Færsluflokkur: Prótein

Sætar kartöflur og prótein?

Ekki verða brjáluð út í mig... en ég gerði það samt! Og já - þetta var dónalega gott!

Sætu kartöflu og próteingrautur 

Þykkt blandað prótein (GRS5), sæt kartafla, vanilludropar og kanill. Kartöfluna ofnsteikti ég í mauk, stappaði í muss og blandað saman við próteinið, kanilinn og vanilludropana, átvaglinu til flundrandi hamingju!

Þennan graut kem ég til með að blanda oftar en einusinni í viðbót, svo mikið er víst.


Bruscettu hafrar með ólífum og eggi

Fallegur morgunn. Virkilega notalegur. Sit hérna frammi með morgunmatinn minn, kisarnir sofandi í sitthvoru horninu.

zzz zzz

 

 

 

 

 

 

 

Pallinn sefur inn í herbergi og það heyrist ekki múkk úti! Mikil kyrrð yfir öllu.

Útsýni morgunsins

Bruscettu hafrar með ólífum og eggi

Bruscettu hafrar með ólífum og eggiSjóða saman

dl af höfrum, rúmlega

1 - 2 eggjahvítur

3 - 4 svartar ólífur

1/4 marið hvítlauksrif

salt, pipar, hot sauce, basilika eftir smekk

2 dl vatn

Hrært saman eftir suðu

1 þunn sneið smátt skorinn rauðlaukur

1 niðurskorinn tómatur

2 - 3 steiktar/örbylgjaðar eggjahvítur

Hafragrautsskraut

1 heilt steikt egg, salsasósa og smá steinselja.

Bruscettu hafrar með ólífum og eggi

Svo gott þegar eggjarauðan ákvað að leka ofan í grautinn. Hólý mólýness og allir englarnir! Ef þið hafið ekki prófað að setja egg á hafragraut, mæli ég með því að þið gerið það núna! Svaakalega gott!

Bruscettu hafrar með eggi

"Eftirrétturinn" voru frosin jarðaber sem ég stakk ofan í pínkulítið af þykkt blönduðu próteini með kanil.

Frosin jarðaber og prótein

Frosið jarðaber og prótein

Væri til í að prófa graut með t.d. blöndu af kryddunum sem voru í kjúllanum í gær. Kanill, cumin, kardimommur, engifer, hvítlaukur og blanda út í hann vel steiktu grænmeti - væri ábyggilega geggjað! Jafnvel útbúa amerískan morgunverð úr graut og bæta við eggjum, beikoni og smá sýrópi!

Hohoooo... ætla að leggjast í víking í grautarkryddi á næstu vikum og sjá hvort eitthvað stórkostlegt eigi sér stað!


Hvað er hægt að gera við prótein?

Allskonar!

Að sjálfsögðu er hægt að útbúa drykki. Það er eitthvað sem allir kunna.

Banana og spínat prótein drykkur - geggjað

Banana- og mango drykkur

Prótein ís.

Prótein ís fyrir svefninn.

Prótein berjabúðingur. Hita ber í muss og blanda próteini þar út í.

Prótein berjabúðingur

Prótein pönnsur.

Graskers prótein pönnsa

Prótein pönnukaka með bananasneiðum, múslí og möndlusmjöri

Líka hægt að setja próteinið út í grauta og skyr.

Karamellukenndur jarða- og bláberja próteingrautur

Graskersmauk, prótein, kanill og múslí

Banana og spínat prótein ís með ávöxtum og crunchi

Banana ís með próteini, skyri, múslí með þeystirjóma og nammi ;)

Hnetu og hafra- prótein kökur.

Þykjustunni prótein hnetukaka

Hafrakaka - þarf ekki að baka

Ídýfa fyrir ávexti.

Hnetusmjörsblandaður prótein búðingur og eplaskeið

Prótein með trefjamúslí og eplaskeið!

Prótein flögur.

Snakk

Próteinstangir, kökur, smákökur, brauð, granolastangir.

Próteinstöng - om nom nom

Granola prótein stangir

Hafra- og bananabrauð

Bæta út í próteinið hnetusmjöri og útbúa hálfgerðan búðing.

Hnetusmjörsblandaður prótein búðingur

Stappa svo út í búðinginn banana og bæta eplabitum útí?

Eiiiiiinmitt það sem ég gerði áðan!

Hnetusmjörsblandaður prótein búðingur með stöppuðum banana og smátt skornu epli

Voila.. hálfgerður búðingur sem seðjar fullkomlega vel og slekkur á allri hungurpínu. Miklu skemmtilegra að borða próteinið í þykkara formi heldur en í drykk... heldur átvalginu amk sáttu í lengri tíma Cool

Lumar kannski einhver á sinni uppáhalds próteinuppskrift sem hann/hún vill deila?  Wink


Prótein hnetukaka

Þetta eru nú ekki merkileg vísindi en ég geri þetta nú samt stundum til að breyta til og gleðja áferðaperrann. Prótein, vatn, hnetur og krydd. Alltið og sumtið sem þarf til að búa þetta til. Taka hnetur og mylja smátt. Ég notaði möndlur hérna (nota líka pecan- og valhnetur), setti í lítinn plastpoka og muldi með kökukefli.

Muldar möndlur

Hnetur í skál, um það bil 1 msk próteinduft (ég notaði GRS-5) og kanill eftir smekk.

Hnetur/möndlur í skál ásamt próteini og kanil

Blanda létt saman.

Hnetur/möndlur í skál ásamt próteini og kanil

Ponsulítið af vatni, rétt þannig að próteinið leysist upp og nái að þekja hneturnar.

Hnetur/möndlur í skál ásamt próteini og kanil, hrært saman við smá vatn

Inn í örbylgju í 40 - 60 sek. Ég var með mitt inni í 40.

Hnetur/möndlur í skál ásamt próteini, kanil og smá vatni - örbylgjað

Setja á disk, þjappa saman og móta í köku... eða gíraffa... eða stjörnu...

Þykjustunni prótein hnetukaka

Setja inn í ísskáp/frysti og hohooo!

Þykjustunni prótein hnetukaka

Hnetukaka sem er mjöög gaman að bíta í!


6 máltíðir yfir daginn

Sú fyrsta klukkan 06:00, á lyftingadögum - annars klukkan 9, og sú síðasta á milli 22:00 - 23:00 á kvöldin.

Morgunmatur - 09:00

Kökudeigs jarða- og bláberjagrautur.

Þessi var æði! Blandaði vanillupróteini (GRS-5), vanilludropum og kanil þykkt saman með vatni. Hrærði höfrum þar útí, bætti smá vatni við uppá áferð og svo loks frosnum jarða- og bláberjum! Yömmó!

Kökudeigs jarða- og bláberjagrautur

Millimál - 11:00

Banana- og eplaskyr með kanil. Draumur í ... plastboxi!

Banana- og eplaskyr með kanil

Banana- og eplaskyr með kanil

Hádegi - 13:40

Grillaður kjúlli og sæt kanilkartöflustappa (uppáhalds uppáhalds þessa stundina). Já, ég geri mér grein fyrir því að kanill hefur komið við sögu í fyrstu þremur máltíðum dagsins hjá mér!

Grilluð kjúllabringa, sæt kanilkartöflustappa og grænmó

Millimál - 16:00

Harðfiskurinn minn og hneturnar.

Harðfiskur

Pecanhnetur

Kvöldmatur - 19:00

Jújú, laukur, rauðlaukur, gulrætur og paprika steikt upp úr olíu, þangað til mjúkt. Saltað eilítið. Roastbeef rifið/skorið niður og bætt út á pönnuna rétt í endann til að hita. Ég tók pönnuna af hitanum og bætti svo kjötinu við, hrærði smá og voila! Þetta var æðislegt! Einfalt og bragðgott. Geri svona gums pottþétt aftur. Sætur laukur/gulrætur, smá saltbragð og piprað kjötið... mikið gott!

Roastbeef með steiktu grænmeti

Máltíð fyrir svefn - 23:00

Hnetusmjörsblandaður prótein 'búðingur'.

Próteini (GRS5), hnetusmjöri, kanil og vanilludropum blandað þykkt saman með vatni. Þessar blessuðu myndir gera því miður bragðinu, og áferðinni, ekki nein skil, myrkrið mín kæru. Blessað myrkrið. En ekki vera hrædd þó liturinn sé skelfilega óaðlaðandi - þetta er syyyyndsamlega gott snarl.

Hnetusmjörsblandaður prótein búðingur

Ljúfa líf og laugardagur á morgun! Ég bjó mér til kökudeig (eggjalaust) með súkkulaðibitum, hnetusmjöri og hnetum í gær og ætla að kaupa ísinn á morgun. Minn eigin kökudeigsís!! Hihiii...


Kökudeigsgrautur

Ohh hvað þessi grautur var geggjaður! Eins og karamella... eins og kökudeig fólkið mitt!! Kökudeig í morgunmatinn!!

Æðislegur jarða- og bláberja próteingrautur

Tók mig til í gær og örbylgjaði nokkur frosin jarðaber í múss. Bæti út í þau einni skeið af GRS-5 próteini, kanil og vanilludropum og hrærði vel saman. (mætti örugglega alveg vera annað prótein, hreint, máltíðar.. hvað sem er) Eftir það fór smá sletta af vatni, kannski 1 - 2 msk, út í herlegheitin og loks hafrar þannig að þegar ég hrærði blandið saman, þá var það stíft og mjög þétt. Loks fór lúka af frosnum bláberjum (ekki hituðum) ofan í volgan grautinn, hrært létt saman og inn í ísskáp.

Karamellukenndur jarða- og bláberja próteingrautur

Ég elska vel heppnaða ísskáps/næturgrauta. Þessi var svona blanda á milli hafraköku og næturgrauts. Ég held reyndar að próteinið hafi haft svolítið að segja hérna, er ekki alveg viss. Þarf að prófa aftur með hreinu próteini. Hann var svo fullkomlega fínn að ég hefði getað rúllað upp litlar kúlur og útbúið konfekt. Karamellukenndur með bláberja og kanilkeim. Mhmm..

Karamellukenndur jarða- og bláberja próteingrautur

Þennan geri ég pottþétt aftur. Eins og að borða nammi í morgunmat. Hamingja og gleði í plastboxi fyrir nammigrísinn og áferðaperrann!

Ohh.. búúiiið :(

Búið... *grát*


Litli ljóti grauturinn

Mér tókst, í gær, að búa til hræðilegasta lit á hafragraut fyrr og síðar! Mér líður svolítið eins og brjáluðum vísindamanni að búa til sinn fyrsta Franken-graut! Hvernig varð þessi ljótgrautur að veruleika?

Tilraunin fólst í örbylgjuhituðum jarðaberjum, hreinu próteini og ósoðnum höfrum. Setti nokkur ber í skál og inn í örbyglju þangað til þau urðu að hálfgerðu gumsi og byrjuð að bubbla. Út í berin hrærði ég svo próteininu. Fagurbleikt og krúttaralegt. Gomma af ósoðnum höfrum fékk svo að fylgja með ásamt köldu vatni eða þangað til grauturinn var orðinn að mínu skapi. Inn í ísskáp yfir nótt (hafrarnir drekka í sig vökvann). Í morgun blandaði ég svo kanil og vanilludropum út í herlegheitin.. og viti menn! Franken grauturinn varð til! Ég er ekki frá því að einni eldingu hafi lostið niður þegar kanillinn fór út í grautinn og smá "MUAHAHAAAA..." komið frá mér af einhverjum dularfullum ástæðum!

Hræðilega húðlitaður grautur

Ljótari graut hef ég ekki gónt á í langan tíma. Hræðilegri lit er ekki hægt að hugsa sér á mat af þessum toga. Húðlitað, semi ljós-fjólubleikt, glansandi... ((hrollur)). En gott var gumsið! Ójá! Karamellukenndur eftir ísskápsveru, rétt hitaður í vinnu örra til þykkingar... mmm! Enda kláraðist hann á met tíma.

Alltaf að klára matinn sinn... þó hann sé hræðilegur á litinn!

Fyrir utan að vera besti morgunmatur í heimi, þá má lærdóm draga af hafragrautsmalli gærdagsins. Ekki er allt gull sem glóir mín kæru! Ljótgrauturinn var góðgrautur engu að síður.

Úff... það er svakalegt hafragrauts zen í gangi hérna! Alveg svakalegt! Wink


Hafrar í margskonar myndum

Sunnudagsmorgunverðurinn tæklaður af einskærri snilld.

Undirrituð.

Frosin jarðaber og próteingrautur með múslí.

Frosin jarðaber og próteingrautur

Mister Paulsen.

Pönnusteiktir hafraklattar með hnetusmjöri, bönunum, sultu og kókos.

Pönnusteiktir hafraklattar

Átti afgangs soðinn graut sem ég bætti út í 2 eggjum, 1/4 bolla kotasælu, 1/2 tsk lyftidufti, 1/2 tsk vanilludropum, 1 tsk kanil, smá hunangi og 'fyllti' svo upp í gumsið með haframúslí, eða þangað til hafrarnir voru rétt húðaðir með blöndunni. Steikti þá svo á pönnu þangað til þeir urðu stökkir að utan en mjúkir að innan. Úr herlegheitunum urðu til 6 klattar. Mjöög góðir og skemmtilegir, með allskonar óvæntum hnetubitum, rúsínum og fræjum! Mmmmm....

Dagurinn rétt að byrja og allt í glimrandi gleðilegheitum!


Nýtt rúm

Það held ég nú. Nýtt rúm væntanlegt í hús í dag. Mikið verður gleðilegt að þurfa ekki að sofa á dýnu sem skilur eftir sig gormafar í andlitinu á manni. Hressandi!

Vaknaði í miklu letikasti en hrökklaðist af stað í ræktina - 30 mínútum, 5 km., og eldrauðu fési seinna mætti ég í Gúmmulaðihellinn og bjó til...

Banana ís með próteini, skyri, múslí og glas af jarðaberja C-vítamín vatni

...banana ís! Pimpaði upp á ísinn með 50 gr. skyri, 1 skeið GRS-5 og 1 dl. hafra- og hnetumúsli. Svo, af því að það er nú laugardagur, skreytti ég gumsið mitt með þeystirjóma og súkkulaði- og butterscotch bitum.

Banana ís með próteini, skyri, múslí með þeystirjóma og nammi ;)

Blandan verður eins og þykkur búðingur og próteinið gefur vanillubragð sem skilar sér í karamellufílíng! Ekkert nema gleði!

Banana ís með próteini, skyri, múslí með þeystirjóma og nammi ;)

Mmmmm... næstum eins og ís! En bara næstum.

Ég sé nýtt rúm, bragðaref og jafnvel smá Nóa Kropp í minni nánustu framtíð! Ójá!


Ég fæ mér bara appelsínu í staðinn!

Eðalgrautur á eðaldegi. Slatti af graut, 1 skeið GRS-5, 1/2 stappaður banani og kanill bundust vinaböndum í glæstri skál og mynduðu þennan langþráða snilldargraut fyrir mig!

Langþráður morgunverður eftir brennsluæfingu í morgun

Ofan á grautinn setti ég svo vinnumúslí og vinnurúslur. Meðfylgjandi var pínkuponsulítið epli og vatn með C-vítamíni. Þegar grautargleðin var yfirstaðin hlakkaði í mér þar sem fyrsti bitinn af eplinu var að renna upp... en nei! Þegar ég beit, í annars vel útlítandi epli, gerðist ekki neitt. Þetta var ekki epli fyrir nokkurn pening, fyrsti bitinn varð að engu og grænu gleðinni var gefið nafnið Steini!

Appelsínurnar björguðu deginum

Örvæntið þó eigi - á rápi mínu um vinnuna fann ég þessa æðislegu skál af appelsínum og fékk mér, sem jafngildir, 1/2 appelsínu. Úff... ég var búin að steingleyma því hvað appelsínur eru æðislegar á bragðið. Sérstaklega nýkomnar út úr ísskáp!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband