Færsluflokkur: Morgunmatur
28.6.2009 | 12:43
Gamalt en gott
Þegar ég vaknaði í morgun voru bláber það eina sem ég gat mögulega hugsað mér að borða í morgunmat. Í miðjum 5 km. var ég mikið að spá í því hvernig best væri að snæða berin ef ég skyldi nú láta verða að því að kaupa einn kassa eða svo. Setja þau í pönnukökur, búa til ofnbakaðan hafragraut með bláberjum, bláber ofan á beyglu með smá hunangi... eintóm bláber? En nei, þegar ég kíkti inn í ísskáp og sá skyrið mitt góða var það, það eina sem ég gat hugsað um! Bláber og skyr. Mhhhh... svo gott! Ekkert vesen... virkar alltaf. Bláberin voru keypt og í kassanum leyndist lítil pláneta...
... hún smakkaðist mjög vel! Ég afrekaði samt meira en að gleypa í mig plánetu og bætti próteini í skyrið mitt. Skar niður 1/2 banana og 3 frosin jarðaber. Sótti mér 6 möndlur upp í skáp og granola stöng í frystinn. Gumsinu kom ég fyrir ofan á skyrinu og sáldraði loks yfir herlegheitin hörfræjum... það er skyrmix þarna undir einhverstaðar.
Fullkominn, fullkominn morgunmatur. Granola stöngin er alveg að gera sig í svona blandi. Æðisleg. Ég fann líka hjarta í skálinni minni.
Svo þegar myndatökutími er liðinn og átvaglið tekur við verður glæsilega fína ávaxtaskálin svona útlítandi!
Kannski ekki jafn fín, en alveg jafn góð ef ekki betri! Mmmmm...
Morgunmatur | Breytt 23.9.2010 kl. 21:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
20.6.2009 | 12:31
Kvennahlaup, útskriftir og afmæli
Tek nú reyndar ekki þátt í kvennahlaupinu í dag vegna skorts á tíma. Ætlaði þó að sýna lit og bæta upp fyrir það með því að útbúa bleikan 'ís' í tilefni dagsins. Fór nú ekki betur er svo að spínatgr'ís'inn lét í sér heyra og bleikur ís vék fyrir grænum. Þvílík og slík staðfesta er fáheyrð! Um það bil sama formúla og um daginn, með smá breytingum. Ég hlakkaði svo mikið til að komast heim úr ræktinni og búa þetta til að ég hélt ég yrði ekki eldri. Bætti töluvert af múslí og flögum í þennan skammt. Gerði hann stærri en vanalega þar sem ég er að fara í útskriftarveislu á eftir og afmæli í kvöld. Kem því ekki til með að fá mér hádegismat per se. Fæ mér eitthvað smotterí um tvö leitið og flýti kvöldmat til kl. 5. Jújú, koma matnum fyrir!
Grænt bjútí fyrir tvo svanga kroppa innihélt í dag: 200 gr. af hreinu skyri, 2 skeiðar hreint prótein, 1 frosinn banana, 5 frosin jarðaber, 100 ml. Undanrennu, 3 msk hörfræ, nokkra klaka og 100 gr. spínat. Hrærði saman í matvinnsluvél og byrjaði að púsla saman morgunmatnum. Fyrst smá múslí í botninn á skálinni. Hér er ég farin að hlakka mikið til þess að dýfa mér ofan í matinn!
Svo ís yfir, þarnæst quinoa flögur og meiri ís. Aðeins meira múslí...
...og restin af ísnum. JÍHAA! Toppað með bláberjum, 1/2 niðurskornum banana, möndlum, múslí og létt AB-mjólk. Flott skál! Hér er ég alveg að komast í það að geta byrjað að borða.
Þið getið ekki ímyndað ykkur hvað það er erfitt að byrja ekki að háma í sig um leið og maturinn er til - heldur taka nokkrar myndir af gúmmulaðinu fyst. Sérstklega þegar hungrið er farið að segja til sín!
Skálin var svo full að það flæddi næstum út fyrir! Græðgislegt, ég veit en... Nohm! Þetta var svo gott! Áferðin 'per-a-fecto'! Ísinn þéttur í sér en samt mjúkur. Sérstaklega gleðilegt fyrir mig að bíta í múslí og quinoa flögur þegar leið á átið. Crunchið faldi sig í mörgum lögum alla leið niður á botn. Þið verðið að prófa!
Þá er ég búin að fá grænmeti fyrir hádegi ásamt öllum vítamínum sem því fylgir. Andoxunarefni og vítamín úr berjunum, vítamín úr ávöxtunum, holla fitu úr möndlum og hörfæjum, flókin kolvetni, tefjar og smá prótein úr múslímixinu ásamt próteini úr skyri og.. jah, próteindufti! Þetta gerist bara ekki betra!
Morgunmatur | Breytt 23.9.2010 kl. 21:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.6.2009 | 08:30
Hvað er í morgunmatinn?
Þegar ég vaknaði í morgun vissi ég nákvæmlega ekkert hvað mig langaði í morgunmat! Ótrúlegt en satt! Var ekki í stuði fyrir heitt. Langaði mest af öllu að fá mér morgunkorn og smá mjólk. Hef ekki fengið mér svoleiðis morgunmat í milljón ár.
En eftir grams í ísskápnum, nammiskápnum og próteinskápnum blandaði ég saman skyri, próteini og niðurskornu epli og banana. Sáldraði yfir þetta hörfræjum, quinoa flögum og smá Sólskyns múslí.
Það er einhver fílíngur við það að borða skyrkyns og bíta í brakandi morgunkorn. Minnir mig á það þegar ég var yngri og fékk mér súrmjólk með púðursykri og Cheerios!
Morgunmatur | Breytt 23.9.2010 kl. 21:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.5.2009 | 13:52
"Ís" í morgunmat - næst bezt í heimi!
Ég verð að viðurkenna að þessi týpa af morgunmat er ansi nálægt því að vera í stífri samkeppni við hafragrautinn góða um titilinn "Bezti morgunmatur í heimi!". Þessi blanda er það sem ég tala oft um sem "ís". Ég elska að fá mér þetta gúmmulaði í morgunmat, sérstaklega eftir góða brennsluæfingu, útiskokk - nú eða bara til að gleðja á mér magann!
Það er hægt að malla þetta saman á marga vegu. Mér þykir best að frysta ávexti og setja í matvinnsluvél/blender ásamt skyri, próteini og smá mjólk. Útfærslurnar eru óteljandi!
Banana og spínat prótein ís! Fyrir 1.
Ég veit, titilinn er ekki eitthvað sem fær mann til að hugsa "Ohhh.. nammi", en eins og ég hef sagt svo oft áður undanfarið - spínatið hverfur alveg. Nema liturinn, hann gerir mig alltaf hamingjusama! Og af hverju ekki að bæta auka grænmeti í fæðuna sína ef það er svona auðvelt?
1 niðurskorinn frosinn banani
100 - 120 gr. hreint skyr (má nota hvernig skyr sem er)
1 skammtur hreint vanillu prótein
sletta af mjólk - hversu þykkur á ísinn að vera?
1 msk hörfræ
Lúka, ferskt spínat - 50 gr. uþb?
Hræra allt saman í matvinnsluvél/blender, hella í skál, skreyta og njóóta! Mín skál var skreytt með bláberjum, hindberjum, quinoa flögum, múslí og smá létt AB-mjólk! Ohhh hvað þetta var fullkomlega það sem mig langaði í - ótrúlega gott!
Morgun-/hádegismaturinn var svo kláraður með gullfallegri ferskju! Ógeðslega eru þær flottar á litinn!
Heyyy, flott mynd í bakgrunninn á þessari!
Morgunmatur | Breytt 23.9.2010 kl. 21:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.5.2009 | 13:51
Grænum dögum formlega lokið
Allur sá matur sem ég ætlaði að bæta spínati við, hefur nú verið spínataður.
Ég er búin að búa til grænan smoothie eða drykk, grænan hafragraut og í dag lauk hinni heilögu þrenningu grænna daga með grænum "ís". Þrjú skipti af þremur vel heppnuð og ég kem til með að bæta þessu inn í matardagskrána í framtíðinni. Hentar vel sem morgunmatur og viðbit, jafnvel kvöldmatur ef tíminn er naumur. Það er svo hægt að leika sér með t.d. drykkinn og ísinn, bæta út í þetta mango, hnetum, hörfræjum, kiwi - hverju sem er. Mesta snilldin er að sjálfsögðu spínatið góða, sem gefur þennan meiriháttar fína lit, og öll þau milljón næringarefni sem því fylgir. Ætla að leggjast í grænmetis víking og reyna að finna mér fleiri grænmetisdrykki sem bragðast eins og ávextir! Hvesu mikil snilld er það!?
Grænn gleði ís
1 frosinn banani.
sletta af skyri, ég nota hreint KEA.
1 skammtur prótein, ég nota hreint vanillu - má sleppa.
smá fjörmjólk. Hversu þykkt viltu að blandan verði?
60 grömm spínat, 2 lúkur um það bil.
Allir saman í blender og blanda þangað til hamingjusamlega grænt og fínt. Út á þetta setti ég svo quinoa flögur, hafrakodda og smá múslí. Á myndinni er blandan svolítið froðukennd. Ástæðan fyrir því er sú að bananinn sem ég notaði var ekki frosinn og ungfrúin hellti óvart 6 tonnum af mjólk út í skálina - en gumsið var gúffað með bestu lyst engu að síður. Mér fannst þetta æði!
Hvað ætli þurfi samt margar beljur til fyrir 6 tonn af mjólk?
Morgunmatur | Breytt 23.9.2010 kl. 21:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
23.5.2009 | 16:34
Allt er vænt sem vel er grænt
Grænt monster!
Hef lengi viljað prófa að búa þetta til og lét loks verða af því í dag. Varð ekki fyrir vonbrigðum! Ekkert nema jákvætt og rosalega bragðgott! Kom mér skemmtilega á óvart. Manni líður líka svo vel eftir að hafa gúllað þessu í sig, prótein, ávextir, grænmeti - allt undir sama hatti! Svo er spínat svo gott sem laust við hitaeiningar, ef þú ert í þeim gírnum. 30 grömm spínat = 7 hitaeiningar og milljón vítamín. Hollt, hollt, hollt. Drykkurinn er líka æðislegur á litinn!
Banana og spínat prótein drykkur - fyrir 2
Morgun-/hádegis- eða kvöldmatur
2 frosnir bananar
2 skammtar prótein, ég notaði banana muscle milk. Má sleppa.
1 bolli ísköld undanrenna/fjörmjólk/sojamjólk...
1 bolli ískalt vatn
Slatti af fersku spínati. Rúmlega tvær lúkur.
Mætti bæta við höfrum, hörfræjum, hnetum, hnetusmjöri....
Þessi verður töluvert þykkari en sá sem ég fékk mér áðan, ef þið fílið ekki svleiðis bara bæta við meiri vökva.
Viðbit
1 frosinn banani
1 (eða 2) skammtur prótein, má sleppa
1 bolli ísköld fjörmjólk/undanrenna/sojamjólk...
1 bolli ískalt vatn
Slatti af fersku spínati. Rúmlega tvær lúkur.
Allt saman í blender og blanda eins og þú eigir lífið að leysa. Mætti setja í þetta klaka, ég sleppti því af því að bananinn var frosinn. Kom skemmtilega út, bragðgott og ekki minnsta bragð af spínati. Kom kannski smá, pínkulítill keimur, ég veit ekki - ég rembdist eins og rjúpan við að reyna að finna fyrir spínatinu en allt kom fyrir ekki. Þetta er æði og þessu ætla ég pottþétt að koma inn í matardagskrána mína. Hversu mikil snilld er það að fá grænmetisskammt í vökvaformi með bananabragði? Spínatið hentar líka svo vel í mall sem þetta því það er tiltölulega hlutlaust á bragðið. Gleði...
... ég sé grænan hafragraut í minni nánustu framtíð!
Morgunmatur | Breytt 23.9.2010 kl. 21:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.5.2009 | 10:10
Nammiskápar á öllum vígstöðvum!
Ég hélt ég myndi nú ekki hafa það af í hamaganginum í morgun. Tók rassavélina svoleiðis í bakaríið að undirritið var eins og fullþroskuð plóma á sumardegi í framan! En það er bara flott, það er æðislegt að byrja daginn á smá púli. Ekkert sem mér þykir verra en að vakna "5 mínútur" í vinnu með koddakrumpur í andlitinu og sængina girta ofan í brók! (ekki spyrja hvernig það gerist)
Þið sem ekki þekkið til þá er rassavélin alræmda kölluð "Stigvél" á mannamáli! Ég er búin að djöflast svoleiðs á þessu tæki síðastliðna 6 mánuði - ég er nokkuð viss um að ef ég væri í raun að ganga upp stiga, þá væri ég komin langleiðina út fyrir lofthjúpinn! Ekki slæmt það!
Byrjaði daginn á ljúffengu, æðislega ísköldu og brakandi epli. Mikið geta epli verið góð þegar þau eru góð! Gekk svo galvösk að hafragrautspottinum í vinnunni og bætti smá graut í próteinið mitt ásamt crunchy-hunangsristuðu rúslumúslí! Mikil snilld sem það er!
Komst að því í leiðinni hversu mikil hamingja það er að geta borðað þessa blöndu beint upp úr bolla.
Nammiskápurinn í vinnunni er ekki alveg jafn yndislega ljúffengur og skemmtilegur og sá sem ég á heima. Vinnugumsið samanstendur einungis af próteini, M&M, og nokkrum próteinsúkkulaðistykkjum. Þar með töldu þessu, sem er blanda af súkkulaði, mjúkri karamellu og karamellu ís-kenndri miðju. Ofboðslega hræðilega gott! Svo sætt að maður fær spékoppa á rasskinnarnar en ég fæ bara ekki nóg! Sykurdýrið hið innra ræður í þessum efnum!
Ég borða samt ekki mikið af svona súkkulaðigumsi, en á það til að bíta í eitt og eitt þegar súkkulaðiguðinn kallar! Fyrir þá sem geta gúllað í sig próteini, ég meðtalin, þá er mikil snilld að eiga svona milli mála. Sérstaklega þegar skyr.is er komið á "Ohg... ég get ekki borðað þetta" listann! Svo er Muscle Milk próteinið bara svo gott á bragðið - eins og ís! Sem gleður mitt ísgráðuga hjarta mikið!
En ekki misskilja - það er nákvæmlega ekkert betra en matur. Alvöru matur sem er gott og gleðilegt að bíta í og borða! Hjartað í mér myndi krumpast saman eins og álpappír ef ég þyrfti að broða próteinduft allan daginn, en það er ágætis tilbreyting og fljótlegt "snakk". Ég mæli því hiklaust með að eiga svona falið upp í skáp til að grípa í. Og jújú, það er einn staur í nammiskúffunni - þeir sem finna hann fá eitt hrós!
Svo er barasta einn dagur í laugardaginn og hamborgarann góða. Einn dagur í tveggja vikna sumarfrí og einn dagur þangað til ég get eytt eins miklum tíma í að búa mér til eitthvað gómsætt á hverjum degi eins og ég vil!
Morgunmatur | Breytt 23.9.2010 kl. 21:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.5.2009 | 11:16
Fimm stjörnu morgunverður
Var að koma af æfingu og átti í mesta basli með að ákveða hvort það yrði grautur eða einhverskonar skyrblanda í morgunmat. Var í miklum samningaviðræðum við sjálfa mig í bílnum á leiðinni heim úr ræktinni! Skyrið vann! Grautur á morgun - og þvílíkur yndælis morgunverður! Hamingjusamir bragðlaukar og afskaplega þakklátur skrokkur! Er nú samt að herma eftir morgunmat síðustu helgar, þetta er bara of gott til að leppa - segi ykkur það!
Gomma af skyri, frosin jarðaber, smá fjörmólk og prótein í blender. Það má alveg sleppa blessuðu próteininu, gefur bara svo gott bragð og skemmtilega áferð! Blanda þangað til þú segir stopp - ég hef alltaf smá jarðaberjaköggla í minni blöndu, endalaust gleðilegt að bíta í forsin jarðaber!
Skar mér svo niður mango, íískalt mango og hafði með ásamt múslí úr nammiskápnum góða. Svo, af því að það er laugardagur, setti ég í skeiðina sykurlausu sultuna mína og þetta líka eðal möndlusmjör sem ég útbjó um daginn. Mikið svakalega er það gott á bragðið! Með sultunni - ó gvöð - það er svo gaman að vera ég stundum!
Hlakkaði í mér þegar ég fékk mér fyrsta bitann! Einmitt það sem mig langaði í - ferskt, kalt, súrt, sætt, crunch, fluffy, mjúk fullkomin áferð og hvers einasta bita notið í botn! Getið þið álasað mér, sjáiði bara skálina... ég veit þið viljið bita!
Morgunmatur | Breytt 23.9.2010 kl. 20:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.5.2009 | 11:37
Ís í morgunmat og nammiskápurinn fullur

Fór og verslaði mér gúmmulaði í gær. Gúmmulaðið er til í þeim eina tilgangi að skreyta morgunmat í formi skyrs, jógúrts, próteinsjeiks og að sjálfsögðu í hafragrauts-framleiðslu! Stundum er nammiskápurinn notaður í neyð þegar sykurþörfin er alveg að gera út af við undirritaða... en það er önnur saga. Ég eeelska nammiskápinn minn - það er svo mikið af yndislega fínum hlutum í honum til að gera t.d. morgunmatinn skemmtilegan. Allt gert í þeim tilgangi að gefa mismunandi áferð og bragð! Er líka alltaf að bætast eitthvað nýtt og skemmtilegt í hann - geggjað!
Allt er þetta þó innan "skynsemismarka". Inniheldur prótein, flókin kolvetni, holla fitu, trefjar og að sjálfsögðu er þarna múslí með fullkominn crunchfactor og smá sætu. Þó sætu í formi hunangs eða þurrkaðra ávaxta. Nota yfirleitt aldrei nema 1 - 2 msk af hverju þegar verið er að "skreyta" í morgunsárið :)
Nammiskápurinn inniheldur
Efri skápur, frá vinstri:
Poppies, hunangsristað hnetu múslí, sólskyns múslí (enginn sykur nema úr rúslum og bönunum), Cheerios, þurrkaðar döðlur, gráfíkjur og rúsínur, dökkt- og hvítt súkkulaði fyrir helgargrauta!
Jafnast að sjálfsögðu ekkert á við bráðið súkkulaði í morgunmat!
Neðri skápur frá vinstri:
Hafrar (elsku elsku hafrarnir mínir), puffed wheat, heilhveiti koddar, All-bran, spelt biscotti- og kókoskökur til að mylja yfir graut þegar maður er í "helgarstuði", möndlur, blandaðar hnetur, hörfræ, kókosflögur og hunang.
Ísskápurinn inniheldur svo hnetusmjörið, sultuna, eplamaukið, hveitikím og ávexti á meðan "bökunarskápurinn" heldur utan um hinn dýrmæta kanil og allt dropakyns sem ég á (möndlu-, vanillu-, sítrónu-... dropar)!

Annars var "Ís" á matseðlinum í morgun. Ís með gúmmulaði að sjálfsögðu! Hann var æði. Þurfti samt mikinn sjálfsaga í að stoppa sjálfa mig af í að malla hafragraut! En það var þess virði, þessi skál var fullkomin!
Að þessu sinni notaði ég frosin jarðaber í staðinn fyrir banana og hafði bananann heldur með sem gleðigjafa! Skyr, hreint prótein, frosin ber og undandrenna. Ferskt og fínt.
Ég sleppti mér í gúmmulaðigramsi og hafði með þessu:
Hafrakodda - flókin kolvetni, prótein, trefjar
1/2 niðurskorinn banana - uppfylling + bragð

Möndlur - holl fita og prótein
Hörfræ - holl fita, prótein og vítamín
Sólskyns múslí - flókin kolvetni, trefjar, prótein
Poppies - flókin kolvetni, trefjar, prótein
100% náttúrulegt hnetusmjör í skeiðina - holl fita, prótein
Gott start á góðum degi! Ætla að fara og dáðst að nammiskápnum mínum!
Morgunmatur | Breytt 23.9.2010 kl. 20:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.3.2009 | 11:35
Sunnudags ís og berjabland í morgunmat

Æji já. Ég elska ís og næstum allt sem honum tengist - nema kannski þurrís, hann er ekki hægt að éta með góðu móti.
Bjó mér til æðislegan ís sem ég borðaði í morgun-hádegismat! Er nýlega búin að birta uppskriftina af þessu og fæ mér svona reglulega ef ég er alveg að drepast úr ísþörf. Rennur ljúflega niður og áferðin er ótrúlega skemmtileg!
Í þetta skipti frysti ég 2 banana og 3/4 úr mango. Blandaði saman við slatta af skyri, 3 skeiðum af hreinu vanillu próteini og smá undanrennu. Nóg fyrir 100 manna her! Borðaði þangað til ég sprakk og frysti svo restina.
Trefjar í banananum og mangoinu. Mangóið er líka fullt af vítamínum, stein- og andoxunarefnum. Próteinið fæst svo úr skyrinu og próteinduftinu ásamt nokkrum grömmum af fitu - held það séu um 6 gr af fitu í þessari uppskrift og hún er tilvalin sem t.d. eftirréttur fyrir góða 6 - 8.
Treysið mér elskurnar, þetta er meiriháttar gott! Staðfest og slegið frá mesta ís-snobbara Íslands!
Morgunmatur | Breytt 23.9.2010 kl. 20:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)