Færsluflokkur: Hádegismatur

Möndlu- og kanilrækjur

Ójess! Mmmmmm... ég og kanill! Ég og möndlur!!! Kanill + möndlur = heilög hamingja og gleði!

Möndlu- og kanilrækjur - Fyrir 2

Möndlu og kanilrækjurTæp 400 gr. rækjur (ég notaði þessar litlu sætu)

1/2 tsk kanill

1/4 tsk chilli pipar

1/2 tsk paprika

salt og pipar eftir smekk

1 bolli möndluspænir

Tómatar, grænar baunir, laukur....

 

Byrja á því að þurrrista möndluflögurnar og setja svo til hliðar. Blanda saman rækjum, kanil, chilli pipar, papriku, salti og pipar og þekja rækjurnar vel í blöndunni. Steikja grænar baunir, niðurskorna tómata og lauk á pönnu þangað til tómatarnir eru orðnir mjúkir. Salta og pipra eftir smekk. Taka meginpart grænmetis af pönnu og setja til hlipar. Bæta þá rækjunum út á pönnuna og léttsteikja. Koma grænmeti fyrir á disk, rækjum þar ofan á og hella svo möndluflögum yfir.

Möndlu og kanilrækjur

Þetta var svaka fínt og bragðgott. Næst ætla ég þó að sleppa grænmetinu, steikja rækjurnar upp úr smá olíu og útbúa avocadomús (næstum eins og kartöflumús) til rækjudýfingar! Yrði án efa geggjað! Tómatarnir eru jú nokkuð blautir og að steikja rækjurnar upp úr tómatsafanum deyfði kannski svolítið bragðið, en gott var gumsið engu að síður!

Ætla að sjá hvernig olíusteiking og avocadomús fara með í næsta holli. Alveg spurning hvort þetta nái ekki á uppáhaldslistann eftir slíkt make over!


Hver er sætastur?

Get ekki dásamað sætar kartöflur nógsamlega! Ég er yfir mig hrifin af þessu fyrirbæri og borða meira af þeim en góðu hófi gegnir. Er, samt sem áður, nokkuð viss um að góði hófskvarðinn, í sætu-kartöfluáti, sé fyrirgefanlegri en aðrir kartöflukvarðar, enda eru þessir appelsínugulu gleðigjafar stútfullir af allskonar heilsusamlegum eindum og atómum! Flókin kolvetni, lár GI stuðull, vitamin A og C, járn, kalk, prótein, trefjar. Könnun á vegum CPSI setur sætu kartöfluna einnig í fyrsta sæti yfir næringarríkasta grænmeti sem fyrirfinnst.. já takk!

Kálblaðs kjúklinga vefja með grænmeti, sætri kartöflu og jalapeno

Fékk mér einmitt, kálblaðs, kjúklingavefjur í hádegismat. Þær innihéldu meðal annars, sæta kartöflu, tómata, papriku, krydd, hot sauce og jalapeno. Eftirrétturinn var að sjálfsögðu sæt kartafla útötuð í kanil! Úhhúhúh... það er svoo gott!


Hermikráka

Nýtti mér kvöldmatarhugmynd miðvikudagsins í hádeginu í dag.

1. Af því að ég fíla upprúllaðan mat í kálblöðum þessa stundina!

2. Af því að ég á kálhaus heima sem er jafn stór og tunglið Shocking Hann skal nýta!

Bjó mér til hálfgert kjúklingasalat í gær, svipað og ég hef gert áður, með tómötum, sætri kartöflu, grænum baunum, jalapeno, dukkah og öðrum gleðilegheitum. Pakkaði svo niður kálblöðum og salati og skúbbaði með mér í vinnuna.

Kjúklingasalat umvafið kálblaði

Eins og ég hef sagt svo oft áður, þá er, af einhverjum ástæðum, miklu meira fútt í því að borða mat, þegar búið er að rúlla honum upp! Kannski af því að það er svo gaman að geta borðað matinn með höndunum, sem gæti mögulega leitt þá staðreynd af sér að kannski sé svona stutt síðan átvaglið sveiflaði sér niður úr trjánum, ég veit það ekki - en hver sem ástæðan er, þá kætir þessi framsetning á mat mig alltaf jafn mikið!

Húrra fyrir þeim sem bjó til burrito númer 1!


'Nýtt' bragð á hverjum degi takk

Folaldalundir í hádeginu! Þessi dagur verður bara betri og betri. Í annað skiptið í dag rifjar átvaglið upp, ásamt bragðlaukunum, hvað tilteknar tegundir af mat eru afskaplega bragðgóðar! Stundum líður bara of langur tími á milli gleðilegheita sem þessa!

Folaldalund, teitur, grænmeti og gleðilegheit

Apppelsínur í morgun, folaldakjöt í hádeginu... ómægod, hverju ætli ég kynnist á nýjan leik í kvöld?

*tilhlökkunarspenningur*


Nýtt prógram, meiri matur

Það held ég nú. Var að spögúlera í því að sjússa upp á æfingaprógramið mitt.. alltaf jákvætt að breyta aðeins til. Bæti við einum lyftingadegi og fækka brennsludögum um einn. Sem þýðir örlitlar breytingar á matarplani. Verður gaman að sjá hvernig áhrif þetta hefur á skrokk og árangur. Var í gamni að telja saman hitaeiningarnar sem ég set ofan í mig, á lyftingadögum, og þær eru yfirleitt í kringum 2000, og rúmlega það. Bensínlaus bíll kemst ekki langt, þannig er það nú bara!

Annars get ég nú ekki sagt að geimvísindi hafi einkennt hádegismatinn í dag. Einfaldur með meiru, en ávallt góður. Um það bil 150 gr. af kjúlla, 2 tómatar, smá grænmeti og kartöflur. Balsamic edikið svínvirkar í hvert skipti.

Kjúlli, grænmeti og teitur. Alltaf gott!

Ég veit samt ekki alveg af hverju balsamic edikið virkar eins og svín... en svo mikið er víst, og svo mikið veit ég, að umrætt svín er allsvaðalega frábært!

Vísindavefurinn veit svarið!


Villibráðahlaðborð í hádeginu

Ekki amalegt það! 

Enn og aftur heldur dekrið áfram. Inger tók við í dag sem gestakokkur mánaðarins og bauð okkur upp á hreindýrapaté, hreindýrabollur, anda- og gæsabringu carpaccio og risarækjur. Hreindýrið skaut hún sjálf, hvorki meira né minna!

Fiðurféð - það sem eftir er af því!

Anda- og gæsabringu carpaccio

Hreindýrapaté og RISARÆKJUR! JÍÍÍHAAA! Rækjuævintýrið heldur áfram.

Hreindýrapaté og risarækjur

Hreindýrabollur! Leeengst uppi í horninu vinstramegin.

Hreindýrabollur, kartöflur, sósa

Diskurinn minn! Eintóm hamingja og gleði!

Fullkominn hádegimatardiskur

Mikið er nú gleðilegt að vera ég stundum!


Loksins!!

Sushi í hádeginu. Fiskimarkaðs Sushi! Pantaði mér Sashimi.

Fiskimarkaðs Sushi

Þarf engin orð. Þetta var bara wünderbar!

Fiskimarkaðs Sushi - þátíð


Hádegiskokteill

Fékk nesti með mér heim í gær...

Rækjukokteill að hætti ömmu

...vínberin fengu líka að vera með.

Gott að vera ég!


Föstudagar eru góðir dagar

Við erum með svo mikið af kjúkling á lager að kjúklingur hefur verið á boðstólnum í nánast hvert mál í þessari viku. Mér er að takast að rýma frystinn, þetta er allt að koma. Ekki kvarta ég svosum, kjúklingur er gleðimatur.

Hádegis kjúklingasalat með hrísgrjónaklatta

Tók með mér enn eitt kjúklingasalatið í vinnuna. Hafði að sjálfsögðu grænu gleðina með í þessu mixi, tómat, hunangs dijon dressingu og indversk-ættaðan hýðis-hrísgrjónakladda (reynið að segja þetta 10 sinnum hratt), sem ég bjó til sem meðlæti með kvöldmatnum í gær. Þeir eru góðir. Stökkir að utan, mjúkir að innan... gaaman að borða þá. Ég stalst líka niður í mötuneyti og rændi mér tveimur sneiðum af grillaðri papriku. Æði!

Indverskt kryddaður hýðis-hrísgrjóna klatti

Er svona að spögúlera í því að hádegismata sjálfa mig út ágústmánuðinn. Ég er þeim 'kostum' gædd að elda, undantekningarlaust, of mikið af mat. Við erum yfirleitt bara tvö, en ég virðist alltaf elda fyrir 5 fullfríska Spartverja, sem þýðir afgangur í viku! Stundum frysti ég, en því miður er frystirinn oft síðasta stoppistöð, þeirra skammta, á undan ruslinu. Við verðum að bæta okkur í afgangsáts málum! Svo er þetta flott leið til að halda öllum skammtastærðum innan skynsemismarka. Ég er svartholið sem fer 2 - 3 ferðir og svo eina aukalega til að narta! Græðgin svo mikil að stopptakkinn aftast í hnakkanum er óvirkur. Óhemja er þetta!


Heimalagað hádegissnarl

Fyrir matarperra, eins og sjálfa mig, þá þykir mér alltaf skemmtilegt að borða mat sem búið er að blanda saman eins og salat, burrito, pasta, pizzu, Móaflatarkjúlla. Það er að sjálfsögðu alveg jafn fínt að hafa kartöflurnar á einum helming disksins, grænmetið á hinum og kjötið sér, en það er bara einhver fílíngur í því að hræra allt saman.

Kjúklingasalat með tómötum og grænum baunum

Bjó mér einmitt til kjúklingasalat í gær. Niðurskorin, grilluð, kjúklingabringa, 2 niðurskornir tómatar og grænar baunir. Kryddað eftir smekk, komið fyrir í glæsilega fínu plastíláti, hitað í örbylgju daginn eftir og toppað með balsamic ediki.

Kjúklingasalat með tómötum og grænum baunum

Einfalt, fljótlegt og gott hádegis-spis. Ég og grænar baunir erum miklir félagar þessa dagana!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband