Færsluflokkur: Bakstur
2.9.2009 | 12:18
Æðislegt gróft speltbrauð
Enn og aftur er hún Erna, í vinnunni, að gera snilldarlega hluti í eldhúsinu. Í dag bakaði hún fyrir okkur gróft speltbrauð með hnetum, kókos, múslí, sólblómafræjum! Allskonar gúmmulaði og ómæ... þetta var gott brauð. Ég man ekki nákvæmlega hvar hún sagðist hafa nælt sér í þessa uppskrift, en sá sem hrærði saman í þessa snilld í fyrsta skipti á svo sannarlega hrós skilið. Ég bara varð að deila þessu með ykkur!
Gróft speltbrauð
1 eða 1 og 1/2 bolli múslí (heimagert best)
1 bolli sólblómafræ
1 tsk sjávarsalt
3 tsk lyftiduft
3/4 bolli heitt vatn
1/2 líter AB mjólk. Um það bil.
Út í þetta má svo bæta því sem hver vill. Kókos, hnetum, þurrkuðum ávöxtum....
Hræra saman og baka við 200°C í klukkustund. Ef þið viljið að brauðið fái harða skorpu, hringinn í kring, þá er gott að taka það úr forminu eftir ca. 30 mínútur, inn í ofn aftur á hvolfi, og klára bökunartímann. Þannig er brauðið best að mínu mati. Ég er mikil skorpukerling og brauðenda-æta! Átvaglið sönglaði af mikilli gleði þegar ég beit fyrsta bitann.
Brauðið var sammála mér... mikil innlifun! Sjáið bara hvað það er glæsilega fínt!
Ákkúrat brauð eins og mér þykja best! Með hummus, súpum, eitt og sér... þétt, bragðgott, mettandi, sykurlaust og áferðin fullkomin! Hver biti inniheldur fræ eða hnetu og skorpan.. ohh.. mmhmm! Þetta verður bakað um helgina!
Bakstur | Breytt 24.9.2010 kl. 10:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
30.8.2009 | 10:46
Bananapönnsur með hnetusmjörs-súkkulaðisnúning
Jæja, mér tókst það! Kom afmælisdrengnum loks á óvart í morgun, þar sem ég klúðraði því í gær, með sjóðandi heitum afmælispönnsum við vakningu! Svaaakalega góðar verð ég að segja. Ef ég ætti pönnukökupönnu þá hefðu þær orðið rosalegar! Ég er alltaf svolítið hrifnari af þunnu pönnsunum, kannski af því mamma ofurpönnsa setti viðmiðið, en hinar eru alls ekki síðri kostur!
Bananapönnsur með hnetusmjörs - súkkulaðisnúning
1/2 tsk salt
2 tsk lyftiduft
1 tsk kanill
1 egg
1 tsk vanilludropar
1 msk hunang
1 og 3/4 bolli fjörmjólk
1 stappaður, mjög vel þroskaður, banani - má sleppa
Hnetusmjörs súkkulaðiblanda
2 msk hnetusmjör blandað saman við 2 msk eplamauk og 1 msk kakóduft.
Blanda þurru saman, svo blautu. Svo þurru og blautu. Ef þið viljið hafa deigið þynnra, þá er í góðu að bæta við meiri mjólk. Hnetusmjörsblönduna setti ég í lítinn poka sem ég klippti svo eitt hornið af. Auðveldara að skreyta pönnsurnar þannig. Hella deigi á heita pönnu og sprauta hnetusmjörs-súkkulaðiblöndunni strax á pönnukökuna. Þegar bubblur eru komnar í pönnsuna, og hún laus af pönnunni, snúdda henni við í smá stund.
Svona líka flottar og fínar! Tölustafurinn 7 er líka afskaplega ánægður með útkomuna - hann er í miklum breikdans þarna á pönnsunni! Elvis bliknar í samanburði!
Afmælis'hlaðborðið' þegar 'gamli' maðurinn reis úr rekkju!
Úr fókus, mjög ferskur, ný vaknaður (rauð augu og allt) og nokkuð kátur með supplæsið...
...sumar pönnsurnar voru það líka!
Ohh hvað þessar voru barasta fullkomnar. Meiriháttar góðar. Bæði bragðið og áferðin. Bananinn gerir þær líka mjúkar og djúsí. Palli er svakalega hrifinn. Ég á eftir að gera þessar mjög oft í náinni framtíð. Ég ætla svosum ekki að lofa þær neitt frekar - ég gæti það en þið verðið bara að trúa mér. Þær voru MEIRIHÁTTAR! Mmhmm...*pönnsugleði*
Til lukku með daginn þinn Palli minn! Nú er það berjamó í Húsafelli!!
Bakstur | Breytt 24.9.2010 kl. 10:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
24.8.2009 | 09:20
Hollustukaka sem ekki þarf að baka
Bjó til ofurheilsu-afmælisköku fyrir mömmu. Fann uppskrift um daginn sem ég Ell-aði svolítið upp. Hrákaka full af döðlum og gleðilegheitum. Mamman er eins og ég, döðluæta. Uppskriftina er hægt að dúlla sér með eftir hentisemi. Bæta í hana fleiri/færri hnetum, þurrkuðum/ferskum ávöxtum, múslí - í raun hverju sem er.
Döðlu- og banana súkkulaðikaka með valhnetum og kókos
500 gr. döðlur. Ég notaði 300. gr. þurrkaðar og 200. gr ferskar.
2 mjög vel þroskaðir bananar
1 tappi vanilludropar. Má sleppa.
3 msk. kakó. Meira ef vill.
1 bolli hafrar. Mætti mylja hafrana í matvinnsluvél.
70. gr kókosolía
100 gr. muldar valhnetur
50 gr. dökkir súkkulaðibitar. Má sleppa ef vill.
Hræra döðlur saman í matvinnsluvél þangað til nokkuð vel blandaðar. Bæta þá bönununum við. Rest af hráefnum bætt út í nema valhnetum og súkkulaðibitum. Ef það er ekki til matvinnsluvél á heimilinu þá er flott að hita döðlurnar í t.d. örbylgju, merja þær og blanda svo bönununum við. Hella blöndunni í skál og bæta út í hana valhnetum og 30 gr. súkkulaðibitum. Hella blöndunni í mót og inn í ísskáp í amk 2 tíma.
Ég blandaði svo smá olíu, hunangi og salti saman við möndluflögur og ristaði í ofni. Möndlurnar setti ég yfir kökuna og stráði rest af súkkulaðibitum og kókos yfir þær.
Þetta var æði. Virkilega góð og skemmtileg að borða. Væri flott að setja hana í frystinn rétt áður en hún er borin fram því blandan verður aldrei eins og "kaka". Meira eins og þykkur búðingur. Til að gera kökuna "kökulegri" væri t.d. hægt að setja meira af höfrum og jafnvel nota bara þurrkaðar döðlur. En mér fannst hún æði nákvæmlega eins og hún var. Fór með hana í ömmuveislu um helgina og komst að því að ís og þessi kaka eiga afskaplega vel saman (má ekki vera of hollt á nammidögum ) Mmmmm... þessa geri ég pottþétt aftur!
Bakstur | Breytt 23.9.2010 kl. 22:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
17.8.2009 | 09:59
'Hollari' súkkulaðikaka
Heilhveiti, hunang, kakóduft. Það er alveg hægt að fá sér nokkrar sneiðar af þessari án þess að fá sorry-álfinn í heimsókn. Hún kom líka á óvart. Hún kom svo sannarlega á óvart þessi!
Heilusamlegri súkkulaðikaka
1 bolli létt AB-mjólk eða ósætað eplamauk. Ég notaði AB.
3 msk hunang eða agave.
1 tsk vanilludropar
3/4 bolli heilhveiti
4 msk kakóduft
2 tsk lyftiduft
1/2 tsk matarsódi
1/2 tsk salt
1/4 bolli muldar möndlur eða t.d. valhnetur
1 msk mulið súkkulaði (mætti setja upp í 1/4 bolla ef vill. Ég notaði dökkt, 75%.)
Aðferð:
Hræra saman Ab-mjólk, hunangi og vanilludropum í stórri skál. Blanda saman við AB-mjólkurblönduna hveiti, kakódufti, lyftidufti, matarsóda, salti, hentum og súkkulaði. Passa að ofhræra ekki. Hella í bökunarform, ég notaði 20 * 20 cm álbakka, og baka í 20 - 30 mínútur, eða þangað til prjóni, sem stungið er í kökuna miðja, kemur út svo til hreinn.
