Færsluflokkur: Bakstur
18.6.2009 | 18:22
Samviskulausa eplakakan
Nei... ekki svo gott! Þetta er ekki djúsí saga um siðblinda eplaköku - þó það væri nú ágætlega vel við hæfi, miðað við tíðarandann í dag. Þetta er barasta einfalt eplagums sem ég skúbbaði saman í von um að geta útbúið hollari týpu af eplaköku sem hægt er að borða bæði í morgun- og/eða hádegismat og sem eftirrétt. Held það hafi tekist ágætlega. Ég kem amk til með að baka þessa aftur, betrumbæta og vonandi fullkomna á endanum! Var að borða restina af henni núna - ææðisleg daginn eftir líka!
Samviskulausa "eplakakan"
2 skræld og skorin jónagold epli
1 skræld og skorin pera
1 niðurskorinn banani
4 niðurskornar ferskar döðlur
1 msk heilhveiti
1 msk hunang
Kanill eftir smekk. Ég notaði að sjálfsögðu slatta.
Hræra öllum hráefnum í fyllinguna sman og byrja að baka í 175 gráðu heitum ofni. Ég reyndar hrærði eplum og peru sér með kanil, hunangi og hveiti. Raðaði svo banana og döðlum ofan á eplagumsið. Endaði samt sem áður á því að hræra allt saman í lokin, áður en ég setti degið yfir.
Deig:
1/2 bolli hafrar
1/4 bolli muldar quinoa flögur
1/4 bolli uppáhalds múslí
2 msk hunang (mætti líka setja 1/4 bolla t.d. hrásykur eða púðursykur ef vill)
2 msk vatn
tappafylli vanilludropar
kanill
salt á hnífsoddi - má sleppa
Hræra deig saman og strá yfir eplablönduna þegar eldunartími eplanna er hálfnaður. Ég miða við mjúk epli, en smá stökk þegar bitið er í þau. Elda áfram þangað til þú, bakarameistarinn, segir stopp.
GEGGJAÐ! Sló í gegn hjá gestum og gangandi!
Heit, kanilstráð epli klikka svosum ekki - hvað þá þegar maður borðar þau með ís eða rjóma. En þessi snilld kom skemmtilega vel á óvart. Að sjálfsögðu munu hörðustu eplakökuaðdáendur ekki kalla þetta gums "eplaköku" og verandi eplakökusnobbari sjálf, get ég vel tekið undir það. Engu að síður, þá stóð 'kakan' vel fyrir sínu sem eftirréttur. Ég myndi líklegast sleppa banananum næst. Hann gerði ekki neitt og setja meira af döðlum og/eða rúsínum. Verða karamellukenndar og góðar - eiga líka svo vel saman með eplunum. Góða við þetta, fyrir utan sykur- og fituleysi, er að eftir að hafa hámað í sig slatta er seddumælirinn ekki fullur. Sem er æði - létt, hollt og gott fyrir skrokkinn! Flókin kolvetni, trefjar og vítamín.
Deigið var hinsvegar svolítið þurrt og molnaði heldur mikið. Afskaplega var það samt bragðgott og skemmtilegt á móti heitum ávöxtunum. Sérstaklega ef maður hrærði gumsið allt saman og leyfði deginu að hangsa í eplasafa. Ég er sumsé ein af þeim sem elska hafra og bragðið af þeim. Uppáhalds smákökur eru t.d. hafrakökur.. ALLAVEGA, þá mætti betrumbæta degið nokkuð. Væri t.d. hægt að stappa bananann og döðlurnar út í degið, bæta í það hnetum og strá svo yfir. Jafnvel hræra bæði fyllingu og deig saman og þannig inn í ofn. Já, ætla að leika mér svolítið með þetta á næstunni. Var nú samt að láta mér detta það í hug að blanda þetta á einhvern hátt saman við bakaða hafragrautinn!
Með kökunni hafði ég svo ís. Sojaís. Keypti hann um daginn og viti menn, kom svona líka vel út. Kostar allt í heiminum, kaupi því ekki mikið af honum aftur en góður er hann. Meira að segja afi, sem borðar engan eftirrétt nema ís sé, gaf honum grænt ljós og fékk sér annan skammt!
Þessi kaka gæti orðið mjööög efnileg... ójá!
Bakstur | Breytt 23.9.2010 kl. 21:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.6.2009 | 13:28
Ofnbakaður hafragrautur með banana og eplum
Hafragrautsfólk - þetta er eitthvað sem þið verðið að prófa!
Enn ein leið til að njóta þess að borða uppáhalds morgunmatinn minn. Svo einfalt, svo fljótlegt, svo syndsamlega gott! Vá! Væri jafnvel hægt að leggja yfir þetta skinku og brjóta yfir egg eða eggjahvítur! Ábyggilega sjúklega gott - það er næst á dagskrá!
Ofnbakaður epla og banana hafragrautur - Fyrir 4
1/2 jonagold epli, nú eða bara eitthvað frábært epli.
2 bollar hafrar
1 tsk lyftiduft
smá salt
smá múskat, má sleppa
Blautt:
1 egg, hrært
1 stappaður, vel þroskaður banani
1 tsk vanilludropar
1,5 bollar undanrenna/fjörmjólk/hrísmjólk/möndlumjólk/sojamjólk...
Aðferð:
Hita ofn í 175 gráður. Skera epli í sneiðar og leggja til hliðar. Blanda blautu í þurrt.... finnst eins og ég þurfi að skrifa eitthvað meira hérna en flóknara er það nú ekki!
Samsetning:
Hella helmingnum af blöndunni í eldfast mót. Líka hægt að setja bökunarpappír í mótið, þá er auðveldara að skera grautinn í fallegar sneiðar. En þarf ekki.
Raða eplasneiðum ofan á gumsið og strá eins mikið af kanil yfir þær og kanilsjúklingurinn hið innra leyfir. Ég er konungur kanilsins svo ég sturtaði ansi vel yfir eplin.
Hella rest af hafragumsi yfir og raða banansneiðum þar ofaná og beint inn í ofn í 30 mínútur. Ef þú vilt vera góð(ur) við sjálfan þig þá hafa þetta í 26 mínútur inni, strá smá púðursykri yfir og grilla síðustu 4 mínúturnar. Om nom!
Borða rest af epli á meðan grauturinn er að eldast.
Taka graut út úr ofni og dáðst að meistaraverkinu!
Dáðst aðeins meira....
...aaaaaðeins meira! Ohh men hvað þetta lítur vel út!
Hræra saman próteindrykk úr frosnum jarðaberjum, hreinu próteini, vatni og hörfræjum.
Setja grautarsneið á disk, smá slettu af skyri og bláber. Borða hægt og njóta vel! Setja svo restina í ísskáp og borða í morgunmat daginn eftir. Get ekki beðið!
Þetta var helvíti gott! Mikið ógeðslega er ég ánægð með sjálfa mig ákkúrat núna! Grauturinn varð smá karamellukenndur og áferðin skemmtileg. Stökkur toppur og mjúkt innvols með einstaka crunchy epli inn á milli. Holy moly sko! Æðislegt að borða graut á þennan hátt! Væri líka hægt að pimpa þetta upp með hnetum og döðlum og allskonar gúmmulaði! Allir að prófa - þið verðið ekki fyrir vonbrigðum!
Bakstur | Breytt 23.9.2010 kl. 21:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
30.5.2009 | 13:25
Heilhveiti pönnsur og grænt monster
Næstum eins og hafra- og heilhveiti pönnsur, næstum eins og crepes... en bara næstum!
Pönnsur í hvaða formi sem er, eru gleðilegar. Þessar voru rosalega bragðgóðar og skemmtilegar. Munurinn á þessum og crepe pönnsunum sem ég gerði um daginn er að þessar eru ekki sætaðar, engin mjólk - þar af leiðandi þykkara deig, ekkert hvítt hveiti og bara eitt egg. Mér tókst líka að setja ekki kanil í degið. Þrefallt húrra fyrir mér myndi ég segja!
Munurinn á þessum pönnsum og hafrapönnsunum er hinsvegar aðeins minni. Hafrar og heilhveiti í staðinn fyrir heilhveitið og hveitikímið í þessum. Þið sem borðið ekki hafra getið því fengið ykkur svona snilld í staðinn.
Hádegismaturinn í dag samanstóð því af heilhveiti pönnsum, ávöxtum og einu stykki grænu monsteri. Monsterið var að þessu sinni hrært saman úr 1/2 peru, frosnum banana, spínati, 1/2 bolla mjólk, 1/2 bolla vatni, hörfræjum og klökum. Mmhmmm! Þar að auki var ísköld vatnsmelóna í skál með þessu og jarðaber með pönnsunum. Mjög jákvæður hádegismatur skal ég ykkur segja. Fullt af ávöxtum, grænmeti, flóknum kolvetnum og hollri fitu. Pönnsurnar eru líka á góða listanum!
Ég hef einnig, farsællega, komið grænu monsteri ofan í hinn helminginn við góða undirtekt tilraunadýrsins = hip hip húrra!
Heilhveiti pönnsur
1/4 bolli hveitikím
1 egg
1 bolli létt AB-mjólk
1 tsk lyftiduft
1/4 tsk salt
2 msk olía (t.d. canola)
Allt hrært saman, verður nokkuð þykkt degið, og steikt á pönnu. Ég nota ekki olíu á pönnuna. Geri eins og með hafra- og heilhveitipönnsurnar, set deig á pönnuna og krem pönnsuna niður eftir að ég hef snúið henni við. Þá verður hún líka þykk og fín. Ég prófaði að dreifa úr nokkrum áður en ég sneri þeim við, urðu öllu þynnri en áferðin alveg jafn góð! Þeir sem vilja þunnar pönnsur geta því með góðu móti fengið sér þunnildi.
Fékk mér eina sem ég fyllti af jarðaberjum, smá sultu og dreitil af létt AB-mjólk. Gómsætt!
Hádegismatnum lauk svo með skyrskál, fullri af ferskum jarðaberjum, quinoa flögum og smá hnetu og rúslumixi.
Annað í fréttum... jújú, ég bjó til kanilsnúða í gær og nei, þeir komust ekki á snobblistann - en næstum því þó. Ætla að reyna við þá í annað sinn og ef það heppnast vel, þá birtast þeir án efa á þessari síðu á næstunni.
Bakstur | Breytt 23.9.2010 kl. 21:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.5.2009 | 12:50
Heilhveiti bananabrauð með hörfræjum og döðlum
Ó JÚ VÍST!!
Það held ég nú mín kæru! Bananabrauð dettur aldrei úr tísku. Bananabrauð er jafn klassískt og hafragrautur, að minnsta kosti á mínu heimili. Ég er samt vön að gera hafra bananabrauð, mikið sjokk þar finnst ykkur ekki? Þar af leiðandi er þetta svolítið nýtt fyrir mér, en aðferðin og innihaldið er yfirleitt á svipuðum nótum. Ég var líka að reyna að stefna að því að útbúa "hreint brauð". Brauð sem inniheldur engar hnetur, fræ, þurrkaða ávexti... gekk ekki betur en svo að hörfræin og döðlurnar lummuðu sér í degið á síðustu stundu. Það lítur allt út fyrir að það vanti 'hreina brauðs' litninginn í mig. Ég virðist ekki geta búið til brauð nema að fylla það af gleðilegheitum! Það er bara svo gaman að borða brauð sem er ekki silkimjúkt. Bíta í einstaka fræ hér og þar, fyrir utan bragðið sem fræin gefa.
Svo er líka svo yndislega fínt að baka og vesenast í eldhúsinu. Sérstaklega þegar veðrið er svona. Einhver róandi tilfinning sem fylgir því að elda, þó aðallega baka, og maður lifandi, lyktin sem kemur í húsið þegar gúmmulaðið er í ofninum! Ekkert.. sem stenst það. Heimilislegra og notalegra verður það nú ekki! Kúra sig upp í sófa með sæng, húsið ilmar af bökunarlykt sem maður fær að njóta á meðan góð mynd er í gangi í sjónvarpinu og úti er leiðinda veður! Kóósýý!
En jææja, hvernig væri nú að kerlingin hætti að blaðra og sýni gripinn?
Bananabrauð með hörfræjum og döðlum
1/2 tsk matarsódi
1/2 tsk kanill (ég setti auðvitað aðeins meira)
1/2 tsk salt
1/4 tsk múskat, um það bil, ég raspaði þetta í hveitið
2 - 3 msk hörfræ
10 niðurskornar döðlur
1/2 bolli létt AB-mjólk eða jógúrt
1 eggjahvíta, eða heilt egg og sleppa olíunni
1 msk olía
2 stórir, vel þroskaðir bananar
1/2 tsk vanilludropar
2 msk hunang eða agave.. eða sykur ef vill, þá þarf líklegast aðeins meira af sykrinum
Hita ofn í 175 gráður. Hræra saman þurrt, hræra saman blautt og bæta svo blautu í þurrt. Ég set döðlur í þurra flokkinn og banana í blauta. Ég stappaði bananana frekar gróft þannig að það voru bananabitar í blöndunni. Muna bara að hræra degið ekki of mikið. Inn í ofn í um það bil 60 - 70 mínútur eða þangað til eitt stykki prjónn, sem stungið er í brauðið mitt, kemur út svo til hreinn.
Hvað get ég sagt. Þetta er æðislegt brauð. Ég á svo ægilega bágt með mig í kringum bananabrauð, mér finnast þau svo góð. Ég er því kannski ekki best að dæma, ég veit ekki. Þetta brauð var með stökka skorpu, þétt, mjúúkt og karamellukennt að innan. Þið sjáið það á þessari mynd, algerlega geggjað. Ótrúlega skemmtilegt bragð af brauðina og múskatið kemur sterkt inn. Gaman að bíta í karamellukennda banana- og döðlubita hér og þar. Ohhhh... namm! Brauð að mínu skapi!
Brauðið, þó svo það hafi bara verið 2 msk af hunangi, var alveg nógu sætt fyrir minn smekk. Döðlurnar og bananinn gefa líka mikið sætubragð, sérstaklega þar sem bananarnir sem ég notaði voru orðnir svartari en allt sem er svart. Hörfræin gefa líka skemmtilega áferð og eru auðvitað ó svo holl fyrir skrokkinn. Full af hollri fitu.
Annars fékk ég mér grænt monster í hádegismat ásamt eggjahvítuköku sem smurð var með salsasósu og gúrku. Monsterið var samansett úr skyri, frosnum banana, 1 bolla af vatni, klökum og spínati. Klikkar ekki. Ótrúlega er þessi drykkur að gera það gott í minni bók. Í sitthvortu lagi var þetta æðisleg máltíð - en jemundur, ég mæli ekki með grænu, ísköldu monsteri og salsasósueggjaköku, undir sama hatti. Igh!
Á morgun ætla ég svo að baka heilhveiti- kanilsnúða og pönnsur. Verður gaman að sjá hvernig kanilsnúðarnir koma út. Kanilsnúðar eru nefnilega á snobblistanum hjá mér!
Bakstur | Breytt 23.9.2010 kl. 21:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.5.2009 | 14:10
Heilhveiti Crepe í hádegismat
Það er nú alveg magnað hversu einfalt það er að hræra í hitt og þetta gúmmulaði. Gleður mig allaf jafn mikið þegar ég get búið mér til einhverja snilld eins og eitt, eða átta, stykki crepe. Þessi uppskrift er ofboðslega einföld og fljótleg, bragðgóð, holl og skemmtileg. Bjó til þessar crepe í dag ásamt meðlæti. Ákvað að ryðjast inn í uppeldisstöðvarnar og gera hádegismat fyrir fjölskyldumeðlimi og einn frænda sem ákvað að sýna sig og sjá aðra.
Fyrir þá sem ekki vita þá er crepe tegund af pönnuköku, stór þunn pönnukaka, sem er yfirleitt fyllt með einhverju gúmmulaði.
Heilhveiti Crepe - 8 stykki
3/4 bolli heilhveiti
1/4 bolli venjulegt hveiti
1 egg, 3 eggjahvítur
1 bolli fjörmjólk. Má alveg nota nýmjólk ef vill, léttmjólk.
Sletta af agave, 1 - 2 ms, eða sykur ef vill.
smá kanill
smá vanilludropar
1/4 tsk lyftiduft, hrært út í degið rétt áður en það er notað
Þetta er nú einfalt. Blanda saman og byrja að elda. Ég geymdi mitt deig reyndar inn í ísskáp í einn og hálfan tíma áður en ég notaði það. Eftir að ég tók blönduna út úr ísskápnum bætti ég lyftiduftinu við. Þessi geymsla kom ekki að sök.
Þar sem crepe pönnukökur eiga að vera stórar og þunnar þá er yfirleitt notuð sérstök crepe panna og spaði til að dreifa úr deginu og gera þær fínar. Þar sem ég er ekki svo vel búin notaði ég bara léttilega spamaða pönnu og spaða. Kökurnar urðu því aðeins minni og þykkari en þær eiga í raun að vera. Sumar tóku líka á sig kolkrabbaform.
Aðrar eins og sólin... eða manneskja með mjög furðulegt hár!
Flestallar heppnuðust þær nú vel og urðu fallegar í laginu, ekki að það skipti máli, þær voru svo ofboðslega góðar! Enn önnur vel heppnuð tilraun! Það held ég nú. Viðstaddir höfðu um tvennskonar uppfyllingarefni, í crepe-inn sinn, að velja. Sætt crepe. Ávextir, kotasæla, kanill, dulce de leche karamellusósa eða...
...kjúklingur, grænmeti, hummus og ostur. Og nei, ég held ég sé ekki að breytast í "Konuna sem kunni bara að elda huummuuus"! Hann er bara svo sérlega fínn í allt svona!
Ég fékk mér tvær crepe, aðra með sætu að sjálfsögðu og hina með ósætu. Báðar voru meiriháttar góðar. Það eru líka endalausir möguleikar á því hvernig best sé að fylla þessar pönnsur. Banani, hnetusmjör, sulta, súkkulaði, hnetur, hummus og ostur, AB-mjólk og ávextir.. æji, þið vitið hvert ég er að fara með þetta. Haamingja!
Hér er önnur snilldin í bígerð, ómæ, sjáið hvað þetta er hræðilega girnó! Kotasæla, jarðaber, hindber og smá kanill.
Hér eru félagarnir saman komnir. Berja crepe og kjúklinga, hummus og grænmetis crepe. Mmmhmm!
Æhj þetta var svo gott. Gaman að borða þessar pönnsur. Teygðust skemmtilega þegar maður var að vefja þeim utan um gúmmulaðið, gaman að bíta í þær og bragðið af þeim ó svo brilliant. Ofboðslega lítið af sykri mín kæru, nánast ekkert. Flókin kolvetni, hollar fitur. Hvert stykki eru um 75 hitaeiningar - það er ekki neitt. Bara ef þið hefðuð nú verið á staðnum og fengið smá smakk! En þið verðið víst að láta myndirnar nægja...
... þangað til þið prófið að búa til svona sjálf! Húrra!!
Bakstur | Breytt 23.9.2010 kl. 21:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
22.5.2009 | 13:58
Hafra- og heilhveitipönnsur
Hvað er betra en að starta deginum á klippingu og pönnsum? Þó aðallega pönnsunum!
Mínar uppáhalds eru að sjálfsögðu mömmupönnsur. Þunnar með götum, smá gúmmíkenndar og bragðið af þeim - maður minn. Ís, súkkulaðisósa, jarðaber, rjómi og mömmupönnsur = gleði! Ekkert sem stenst þær!
Annars bjó ég til hafra og heilhveitipönnsur í hádegismat í dag og CAL-A-ZON-AY úr afgangs deginu síðan á miðvikudaginn! Pönnsurnar eru eitthvað sem ég er að prófa í fyrsta skipti og herre gud hvað þær voru fullkomlega æðislegar! Þykkar, mjúkar að innan, stökkar að utan - eins og ekta amerískar ef þið fílið svoleiðis. Búin að vera að róta í gegnum allskonar uppskriftir á netinu og sauð þessa saman úr nokkrum sem mér leyst vel á. Svo tekur svo stuttan tíma að búa þær til, ótrúlega fljótlegt, fá hráefni mjög einfalt. Ég er að segja ykkur það, prófið þessar, þið verðið ekki fyrir vonbrigðum! Þær eru æææði!
Hafra- og heilhveitipönnsur í morgun- eða hádegismat!
1 bolli létt AB-mjólk
Hræra vel saman, verður eins og þykkur hafragrautur. Setja út í hafrablönduna eftirfarandi hráefni:
1 egg
2 msk olía
1/4 bolli heilhveiti
smá agave sýróp eða hunang
1 tsk lyftiduft
kanill eftir smekk, ég notaði að sjálfsögðu slatta
Þið kunnið þetta... blanda vel!
Eftir ofurblöndun skúbba deginu með matskeið eða t.d. ísskeið á meðalheita pönnu. Ekki hafa áhyggjur, degið á pönnunni lítur út eins og hrúga af graut, það lekur ekki út sjálft. En um leið og þið snúið klessunni við, þá skuluð þið nota bökunarspaðann og ýta ofan á pönnsuna, steiktu hliðina, til að fletja hana út. Gott að gera þetta svona því annars klístrast degið allt við spaðann ef þið reynið að fletja hana út strax. Einnig, þegar pönnsan er flött út eftirá, þá ráðið þið hversu þykk hún verður. Ég hafði mínar kannski sentimeters þykkar, rúmlega, enda urðu þær líka ooey gooey í miðjunni. Mjúkar og djúsí, ekkert þurrar. Ótrúlega gott!
Af pönnsunum er sætur keimur, ekki of sætur þó og dauft kanilbragð í lokin. Skemmtileg áferð, stökkar að utan, mjúúkar og djúsí að innan, gómsætar. Mikið er ég glöð að hafa látið á þetta reyna. Geri þessar pottþétt aftur og bæti þá einhverju gúmmulaði í degið. Hnetum, banana, fræjum... endalausir möguleikar. Ég fékk mér tvær, toppaði aðra með krömdum banana, hnetusmjöri, sykurlausri sultu og valhnetum.
Hina masteraði ég með smá kotasælu, eplasneiðum og dust af kanil. Bjútifúl! Stútfullar af flóknum kolvetnum, trefjum, smá próteini - væru æðislegar í morgunmat!
Til að toppa hádegismatinn fékk ég mér svo nokkra bita af calzone. Næstum eins og síðast, eggjahvítur, brokkolí, pinto baunir.
Skyr- og létt AB-mjólkur blöndu með pínku sultu, eplum og melónu.
Og að sjálfsögðu eitt stykki ofur Granola stöng í eftirrétt!
Fyrir utan þá staðreynd að allar myndirnar sem ég tók í dag eru með einum eða örðum hætti úr fókus, þá náði ég að klára um það bil allt út úr ísskápnum. Alltaf svo gaman þegar það gerist því þá.. ójá, get ég farið og fyllt hann á nýjan leik með allskonar gúmmulaði!
Bakstur | Breytt 23.9.2010 kl. 21:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.5.2009 | 22:37
Heimagerðar "Granola" stangir
Vaknaði fyrir allar aldir í morgun og hafði ekkert betra að gera en að búa mér til eitthvað smá heimanammi til að eiga. Get ekki, með hreinni samvisku, sagt að ég viti nákvæmlega hvað ég gumslaði saman í þessar stangir. En ég get svo sannarlega hripað niður 'um það bil' það sem ég notaði og hvað mætti betur fara. Þessar elskur eru alveg "eiturefna" lausar. Ekkert auka prótein, agave sýróp í staðinn fyrir sykur, náttúrulegt hnetusmjör, hnetur, fræ, múslí og þurrkaðir ávextir. Allt á góða listanum að sjálfsögðu, fullt af hollri fitu, trefjum, flóknum kolvetnum, próteinum og skrilljón hitaeiningum. Orkustangir með meiru og henta fullkomlega í t.d. hraðmorgunmat eða jafnvel sem snakk klukkutíma fyrir æfingu.
Ég elska crunch. Þið hafið kannski tekið eftir því. Ég elska hnetur og fræ, hafrar, allt saman í graut þangað til crispy og stökkt. Hiiiimneskt að bíta í og njóta! Ohh já... bragðið af bökuðum hnetum... og lyktin sem kemur í húsið þegar þetta er bakað. Yndislegt!
Granola orkubombur - 16 stangir +/-
1 bollar hafrar
1 bolli þurrkaðir ávextir (ég notaði döðlur og gráfíkjur)
1 bolli hnetumix (ég notaði möndlur, kasjúhnetur og pistasíur)
1/4 bolli sólblómafræ
1/4 bolli graskersfræ
3 msk hörfræ
1/4 bolli sesamfræ
smá kókos
pínkulítið af salti
kanill
1/3 bolli agave sýróp
3 kúfaðar msk hnetusmjör
1 msk olía
tæplega msk af púðursykri
vanilludropar, uþb tappin á flöskunni
Hita ofn í 175 gráður. Blanda saman höfrum, múslí, hnetum, fræjum, þurrkuðum ávöxtum, kókos og kanil. Setja til hliðar. Yfir meðalháum hita sulla saman blautu (síðustu 5 atriði á listanum hér að ofan) þangað til blandan byrjar að bubbla. Tekur kannski 2 - 3 mínútur. Hella hnetusmjörsblöndunni í skálina með þurrefnunum og hræra saman þangað til öll þurrefni eru þakin hnetusmjörsblöndunni. Passa að allt sé vel blandað því hnetusmjörsgumsið er það sem heldur öllu dúlleríinu saman.
Setja smjörpappír í, helst, ferkanntað kökuform eða eldfast fat. Hellda blöndunni eins og hún leggur sig á smjörpappírinn. Ég notaði ferkantað ál-kökuform. Það er betra að nota ílát sem hefur 'kannta' því þá er auðveldara að þrýsta blöndunni saman. Taka annan smjörpappír og leggja yfir blönduna og þrýsta henni niður í kökuformið þannig úr verði þéttur massi. Yfirborðsflöturin þarf að vera tiltölulega sléttur.
Þegar búið er að þrýsta blönduna í svo gott sem steypuklump þá henda inn í ofn í 10 - 20 mínútur. Best að fylgjast með krumsinu til öryggis.
Þegar þetta er tekið út úr ofninum þá er svolítið mikilvægt að leyfa blöndunni að kólna alveg áður en hún er skorin, annars eru miklar líkur á því að þið endið uppi með múslí! Sem er svosum ekkert slæmt þegar ég hugsa um það.
Nota stóran beittan hníf, skera í 16 parta, fleiri eða færri eftir smekk, finna flottustu stöngina, smakka og njóta hvers einasta bita í botn!
Þessar komu svo vel út. Ég var að reyna að "passa" upp á sykurmagnið, átti ekki hunang, annars hefði ég notað það. Þessar eiga það til að molna svolítið þegar bitið er í þær sem þíðir að ég hefði helst þurft að bæta við aðeins meira agave, eða hunangi. Getur verið að hunangið lími þetta betur saman. Það væri líklegast hægt að bæta við eggi eða mjólk, en þá verða þær ekki svona stökkar og fínar. Þrátt fyrir smá mulning þá eru þessar svakalega bragðgóðar. Oh men, eruð þið ekki að grínast. Þetta er fullkomið nammi fyrir mig. Allskonar mismunandi bragð af ristuðum hnetum og fræjum, smá keimur af kanil í hverjum bita, stökkt, smá sætt og endalaust skemmtilegt að borða. Namm!!
Það er svosum hægt að nota hvað sem er. Finna eitthvað upp í skáp, hella því í skál, bleyta upp í því og henda inni í ofn. Hollt og gott snakk hvenær sem er! Fullkomið til að mylja út á hafragraut!
Svo eru þær líka svo ógeðslega flottar!
Bakstur | Breytt 23.9.2010 kl. 21:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.5.2009 | 16:20
Heilhveiti calzone og bakaðar kjúklingabaunir
Cal-a-zon-ay!! Ég elska að segja þetta!
Mig langaði svo ógeðslega mikið í eitthvað pizza-brauð kyns áðan, að eftir mikið hugsanastríð við sjálfa mig varð til yndislega frábærlega fínn calzone. Einmitt það sem mig langað í og ohhohoo hvað hann heppnaðist líka vel. Þar sem ég ætla ekki að endurtaka Pizza-Hut ævintýrið á næstunni þá ákvað ég að búa mér til degið sjálf, var næstum hætt við því ég nennti ekki að standa í öllu ger veseninu. Svo verð ég líka alveg eins og blaðra ef ég borða gerbrauð, get svo svarið það. Fann loks þessa frábæru uppskrift af pizzadegi á Café Sigrún. Það tekur innan við 10 mínútur að útbúa degið og voila! Ég notaði heilhveiti í staðinn fyrir spelt. Þetta er æðisleg uppskrift, hveiti, olía, lyftiduft og vatn. Krydd ef vill. Þetta líkar mér! Einfalt, bragðgott, sinnir sínu hlutverki vel og eintómlega hollt og hamingjusamt!
Eftir að degið var reddí, skipti ég því í tvennt. Flatti helminginn út og kom fallega fyrir á bökunarpappír. Setti á degið salsasósu, um það bil 30 gr. af sveppasmurosti, rúmlega matskeið af heimalöguðu guacamole og nokkra kirsuberjatómata í heilu. Þarnæst steikti ég, hvorki meira né minna, en 6 eggjahvítur á pönnu ásamt brokkolí og 1 hvítlauksrifi. Kryddaði með smá salti og pipar, rauðum piparflögum og smellti á deigið. Ofan á eggjahvítugumsið setti ég svo smá ost.
Lokaði herlegheitunum, penslaði með eggi og inn í 150 gráðu heitan ofn í um það bil 15 - 20 mínútur.
Líklegast er hægt að hafa þetta lengur, ég notaði bara nefið og puttana, þefaði, potaði og tók út úr ofni. Hélt fyrst að calzone-inn minn væri dáinn. Hann leit eins út og þegar hann fór inn í ofn! Þvílíkan og slíkan fölan lit á degi hef ég ekki séð í langan tíma en allt kom fyrir ekki, fulleldaður, mjúkur og fínn.
Úúúú, svo kemur þetta skemmtilega. Smakka!! Ég varð ekki fyrir vonbrigðum, þvílík gleði. Ég er mikil ostakerling en í þetta skiptið var það ekki vandamál. Það má að sjálfsögðu bæta t.d. út í brokkolíblönduna fetaosti, mozzarella, rjómaosti - you name it, til að gera þetta meira djúsí en treystið mér. Þetta var best. Hlakka líka mikið til að búa til fleiri svona. Þetta er æðifæði! Auðvelt að útbúa, auðvelt að gera þetta hollt. Stútfylla af grænmeti, sætar kartöflur, kjúklingur, fiskur... það hlakkar í mér hérna!
Það sem mér þykir svo frábært er að brauðið var ekki yfirgnæfandi. Þunnt brauð í svona rétt er einmitt eitthvað fyrir mig. Þá verður maður saddur af innvolsinu en ekki stútfullur af brauði. Brauðið var ekki þurrt, eiginlega bara fullkomið! Eldað, heitt brokkolí er líka guðdómlegt. Ég held að brokkolí sé mjög misskilið grænmeti, greyið. Ég elska það! Kemur svo vel út í öllum svona réttum. Mmhmmmm!
Mig langaði líka í eitthvað smá snarl í dag og prófaði að henda inn í ofn kjúklingabaunum sem ég svo grillaði þar til stökkar. Kom bara svolítið vel út. Ætla að prófa það aftur. Held nú reyndar að ég hafði grillað þessar svona um það bil 10 mínútum of lengi - en bragðið og áferðin er skemmtileg.
1 dós kjúklingabaunir, skolaðar, þurrkaðar eilítið
Olía, ég notaði 1 tsk af olíu
kanill, cumin, chilli, paprika.... þið ráðið
smá salt og pipar
Hræra saman baunum, olíu og kryddi. Breiða úr baununum á bökunarpappír og inn í 175 - 200 gráðu heitan ofn í 40 - 60 mínútur. Fer svolítið eftir ofninum sem þið eigið. Líka ágætt að kíkja á þær af og til, hræra í og fylgjast með til öryggis. Þær eiga það til að brenna fljótt. Athugið, að ef þær eru ekki alveg stökkar eftir dvöl í ofni þá getur verið ansi erfitt að tyggja þær daginn eftir. En sumir vilja hafa þær svolítið chewy. Annars er ég ekki frá því að ég líti út eins og ein svona baun ákkúrat núna!
Mér finnst þetta sniðugt snakk, trefjar, lítið af fitu og prótein! Svo er skemmtilegt að borða þetta, smá hint af kanil og sterku - geggjað.
Annars er það smokkfisk veisla í kvöld, það verður geðveikt. Gaman að vera ég í dag!
Bakstur | Breytt 23.9.2010 kl. 21:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.5.2009 | 15:11
Mæðradags hafraskonsur og heilhveitibollur
Mæðradagur í dag svo við familían ákváðum að halda til ömmu og afa og halda upp á það. Á þessari annars skemmtilegu samkomu voru fimm stykki af kvensum sem titlaðar eru mæður í minni fjölskyldu, að meðtalinni minni eigin. Ég ákvað því að taka mig til og baka fyrir þær í tilefni dagsins. Ég vissi að það yrði bakaríis-bakkelsi á boðstólnum svo ég bakaði að sjálfsögðu eitthvað voðalega heilsusamlegt og krúttaralegt. Hafraskonsur og heilhveitibollur með banana- og hnetumixi. Hafði með því gúrkur, tómata, kotasælu og harðsauð svo egg.
Hef ætlað að prófa að baka skonsur í svolítið langan tíma. Ég eeelska skonsur. Ég elska bragðið af þeim, sætur keimurinn og þétt brauðið. Þegar ég fer í bakarí þá kaupi ég mér alltaf skonsu og er því hálfgert skonsu snobbhæns - hlakkaði því mikið til að bera saman þessar heimabökuðu!
Hafraskonsur - 8 stykki
1 og 1/3 bolli heilhveiti, má líklegast nota mulda hafra líka
1 og 1/3 bolli hafrar
1 msk lyftiduft
3/4 tsk matarsódi
1 tsk rúmlega kanill
1/2 tsk salt
3 - 4 msk hunang
4 msk ósætað eplamauk
4 msk olía
1/3 bolli fjörmjólk
1/3 bolli létt-AB mjólk, líka hægt að nota 2/3 AB mjólk ef vill eða t.d. gríska jógúrt
Stilla ofn á 200 gráður.
Hræra saman heilhveiti, lyftidufti, matarsóda, salti, kanil og 2 msk hunangi. Færa yfir í matvinnsluvél og bæta við höfrum. Hræra létt, 1 sek í hvert skipti, kannski 15 sinnum þangað til blandað. Bæta við eplamauki og olíu, hræra aftur létt í nokkur skipti þangað til blandan er orðin gróf. Færa yfir í stóra skál. Í annarri skál hræra saman mjólkurblönduna og 2 msk hunang. Blanda blautu saman við þurrt. Ef deigið er of þurrt þá er ágætt að bæta smá höfrum við það þangað til það er hægt að forma það í kúlu ofan í skálinni. Færa deigblönduna á léttilega hveitistráðan flöt og útbúa kúlu sem er um 2 - 3 cm þykk. Skera t.d. með pizzaskera í 8 jafnstórar sneiðar og færa yfir á bökunarpappír. Léttilega smyrja hverja skonsu með mjólkur/hunangsblöndu og strá yfir höfrum.
Baka í ofni í 12 - 15 mínútur.
Heilhveitibollur - 16 stykki
3,5 bollar heilhveiti
1 tsk salt
1 tsk matarsódi
3 msk ósætað eplamauk
2 msk olía
1 bolli rúmlega banana- hnetublanda
-Ég var með 1,5 stappaðan banana, 8 döðlur, 2 fíkjur og dash af kasjúhnetum
1 egg, léttilega hrært
1,25 bollar létt AB-mjólk
kanill
Ofninn á 200.
Hræra saman heilhveiti, salti, matarsóda og kanil. Færa blönduna yfir í t.d. matvinnsluvél, bæta við 2 msk olíu og 3 msk ósætuðu eplamauki þangað til blandan verður grófari. Verður samt ekki "blaut". Bæta banana- hnetu blöndunni, hrærða egginu og AB-mjólkinni í skálina með hveitinu þangað til deigið verður stíft. Athuga skal að deigið er mjög blautt. Því er gott að bæta síðast 1/2 bollanum af hveitinu við í skömmtum þangað til blandan verður nægjanlega stíf til að hægt sé að móta úr henni kúlu á léttilega hveitistráðum fleti. Passa skal að hnoða blönduna ekki of mikið. Þegar búið er að móta kúlu úr deiginu þá tók ég ísskeið og skúbbaði litlum deigboltum á bökunarpappír, eins og maður gerir við kjötfars. Þessu stakk ég svo inn í ofn í tæpar 30 mínútur. Athuga skal að bökunartíminn er misjafn eftir ofnum - ég bakaði mínar aðeins of lengi (gleymdi mér). Held þær þoli alveg 20 mín og þá yrðu þær perfecto. Það er líka hægt að gera færri bollur og minni, mínar voru svolítið stórar.
Jæja. Ef við byrjum á hafraskonsunum. Ja.. hérna.. hér! Alveg eins og eðal bakaríis-skonsur, ef ekki betri. Þær mýkjast aðeins upp eftir geymslu, en mikið ofboðslega eru þær bragðgóðar og skemmtilegar að borða. Þéttar í sér, mjúkar, alls ekki þurrar og töluvert sætar. Það mætti janvel minnka magnið af hunanginu í þessari uppskrift. Skonsurnar voru fyrstar til að klárast í matarboðinu! Eftir hvern bita kemur skemmtilegt eftirbragð af kanilnum og lyktin sem kemur í húsið þegar þær eru bakaðar. Ohh men! Hafraskonsurnar fá 10 prik í minn kladda og þær kem ég til með að baka aftur innan skamms.
Tilvalinn morgun/hádegismatur með kotasælu, grænmeti, osti, skinku, eggjum... mmmmmm! Sjáiði bara hvað þær eru ógeðslega flottar - treystið mér, jafn góðar ef ekki betri á bragðið en myndirnar sína!
Heilhveitibollurnar voru mjög skemmtilegar líka. Af því að ég bakaði þær aðeins of mikið þá kom ansi almennileg skorpa utan á þær - en mér persónulega finnst það æði. Alveg crunchy utaná og dúnmjúkar að innan. Banana- og kanilkeimur, sem er skemmtileg blanda, og af og til kemur óvæntur döðlu-, gráfíkju- eða hnetubiti sem gerir upplifunina við að borða þessa snilld enn betri. Það er alveg nægjanlegt að sæta þessar bollur með banana- hnetu blöndunni. Léttar í sér - oh þær voru æði! Næstum eins og smákökur með þessa skorpu.
Sjáið þið svo til elsku bestu - enginn hvítur sykur (og lítið af sætu), ekkert hvítt hveiti, eintóm hamingja og vel heppnaður bakstur! Prótein, flókin kolvetni - snilldarlegt! Hollt og gott fyrir skrokkinn og litlu frænkurnar mínar hámuðu þetta í sig!
Bakstur | Breytt 23.9.2010 kl. 20:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.5.2009 | 21:44
Heimagert möndlusmjör með hunangi og kanil
Hnetusmjör er svo æðislega fínt út á t.d. grauta og skyr, rétt smá í skeiðina. Líka frábært að rista brauð með kanil-eggjablöndu, smyrja yfir það hnetusmjöri, smá sultu og banana. Hnetusmjör, hnetur og möndlur eru einfaldlega eitthvað sem er á góða listanum mínum! Þegar maður mallar það í heimahúsi er nokkuð víst að engin aukaefni/olíur/salt ofr. séu að flækjast fyrir - bara mjög, mjöög vel muldar möndlur! Svo eru hnetur og möndlur svo ótrúlega hollar og frábærar. Holla fitan og prótein... namm!
Ég útbý mér stundum hnetusmjör hérna heima, möndlusmjör eða blandað hnetusmjör. Stundum jafnvel með hörfræjum og allskonar sniðugu. Er bæði gaman og óóótrúlega bragðgott! Fékk mér nýtt eldhúsdót í dag og ákvað í tilefni af því að hræra í einn lítinn skammt af möndlusmjöri - fann einn poka af möndlum upp í skáp.
Möndlusmjör - tæplega 60 ml smjör
1 poki möndlur, mínar voru með hýðinu
1 tsk hunang eða Maple Syrup, rétt svo til að húða möndlurnar
Kanill eftir smekk
Salt ef vill - ég sleppti því
Hræra saman möndlur, í heilu, hunang og kanil. Dreifa jafnt yfir bökunarpappír og rista í ofni í 15 - 20 min á 180 gráðum. Þegar möndlurnar eru ristaðar áður en þær eru hrærðar, verður smjörið mun skemmtilegra á bragðið og lyktin er ómótstæðileg. Lykt af ristuðum möndlum er himnesk!
Eftir að búið er að rista möndlurnar þá þarf einfaldlega að setja þær í mixer og byrja að mixa. Getur tekið allt að 10 mínútum. Á einhverjum tímapunkti byrjar blandan að forma kúlu, þá bæti ég stundum pínkulítið af olíu með, nær ekki teskeið.
Halda áfram að hræra... og hræra... af og til skrapa hliðar skálarinnar - hræra meira þangað til blandan verður að smjöri. Er nú ekki flóknara en svo. Því meira sem þú hrærir, því mýkri verður blandan að sjálfsögðu. Ef salt á að fara út í þá er ágætt að bæta því við í restina - ég geri það aldrei.
Smjörið er með smá sætum keim af hunanginu og kanilnum og pínkulítið af ristuðum hunangs/hnetu leyfum. Maður finnur ristaða bragðið af hnetunum mjög vel og áferðin af smjörinu er mjög skemmtileg. Æðislegt bragð.
Ég notaði þessa snilld að sjálfsögðu strax í kvöldnaslið mitt. Skeið af hreinu próteini, 1 tsk af nýmuldu möndlusmjöri og möndlur með. Næstum skammarlegt - þetta er eins og að borða nammi!
Bakstur | Breytt 23.9.2010 kl. 20:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)