16.2.2010 | 11:26
Yndislegt veður
Var aðeins sein fyrir í morgun og náði ekki að skella í einn Hvító. Ég örvænti þó eigi því ég hrifsaði með mér prótein, í fallegu appelsínugulu plastboxi (og já, um fegurð plastboxins má deila) og mætti galvösk í vinnugraut eftir æfingu í morgun!
Vinnugrautaraðstaða extraordinaire!
Þurrkaðir bananar eru "nammi", ég veit, en þeir eru svo fullkomnir fyrir áferðaperrann og bragðlaukagúbbann! Ég bara varð!
Það er aftur komið vor eftir tveggja daga kuldakast! Það er fast og slegið - mér líkar betur við þetta veðurfar!
Matur og drykkur | Breytt 24.9.2010 kl. 12:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
15.2.2010 | 16:39
Bolluát og almenn gleði
Gaman að segja frá því að ég átti einusinni afmæli á bolludegi! Hvenær nákvæmlega, man ég ekki alveg, en bollan afmælaðist á bolludegi og þótti gleðilegt.
Góð saga ekki satt?
Þrátt fyrir óþrjótandi ást mína á bollum og bollulegum hlutum þá fór þessi bolludagur fyrir bý. Ég hef ekki verið í miklu bollustuði, þrátt fyrir leynilegt ástarsamband mitt við rjóma, og hef því alfarið sleppt bolluáti þetta árið.
Hef nú samt farið í eitt bollukaffi a-la amma. Ömmubollur eru að sjálfsögðu alltaf stórkostlegastar! Algerlega ölska þær. Ásamt ömmubollum var eitt stykki Valdabrauð á boðstólnum. Jú.. þið eruð að hugsa rétt. Valdi, Dossumaður, á sitt eigið brauð innan fjölskyldunnar! Þetta brauð er líka það vinsælasta í heiminum og klárast jafn hratt og ís í minni návist.
Fór annars á nýja veitingastaðinn Tandoori í gær. Það var bara ágætlega svei mér þá hressandi og skemmtilegt. Svolítið dýrara en á Saffran en afskaplega ljúffengt og réttirnir nokkuð vel útlátnir verð ég að segja. Ég fékk mér Tandoori kjúllann. Hann var svaðalega fínn. Tandoori er samt bleikara en allt sem er bleikt, eins og átfélagi minn hafði orð á í gær "Það er alltaf eins og kjúklingurinn sé varalitaður!".
Vinnan hélt bolludaginn líka hátíðlegan. Ég góndi á nokkrar ofurbollur í hádeginu sem héngu kæruleysislega fyrir ofan alla "hollustuna" og hlógu að gangandi vegfarendum. Biðu eftir því að einhver bugaðist og fengi sér bita með hádegismatnum í staðinn fyrir í eftirrétt. Þið sjáið það sjálf, það eru allir í störukeppni við bollukvikindin!
Það voru nokkrir sem stóðust ekki mátið, brustu undan álaginu með miklum óhljóðum og nældu sér í risabollu með kjötbollunum sem voru svo í matinn.
Hádegismaturinn minn var svosum samur við sig. Glæsilega fínn og fallegur á að líta.
Er núna að hamsa í mig restina af þessu tandoori ævintýri. Þetta dugði mér í þrjár máltíðir mín kæru. Hádegis-, kvöldmatur og fyrir æfingu snarl!
Ég reyndi eins og ég gat að koma orðinu bolla fyrir í hverri málsgrein. Ég held það hafi næstum því tekist ágætlega. Bolla er orð sem kemst mjög auðveldlega á fyndnuorða listann minn.
Bolla bolla!
Hvað eru margar bollur í því?
Matur og drykkur | Breytt 24.9.2010 kl. 12:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
13.2.2010 | 18:19
Sæll gamli vin
Skyr! Jasoh! Ansi langt síðan ég bragðaði á slíku!
Skyr, epli, haframúslí og smá hnetusmjör í skeiðina. Þetta var bara gleðilegt!
Leyfði slettu af bláberjaskyri að fylgja með upp á grínið!
Leitdagur með meiru! Stórkostlega gott!
Matur og drykkur | Breytt 24.9.2010 kl. 12:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
12.2.2010 | 13:02
Á hvað ert þú að horfa?
Mikið eru vinnumatardiskarnir mínir alltaf glæsilega fínir! Svo óstjórnlega hamingjusamir á litinn!
Æji... þetta eru nú samt hálf subbulegar myndir af einhverjum ástæðum! Allt myndefnið svo argintætulegt, úfið og frekjulegt!
Annars er lakkrís hérna í vinnunni ásamt fleiru spillandi fóðri! Apollo lakkrís krums afgangar beinustu leið úr verksmiðjunni. Ég sit hérna í tveggja metra fjarlægð og gef skálinni illt auga við og við. Apollo lakkrís - lakkrís - það er bara svo dónalega mikil átvaglsgleðin sem fylgir lakkrísáti!
En ég læt ekki bugast. Ég held áfram að stara á ófögnuðinn í randaflugulíki! Randaflugur...
...ég fann vorlykt í morgun! Það er febrúar gott fólk og ég get farið út á stuttermabolnum! Skiljanlegt ef við værum stödd í kengúrulandi.
Þetta er með ólíkindum! Jákvæðum ólíkindum engu að síður!
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 13:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
12.2.2010 | 10:23
Bolludagur nálgast
Sjáið þið bara hver beið eftir mér þegar ég kíkti inn í ísskáp í morgun! Það er möguleiki á því að bolludagur sé að nálagst miðað við ísskáps-félagsskapinn! Rjómi er ekkert nema hamingja og gleði!
Þessi sprengja átti sér svo stað í gær!!! Sökum ofurþreytu varð ekki úr skrifum eftir að heim var komið - en gærkveldið verður listað upp með pompi og prakt seinna í dag. Þvlílík veisla.
Góður félagsskapur og svakalega gott ét í gær - alveg sakalega!
10.2.2010 | 13:52
Kálfar eru ekki sem verstir
Kálfakjöt í hádeginu! Ég fékk mér smakk - það var æði! Með þessu dýrindis fóðri borðaði ég að sjálfsögðu grænmeti.. ferskt spínat. Ohhh.. mikið er ferskt spínat gleðilegt að bíta í og borða.
Glæsilega fínir litir!
Í spínatinu földu sig líka nokkur jarðaber! Grænn og rauður gerir góða hluti í myndatökum. Það verður bara að segjast.
Hamagangurinn var annars svo mikill í átinu að einn kálfurinn tók á rás og halelúja hoppaði með stæl út af disknum. Paprikan fylgdi í humátt á eftir. Ég reddaði ástandinu þó án þess að margir tækju eftir - meira að segja með myndatöku innifalinni.
Stuttu seinna, um það bil einum munnbita seinna, tók ég svo assgoti vel á öðrum bita á disknum mínum að hann spratt upp með tilhlaupi og subbaðist á borðið með hljóðum og óhljóðum "slubbbfff". Tók að sjálfsögðu með sér í stungunni nokkrar paprikur! Veit nú ekki hvaða dularfulla vinasamband er á milli paprikunnar og kálfsins!
Mikil hádegisátstilþrif í dag!
Jæja.. æfing á eftir. Ég get ekki beðið! Hihhh...
Matur og drykkur | Breytt 24.9.2010 kl. 12:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
9.2.2010 | 14:47
Avocado, eggjahvítur og Snickers?
Þvílíkur dásemdar hádegismatur! Svínahnakki í hádeginu - ekki alveg í stuði með grísnum í dag og réðst því að sjálfsögðu á vinnuhvíturnar. En ekki hvað? Með herlegheitunum fylgdi einn af mínum uppáhalds fitugjöfum! Avocado! Óhguðogallirenglarnir! Það var fullkomlega rétt þroskað. Saltaði smá, pipraði og grét næstum af átgleði!
Sjáið þið bara hvað diskurinn er líka glæsilega fínn! Þessi litagleði kætir mig aðeins meira en góðu hófi gegnir held ég. Ég lummaði með á diskinn, ólívum og einum litlum sólþurrkuðum tómat. Syndsamlega gott. Ég sé í hyllingum "Sólþurrkaða tómata- og ólívupasta" á næstu dögum.
Það má ekki leika með matinn. Ég veit það vel - en það er eitthvað kætandi við það að krota andlit á gumsið. Við skulum ekki fara aftur út í það hversu hræðilegar "Harðar Duftkenndar Gulur" eru! Þið sjáið það mæta vel sjálf á þessari mynd - kvikindið hefur ekkert gott í huga.
Viðbit dagsins... lítur skelfilega illa út!! SKELFILEGA! Ég ætla ekki einusinni að segja ykkur hvað mér dettur í hug... finn það á mér að Heba Maren komi með góða útskýringu!
En gott var það! Hnetusmjör og Súkkulaði-Moccha Scitec! Eins og Snickers gott fólk! Alveg eins og Snickers!
Matur og drykkur | Breytt 24.9.2010 kl. 12:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
9.2.2010 | 10:38
Hvíl í friði Beyglur
Grauturinn í morgun var óvenju góður! Eggjó með blábó - sami klassíski en í þetta skiptið lét ég dýrið sitja í rúman klukkutíma í plastboxinu sínu áður en ég beit í hann. Hann varð eins og brauð - kaka - eitthvað stórkostlegt! Fullkomin áferð fyrir mig, það verður bara að segjast!
Sjáið bara - það væri hægt að skera úr honum sneið!
Blóðbaðið samt við sig. Þetta er ekki girnilegt gums, það verður bara að segjast - næstum eins og blóðmör! Ohh, hvað ég væri til í blóðmör núna!
Booooo... bara einn biti eftir!
Annars gáfu Beyglurnar mínar upp öndina fyrir nokkru síðan. Komnar langt framyfir síðasta söludag. Ég hef þó notað druslurnar óspart eftir andlátið, og ekkert skammast mín fyrir það, en nú er nóg komið! Þær hafa þjónað átvaglinu vel og nú er komið að leiðarlokum!
Getið þið ímyndað ykkur hvernig aumingjans krumlurnar litu út ef ekki værir fyrir hanska? Nem ég sé með einhverja prinsessuputta! Herre gud!
Matur og drykkur | Breytt 24.9.2010 kl. 12:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
7.2.2010 | 00:21
Prinsessuþema og svín í teppi
Afmælis og bollumánuður með meiru! Báðar litlu frænkurnar, ásamt átvaglinu, eiga afmæli í þessum mánuði fyrir utan bolludaginn sem fær sjálfkrafa að fylgja með! Stórkostlegt alveg hreint.
Valdís Anna, 4 ára prinsessubarn, hélt upp á daginn sinn í dag.
Veitingarnar voru vægast sagt með eindæmum óskaplega æðislegar! Já takk! Látum myndirnar tala!
Afmælisborðið sjálft var með flottari prinsessuborðum hérnemegin Alpafjallanna!
Alltaf hamagangur í eldhúsinu. Allar kerlingar að fikta í einhverju og vesenast með matvæli fram og til baka. Þarna sjáið þið Dossu þjóta framhjá á ljóshraða með bakka fullan af gúmmulaði. Valdi hangir þarna á kanntinum og þykist vera að hjálpa. Hvort hann hafi verið að hjálpa er ekki vitað, en eitthvað var hann þó að vesenast... nappaður við að ræna sér gumsi! Vaaaldi þó!
Takið eftir, jebb, ákkúrat þarna - sjáið hvað hann gerir á meðan kerlingarnar eru uppteknar við að tala um svín í teppi og karamellukökur!! Sakleysið uppmálað.
Sungið fyrir afmælisskvísuna. Hún krullaðist saman í litla kúlu en þótti frekar fínt að fá að blása á kertin og taka þau svo af.
Þessum disk gæddi ég mér svo á og jú... þið getið margfaldað þetta með um það bil milljón.
Æðislega fín veisla! Takk fyrir Dossan og Valdinn og til hamingju með litla sæta dýrið! Ahh... gott, gott ét! Gott, gott fólk.
Pönnsur eru bestar!
Matur og drykkur | Breytt 24.9.2010 kl. 12:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
5.2.2010 | 13:39
Afmælisþreyta.. eða er þetta ellin?
Það hlaut að koma að því! Það bara gat ekkert annað verið!
Ég svaf yfir mig í morgun! Það hefur ekki komið fyrir síðan ég byrjaði að vinna! Ég hef ekki sofið yfir mig í 2,5 ár! Ég var svo hissa á þessu að ég leit á klukkuna í þrígang til að vera alveg viss. Get svo svarið það... 09:27 og eina sem ég hugsaði var "Nei andskotinn... hvað er að símanum mínum?"!
Ég er enn hálf gáttuð á þessu!
Sökum ónáttúrulegrar ásóknar í svefn skellti ég próteini, vatni, höfrum, kanil og frosnum bláberjum í skál á innan við 0.05 sek.! Ég setti líka smá múslí í skálina - rétt fyrir kramið. Það tók 0.01 sek.! Ég er ekki hafragrautarhetja að ástæðulausu!
Gærdagurinn var annars hinn besti. Eftir að ég kom heim úr vinnunni biðu mín skúffukaka og bananabrauð frá ömmunni og risastór ofurkaka frá Svöbbu. Svo sætar og fínar þessar kerlingar í fjölskyldunni minni! Stórkostlega ánægð með þetta - og takk báðar tvær.
Afmælismaturinn var hinsvegar kjúlli á Saffran. Ég bara varð.. ég hef ekki fengið mér Saffran síðan fyrir jól og halló allir heilagir andar, óandar og skrandar. Þetta var bara dásamlegt ét - en assgoti stór skammtur. Ég náði rétt að torga einum bita og þá var mælirinn fullur! Það gerist sárasjaldan á öldum átvaglsins!
Þessi mynd gerir kjúllanum samt engin skil, töluvert subbulegri en rétturinn bragðaðist. Sjáið bara hvað grjónin eru eitthvað druslulega dreifð út um allt! Vita þau ekki að þau eru í mynd?
Ekkert að óttast þó, ég skildi ekkert eftir. Afgangarnir notaðir í matinn í dag - með hnetusmjöri! Ójá! Fyrir æfingu á eftir spisa ég svo hinn helminginn af kjúllanum með grjónum! Mhhh hvað ég ölska grjón!
Hlakka til að komast í spriklið. Verður með eindæmum ljúft að fá blóðið aftur á hreyfingu!
Afmæliskaffi hjá Valdísi Önnu litlumús um helgina.
Jahérna hér... ég svaf yfir mig í morgun!
Matur og drykkur | Breytt 24.9.2010 kl. 12:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)