Færsluflokkur: Hádegismatur

Gulur og rauður hádegismatur

Hveitikíms panini m/eggjahvítu og osti ásamt grænmti og ávöxtum.Fyndið hvað litur á mat getur skipt miklu máli! Eitt grænt blað gerir stundum gæfumuninn hvað framsetningu varðar og gerir þar af leiðandi allan réttinn mun girnilegri. Fyrir mig persónulega þá skiptir áferð og lykt meira máli en framsetning, þó svo útlit geti að sjálfsögðu verið blekkjandi.

Bjó mér til yndislegan hádegismat í dag. Eftir að ég hafði púslað honum saman kom í ljós að öll hráefnin voru gul, ljósbrún, hvít eða rauð. Svolítið skemmtilegt. Ég hefði líklegast getað reddað þessu með salatblaði eða kiwi, en hey - þetta var frábærlega fínt á bragðið! Stútfullt af próteinum, flóknum kolvetnum, andoxunarefnum og hollri fitu. Æðislegt!

Hveitikíms "panini" með eggjahvítu, pesto og mozzarella.

Hveitikím er nýjasta nýtt hjá mér í dag. Þetta á víst að vera alveg svakalega hollt, stútfullt af vítamínum, próteinum, flóknum kolvetnum... you name it! Hvorki meira né minna en 27 grömm af próteinum í 100 grömmum af hveitikími. Af því að þetta hráefni inniheldur svo mikið af flóknum kolvetnum og próteinum þá er þetta tilvalið fyrir íþróttafólk og t.d. uppbyggingu vöðva. Nokkuð magnað! Ætla að prófa mig duglega áfram með þetta, búa mér til hveitikíms pizzur, bollur, muffins, pítur...

Fann auðvelda uppskrift af brauði á vefnum Yggdrasill og uppskriftina má finna hér.

Hveitikíms panini/brauð - fyrir einn 

Hveitikíms panini m/eggjahvítu, osti og pestó ásamt gulrótum og heimagerðum hummus

1 dl (uþb 30 gr) hveitikím

1 egg (ég nota bara eggjahvítuna, kemur vel út)

1/4 tsk lyftiduft.

Krydd eftir smekk, ég notaði papriku og pizzakrydd.

2 msk vatn

 

 

Þessu er einfaldlega hrært saman, sett í samlokugrill og látið lyfta sér þar. Passa bara að loka ekki grillinu svo brauðið nái að lyfta sér. Setja t.d. skeið á milli.

Ég tók svo brauðið, skar í tvennt, penslaði með 1 tsk af pesto, setti steikta eggjahvítuköku á milli ásamt 2 msk af mozzarella og kramdi svo í samlokugrili þangað til crispy og osturinn bráðinn. Hafði með slettu af tómatsósu! NAMM!

 Hveitikíms panini með eggjahvítu, pesto, osti og oggu smá tómatsósu.

Niðurskornar ferskar gulrætur með hummus-ídýfu.

Afgangs hummus síðan á fimmtudaginn. Tilvalið að nota hann sem ídýfu fyrir grænmeti. 

Hummus og niðurskornar gulrætur 

Ávaxtaskál - mango, jarðaber og vatnsmelóna

Hér þarf engin orð, kaldir, ferskir ávextir eru guðafæða! Hver sá sem ákvað að búa til ávexti var í góðu skapi þegar hann bjó til jarðaber og mango. Svo mikið er víst! 

 Ferskir niðurskornir ávextir - æði!

Svo er það kosninga-fiesta ala-Mamma í kvöld. Túnfisksteikur, nautakjöt, lamb, hamborgarar eðal meðlæti og frönsk súkkulaðikaka í eftirrétt. Ætli ég komi ekki með annað gestablogg á næstunni! 


Tortilla gleði á sunnudegi

Góður sunnudags-hádegismatur að baki.

Tortilla með eggjahvítum og meðlæti

Ætlaði að vera voðalega heimilisleg og búa mér til tortillurnar sjálf, en komst að því að næringargildi per köku er nákvæmlega það sama og í heilhveiti tortillunum sem keyptar eru út í búð - svo ég skundaði og keypti mér einn pakka! Það er hinsvegar næst á dagskrá að búa til heilhveiti pítubrauð! Ójá! Svo hefur hveitikím náð að krækja í athyglishorn í heilanum á mér, en meira um það seinna mín kæru!

Af einhverjum ástæðum þá virðist matur vera "bragðbetri" og/eða skemmtilegri þegar búið er að rúlla nokkrum aðskildum hráefnum saman inn í hveitiköku! Miklu skemmtilegra að borða allt 'saman saman' frekar en að skófla tveimur hráefnum upp á gaffal - hreinlega af því það kemst ekki meira upp á gaffalinn!  Hafið þið tekið eftir þessu? Eða er það bara gleypan ég sem hoppar af kæti yfir þessu?

Tortilla - fullkomin máltíð 

Allavega! Ég útbjó hummus, því ég eeelska hummus, ricotta, steikti eggjahvítur og grillaði sætu kartöflu franskar. (Það er svo margt á ensku sem hljómar betur og er auðveldara í framburði eins og "Sweet potato fries"!) Hafði með pestó, salsa, kotasælu, ost, kalkúnaskinku og heilan helling af grænmeti! Rúllaði þessu svo upp í hamingjusama sunnudags tortillu! Mikið ofboðslega var þessi máltíð með eindæmum fullnægjandi fyrir svangan maga!

Mín tortilla var samsett á eftirfarandi hátt:

Tortilla með kalkúnaskinku, eggjahvítum, osti og spínati

Inní: hummus, 1 tsk rautt pesto, 3 eggjahvítur með 2 ostsneiðum, steikt kalkúnaskina, ferskt spínat, smá heimagerður ricotta - rúlla!

Oná: 2 msk kotasæla, salsa sósa 

Prótein, omega-3, flókin kolvetni, trefjar og fullt af vítamínum! Æði! 

 

Ef þið hafið svo ekki tekið eftir því, þá er ég komin með sætar kartöflur á heilann! 

Laugardags snarl

Bjó mér annars til "snakk" í gærkvöldi í tilefni nammidags á laugardegi. Skar niður epli, banana og mango. Bjó svo til prótein, skyr-kotasælu, banana-ídýfu, toppaða með sykurlausri sultu. Ídýfan heppnaðist bara geðbilaðslega vel og var fullkomin með ávöxtunum. Hafði með þessu krums af ýmsum toga - kókosflögur, sólblómafræ, hörfræ og hnetumix. Gladdi mig og mitt sárþjáða sykurhungraða hjarta með eindæmum mikið! 


Gnocchi úr sætum kartöflum og höfrum

Það mætti halda að ég hefði ekkert betra að gera í páskafríinu en að hangsa heima og krassa niður hvað ég er búin að vera að gúffa í mig! En það er einmitt það sem ég ætlaði að nota páskana í. Slappa af, búa mér til góðan og sniðugan mat og sofa!

Allt pastatengt er mikil uppáhalds fæða. Seðjar alla kolvetnaþörf heimsins og er skemmtilegt að borða í leiðinni. Gnocchi er með skemmtilegri fæðu að borða, gúmmíkennt, mjúkt kartöflupasta! Díses, er hægt að biðja um eitthvað betra?

Hef alltaf viljað prófa að búa til gnocchi og gerði það í dag. Ákvað nú samt að prófa að nota hafra og heilhveiti með sætri kartöflu. Þegar bitið er í hafra gnocchi, þá er bannað að hugsa um flauelismjúku skýjahnoðrana sem gnocchi áhugamenn hafa vanist. Það er ekki hjá því komist að viðurkenna að flundurmjúkt skýjagnocchi er að sjálfsögðu langsamlega besta gnocchi sem finnst á þessari jörð... en þetta var bara nokkuð almennilegt! Þétt í sér og sætubragðið af kartöflunni skilaði sér vel! Af því að þetta gnocchi var búið til úr höfrum og heilhveiti þá vó hvert gnocchi um það bil 5 kg - en mér persónulega fannst áferðin æðisleg og gaman að bíta í. Eins og frönsk súkkulaðkaka... mmm!

Gnocchi

1 stór sæt kartafla (tæpir 2 bollar eftir að búið er að stappa hana í muss)

1 eggjahvíta

Kotasæla ef vill

1 bolli muldir hafrar

1 bolli heilhveiti 

Henda teitunni inn í ofn og steikja alveg í spað. Þegar hægt er að stinga prjón í gegnum hana án vandkvæða taka hana út úr ofninu og snúa greyið úr skinninu. Stappa kjötið úr kartöflunni saman við eggjahvítuna og bæta hveitinu út í þangað til blandan er orðin nógu þétt til meðhöndlunar. Það sem ég gerði var að setja allt haframjölið út í og blandaði heilhveitinu við þangað til deigið var hætt að klístrast. Deigið verður appelsínugult á litinn út af sætu kartöflunni - frekar fínt! Kom skemmtilega út.

 Lengjur útbúnar úr deiginu

Þá skal skipta deiginu í fjórar jafnstórar kúlur og rúlla þeim út í um það bil sentimeters þykkar lengjur. Hluta hverja lengju niður í litla búta og gera rákir í hvern bút með gaffli.

 Gnocchi bitar

Sjóða vatn og bæta út í það salti - athuga skal að vatnið þarf að bullsjóða. Setja svo út í pottinn 10 - 15 stykki gnocchi, fer eftir stærð pottsins, ekki mikið fleiri því þá gæti maður kælt vatnið í leiðinni. Þegar gnocchi-ið byrjar að fljóta þá er það reddí og skal hífast upp úr pottinum.

Gnocchi-ið soðið 

Það er hægt t.d. að steikja gnocchi-ið á pönnu en ég skellti því í eldfast mót, reif yfir það kalkúnaskinku, hellti yfir það æðislegri pastasósu og toppaði með smá kotasælu, osti og eggjum.

Yömmó 

Skemmtileg skemmtileg máltíð og sérstaklega bragðgóð. Fullnægði öllum skilningarvitum hvað bragð, áferð, lykt og útlit varðar! Vel heppnað fyrsta gnocchi!

MMhmm 

Svo bara æfa sig meira og búa til "alvöru" gnocchi þegar heilsufíkillinn fer í frí! 


Túnfisk borgari með guacamole og gómsætu meðlæti

Laugardagar eru notalegir. Nammidagar með meiru, nema hvað nammið má missa sín. Yfirleitt nota ég nammidagana mína í það að borða bara aðeins meira af mat en ég geri dags daglega. Reyndar reyni ég að nota eina máltíð yfir daginn til að éta á mig gat en í dag setti ég ofan í mig það sem mig langaði í. Mjög kósy, frekar heimó, afskaplega gúmfey!

Eggjahvítu eggjakaka, full af grænmeti toppuð með smá osti

Fékk mér t.d. í morgun létt ab-mjólk með smá höfrum, vatnsmelónu bita og svo eggjahvítu-eggjaköku fyllta með grænmeti. Hún var geðveikislega góð.

Sætar kartöflur, gulrætur, vorlaukur og brokkolí - hitað í eldföstu móti þangað til mjúkt. Svo hellti ég yfir þetta 4 dl af eggjahvítum og stráði smá osti yfir! Yömmó! 

Í eftirmiðdaginn át ég svo eitt stykki nýbakaða, heimalagaða brauðbollu með sykurlausri sultu og kotasælu. Nartaði smá í döðlur, möndlur og fékk mér eitt próteinskot - just for the fun of it. 

Heimabakstur

Kvöldmaturinn var svo punkturinn yfir i-ið! Túnfisk hambó með guacamole - massa ofur mega gott!! Bjó til 5 stykki úr 500 gramma túnfisksteik og frysti restina til að eiga. Rosalega ljúft að eiga svona í frystinum til að grípa í þegar tíminn er naumur! En mikið dj***** var hamborgarinn ljúfur.

Hakkaði niður steikina, kryddaði með engifer, wasabi og soja sósu. Bætti við  þetta lauk, hvítlauk, steinselju og vorlauk! Hnoðaði allt saman og skipti niður í 5 jafn stóra hluta. Steikti í 2 min á hvorri hlið, þá voru þeir mátulegir. Með stökka skel og mjúkir í miðjunni, safaríkir og yndislega bragðgóðir!

Þvílíkt sælgæti!

Túnfisk hamborgarar

Með þessu hafði ég heimagert guacamole ásamt grænmeti. Bjó mér líka til hálfgerða kotasælu-sósu. Kotasæla, smá skyr, dijon sinnep og smá graslaukur. Skar svo gúrku í litla bita og blandaði samanvið. Kom æðislega vel út með hamborgaranum eða hreinlega sem sósa á grænmeti - fersk og fín.

  

Borgarinn var sumsé samsettur á eftirfarandi hátt.

Brauð sem bakað var fyrr um daginn, guacamole, kál, burger, smá mango chuthey, kotasælu-sósa, tómatur. Ég sleppti reyndar brauðinu hjá mér. Óóó elsku fólk, þetta var svo ofur gott!

Ó já... æðislega gott!

Tuna burger - kotasælusósa, dijon, mango chutney ofl.

 

 

 

 

 

 

Að sjálfsögðu skar ég mér svo niður mango, jarðaber, bláber og hindber um kvöldið. Stráði yfir það kókosflögum og borðaði með góðri lyst.

Góður át dagur mín kæru! 

 

Og já... ég blótaði áðan lömbin mín! Ég blótaði!


Spicy Tuna og bygg

Spicy Tuna - mjög strekt og sérstaklega bragðgott

Ég er nú ekki þekkt fyrir matarmennskubrjálæði en tek mig nú stundum til og geri ofurfínan og æðislegan mat sem tekur 3 vikur í undirbúning og 34 klst í eldun! Ég er hinsvegar mikill aðdáandi rétta sem auðvelt er að undirbúa, tekur stuttan tíma að elda og bragðast vel! Þó það sé að sjálfsögðu gaman að borða og bíta í eitthvað guðdómlega vel úthugsað og vandlega eldað!

Túnfiskur er sérlega hollt fyrirbæri og einstaklega hentug fæða þegar fólk er að ná matarræðinu á réttan kjöl, í bland við æfingar og önnur gleðilegheit. Hinsvegar, þá er hinn meðal íslenski víkingur ekki að kaupa sér túnfisksteik upp á dag, sökum kreppu og þess að steikin sjálf kostar handlegg og eina tá! Íslenskir víkingar fara í Bónus og byrgja sig upp af eðal Túnfisk í gullfallegri Ora dós, umlukinn vatni! Hljómar kannski ágætlega en verður ansi fljótt leiðigjarnt, sérstaklega ef það eina sem lífgar upp á fiskinn er niðurskorið grænmeti og kannski smá kotasæla.

Það er hægt að gera allskonar rétti sem eru heilsusamlegir, góðir og jah... innihalda túnfisk! Pottréttir/ofnréttir, tuna-borgarar, túnfisk salöt, samlokur, túnfisk-pasta ... Bubba Gump Shrimp! Borgarar og ofnréttir eru í miklu uppáhaldi hjá mér þessa dagana!

Bjó mér t.d. til hálfgerðan pottrétt í kvöld þar sem aðal innihald var túnfiskur, bygg, niðursoðnir tómatar og mikið krydd. Ofur fínn þó ég segi sjálf frá og alveg jafn fínn kaldur!

1. Skar niður hvítlauk og lauk og steikti á pönnu, í olíu, í um 3 mínútur. 

2. Bætti einni dós af túnfisk við og lét malla þangað til túnfiskurinn var orðinn heitur. Hálfpartinn maukast við olíuna.

3. Skvetta af "hot sauce". Verðið bara að góna - fer eftir því hversu sterkt þið viljið hafa þetta.

4. Krydda t.d. með fiskikryddi, salt, pipar, smá chilli.

5. Blanda bygginu saman við á pönnuna. (tæplega 1 dl af soðnu byggi) Væri líka hægt að nota t.d. pasta eða hrísgrjón (híðisgrjón fyrir þá sem eru með glúten-óþol).

6. Hella niðursoðnu tómötunum saman við og láta malla í 10 - 15 mínútur. Ég setti svo smá tómatsósu út í, rétt svo matskeið til að sæta pínku. Væri líklega hægt að nota agave líka ef fólk kýs það.

Þetta er djöbbilaslega fínt á bragðið og gaman að bíta í. Mjög sterkt með smá sætum keim! Túnfiskurinn mjúkur og byggið aðeins undir tönn, smá gúmmíkennt jafnvel. Þið sem hafið smakkað bygg vitið hvað ég á við! Æðislegt að borða það!

Það væri t.d. hægt að bæta við þetta steiktum gulrótum og sveppum, henda í eldfast mót, strá smá osti yfir og inn í ofn. Borða svo með sýrðum rjóma og grænmeti. Líka hægt að smyrja þessu á brauð með smá kotasælu og steiktu eggi - jafnvel vefja upp í tortillur, setja inn í ofn og ost ofan á tortilluna! Hvað dettur ykkur í hug að gera við þetta?

Það er hægt að leika sér endalaust með þetta hráefni og hressa þar af leiðandi aðeins upp á matarræðið án þess að vera með samviskubit yfir því. Ekki það að maður eigi að vera með samviskubit - það er bara fyrir kjánaprik!


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband