Færsluflokkur: Svindl

Afmælis amma

Sjáið nú bara hvað hún er sæt og fín! Óvænt myndataka enda amman sérlega hissa á svipinn.

Afmælis amman

Allir að góna í matseðlana, nema yfirlýstu ættarhöfðingjarnir og Abbý ofurfrænka!

Potturinn og Pannan - óvænt afmælisboð

Ég byrjaði á grænmetissúpu og eggi, smá brauði og eplakrumsi. Eplakrums og brauð ekki myndað sökum ljótleika á disk. Þvílíkt subb hefur sjaldan eða aldrei verið fest á mynd!

Grænmetissúpa og egg

Afmælisbarnið byrjaði á koníaksleginni humarsúpu sem reyndist vera rúmir tveir lítrar, afa til mikillar gleði. Gamlan fékk sér þrjár skeiðar og svo gekk súpan í erfðir eftir aldri og græðgis-stuðli!

Amma og ofursúpan

Aðalréttur hjá mér var steinbítur í mangósósu með rækjum! Barasta fínn. En... barasta fínn!

Steinbítur í mangósósu

Í Spaghettisen afmælisgleðinni fannst svo leynigestur. Hann sat með okkur allt kvöldið, ánægður með lífið, tilveruna, bílinn sinn og lætin í okkur þegar afmælissöngurinn var fluttur. Fengum loks formlega staðfest að herramaðurinn heitir Rökkvi. Ekki partur af Nielsen liðinu en svakalega fínn kandídat! Smile

Rökkvi leynigestur

Rúmum tveimur tímum seinna, fjórum afmælissöngvum, óvæntum afmælis-eftirrétt og mikilli gleði hjá Rökkva var förinni heitið heim! Mamma tók sig til og kvaddi fyrir hönd Potts og Pönnu með stórkostlegum tilþrifum. Þetta vakti mikla kátínu borðgesta.

Gleði og glaumur

Jæja, þá er ein veisla búin af þremur! Næstu tveir laugardagar fara í mikið át og almenna hamingju. Það mætti halda að jólin væru mætt á svæðið, svo þétt er matardagskráin!


Pistasíuís - hreint lostæti

Hentar það ekki fullkomlega að skella inn eins og einni ísuppskrift í þessu glæsilega fína veðri? Ís er uppáhaldið mitt. Ég gæti borðað hann þyndarlaust. Ofur 3ja kílóa pistasíupokinn sem ég keypti um daginn er við það að klárast svo ég ákvað að nýta síðustu pistasíurnar mínar í þennan gjörning. Ég sé ekki eftir því! Hann heppnaðist vel... of vel!

Pistasíu ís - 3 bollar

Pistasíu ís - hreint lostæti1 og 1/4 bolli ósaltaðar, óristaðar, skelflettar pistasíur.

1/3 bolli sykur

2 bollar nýmjólk

2 msk maizamil. Sterkja, fæst í Bónus.

2 msk hunang

1 msk sítrónusafi eða eitthvað gott hnetu eða ávaxta líkjör. (amaretto, grand marnier...) Ég notaði sítrónusafa úr ferskri sítrónu. Átti ekki líkjör. Hjálpar til við að halda blöndunni mjúkri inn í frystinum.

Aðferð:

1. Mylja pistasíur og sykur, smátt, í matvinnsluvél. Setja til hliðar.

2. Hella 1/4 bolla, af mjólkinni, saman við sterkjuna þangað til vel blandað. Setja til hliðar.

3. Í potti, yfir meðalhita, hella saman pistasíum og rest af mjólk (1 og 3/4). Hræra í af og til með sleif og leyfa bubblum að koma upp. Ekki sjóða.

4. Hella þá sterkjublöndunni saman við og hræra í 2 - 3 mínútur aukalega yfir hitanum. Blandan er tilbúin þegar pistasíublandan þekur skeiðina og sé fingri rennt niður eftir skeiðinni þá myndast far.

5. Þá er tímabært að færa pottinn af hitanum og leyfa blöndunni að kólna í nokkrar mínútur.

6. Blanda út í pottinn hunangi og sítrónusafa eða líkjöri. Leyfa blöndunni að kólna þar til hún nær stofuhita en hræra í henni af og til svo ekki myndist húð ofan á ísnum. Nú er gott að breiða yfir ísinn, eða setja hann í lokað ílát, og inn í ísskáp þangað til vel kaldur. Yfir nótt er best.

7. Hella ofurísböndunni í ísvél og bíða eftir að eitthvað stórkostlegt gerist!

Pistasíu ís - hreint lostæti

Úff... hvar á ég að byrja? Ég get a.m.k. sagt ykkur það að þegar ég og Palli tókum fyrsta bitann, litum við á hvort annað og flissuðum! Ég bjóst ekki við þessu bragði og þessari áferð! Ef ykkur þykja pistasíur bragðgóðar þá mun þessi ís ekki svíkja ykkur. Flauelsmjúkur ísinn með þessu ljúfa pistasíubragði og stútfullur af pistasíubitum. Sætan nægjanleg og vinnur vel á móti hnetubragðinu. Maður saknar þess ekki að hafa eggjarauður til að mýkja hann upp. Ææææðislegur ís, auðvelt og fljótlegt að búa hann til. Kannski ekki á holla listanum, ekki á ofur-óholla listanum heldur - ég held ég finni ekki nógu lýsandi lýsingarorð til þess að gera undrinu nægjanlega frábær skil, get svo svarið það.

Pistasíu ís - hreint lostæti

Myndirnar gætu því miður litið betur út, en þið vitið hvernig þetta er stundum hjá mér - ég gat ekki beðið lengur með að smakka. Þetta bjútí var að bráðna fyrir framan trýnið á mér! Athugið samt að ég laug ekki þegar ég sagði að ísinn væri stútfullur af hnetum - en persónulega þykir mér það geggjað!

Pistasíu ís - hreint lostæti

Þennan ís kem ég til með að bjóða upp á í matarboði, á næstunni, með vanillurjóma! Ég á líka afgang, ójá. Ég hlakka mikið til næsta laugardags!


Verslunarmannahelgarveisla

Höfum þetta stutt, maginn er of fullur til að heilinn starfi rétt. Öll heilastarfsemi fer í að melta og ég er næstum því hætt að sjá! Familían saman komin í Gúmmulaðihöllinni í kvöldmat. Myndirnar eru því miður ekki meistaralega bjútifúl sökum græðgi!

Fyrir

Humar, hörpudiskur, smokkfiskur, hambó, lamb, túnfisksteikur og HP BBQ.

Verslunarmannahelgarmatur - óeldaður

Hörpuskel vafin inn í hráskinku með döðlubita, laukchutney með hambó og meira lamb sem slapp við grillið í þetta skiptið.

Verslunarmannahelgarmatur - óeldaður

Eftir

Forréttur

Hráskinku harpan og túnfiskurinn með ofur wasabi-sósunni a la Mamma.

Risaharpa vafin inn í hráskinku með döðlu ásamt túnfisksteik með wasabisósu

Hvítlauksristaður humar og hörpudiskur í rjómasósu og smokkfiskur með kryddsmjöri og papriku.

Forréttar veisluborðið. Humar, hörpuskel og smokkfiskur í forgrunni

Aðalréttur

Grillaðir risahambó.

Hambó

Sætar ofnbakarað kartöflur með osti.

Sætar ofnbakaðar kartöflur með osti

Það sem vantar í aðalréttamyndum eru venjulegar ofnbakaðar kartöflur, lambið, salatdiskurinn, milljón og ein sósa og laukchutneyið sem er án efa mesta nom sem ég set á hambó, fyrr og síðar!

Löngu eftir

Dáinn hambó! Ekki minn hambó... en dáinn engu að síður!

Hambó, alveg að hverfa af yfirborði... disksins!

Eftirréttur samanstóð af ís, bláberjum, ostaköku, rjóma og almennri hamingju! Ég fékk mér meira af eftirrétt en góðu hófi gegnir. Ég held ég sé hóflaus... í öllum merkingum þessa orðs!

Gúmmulaðihöllin klikkar aldrei. Þetta var æðislegur matur og æðislegt kvöld!


Ég elska nammidagana mína

Höfum þetta einfalt. Matur í gúmmulaðihöllinni, nammidagur = matarsprengja!

Smokkfiskur í bígerð!

Smokkfiskurinn verkaður

Smokkfiskur í hvítlauk og engifer og Marbella kjúklingur! Með smokkfisknum var brjálæðislega góð wasabi sósa!

Marbella kjúklingur og smokkfiskur

Banana-ís, breytti lífi margra matargesta í dag! Sló rækilega í gegn hjá ungum sem öldnum!

Banana soft serve með smá súkkulaðisósu og mangobitum

Meiri ís, rjómaís, ekki myndaður... aðeins meiri ís og... já, meira af ís! Eins og ég gef vel til kynna í titlinum... ég eeelska nammidagana mína!


Systra fiestaa

Laugardagur, nammidagur.... svo sannarlega!

Bauð brúna Spánardýrinu heim til mín í sjónvarpsgláp og mikið ét! Á boðstólnum var hinn sívinsæli Doritos kjúlli, sem hún er búin að þrá í hundrað ár, og eftirlíking af Doritos kjúllanum fyrir sjálfa mig.

Svabba brúndýr

Doritos kjúlla er, eins og flestir þekkja, púslað saman úr Doritos, ostasósu, salsasósu, kjúlla og osti.

Doritos kjúlli

Eftirlíkingin var góð. Rauðlaukur, sveppir, paprika og hvítlaukur steikt á pönnu þangað til meyrt, þá kryddað eftir smekk. Smá salsasósu bætt út á pönnuna og gumsinu helt í fat. Smá bbq sósa og hot sauce þar yfir, kjúllinn ofan á og smá salsasósa yfir. Næst er tómatsneiðum raðað ofan á kjúllan, nokkrum Camembertsneiðum ofan á tómatana og pínkulítið af gratínosti þar yfir. Æææðislega gott!

Eftirlíking af Doritos kjúlla án Doritos

Með þessu var svo heimagert guacamole! Það er einfaldlega best!

Guacamole

Svabba að teygja sig í Doritos! Með þessu var salsasósa, auka Doritos, ostasósa og sýrður rjómi. Skar líka niður heilhveiti tortillur og ofnsteikti - mitt Doritos! Sumardrykkurinn ógurlegi hangir hress á kanntinum, sprite zero (eða kristall), appelsínusafi og frosin jarðaber! Mmmm...

Systrakvöld

Pínkulítið af þessu Whistling En ég var dugleg, fékk mér bara smá! Græna gumsið í fremri skálinni, wasabi hneturnar, er best! Hræðilega ávanabindandi!

Hnetumix og

Svo bjó ég til hálfgert banana soft serve. Banana ís! Frosnir bananar settir í matvinnsluvél og hrærðir saman í um það bil 5 mínútur. Fyrst mynda þeir hálfgerða kúlu, svo fer matvinnsluvélin á fullt og allt í einu gerist eitthvað stórkostlegt og þeir maukast saman.

Banana soft serve

Áferðin er fullkomin! Þetta er bilaðslega gott! Ég segi ykkur það - ég aulaðist til að bæta út í þetta próteini, sem var fínt líka en miklu betra þegar bananinn var bara! Ætla að fá mér svona í hádeginu á morgun, kem með flotta mynd þá!

Banana soft serve

Með berjum, nýbakaðri möndluköku, granola stöng og möndlusmjöri! Óguð!!

Banana soft serve með möndluköku, berjum, granola stöng og möndlusmjöri

Jæja, ætla að halda áfram að horfa á fína skrokka í 300! Mjög greinilegt að þeir hafa aldrei upplifað nammikvöld eins og þetta!


Sumarið er komið

Þetta veit ég... svona er maður nú klár! Þegar garðurinn hennar mömmu er í blóma, ég get legið í grasi, hita, lokað augunum, fundið grilllykt og hlustað á fuglasöng að kvöldi til, þá er sumarið mætt á svæðið! Fullkomið kvöld í kvöld! Matarboð hjá mömmunni, allir saman, grillandi, hlæjandi, borðandi! Notalegast í heimi.

Grillpinnar og kjúlli a la mamma.

Lamb á pinna, sveppir, laukur og paprika

Geggjaðar, ofnbakaðar, niðurrifnar sætar kartöflur með púðursykri og hestlihnetum, a la Dossa, ásamt fersku salati.

Sætar kartöflur með púðursykri og hnetum ásamt fersku grænmeti

Sumarsósa a la mamma, til hægri, (sýrður, gúrkur og pickles) og dásamlega gott brokkolísalat a la Moi! Það kláraðist alveg! Þarf að setja inn uppskriftina við tækifæri.

Geggjað brokkolísalat og sumarsósan ógurlega

Afinn og Valdís í góðum gír í hengirúminu sívinsæla. Lítið brot af ofurgarðinum hennar mömmu. Hann er mjög bjútifúl ákkúart núna.

Afi og Valdís að 'róla'

Hveitilaus súkkulaði bananakaka með jarðaberjum og ís, í eftirrétt, a la Moi.

Hveitilaus súkkulaði bananakaka (glútenlaus)


Hátíðarkjúlli, pönnsur og samviskulaus eplakaka

Þá er 17. júní liðinn og dagurinn svo til laus við rigningu. Ótrúlegt en satt - að minnsta kosti hér á höfuðborgarsvæðinu. Búin að rækta af mér fótleggina, fara í notalegan göngutúr, borða góðan mat og slappa vel af. 

Dagurinn byrjaði hinsvegar á frábærri hafraköku og endaði á meiriháttar kvöldmat með fjölskyldunni. Mamma galdraði fram einn besta kjúklingarétt sem ég hef smakkað í langan tíma, eftir uppskrift og meðmælum vinnufélaga. Þessi kjúklingaréttur... úff. Mikið af bragði, margskonar samsetningar. Sló svo sannarlega í gegn enda ætla ég að bjóða í þennan rétt næst þegar ég held matarboð! Hver vill mæta og njóta? Þið sjáið sko ekki eftir því!

Kjúklingur m/ólívu olíu, hvítlauk, döðlum, ólívum, lárviðarlaufi, capers...

Ómægoodness, sjáið þið gúmmulaðið!! Oliv oil, hvítlaukur, capers, grænar ólífur, karamelliseraðar döðlur, lárviðarlauf og toppað með púðursykri og steinselju! Ég er eflaust að sleppa einhverri snilld úr þessum rétti enda ætla ég að birta uppskriftina eins og hún leggur sig við betra tækifæri. Allt þetta bragð á svo vel saman. Sætar karamelliseraðar döðlur með ólífu ásamt safaríkum kjúkling og smá soði. Himneskt!! Ég borðaði að sjálfsögðu ekki skinnið - skamm Elín, en svona er þetta! Við mamma ákváðum þó að næst þegar þetta yrði galdrað fram, þá fengi púðursykurinn að missa sín og fleiri döðlur notaðar í staðinn. Mauk útbúið úr döðlunum, valhnetum bætt í maukið og loks borið yfir kjúklinginn. Getið þið ímyndað ykkur... Ohhhh!!!

Besti kjúlli í heimi, fyrsti skammtur

Með kjúllanum voru lífrænt ræktuð, brún hýðishrísgrjón, salat og baquette. Mikið ofboðslega eru grjónin fín. Ákkúrat eins og ég vil hafa hrísgrjón. Aðeins undir tönn, skemmtileg að borða og svakalega bragðgóð. Eftir að kjúllinn kláraðist úr fatinu, tók fljótt af og var sársaukalaust, notuðum við brauðið til að dýfa í olíuna og soðið sem eftir var. Om nom nom!

Þá var eftirréttatíminn genginn í garð. Pönnsur og tilrauna-eplakaka! Mömmupönnsur eru bestu pönnsur í heimi. Enginn vafi þar á! Galdramóðir ásamt mest notuðustu pönnukökupönnu á Íslandi!

Mamma í pönnsugerð

Snilldartaktar í gangi hérna!

Fyrsta 17. júní pannsa kvöldsins

Eins og pönnukökur eiga að vera. Þunnar og milljón göt í deiginu!

Pönnukaka a-la Mama. Þunn og deigið götótt!

Lokaniðurstaða - ljúffengur, heitur, yndislegur stafli af mömmupönnsum! Jarðaber, rjómi, súkkulaðisósa! Einusinni smakkað, þú getur ekki hætt!

Fullbúnar mömmupönnsur

Ég bjó svo til samviskulausa eplaköku. Heppnaðist flott og allir smakkarar sáttir. Hinn helmingurinn friðlaus af hamingju. Sykur- og fitulaus, holl fyrir skrokkinn og væri góð í t.d. morgunmat. Ég var alveg að fíla hana í botn. Væri geðveikt að bæta henni út í grautinn á morgnana! Það góða við að nota kökuna sem eftirrétt er að hún er ekki þung í maga og seddumælirinn hvellspringur ekki. Kanilstráð heit epli, smá banani, döðlur og hafratoppur. Mhhm! Uppskrift væntanleg mín kæru!

Samviskulausa eplakakan ásamt sojaís

Með kökunni notaði ég svo sojaísinn góða. Kom svakalega vel út! Meira að segja afi ísæta borðaði hann með bestu lyst og ekki kallar hann allt ömmu sína í ísmálum.

Epli, perur, banani, döðlur og kanill. Klikkar ekki.

Aldeilis fínt ét í dag fólkið mitt. Fullt af nýju gúmmulaði prófað, kettir eltir og afslöppun í hámarki! Ljúfa líf.


Eggjabrauð - síðasti hádegismatur sumarfrísins

Þá er sumarfríið alveg að klárast. Ég get ekki kvartað, þetta voru meiriháttar góðar tvær vikur! Afslappelsi í hámarki, letipúkinn viðraður, átvaglinu hleypt lausu - alveg eins og það á að vera.

Vaknaði svo í morgun með eggjabrauð á heilanum. Get svo svarið það - ég átti í mesta basli með að koma mér í ræktina því eggjabrauðið ásótti græðgispúkann svo stíft. En það hafðist og jú, ég fékk mér eggjabrauð um leið og ég steig fæti inn í hreinasta hús á Íslandi! Eða... eggjabeyglu og eggjabollu? Með þessu hafði ég skál fulla af ávöxtum og próteindrykk. Einn skammtur hreint prótein, klakar, vatn og banani.. mmhmm!

Eggjabrauð af ýmsum toga og ávextir

Eggjahræruna gúmmslaði ég saman úr 1 heilu eggi og 3 eggjahvítum, slettu af Undanrennu, vanilludropum, kanil, múskati og smá salti og pipar. NAMMI! Leyfði beyglum og bollum að baða sig upp úr eggjablandinu í 2 eða 3 mínútur og skellti þeim svo á heita pönnu. Steikti þangað til kom stökk og fín skorpa. Þvílíkt sælgæti!

Eggjahræra með mjólk, kanil, múskati og vanilludropum

Á beygluna setti ég sykurlausa sultu, banana og hnetumúslí. Ég held að myndin segi svosum allt. Smá kanilbragð, múskat, vanilludropar - banani, sulta, crunchy múslí og fullkomlega eldað eggjabrauð. Þetta eggjabrauð var perfecto!

Eggjabeygla með sultu, banana og múslí

Til að vera góð við sjálfa mig þá fékk ég mér svo smá bita af skyrgumsinu mínu síðan í gær. Om nom nom!

Eftir daginn í dag verður svo sett af stað svakalegt sumar átak. Hlakka ekkert smá til. Þáttakendur eru hið minnsta undirrituð, hinn helmingurinn og móðir mín kær. Það verður mikil áskorun fyrir mig að búa til bragðgóðan og skemmtilegan mat sem þarf að standast allra hörðustu matarræðis 'reglur' líkamsræktarfíkla! Án þess þó að maður fái leið á matarræðinu! Ójá! Þessi snilld kemur til með að standa fram í septermber og að tímabili loknu birtast hinar alræmdu fyrir og eftir myndir í einhverju formi.

Sumarið leggst vel í mig mín kæru, þetta verður æði! Stay tuned! W00t


Góður matur á góðum degi

Ég er farin að halda að þetta blogg hérna sé farið að snúast um matinn sem ég set ofan í mig en ekki einstaka uppskriftir... sem er svosum allt í lagi. Alltaf hægt að nýta sér eða fá hugmyndir af því sem aðrir borða.

Annars verður manni óskaplega lítið úr verki í svona yndislega fínu veðri. Nenni sko ekki að hangsa inn í eldhúsi þegar ég get hlaupið út í búð og veitt mér í matinn þar. En það er spáð rigningu næsta laugardag, ætli hann verði ekki krýndur sem konunglegi bakara- og eldhúsdagurinn!! Hver veit!

Annars, til að stikla á stóru yfir daginn:

Hádegismatur: Salatbar, kjúklingur, ávextir og brauðsneið með sýrðum rjóma og eplum. Ávextir á brauð... er æði!

Ferskt kjúklingasalat, ávextir og brauðsneið með eplum 

Viðbit: Próteinsúkkulaði. Eins og Bounty!

Mjúkt og chewyPróteinsúkkulaði með kókosbragði

 

 

 

 

 

 

 

Tók einn bita af þessu stykki líka, varð að prófa - mjög, mjög, hræðilega vont! Mæliekkimeðessu!

Sló ekki í gegn hjá mér!Hnetur, þurrkaðir ávextir ofl.

 

 

 

 

 

 

 

Kvöldmatur: Æðisleg grilluð rauðvínslegin bleikja og grænmeti. Ég var einum of gráðug til að taka mynd af bleikjunni, en trúið mér, hún var geðbilaðslega góð!

Eftir kvöldmat: Stóðst ekki freistinguna, nokkrir bitar af þessu. Hnetur og súkkulaði!! Hvernig getur það klikkað!

Hnetukrums 

Svo er bara að hvetja veðurguðina áfram og halda í þetta þetta svakalega veður! Ég ætla að dansa tryllingslegan sólardans klukkan 1:00 í nótt. Ef þið viljið taka þátt í því, verði ykkur að góðu!


Júróvision hamborgara fiesta 2009

Annað sætið mín kæru, til hamingju með það! Góður árángur hjá stelpunni, stóð sig vel!

Ég stóð mig bara nokkuð vel líka hvað át og meira át varðar. Ég tel sjálfa mig vera fullgildan meðlim í félagi Ofátsgræðgissjúklinga, ef það er til. Ég get borðað ótæpilegt magn af mat, svo mikið að sjálfri mér ofbýður stundum. Ég ætlaði að taka daginn í dag með trompi en datt aðeins ofan í nammiskápinn á föstudaginn, verandi komin í sumarfrí og eintóma hamingju. Ís og popp, nachos og mozzarella, rjómaosts-salsasósu ídýfa ásamt bland í poka svo eitthvað sé nefnt. Igh! Mikið svakalega var það nú eðal fínt alveg... ákvað því að vera nokkuð róleg á laugardaginn, amk fram eftir degi!

Byrjaði daginn því á svakalega fínni æfingu og fékk mér salat og ávexti ásamt skyri með próteini og múslí í hádegismat. Eftirmiðdagurinn skartaði einum penum skammti af próteini. So far so good ey?

Skyr með próteini, ávextir og salat 

Svo byrjaði ballið. Ég sá um eftirréttina og foreldrar um aðalréttinn. Ég byrjaði að elda um klukkan 4 og að sjálfsögðu nartaði ég í hnetur, ávexti og fékk mér smakk af og til. Klukkan 6 var haldið í foreldrahús og þar rak ég aukun í þetta...

Eðal hengirúm a-la Pabbi 

...sem gladdi mig óstjórnlega. Pabbi snillingur! Á borðum var eftifarandi góðgæti til að narta í þangað til maturinn byrjaði...

Ofurnasl - saddur fyrir mat gúmmulaði 

...hnetu- og rúslumix, súkkulaðirúsínur, wasabi-hnetur og hunangsristaðar "pretzels". Allt mjög ávanabindandi og mjög svo étanlegt. Á meðan fjölskyldumeðlimir gúffuðu í sig "Ómægod ég er orðin södd" snakkinu þá var pabbi að dansa stríðsdans við grillið.

 Hamborgarar og lamb. 200 gramma kvikindi!

Sjeis... sjáið þið þessar elskur! 200 grömm stykkið, óh guð, himneskt! Eftir langa, langa mæðu (að mér fannst) við grillið var hamborgaraveislunni hleypt af stokkunum.

Júróvisjón hamborgaraveisla 

Mömmufranskar, heimatilbúin kokteil- og sinnepssósa, lauk/chutney gums, beikon og sveppablanda og eðal, ofur, risa hambó - djúsí og bjútifúl! Ohhh!

Hamborgari ársins 

Ég er ekki að ljúga þegar ég segi ykkur að þessi hamborgari var um það bil jafn stór og hausinn á mér. Ég... er með stóran haus! Hver og einn fékk svo að púsla saman sínum draumahambó sem er alltaf jákvætt.

Í hamborgaragleðinni miðri ákvað þessi að kíkja í smá heimsókn. Þetta var svo massíft flugudýr að hún var við það að mynda svarthol.

Júróvisjón humla 

Eftir nokkurn tíma var svartholið skýrt Hólmgeir! Hólmgeiri júróvisjónflugu var svo vísað á útidyrnar og eftirréttirnir tóku við.

Í boði voru tvennskonar eftirréttir. Annars vegar hálfgerð  mascarpone ostakaka með berjum, nóa kroppi og Dulce de leche karamellusósu.

Nokkurnskonar ostakaka með berjum 

Hinsvegar var eðal, syndsamlega góð karamelliseruð eplakaka með crunchy toppi, karamellusoðnum eplum, hnetum og súkkulaði. Með henni höfðum við ís, rjóma og súkkulaðisósu.

Karameliseruð eplakaka 

Guð minn almáttugur eruð þið ekki að grínast með eplakökuna. Ostadýrið var gott en þessi eplakaka... herre gud, ég á eftir að dreyma þetta kvikindi alla næstu viku. Eitt orð....  *B* *O* *B* *A* ! Þvílík sprengja. Allir hollustumúrar heimsins hrynja og krumpast saman. Ef þér þykja eplakökur góðar, þá er þetta pottþétt kaka fyrir þig! Þvílíkt sælgæti ! Eplakökuveikleiki minn er hér með opinberaður!

Mascarpone ostakaka með berjum og hafrakexbotni 

Ég fékk mér stóran góðan bita af ostakökunni. Yndislegt bragð, skemmtileg áferð. Sætt, súrt, crunchy og smá selta úr botninum. Skemmtilegt bragð af ostinum, æði. Svo fékk ég mér annan.. og einn til viðbótar!

Karameliseruð eplakaka með hnetum 

Eplakakan var étin með mikilli gleði. Deigið ofan á bakast fullkomlega og verður stökkt og krispý með karamellukeim en mjúkt þar sem það snertir eplin. Eplin steikjast fullkomlega með sykrinum sem karamelliserast og einstaka sinnum bítur maður í fullbúna, yndislega karamellu sem fer svo endalaust vel með mjúkum eplunum og deiginu. Svo er að sjálfsögðu frábært að bíta í salthnetur og súkkulaðibita þegar maður á síst von á því - meiriháttar! Hún sló í gegn. 

Ég fékk mér nokkuð mikið meira en bara 1,2 eða 3 skammta af ofur eplaklessunni. Svo fékk ég mér aftur klukkan 22:00, aðeins meira hálftíma seinna. Eftir það stal ég mér risastórri gúmfey peysu af pabba til að fela velmegunar-bumbuna, í kreppunni, og var á leiðinni í meiri eplaköku þegar kötturinn stoppaði mig af.

Mömmukisi 

Stuttu eftir að þessi mynd var tekin fannst ég nærri dauða en lífi hér..

Tekur á að vera ofátsgræðgissjúklingur 

... á þessum tímapunkti hafði ég borðað svo mikið að ef ég hefði opnað augun, er mjög líklegt að þau hefðu poppað út úr höfðinu á mér! Ég afrekaði það að éta hann karl föður minn undir borðið með 1,5 hamborgara, ótæpilega mikið af fyrir mats gúmmulaði og eftirréttsáti sem á með réttu heima í heimsmetabók Guinness!

Æðislegur dagur í alla staði, æðislegt veður, æðislegur matur og yndislegt fólk. Íslendingar í öðru sæti, undirrituð sátt með átið og hengirúmið alveg að gera sig!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband