13.6.2009 | 14:41
Quesadilla með hráskinku, cantaloupe og ferskum döðlum
Ég er búin að vera með svo svakalega löngun í ávexti undanfarið. Viðstöðulaust hugsandi um ískalda, safaríka ávexti. Tók HIIT brennsluæfingu í morgun og var svo gott sem friðlaus á milli spretta. Hugsandi um vatsmelónuna sem beið mín í ísskápnum heima og átti í mesta basli með að klára æfinguna, segi það satt!
Var sérstaklega kát þegar ég komst loks heim og gat byrjað að útbúa hádegismatinn. Vissi alveg hvað mig langaði í og guð.. minn... almáttugur hvað þessi hádegismatur var nákvæmlega það sem skrokkurinn á mér var að leita að!! Þvílík og önnur eins matarsátt eftir máltíð hefur aldrei verið skráð! Ég meina það - sjáið bara hvað þetta er meiriháttar flott máltíð!
Grænt monster blandað saman úr 1/4 vel þroskuðu mango, 1/2 grænu epli, 50 gr.+ spínati, mjólk, 1 skeið hreinu próteini og klökum. Það er nú betra að hafa Nanna (banana) í þessu, en þetta var gott. Mangoið að gera góða hluti.
Skál full af ávöxtum. Ííísköldum yndislegum ávöxtum. Vatnsmelónu, plómu, ferskju og bita af cantaloupe melónu.
Með þessum herlegheitum bjó ég svo til nammi allra namma! Holy yömmó quesadilla! Brjálæðislega var þetta gott! Væri t.d. hægt að skera quesadilluna í minni sneiðar og bera fram sem forrétt eða snarl fyrir gesti. Sölt skinkan og melónan eru að sjálfsögðu klassík. Með karamellukenndum döðlunum og möndlunum varð þetta guðdómleg blanda. Osturinn hélt þessu öllu saman og mildaði bragðið af skinkunni. Brauðið stökkt! Úff!! Þið verðið að smakka!!
Hráskinku quesadilla með cantalopue melónu, osti, ferskum döðlum og möndlum!
1 heilhveiti tortilla
1 msk kotasæla eða ricotta
4 fjörost-sneiðar
3 hráskinkusneiðar
Nokkrar sneiðar þunnt skorin cantaloupe melóna
2 ferskar döðlur
4 muldar möndlur
Þið kunnið svosum restina en höfum þetta myndrænt og skemmtilegt.
Leggja ostsneiðar yfir heilhveiti tortilla kökuna ásamt kotasælunni.
Leggja hráskinkuna yfir ostinn.
Raða melónunni á annan helming tortillunar.
Raða döðlum yfir melónuna og strá möndlunum þar yfir.
Leggja dýrið saman, beint á heita pönnu og kremja niður. Ég notaði nú bara pott til að fletja þetta út.
Njóta!!
Fyrir utan þá súru staðreynd að hráskinkan kostaði mig handlegg og bút úr sálinni, þá var máltíðin æði! Ætla pottþétt að skella í þessar quesadillur aftur!
Meginflokkur: Matur og drykkur | Aukaflokkur: Hádegismatur | Breytt 23.9.2010 kl. 21:20 | Facebook
Athugasemdir
Snillingur :)
dossa (IP-tala skráð) 15.6.2009 kl. 09:25
Ohhhh meeeeeen!!
Erna (IP-tala skráð) 16.6.2009 kl. 15:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.