Niðurstaða:
VÁ! Ég var sko ekki að búast við þessari útkomu! Ég á eiginlega ekki orð.. vá! Mjúúúk, létt í sér en samt djúúsí eins og brownie! Mjög sterkt kakóbragð af henni ef ykkur þykir svoleiðis gott. Palli kjammsaði og spurði hversu mikið af súkkulaði ég hefði bætt út í þetta.. jah, 1 msk! Þið verðið að prófa, þessi kaka er æðisleg! Bragðast mjög óhollt en er full með flóknum kolvetnum og trefjum, andoxunarefnum (hoho.. 75% súkkulaðið) smá próteini og hollu fitunni sem allir þurfa í skrokkinn!
Hvað myndi ég gera öðruvísi næst?
Ég held ekki neitt. Kannski nota valhnetur í staðinn fyrir möndlur. Það væri æði! Ég er samt enn að furða mig á þessum æðislegheitum. Ofboðslega er þetta gott!
Verður eitthvað næsta skipti?
Hahh... hefði vel getað sleppt þessari spurningu. Uppáhaldslistinn minn hefur eignast nýjan vin!
Bakstur | Breytt 23.9.2010 kl. 22:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
15.8.2009 | 13:33
Glútenlausar súkkulaði muffins
Hér kemur þá uppskriftin af muffins kökunum sem ég bjó til í fyrradag! Versogú!
Sigga Hrönn leyfði mér að heyra um daginn hvernig hennar útgáfa af Hafra og möndlukökunum hefði tekist. Alltaf svo gaman að fá innsýn í það hvernig fólk gerir uppskriftir að sínum eigin eftir smag og behag. Þannig lærir maður mest og prófar sig áfram. Hún tiltekur í kommentinu sínu að hún noti hirsi þar sem það er minna glúten í því en höfrum. Þá varð ég svolítið forvitin og ákvað að skella í glútenfríar muffins. Að sjálfsögðu lagðist ég í net-víking og fann nokkrar sniðugar uppskriftir og gúllaði loks saman í þessa.
Glútenlausar súkkulaði muffins - 12 litlar muffins
1/4 bolli mjög fínt malað kókosmjöl
1/4 bolli kakóduft
1/4 tsk salt
1/2 tsk matarsódi
3 egg
1/4 bolli olía
1/4 bolli hunang eða t.d. agave. Ég notaði hunang.
6 ferskar, stappaðar döðlur. Mætti líka sleppa döðlum og bæta öðrum skammti af hunangi í staðinn eða öðrum sætara.
1 tappi vanilludropar
Aðferð:
1. Í skál, blanda saman kókosmjöli, kakódufti, salti og matarsóda.
2. Í annarri skál, blanda saman eggjum, olíu, hunangi, döðlum og vanilludropum.
3. Blanda þurrefnum saman við 'blautefni' og blanda mjög vel. Blandan er mjög þunn.
4. Setja í bökunarform. Ég setti bréfform ofan í álformin.
5. Baka í 20 - 22 mínútur. Ég var með mínar inn í 20 mínútur.
6. Kæla og njóóta. Má líka spisa heitar.
Niðurstaða:
Æææðislegar. Fluffy, mjúkar og kókosbragðið kemur skemmtilega fram í hverjum bita. Mikið súkkulaðibragð, en ekki svo að það yfirgnæfi og eigni sér muffinsið! Það heyrist líka muffins hljóð þegar bitið er í þær. Ohh, gaman þegar vel tekst til. Vinnufólkið mitt andaði þeim líka að sér sem segir mér að þær hafi verið góðar
Hvað myndi ég gera öðruvísi næst?
Bæta kannski ofan á þær súkkulaðibitum, jafnvel einhverju krumsi út í deigið. En það er líklegt að það leki niður á botn þar sem deigið er mjög þunnt. Annars þyrfti ekki að fiffa þær neitt til. Held það væri nóg að setja eitthvað gott "krem" ofan á þær.
Verður eitthvað næsta skipti?
Það verður næsta skipti. Það held ég nú! Sjáið þið bara myndina hér að neðan... gætu þær verið flottari?
Bakstur | Breytt 23.9.2010 kl. 22:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.8.2009 | 09:07
Kókoskúlur
Held áfram að útrýma hráefnunum sem ég á í nammiskápnum. Það er barasta að ganga nokkuð vel! Kúlur, hnettir og boltar af ýmsum toga hafa orðið til úr því sem eftir var, allt assgoti vel heppnað verð ég að segja.
Kókoskúlur
150 gr. döðlur og 150 gr. gráfíkjur. Rétt rúmlega bolli. Ég notaði þurrkað.
30 gr. þurrkaðar bananasneiðar. Tilraun síðan í gær - má sleppa.
1/2 bolli möndluflögur
2 msk möndlusmjör. Notaði heimagert rúsínu og kanil.
1/2 - 1 bolli kókos. Ég notaði 1/2.
3 - 5 msk kakó. Ég notaði 3.
1 tsk vanilludropar
1 tsk kanill
1 - 3 msk hunang. Ég notaði 2 msk.
Byrjaði á því að hita döðlur og gráfíkjur aðeins í örbylgju, því ég geymdi þær í ísskáppnum, svo í matvinnsluvél og matvinnsluvélaði smátt. Bætti þá rest af hráefnum út í, nema hunangi. Bætti hunangi við í restina eða þangað til áferðin á blöndunni var orðin flott að mínu mati, og hægt var að rúlla í kúlur. Döðlurnar og fíkjurnar gera þó sitt gagn. Það gæti farið svo að engu hunangi þurfi að bæta við, sérstaklega ef döðlurnar eru ferskar.
Hér væri líka hægt að bæta einhverjum góðum líkjör við eða rommi. Úha! Jæja, kúla massann og velta svo upp úr kókos, kakó, flórsykri, engu ... og voila!
El subbó!
Væri líka sniðugt að nota litla ísskeið til að skúbba í kúlur.
Ef þú vilt meira súkkulaðibragð, bæta við 1 - 2 msk., aukalega, af kakódufti. Ég eelska bragðið af döðlum og fíkjum og vildi ekki týna því. Að nota 3 msk. af kakódufti gefur gott súkkulaðibragð en ekki nógu mikið til að yfirgnæfa bragðið af þurrkuðu ávöxtunum. Mmhmmm! Þessi uppskrift þolir líka, mjög vel, meira af kókos. Ef þú ert kókosæta, þá er um að gera að kókosa þetta upp þangað til þú segir stopp.
Heimagerðar kókoskúlur fyrir utan allt samviskubit! Ég er ekki að segja að maður eigi að raða þessum elskum ofan í sig bara af því að þær eru hollari en Snickersbiti. En ef nammiguðinn er alveg að gera þig geðveika(n), þá er þetta mjög samviskulaust snarl. Ein kúla er nóg til að fullnægja sykurþörf vikunnar. Mjög sætar, yndislega bragðgóðar, þéttar í sér og gaman að bíta í.
Bakstur | Breytt 23.9.2010 kl. 22:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
9.8.2009 | 16:35
Heilhveiti og hafra möndlukökur
Fann svo eðal fína uppskrift á netinu einn daginn að ég prentaði hana út. Full af flóknum kolvetnum, trefjum, prótein og hollri fitu. Fullkomið í morgunmatinn og/eða með kaffinu! Búin að hlakka mikið til að prófa og lét loks verða af því. Fylgdi henni 110%, eitthvað sem ég geri yfirleitt aldrei. Hefði nú betur pimpað hana svolítið upp a la Ella. En hún á sér enn von!
Heilhveiti og hafra möndlukökur
1/2 bolli hafrar. Ég notaði grófa hafra.
2/3 bolli möndlumjöl. Ég muldi möndlur í matvinnsluvélinni.
1/2 bolli hveitikím.
1/2 bolli heilhveiti.
3 msk hunang og 3 msk möndlusmjör. Notaði heimagert kanil- og rúsínumöndlusmjör.
1 tsk. matarsódi
2 hrærð egg.
Í stórri skál hræra saman hafra, möndlumjöl, hveitikím og heilhveiti. Setja til hliðar. Hita hunang og möndlusmjör í örbylgju, þangað til létt bubblar, og hræra létt saman. Hella matarsódanum strax saman við hunangsblönduna. Blandan byrjar strax að lyftast og verður létt og froðukennd þegar matarsódinn er hrærður saman við. Hella hunangsblöndunni út í hafrablönduna og hræra létt. Þá hella eggjunum út í þangað til klístrað deig myndast.
Móta litlar kúlur úr deiginu, ég bleytti á mér hendurnar í nokkur skipti til að rúlla kúlurnar út, raða á bökunarpappír.
Inn í ofn í tæpar 10 mínútur eða þangað til rétt gylltar. Þessar voru inni aðeins of lengi.
Bíða svo með að borða á meðan myndataka á sér stað. Gott próf á hversu viljasterk(ur) þú ert!
Niðurstaða:
Það vantar í þær allt krydd - eru þar af leiðandi svo til "bragðlausar". Hunangið er þó nóg til að sæta, fyrir minn smekk. Þær mýkjast nokkuð upp við geymslu, eins og flestallar hafrakökur gera, og eru, þrátt fyrir kryddleysi, afskaplega mildar og bragðgóðar. Áferðin er virkilega skemmtileg. EN... það vantar þetta "Hmmm... góóðar kökur" element í þær!
Hvað myndi ég gera öðruvísi næst?
Þær skal kryddast. Vanilludropar, kanill, salt, múskat.. hvað sem hugurinn girnist. Jafnvel súkkulaðispænir og/eða þurrkaðir ávextir og hnetur ef þú ert í þannig skapi. Ég myndi líka, ef þú vilt t.d. bjóða gestum, dýfa botninum á þeim í bráðið súkkulaði. Væri geggjað!
Verður eitthvað næsta skipti?
Ég verð að prófa aftur með endurbætum!
Bakstur | Breytt 23.9.2010 kl. 22:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.8.2009 | 13:21
Fíkjur, undursamlegar fíkjur
Þurrkaðar fíkjur eru æðislegar. Dísætar og karamellukenndar. Gaman að bíta í þær. Seigar að utan, mjúkar og djúsí að innan með pínkulitlum fræjum sem poppa þegar bitið er í þau! Fullkomnar sem sætusnarl, ef maður er t.d. í 'nammibindindi' og sykurpúkinn alveg að stúta sálartetrinu. Þessi kúlublanda var einróma samþykkt í vinnunni minni. Sem er gleðilegt fyrir mig og átvaglið hið innra.
Fíkju og fræboltar
1 bolli þurrkaðar fíkjur. Um það bil 170 gr.
1 bolli sólblómafræ
Niðurrifinn börkur af lítilli sítrónu
2 msk hörfræ. Má sleppa.
1/4 tsk salt
1 - 3 msk hunang og/eða agave sýróp
Viðbætur, ef vill, sem hægt er að bæta í deigið eða rúlla kúlunum uppúr: kanill, kakóduft, flórsykur, hnetumulningur, kókos....
Hella sólblómafræjunum í matvinnsluvél og mala þangað til nokkuð fínt. Þá bæta við fíkjunum og jú, hræra þangað til nokkuð fínt. Ef þú vilt gera matvinnsluvélinni greiða, þá er gott að skera þær í minni bita. Þegar fræ og fíkjur eru orðin að svo til fínu mjöli, bæta við sítrónuberki, salti, hörfræjum og 1 msk hunangi. Hræra vel saman. Ef hægt er að útbúa kúlur úr deiginu, á þessu stigi, þannig að þær haldist saman, þá má byrja að rúlla. Annars bæta við annarri msk hunangi og hræra aftur eða þangað til kúlurnar molna ekki sundur. Bæta núna 'viðbótum' við, ef vilji er fyrir hendi, annars rúlla upp úr kakódufti, kanil ofr.
Hafið þið ekki smakkað samskonar fíkjukex og sést á myndinni hér fyrir neðan?
Ef svo er, þá eru þessar kúlur svo til eins og gumsið sem er inn í kexinu hvað áferð varðar. Bragðið er æði. Sítrónubörkurinn gefur skemmtilegt "Hmm.. hvað er þetta?" í hvern bita og frískar mjög upp á sætar fíkjurnar! Karamelluboltar með meiru og hunangið lætur aðeins vita af sér. Dúllið sem liggur svo utan á kúlunum gefur þeim mismunandi líf, kanill og súkkulaði eru í uppáhaldi hjá mér. Svo eru þær að sjálfsögðu á holla listanum, sem er alltaf jákvætt. Mikið gott.. mikið gaman!
Bakstur | Breytt 23.9.2010 kl. 22:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.8.2009 | 10:17
Heilsusamlegt "nammi"
Ég var að spá í að taka mig til og prófa að búa mér til nokkrar uppskriftir af "trufflum" eða nammikúlum í hollari kanntinum. Einfaldlega af því að ég á tonn af fræjum, hnetum og gumsi og það er einfalt og skemmtilegt að útbúa svona nammi. Ekkert fár. Yfirleitt fer allt hráefni í blender, það blandað til bana og húðað (eða ekki) með einhverju sniðugu. Svo er líka svo gaman að borða svona bitastórt nammi!
1/2 bolli hafrar
1/3 bolli graskersfræ
1/3 bolli hnetur. Ég notaði möndlur. Átti ekkert annað.
1 msk rúsínur
1/3 bolli þurrkaðir ávextir. Ég notaði ferskjur og kirsuber.
1 msk mulin hörfræ
2 msk döðlu- og jarðaberjasulta. Eða hvaða sulta önnur sem þú átt og kýst frekar.
Mylja hafra þangað til fínir. Ég muldi mína í matvinnsluvél. Bæta þá við hnetum og graskersfræjum og mylja aftur þangað til nokkuð fínt, mega vera stórir bitar hér og þar. Bæta þá við rúsínum, þurrkuðum ávöxtum og hörfræjum. Blanda aftur en í þetta skipti má blandan vera grófari - þangað til allir stórir bitar af þurrkuðum ávöxtum eru svo til horfnir. Stærstu mættu vera á stærð við grjón. Þá er ekkert annað eftir en að bæta við sultunni. Blandan er tilbúin þegar hún fer að festast við veggi matvinnsluvélarinnar. Þá er deigið, ef deig má kalla, mótað í litlar kúlur og stungið inn í ísskáp.
Skemmtilegt á bragðið. Sætt og súrt á sama tíma með hnetukeim og skondnu kikki frá graskersfræjunum. Held ég myndi prófa t.d. sólblómafræ næst og jafnvel einhverja sniðuga hnetublöndu.
Áferðin er flott. Deigkenndar, ef það er til, þéttar. Eins og litlar karamellur. Mjúkar, með fræ- og hnetubitum inn á milli. Alls ekki þurrar. Það væri jafnvel hægt að móta botn úr þessu deigi nú eða "granola" stykki. Ekki hafa áhyggjur þó þær líti út eins litlar kjötbollur - þær leyna á sér.
Ekkert sem er ekki 'æskilegt' við þessar elskur. Sykurlausar, fullar af flóknum kolvetnum, trefjum, hollum fitum og próteinum. Fullkomið snakk milli mála, í morgunmat, með kaffinu nú eða bara til að bíta í þegar snarl-andinn kallar!
Bakstur | Breytt 23.9.2010 kl. 22:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.8.2009 | 09:59
Bananabrauð með hörfræjum
Ef þér þykja bananabrauð góð, þá má þetta brauð ekki fram hjá þér fara! Létt í sér, en samt djúsí, ótrúlega bragðgott og áferðin æðisleg. Virkilega gaman að bíta í þetta gúmmulaði! Stútfullt af hollri fitu, trefjum, flóknum kolvetnum og smá próteini. Fullkomið morgunverðarbrauð.
Heilhveiti- og hörfræ bananabrauð
1/2 bolli Undanrenna
2 msk mulin hörfræ
2 bollar heilhveiti
1 tsk kanill
1/2 tsk múskat
1 og 1/2 tsk matarsódi
1/4 tsk salt
1/4 bolli olía
1 tsk vanilludropar
4 mjög vel þroskaðir stappaðir bananar
1/2 bolli hnetur, þurrkaðir ávextir, hvað sem er (má sleppa). Ég braut niður 5 valhnetur.
Í stórri skál, blanda saman hörfræjum og mjólk. Setja til hliðar. Í annarri skál hræra saman heilhveiti, kanil, múskat, salt og matarsóda og því blandi sem þú vilt nota. Setja til hliðar. Blanda saman olíu, vanilludropum og bönunum í stóru skálinni þar sem mjólkin og hörfræin hvíla sig. Þarnæst hella hveitiblöndunni í stóru skálina, með bananagumsinu, og hræra létt. Mega alveg vera kögglar. Hella í smurt brauðform, toppa með t.d. möndlum, og inn í ofn í 50 mínútur, eða þangað til prjónn, sem stungið er í brauðið mitt, kemur út svo til hreinn.
Leyfa brauðinu að kólna í 10 - 15 mínútur, í brauðforminu, eftir að það hefur verið tekið út úr ofninum. Eftir þann tíma flytja það á grind og leyfa að kólna alveg. Muna bara, ekki taka undirritaða á þetta og reyna að skera brauðið heitt. Leyfa því að kólna vel fyrst.
Niðurstaða:
Bara gott! Æðislegt á bragðið. Áferðin fullkomin. Að hafa möndlur ofan á brauðinu er eins og að borða súkkulaði með jarðaberjum! Ment to be!
Hvað myndi ég gera öðruvísi næst?
Held barasta ekki neitt! Þetta brauð er virkilega, virkilega gómsætt. Er einmitt að borða eina sneið núna með hnetusmjöri og sultu
Verður eitthvað næsta skipti?
Það held ég nú. Búin að nóta það niður á uppáhaldslistann.
Bakstur | Breytt 23.9.2010 kl. 22:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)