Færsluflokkur: Egg
8.6.2011 | 05:02
Glúteinlausar bananapönnsur
Af hverju glúteinlausar? Jah, af því þær eru það og titillinn "bananapönnsur" var eitthvað svo einmana?
Búin að vera að hugsa endalaust um Paleo, uppskriftir tengdar því og fleira í þeim dúr. Búin að prófa núna í 2 vikur að sleppa graut fyrir t.d. lyftingar, þungar æfingar, og hef fundið ágætis staðgengil.
Þó svo staðgengill fyrir graut mun aldrei standa undir væntingum! Onei! En ég verð amk ekki glorsoltin á æfingu og held dampi assgoti vel allan tímann. Það hlýtur því að teljast jákvætt.
Einfaldara verður gumsið þó ekki og ég veit, innst inni í mínu sérlega hjarta, að einhver, einhversaðar hefur gert slíkt hið sama.
Haldið niðrí ykkur andanum. Spennan er þvílík og slík!!
*anda inn*
Aðferð:
Eitt egg, banani, vanilludropar, smá salt, kanill, hræra, örbylgja eða steikja á pönnu.
Búið.
*anda út*
Sko, sagði ykkur það.
Banana Soufflé - búðingur - fluff - ?
Kanill, smásalt, kanill og vanilló.
Smá meiri kanill.
Kanill?
Stappa, hræra, stapa, hræra... stappa... og örbylgja eins lengi og ykkur lystir.
Æhj... greyið grámann.
Lítur ekkert stórkostlega út, ég veit. Bananar og kanill = ófagurt myndefni. En, en... þið munið og vitið. Útlitið segir ekki allt og aldrei að dæma fyrr en þið prófið sjálf!!
Smá djúsí í miðjuna - hægt að örbylgja lengur að sjálfsögðu.
Nokkrir stærri bananabitar fela sig í gleðinni.
KANILL
Smávegis pönnsufílingur, smávegis búðingafílingur, smávegis fluff....
...nohm.
Banana pönnsur, já takk!
Þennan kost kýst ég þó frekar. Þegar ég hef tíma/nennu, því þær eru dásamlegar til átu glænýjar og heitar, beint af pönnunni! Ójá! Taka ekki langan tíma. Ég lofa.
5 mín frá byrjun til enda.
Sömu hráefni, önnur eldunaraðferð. Hérna nota ég líka töfrasprotann og hræri þetta í bananabitalaust muss og fleyti svo ofan af gumsinu froðunni sem myndast.
Notaði 2 egg, banana, vanillu, kanil og píínkulítið af salti.
PAM-a pönnudýrið eilítið áður en bakstur hefst.
Steikja, snúdda, steikja!
VOILA
GUUUULLFALLEGAFÍN!
MUAAHAHAAAAAAAA
Nei, ekki nákvæmlega alveg eins og venjulegar ofurpönnsur... að sjálfsögðu ekki.
En skrambi nálægt. Ha... skraaambi nálægt.
Svolítið "blautar", ef svo má að orði komast. Mætti kannski bæta við einu eggi og steikja örlítið lengur.
(nohoom * π)
Ég náði að stúta hinni sem ég bjó til.
Bókstaflega.
Pönnsurnar vinna.
Þær vinna nú yfirleitt alltaf. Svo eru þær líka ekkert nema gleðin einar til átu. Bara það að rúlla flatneskjunni upp (kannski með smá ávöxtum innvortis, skyri, chiafræum, múslí....) og bíta í. Elsku bestu, það gerir átið ennú skemmtilegra. Ég segi'ða satt. Þetta er allt andlegt, get svoleiðig guðmundssvarið fyrir það.
Átvaglið sér frammá mömmupönnsuát og tryllist af græðgisgleði við tilhugsunina, og fyrsta bitann, þó svo umræddur biti sé ljósárum frá fyrrnefndri pönnsudýrð.
Magnað.
Bananahamingja og dásemdarát gott fólk.
Farin út að hjóla áður en ég lendi í ræktarhúsi að refsa handleggjaspírunum.
Og já, ef þið eruð forvitin, þá var pönnsan rétt í þessu með eindæmum mikill brillíans! 1 Egg, 1/2 banani, slat, kanill, vanilla, blanda og stappa rest af banana þar ofaná. Já ójá.
Rúlla upp.
Borða!
Adios.
Egg | Breytt s.d. kl. 09:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
11.11.2010 | 10:54
Pumpkin pie grautur og fæturnir gráta
Er ekki frá því að ég finni fyrir fótaskjálfta.
Lærin bölvuðu mér í hljóði í morgun.
Búin að taka tvennar Karvelio æfingar í beit og þó svo þær líti, margar hverjar, út fyrir að vera biti úr mjööög djúsí franskri súkkulaðiköku með blautri miðju og ís, þá eru þær lúmskar gott fólk.
Mikið meira en bara lúmskar. Ugh!
Þær reyna á allskonar vöða sem veina, kveina og fara í fýlu. Engar brjálæðislegar þyngdir í gangi, mestmegnis core-æfingar, reyna á marga vöðvahópa í einu (marga vöðvahópa sem ekki hafa unnið saman áður virðist vera) - bara geggjað!!
Sumsé, mjög, mjög góðar! Hlakka til að taka þennan mánuðinn í dauða og djöfli! Sjá hvernig formið batnar og styrkurinn eykst!
Þetta gerðist svo í gær!
Pabbmaster 2000 og Lögginn minn ofurfrændinn. Víkingar með meiru.
Löggi: "Eigum við að nota hjólabrettið í þetta?"
Pabbúla: "Neinei, höldum bara á þessu inn."
Og já, þetta er píanó!
Ég ööölska þetta píanó.
Fékk mér líka endalaust góðan graut í morgun. Ekki dæma út frá myndunum, gerið það fyrir mig! Þær eru hræðilegri en heimur án súkkulaðis! Eg viðurkenni það fúslega og frjálslega!
OHhh hvað ég vildi óska að þið hefðuð getað smakkað snilldina í morgun!
1. Búa til Pumpkin-paaa krydd!
- 1 tsk kanill
- 1/8 tsk negull
- 1/8 tsk engifer
- 1/8 tsk allrahanda
- Smá múskat (eftir smekk)
2. Búa til hræring, flundur silkimjúkan eðalgraut og hræra út í hann graskersmauki.
- 25 gr. hafrar
- Vatn eftir smekk
- 120 gr. eggjahvítur
- 1/4 bolli, eða 60 gr., maukað grasker
- Salt
- Torani + vanilludropar
Bleyta upp í höfrunum fyrst og örbylgja. Hella svo eggjahvítum út í heitt gumsið + salta smá + torani + vanilludropar. Örbylgja. Bæta þá við graskersmauki og örbylgja meira ef þykkildi er ábótavant.
Oj... þykkildi.
Allt eftir smag og behag.
3. Krydda með graskerskryddinu
4. Hræra
5. Ísskápa
Við átið opnast himnarnir og rigna yfir þig ristuðum pekanhnetum svo þú getir bætt út í gumsið!
Eins og að borða pumpkin paaa!
Matarcoma!
Egg | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
26.9.2010 | 22:50
Dollugrjón og þvottahvítur
Sjáið hvað ég fann í Krónunni!
Er ég kannski svona sein í þessu öllusaman? Er þetta búð að vera til að eilífu?
Var svo spennt að ég opnaði sullið í bílnum í dag og jah...
...bragðlaust!
Áferðin hin ágætasta svosum... kannski svolítið hlaupkennt, en virkar.
Smá vanilludropar + kanill og þið hafið til taks nokkuð fjarskyldan frænda risalamande en étanlegan engu að síður.
Alltaf er maður að finna eitthvað "nýtt".
Talandi um eitthvað "nýtt".
Fann einnig þessa snilld í Krónunni blessaðri! Jebb... þetta... er bara eggjahvítugleði! 1000 kall brúsinn.
Var einmitt að útbúa mér graut fyrir morgundaginn úr þessu.
Þetta lítur samt út eins og þvottalögur.
Ef annað augað byrjar að herpast óeðlilega mikið saman að grautaráti loku skal ég láta ykkur vita.
Egg | Breytt 27.9.2010 kl. 08:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
22.9.2010 | 05:07
Grautarsnilld - einn einfaldan kaffi
Þeir sem ekki hafa eftir því tekið þá er þetta uppáhalds blandan mín þessa stundina. Kaffigrautur er mín nýjasta þráhyggja eftir að ég var véluð til kaffidrykkju út í Ástralíu.
VÉLUÐ SEGI ÉG!!!!
Áferðagleðin er í hámarki ákkúrat núna... fullkomin. Grauturinn deigó, silkimjúkur en samt fluffy! Ooojjjj hvað það er gaman að borða þennan. Ekki skamma mig, svolítið eins og sambland af barnamat + deigi. Mjög jákvætt fyrir áferðaperrann!
Ég veit... ég er ógeð!
Vænlegast til vinnings:
- Rúmlega dl grófir hafrar. (grænu Solgryn)
- Bleyta upp í höfrum fyrst og örbylgja!
- Bæta svo hvítunum út í, hræra vel og örbylgja aftur með hrærustoppum. Leggja allt í hræringinn. Hafrarnir svo gott sem leysast upp.
- Hræra loks samanvið'etta Nescafé, kanil, Torani sykurlausu sýrópi, vanilludropum og salti.
- Inn í ísskáp eða borða strax. Ég setti mína dýrð í íshellinn góða í gærkveldi.
Ójá!
Sjáið bara, það er hægt að skera hann!
Óhójá!
Meira að segja hægt að rúlla upp í silkimjúka kúlu!
Svo virðist sem rúmmálið aukist líka sökum magn vatns sem í grautinn fer fyrir tíma eggjahvítanna! Ég kvarta ekki yfir því!
Nú sit ég upp í rúmi, undir sæng... og japla á grautnum. Það er ægilega notalegt svona snemma á morgnana.
Þetta skal þróa!
Ætla að ná mér í einn kaffi til að fullkomna morgundýrðina. Bollinn, með sínu geypilega jákvæða innihaldi, verður punkturinn yfir grautar I-ið! Nóakroppið ofan á ísinn. Súkkulaðið utan um jarðaberið. Brúna sósan með kartöflunum!
Fótaxlamyrðing í uppkomandi ofursiglingu!
Egg | Breytt 24.9.2010 kl. 21:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
20.9.2010 | 15:02
Eftirmiðdagurinn í mynd
Fjórða át-/-blogg dagsins!
Ekki verða brjáluð. Já, þetta eru eggjahvítur og nei, ég borða þær ekki af illri nauðsyn.
Ég hef sagt það áður - mér þykja eggjahvítur einfaldlega ofurgóðar og skemmtilegar að bíta í... eins bragðlausar og þær eru nú!
Prótein og fita. Prótein og fita.
Góð fita.
Mikið elska ég hnetur.
Ein til tvær máltíðir eftir. Fer eftir skapi og átvaglsstuðli eftir kvöldmat!
Egg | Breytt 24.9.2010 kl. 21:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.9.2010 | 16:26
Avocado og eggjahvítur mínus mayo
Bæði frátekið síðan í hádeginu. Jebb, ég er dóni... ég tók frá. En það er ekki annað hægt þegar skrokkurinn segir "AVOCADOHVÍTUR". Hvað getur maður gert? Í alvöru?
Bæði svo gott.
Bæði tiltölulega bragðlausar einingar samt sem aður.
Áferð, og þó það bragð sem til staðar er, gargar á átvaglið sem aldrei fyrr.
Ég aktúallí ölska eggjahvítur! Mér þykja þær einfaldlega bjútífúllí góðar!
Og þar hafið þið það!
Hnetur fyrir knús og kram.
Eitt af mínu uppáhalds áti er að murka lífið úr avocado, tæta í sundur eggjahvítur, krydda eftir smag og behag og nýta sem grunn í salöt! Túnfisksalat, rækjusalat, grænmetissalat, kjúklingasalat...
...humarsalat! Avocadoið kemur svo sannarlega glimrandi vel í staðinn fyrir mayo og er miiiikið betra!
Prófið! Það er djööðveikislega gott!
Egg | Breytt 24.9.2010 kl. 21:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
16.8.2010 | 12:31
Grautarinnlit-útlit
Næst á dagskrá - kertaljós!
Þegar ég steig mínum sérlega fæti út í morgun tók á móti mér mjög svo svalandi loft. Þið kannist við þetta er það ekki?
Haustlykt. Loftkuldi.
Get svo svarið það. Fannst eins og það ætti að vera smá frost í jörðinni. Farin að hlakka mikið til dimmunnar og smá kuldabits.
Ég þarf að muna, mjög vel og vandlega, eftir þessum bloggpistli þegar ég er föst í skafli í febrúar að bölsótast eins og úldinn ullasokkur yfir hríðinni sem hamlar mér greiðum fótgangi í vinnuna! Sérstaklega þegar ein táin dettur af...
...sem væri svosum engin sorg. Þær eru svo ógeðslega ljótar!
En hvað sem ljótum frostbitnum tám skiptir, svona er nú átstaðurinn minn orðinn ber. Blautur eftir atvikum.
Garðhúsgögnin farin í bílskúrsfrí.
Mánudagsgleðigrautur - ekki borðaður utandyra.
20 gr. hafar, 2 eggjahvítur, smá vatn, salt og hörfræ inn í öbba. Skreytt með einni hvítu til, villimannslega stappaðri, bláum berjum, vanillu og möndlum.
Ægilega vel samsettur í litum þessi elska. Haustlegur með fjöldæmum.
Ég ætti kannski að vera með Grautarinnlit/-útlit!
Guð hvað þetta er smart. Sjá hvernig mandlan trjónir þarna á einu berinu - gerðir þú þetta sjálf?
Ahhh, Kampfakát í kvöld. Ekki farið síðan á mánudaginn síðasta.
Þetta verður hressandi.
Egg | Breytt 24.9.2010 kl. 21:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
5.8.2010 | 20:02
Spínat eggjakaka með tómötum.
Konan sem kunni bara að útbúa eggjakökur og haaafragrautaaa!!!!
Virðist vera það eina sem ég set ofan í mig þessa dagana.
Engu að síður. Einfaldara verður það ekki og einfalt er mitt mottó þessa stundina. Er í engu stuði fyrir ofureldamennsku eða fínheit. Stutt og laggott já takk - en bragðgott og gleðilegt í leiðinni.
Spínat á pönnu að kvöldi til!
Spínat á pönnu að kvöldi til með flassi!
Af hverju ég er ekki með stóru myndavélina á bakinu allan sólarhringinn er ofar mínum skilningi?
1 msk olía og hvítlaukur hitað á pönnu og spínatinu bætt út á. Rétt látið koðna niður í 1 - 2 mín, salta, pipra, dukkah. Hella möndlumjólkurblönduðum og krydduðum eggjahvítunum út á! (Reynið að segja þetta 10 sinnum í röð hratt)
Skera niður tómat og ... raða! Smyrja með smá dijon og pipra eftir smekk.
Brjóta saman, balsamik edika!
Ég veit, ég veit - diskurinn er subbó.
Ég hefði nú alveg getað eytt 10 mínútum í að útbúa ferska tómatsalsa með smá baunum. Átti kóríander, rauðlauk, hvítlauk, mango, tomata, pinto... en æji. Letin gott fólk. Letin.
Fíni fíni bitinn! Eins og listaverk.
*rop*
Guð... var þetta ég?
Afsakið!
Egg | Breytt 24.9.2010 kl. 21:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.8.2010 | 15:48
Þriðji í Verslunarmannahelgi
Síðan ég hámaði í mig ofurbrauðsneiðina um daginn hef ég haft hana á heilanum eins og exem. Smekklegt, ekki satt? Bjó mér því til salat, henni til heiðurs, í dag sökum brauðleysis. Synd og skömm en gott var grasið!
Spínat, alfalfa, kapers (eeelska kapers ákkúrat núna), kapers safi, smá rauðvínsedik, perusneiðar, tómatur, gúrka og eggjahvítur.
Sletta af hunangi og balsamik ediki, til að vinna upp á móti seltunni í kapers krúttusprengjunum...
...ásamt möndlum og smávegis möndlu dukkah. Fyrir bragð, gleðilegri bita og hamingju.
Ferkst, ferskt og fínt. Fullt af krami fyrir áferðaperrann. Næst ætla ég að útbúa Balsamic hunangs/dijon dressingu og bæta út í olífu olíu og smá sítrónuberki. Ohh mama!
Annars var Kampið tekið með trompi í morgun. Tvöföldu trompi - tvöfaldur tími - tvöföld pína. Þrekprófið endurtekið síðan fyrir 6 vikum og viti menn... konur og börn. Átvaglið búið að bæta hlaupatímann sinn um rúmar 2 mínútur! Situps um heilar 32, push ups um 5, þar af 15 aukalega á tánum, 10 auka froskar og 35 aukaleg uppstig.
JÁ TAKK!
Þannig að - til að ná Elítuprófinu þá þarf ég að bæta mig í 4 liðum af 5!! Ekki.. nema! Hmm hmm! Reyndar, þá eru armbeygjurnar og froskarnir ansi nálægt því sem þarf til að standast. En, hvað um það, fjórir af fimm. Það skal unnið vel á þennan mismun á næstu sex vikum.
Æfingin í morgun var með eindæmum gleðileg, erfið og sveitt. Framhliðin á kvendinu leit svona út, 20 minútum og berkjaskyrskál seinna (og var verri strax eftir æfinguna)...
...bakhliðin svona!
Markbak með meiru. Blá doppa á hverjum einasta mjóbaks-hryggjarlið.
Hressir, bætir og kætir.
Ætla ekki einusinni að sýna ykkur hverskonar hroðbjóður restin af skrokknum á mér er. Fæturnir... aumingja fæturnir. Skil þetta bara ekki, lít út eins og gíraffi. Steypist út í marblettum á stöðum sem eiga ekki einusinni að geta framkallað marbletti. Eins og nasavængir og eyrnasneplar. Það mætti halda að ég væri á hausnum mestmegnið af tímanum. Ekki það að elskulegir blettirnir trufli mig - ég nýti þá óspart til að segja af mér hetjusögur!
Nei, það er ekki sorglegt.
Kannski mig vanti einhver vítamín í skrokkinn til varnar marblettamyndun. Nema það lagist ef ég borði nógu mikið af súkkulaði... eða ís.
Það væri óskandi.
Egg | Breytt 24.9.2010 kl. 21:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
27.7.2010 | 19:46
Eggjahvítu tortilla með tómat-mango sósu og avocado
Enn og aftur eggjakaka. Ég bara fæ ekki nóg. Óstöðvandi eggjaátsmaskína!
Bjó mér hinsvegar til hálfgert tómat/mango mauk til að setja með inn í krumsið og húhahh, það var gott. Átti kirsuberjatómata á lager og einmana mango sem varð að nýta áður en mango guðinn kallaði það til sín. Það er annars svo lítið eftir af hráefnum hérna í höllinni að búðarferð fer að verða nauðsyn.
Ég fer um leið og ég er farin að reyna að útbúa panini úr pappakassanum hérna inn í stofu!
Það mætti þó bæta í tómat gumsið mörgum gleðilegum aukaefnum. Aukaefni verandi laukur, hnetur, krydd ofr. En gerum eitthvað gott úr því sem er til!!
Kirsjuberjatómatar, mango, hvítlaukur, egg, avocado og einhvurslags krydd, sósur og edik!
Byrjaði á því að hella soja og ediki (balsamik eða hvítvíns, helst balsamic) á pönnu ásamt 1,5 niðurskornum hvítlauksrifjum og leyfði að malla. Þarnæst fylgdu niðurskornir kirsó og niðurskorið mangó ásamt oregano.
Mikið af orðum sem enda á -o!
Þarnæst setti ég út á pönnuna eilítið cumin og ponsulítið kúmen, saltaði, pipraði vel og leyfði að malla í smá stund. Hellti svo dass af vatni á pönnuna, sauð meira og loks smávegis maizena til að þykkja dýrið. Úr varð þessi fína sæta/súra sósa. Myndi setja út í hana hot sauce næst - eða chilli!
Beinustu leið á eggjahvítuköku og avocado fallega raðað á gleðigumsið.
Loka!
Ekkert nema mannasiðir! Óþarfi að hafa þetta útglennt fyrir allan heiminn að sjá!!
...
Mikil eggjakökudramatík í gangi ákkúrat núna.
Felumango!
Enn og aftur ullar maturinn minn á mig.
Fyrsti bitinn fínn!
Annar bitinn ákkúrat eins og hann á að vera! Útbjakkaður í sósu og almennri hamingju!
El subbó!
En gott subbó!
Oj hvað þetta gladdi mig óstjórnlega. Fátt til á lager en reddaðist svona líka vel. Ætla að halda áfram á tómata og mangó brautinni, hún er mjög jákvæð. Bæta út í þetta meiri lauk og baunum og jafnvel pasta. Útbúa eitthvað gott salat....
...góðir át-tímar framundan. Finn það á mér!
Egg | Breytt 24.9.2010 kl. 21:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)