Færsluflokkur: Heilsdagsát
21.11.2009 | 14:59
Hleðsludagurinn ógurlegi - fyrsti hluti
Morgunmatur
Bananapönnsugrautur með rommi og rúsínum.
Banani örbylgjaður í muss og bætt út í vel kryddaðan pönnsugraut. Rommdropar komu við sögu. Rúslum stráð yfir, inn í ísskáp og hlakka til að vakna. Þessi var hamingjan einar. Ákkúrat áferðin sem ég var að leita eftir. Þéttur í sér, næstum eins og brauð og ó, svo sætur.
Eftir æfingu
Ristuð beygla með kanilpróteini og Special K krumsi. Óguð!
Hreint prótein blandað mjög þykkt með vatni, kanil og vanilludropum. Beyglan ristuð og próteinið smurt yfir beygluna og látið leka smá ofan í brauðið. Kanil stráð yfir.
Special K krumsi stráð yfir og smá prótein yfir morgunkornið. Þetta var ekkert nema gott. Sætt, stökkt beyglubrauð, karamellukennt kanilprótein og kornflex crunch. *hamingja* Rúsínu og kanilbeygla næst!
Ohhh neiiii ... búið!!
Hádegismatur
Kínanúðlur með krumpueggi og grænmeti.
Síðan ég var peð hef ég alltaf kallað krullaðar núðlur, kínanúðlur. Hádegismaturinn voru því kínanúðlur og krumpuegg með snöggsteiktu grænmeti. Búin að vilja gleypa svona núðlur í mig í óratíma og vá... þessar voru geðbilaðslega góðar þó ég segi sjálf frá!
Fyrst, hita vatn í örbylgju og leysa upp 1 grænmetistening. Setja núðlur í skál og hella smá vatni yfir þær - rétt til að mýkja.
Hita svo 2 tsk soja og 2 tsk hrísgrjónaedik í djúpum botti. Hella þar út á hvítlauk, lauk, skarlot, púrrulauk, engifer og smá chilli. Steikja í um það bil 30 sek.
Bæta því grænmeti út í sem þú vilt nota ásamt rauðum piparflögum. Steikja í nokkra stund í viðbót eða þangað til grænmetið er orðið aðeins mjúkt.
Bæta þá núðlunum út í pottinn ásamt rest af soði (fara eftir leiðbeiningum á pakka), 2 tsk soja, 2 tsk hrísgrjónaedik og ponsulitlu hunangi. Hræra saman þangað til núðlurnar hafa drukkið í sig soðið. Bæta eggjahvítum út í gumsið og hræra saman. Hella í skál, skreyta með t.d. sesamfræjum, kóríander - meira af rauðum chilliflögum. BORÐA!
Jebus, þetta er nóg fyrir heila fjölskyldu...
...og ég át þetta ein!
Shit!
Afsakið orðbragðið!
Heilsdagsát | Breytt 24.9.2010 kl. 11:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
20.11.2009 | 18:36
Humarmole - stjarna dagsins
Afgangar síðan í gær. Avocado breyttist í guacamole og humarinn var skorinn í smábita og bætt út í. Þessu hrærði ég svo saman - og nei, það þarf aldeilis ekki að hræra allt í graut. En gleði og hamingja hvað þetta kom vel út. Næst þegar ég útbý humarmole kemur það til með að enda á milli tveggja brauðsneiða með tómat, káli og einhverri góðri sinneps dressingu. Kannski ekki fallegasta gums sem til er - en gott var það.
Kvöldmaturinn var ekki síðri. Allt sem ég fann í ísskápnum, steikt á pönnu og roastbeefinu mínu bætt út á í lokin. Þetta klikkar aldrei. Laukur, rauðlaukur, sveppir, gulrót, púrra, hvítkál og paprika skorið smátt og steikt að eilífu með smá sojasósu, pipar, engifer, balsamic ediki og kannski 1/4 úr tsk af muscovado sykri.
Enn heldur jólapakkatilraunastarfsemi áfram. Bakstur gleður mig mjög!
Tvennskonar snilldarkökur og önnur pottþétt í pakkann. Vinnan og Paulsen búin að testa og gáfu grænt ljós. Þessar voru amk jákvæðari en þær sem ég bjó til í fyrradag, þó svo þær hafi verið yndisega fínar.
Ætla að prófa tvennskonar hafraköku uppskriftir núna um helgina áður en biscotti gerð hefst! Hafrakökur eru einfaldlega bestar í mínum kladda!
Heilsdagsát | Breytt 24.9.2010 kl. 11:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
19.11.2009 | 14:53
Roastbeef og humar - kreppa?
Úhúú hvað dagurinn í dag er búinn að vera gleðilegur í matarmálum. Svo gaman þegar átvaglið kemst í stuð og gerir eitthvað sniðugt í staðinn fyrir að taka einfaldari leiðina. Sem er að sjálfsögðu ekki bragðlaus og leiðinleg - bara... mikið nýtt?
Roast beef með smá honey dijon og byggi. Borðað með hrúgu af vinnugrænmeti og notið í botn.
Vanillu-rommdropabætt hreint prótein með kanilristuðum möndlum og pííínkulítð af sjávarsalti. Óguð! Þetta var eins og syndsamlegur eftirréttur! Karamellueftirréttur! Möndlurnar búnar að mýkjast aðeins, ristaða bragðið af þeim skilaði sér fullkomlega og dauft rommbragð eftirá. Herra guð sko! Gæti notað þetta sem millilag í einhverja köku! Ef ég hefði haft ís þá væri ég án efa í matarcoma ákkúrat núna!
Svo verður líklegast humar í sinni einföldustu mynd í kvöld. Humar vinnur allt. Algerlega númer eitt á mínum uppáhaldslista yfir mat... kannski fyrir utan jólaöndina og fyllinguna sem henni fylgir... hmmhhh....
...algerlega númer eitt á mínum uppáhaldslista yfir mat ásamt jólaöndinni og fyllingunni sem henni fylgir. Ahh, betra!
Sjáið svo hvað ég laumaðist til að gera í morgun.
Óbeibís! Tilraunir fyrir jólapakkann hafa hafist. Vinnan og Palli eru tilraunadýr. Jólapakkaviðtakendur mega ekki vita hvað þeir eru að fá. Var það ekki óskrifuð regla?
Heilsdagsát | Breytt 24.9.2010 kl. 11:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.11.2009 | 15:08
Afgangar og árshátíð númer 2
Get ekki lýst ánægju minni og gleði nógsamlega yfir því að vera komin á ról aftur! Fór meðal annars í ræktina í morgun, Palla til mikils ama sökum veikinda í vikunni sem leið. Honum þótti þetta heldur heldur snemmt í rassaköst og æfingar en þrjóskan gaf sig ekki. Í ræktina strunsaði kvendið og tók almennilega á því. Verður bara að segjast eins og er - þessi æfing var assgoti fín og undirrituð svakalega spræk miðað við drykkju síðustu helgar, átmynstur vikunnar og veikinda.
Hádegismaturinn og viðbit - annar dagur í endurhæfingu. Æðislega, frábærlega fína grænmetissúpan mín, afgangur síðan í gær, og skyrgums. Ugh hvða þessi blessuðu skyrgums eru subbuleg og ómyndarleg alltafhreint. Eins æðislega góð og þau geta verið. Kátur skrokkur, glaður magi!
Árshátíðin hans Palla er svo á morgun... á Selfossi, trúið því eða ekki!
Jáneitakkfyrirgóðandaginn - ég fæ mér sko ekki að drekka í þetta skiptið!
Heilsdagsát | Breytt 24.9.2010 kl. 11:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.11.2009 | 19:14
Eggcellent eggjakaka og árshátíðar undirbúningur
Um þetta leiti á morgun verður átvaglið komið í kjól og súpandi á fordrykk! Játakk!
Lét verða af því og endurgerði eggjahvítuköku hádegisins með smá breytingum. Engin gulrót í þetta skiptið heldur svampar! Svo æðislega bragðgóðir. Sama og síðast, steikja, steikja... steikja meira og svo aðeins meira en steikingaþröskuldurinn leifir. Eggjahvíta gumsið og jú, steikja meira. Raða tómatsneiðum og 9% ostsneið á helminginn og krydda með t.d. basil. Sjáið bara hvað þetta er glæsilega fínt!
Tók svo til matinn fyrir helgina. Laugardagskvöldið er stikkfrí sökum nammidags og árshátíðar. Kvöldnasl dagsins í dag var tekið til ásamt fyrir- og eftiræfingamat morgundagsins, hádegismat og viðbiti og loks lauk þessum undirbúning á morgunmat sunnudagsins. Þetta tók 30 mínútur að setja saman - að meðtöldum kvöldmatnum og fínukjóla- og æfingafatatiltekt. Svo er hin reglubundna 2ja vikna ummálsmæling hjá mér á sunnudaginn - ég tek sko málbandið með mér og mæli mig sundur og saman uppá hótelherbergi á tilsettum tíma! Full af árshátíðarjukki - húha!
Ætli ég verði ekki japlandi á skyrgumsinu mínu í "Hvernig búum við til bjór" ferðinni á morgun!
Njótið helgarinnar mín kæru, er farin á Selfoss að árshátíðast
Heilsdagsát | Breytt 24.9.2010 kl. 11:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
27.10.2009 | 21:49
Morgundagurinn í hnotskurn
Í tilefni skipulagsfíkilsins hið innra, og bloggsins sem ég setti inn í dag, þá verð ég í vinnu á morgun frá 08:00 til 20:00. Sem er í sjálfu sér ekkert stórmál hvað matinn varðar, eina sem bætist í raun við er kvöldmaturinn. En hér er mynd af fjallinu mínu.
Morgunmatur: Eggjahvítu- og hafrapönnsur. Notaði reyndar ekki lyftiduft í þessar. Önnur með hindberjum, sem þiðna yfir gúmmulaðið í ísskáp í nótt, á meðan hin verður skreytt með eggi sem ég steiki mér á morgun. Úhh... get ekki beðið eftir því að vakna Verður líka spennó að sjá hvernig þær koma út kaldar.
Morgndegismatur: Hnetusmjörs prótein búðingur.
Hádegismatur: Eggjahvítu og möndlugums. Mjög sterkt, hot sauce og allur pakkinn.
Síðdegisviðbit: Hreint skyr og ristaðar pecanhnetur.
Kvöldmatur: 4% nautahakk og karamelliserað steikt grænmeti. Vel kryddað og spæsað upp. Verður afskaplega notalegt að bíta loks í hakk eftir kjúllatörn síðustu vikna.
Annars vorum við Palli að afreka það að bera niður 4 hæðir, risastóra IKEA kommóðu sem vegur án efa 170 þús. kíló! Seljanda láðist sumsé að nefna það við okkur að kommóðan væri jafn þung og hvítur dvergur, að hún væri á 4. hæð og að þetta væri gömul bygging með litlum, mjóum... ó svo mjóum stigagangi. En þetta hafðist og var heljarinnar líkamsrækt. Ég fékk marblett á sköflunginn og þumalputtann af öllum stöðum. Beint á fingrafarið. Palli skrapaði á sér upphandlegginn og kramdist á milli kommóðu og veggjar. Þrátt fyrir mikið puð er kvikindið komið inn í þvottahús og passar svona líka assgoti flott! Vel marðra útlima virði!
Nattn skrattn mín kæru!
Heilsdagsát | Breytt 24.9.2010 kl. 10:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
27.10.2009 | 12:59
Ég borða í plastboxum
Undanfarið hef ég mætt með mitt eigið ét í vinnuna. Morgunmatinn borða ég yfirleitt heima, ef ég er að fara að lyfta, annars fylgir hann mér eins og traustur vinur, í tupperware, að vinnuborði þar sem hann er hamsaður með góðri lyst. Hádegismaturinn bíður svo eftir mér inn í vinnuískáp, í öðru tupperware, ásamt morgun- og síðdegis viðbitum, í enn öðrum plastílátunum, og að vinnudegi loknum held ég heim á leið með fullan poka af tómum plastboxum sem fyllast að nýju eftir kvöldmat.
Mörgum hryllir við þeirri hugsun að þurfa að standa í þessu en vitið þið hvað... þetta er ekki svo mikið mál. Sérstaklega þegar ferlið er komið upp í vana. Reyndar, ef ég á að segja alveg eins og er, þá þykir mér lúmskt gaman að pakka öllum mínum mat niður deginum áður, hafa þetta vel skipulagt og fínt. Þegar kemur að hlutum sem þessum þá er ég skipulagsfíkill af guðs náð og plumma ég mig því vel í þessu öllusaman. Röð og regla, nákvæmir matarskammtar og tilhökkun í plastpakka!
Hér er svo typical brot af því sem ég tek með mér í vinnuna, í boxi, áður en ég geri nokkurn skapaðan hlut við herlegheitin - eins og að bæta grænmeti við hádegismatinn. Einvörðungu til að gera hann fínan, fallegan og að sjálfsögðu myndvænan!
Morgunmatstörn
Með eftiræfingu-mat og án.
Hádegismatur og síðdegisbitinn
Á reyndar eftir að borða hnetusmjörspróteinberjablandið. Fyrsta skipti sem ég bý þetta gums til. Það verður mjög gaman að vera ég um þrjú leitið á eftir!
Palli: Hvað áttu mörg box eftir?
Elín: Eitt box.
Palli: Jöhs... kvöldmatur eftir tvo tíma!
Ég yrði án efa flottur Hobbiti! "Hvað með morgunmat? En morgndegismat? Hádegismat og kaffi? Seinna kaffi og kvöldmat ásamt seinni kvöldmat, kvöldnasli, kvöldnarti og te fyrir svefninn?"
Heilsdagsát | Breytt 24.9.2010 kl. 10:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
18.10.2009 | 18:20
Nestaðu þig upp
Var að heiman í allan dag. Fórum og kíktum á litlu nýfæddu skvísuna a la Einar og Ósk. Til lukku aftur bæði tvö. Hún er yndislega fín alveg. Náðum okkur svo í skrifborð inn í litla herbergi og heimsóttum Gúmmulaðihöllina. Tók þarf af leiðandi með mér nesti til að friða átvaglið þegar maginn byrjar að veina. Það er ekki mikið sport að vera fastur í umferð með sársvangt átvaglið á bakinu!
Veislan var tvíþætt. Skyr og möndlur og svo eggjahvítu/avocado gums hrært saman með smá rauðlauk, tómati, saltað og piprað vel og loks toppað með salsasósu.
Ég komst ekki lengra en að eggjahvitu og avocado hrærunni - er að narta í skyrið núna. Þó aumingjans máltíðin líti ekki par fallega út, þá var hún óvenju æðisleg, bragðgóð og seðjandi! Kom mér eiginlega á óvart, eins ómerkilegt og þetta mall nú var. Þetta var í raun bara eins og að borða guacamole... kannski svolítið perralegt, ég veit það ekki - en mér þótti hræran æði!
Alltaf svo gaman að uppgötva gott skyndimall. Sérstaklega þegar ég veit að ég á pottþétt eftir að gúlla þessu saman í annað sinn, þriðja, fjórða...
Heilsdagsát | Breytt 24.9.2010 kl. 10:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
7.10.2009 | 21:59
Matseðill næstu mánaða
Jólin nálgast óðfluga og allt gúmmulaðið sem þeim fylgir. Ég veit ég hef sagt þetta áður... en ég get ekki beðið! Ég elska þennan tíma!
Nú hefur mikið matarát verið planað langleiðina fram í desember. Fyrstu helgina í nóvember tökum við famelían smá snúning og ætlum að halda hádramatíska þakkargjörðarhátíð á amríska vísu. Kalkúnn, graskersbaka, kirsuberjasósa, sætar kartöflur með sykurpúðum og allt. Helgina þar á eftir er árshátíð hjá vinnunni minni og önnur árshátíð í kjölfarið, helgina þar á eftir. Síðustu helgina í nóvember tökum við vinirnir okkur saman og höldum okkar árlegu vina-þakkargjörðarhátíð, 3 árið í röð. Aftur, kalkúnn, bökur og með því ásamt glápi á alla þakkarkjörðarþætti sjónvarpsseríunnar "Friends". Loks taka Bandaríkin við hjá mér og Palla, þar sem við komum til með að heimsækja þau í byrjun desember. Halló Cheesecake factory! Helgina eftir Bandaríkjaheimsókn kemur fyrsta fríhelgi frá plönuðu mataráti - nema við taki jólahlaðborð. Maður veit ekki! Þar á eftir líður ein helgi og vitið þið hvað svo.... jóóóliiin! Ohhh það er svo stutt í þetta maður!
Annað í fréttum
Smá svona...
...örlítið af þessu...
... og það sem ég er að smjatta á núna!
Nótt í hausinn á ykkur
Heilsdagsát | Breytt 24.9.2010 kl. 10:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
2.10.2009 | 16:11
6 máltíðir yfir daginn
Sú fyrsta klukkan 06:00, á lyftingadögum - annars klukkan 9, og sú síðasta á milli 22:00 - 23:00 á kvöldin.
Morgunmatur - 09:00
Kökudeigs jarða- og bláberjagrautur.
Þessi var æði! Blandaði vanillupróteini (GRS-5), vanilludropum og kanil þykkt saman með vatni. Hrærði höfrum þar útí, bætti smá vatni við uppá áferð og svo loks frosnum jarða- og bláberjum! Yömmó!
Millimál - 11:00
Banana- og eplaskyr með kanil. Draumur í ... plastboxi!
Hádegi - 13:40
Grillaður kjúlli og sæt kanilkartöflustappa (uppáhalds uppáhalds þessa stundina). Já, ég geri mér grein fyrir því að kanill hefur komið við sögu í fyrstu þremur máltíðum dagsins hjá mér!
Millimál - 16:00
Harðfiskurinn minn og hneturnar.
Kvöldmatur - 19:00
Jújú, laukur, rauðlaukur, gulrætur og paprika steikt upp úr olíu, þangað til mjúkt. Saltað eilítið. Roastbeef rifið/skorið niður og bætt út á pönnuna rétt í endann til að hita. Ég tók pönnuna af hitanum og bætti svo kjötinu við, hrærði smá og voila! Þetta var æðislegt! Einfalt og bragðgott. Geri svona gums pottþétt aftur. Sætur laukur/gulrætur, smá saltbragð og piprað kjötið... mikið gott!
Máltíð fyrir svefn - 23:00
Hnetusmjörsblandaður prótein 'búðingur'.
Próteini (GRS5), hnetusmjöri, kanil og vanilludropum blandað þykkt saman með vatni. Þessar blessuðu myndir gera því miður bragðinu, og áferðinni, ekki nein skil, myrkrið mín kæru. Blessað myrkrið. En ekki vera hrædd þó liturinn sé skelfilega óaðlaðandi - þetta er syyyyndsamlega gott snarl.
Ljúfa líf og laugardagur á morgun! Ég bjó mér til kökudeig (eggjalaust) með súkkulaðibitum, hnetusmjöri og hnetum í gær og ætla að kaupa ísinn á morgun. Minn eigin kökudeigsís!! Hihiii...
Heilsdagsát | Breytt 24.9.2010 kl. 10:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)