Þakklæti

Ég held að maður staldri aðeins of sjaldan við og hugsi vandlega um þá hluti sem gera sálina hoppandi hamingjusama! Hlutir, stórir og smáir, einstaklingar, sambönd, umhverfi - sem maður tekur annars sem sjálfsögðum hlut dags daglega. Sérstaklega núna, þegar svínaflensa og bullandi kreppa dansa trylltan stríðsdans fyrir framan nefið á fólki og gera grín.

Það er ansi margt sem ég er þakklát fyrir í lífinu og ég hef nákvæmlega ekkert til að kvarta yfir. Mér verður það hinsvegar alltaf deginum ljósara hversu dýrmæt fjölskyldan mín og vinir eru og hversu frábæru fólki ég virðist hafa náð að sanka að mér undanfarin ár.

Hinsvegar, þá er þessi bloggfærsla tileinkuð foreldrum mínum. Þau eiga hana alveg út af fyrir sig! Jú, ég ætla sko að vera væmin og nýta mér vefinn til að auglýsa vel og vandlega hversu meyr í hjartanu ég er á þessum annars ágæta sunnudegi! Frábærara fólk og betri foreldra er ekki hægt að hugsa sér. Óteljandi margt sem þau hafa fyrir okkur systur gert!

Þau eru, og hafa alltaf verið, til staðar þegar ungviðið (ég og systir mín) höfum veinað. Allt frá magakveisu upp í mjög dramatíska og hormónatengda ástarsorg. Þau hafa lifað af frekjuköst af öllum stærðum og gerðum, gelgjulæti, prófstress, árekstra, bílskutl, matarnasista og horsnýtt gluggatjöld! Okkur systrum hefur aldrei nokkurntíman vanhagað um neitt og allaf þegar ég stíg fæti inn í gúmmulaðihöllina fylgja því notalegheit og kósýness!

Þar af leiðandi ákvað ég að skella mér til þeirra í morgun og útbúa smá "American style" hádegismat. Þetta er nú hálf ómerkileg matarveisla, til vitnis, um hversu vel ég kann að meta þau, en lítið er meira en ekkert ekki satt? Næst verður það kvöldmatur af stærri gerðinni! Jæja, í boði voru amerískar heilhveiti pönnukökur, steikt egg...

Egg að steikjast og heilhveiti pönnukaka í bígerð

... brokkolísalatið sívinsæla...

Syndsamlega gott brokkolísalat

...svissaður laukur og sveppir, niðurskornir tómatar, steikt djúsí beikon, bakaðar baunir og vatnsmelóna.

Semi american style hlaðborð

Forréttarnasl var svo hnetumix frá því í gær ásamt nýju hnetumixi. Sætt, karrýristað hnetu- og fræbland! Kom skemmtilega út en ég er hrifnari af hnetum gærdagsins.

Sætt karrýblandað hnetumix

Í tilrauna eftirrétt, ef eftirrétt skal kalla, bjó ég til hálfgert flatbrauð úr afgangs pizzadeginu síðan á föstudaginn. Sætt flatbrauð. Innihaldsefni meðal annars bananar og döðlur. Kom ekkert smá vel út. Fullt hús stiga í mínum sætabrauðskladda. Ég set uppskriftina inn í vikunni.

Sætt flatbrauð með banana, döðlum, rjómaosti, osti, möndlum og sítronuberki

Skál í botn fyrir besta foreldrasetti hérnamegin Alpafjalla og takk fyrir að vera til bæði tvö!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Awwww - grínlaust, þá bara spýttust tárin á skjáinn hjá mér!  Nú þarf ég að snýta mér!

Lofjú Leggos :)

Dossa (IP-tala skráð) 26.7.2009 kl. 18:35

2 Smámynd: Elín Helga Egilsdóttir

Spýtandi tár og snýtandi nef... bíddu bara þangað til bloggfærslan um þig ratar hingað inn

Elín Helga Egilsdóttir, 26.7.2009 kl. 18:53

3 identicon

Bara kvitt, ég fann síðuna þína fyrir skömmu og alveg elska hana, bara merci merci :) gaman að sjá svona íslenska matarbloggsíðu! og gaman að sjá að fleiri elska að búa til ofurhafragrauta og allskyns gúrmei hollustukökur ;)

laufey (IP-tala skráð) 27.7.2009 kl. 00:42

4 Smámynd: Elín Helga Egilsdóttir

Sæl Laufey og bestu þakkir fyrir mig! 

Ójá.. ofurhafragrautar eru alveg málið! Þó sérstaklega að vetri til á íísköldum, snjómiklum helgarmorgnum!

Elín Helga Egilsdóttir, 27.7.2009 kl. 12:22

5 identicon

Yndislega fallega gert af þér :)

Þekki þig ekkert en elska hreinlega bloggið þitt.  Finnst gaman að prófa uppskriftirnar þínar og þú setur þetta svo skemmtilega upp að maður fer alltaf í ótrúlega gott skap við að lesa það sem þú skrifar!

Takk fyrir mig

p.s hvar færðu graskersmaukið ef ég legg í að prófa snúðana lystugu?

kveðja Auður Lilja

Auður (IP-tala skráð) 27.7.2009 kl. 17:26

6 Smámynd: Elín Helga Egilsdóttir

Sæl Auður og takk kærlega fyrir þetta æðislegt komment! Góð komment koma manni líka í eðal fínt skap og þetta er sko alger snilld að heyra!

Graskersmaukið fann ég í Hagkaup. Það er örugglega til annarsstaðar en í Hagkaup fann ég það fela sig á milli ora bauna og Betty kökumix-s! Líka ææðislegt að nota það í hafragraut.

Elín Helga Egilsdóttir, 27.7.2009 kl. 22:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband