Færsluflokkur: Morgunmatur

Finnst þér ís góður?

Er með svo margar uppskriftir í hausnum ákkúrat núna, verð að koma þessu frá mér.

Ég er ísæta af guðs náð. Ég elska ís, bragðið af honum, áferðina. Ís er kaldur og mjúkur í senn og bráðnar í munni. Þið þekkið þetta.

Ég er búin að vera að leita að einhverri góðri uppskrift af "ís" sem inniheldur ekki viðbættan sykur eða rjóma. Hef ekki rekist á neitt af viti svo ég ákvað að sparsla saman tveimur semi-ágætum og sjá hvernig útkoman yrði.

Skammtur fyrir 2 manneskjur.

Athuga skal að minna eða meira af innihaldsefnum má vera í uppskriftinni eftir því sem kitlar í ykkur bragðlaukana, hvað varðar bragð og áferð.

2 - 3 vel þroskaðir bananar

Lítil dós Hreint Kea skyr, meira eða minna eftir smekk

1 skeið Vanillu Muscle Milk Prótein, þarf ekki, en er skemmtilegt

smá fjörmjólk

1. Frysta bananana. (Hér væri líka sniðugt að frysta kannski jarðaber eða mango og hafa með)

2. Setja frosna banana í matvinnsluvél ásamt skyri, hræra þangð til blandað. Það má alveg hafa hvaða skyr sem er, ég vel hreint Kea af því að það er enginn viðbættur sykur í því eða aspartam. Minnst af fitu og kolvetnum.

3. Bæta við próteindufti og smá fjörmjólk (fer eftir því hversu þykkt þú vilt hafa þetta)

4. Setja á disk og bera strax fram

 

Mér finnst mjög gott að bæta próteinduftinu við, gefur skemmtilegri/raunverulegri ís-áferð og bragð. Það þarf ekki að bera þetta strax fram, væri hægt að setja í frysti og hræra í af og til, svo lengi sem þetta harðnar ekki alveg. Mér persónulega finnst þetta best um leið og búið er að hræra saman.

Þessi uppskrift hitti beint í mark hjá mér - fannst þetta alveg geggjaðslega gott. Gaf Palla með mér og hann gaf þessu tvo þumla upp!! Þá er næsti laugardags-nammidagur ákveðinn!!


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband