Færsluflokkur: Bakstur
30.7.2009 | 10:57
Súkkulaðibitakökur
Jújú. Helgarnammistuð í gangi - 75% súkkulaðibitar notaðir í kökurnar í staðinn fyrir döðlur eða þurrkaða ávexti. Ómæ... en gott, ómæ!
Súkkulaðibitakökur - 8 stórar kökur
Stilla ofn á 200 gráður.
1/2 boli heilhveiti
1/2 bolli hafrar, ég notaði grófa.
1/4 tsk matarsódi
dass salt
1/4 bolli súkkulaðibitar
1/4 bolli hnetur eða þurrkaðir ávextir eða meira súkkulaði
Blautefni:
2,5 kúfaðar msk hnetusmjör. Ég notaði 1 msk aðkeypt og 1,5 heimagert möndlusmjör.
1 msk olía
1/2 dl hunang
2,5 msk Undanrenna
1 tsk vanilludropar
Hræra þurrt saman í stórri skál og setja til hliðar. Blanda blautu saman í annarri skál og hella yfir þurrefni og blanda vel. Móta kúlur úr deiginu og þrýsta vel á þær, því kökurnar koma ekki til með að leka mikið út sjálfar í ofninum. Ég hafði mínar t.d. aðeins of þykkar því deigið er nokkuð klístrað. Ætla að nota blauta skeið næst þegar ég geir þetta og hafa þær næfurþunnar.
Inn í ofn í um það bil 7 mínútur, eða þangað til fallega gylltar.
Nohhhm!
Best að borða þær heitar með mjólkurglasi! Mhmmm... æðislegt að mylja þær yfir graut á morgnana, út í skyr/jógúrt, með banana-ís...
...nú eða bara narta þegar nartarinn lætur í sér heyra!
Niðurstaða:
Æðislegar. Mjög bragðgóðar. Stökkar að utan, mjúkar að innan - meiriháttar áferð. Kannski svolítið þurrar en ekkert til að æpa yfir. Til að gera þær allar stekkri er spurning hvort notaður sé 1 dl sykur í staðinn fyrir 1/2 dl hunang?
Hvað myndi ég gera öðruvísi næst?
Gera kökurnar þynnri og stærri og baka aðeins skemur. Nota valhnetur eða pecanhnetur í staðinn fyrir möndlur og jafnvel nota létt AB-mjólk í staðinn fyrir mjólk og/eða meira af olíu til að reyna að gera þær meira "djúsí"? Allar ábendingar, úrbætur, viðbætur vel þegnar að sjálfsögðu
Verður eitthvað næsta skipti?
Ójá...
Bakstur | Breytt 23.9.2010 kl. 22:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
29.7.2009 | 09:04
Heilhveiti pistasíu muffins
Ég hef sagt það svo oft og fæ aldrei leið á því. Ég elska hnetur! Hnetur af öllum stærðum og gerðum! Pistasíur eru í miklu uppáhaldi. Bragðgóðar, svolítið sætar, áferðin skemmtileg, liturinn brilliant - gaman að pilla þær úr skinninu og ennú skemmtilegra að fá þær skinnlausar svo auðveldara sé að graðga þeim í sig! Átti ansi stóran poka af pistasíum og ákvað að skella í pistasíu muffins í gær í morgunmat í dag!
Heilhveiti pistasíu muffins - 12 til 16 muffins
2 bollar heilhveiti
1/2 bolli hafrar
1/4 bolli heilar pistasíur. Má mylja.
1/2 tsk salt
1 msk lyftiduft
1/4 bolli hunang
1 egg
1/2 bolli olía
1/2 bolli létt AB-mjólk
2 tappar vanilludropar
3/4 bolli Undanrenna
Toppur:
1/4 bolli muldar pistasíur og 2 msk púðursykur. Má sleppa.
Hræra saman hveiti, höfrum, pistasíum, salti og lyftidufti í stórri skál. Setja til hliðar. Hræra þá saman hunangi, eggi, olíu, AB-mjólk, vanilludropum og Undanrennu. Blanda blautu við þurrt og passa að ofhræra ekki - ofhrærsla kemur niður á áferðinni! Skúbba deiginu í smurð muffins form, setja toppskraut ofan á hverja köku og inn í ofn í 15 - 20 mínútur. Mínar voru inni í tæpar 20. Það sem ég geri er að ég tek pappírs muffins form og set þau í ofan í muffins bökunarform, annars lekur deigið út um allt.
Trefjar, prótein, holl fita, flókin kolvetni! Fullkomið í morgunmat eða með kaffinu! Morgunverðarmuffins jafnvel! Virkilega bragðgóðar. Stökkar að utan, mjúúkar, léttar og fluffy að innan. Væri jafnvel hægt að nota þær sem brauðbollur, skera í sundur og borða með osti og sultu. Toppurinn verður líka svolítið fönkí á litinn! Grænn toppur - lovit!
Mjög einfalt að útbúa þær, rétt tæpar 10 mínútur að skella í deigið og svo 20 mín í ofni! Ég þarf svosum ekki að lofa þær frekar - ég eeeeelska hnetur og það, að bíta í hnetu inn í muffins, er mjög gleðilegt fyrir mig!
Ekkert smá ánægð með þennan skammt! Hann fer beint á "gera aftur" listann!
Update: Vinnufólkið mitt eelskaði þær. Gaf þeim fullt hús! Væri líka örugglega æðislegt að raspa út í deigið sítrónubörk!
Bakstur | Breytt 23.9.2010 kl. 22:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.7.2009 | 11:06
Heilhveiti graskers kanilsnúðar með döðlumauki
Kerlingin er með snúðamaníu!
Nýta restina af graskersmaukinu og þar sem ég er nýbúin að útbúa kanilsnúða, af hverju ekki aftur? Ef svo má að orði komast! Þetta eru meira brauðsnúðar með kanilbragði en hverjum er ekki sama ef útkoman bragðast vel!
Heilhveiti graskers kanilsnúðar: 12 - 14 stk
Deig:
2 og 1/4 tsk ger
1/4 bolli volgt vatn
3/4 bolli graskersmauk
1/4 bolli undanrenna
1/4 bolli létt AB-mjólk
1 msk hunang
2 og 1/2 bolli heilhveiti
2 msk mulin hörfræ (má sleppa)
1 og 1/4 tsk salt
1,5 tsk kanill, 1/4 tsk múskat og negull/engifer.
1/2 tsk vanilludropar
1 msk olía
Fylling, grunnur:
12 ferskar kramdar döðlur
1 tsk kanill - eftir smekk
2 msk hunang
3 msk létt AB-mjólk
Leysa gerið upp í volgu vatni - 5 mínútur um það bil. Á meðan blanda saman mjólk, létt AB-mjólk, graskeri og hunangi. Hella þá gervatninu út í graskersmaukið og blanda léttilega. Bæta þá við 2,5 bollum hveiti, 2 msk muldum hörfræjum, vanilludropum, salti, kanil, múskati og negul. Hræra létt saman, gott að hræra í vél ef möguleiki er á því, þangað til deigið er orðið mjúkt. Nota þá restina af hveitinu, msk í senn, og hnoða inn í deigið á hveitistráðum fleti. Hnoða deigið í 10 mínútur eða þangað til það verður teygjanlegt, aðeins klístrað viðkomu en festist ekki við puttana.
Hella þá msk af olíu í skál og setja deigkúluna í skálina.
Velta deigkúlunni upp úr olíunni, breiða svo klút yfir skálina og leyfa að standa í heitu rými í 45 mín, eða þangað til deigið hefur tvöfaldast að stærð. Sem átti sér ekki alveg stað hjá mér, en það stækkaði nokkuð.
Hnoða deigið niður og fletja það út í ferhyrning. Ég ætlaði að hafa deigið þykkt, en ég held það vanti þann litning í mig. Eins virðist ég ekki geta búið til brauð nema fylla það af hnetum, fræjum og korni....
Mjaka fyllingunni á deigið. Ég notaði sleif.
Leika sér. Setti smá af möndlum, granóla, sólblóma og graskersfræjum.
Rúlla upp og skera
Raða í eldfast mót þeim sem komast þar fyrir. Ég bakaði þá tvo sem eftir urðu sér. Leyfa dúllunum að hefast í 15 - 20 mínútur. Eldfasta mótið notaði ég til að sjá hvort einhver munur væri á mýkt á degiinu ef allir eru saman saman.
Henda inn í ofn í 20 mínútur eða þangað til fallega gylltir. Kæla svo í 10 - 15 mínútur.
Njóta! Ég fékk mér að sjálfsögðu einn strax... eða tvo. Kannski fjóra!
Skar svo eitt dýrið í tvennt til að sýna betur innvolsið. Sá á myndinni fyrir ofan lítur hálfparinn út eins og "Road kill" greyið! Græðgin alveg að drepa undirritaða!
Niðurstaða:
Virkilega góðir á bragðið - eins og nammi. Döðlumaukið gerir þá að sjálfsögðu mjöög djúsí og karamellukennda í miðjuna. Ef þið fílið "blautar" súkkulaðikökur þá fílið þið þessa. Munið bara að þetta er 100% heilhveiti svo þeir eru ekki fluffy eða "léttir" í sér. Hver snúður eru um það bil 5 kg... svona næstum. Kanillinn skilar sér vel. Svo eru þeir líka æðislegir á litinn út af graskerinu. Graskerið gerir deigið líka mýkra. Fullt af flóknum kolvetnum, trefjum, hollri fitu og próteinum. Enginn sykur, bara hunang og döðlur sem er mikið meira en nóg.
Hvað myndi ég gera öðruvísi næst?
Ef viljastyrkurinn leyfir... hafa deigið þykkara og baka snúðana sér! Ef þið viljið minna "djúsí" snúð, nota minna af fyllingu.
Verður eitthvað næsta skipti?
Jafnvel næstu skipti!
Bakstur | Breytt 23.9.2010 kl. 21:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.7.2009 | 19:26
Heilhveiti 'kanilsnúðar'
Kanilsnúðar eru mikið uppáhalds hjá mér. Sérstaklega þessir mjúku, djúsí ofursnúðar. Ekki jafn hrifin af hörðu flötu snúðunum en allt er kanilsnúður í harðindum!
Vildi prófa að búa til heilhveitisnúða og sjá hvort eitthvað æðislegt myndi gerast!
Hráefni:
3/4 bolli volg undanrenna, ekki heit
2 og 1/4 tsk þurrger
3 bollar heilhveiti
1 tsk lyftiduft
2 msk hunang
1 - 2 tsk kanill
1/4 tsk salt
5 msk Létt-AB mjólk, olía eða eplamau. Ég notaði AB.
Fylling, grunnur:
2 msk hunang
2 msk sultan góða
1 msk Létt-AB mjólk
1 tsk kanill
Fylling, gúmmulaði (Það sem ég gerði):
Möndluflögur (allt deigið), múslí (1/4 af deigi), möndlusmjör (allt deigið), rúsínur (helmingurinn), mulin hörfræ (allt deigið).
Byrja á því að hita ofninn í 180 gráður. Hita svo mjólkina og strá gerinu þar yfir og láta bíða í um það bil 5 mínútur. Ágætt að bæta hunanginu við blönduna á þessum tímapunkti. Hræra vel saman 2 bolla af hveiti, lyftidufti, kanil og salti í stórri skál. Bæta þá Létt-AB mjólkinni við ásamt gerblandinu. Hræra vel saman. Bæta við 1/2 bolla af hveiti og hræra saman. Dusta rest af hveiti, 1/2 bolla, á t.d. eldhúsborð og hnoða deigið þangað til búið er að hnoða svo gott sem rest af hveiti inn í deigkúluna. Um það bil 20 - 30 skipti. Þá skal fletja deigið út í ferning, nokkuð þunnt. Þá er grunninum af fyllingunni hellt í miðjuna á deginu og með spaða er henni dreift um deigflötinn. Rest af fyllingu, ef vill, er þá bætt við. Hnetum, möndlum, fræjum...
Deiginu er rúllað upp skv. lögum og reglum, eins þétt og kostur er á...
...og skorið í 1 - 2 cm. þykka bita.
Raða á bökunarpappír og inn í ofn í 20 mínútur. Ég setti ekkert ofan á snúðana áður en ég setti þá inn í ofninn.
Niðurstaða:
Æðislegir á bragðið, virkilega, og áferðin er frábær. Fengu frábæra einkunn frá Svöbbu systur, pabba og mistar Paulsen. Svolítið þurrir, en viðráðanlega (aðallega ysta lagið), og geggjaðir með mjólk. Bestu snúðarnir voru rúsínusnúðarnir. Mæli ekki með múslí! Möndlurnar gera alltaf sitt gang og ef maður myndi nú bæta valhnetum og döðlubitum.. oh men!!
Hvað myndi ég gera öðruvísi næst?
Tvöfalda grunn fyllinguna, setja meiri AB-mjólk og/eða olíu í deigið/fyllinguna, pensla snúðana með eggjablandi áður en ég set þá inn í ofn og jafvel toppa með sultu. Hef degið kannsi þykkara næst og geri snúðana stærri.
Verður eitthvað næsta skipti?
Ójá.... þessa geri ég aftur!
Ef þið hafið aðrar hugmyndir um það hvernig best væri að búa til hina fullkomnu ofurheilsusnúða, í gvöðanna bænum ekki vera feimin að tjá ykkur
Bakstur | Breytt 23.9.2010 kl. 21:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
17.7.2009 | 10:55
Heilhveiti graskers brauð
Ef þið eigið ekki grasker, þá ætti alveg að vera hægt að nota sætar kartöflur! Soðnar eða ofnbakaðar þangað til mjúkar. Þetta var goooott brauð!
Byrjum á því að hita ofn í 180 gráður.
Þurrefni:
1/3 bolli hafrar
1/2 tsk matarsódi
1/2 tsk lyftiduft
1 - 2 tsk kanill
1/2 tsk múskat
salt á hnífsoddi
Blautefni:
1 bolli niðursoðið grasker. Libby's.
1/2 bolli eggjahvítur
1(3 bolli vatn
2 msk olía
1 bolli Létt-AB mjólk, mjólk eða eplamauk.
4 msk hunang
1/2 bolli möndlur eða valhnetur. Hvað sem er svosum. Ég notaði möndlur
Hræra saman þurrefni í stórri skál. Blaut-efni hrærð saman í annarri skál, nema hnetur, og bætt við hveitiblönduna. Hræra þangað til vel blandað en ekki of mikið. Bæta þá við hnetunum. Setja bökunarpappír í brauðform, spreyja eða smyrja smá og hella svo blöndunni ofan í brauðformið. Ég skreytti síðan með graskers- og sólblómafræjum. Inn í ofn í 70 mínútur.
Samt ágætt að fylgjast með því eftir því hvernig ofn þú átt. Hafa það inni þangað til prjóni sem potað er í brauðið mitt kemur út hreinn.
Niðurstaða:
Mjúúkt, þétt í sér og djúsí brauð. Mjög bragðgott, fann vel fyrir greskerinu. Veit ekki hvernig ég get lýst því, smákornótt? Fullkomið eftir nótt í ísskáp!
Hvað myndi ég gera öðruvísi næst?
Ég myndi setja meira af kanil og múskati. Jafnvel smá negul líka. Einnig myndi ég baka það lengur. Tók það líklegast aðeins of snemma út úr ofninum, prjónninn góði var ekki alveg þurr eftir pot! EN... ég er kökudeigsmanneskja svo það truflar mig ekki, en getur veirð erfitt að skera það glænýtt úr ofninum. Flott eftir nótt í kælinum þó! Vel hægt að skera það þá.
Verður eitthvað næst?
Pottþéttó! Ætla að prófa að uppfæra uppskriftina aðeins og sleppa hunanginu alveg! Sjáum hvernig það kemur út!
Bakstur | Breytt 23.9.2010 kl. 21:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.7.2009 | 10:20
'Makkarónur' hafrar og kókos
Mér þykir kókos æðislegur á bragðið. Bjó mér stundum til hálfgerðar kókoskúlur og geri enn við hátíðleg tækifæri. Kókos, hveiti, sykur og eggjahvíta. Æææðislega góðar en svo skelfilega óhollar. Er því búin að vera að prófa mig áfram í kókosnamminu undanfarið og ætla að reyna að gera nokkrar sniðugar uppskriftir til að grípa í þegar nammigrísinn kallar.
Makkarónur - 50/60 stk
2 bollar kókos
1 msk vanillu- eða möndludropar, ég notaði möndlu, átti ekki vanillu.
1 dl hunang
3 dl eggjahvítur, rétt rúmlega. (10 stk)
Ögn af salti
Dökkt súkkulaði og möndlur til skreytingar, ef vill.
Hræra öllu saman, nema súkkulaði og möndlum, og skófla upp með skeið á bökunarpappír. Ef þið viljið möndlur á toppinn, raða þeim á kökurnar áður en þeim er stungið inn í ofn. Baka við 180 gráður í 12 - 15 mínútur, eða þangað til fallega gylltar.
Ef þið viljið harðari kökur, hafa þær minni og baka þangað til vel brúnar. Þá kemur stökk og girnileg skorpa utan á þær. Mýkjast aðeins við geymslu en eru virkilega bragðgóðar og skemmtilegar. Möndludroparnir gefa kökunum hálfgert marsípanbragð - ææðislega gott ef þið fílið t.d. kransakökur. Súkkulaðinu má vel sleppa. Þær eru svo til sykurlausar miðað við magn af hunangi í allan þennan skammt, fullar af flóknum kolvetnum, próteinum, hollri fitu og trefjum! Ætla að skella inn næringargildi per köku á næstunni.
Vinnufólkið mitt fílar kökurnar vel og Palli át um það bil 10 nýbakaðar í gær. Þið sem eruð kókosætur ættuð því að gúddera þessar elskur ágætlega!
Bakstur | Breytt 23.9.2010 kl. 21:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.7.2009 | 09:14
Granola stangir sem ekki þarf að baka
Taka 1
Langaði mikið til að útbúa mér granola stöng sem ekki þarf að baka eða hita. Svolítið í takt við hráfæðisfílinginn, fyrir þá sem ekki vilja hita matinn sinn. Tek það fram að ég er ekki þarsmegin við línuna, ég borða líka kjöt og mikið af sykri þegar vel stendur á. Það er hinsvegar mjög gaman að prófa að elda og bragða á grænmetisréttum og hráfæði til að breyta til og borða eitthvað öðruvísi.
Ég útbjó einn skammt af granola stöngum í dag sem ég stakk inn í ísskáp eftir að hráefnunum hafði verið skóflað saman.
Leit alltsaman voðalega vel út þegar ég tók skammtinn út úr ísskápnum.
Náði að skera helminginn af gumsinu í nokkra fallega bita. Greinilega verið þeim megin í fatinu sem ég hef náð að þrýsta með 10 tonna þunga á hráefnið!
Hinn helmingurinn sprakk í loft-upp og ákvað að halda sig við pjúra granola formið!
Sem er alls ekki slæmt. Ég tók krumsið, bakaði það inn í ofni og ætla að nota yfir grauta og skyr eins og múslí. Þessi skammtur er æðislegur á bragðið og um leið og ég hef gert uppskriftina þannig að allt gúmmulaðið haldist saman, þá hendi ég henni hingað inn!
Bakstur | Breytt 23.9.2010 kl. 21:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.7.2009 | 17:40
Æðislegir hafra- og hnetubitar
Stútfullar af flóknum kolvetnum, hollri fitu, trefjum og próteini. Uppáhalds "smákökur" eða bitar sem ég fæ eru hafrakyns. Palli varð ofurglaður með þennan skammt og kjammsaði á þessu eins og honum væri borgað fyrir.
Hafra- og hnetubitar með banana, döðlum og hörfræjum - 40 stk
Stilla ofna á 175 gráður.
Blanda saman og setja til hliðar:
2 vel þroskaðir stappaðir bananar
1/2 bolli létt AB-mjólk. (má líka nota eplamauk, mjólk....)
2 tsk vanilludropar
2 msk hunang
Í stórri skál hræra saman:
1 bolla heilhveiti, spelt, möndlumjöl...
1 og 1/2 tsk lyftiduft
1 tsk kanil
smá múskat
1 bolla þurrkuðum ávöxtum. Ég notaði döðlur.
1 bolli hafrar. Ég notaði Sólskyns múslí.
1/2 bolli hörfræ. Helst mulin.
1/2 bolli hnetur. Ég notaði blandaðar salthnetur.
dass salt (sleppti saltinu því ég notaði jú saltaðar hnetur)
Blanda svo bananastöppunni saman við þurrefnin, raða á bökunarpappír og inn í ofn í 15 - 20 mínútur.
Ég þarf ekki að segja ykkur hvað þessar voru góðar... ómægod! Bakaði helminginn 5 - 10 mínútum lengur. Þær urðu að sjálfsögðu stökkari og meira crunchy. Mér persónulega er sama, Palli var á því að meira bakaðar kökur væru betri og skemmtilegri að borða. Það er hægt að skúbba deiginu upp með t.d. ísskeið, þá verða þær ekki svona "oddhvassar" eins og mínar. En ég er letipúki...
Tók mig til og listaði niður næringargildi pr. köku. Þessar eru glæsó í morgunmatinn með t.d. skyri!
Hitaeiningar: 49
Prótein: 1,5
Fita: 1,3
Kolvetni: 7,8
Trefjar: 1,7
Bakstur | Breytt 23.9.2010 kl. 21:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
25.6.2009 | 21:01
Smákökugleði
Fékk bökunarpöddu í hausinn og ákvað að búa til smákökur úr því sem ég átti hérna heima. Komu bara mjög vel út, rosalega bragðgóðar og skemmtilegar. Eins og með allar smákökur þá voru þessar dáásamlegar nýkomnar út úr ofni með mjólk! Namm! Nokkuð hollar miðað við að vera smákökur. Hörfræ, hnetur, kókos og olía - við þurfum fitu í skrokkinn. Heilhveitið gefur flókin kolvetni, trefjar og prótein. Döðlurnar sæta kökurnar og gefa okkur trefjar. Eplamaukið setti ég á móti olíunni, hefði líklegast mátt vera aðeins meira af því. Hunangið er svo eitt náttúrulegasta sætuefni sem finnst! Agave sýrópið setti ég með því ég átti það - sykurinn í agave sýrópinu fer 5 sinnum hægar út í blóðið en venjulegur sykur. Við nýtum þar af leiðandi sykurinn í agave sýrópinu betur en venjulegan sykur. Ég reyni samt alltaf að nota hunang til að sæta kökur og brauð. En það er svo lítið af agave í þessari uppskrift - við leyfum það alveg
Heilhveiti smákökur með döðlum og hnetum
1 bolli heilhveiti eða spelt. Átti ekki spelt.
1 tsk lyftiduft
1/2 tsk matarsódi
1 - 2 msk hörfræ
1/4 tsk salt
Nokkrir muldir valhnetukjarnar - slatti í poka ef þú ert hnetufíkill.
2 msk kókosflögur
Dökkir súkkulaðibitar - ef þú ert í helgarstöði með gvöði!
3 msk hunang
1 msk agave sýróp
2 niðurskornar, ferskar döðlur. Hefði sett fleiri en átti því miður ekki meira.
2 msk eplamauk
2 msk olía
1 msk hnetusmjör
1 tsk vanilludropar
Stilla ofn í 175 gráður. Hræra saman fyrstu 7 hráefni, hveiti - kókosflögur, í stórri skál og setja til hliðar. Hræra þá vel saman restinni af hráefnunum í annarri skál, hunang - vanilludropar, og blanda svo við hveitiblönduna. Skúbba deiginu með skeið á bökunarpappír og baka í ofni í 10 - 12 mínútur. Ég hlakka mikið til að geta mulið eina svona elsku yfir hafragraut eða jógúrt... mmmmhmm!
Verði ykkur að góðu!
Bakstur | Breytt 23.9.2010 kl. 21:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.6.2009 | 06:24
Banana og hafra pönnukaka
Yndislegt veður!!
Langaði í pönnsu í morgunmat. Langaði líka í hafra og jú, er á leiðinni í ræktina eftir klukkutíma tæpan. Breytti því aðeins uppskriftinni í takt við það, en set samt báðar hingað inn.
Banana og hafra pönnukaka - fyrir einn svangan maga
15 gr hafrar, rúmlega 1/2 dl.
1/3 stappaður banani
1/3 skammtur hreint prótein
2 eggjahvítur
1 tsk hnetusmjör
Það sem ég hefði gert:
1/2 bolli hafrar
Heill stappaður banani
2 eggjahvítur
1 tsk hnetusmjör
Hræra saman og voila! Steikja á heitri pönnu báðum megin þangað til pönnukakan er elduð í gegn. Ég steiki mínar yfirleit stutt því þá verða þær ofurmjúkar. Sérstaklega ef ég nota prótein því það gerir pönnsuna þurrari en ella. Ef þið notið prótein, setjið þá meira af banana eða eggjum. Jafnvel AB-mjólk. Fullkomið! Ekki hafa áhyggjur samt sem áður, þetta smakkast ekki eins og eggjakaka. Rosalega gott og skemmtilegt. Hægt að setja hvað sem er ofan á. 'Stappa banana, smyrja yfir með hnetusmjöri og sultu', 'skinka, ostur og egg','hnetusmjör og múslí','prótein-skyrblanda og múslí', 'jarðaber og banani','hunang og kanill'....
...farin að rækta mig og pína hinn helminginn í leiðinni! Ahh, gott að byrja daginn á góðu veðri, heitri pönnsu og svakalegum lyftingum!
Bakstur | Breytt 23.9.2010 kl. 21:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)