Færsluflokkur: Hugleiðingar

Næstu vikur og mánuðir - hmm?

Jæja mín kæru.

Nú er allskonar gleðilegt skemmtilegt að fara að ske. Kemur í ljós á næstu dögum.

Í kjölfarið er ég búin að vera að spögúlera smá. Bootcampfið mitt var að klárast. Það er, námskeiðin tvö sem ég hafði skráð mig í, í sumar. Ræktarkortið mitt fer að renna út á næstu mánuðum og ég fann þessa síðu! Opnaði mín augu töluvert.

Þó svo síðan sé hallærislegri en allt hallærislegt, skvísan með boobies fyrir allan peninginn og allar æfingarnar gera út á the hotness of it all "Sexy butt bootey workout" þá tekur maður vel eftir því að þau eru að gera svolítið grín að þessu og gera út á að sýna allt sem hægt er að sýna innan velsæmismarka.

Þetta stelpurassgat er að stunda svipaðar intervalæfingar og ég hef verið að dunda mér við í frístundum, 10 - 30 min æfingar. Stundum daglega, stundum annanhvern dag, með sína eigin líkamsþyngd í flestöllum tilfellum, og hún lítur þrusu vel út! Hef tekið nokkrar æfingar sem finna má á þessari síðu og þær eru svaðalegar skal ég ykkur segja! Virkilega, virkilega erfiðar margar hverjar og hún er í massa formi þetta kvekendi! Tók t.d. eina í morgun og hélt ég myndi andast!

Virkilega erfið.

Núna er ég búin að vera í átfríi. Það vita nú flestallir sem lesa þessi skrif mín. Ég fór því að spá og spögúlera m.v. gefnar aðstæður, át og ræktarlega séð. Jú, jú... það gerist stundum að hjólin snúast.

En bara stundum. 

Hvort ég ætti að prófa að taka t.d. 4 - 8 vikur, í nákvæmlega sömu æfingar og hún er að stunda, og sjá hvort þor, þrek og form batni? Sjá hvort 12 min ofuræfingar, án lóða/rætkarhúss/námskeiða, haldi manni við ásamt hreinu og góðu matarræði? Hugsið ykkur bara. Þá gæti maður barasta gert þetta heima hjá sér á nó tæm, enginn kostnaður, ekki neitt bílavesen fram og til baka... gæti orðið svolítið forvitnilegt ekki satt? Þarf samt að gefa sig allan í þetta og aldrei stoppa - maður á að deyja drottni sínum í þessum blessuðu sprettum.

Ég myndi þá pósta öllum æfingum sem ég geri + matarræði + fyrir/eftir myndum og við getum ákveðið í sameiningu hvort þetta sé þess virði/kostur fyrir þá sem hafa t.d. lítinn tíma yfir daginn nú eða lítinn pening milli handa/fóta. Þið gætuð jafnvel gert æfingarnar með mér, með henni, og við tekið stöðuna að 6 vikum liðnum?

Bootcamp stendur þó fyrir sínu, ræktin líka, og í guðanna bænum, að kaupa ræktarkort eða Bútkampf námskeið er ekkert nema fjárfesting í heilsunni -  þú kemur aldrei til með að "tapa" pening á því.

Væruð þið til í þetta með mér?

Ætla að hugsa þetta aðeins. GetLost


Ástralía 1 - Ísland 1

Útlendingurinn kom og hann fór. Hann naut Íslandsins í botn og ég svoleiðis stútfyllti mannin, og sjálfa mig, af allskonar bjóði og óbjóði. Honum, og maganum á mér, til ævarandi hamingju og gleði þó.

Hr. Jújú: "Hvað er þetta... má borða það... oj Elín ekki með sjöri... mmm, kanilsnúður".

Efst á lista Ástralans:

Mömmumatur - smokkfiskurinn bara det beste som er ásamt ómynduðum pönnsum ofl.

Ég ætlaði út með hann að borða en hann bað, mjög auðmjúkur, um smokkfiskinn hennar mömmu í staðinn. Hann fékk því smokkfiskinn í tvígang.

smokkfiskur

Fjöruborðið.

humar

Pulsur - enginn steiktur eða hrár. Bara sósurnar ásamt kókómjólk.

pulla ok kókómjólk

Skyr - græna vanilluskyrið sökum vanillukorna. Ef hægt er að kalla mat "sexy" þá þykir þessum kokki matur, sem inniheldur alvöru vanillukorn, mjög svo kynþokkafullur.

Danska kirsuberjasósan með risalamande!

Kanilsnúðar, ásamt kókómjólk.

Appelsín.

Íslenskt smjör.

Nóa Kropp.

Daim - ekki íslenskt, en elskað og dáð af herra Nýja sjálandi.

Hann gaf ekki mikið fyrir:

Lunda, lyfrarpylsu og blóðmör, harðfisk, sviðasultu og án efa eitthvað annað sem ég man ekki í augnablikinu. En borðaði það samt sem áður.

Svo fékk ég þær fréttir í gær að til hans hafi komið einstaklingur frá Bretlandi, færandi hendi, með þurrkaðan Steinbít og sagði "Ég er hérna með glænýtt smakk frá Íslandi, þetta er ofursmart og exotískt í eldhúsið hjá þér maður". Jújú horfði á gumsið mjög svo snöggt og snarlega, góndi svo á Bretann, hló pínkulítið, og bað hann vel að lifa. Þessi ófögnuður ætti hvorki heima í hans sérlega eldhúsinu eða upp í áströlskum munnum.

Takk fyrir það. Íslenskur harðfiskur tekinn og snúinn niður á ljóshraða. 

Ofurát og ofurskemmtilegheit eru þó að baki. Virkilega gaman að upplifa landið ljúfa kæra í gegnum óundirbúin(n) augu/eyru og maga. Skemmtilegra en ég átti von á - borðaði hinsvegar jafn mikið og ég átti von á. Ótrúlega gleðilegt að taka át-letifrí með lærðum kokki, get svo svarið það, átvaglið naut þess í blússandi botn.

Hr. Jújú:  "Hvernig ætli.. hmm.. örugglega smá paprika í þessu ooooog... " *smjatt* "...chilli..." *smjatt* "...hefur samt líklegast verið látið sitja í pottinum í allan dag, ekki vont, en gæti verið betra".

Átvaglið: :D

10 dagar síðan ég hreyfði á mér rassinn. Ég er búin að éta eins og bestía og ég grínast ekki með það. Þetta var ein... stór... veisla... í 10 daga. Held ég hafi náð að gúlla jafn miklu og ég gerði á meðan ég var í Ástralíunni, get svo svarið það, og *gleði* hvað átvaglið hafði það ljúffengislega fínt.

Verður samt notalegra en brakandi hrein rúmföt að komast aftur í spriklið. Fór af stað, galvösk, í fyrradag. Tók einn intvervalhring og hélt ég myndi ekki hafa það af. Já lömbin mín, þetta er fljótt að láta sig hverfa. Það er því bannað að halda að maður geti verið duglegur í 2 mánuði, éta og vera latur í 10 daga, og taka upp hanskann þar sem frá var horfið. Oneiiii...

...tekur smá tíma að ná þessu upp aftur, en ef þú byrjar um leið og át-tíðin er yfirstaðin, þá tekur það skemmri tíma en það tæki ef þú tækir þér t.d. eina auka átviku sökum leti. Sparkaðu í rassgatið á sjálfri(um) þér og komdu þér aftur í gírinn. Jííhaaaw.

Nú verður þessi mánuður tekinn með tvöföldu trompeti, interval og Bootcamp í bland við almenna hamingju og EKKERT sukk næstu 3 vikurnar. Jebb. Ég er búin að éta nóg. Reyndi meira að segja að éta útlendinginn...

euanella

...það gekk illa. Vantaði allan kanil á hann.


Uppáhalds óþolandi staðir

Við eigum öll okkar uppáhalds óþolandi staði utan á búknum.

Staðir sem fá okkur til að froðufella af einskærri biturð eftir erfiðan ræktarmánuð.

Staðir sem við skellum okkur á hnén yfir, buguð, og öskrum "AF... HVERJU... HVERFUR'Ð'EKKI?"

Staðir sem láta mann fá samviskubit ef brennslutækjunum er ekki refsað 24/7.

Staðir sem 99% líkur eru á því að ENGINN taki eftir... nema þú!

 

Mínir "uppáhalds" og í uppáhalds röð, fyrsti verandi minn besti... besti vinur:

Ruslakistan: Fyrirlít og hata heitar en þurrar ógeðslegar rauður.

Tu...ubumba (það sem systir mín kallar þetta, of hræðileg nafngift fyrir þennan vettvang, afsakið): "Krúttaralega" bumban sem safnast undir naflanum og býr til fallegan björgunarhring þeagar hún og ruslakistan bindast vinaböndum og ákveða að djamma.

Lærkúlur: Hafa verið óvinir mínir hingað til. Er samt með læri og rass eins og Ítöslk ofuramma... en, er farin að kunna að meta lærin og kúlurnar sem þeim fylgja. Góð læri og góður rass, alveg málið.

Handakrikafitan: Ekki feitur handakriki, nei.  Litlar kúlur/fellingar/bungur sem myndast á milli bjósts og upphandleggs. Ég kenni DNA um, súkkulaði safnast ekki saman á svona forboðna asnalega staði. Hvað er samt málið með kálið??? Iss... Er að spá í að færa þennan uppáhalds elskustað þar sem lærkúlurnar liggja í dag. Elskulegar lærkúlurnar!

Upphandleggir: B*I*N*Ó - BINGÓ!

Bakspik: Dýrðin sem býr til brjóstahaldarafellinguna góðu.

weight-loss-frustration

Held það séu fleiri í sama pakka hvað uppáhaldsstaði varðar og hjálpi mér allir heilagir hvað ég hef eytt miklum tíma í að toga, tæta, slétta úr, spegla, snúa...

Mitt ráð til ykkar. Get over it! Lærið að öölska þessa staði. Þeir eru þarna, þeir fara með tímanum ef maður er duglegur. Stundum fara þeir ekki nema að svo miklu leiti því matarræðið þarf að vera 152% platínum með demantsrönd og stundum er DNA pastaskrúfan á öðru máli. Það sem meira er, sama hversu mikið þú togar spiksvæðin fram og til baka, þau verða aldrei nákvæmlega eins og þú vilt. Fyrir utan það að þegar vondsvæðið hverfur loks, þá tekur alltaf eitthvað annað við. Þú getur gónt á bumbuna án þess að blikka þangað til augun breytast í rúsínur. Þú nærð samt aldrei að góna svo stíft að bumban veðrist í burtu.

Sem væri óskaplega hentugt engu að síður!

Hund helvíti fúl rassgata staðreynd. En staðreynd engu að síður. Maður virðist aldrei geta verið kátur í eigin skinni. Ber sig stanslaust saman við hina og þessa. Ekki að gera sig. Þinn skrokkur, þín beinabygging er allt önnur en hjá manneskjunni á móti þér. Ef þú ert með stærri rass en manneskja X, þá er hann bara stærri. Það er pottþétt einhver að góna á handleggina þína og dáðst að því hvað þeir eru fínir.

Það er alltaf.... alltaf einhver sem væri til í að líta nákvæmlega eins út og þú.

Vertu bara fegin(n) að þú getir hreyft þig. Vertu þakklátur fyrir það sem þú átt og knúsaðu amk. einn sem þér þykir vænt um á hverjum degi. Svolítið bakspik bliknar í samanburði við heimsins vandamál.

Ég er ekki að gera lítið úr markmiðum fólks með þessum orðum en stundum er ágætt að líta á sín "vandamál" út frá stærri mynd til að koma sér aftur á jörðina.

Hvað með það þó ruslakistan bólgni svolítið út um jólin og sé ekki spegilslétt eftir 7 mánaða ofurátak. Sérstaklega ef þú ert búin(n) að vera duglegur, lifir "hollu" líferni dags daglega, ert í hraustum skrokki. Hvað er smá mör milli vina hey? Náttúrulegra verður það ekki og línur skipta sköpum. Hreyfðu þig bara aðeins meira/borðaðu aðeins minna ef buxurnar fara að þrengja að og þér líkar það illa.

Svo lengi sem sálin er kát og þú sáttur við erfiði dagsins, sama á hvaða sviði það er, þá erum við að dansa.

Dansa? Yes pölís!

Ella predikunar llama alveg á yfirsnúning. Kenni Buddha skálunum um.

úhh... ég gleymdi næstum hádegismatnum. Hann var... ekki spennandi. En gerði sitt gagn.

Grænt og eggjó

Rip, rap en vantar rup

Getið mínusað rasphlunkinn þarna á kanntinum, plúsað þremur eggjahvítum við og öðrum disk af grænmeti. Bæta svo við þá útkomu lúku af blönduðum hnetum og átvaglið er sátt.


Afrakstur helgarinnar og heilræði

Tók minn tíma í að losna við viðbjóðspestina. Ógeðis 24 tíma ódýr með meiru. Slokknaði jafn hratt á henni og kviknaði.

Sem betur fer hefur evil jesus yfirgefið systemið. Megi hann eiga sig og sitt hitamúkkandi sjálf eins lengi og kostur er á!

Takk fyrir pent.

Amen.

Þrátt fyrir miður skemmtilegan fimmtudag og "sofum þetta úr okkur" föstudag, náði ég samt að framkalla þetta.

Hafrakökur - morgunverðakökur með rúslum

Og þetta!!!!

Eplakaka með pecan-speltbotni

Ég mæli ekki endilega með þessu!

morgunverðarkaka

En ég mæli með þessu!

Óguðogallirenglarnir. Meira að segja evil jesus.

Þetta er ein... góð... eplakaka!

*gleðihopp*

Eplakaka með pecan-speltbotni

Og eitt "hollustu" baksturs heilræði, til þeirra sem ekki vita, varðandi smjer-/olíunotkun í bakstri.

Þið sem vitið - hendið til mín beini!

Í staðinn fyrir smjör/olíu er hægt að nota maukaða ávexti í baksturinn. Jafn mikið af maukuðum ávöxtum og uppskriftin kveður á um í öðrum fitugjafa. Ekki það að smjör og olía sé á vonda listanum mínum, ó svo langt í frá mín kæru.

Smjör fær mig til að brosa!

En prófið. Eplamauk, sveskjumauk.... Þurfið svosum ekki að útbúa það sjálf, geitð keypt það krukkað og fínt í hinum ýmsu verslunum. Eplamauk er fullkomið í t.d. súkkulaðilausan bakstur eins og súkkuaðilausar-muffins/brauð/botna á meðan t.d. sveskjumauk er betra í súkkulaðikökur og súkkulaðigums. Það er í raun bara sökum áferðar/bragðs. Sveskjumauk er aðeins "þyngra" ef svo má að orði komast.

Uppskrif væntanleg af eplakökunni. Kannski kökumallinu sem ég mæli ekki með líka... sé til með það.

Og já... þessi eplakaka er á "holla" listanum.


Léttir dagar

Ég er enn forviða.

Jú, hef náð því geypilega markmiði að verða svöng í dag en ekki í neitt sérstakt. Veit ekki hvað ég gerði af mér um helgina, en eitthvað óæskilega hroðbjóðslegt hef ég náð að innbyrða. Dagurinn í dag hefur verið æði léttur og laggóður. Samt sem áður líður mér eins og 100,4 flóðhestum hafi verið raðað ofan á hausinn á mér og uppblásinni blöðru komið fyrir í bumbunni.

Másandi hvásandi hveli - ef ég þyrfti að fara í Kampið núna myndi blöðrukvendið hvellspringa í fyrsta frosk. Eigi yrði það fögur sjón!

Ughhh! Fnas! Hrmph! Blagh!

Kjúklingasúpa og grænmeti fyrir 700 manns. Dugar okkur Ásbúðingum í 4 daga. For helvede. Léttara verður það nú varla...

300 lítrar af súpu

Geypilega góð

...nema ég gleypi súrefni í tonnavís.

Fyrr mun þó frjósa í helvíti áður súrefni verður það eina sem ég ét. Þarf ansi margt að ganga á áður en sá dagur rennur upp. Áferðar- og bragðlaust með eindæmum.

Mjög hitaeiningasnautt.

Frekar japla ég á sítrónuberki!

Bwwlaarggh!


Tímamót

Almáttugur.

Ég skil þetta ekki.

Ég er svo hissa... að ég varð að blogga. Ég er ekki einusinni með mynd handa ykkur í öllu hissinu.

Ég bara varð að deila þessu.

Grautur klukkan 8. Eins og vanalega.

Ofursvengd átti sér stað klukkan 11:00. Eins og vanalega.

Ofursvengd svalað með kannski 2/3 af 140 gr. hambó og tonni af grænmeti. Ekkert meira en vanalega.

Síðan þá hef ég ekki fundið fyrir hungri!

Ekki einusinni smá!

Shocking

Ég fékk mér samt skyr og hnetur klukkan 3.

Ég fékk mér samt eina Fitty með tómötum fyrir æfingu.

Ég fékk mér samt þorsk og kartöflur eftir æfingu.

Ég hefði samt vel getað verið án þess. Skyrið hefði reddað mér fram að kvöldmat.

Ég bara...

...á ekki orð!

Ég veit það er "rétt" að borða minna og oftar.

Það er bara ekki nærri því jafn skemmtilegt að borða ef maður er ekki pínku svangur til að byrja með. Engin sérstök lyst. Engin sérstök át-ánægja.

Ég vona að þetta sé einsdæmi.

HVAR ER SVANGIÐ MITT?

Crying


Bootkampf niðurstöður

6 vikur yfirstaðnar. Magnað hvað tíminn líður hratt. Sumarið alveg að verða búið.... og jó.. aaaalveg að mæta á svæðið! Woohooo!

Jæja - segið svo að Kampið skili ekki árangri og æðislegheitum! Þolið, bæði lungna og vöðva, allt að koma til. Þetta er ekkert nema gleði.

Hlaup - 2,3 km

  • gleði23.06 - 12.5 mínútur
  • 04.08 - 10 mínútur

Froskar með hoppi

  • 23.06 - 20
  • 04.08 - 38 (hey, meira en ég hélt um daginn *gleði*)

Armbeygjur

  • 23.06 - 30 (12 á tánum)
  • 04.08 - 35 (27 á tánum)

Situps

  • 23.06 - 30
  • 04.08 - 62

Þyngd

  • 23.06 - 60.4
  • 04.08 - 58.4

Fituprósenta

  • 23.06 - 20.3%
  • 04.08 - 15.5%

Þar hafið þið það! Þetta eru kannski engar súpertölur en þetta er byrjun og bæting á öllum sviðum!! Það er geðveikt! Tala nú ekki um þessi tvö kíló í mínus og 5% skafið af í mör. Bjóst samt ekki alveg við því, en hey... bónus! Stefni á ennú betri tíma og skor á næstu 6 vikum þar sem ég er enn að lufsast í einhverju sem kallast "fínt" í þolprófinu en ekki "framúrskarandi".

Átvaglið skal verða.... framúrskarandi! Cool

Þarf líka að bæta í átið til að auka hjá mér styrkinn. Næst á dagskrá!

Og já, ég held það nú aldeilis sérdeilis, mér líður nákvæmlega eins og á myndinni!


Útlitsbreyting ekki besti mælikvarðinn

Hvað er það sem flestallir leita eftir þegar talað er um árangur?

Flestallir.

  1. Kílóafjöldi á niðurleið.
  2. Útlitsbreytingar.

Ég held ég sé ekki að fara með rangt mál hérna.

Atriði 1 er margrætt og skal eigi tekið fyrir í þessum pistli þar sem átvaglið fyrirlítur þann lið jafn heitt og köngulær.

Við skulum því heldur ræða lið 2 og njóta gulu gleðisprengjunnar í dag.

Stærsti vandi hvað þessar árangursmælingar varðar er í raun og veru tími. Tíminn verður þinn versti óvinur. Eftir mikið strit og erfiði er kannski lítið sem ekkert farið að gerast, varðandi atriði 1 og 2 hér að ofan, og þú missir móðinn. Það getur hinsvegar tekið nokkra mánuði áður en þú byrjar að sjá árangur erfiðisins, sérstaklega ef þú ert að taka þín fyrstu skref í átt að breyttum líffstíl. Þú léttist kannski já, sérð smá vöðvatón - en bitur raunveruleikinn bíður ekki upp á neitt annað en tíma og þolinmæði hvað sýnilegan árangur varðar. Gefðu þér góða 2 - 3 mánuði áður en breytingar á skrokknum fara að verða spegilhæfar. Janvel lengur ef matarræðið hefur ekki verið réttu megin við línuna og hjá mörgum er það ansi stórt ef.

Þar af leiðandi, þó svo útlitsbreytingar séu einn helsti og besti hvatinn, eru þær ekki sá hvati sem best er að einblýna á. Það eru allir að leita eftir hinum fullkomnu handleggjum og maga sem fengi Arnold frá Svartsengi til að roðna. Það er bara svo oft sem gleymist að horfa á þann augljósa ávinning sem hreyfingin sjálf skilar þér:

  • Aukið úthald, þrek, styrkur, liðleiki
  • Minna stress/hvíði
  • Betra skap og meira sjálfstraust
  • Þú verður hreinlega hamingjusamari
  • Afkastar meiru yfir daginn

Er því ekki ágætt að leggja útlitsbreytingarnar á hilluna til að byrja með? Alfarið? Smá stund? 

Samt sem áður er það sorgleg staðreynd að besta hvatann sé erfiðast að mæla. En þannig er það svo oft. Maður missir brauðsneiðina alltaf á smjörhliðina gott fólk og gullpeninginn úr klinkhrúgunni. Ef þetta væri ekki erfitt, ef það væri ekki erfitt að byrja, þá litu allir út eins og grískir guðir, lifðu hollu líferni, borðuðu "rétt"...

Það sem mér persónulega þykir best að gera, hvað útlits mælikvarðann varðar, er að taka myndir af sjálfri mér á fyrsta degi. Ekki móðursýkjast í spegli á hverjum degi yfir því að ruslakistan sé enn á sínum stað og bakspikið lafi yfir brjóstahaldarann. Heldur taka aðra mynd eftir 60 daga og sjá muninn. Nota svo föt og mæliband sem viðmið og henda vigtinni út á hafshauga...

...eða nota hana til að vigta kettina mína.

Skrokkurinn virkar bara ekki á þann veg að þú getir sagt "Ahh, það er árshátíð eftir tvo mánuði. Ég ætla að vera búin að losa mig við lærpokana fyrir þann tíma" og svo BAMM... árshátíð í næstu viku og lærpokarnir ekki orðnir jafn smáir og vonast var eftir. Býður ekki upp á neitt annað en svekkelsi, pirring og uppgjöf.

Hananú.

Hænunú?

Ekki fylgjast með árangri dag frá degi, góna á ykkur í spegli marga klukkutíma í senn grátandi yfir því að rassinn sé ekki byrjaður að umbreyast í kúlu. Það sjást ekki breytingar strax eftir brennslu, lyftingar... hvað sem er. Þetta tekur tíma og kúlurassar verða svo sannarlega ekki til yfir nótt!

Nema þú gerir einhverjar svaðalegar rassaæfingar í svefni og uppskerir stórmerkilegra stél en Jennifer Lopez hefur að skarta. Ef svo er - þá vil ég fá að vita hvurslags æfingar það eru!

Gefið ykkur tíma og njótið þeirra forréttinda að fá, og geta, hreyft ykkur. Ekki stressa ykkur yfir því að komast ekki í hreyfingu dagsins eins og planið gerði ráð fyrir, þið hafið nefnilega restina af lífinu til að "vinna það upp". Með tímanum fylgja svo útlisbreytingarnar og ef þið haldið ykkur við efnið þá verður "viðhaldið" mun auðveldara.

Ahh - Ella llama dagsins.

Yfir og út kjúklingar!


Hugulsemi

Ég bara varð að deila þessu með ykkur.

Ég varð alveg eins og nýlöguð rjómabolla þegar ég sá þetta og las. 

Marsibil sendi á mig eftirfarandi póst og myndir!

---

hæhæ ég er kölluð Billa og er búin að vera að fylgjast með þér, ekkert smá flottar og góðar uppskriftir, ég er að fara að búa og ég er búin að vera að dunda mér í að copya og pasta uppskriftirnar í word, minnka myndirnar og setja þetta fínt upp, kom þessi fína uppskriftarbók útúr því Takk kærlega fyrir það ;) gott að hafa svona bók í búskapinn, hlakka til að sjá fleiri uppskriftir frá þér og auðvitað bæti ég í safnið ;) skoða síðuna á hverjum degi. Takk fyrir hugmyndirnar, þær eiga eftir að nýtast vel ;)
KV.Billa

ómægod!

Svona fínt

Ómægúdness, ég bara á ekki orð. Sjáið hvað þetta er glæsilega fínt? Að taka sér tíma og gera eitthvað svona!

Heil bók

glæsó

snúningspönnsan

Svo mikið kát í hjartanu, svo mikið meira en bara uppi með mér. Ekki það að ég vilji vera að blása í mitt eigið horn hérna, (enskan alveg að gera sig) þetta er bara svo mikil hugulsemi af þér Billa mín, senda á mig póst og sýna mér.

Það leynast perlur allstaðar og þú mín kæra ert svo sannarlega ein perlan. Þú gerðir daginn minn mjög bjartan með þessum pósti. Þótti virkilega vænt um þetta framtak. Blush

Bestu þakkir fyrir. InLove


Kvöldnart

Held það séu fáir sem ekki hafa upplifað nartþörfina sem leggst yfir líkama og sál á kvöldin. Eitthvað við það, lært eða ekki, að sitja fyrir framan sjónvarpið í gúmfeyfötum með nasl og nart og smakk og smú. Er svoddan ofur kósý stemmari yfir því.

Fyrir utan þá geigvænlega mikilvægu staðreynd, hreinlega, hversu gott það er að borða eitthvað Cool

Sumir eiga það líka til að tilfinningaborða, ég er ein af þeim, ofurkát og beint í kökuna. Mikið stress og ekkert fer inn fyrir varirnar. Sjokk eða súri, kaka og ísinn vinur hennar ásamt Nóakroppi og lakkrísreimum sem fylgja í kjölfarið á svaka fínni X-tra ost pizzu og tvöföldum skammti af ostafylltum brauðstöngum í smjörbaði!

Hvernig tilfinningaét kemur kvöldnarti við veit ég ekki.... EN.... Eyrún Kristín var að spögúlera í nartinu og þá þótti mér snjallt að henda í eitt stykki pistil. Kom með nokkrar tillögur að kveldnarti í "hollari" kanntinum ef maður er alveg að dreapst og ræður ekki neitt við neitt. 

1. Frysta ávexti, t.d. banana, vínber og borða frosin (mjöög gott)

2. Smánart í hnetur/möndlur (passa samt skammtinn)

3. Skera niður grænmeti - t.d. litlu gulræturnar. Gætir haft með þessu einhverja létta dressingu úr 5% sýrðum rjóma, skyri eða ab-mjólk.

4. Skera t.d. niður epli og borða með smá hnetusmjöri (ekki meira en msk af smjeri) eða eplasneið með fitulitlum osti.

5. Taka fitulitla jógúrt og mixa saman með berjum/ávöxtum, setja í mót og frysta. Borða sem "ís" á kvöldin.

6. Sykurfrítt múslí/morgunkorn með undanrennu. Bara lítinn skammt - jafnvel narta í smá cheerios og rúslur?

7. Hrökkbrauð með smá kotasælu eða létt smurosti og tómatsneiðum.

8. Harðfiskur

9. Þurrkaðir ávextir.

10. ...

Bara muna - regla numero uno, dos y tres - passa skammtastærðina!

Ekki það að þessi pistill verði eitthvað merkilegri en þetta. Langaði helst að forvitnast og spyrja ykkur kæra fólk hvað þið nartið í á kvöldin til að "drepa" ofátsgrísinn nú ... eða gera honum til geðs Wink

Deilið með okkur nartinu fólk - endilega deilið sem mest þið megið!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband