Færsluflokkur: Uppáhalds
31.5.2009 | 13:52
"Ís" í morgunmat - næst bezt í heimi!
Ég verð að viðurkenna að þessi týpa af morgunmat er ansi nálægt því að vera í stífri samkeppni við hafragrautinn góða um titilinn "Bezti morgunmatur í heimi!". Þessi blanda er það sem ég tala oft um sem "ís". Ég elska að fá mér þetta gúmmulaði í morgunmat, sérstaklega eftir góða brennsluæfingu, útiskokk - nú eða bara til að gleðja á mér magann!
Það er hægt að malla þetta saman á marga vegu. Mér þykir best að frysta ávexti og setja í matvinnsluvél/blender ásamt skyri, próteini og smá mjólk. Útfærslurnar eru óteljandi!
Banana og spínat prótein ís! Fyrir 1.
Ég veit, titilinn er ekki eitthvað sem fær mann til að hugsa "Ohhh.. nammi", en eins og ég hef sagt svo oft áður undanfarið - spínatið hverfur alveg. Nema liturinn, hann gerir mig alltaf hamingjusama! Og af hverju ekki að bæta auka grænmeti í fæðuna sína ef það er svona auðvelt?
1 niðurskorinn frosinn banani
100 - 120 gr. hreint skyr (má nota hvernig skyr sem er)
1 skammtur hreint vanillu prótein
sletta af mjólk - hversu þykkur á ísinn að vera?
1 msk hörfræ
Lúka, ferskt spínat - 50 gr. uþb?
Hræra allt saman í matvinnsluvél/blender, hella í skál, skreyta og njóóta! Mín skál var skreytt með bláberjum, hindberjum, quinoa flögum, múslí og smá létt AB-mjólk! Ohhh hvað þetta var fullkomlega það sem mig langaði í - ótrúlega gott!
Morgun-/hádegismaturinn var svo kláraður með gullfallegri ferskju! Ógeðslega eru þær flottar á litinn!
Heyyy, flott mynd í bakgrunninn á þessari!
Uppáhalds | Breytt 23.9.2010 kl. 21:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.5.2009 | 13:51
Grænum dögum formlega lokið
Allur sá matur sem ég ætlaði að bæta spínati við, hefur nú verið spínataður.
Ég er búin að búa til grænan smoothie eða drykk, grænan hafragraut og í dag lauk hinni heilögu þrenningu grænna daga með grænum "ís". Þrjú skipti af þremur vel heppnuð og ég kem til með að bæta þessu inn í matardagskrána í framtíðinni. Hentar vel sem morgunmatur og viðbit, jafnvel kvöldmatur ef tíminn er naumur. Það er svo hægt að leika sér með t.d. drykkinn og ísinn, bæta út í þetta mango, hnetum, hörfræjum, kiwi - hverju sem er. Mesta snilldin er að sjálfsögðu spínatið góða, sem gefur þennan meiriháttar fína lit, og öll þau milljón næringarefni sem því fylgir. Ætla að leggjast í grænmetis víking og reyna að finna mér fleiri grænmetisdrykki sem bragðast eins og ávextir! Hvesu mikil snilld er það!?
Grænn gleði ís
1 frosinn banani.
sletta af skyri, ég nota hreint KEA.
1 skammtur prótein, ég nota hreint vanillu - má sleppa.
smá fjörmjólk. Hversu þykkt viltu að blandan verði?
60 grömm spínat, 2 lúkur um það bil.
Allir saman í blender og blanda þangað til hamingjusamlega grænt og fínt. Út á þetta setti ég svo quinoa flögur, hafrakodda og smá múslí. Á myndinni er blandan svolítið froðukennd. Ástæðan fyrir því er sú að bananinn sem ég notaði var ekki frosinn og ungfrúin hellti óvart 6 tonnum af mjólk út í skálina - en gumsið var gúffað með bestu lyst engu að síður. Mér fannst þetta æði!
Hvað ætli þurfi samt margar beljur til fyrir 6 tonn af mjólk?
Uppáhalds | Breytt 23.9.2010 kl. 21:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
26.5.2009 | 14:10
Heilhveiti Crepe í hádegismat

Það er nú alveg magnað hversu einfalt það er að hræra í hitt og þetta gúmmulaði. Gleður mig allaf jafn mikið þegar ég get búið mér til einhverja snilld eins og eitt, eða átta, stykki crepe. Þessi uppskrift er ofboðslega einföld og fljótleg, bragðgóð, holl og skemmtileg. Bjó til þessar crepe í dag ásamt meðlæti. Ákvað að ryðjast inn í uppeldisstöðvarnar og gera hádegismat fyrir fjölskyldumeðlimi og einn frænda sem ákvað að sýna sig og sjá aðra.
Fyrir þá sem ekki vita þá er crepe tegund af pönnuköku, stór þunn pönnukaka, sem er yfirleitt fyllt með einhverju gúmmulaði.
Heilhveiti Crepe - 8 stykki
3/4 bolli heilhveiti
1/4 bolli venjulegt hveiti
1 egg, 3 eggjahvítur
1 bolli fjörmjólk. Má alveg nota nýmjólk ef vill, léttmjólk.
Sletta af agave, 1 - 2 ms, eða sykur ef vill.
smá kanill
smá vanilludropar
1/4 tsk lyftiduft, hrært út í degið rétt áður en það er notað
Þetta er nú einfalt. Blanda saman og byrja að elda. Ég geymdi mitt deig reyndar inn í ísskáp í einn og hálfan tíma áður en ég notaði það. Eftir að ég tók blönduna út úr ísskápnum bætti ég lyftiduftinu við. Þessi geymsla kom ekki að sök.
Þar sem crepe pönnukökur eiga að vera stórar og þunnar þá er yfirleitt notuð sérstök crepe panna og spaði til að dreifa úr deginu og gera þær fínar. Þar sem ég er ekki svo vel búin notaði ég bara léttilega spamaða pönnu og spaða. Kökurnar urðu því aðeins minni og þykkari en þær eiga í raun að vera. Sumar tóku líka á sig kolkrabbaform.
Aðrar eins og sólin... eða manneskja með mjög furðulegt hár!
Flestallar heppnuðust þær nú vel og urðu fallegar í laginu, ekki að það skipti máli, þær voru svo ofboðslega góðar! Enn önnur vel heppnuð tilraun! Það held ég nú. Viðstaddir höfðu um tvennskonar uppfyllingarefni, í crepe-inn sinn, að velja. Sætt crepe. Ávextir, kotasæla, kanill, dulce de leche karamellusósa eða...
...kjúklingur, grænmeti, hummus og ostur. Og nei, ég held ég sé ekki að breytast í "Konuna sem kunni bara að elda huummuuus"! Hann er bara svo sérlega fínn í allt svona!
Ég fékk mér tvær crepe, aðra með sætu að sjálfsögðu og hina með ósætu. Báðar voru meiriháttar góðar. Það eru líka endalausir möguleikar á því hvernig best sé að fylla þessar pönnsur. Banani, hnetusmjör, sulta, súkkulaði, hnetur, hummus og ostur, AB-mjólk og ávextir.. æji, þið vitið hvert ég er að fara með þetta. Haamingja!
Hér er önnur snilldin í bígerð, ómæ, sjáið hvað þetta er hræðilega girnó! Kotasæla, jarðaber, hindber og smá kanill.
Hér eru félagarnir saman komnir. Berja crepe og kjúklinga, hummus og grænmetis crepe. Mmmhmm!
Æhj þetta var svo gott. Gaman að borða þessar pönnsur. Teygðust skemmtilega þegar maður var að vefja þeim utan um gúmmulaðið, gaman að bíta í þær og bragðið af þeim ó svo brilliant. Ofboðslega lítið af sykri mín kæru, nánast ekkert. Flókin kolvetni, hollar fitur. Hvert stykki eru um 75 hitaeiningar - það er ekki neitt. Bara ef þið hefðuð nú verið á staðnum og fengið smá smakk! En þið verðið víst að láta myndirnar nægja...
... þangað til þið prófið að búa til svona sjálf! Húrra!!
Uppáhalds | Breytt 23.9.2010 kl. 21:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
24.5.2009 | 12:37
Grænir dagar - grænir grautar
Gat bara ekki stillt mig! Búin að vera óviðræðuhæf síðan í gær, hugsandi um græna ofurgrautinn og í dag varð hann að veruleika. Mér til mikillar hamingju og gleði að sjálfsögðu! Ég hef nefnt þennan graut því frábærlega nafni Shrek, eða Skrekkur, á góðri íslensku. Hugmyndarflugið svakalegt á þessum annars ágæta sunnudegi. Vonandi verður mér ekki stefnt af Dream Works. Þau hljóta að fyrirgefa mér þegar þau sjá þessa snilld!
Ef þið hafið betri hugmynd að nafni, því ég ætla svo sannarlega að nefna kvikindið, endilega leyfa mér að heyra!
Einn Skrekk takk!
1 dl hafra
1 skammt prótein, ég notaði banana M&M
1/4 banani
1,5 dl vatn
Blender
Hafragrautsmallið
Rúmlega lúka af fersku spínati
Hafragrautsskraut
1/4 niðurskorin banani, smá múslí og dreitill létt AB-mjólk.
Eins og með drykkinn í gær þá var ekkert bragð af spínatinu og grænmetið komið í skrokkinn án nokkurrar fyrirhafnar. Snilld að gefa krökkum svona, grænt monster, í morgunmat. Ég er alveg að fíla þennan lit í botn. Þarf svo lítið til að gera mig glaða.
Með próteininu kostaði þessi máltíð mig rúmlega 370 hitaeiningar. Án próteins, 170 hitaeiningar og með hreinu próteini um það bil 270. Meiriháttar!
Uppáhalds | Breytt 23.9.2010 kl. 21:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.5.2009 | 16:34
Allt er vænt sem vel er grænt
Grænt monster!
Hef lengi viljað prófa að búa þetta til og lét loks verða af því í dag. Varð ekki fyrir vonbrigðum! Ekkert nema jákvætt og rosalega bragðgott! Kom mér skemmtilega á óvart. Manni líður líka svo vel eftir að hafa gúllað þessu í sig, prótein, ávextir, grænmeti - allt undir sama hatti! Svo er spínat svo gott sem laust við hitaeiningar, ef þú ert í þeim gírnum. 30 grömm spínat = 7 hitaeiningar og milljón vítamín. Hollt, hollt, hollt. Drykkurinn er líka æðislegur á litinn!
Banana og spínat prótein drykkur - fyrir 2
Morgun-/hádegis- eða kvöldmatur
2 frosnir bananar
2 skammtar prótein, ég notaði banana muscle milk. Má sleppa.
1 bolli ísköld undanrenna/fjörmjólk/sojamjólk...
1 bolli ískalt vatn
Slatti af fersku spínati. Rúmlega tvær lúkur.
Mætti bæta við höfrum, hörfræjum, hnetum, hnetusmjöri....
Þessi verður töluvert þykkari en sá sem ég fékk mér áðan, ef þið fílið ekki svleiðis bara bæta við meiri vökva.
Viðbit
1 frosinn banani
1 (eða 2) skammtur prótein, má sleppa
1 bolli ísköld fjörmjólk/undanrenna/sojamjólk...
1 bolli ískalt vatn
Slatti af fersku spínati. Rúmlega tvær lúkur.
Allt saman í blender og blanda eins og þú eigir lífið að leysa. Mætti setja í þetta klaka, ég sleppti því af því að bananinn var frosinn. Kom skemmtilega út, bragðgott og ekki minnsta bragð af spínati. Kom kannski smá, pínkulítill keimur, ég veit ekki - ég rembdist eins og rjúpan við að reyna að finna fyrir spínatinu en allt kom fyrir ekki. Þetta er æði og þessu ætla ég pottþétt að koma inn í matardagskrána mína. Hversu mikil snilld er það að fá grænmetisskammt í vökvaformi með bananabragði? Spínatið hentar líka svo vel í mall sem þetta því það er tiltölulega hlutlaust á bragðið. Gleði...
... ég sé grænan hafragraut í minni nánustu framtíð!
Uppáhalds | Breytt 23.9.2010 kl. 21:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.5.2009 | 13:58
Hafra- og heilhveitipönnsur

Hvað er betra en að starta deginum á klippingu og pönnsum? Þó aðallega pönnsunum!
Mínar uppáhalds eru að sjálfsögðu mömmupönnsur. Þunnar með götum, smá gúmmíkenndar og bragðið af þeim - maður minn. Ís, súkkulaðisósa, jarðaber, rjómi og mömmupönnsur = gleði! Ekkert sem stenst þær!
Annars bjó ég til hafra og heilhveitipönnsur í hádegismat í dag og CAL-A-ZON-AY úr afgangs deginu síðan á miðvikudaginn! Pönnsurnar eru eitthvað sem ég er að prófa í fyrsta skipti og herre gud hvað þær voru fullkomlega æðislegar! Þykkar, mjúkar að innan, stökkar að utan - eins og ekta amerískar ef þið fílið svoleiðis. Búin að vera að róta í gegnum allskonar uppskriftir á netinu og sauð þessa saman úr nokkrum sem mér leyst vel á. Svo tekur svo stuttan tíma að búa þær til, ótrúlega fljótlegt, fá hráefni mjög einfalt. Ég er að segja ykkur það, prófið þessar, þið verðið ekki fyrir vonbrigðum! Þær eru æææði!
Hafra- og heilhveitipönnsur í morgun- eða hádegismat!
1 bolli létt AB-mjólk
Hræra vel saman, verður eins og þykkur hafragrautur. Setja út í hafrablönduna eftirfarandi hráefni:
1 egg
2 msk olía
1/4 bolli heilhveiti
smá agave sýróp eða hunang
1 tsk lyftiduft
kanill eftir smekk, ég notaði að sjálfsögðu slatta
Þið kunnið þetta... blanda vel!
Eftir ofurblöndun skúbba deginu með matskeið eða t.d. ísskeið á meðalheita pönnu. Ekki hafa áhyggjur, degið á pönnunni lítur út eins og hrúga af graut, það lekur ekki út sjálft. En um leið og þið snúið klessunni við, þá skuluð þið nota bökunarspaðann og ýta ofan á pönnsuna, steiktu hliðina, til að fletja hana út. Gott að gera þetta svona því annars klístrast degið allt við spaðann ef þið reynið að fletja hana út strax. Einnig, þegar pönnsan er flött út eftirá, þá ráðið þið hversu þykk hún verður. Ég hafði mínar kannski sentimeters þykkar, rúmlega, enda urðu þær líka ooey gooey í miðjunni. Mjúkar og djúsí, ekkert þurrar. Ótrúlega gott!
Af pönnsunum er sætur keimur, ekki of sætur þó og dauft kanilbragð í lokin. Skemmtileg áferð, stökkar að utan, mjúúkar og djúsí að innan, gómsætar. Mikið er ég glöð að hafa látið á þetta reyna. Geri þessar pottþétt aftur og bæti þá einhverju gúmmulaði í degið. Hnetum, banana, fræjum... endalausir möguleikar. Ég fékk mér tvær, toppaði aðra með krömdum banana, hnetusmjöri, sykurlausri sultu og valhnetum.
Hina masteraði ég með smá kotasælu, eplasneiðum og dust af kanil. Bjútifúl! Stútfullar af flóknum kolvetnum, trefjum, smá próteini - væru æðislegar í morgunmat!
Til að toppa hádegismatinn fékk ég mér svo nokkra bita af calzone. Næstum eins og síðast, eggjahvítur, brokkolí, pinto baunir.
Skyr- og létt AB-mjólkur blöndu með pínku sultu, eplum og melónu.
Og að sjálfsögðu eitt stykki ofur Granola stöng í eftirrétt!
Fyrir utan þá staðreynd að allar myndirnar sem ég tók í dag eru með einum eða örðum hætti úr fókus, þá náði ég að klára um það bil allt út úr ísskápnum. Alltaf svo gaman þegar það gerist því þá.. ójá, get ég farið og fyllt hann á nýjan leik með allskonar gúmmulaði!
Uppáhalds | Breytt 23.9.2010 kl. 21:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.5.2009 | 11:16
Fimm stjörnu morgunverður
Var að koma af æfingu og átti í mesta basli með að ákveða hvort það yrði grautur eða einhverskonar skyrblanda í morgunmat. Var í miklum samningaviðræðum við sjálfa mig í bílnum á leiðinni heim úr ræktinni! Skyrið vann! Grautur á morgun - og þvílíkur yndælis morgunverður! Hamingjusamir bragðlaukar og afskaplega þakklátur skrokkur! Er nú samt að herma eftir morgunmat síðustu helgar, þetta er bara of gott til að leppa - segi ykkur það!
Gomma af skyri, frosin jarðaber, smá fjörmólk og prótein í blender. Það má alveg sleppa blessuðu próteininu, gefur bara svo gott bragð og skemmtilega áferð! Blanda þangað til þú segir stopp - ég hef alltaf smá jarðaberjaköggla í minni blöndu, endalaust gleðilegt að bíta í forsin jarðaber!
Skar mér svo niður mango, íískalt mango og hafði með ásamt múslí úr nammiskápnum góða. Svo, af því að það er laugardagur, setti ég í skeiðina sykurlausu sultuna mína og þetta líka eðal möndlusmjör sem ég útbjó um daginn. Mikið svakalega er það gott á bragðið! Með sultunni - ó gvöð - það er svo gaman að vera ég stundum!
Hlakkaði í mér þegar ég fékk mér fyrsta bitann! Einmitt það sem mig langaði í - ferskt, kalt, súrt, sætt, crunch, fluffy, mjúk fullkomin áferð og hvers einasta bita notið í botn! Getið þið álasað mér, sjáiði bara skálina... ég veit þið viljið bita!
Uppáhalds | Breytt 23.9.2010 kl. 20:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.4.2009 | 15:22
Guðdómlega franska súkkulaðikakan hennar mömmu!

Ef þú vilt vera góð(ur) við sjálfan þig á nammideginum þá er þessi súkkulaðisprengja eitthvað fyrir þig. Ekki á holla listanum, alls ekki á holla listanum en án efa á gúmmulaðilistanum. Stútfull af sykri, súkkulaði, smjöri, eggjarauðum, hnetum og almennri hamingju fyrir sykursjúklinga eins og mig! Karamellukennd súkkulaðiklessa, mjúk djúsí og þétt í sér - næsti bær við þykkan búðing! Guðdómleg nýkomin út úr ofninum með rjóma og/eða ís og berjum. Ekkert síðri eftir dvöl í ísskápnum! Besta súkkulaðikaka sem ég veit um! Þessi svíkur engan!
Athuga skal að myndin gerir nákvæmlega ekkert fyrir hana. Ég var bara of gráðug til að taka betri mynd!
Uppskriftin hér að neðan kemur beint frá meistaranum henni mömmu! Þrefalt húrra fyrir henni og súkkulaðibombunni!
Frönsk súkkulaðikransæðakremjuterta.
Bökunartími: u.þ.b.25-30 mín.samt betra minna en meira
Springform:24cm.
Ofnhiti:175-200°C-ég hef 180°C án blásturs í tæplega 25 mín.
Neðsta rim í ofni.
Má ekki frysta-borða strax!
Innihald
180 gr. smjör - 180 gr. suðusúkkulaði eða 70%súkkulaði.
180 gr. sykur (2 dl).
3 eggjarauður.
1dl hakkaðar heslihnetur - aðeins meira ef vill - ég nota alltaf heilan poka frá Líf
held að það séu 100gr.
60gr hveiti (1 dl).
1 - 2 tappar af vanilludropum (tappinn á dropaglasinu).
3 eggjahvítur.
Aðferð:
1. Bræðið smjörið - takið pott af hita - brjóta súkkulaði í bita - bræða það í smjöri - bæta við sykri + eggjarauðum og þeyta eins og mofo (með sleif eða písk).
2. Blanda saman hveiti og hnetum - setja það í súkkulaðihræruna - og hræra aftur eins og mofo
ég nota alltaf sleif. Setja vanilludropana í. Stífþeytið eggjahvíturnar og blandið þeim í deigið.
3. Smyrja formið - dusta það með hveiti - þar ofan í með deigið og inn í forhitaðan ofninn og bakist hið bráðasta.
4. Leyfið kökunni að standa smá áður en hún er tekin úr forminu. Athugið að þessi kaka er vel blaut og ef hún er eitthvað treg úr forminu, þá má bara taka það og smyrja ofan á hana.
5. Ofan á þessa klessu fer síðan eftirfarandi:
Bræða ca. 80 gr af smjöri- setja út í það 100 - 150 gr. af súkkulaði og bræða það í smjörinu - síðan góða slettu af rjóma þar úti og smyrja síðan yfir kökuna. Dusta hökkuðum hnetum eða möndlum yfir. Kæla-kæla. Ef afgangur er af þessu sulli, má bara bera það með þeytta rjómanum sem á að borða ómælt með þessari köku.
6. Síminn hjá neyðarlínunni er 112, ef einhver fær sykursjokk
Uppáhalds | Breytt 23.9.2010 kl. 20:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
4.4.2009 | 23:07
Þriggja rétta mergjuð sjávarréttaveisla!
Nammidagur í dag - kvöldmáltíð vikunnar tekin með stæl!
Ég er farin að kunna vel við þá tilhugsun að borða fisk og fiskmeti. Fiskur hefur fært sig ofarlega á vinsældarlista hjá mér og ótrúlegt en satt, þá fær hann aðeins fleiri stig en rautt kjöt þessa dagana! Fiskur er léttur í maga, bragðgóður og það er auðvelt að elda hann án þess að skemma - sem er að sjálfsögðu kostur fyrir hellisbúa eins og mig!

Í kvöld var ég með þrennskonar fiskmeti. Humar, risa hörpu og smokkfisk. Yirleitt þá er þetta hráefni tekið og kryddað, steikt upp úr hvítlauk og olíu eða einhverju rjómakyns og maturinn er til. Ekki misskilja, það er guðdómlegt og klikkar aldrei, en mig langaði að prófa að útbúa eitthvað aðeins öðruvísi í þetta skiptið.

Þetta var kvöldmáltíð sem verður elduð í annað sinn!
Ferskt mango- og avocado salat með humarhölum og kókos.

Geggjað, kalt og fersk sumarsalat. Tilvalið á góðu sumarkvöldi með yndislegu hvítvíni.
Humarinn var steikur upp úr fiskikryddi og olíu og eftir það kældur. Muna bara að steikja humarinn rétt svo að hann nái smá lit. Annars verður kjötið eins og gúmmí, þá er minna gaman að borða hann. En það er aðallega fyrir matar-áferða perra eins og mig. Ég er mjög hrifin af mismunandi áferðum á hráefnum og hvernig bragðið kemur fram þegar bitið er í tiltekinn bita. Þið vitið hvað ég á við! Er ekki miklu skemmtilegra að borða ís þegar það er nóa kropp á honum? Allavega....
Mango og avocado er skorið í litla bita, ég notaði eitt stk. af hvoru, og sett í skál. Ég bjó til dressingu úr ólívu olíu, balsamic ediki, sítrónusafa og hunangi sem ég svo saltaði og pipraði. Dressingunni hellti ég svo yfir mango-/avocado salatið og blandaði vel saman. Eftir það raðaði ég humarhölunum yfir ávextina, sáldraði kókosflögunum yfir og skreytti með smá steinselju, salatblaði og jarðaberjum. Avocadoið á það til að verða brúnt við geymslu, ef þið viljið losna við það þá er best að setja bitana í sítrónusafa áður en þeim er blandað saman við mangóið. Rétturinn er svo kældur í minnst hálftíma inn í ísskáp áður en hann er borinn fram.

Þetta var meiriháttar góð tilbreyting. Mangóið og humarinn áttu jafn vel saman og súkkulaðisósa á ís. Humarkjötið eilítið sætt/saltað á móti sætunni/sýrunni í mangó ávextinum. Kókosinn er tilvalinn með mangóinu og avocado bitarnir gefa skemmtilega áferð þegar bitið er í þá inn á milli. Rjómakennt avocado kjötið er að sjálfsögðu snilld - þið sem lesið þetta hjá mér hafið eflaust tekið eftir ástfóstrinu sem ég hef tekið við þennan ávöxt! Ég myndi segja að það sé nauðsynlegt að hafa mangóið nokkuð vel þroskað í þessum rétti til að fá sem best bragð og áferð á móti humrinum. Rétturinn er kaldur og ískalt mangóið, bragðsterkt en mjúkt undir tönn, úff. Ferskara gerist þetta ekki. Dressingin kom líka vel út með ávöxtunum og gaf skemmtilegt eftirbragð!
Smokkfiskur (Calamari) hjúpaður með stökkum hafra- og Dukka mulningi.

Hef sagt það áður og segi það aftur. Smokkfiskur er æðislegur. Það er gaman að bíta í hann og áferðin er æðisleg. Pínkulítið gúmmíkenndur en kjötið samt svo silkimjúkt. Minnir mig á humarkjöt, sætur keimur og bragðið að vissu leiti hlutlaust.
Ég byrjaði nú á því að vinna fiskinn og skar hann í þunna strimla. Muldi þarnæst niður hafra sem ég átti inn í skáp, blandaði saman við þá Dukka kryddi frá Yndisauka, smá salti og pipar. Dukka kryddið er blanda af karrý, sesamfræjum og muldum hnetum. Meiriháttar gott! Líka gott að nota það sem ídýfu-mylsnu með baguette og góðri olíu. Smokkfiskinn setti ég svo ofan í hafra- og Dukka mulninginn og hjúpaði vel. Þarnæst steikti ég gúmmulaðið upp úr isio4 olíu og hafði með þessu steiktar gulrætur og sykurbaunir. Æðislegt grænmetisbland til steikingar. Þetta kom snilldarlega vel út. Dukka kryddið er bjútifúl með smokkfisknum og ég fann fyrir hnetunum og sesamfræjunum í hjúpnum. Meiriháttar skemmtilegt bragð og átti vel við. Gaman að bíta í smokkfiskinn þar sem kjötið sjálft er flundurmjúkt á móti krydduðum og stökkum hafrahjúpnum. Æðislegt!

Smokkfisk kjötið krullast líka svo skemmtilega upp þegar það er eldað. Þó það geri það reyndar ekki á myndinni hér til vinstri!
Það er gleðileg upplifun fyrir átvagl eins og mig að borða smokkfisk.
Risa hörpudiskur með karmelliseraðri döðlu, vafinn inn í kalkúnaskinku ásamt hunangsristuðum bönunum, gómsætri bananaskyrsósu og ristuðum möndlum.
Punkturinn yfir I-ið. Þetta var uppáhalds rétturinn minn þó þeir hafi reyndar allir slegið í gegn. Ég er sykursnúður og það vita það allir sem þekkja mig. Þessi réttur var sætastur af þeim öllum og kom skemmtilega vel á óvart. Banani, daðla, skinka og hörpudiskur - æðislegt, æðislegt bland!

Útbjó svipaða dressingu fyrir hörpuna og ég útbjó fyrir mango- og avocado salatið. Balsamic edik, olía, hungang, sítróna og smá fiskikrydd. Marineraði fiskinn í rétt rúmar 15 mínútur. Mætti þó alveg vera lengur. Á meðan kjötið marineraðist þá skar ég einn banana til helminga og steikti á pönnu. Hér væri að sjálfsögðu langsamlega best að grilla kvikindið en ég var ekki með grillið uppi við. Saltaði bananana eilítið og smurði með hunangi, steikti þangað til karamelluhjúpur hafði myndast utan um þá og tók þá af pönnunni. Í leiðnni skar ég niður döðlur og steikti samhliða - rétt til að mýkja og hita. Þar næst var harpan tekin og léttsteikt á pönnu til að fá utan á hana stökkan hjúp. Henni pakkað inn í kalkúnaskinkuna og döðlubitunum raðað ofan á hvern hörpudisk. Þessu var svo öllu skúbbað inn í 180 gráðu heitan ofn, ásamt bönunum, og eldað í 5 - 6 mínútur. Þá var harpan orðin perfecto! Stökk skel, mjúk í miðjunni. Skinkan orðin stökk, saltbragðið í henni búið að brjótast fram og döðlubitinn orðinn crunchy eins og karamella. Bananarnir karamellukenndir og mjúkir - hryllilega góðir maður! Uss.

Með þessu bjó ég til banana skyr sósu. Köld sósa, létt með sætum keim að sjálfsögðu. Stappaði vel þroskaðan banana, blandaði saman við skyr og eina matskeið af sýrðum rjóma. Ein tsk hunang, smá dijon sinnep og pínkulítið af salti. Stráði svo yfir þetta ristuðum möndlum og viti menn, himnesk sósa! Dijon sinnepið gefur líka alltaf svo skemmtilegt bragð, sérstaklega þegar notað er súrt hráefni eins og skyr. Sætan í banananum vinnur líka vel á móti sýrunni og hunangið gefur skemmtilegt eftirbragð. Sýrði rjóminn var svo til að milda allt og þá smallt þetta svona líka vel saman.
Ég veit ekki hvar ég á að byrja! Saltið í skinkunni á móti sætri döðlunni er eitthvað sem við þurfum ekkert að ræða. Daðlan var líka orðin crunchy sem gaf skemmtilegt kikk í hvern bita. Sætan í réttinum vann líka svo vel á móti hörpunni, stökkri skinkunni og kryddinu og leyfði kjötinu alveg að njóta sín. Enginn yfirgangur í skinkunni, þó það hefði alveg mátt nota hráskinku, held ég prófi það næst. Bananinn og skyrsósan voru svo alveg til að fara með sykurfíkilinn í mér. Allt innan skynsemis-sykurmarka þó, og sætan í réttinum kom aðallega frá döðlunum og banananum. Held ég hafi notað, allt í allt, tæplega 2 tsk af hunangi í þetta lostæti! Biti af skinku, hörpu, döðlu, skyrsósunni, hunangsristaða banananum og möndlunum - guð... minn... góður! Öll þessi brögð og mismunandi áferðir - fullkominn biti! Salt, sæta, smá sýra, stökkt kjöt á móti mjúku kjöti og allt vann þetta fullkomlega vel saman. Jesús minn - trúi því ekki að maturinn sé búinn!
Vonandi varð ykkur að góðu í kvöld mín kæru því mér varð það svo sannarlega!
Kvöldmaturinn eins og hann lagði sig!
Om nom!
Uppáhalds | Breytt 23.9.2010 kl. 20:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)