Morgnarnir eru bestir

04:50

Bleik skál full með banana- og kanilgraut.

Banana og kanilgrautur

Fallega skreytt með afgangs salthnetumulning og bláberjum, sem yfir nóttina, breyttust í rúsínur. Fallega skreytt... en samt... svo grá! Greyið.

Banana og kanilgrautur

Hefði ég nú aulast til að skera út á þetta svo gott sem banana og smá eplakrums þá væru þessar myndir gullfalega fínar.

Buxur gott fólk, síðmorgunbuxur og sokkar í stíl við grautarskálina. Planað, ráðlagt og skipulagt.

Eða þannig.

buxur í sumarkuldanumBanana og kanilgrautur

Átvaglið mundi sumé eftir kuldakasti síðustu myndatöku og fyrirhyggjusemin drap næstum græðgispúkann í morgun. En bara næstum... því buxurnar voru á röngunni og vasarnir stóðu út í loftið eins og eyrun á Guffa.

rangbuxur

En grauturinn var góður. Eins og alltaf yfirleitt.

Bananabiti extraordinaire skríður úr felum! Ekki svo viss um að honum hafi þótt það góð hugmynd 2 sek eftir að þessi mynd var tekin.

Bananabiti kemur úr felum

05:22 

Hjólað af stað í ræktarhýsi með aukahring og lúppu í ferhyrning.

Enganvegin umhugað um eigin öryggi, tók ég myndavélina og vídjóaði dásamlegheitin, á tvíhjólinu, í morgunsárið. Að stýra með einari, á hjóli, með myndavél, og tala við sjálfa sig í leiðinni án þess að taka kollhnís er... kannski... ekki... jafn stórkostlegt afrek og ég ætlaði mér að útlista.

Mmm... jebb.. gleymume'ssu!

Mikið, mikið.... miiikið sem ég elska að nýta morgnana í góðu veðri, kyrrð og blíðu.

Í miðjum hjólaklíðum hugsaði ég með mér af hverju í ósköpunum vindurinn næði að græta kvendið svona svakalega. Hvort hann væri viljandi að reyna að smokra sér bak við gleraugun til þess eins að vera með leiðindi.

Eftir 5 sekúndna vangaveltur, og vindbiturð, uppgötvaði ég þó, mér til mikillar aulahamingju, að glirnurnar hvíldu sig á höfðinu á mér. Húrra fyrir því.

10 stig, niðurávið, fyrir greindarvísitöluna og eggjaskurnleysið reyndar líka.

Eggjaskurn verandi ósýnilegi hjálmurinn sem situr á toppstykkinu!

En þrátt fyrir heimskulegheitin tel ég mig knúna til að segja ykkur frá þessu öllusaman... hví? Ég tók meira að segja mynd til sönnunar og gagns!

Gleraugnaglens

Hvaða hvati liggur hér að baki hef ég ekki hugmynd um en ég held ég skrái önnur 10 stig í kladdann hjá sjálfri mér fyrir vikið.

Niðurávið.

Sama útsýni og í fyrra, sami hringur. Með hið gullfallega, bláa, IKEA í baksýn.

Trúi ekki að það sé rétt svo tæplega ár síðan.

Ahhh

05:58

Handleggum formlega refsað.

Fyrir hvað munu þeir aldrei vita blessaðir.

07:00

Hleðsla gúffuð hratt og örugglega eftir æfingu.

Eftiræfinguhleðsla 

Hjólið mundað og þeyst á hraða ljóssins í vinnustöðvar þar sem sturtan var tækluð og einum gríðarlega vel metnum kaffi sporðrennt í góðra félaga hópi.

07:30

Morgunklúbburinn.

Ahh kaffi

Já, það eru greinilega allskonar klúbbar sem tilheyra ákveðnum tímum dags hér um slóðir og hádegissalatið bara í tveggja tíma fjarlægð.

*gleði*

Segið mér nú góða fólk, hvar kaupir maður sér almennilega eggjaskurn á höfuðið?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

4:50

5:22

Dossan (IP-tala skráð) 25.5.2011 kl. 11:20

2 Smámynd: Elín Helga Egilsdóttir

Ahh já... mjög mjög gott :)

Elín Helga Egilsdóttir, 25.5.2011 kl. 11:34

3 identicon

Ég fékk minn fína hjálm frá Erninum Skeifunni :)

Sveinbjörg Eva (IP-tala skráð) 25.5.2011 kl. 12:40

4 identicon

Magnað, þú ert vöknuð á undan mér sem vakna 5:15 og finnst mér það nú nógu snemma :o Skemmtilegar líka allar þessar lappa myndir, held að þú sért að koma með nýtt trend í sumar ;)

Ragnar (IP-tala skráð) 25.5.2011 kl. 13:07

5 Smámynd: Elín Helga Egilsdóttir

Sveinbjörg: Ach so,  auðvitað! Ætla að tékka á því.

Ragnar: Já.. veistu... ég hef tekið eftir því. Fætur virðast rata oftar en ekki inn á þetta blogg! Hahh

Elín Helga Egilsdóttir, 25.5.2011 kl. 13:16

6 identicon

Hvenær ferð þú að sofa á kvöldin? Úff ég varð bara þreytt við tilhugsunina að vera á fótum kl 04:50 og ekki að vera á leiðinni í flug...

Hugrún (IP-tala skráð) 25.5.2011 kl. 13:18

7 Smámynd: Elín Helga Egilsdóttir

Er yfirleitt komin í ból fyrir miðnætti... eins og amma mín!

11:30 í síðasta lagi en oftar en ekki undir sæng með góða bók eða teikniblok kl 10 ;)

Elín Helga Egilsdóttir, 25.5.2011 kl. 14:06

8 identicon

Vóóóó er þá ekkert erfitt að vakna eftir 5 og hálfan tíma??? eða verður maður svona mega ungur og hress af svona líferni til lengri tíma????  

Guðný (IP-tala skráð) 25.5.2011 kl. 20:20

9 Smámynd: Elín Helga Egilsdóttir

Hehe.. reyndar, ef ég er að klína augnlokunum saman mikið eftir kl. 11 þá opnast þau ekki aftur fyrr en 6 eða 7 tímum seinna. En yfirleitt, sama hvenær ég fer í ból, þá er ég að rumska um 4:30 - 5 leitið.

Elín Helga Egilsdóttir, 26.5.2011 kl. 08:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband