteininu má líka vel sleppa.
Fullkomlega fínn gulur drykkur og kisarnir ánægðir í góða veðrinu!
Skyr | Breytt 23.9.2010 kl. 21:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.6.2009 | 10:20
Myndavélaklikk
Haldið þið að myndavélin mín, þessi elska, hafi ekki bara ákveðið að éta upp batteríin! Líkur sækir líkan heim svosem.. eigandinn er átvagl! Ofurgrauturinn sem ég fékk mér í morgun verður því skilinn útundan og fær enga mynd af sér í bili, en mikið ofboðslega var hann góður!
Skyrgrautur með banana, muldri granola stöng, sultu og hnetusmjöri
1 skeið hreint prótein
1/3 bolli soðinn grautur
2 msk hörfræ
kanill
Skjóta þessu inn í örbylgju þangað til nokkuð vel þykkt. Hræra þá saman við:
50 gr. hreinu skyri
1 tsk sykurlausri sultu
Hafragrautsskraut
1/2 niðurskorinn banani
1/2 mulin granola stöng
1 tsk hnetusmjör í skeiðina - sem ég að sjálfsögðu hræði saman við. Granola stöngin var æði með banana og smá hentusmjöri í hverjum bita. Mmm...
...þið leyfið bara hugmyndafluginu að njóta sín!
Þessum yndælis morgunverð lauk svo með mjög gómsætri plómu og tebolla.
Skyr | Breytt 23.9.2010 kl. 21:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.6.2009 | 12:31
Kvennahlaup, útskriftir og afmæli
Tek nú reyndar ekki þátt í kvennahlaupinu í dag vegna skorts á tíma. Ætlaði þó að sýna lit og bæta upp fyrir það með því að útbúa bleikan 'ís' í tilefni dagsins. Fór nú ekki betur er svo að spínatgr'ís'inn lét í sér heyra og bleikur ís vék fyrir grænum. Þvílík og slík staðfesta er fáheyrð! Um það bil sama formúla og um daginn, með smá breytingum. Ég hlakkaði svo mikið til að komast heim úr ræktinni og búa þetta til að ég hélt ég yrði ekki eldri. Bætti töluvert af múslí og flögum í þennan skammt. Gerði hann stærri en vanalega þar sem ég er að fara í útskriftarveislu á eftir og afmæli í kvöld. Kem því ekki til með að fá mér hádegismat per se. Fæ mér eitthvað smotterí um tvö leitið og flýti kvöldmat til kl. 5. Jújú, koma matnum fyrir!
Grænt bjútí fyrir tvo svanga kroppa innihélt í dag: 200 gr. af hreinu skyri, 2 skeiðar hreint prótein, 1 frosinn banana, 5 frosin jarðaber, 100 ml. Undanrennu, 3 msk hörfræ, nokkra klaka og 100 gr. spínat. Hrærði saman í matvinnsluvél og byrjaði að púsla saman morgunmatnum. Fyrst smá múslí í botninn á skálinni. Hér er ég farin að hlakka mikið til þess að dýfa mér ofan í matinn!
Svo ís yfir, þarnæst quinoa flögur og meiri ís. Aðeins meira múslí...
...og restin af ísnum. JÍHAA! Toppað með bláberjum, 1/2 niðurskornum banana, möndlum, múslí og létt AB-mjólk. Flott skál! Hér er ég alveg að komast í það að geta byrjað að borða.
Þið getið ekki ímyndað ykkur hvað það er erfitt að byrja ekki að háma í sig um leið og maturinn er til - heldur taka nokkrar myndir af gúmmulaðinu fyst. Sérstklega þegar hungrið er farið að segja til sín!
Skálin var svo full að það flæddi næstum út fyrir! Græðgislegt, ég veit en... Nohm! Þetta var svo gott! Áferðin 'per-a-fecto'! Ísinn þéttur í sér en samt mjúkur. Sérstaklega gleðilegt fyrir mig að bíta í múslí og quinoa flögur þegar leið á átið. Crunchið faldi sig í mörgum lögum alla leið niður á botn. Þið verðið að prófa!
Þá er ég búin að fá grænmeti fyrir hádegi ásamt öllum vítamínum sem því fylgir. Andoxunarefni og vítamín úr berjunum, vítamín úr ávöxtunum, holla fitu úr möndlum og hörfæjum, flókin kolvetni, tefjar og smá prótein úr múslímixinu ásamt próteini úr skyri og.. jah, próteindufti! Þetta gerist bara ekki betra!
Skyr | Breytt 23.9.2010 kl. 21:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.6.2009 | 13:28
Ofnbakaður hafragrautur með banana og eplum
Hafragrautsfólk - þetta er eitthvað sem þið verðið að prófa!
Enn ein leið til að njóta þess að borða uppáhalds morgunmatinn minn. Svo einfalt, svo fljótlegt, svo syndsamlega gott! Vá! Væri jafnvel hægt að leggja yfir þetta skinku og brjóta yfir egg eða eggjahvítur! Ábyggilega sjúklega gott - það er næst á dagskrá!
Ofnbakaður epla og banana hafragrautur - Fyrir 4
1/2 jonagold epli, nú eða bara eitthvað frábært epli.
2 bollar hafrar
1 tsk lyftiduft
smá salt
smá múskat, má sleppa
Blautt:
1 egg, hrært
1 stappaður, vel þroskaður banani
1 tsk vanilludropar
1,5 bollar undanrenna/fjörmjólk/hrísmjólk/möndlumjólk/sojamjólk...
Aðferð:
Hita ofn í 175 gráður. Skera epli í sneiðar og leggja til hliðar. Blanda blautu í þurrt.... finnst eins og ég þurfi að skrifa eitthvað meira hérna en flóknara er það nú ekki!
Samsetning:
Hella helmingnum af blöndunni í eldfast mót. Líka hægt að setja bökunarpappír í mótið, þá er auðveldara að skera grautinn í fallegar sneiðar. En þarf ekki.
Raða eplasneiðum ofan á gumsið og strá eins mikið af kanil yfir þær og kanilsjúklingurinn hið innra leyfir. Ég er konungur kanilsins svo ég sturtaði ansi vel yfir eplin.
Hella rest af hafragumsi yfir og raða banansneiðum þar ofaná og beint inn í ofn í 30 mínútur. Ef þú vilt vera góð(ur) við sjálfan þig þá hafa þetta í 26 mínútur inni, strá smá púðursykri yfir og grilla síðustu 4 mínúturnar. Om nom!
Borða rest af epli á meðan grauturinn er að eldast.
Taka graut út úr ofni og dáðst að meistaraverkinu!
Dáðst aðeins meira....
...aaaaaðeins meira! Ohh men hvað þetta lítur vel út!
Hræra saman próteindrykk úr frosnum jarðaberjum, hreinu próteini, vatni og hörfræjum.
Setja grautarsneið á disk, smá slettu af skyri og bláber. Borða hægt og njóta vel! Setja svo restina í ísskáp og borða í morgunmat daginn eftir. Get ekki beðið!
Þetta var helvíti gott! Mikið ógeðslega er ég ánægð með sjálfa mig ákkúrat núna! Grauturinn varð smá karamellukenndur og áferðin skemmtileg. Stökkur toppur og mjúkt innvols með einstaka crunchy epli inn á milli. Holy moly sko! Æðislegt að borða graut á þennan hátt! Væri líka hægt að pimpa þetta upp með hnetum og döðlum og allskonar gúmmulaði! Allir að prófa - þið verðið ekki fyrir vonbrigðum!
Skyr | Breytt 23.9.2010 kl. 21:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
5.6.2009 | 08:30
Hvað er í morgunmatinn?
Þegar ég vaknaði í morgun vissi ég nákvæmlega ekkert hvað mig langaði í morgunmat! Ótrúlegt en satt! Var ekki í stuði fyrir heitt. Langaði mest af öllu að fá mér morgunkorn og smá mjólk. Hef ekki fengið mér svoleiðis morgunmat í milljón ár.
En eftir grams í ísskápnum, nammiskápnum og próteinskápnum blandaði ég saman skyri, próteini og niðurskornu epli og banana. Sáldraði yfir þetta hörfræjum, quinoa flögum og smá Sólskyns múslí.
Það er einhver fílíngur við það að borða skyrkyns og bíta í brakandi morgunkorn. Minnir mig á það þegar ég var yngri og fékk mér súrmjólk með púðursykri og Cheerios!
Skyr | Breytt 23.9.2010 kl. 21:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.5.2009 | 13:52
"Ís" í morgunmat - næst bezt í heimi!
Ég verð að viðurkenna að þessi týpa af morgunmat er ansi nálægt því að vera í stífri samkeppni við hafragrautinn góða um titilinn "Bezti morgunmatur í heimi!". Þessi blanda er það sem ég tala oft um sem "ís". Ég elska að fá mér þetta gúmmulaði í morgunmat, sérstaklega eftir góða brennsluæfingu, útiskokk - nú eða bara til að gleðja á mér magann!
Það er hægt að malla þetta saman á marga vegu. Mér þykir best að frysta ávexti og setja í matvinnsluvél/blender ásamt skyri, próteini og smá mjólk. Útfærslurnar eru óteljandi!
Banana og spínat prótein ís! Fyrir 1.
Ég veit, titilinn er ekki eitthvað sem fær mann til að hugsa "Ohhh.. nammi", en eins og ég hef sagt svo oft áður undanfarið - spínatið hverfur alveg. Nema liturinn, hann gerir mig alltaf hamingjusama! Og af hverju ekki að bæta auka grænmeti í fæðuna sína ef það er svona auðvelt?
1 niðurskorinn frosinn banani
100 - 120 gr. hreint skyr (má nota hvernig skyr sem er)
1 skammtur hreint vanillu prótein
sletta af mjólk - hversu þykkur á ísinn að vera?
1 msk hörfræ
Lúka, ferskt spínat - 50 gr. uþb?
Hræra allt saman í matvinnsluvél/blender, hella í skál, skreyta og njóóta! Mín skál var skreytt með bláberjum, hindberjum, quinoa flögum, múslí og smá létt AB-mjólk! Ohhh hvað þetta var fullkomlega það sem mig langaði í - ótrúlega gott!
Morgun-/hádegismaturinn var svo kláraður með gullfallegri ferskju! Ógeðslega eru þær flottar á litinn!
Heyyy, flott mynd í bakgrunninn á þessari!
Skyr | Breytt 23.9.2010 kl. 21:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.5.2009 | 13:51
Grænum dögum formlega lokið
Allur sá matur sem ég ætlaði að bæta spínati við, hefur nú verið spínataður.
Ég er búin að búa til grænan smoothie eða drykk, grænan hafragraut og í dag lauk hinni heilögu þrenningu grænna daga með grænum "ís". Þrjú skipti af þremur vel heppnuð og ég kem til með að bæta þessu inn í matardagskrána í framtíðinni. Hentar vel sem morgunmatur og viðbit, jafnvel kvöldmatur ef tíminn er naumur. Það er svo hægt að leika sér með t.d. drykkinn og ísinn, bæta út í þetta mango, hnetum, hörfræjum, kiwi - hverju sem er. Mesta snilldin er að sjálfsögðu spínatið góða, sem gefur þennan meiriháttar fína lit, og öll þau milljón næringarefni sem því fylgir. Ætla að leggjast í grænmetis víking og reyna að finna mér fleiri grænmetisdrykki sem bragðast eins og ávextir! Hvesu mikil snilld er það!?
Grænn gleði ís
1 frosinn banani.
sletta af skyri, ég nota hreint KEA.
1 skammtur prótein, ég nota hreint vanillu - má sleppa.
smá fjörmjólk. Hversu þykkt viltu að blandan verði?
60 grömm spínat, 2 lúkur um það bil.
Allir saman í blender og blanda þangað til hamingjusamlega grænt og fínt. Út á þetta setti ég svo quinoa flögur, hafrakodda og smá múslí. Á myndinni er blandan svolítið froðukennd. Ástæðan fyrir því er sú að bananinn sem ég notaði var ekki frosinn og ungfrúin hellti óvart 6 tonnum af mjólk út í skálina - en gumsið var gúffað með bestu lyst engu að síður. Mér fannst þetta æði!
Hvað ætli þurfi samt margar beljur til fyrir 6 tonn af mjólk?
Skyr | Breytt 23.9.2010 kl. 21:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)