Færsluflokkur: Interval

TABATA í ofnsteiktri kjúklingafýlu

Ákvað að steikja mér kjúkling í dag. Ofnsteikja það er.

Merkilegt.. huhh.

Ekki svo mjög og ekki svo frásögu færandi nema fyrir þær sakir að í miðri steikingu fékk undirrituð sjúklegt ræktarkast og langaði ekkert annað en að sprikla af sér hægri fótlegg og þá helst rasskinnina með. En þar sem kvendið var núbúið að koma hænunni fyrir í hitanum, aðeins of paranoid, á góðri íslensku, til að yfirgefa ofninn á blússandi, aleinan og eftirlitslausan, og alveg að verða svöng í þokkabót... þá varð sprikl að eiga sér stað innan veggja Gúmmulaðihellisins.

Neyðin kennir naktri konu að kaupa sér amk handklæði, nema hún sé á nektarströnd, og undirrituð skellti sér spangólandi í þægilegri gallann og tók svo gott sem 30 mínútna TABATA hring í miðri kjúklingafýlunni.

Frábært.

Svangari en kvikindið sem var svo ógeðslega svangt truntaðist hreyfigúbbinn í gegnum intervalið, að drepast úr átspenningi allan tímann. Alltaf með annað augað á eldhúsinu, vitandi ó svo vel hvað beið þar kraumandi inn í ofni.

ÞETTA

Hræðilega ljót púta

Pouty

Ok... allt í lagi... hún er ekkert voðalega falleg greyið.

Ég veit.

Hún hefði eiginlega átt að líta svona út:

bjórkjúlli

Ekki svona!

Hræðilega ljót púta

SVONA

bjórkjúlli

ÓÓÓBAUUUBEH. Brotabrot úr næsta bloggpistli, jebb. 

En hænan var samt góð og bragðaðist alveg jafn vel og fínu grillgúbbarnir líta vel út hér að ofan!

Og ekki nóg með að pútan spangólaði, onei, heldur bar hugvitið kerlinguna ofliði í formi graskers/sellerírótar og niðurskorins lauks sem fékk að fylgja fyrrum ljóthænunni inn í ofn.

Ó-hænuguð í himnaríki hvað þetta var goooooott... mjög ófrítt... en svo goooooott!

Grasker/sellerírót og laukur

SkyndiTabatað stóð fyrir sínu, þó ég mæli ekki með "líkamsrækt" í kraumandi gúmmulaðimatarfýlu. Tala nú ekki um þegar svangið er byrjað að pota í undirmeðvitundina.

Fyrir - hálfnuð - búin

...bókstaflega.

Crazyhair kemur alltaf upp um krullhausana.

Ef hárið er rennislétt hefurðu ekki tekið nógu vel á því!

Tabata heima

Notaði þennan TABATA interval-tíma-utanumhaldara af því að Gymbossinn minn gaf upp öndina í síðustu viku, blessuð sé minning hans.

Ég er þó að bíða eftir nýjum. Að vera án Gymboss er skelfingin einar. Þetta er eins og að vera ekki með stóru tá. Þú veist ekki af henni fyrr en hana vantar!!!

Rassinn á mér og lærin eru ennþá afskaplega stressuð eftir djöfulganginn. Handleggirnir heldur vankaðri en ég átti von á.

Skyndihreyfing. Skyndihjólaþörf. SkyndiEsja.

Annars er Tabata í sporthúsinu á morgun, og á fimmtudaginn, 12:00 og 18:30, hjá mister Osm. Ég mæli með því að þið mætið.

Treystið mér bara. Þið sjáið ekki eftir því!

Þar er heldur engin kjúklingafýla.

Já????

Gott!

Hlakka til að sjá þig á morgun!


Klukkan er 11:23...

...og allt er í lagi!

Þetta er búið að eiga sér stað alla vikuna. Í litlum skömmtum! Færari raðara er varla hægt að hugsa sér! Finnst ykkur ekki?

Ég kalla þetta að hrúga með stæl!

ofurtroðinn bíll af allskonar ofurtroðsludóti

Bankinn hefur verið nýttur út í hið óendanlega og ekki keyrður nema 129 kílómetra í fyrradag. Á milli húsa.

Og ein sjoppuferð!

Stundum þarf maður bara Nóakropp gott fólk... oft er þó þörf en í þetta skiptið var nauðsyn!

Er alveg að verða búin að koma mér fyrir. Leyfi ykkur eflaust að sjá Gúmmulaðihellinn þegar hann hefur verið gangsettur, vígður, íbakaðaur og hafragrautaður!

Já takk fyrir það.

Fann þessa skissu meðal annars í einum af smáflutningnum mínum í gær.

sögustund

Hvað hefur verið að snúddast í höfðinu á mér við þennan gjörnin er ekki með fullu vitað! Megi hver dæma fyrir sig, en sögutíminn sem ég var í hefur eflaust farið fyrir bí!

Hvernig ég man eftir því að það var saga... er svo allt önnur saga!

Mikið er maður nú kómískur svona á laugardagsmorgni. Held ég ætti að fá einhvurslags verðlaun fyrir þessa geypilegu hnittni.

Annað í fréttum:

  • Er að fara að hjálpa Ernu að flytjast á eftir. Loksins... eftir um það 4938 mánaða bið! Lauslega áætlað að sjálfsögðu.  
  • Internetmál nýja Gúmmulaðihellisins eru komin í farveg.
  • Hef ekki ræktað á mér rassinn í viku...
  • ...brýt ræktarbindindið með þessari Stunu núna.

Njótið lífsins elsku bestu.

Grautarmall og almennt ves verður virkjað með stæl á næstu dögum!


Brostu...

...ef þú vildir vera svo væn(n).

Ég er ekkert að skipa þér fyrir... þú þarft ekkert að brosa nema þú viljir það. 

Það er bara svo gott fyrir sálartetrið af og til...

...svo ertu að sjálfsögðu að þjálfa andlitsvöðvana! Jájá! Fá massaðar kinnar.

Fallegt!

Hádegismaturinn brosti til mín í dag!

brosgula

Annars hefur þetta verið einn af þessum "ekkert brjálæðislega matarspennó hingað til" dögum!

Var að spá í að skella í muffins á morgun eða um helgina. Hafra- og heilhveiti berjamuffins! Ég, persónulega og prívat, er ekki mikil muffinskerling. Af hverju, veit ég ekki alveg því muffins eru jú bara minikökur! En það er eitthvað sem heillar mig ekki upp úr skónum. Hef útbúið tvennskonar muffins síðan ég byrjaði að djöflast þetta og þær voru æði! Pistasíu og glúteinlausar-súkkulaði. Sjáum hvað hafra- og heilhveitimuffins gera fyrir sálartetrið. Kannski þær breytist í steypuklumpa sökum hráefna?

Eruð þið ekki fegin að vita þetta? Um mínar sérlegu baksturs fyrirætlanir?

Tók tvennar Stunuæfingar í beit í morgun, 15 mín létt skokk í upphitun, dýnamískar teygjur og svo byrjaði ballið!

Þær voru sveittar og erfiðar og ... meira... erfiðar.

Þeir sem sendu mér póst og höfðu áhyggjur af frostbitna fingrinum, þá hefur hann það fínt greyið. Þið þurfið ekki að hafa áhyggjur lengur.

Eruð þið ekki fegin að vita þetta líka? Er ég ekki góð og nytsamleg upplýsingaveita?

Viljið þið fá að vita hvernig tannburstinn minn er á litinn?

Er þetta ekki stórkostlega mikilvægt umræðuefni?

Takk samt fyrir að hugsa til puttans!

gladurputti

Í þessum skrifuðum orðum er gumsið, á myndinni hér að neðan, að hverfa hægt og rólega upp í ginið á undirritaðri.

Hægt og rólega?

BWAAAAHAHHAAAAAAA.... ahhh... hmmmh... einmitt! Pouty

Já... ananasinn er djööðbilaðslega góður!

Nohm nohm

Sjáið nú hvað þessar elskur eru glæsilega fínar þrátt fyrir vonda birtu og vonda vél!

tómatgleði

appelsín-a

Og hahh... reif hnetur úr pokanum, í eftirrétt, og flundraði þeim á borðið í eintómri hnetubræði. Lét þær hangsa þar á meðan ég át nokkrar velvaldar beint úr uppsprettunni.

Ég lofa, lofa svo langt sem augað eygir að ég raðaði þeim ekki upp!

broshnetur

Maturinn minn er mjög hamingjusamur í dag!

OSSOBUKKO í kvöldmatinn. OSSOBUKKO OSSOBUKKO!! Jafn mikil er Ossobukko hamingjan og þegar BOLOGNESE lítur dagsins ljós.

Mikið elska ég nautakjöt.

Guð blessi beljur.

Amen


Fisk, meiri fisk

Allskonar fisk.

Fiskur í teppi, fiskur og grænt! Vitið svo til, það er fiskur í kvöldmatinn!

Get ekki beðið.

Þetta var annars með eindæmum ógeðslega gott hádegisát! Fiski fajita frá Hafinu! Þessir menn eru æði og snillingar miklir! Jebb, ég er samt plebbi og át innanúr rúllunni, og grjónin, í staðinn fyrir teppið. Þykir ekki nógu skemmtilegt að éta mig sadda af brauðmeti, graðga frekar meira af grænmeti eða grjónum... nú eða fisk!

Fiski fajita

Ég og fiskur erum annars miklir vinir og ég er farin að meta þennan ávöxt sjávarins meira og meira með árunum! Aldrinum?

Óóó mig auma....óóó grimma tilvera... ellin... og fiskurinn!

Fékk sjúklegri kjötþörf minni fullnægt um helgina. Ég át svo mikið kjöt að járnbirgðir líkamans endurnýjuðust í þrígang. En gott var það. Úhh! Ekkert nema gott.

Munið þið? Ohooooo beiiiibí!

mmmmmmmm

Allt... sem er rautt rautt

EN! Blóðbaðið er yfirstaðið og ég get ekki ímyndað mér að spisa rautt í bráð...

...bráð verandi amk vika! Hmm hmm! Mmmmm, villibráð!

*kinnhestur* snap out of it kvenmannsbelgur!

Var annars hræðilega ræktarspræk í gær, tók þyngdir sem fengi Hulk til að roðna. Næstum því - ef aumingja Hulkinn gæti roðnað. Yrði nú svolítið jólalegur snúðurinn, grænn og rauður! Allavega... Smá allsherjar skrokkmyrðing og epískar þyngdir, amk á minn skala. Loksins, síðan fyrir Ástralíu, náði ég 62,5 kg. í hnébeygju. Tók 1,5 mánuð að komast úr 40 í 62,5. Tók 40+ kg. í bekkpressunni blessaðri, 60+ í stiff, 35 í push press og náði að hífa mig upp einusinni. Gleði.

Tekur alltaf smá tíma að koma sér í gírinn aftur eftir pásu, en gaman er það þegar ákveðnum áfanga er náð. Dagsformið er síbreytilegt. Nema kjötátið hafi gefið átvaglinu aukinn styrk - það er ekki allskostar ólíklegt.

Tók svo þennan hring í morgun. Hann var merkilega erfiður og tók lengri tíma en ég bjóst við!

1. Endurtaka þennan hring 3x. Engin pása fyrr en í endan og þá eins lítil og þú mögulega getur. (13,21 mínúta, stopp ekki tekin með, munið formið)

Smá hvíld þegar 1. hefur verið þristaður, vatnssopi og almennt fnas. Ekki meira en 2 min.

2. Endurtaka þessar snúllur 3x, engin hvíld á milli - SVITI, TÁR, BRUNI

  • (Armbeygjustaða -> lyfta hægri handlegg beint fram og vinstri fæti upp, miðjan spennt, bein lína, halda -> armbeygja. Endurtaka með vinstri handlegg/hægri fæti) * 5
  • Beint í:
  • 30 - 60 sek planki

Og ef þið viljið fá að vita það, á er ég að snæða þetta núna!

Grænt og kotó

Grænmeti á grænmeti ofan með smá kotasælu. Svo, af því nammipúkinn sækir grimmt á undirritaða eins og er, þá hrærði ég saman smá hreinu próteini og hnetum. Getið bætt við auka skammti af ómynduðum hnetum og kanil! Mmmmm....

Hnetugleði

Grænt te í jólasveinabolla!

Jól jól skín á mig...

mooorning

Fiskur fiskur fiskur fiskur... bara 3 tímar enn!!!


Oj hvað mig langar í nautakjöt!!

Eins hrátt og blóðugt og kostur er á! Afsakið þetta mín kæru. Kjöttíðin er að bresta á! Helgin verður tileinkuð nautum, beljum, kálfum og öllu sem er rautt rautt og segir "MUUUUUU..." á meðan það dregur andann!

Greenpeace verða ánægðir með mig núna.

Tók eitt stykki Stunu í morgun.

Froskar með smá twisti

  1. Byrja standandi 
  2. Skoppa niður í armbeygjustöðu (hálfur froskur)
  3. Beygja hægra hné að hægri öxl, fótur aftur til baka. Allur kroppur spenntur á meðan, miðjan alltaf að vinna. Hugsa út í það sem þið gerið. Stjórna hreyfingunni alveg.
  4. Vinstra hné í vinstri öxl
  5. Stökkva sundur með fætur og armbeygja
  6. Saman með fætur og þrýsta upp í kram
  7. Hoppa eins og.... vindurinn!

Ef vindurinn gæti hoppað!

Díses maður! Voðalegt endemis... ég gat gert 46 á 10 mínútum. Stuna gat gert 55. Ætla að gera þetta aftur í næstu viku og VINN'ANA!!!

Vonandi...

Morgunmatur var einn ómyndaður einfaldur með bláberjum og kaffi í krús. Gerir morgnana stórgóða og tilhlökkunarvæna. Njóta þess að borða í rólegheitunum - því fyrr því meiri kyrrð - því betra. Mmm, notalegt.

Hádó! Lund af grísnum Guðmundi og 5 tonn af salati.

Grísalund og grænt

Sovs!

Yfirleitt fíla ég nú ekki mikið af sósum með ketinu mínu. Ekki af því margar hverjar eru af hinu "illa" og dauði og drepsóttir og allt sem eru lærpokar á þessari jörð... hreinlega af því að kjötið er barasta svo fínt á bragðið!

Ég tek ekki með í reikninginn hér sósu með Móaflatarkjúlla eða jólaandarsósu. Þær má drekka, staupa, baða sig í!

sovs

Þurfti bara smá meira grænt. Gat ekki hætt.

meira grön

Þetta er það sem vinnufélagi minn fékk sér sem aukaskammt! Mig langaði í... mjög mikið... svo mikið að ég hreinlega fékk mér nokkrar.

HEY... ekkert svona. Held þetta sé nú í lagi af og til!

Mér vex nú varla aukahöfuð stútfullt af fitu eftir 3 fröllur...

...sagði konan og fékk sér 150 í viðbót!

Vinnufélagaskammtur

Mið... dó?

Sjáið bara hvað vinnan mín er farin að fjárfesta í fínu skyri!!!! Ekkert meira skyr.is!!!

Ég er hérmeð ástfangin af eldhússkvísunum mínum!

*hamingjugleði*

hreint... hrært... vinnukea

Kvöl... dó... ekki ákveðið enn sem komið er.

Adios á meðanos!


MEIRA.... spínat, MEIRA...chia

Nú úr því ég keypti spínatpoka sem dugar ofan í 32,5 svangar Elínar þá er eins gott að nýta það.

Eins og Stella í orlofi og laxaævintýrið!

Spínatbollur, spínatsamlokur, spínatgrautar, spínatnammi...

...spínat í eggjahvítuköku ásamt grænu, dijon og smá balsamic?

Chiaeggjahvítukaka með grænu

SPÍNAT

Chiaeggjahvítukaka með grænu

Jebb. Fékk mér svoleiðis í morgunmat. Nánari útlistun er væntanleg síðar en í eggjahvítukökunni leynist...

Chiaeggjahvítukaka

 ...CHIA! Jebb. Blandaði þeim við hvíturnar í gærkveldi. Aftur... nánari útlistun væntanleg síðar en gaf skemmtilegt kram fyrir áferðaperrann.

Konan sem át einvörðungu spínat og chia og lifð hamingjusöm til æviloka...

...þangað til súkkulaðiframleiðslu alheimsins var hætt, kaffibaunum stútað, kveikt í öllum chiaplöntum og ís þurrkaður af yfirborði jarðar sökum einskærrar illkvittni og allmenns leiðindapúkaskapar!

Almenns... leiðindapúkaskapar? GetLost Hmmm!

Einn gúllsopi af þessu og ómyndaður kaffibolli sem ég er að sötra núna.

ómægod3

Þó svo gumsið hafi verið æði gott, og ég á góðri leið með grænmetisátfjölgun, þá þykir mér alltaf svo dónalegt að fá mér ekki graut eða skyr eða eitthvað... jah... sætt, í morgunmat. Morgunmatur er helgistund fyrir átvaglið mín kæru. Eitt af mínum uppáhalds étum! Fyrir mér eru eggjahvítukökur, grænmeti, pulsur, salt salt salt, eitthvað sem maður borðar í hádeginu eða kvöldin. Var svolítið eins og morgunmatnum hafi verð rænt af mér í dag. Sorgin einar!! Bætti því smá vanillu torani út í eggin áður en ég steikti, bara til að fá fílínginn en jú, er hálf allsber og ómöguleg í morgunmatsperranum á mér!

*grát* átið var samt skemmtilegt og gleðilegt og fiðrildi og regnbogar *grát*

Tók svo eina Stunu í morgun. Eitt klapp fyrir því!

Krappedísúlu!! Armbeygjur langsamlega erfiðastar og froskar stúta fótum.

38:26 mínútur. Í staðinn fyrir "moon runner", þar sem ég var ekki með svona ægilega fínt dýfutæki, tók ég venjulegar dýfur á bekk, tekur skemmri tíma.

Góður dagur í dag? Já... já það held ég nú takkfyrirsælir!


Hvað hef ég gert af mér í dag?

Ég vaknaði!

Það er afrek útaf fyrir sig.

Ég tók til.

Það... er einnig afrek útaf fyrir sig!

Ég laug í síðasta pistli og borðaði í dag. Ég varð... ég bara... varð.

Það... er hinsvegar minna afrek en það eitt að bora í naflann á sér. 

Ég ræktaðist. Tók meðal annars þessa Stunuæfingu. Hún var erfið!! Erfið, erfið ... erfið!! Er ekki frá því að ég hafi stunið pínkulítið líka.

1. Interval(6-10/30): Hnébeygjuhopp

  • E:S -> 17-17, 10-11, 10-9, 9-11, 11-10, 12-9

2. Tími: 5 *Einnar handar upp-ýting h/v (eða hvað?), upphýfingar m/ fætur í gólfi + spark * 10.

  • E:S -> 6,23 - 5,28 

3. Interval(12-10/30): Há hné + hjólamagi

  • E:S Há hné -> 65-94, 57-91, 55-89, 58-93, 52-86, 63-88 (FOOOOOOKK..afsakið orðbragðið)
  • E:S Hjólamagi -> 43-34, 39-33, 39-36, 34-34, 39-34, 42-35

Svo loksins, bakaði ég kleinur! Loksins. Það er einfalt, skemmtilegt, jólalegt og ég ætla að finna hina fullkomnu kleinuuppskrift fyrir jólin! Kleinu-uppskrift sem ég kem til með að baka og þróa næstu 149 árin og gef börnum, barnabörnum og barnabarnabörnum, vinum, kunningum, ættingum, dýrum, fjarskyldum skráfrændum og ókunnugum! Kannski einstaka rykmaur ef hann er þægur.

Það er næst á dagskrá.

Best að baka og subba

Nei, þær þurfa ekki að vera fullkomnar og nei... ég á ekki kleinujárn!

kleinur í bígerð

Hermenn á leið í pottinn

kleinur í bígerð

tilbúin kleina

mmmmmmmm

Ohhh mama!

Naaahmiii

Haustið er líka komið, þó svo veðrið beri það ekki með sér.

Vitið þið hvernig ég veit? 

Jah.. fyrir utan þá óbilandi staðreynd að það er jú októbór og já, hann er næstum hálfnaður og jújú, það er komið jólaskraut í IKEA, þá er fiðrildaþing hjá öllum ljóstærum sem utan á húsinu liggja!

Fiðrildaþing að hausti

Ætla annars að reyna að bæta í grænmetisátið hjá mér. Grænmetis og ávaxta-átið. Borða jú grænt í hádeginu en það eru yfirleitt einu tímarnir sem það fer inn fyrir varirnar sökum einskærrar leti.

Það verður því haldið upp á allt sem er grænt grænt tímabilið með grænu monsteri eftir æfingu á morgun.

Sjáum hvernig það lukkast.

Vona annars að helgin hafi verið ykkur ljúf.

Natten skratten!


Eftirmiðdagurinn í einni mynd og þónokkrum orðum

*FNAS*

Það er allt að gerast. Ég segi frá því seinna. Kvöldin eru troðin af allskonar aktivítetum sem ræna frá mér öllum tíma til nokkurs annars en að anda.

Sem er jákvætt því annars væri ég eflaust ekki að borða þetta núna.

miðdegisát

Ég borðaði líka skyr. Hefði betur sleppt því. Varð hálf bumbult af því af einhverjum ástæðum.

Ertu ekki ánægð(ur) að vita það?

Intarvalið í morgun fór sem hér segir.

Hnébeygja á einari (gefið, ég hélt mér í. Get ekki fyrir mitt litla gert þetta frílans):

  1. Ella: 9, Stuna: 12
  2. Ella: 8, Stuna: 9
  3. Ella: 8, Stuna: 8
  4. Ella: 7, Stuna: 8

Armbeygja - hliðarplanki - magakreppa (olnbogi sem vísar upp beygður í átt að lófa í gólfi):

  1. Ella: 12, Stuna: 7
  2. Ella: 10, Stuna: 8
  3. Ella: 9, Stuna: 7
  4. Ella: 11, Stuna: 9

Hliðarhopp og hliðar-stig á móti þeirri átt sem hoppað var úr. (hopp til hægri, hliðarstig til vinstri - með vinstri)

  1. Ella: 12, Stuna: 7
  2. Ella: 10, Stuna: 8
  3. Ella: 9, Stuna: 7
  4. Ella: 11, Stuna: 9

FIMMTUDAGS-TUÐIР

Bara smá í tilefni *FNASSINS* hér að ofan. 

Ef manneskja er að borða "hollt" eða skipta um líffstíl, hreyfa sig, hoppa, skoppa, dansa og dilla sér, þá virðist ekkert vera sjálfsagðara en að gera hana að skotspón meinhæðinna matarkommenta. Einnig virðist hún sjálfkrafa vera sett í "OF MARGAR HITAEININGAR" flokkinn.

  • "Ahh... hún borðar 600 tonn af salati, greyið, því hún vill ekki verða of feit.".

Af hverju ekki:

  • "Ahh... hún borðar 600 tonn af salati af því henni þykir það eflaust gott. Svo er hún líka dugleg að hreyfa sig."?

Nú eða bara:

  • "...". Og njóta þess í blússandi að borða sinn eigins mat.

Gefið - í mörgum tilfellum er slípun og mörbrennsla jú raunin. Mjög mörgum tilfellum og það er nákvæmlega EKKERT að því og EKKERT út á það að setja annað en húrrandi jákvæðni, gleði og hamingju. Ekki misskilja. En það er oft sett í svo neikvætt samhengi og virðist ná yfir alla hópa "íþróttafólks". Það að grennast er oft fyrsta skrefið hjá mörgum, bónus, í bland við styrk, liðleika og þol.

Eftirfarandi samtal átti sér t.d. stað um daginn:

  • Átvagl: Mmmm... girnilega appelsínur. En, ég ætla ekki að fá mér! (Já, ég sagði þetta upphátt. Af hverju, veit áferðabuddah einvörðungu. Takið þetta upp við hann.)
  • Einstaklingur: Nei, best að fá sér ekki appelsínur. Það er of mikið af hitaeiningum í þeim. Þú gætir fitnað. (Jú, var að sjálfsögðu ekki meint illa. Átti að vera fyndið)
  • Átvagl: Jah, því miður verð ég að hryggja þig með því að þær eru nánast hitaeiningasnauðar blessaðar. En ég var að bursta í mér tennurnar og þeir sem viti bornir eru borða ekki appelsínur eftir tannburstun!

Þetta er svolítið fyndið. 

Hefði þessi einstaklingur t.d. látið þetta út úr sér við einhvern sem ekki væri ofvirkur froskahoppari með þráhyggju fyrir eggjahvítum? Cool Ekki það að ég sé að krullast upp eins og ánamaður af vonsku, læt sem vind um eyru þjóta og hef svo sannarlega heyrt það verra.

Læta vindinn líka um nef þjóta. Trýnið mun þakka mér seinna.

Bara spæling.

Ég hlakka annars mikið til komandi mánaða.

Ég er eitt súper hamingjusamt átvagl.

*jól jól jól jól og jólatengt jólalegt jólajól, þakkargjörðarháðtíð og Halogenpartý*

húhh.. Shocking veit ekkert hvaðan þetta kom!

Góðar stundir mín kæru.


Hádegisfiskur og interval í eftirmiðdaginn

Þarf ég nokkuð að segja eitthvað meira?

Titillinn er svo assgoti lýsandi í þetta skiptið.

Hefði svosum getað skrifað "Safnar þú naflakuski?" þó svo það komi innihaldi pistilsins ekki á nokkurn hátt við og kæmi án efa einhverjum til að kúgast og gráta smá.

Svolítið kjánalegt ekki satt?

Eða hvað?

Hádegisfiskur og grasið góða.

hádegisfiskur

hádegisfiskur og grænt 

Ristaðar furuhnetur.

Mig dreymir... ristaðar furuhnetur.

furuhnetugleði

Interval eftir vinnu. Tek þennan hring hér.

Öxlin er samt eitthvað að pirra mig. Ekki alveg nógu smart. Ef hún fer í fýlu eftir æfingar dagsins verður hún sett í einangrun.

Kjánalegt að fara á æfingu ef öxlin er í fýlu ekki satt?

Eða hvað?

Endurtekin skrif gera ekkert gagn þegar titillinn er svona ægilega fínn, er það nokkuð?

Froðusnakk er ekki jákvætt snakk geri ég ráð fyrir.

Ok.. hætt.


Laugardagur til leti

Laugardagar eru farnir að færast ískyggilega yfir á letilistann sem frídagar. Er mun sprækari til hreyfings á sunnudögum af einhverjum ástæðum.

Tók þó þetta interval í dag. Skorið mitt varð eftirfarandi.

1. hluti – Tími, 30 endurtekningar

Ein endurtekning = eitt stórt jafnfætis hopp fram, tvö lítil afturábak og svo beint í áttu.

- Átta er armbeygja, nema þú hoppar sundur með fætur þegar þú ferð niður í armbeygjuna, saman þegar þú þrýstir upp.

Þetta hopp er lúmskt ógeðslega erfitt og ojbara hvað ég dó eftir 12 endurtekningar!

Ella: 5:40, Stuna: 4:48

2. hluti – 5 mínútna interval (10 sek hvíld, 20 sek vinna) 

Var ekki með sippuband svo ég tók bara hrein og bein há hné og skipti úr jumping jacks yfir í low jacks. Fyrst HH (Há Hné) svo Jumping Jacks (JJ):

  1. Ella: 60, 40 - Stuna: 46, 40
  2. Ella: 56, 36 - Stuna: 51, 43
  3. Ella: 50, 34 - Stuna: 52 ,40
  4. Ella: 50, 30 - Stuna: 50, 41
  5. Ella: 52, 33 - Stuna: 44, 40

3. hluti – Tími, 30 endurtekningar

Ein endurtekning = Hliðarplanki + magakreppa. Vinstra hné í átt að hægri olnboga, ef vinstri fótur er nær gólfi. Beint úr hliðarplanka í armbeygjustöðu þar sem vinstra hné er otað að hægri olnboga, undir maga, og svo loks hægra hné að vistri olnboga. 

Ella: 3:14 (Gefið, var ekki búin að sippa neitt), Stuna: 4:46

Gleðilegt nokk!

Æfing búin og beint í át. Bjó mér til hindberjasósu og bætti út í hana Chia! Það var bara, fullt af orðum sem enda á -legt, eins og gleðilegt, ánægjulegt, skemmtilegt... skulum ekki fara út í leiðinlegt enda á það ekkert heima í þessum pistli, að kjammsa á þessari snilld. Ég sé bláberjasósur, blandaðar ávaxtasósur fyrir mér á komandi dögum! Grautar, skyr, kokteilar, pönnsur... *gleði*

Hitaði hindberin í örbylgju þangað til þau breyttust í muss, bætti út í þau kanil/torani/vanillu/ögn salti/ chia og smá vatni. Leyfði að standa í 5 mín þangað til þykkt.

Hinberja-chia sósa

Svo beinustu leið út á skyr... eða graut... eða bara upp í svartholið!

Ég nýtti mér skyrið í dag!

Skyr með Chia-hinberjasósu

HRÆRA!

Skyr með Chia-hinberjasósu

Eigið gott kvöld - sushi og vinkvennaspjall er fyrirséð í minni nánustu framtíð!


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband