Færsluflokkur: Hugleiðingar

Kvart- og kveinanir

Númer 1, 2 og þrjú!
Það eru allir að hugsa þetta, ég veit það... ég ætla samt að tjá mig um það... og ég ætla að blóta smá.


GUÐ MINN GÓÓÐUUUUR. ÞAÐ ER SNJÓR Í ÖLLUM HOLUM, VITUM OG FELLINGUM. ÉG ER MEÐ SNJÓ Á STÖÐUM SEM ÉG VISSI EKKI AÐ VÆRU TIL Á MÉR!!

HVERSKONAR EIGINLEGA LANGVARANDI SKÍTALYKTARKÚLA ER ÞETTA? BLLAAAAAAAARGHHH!

snjór

Hvað er þessi klakaflís fyrir land að meina með þessum veðurhremmingum? Ha? Það mætti halda að við værum stödd í endaþarmi andskotans!

Og já, hver veit nema bakendi þess margumtalaða kappa sé gaddfreðinn og óvistvænn.

Nú er nóg komið af veðurleiðindum og endalausu Mt.Everest klifri yfir bílastæði. Annaðhvort, kæra föðurland,:

  1. snjóar þú sætri, fínni, krúttaralegri hundslappadrífu sem fellur fallega til jarðar, brakar í, og er ekkert nema dásemdin einar
  2. snjóar ekki neitt með litlu sem engu roki

...eða "þú sofa með fiska"! Takk.

Snjór og 66°Norður í trýnið, upp í nasir svo andinn hverfur að auki við kulda sem kristallar hvíturnar í augunum á manni, má hérmeð láta sig hverfa.

Formleg veðurkvörtun yfirstaðin.

Hookay, áfram með smjörið, sem er að sjálfsögðu gaddfreðið og vel nýtanlegt sem vopn í allra brýnustu nauðsyn!

Hin kvörtunin tengist þessari spurningu:

"Hva, mín bara búin að svíkja málstaðinn?"
Svíkja hvaða málstað fyrirgefðu takk kærlega um hvað ertu að tala mannfýla?

Að þessu var ég spurð í fyrradag.

Eða, spurning? Þessu var ölluheldur fleygt fram í meinandi, kaldhæðnislegum spurnartón.

KOMMOOON... þó svo ég blikki ekki augnlokunum fjórtán sinnum hraðar en vanalega til að fá meiri hreyfingu í daginn eða borði kálblað í hvert skipti sem færi gefst þýðir ekki að ég hafi snúið við blaðinu á einu bretti og gerst talsmaður ólifnaðar og kyrrsetu í öllu sínu veldi. Auglýsi kók sem lífsins lind og Snickershúðaða hamborgara sem gott snarl fyrir svefninn.

Ha... hmm... haaa! Það er nú ekki eins og átvaglið hafi svikið sinn besta vin og framselt eiganda fyrrnefnds norðurenda fyrir kleinuhring!
- Eins og kleinuhringur myndi fá mig til þess að afhenda kölska my precious! Þyrfti amk að vera snúður... með karamellu. Pölííís!

Pouty

Ok... bökkum aðeins í hneyksluninni gott fólk. Biturðardrama 124%. Viðurkennt. Ég tek 53% af þessu til baka og biðst afsökunarforláts.

Þó svo undirritaður svindlari borði, í nútíðininni, stundum nammi á virkum dögum og hreyfi sig ekki 24/7, eins og í "gamla daga", þá þýðir það ekki mín elsku bestu að ég hafi snúið bakinu við öllu sem telst vera "Hollt og fallegt og æðislegt og kúlurass".

Bara, annar póll tekinn í hæðina eftir fjögur ár af allskonar mat, formum, stigum og með'ví, sbr. tuð síðasta pistils. Bloggið blessað hefur svo þróast með átvaglinu og allt snýst þetta að sjálfsögðu um mat.

Hvað annað?

VAFFLA

Engar áhyggjur þó. Gríðarleg gúff eiga sér ennþá stað. Gúff umfram öll velsæmis- og skynsemismörk. Ég hef borðað menn, sjöfalda að minni stærð (bæði að ummáli og rúmmáli), undir borðið og enn haft pláss fyrir eftirrétt og eftir-eftirrétt, smá nart af aðalrétt og meiri eftirrétt.

Nú eru formlegir játninga- og réttlætingapistlar um mitt sérlega heilsufar, og át, yfirstaðnir. Ef þið viljið fylgjast með komandi fiestum þá vitið þið að sjálfsögðu hvar mig er að finna.

Held ég ætti að fjárfesta í bleiku Múmínálfaskýi til að halda upp á þessa sérlegu uppljómun mína. Þó svo ákkúrat núna myndu ég, og skýið mitt, líklegast fjúka til Jemen.

Ef ég sé eitt til sölu á barnalandi býð ég 50 kr. í það.
Það er gullpeningur gott fólk.
Gullpeningur.

tumblr_l7bbda0MAp1qc4f5ao1_500 



Persónuleg markmið

Hugurinn ber þig aðeins meira en bara hálfa leið þegar kemur að breyttum lífstíl, lífstílsviðhaldi (þó ekki viðhaldi eins og viðhaldi viðhaldi, þið vitið... viðhaldi) og á þessari blessuðu braut:

"Hver er ég, hvað er ég, hvar er ég, hvernig er ég, ómægod, gott að vera búin í skóla, grænmetisæta, kjötæta, paleo, grænmetisæta, nei kjötæta, gaman að lyfta, af hverju?, leiðinlegt að lyfta, elska Tabata, leiðinlegt að synda, ÓMÆGOD 3 KÍLÓ UPP, gaman að labba upp á fjöll, grænmetisæta, til hvers er þetta alltsaman?, mjónubuxur hvað- hverjum er ekki sama, langar aftur í skóla, hvar er ég, ekki meira Tabata, við verðum öll gömul, fokk it...

...ég get ekki, ekki, borðað kjöt!!!"

Og svo framvegis gott fólk.

Og svo framvegis.

Þegar þið takið ykkur pásur í því sem þið gerið, sama hvað þið takið ykkur fyrir hendur, vinna, þjálfun, þið sjálf, lífið og tilveran. Hvort sem um er að ræða frí, andlega íhugun, innhverfa íhugun, almenna innhverfu og undir feld-leggingar...

...þessi pistill er svolítið "og svo framvegis" er það ekki?

Ef einhvurslags ofurpásur verða á daglegu amstri, og þær munu láta á sér kræla, þá þykir mér alltaf gott að hafa aftast í hnakkanum eitthvað viðmið.

"Ég ætla aldrei að komast svo nálægt núllpunkti að ég geti ekki....:"

  • Tæklað daginn með amk einu brosi
  • Tekið 2 armbeygjur
  • 1 hnébeygju á einari, á báðum
  • Lesið 6 milljón orð á mínútu - um það bil
  • Knústað 5 fjölskyldumeðlimi í einu
  • Notið litlu hlutanna í lífinu
  • Hlaupið 5 km

Stundum eiga sér stað atburðir þar sem við ráðum illa við hvernig deginum, og dögum, er háttað. Stundum er maður bara leitihaus. Það er ágætt í og með. En sama hvað á gengur, þá er alltaf gott að vita að flest okkar njótum við þeirra forréttinda að geta rifið okkur uppúr lægðum og leti. Gott veganesti og jákvæðni eru lykilatriði.

Fjölskylda, góð heilsa, þak yfir höfuðið, nægur matur, klósett (já, klósett), vakna upp við sólargeisla, ís, gæludýrin mín...

Stundum þurfum við aðstoð. Gott spark í rassgatið eða hreinlega mjög vel pússaða spegilmynd sem gerir vitundinni ljóst hvað í stefnir.

Það missa allir dampinn á einhverjum tímapunkti. Það er mannlegt. Oftar en einusinni og oftar en tvisvar sinnum tveir. En við getum þó huggað okkur við það að á endanum stígum við flestöll í afturlappirnar á nýjan leik og tæklum hindranir með fjórföldu brosi og "Ég skal...".

Dæmi um mín persónulega markmið, hvað hreyfingu og daglegt ræktarstúss varðar:

  • amk 10 armbeygjur
  • Labba upp stiga án þess að gefa upp andann og öndina - við viljum ekki gefa öndina gott fólk!
  • 10 froskahopp eða 10 burpees án þess að stoppa
  • Mountain climber stanslaust í mínútu án þess að stoppa
  • Geta hlaupið í amk 15 mín án þess að stoppa (treystið mér, fyrir mig er það mikið afrek)
  • Geta haldið mér, í sitjandi stöðu, upp við vegg í amk 30 sek.

Og þaðan vinnur maður sig svo upp í sínar 300 armbeygjur, skokk upp á Hvannadalshnúk, 200 froskahopp, uppsitu við vegg yfir bíómynd og tvöfalt maraþon.

Allt á innan við 2 dögum!!

Næstum því.

Að geta hugsað til baka og séð hverju þú hefur áorkað eru næg verðlaun fyrir sálarlífið til að vilja halda áfram, gefast ekki upp og vita að lífsins hólar og hæðir eru til þess að skoppa yfir.

Verið kát mín kæru og njótð þess að vera til.


Það byrjar allt á mælingum

Karvelio áskorun formlega hleypt af stokkunum. Núna er bara að bíða eftir planinu.

Staða frá því fyrir ári:

Eftir massíft Bootcamp sumar 2010:

  • 56 kg.
  • 15% fituprósenta

Staða í dag, eftir Tabata + lyftingar og svo gott sem enga brennslu 2011:

  • 60 kg.
  • 15% fituprósenta 

Hvor Elínin haldið þið að innihaldi meiri vöðvamassa?

Ekki það að ég eigi eftir að vinna í þessari keppni. Heildar % niðurávið í vigt er það sem farið er eftir, enda ekki nema von. Það er besta leið til að mæla árangur hjá stórum hópi af mjög svo mismunandi fólki. Ég er amk ekki að stefna á að fara neitt mikið neðar í % svo við einblínum ekki á sigur gott fólk, óneii... horfum á aukinn styrk, gæði og betrumbætingar á hinum og þessum sviðum.

Da?

Hlakka til að sjá hvernig ástatt verður fyrir kvendinu að loknu sumri.

Húha!


Sumaráskorun og einhvurslags breytingar

Helgin í myndum seinna í dag, en þangað til... allskonar á allskonar ofan.

Er að spá í að breyta högun bloggsins blessaðs. Það fylgir straumum og stefnum átvaglsins í gríð og erg og nú virðist stefnan tekin í N-A frekar en S-V. Straumurinn er þó yfirleitt sá sami og hefur alltaf haft yfirskriftina:

"HEILBRIGT LÍFERNI... aðeins á ská"

Alltaf tími fyrir skammastrik á beinu brautinni. Maður verður að fá að taka nokkur skref afturábak, lúppur, hóla og hæðir í hringi og bugður og njóta ferðarinnar!

Við erum jú að þessu fyrir okkur sjálf er það ekki mín kæru?

Er annars að fara af stað í sumaráskorun a la Karvelio. Tveggja mánaða áskorun sem hefst ekki seinna en á morgun með *trommusláttur* fyrstu mælingu sem undirrituð hefur farið í síðan á eyðum '64. Ekki endilega sem viðmið, meira forvitni frekar en annað. Verður spennó.

Ætla að leyfa ykkur að fylgjast með að sjálfsögðu.

Læt fylgja með át og almenna hreyfingu en kem líklegast ekki til með að stikla á stóru þegar ég fæ mér eina skyrdollu. Held að allir þekki útlitið á þeim elskum. Átið mitt er hvort eð er, oftar en ekki, í sama farinu dag frá degi, og sökum þeirrar fúlu staðreyndar, að hálfan handlegg þurfi að láta í té til að kaupa efnivið í nokkrar kökur, verður tilraunum haldið í lágmarki í einhvern tíma.

En stóruppskriftapistlar og svindlhátíðir koma í og með, inn á milli, þegar vel er í lagt og með eilítið öðrum hætti en áður. Það kemur allt í ljós á næstu dögum.

Held það verði gaman og gleðilegt nokk. Þó sérstaklega vegna leynigestsins sem kemur til með að vera minn sérlegi aðstoðarhægrihandleggur.

Eða... ölluheldur ég, verandi hægri handleggurinn.

Hahh!

Allavega, tökum áskorunarstöðuna aftur eftir mánuðinn. Myndir, þurrkarabrækur sem knúsa rassa og aukinn styrkur/þol. Held það séu bestu mælitólin.


Jææææja

Er farin að safna í sarpinn. Pistlar þessa bloggs eru ískyggilega farnir að líkjast brotabrotum og samantektum síðustu daga hvað át og hreyfingu varðar.

Þó aðalega át!

Að því sögðu:

Ofurmömmumatarboð í tilefni sumarfrís og sólarglætu!

Risaharpa a la mamma

Tunfiskur með wasabi sósu

Ofurömmu 17. júní matarboð!

Þau gerast varla meira djúsí en þetta. Onei onei!

17. júní matarboð

Appelsínusúkkulaðikaka

Vöfflur, ostar, vínber, jáber

Út að borða á Uno. Það var meira en bara Uno... það var excellente-o!

Brauðkarfan sívinsæla. Gúmmíbrauð, gott brauð þó.

gúmmíbrauð

Fiskur dagsins fyrir undirritaða. Bleikja með byggi, steiktu grænmeti, blómkálsmúss og sósu. Skammtur fyrir 700 manns og skelfilega ofurgóður!

Bleikja dagsins á uno

Sessunautur fékk sér Uxahala Pappardelle en skipti pastanu út fyrir penne. Svaðalega, svaaaðalega góður réttur þetta!

uxahala penne

Auka salat, 490 krónur, og viti menn. Það var ekki stútfullt af feta eða melónum eða eintómu iceberg og það var ekki jafn stórt og fingurnögl!

Það var töluvert stærra!

aukasalat uno

Amen!

Ok ok... annars, númer eitt, tvö og þrjú!

  1. Veik
  2. Veik
  3. Já, ég er búin að vera veik

Held ég hafi fengið matareiturn *kaldhæðiniskast dauðans*

Nokkuð viss um að brokkolíguðinn kúri í einhverri moldarholunni og hlæi illkvittnislega að tragedíu undirritaðrar. Líka nokkuð meira en viss um að hann haldi á vúdúÁtvagli og poti ítrekað í það með einhvurslags potunaráhaldi.

Guðbrandur einn má vita hvað olli átvaglinu ömma ömurlega, þar sem auðveldara er að finna út hvað undirrituð setur ekki ofan en í sig en á hinn veginn, en haaalelujahh hvað sá matarbiti hefur náð fram stórkostlegum hefndum fyrir hönd allra þeirra matarbita sem ofan í svartholið hafa horfið!!

Þetta ku vera lengsta setning sunnan við stjörnuþokuna hrásalat!

Líklegir orsakavaldar:

  • Sushi
veikindasushi?
  • Salatbar 11/11 - mjög sterkur kandídat
Veikindasalatbar
  • Túnfiskur í dós, falinn í ofursalati
Veikndatúnfiskur?
  • Ómyndaður kjúlli og grjón, sökum ófagurleika, hvorutveggja aldraðra en 9000 sekúndna, en þó í ísskápshvíld
  • ...

Ég er orðin eins og gamla fólkið (afsakið, ekki meint illa, en við vitum hvernig þetta virkar eftir 85). Tala um líkamlegt atgervi, hægð*r dagsins, ásamt nákvæmri lýsingu á lit og áferð, og verkinn sem kemur alltaf á þriðjudögum, eftir lyfrarpilsuátið, bak við hægra eyra!

Veikindi og ofurvorkunn, í sjálfs míns garð, eru hérðmeð yfirstaðin. Megi sá fúli fjandi láta mig í friði héðanaf!

Takk.

  • Flutt um vinnuset, spennóhóhó
  • Rakst á eina svívirðilega sæta kartöflu og myndaði ófétið, dæmi hver fyrir sig
dónakartafla
  • Er byrjuð að teikna þessa mynd af Valdísi snúllurassi
valdísin sætarúsína
  • Babalú kaffihús og Kaffismiðjan eru í uppáhaldi hjá mér núna, þó sérstaklega Babalúkósýheitarofuræðislega-andrúmsloft með risakökum!
Babalú

Kaffismiðju-klárað-kaffi
  • Ég sofnaði í sólinni og lít þar af leiðandi út eins og Hómblest kex

En það er allt í lagi því þau eru góð báðum megin er það ekki? Hómblest... kexin... báðum megin...

...nema hvað ég er rauð á súkkulaðihliðinni og lít út eins og kvikindi úr Star Trek. Er það samt ekki barasta allt í flundrandi glensi? Ég meina, hver myndi ekki vilja bíta í Klingona sér til dægrastyttingar?

Starblest... HómTrek? HómblestKlingon.

"Beam me up Scotty"

Hæ annars aftur, allirsaman og amma þeirra. Kökur og pönnsur í fyrramálið fyrir nýju vinnu, gleði það.

Nótt í hausinn á ykkur.


Ég ætla aldrei að borða aftur

Sagði hún og stakk upp í sig eplabita!

Fimmtudagur til sunnudags. Hvað get ég sagt. Eitt, allsherjar fyllerí hvað mat og matartengdar gersemar varðar.

Fimmtudagur:

Ég og Erna fórum ofurhressar á sjóræningabíó. Sú var tíðin, strumparnir mínir, að 1000 krónukallar dugðu fyrir bíóferð og eilitlu bíó-áti.

Við skulum minnast þessa með 1 mínútu þögn!

*þögn* fyrir utan smá smjatt á súkkulaðibita

Nú þarf að versla sér gleraugu og innan nokkurra ára, þá þarf líklegast að klæða sig upp í galla svo hægt sé að taka þátt í bíómyndinni sjálfri.

Það mun kosta ykkur frumburðinn.

Spanky and Lois

Þar sem ég er átvagl af guðs náð þá dugði ekkert minna en M&M og Dumble. Erna er poppskaffarinn!

Takk fyrir og amen.

Sveitt bíónammi

Föstudagur:

  • 6 sneiðar af 12" pizzu með rjómaosti, beikon og pepperóní...já.. næstum heil pizza og já, þetta pizzucomó er eðall!
  • 1 lítill bragðarefur með Snickers, kökudeigi og oreos
  • nammi fyrir Álbrand og ömmu hans

Laugardagur:

Nokkuð þæg frameftir degi. Tók Húsafells- og Reykholtsrúnt.

grasseta á reykholti

snorralaug

Hraunfossar

Að auki við grassetu og almennt afslappelsi endurnýjaði ég kynni mín við löngu gleymdan tilgang lífsins.

RISATRAMPÓLÍNIÐ

Risatrampolínið

Bara Átvaglið og börnin!!

Þvílík hamingja!

Risatrampolínið

Endaði svo í grilluðu lambi hjá móður og föður sem var guðdómur í hryggformi.

En var það nóg? ÓNEI!!!

  • Datt inn á bbq kjúklingapizzu og kanilbrauðstangir hjá Dominos seinna um kvöldið
  • 5 tonn af hnetum og rúsínum

Sunnudagur:

Vaknaði með hugann allan við meinlætalifnað, vatnsdrykku og hjólarúnta EN:

  • 3 ískúlur sökum óviðráðanlegs ofurveðurs og ofurveðrum skal ætíð fagna með ís!!
  • Kaffihúsahafrakaka
  • Eplakökusneið með rjóma
  • Franskar handa 23 sjómönnum
  • Súkkulaðimuffins

Ahhhh!

Ég get því ekki sagt að helgin hafi verið slæm. Onei. Hún var góð. Kannski aðeins of góð ef það er þá hægt.

Tók eldhresst Tabata í hádeginu í dag, strunsaði heim með hugann við hjólatúr en beilaði á því sökum spennings við að klára þessa mynd:

afghan girl

Sit því núna, menningalegri en ofviti andskotans, á Café París. Sötra kaffi og te í bland, tek alvarlegar "þungt hugsi" störur út í tómið með 12 mínútna millibili, segi "mmmyyeees", fnasa, dæsi, teikna og endurtek hringinn á nýjan leik eftir vel ígrundaða skyggingu á teikningunni minni.

Maður verður að lifa sig inn í kaffihúsahlutverkið mín kæru. Láta eins og áhyggjur alheimsins liggi einvörðungu á manns eigins herðum og Guðbrandur bíði eftir því að þú finnir lausnina við hungursneið og volæði!

Ég ætlaði að segja 42 en það er víst frátekið.

*sööööötr*


Játningum helgarinnar....

...verður svoleiðis fleygt fram seinna í dag!

En þangað til...

Krabbó

...í alvöru? Ha? Gott fólk?

Ef þetta er ekki um það bil það ógirnilegasta "á að vera fínt" sem ég hef séð!

((hrollur))

Þegar ég bið um hambó þá vil ég svo sannarlega ekki fá alla beljuna kramda á milli tveggja brauðsneiða með kálblað á höfðinu! Kallið mig tepru, en greinilegar útlínur dýrsins sem á boðstólnum er, er mfood killer af bestu sort.

"Ætla fá einn krabba í brauði... með tómatsósu"

Krabbó, nei takk.


Flórsykurnef

Stundum er gott að passa uppá að missa sig ekki í græðginni.

Bara stundum gott fólk, bara stundum... engann asa hérna.

Stundum gæti t.d. verið þegar:

  • átvaglið gleymir að anda
  • þú stendur þig að því að éta mat af öðrum disk en þínum eigin.... og eigandi disksins er enn að borða af honum
  • þú kemst að því að hafa borðað fimm kúfaða diska en manns bara eftir áti af tveimur
  • þú hefur borðað svo mikið að vélindað er fullt og þú átt erfitt með að kyngja
  • étið er með svo mikilli áfergju að flórsykurinn af berlínarbollunni sem þú troddaðir í andlitið á þér klínist á nefið, og stóran part af efri vör, án þess þú takir eftir því og nokkrum klukkustundum, búðarrölti, spjalli við fólk og almennu veseni síðar þá lítur þú í spegil

Flórsykurnef

Frábært!

Flórsykurnef

Svör við flórsykurnefi ef fólk spyr þig!

  1. "Pff... *augnrúll*, hann á að vera þarna"
  2. "Viltu smakka?"
  3. Urraðu
  4. Segðu "HA?", byrjaðu svo að hoppa um og dusta af andlitinu á þér og segðu svo "OMG... get it off.... GET IT OOOOFFFF!"
  5. "Bíddu... er hann ekki á augnlokunu eða enninu líka?"
  6. "Takk, ég er með mjög þurra húð!"
  7. Skelltu uppúr og hlæðu tryllingslega, með fanatísku ívafi, í 5 sekúndur og hættu svo snarlega.
  8. Gefðu viðkomandi "The evil eye", starðu í dágóða stund og segðu svo "Ég er í nýjum sokkum!".
  9. "Chuck Norris er alltaf með flórsykur á nefinu"
  10. "Ég trúi ekki á spegla"
  11. Hlauptu grátandi í burtu þegar þú ert spurð(ur)
  12. "Gætir þú þurrkað þetta af mér?"

Nú eða bara manna þig... kvenna þig upp og viðurkenna með stolti bakkelsisátið og sleikja útum!

Annars var umrædd orsakavalds-bolla stórgóð og skal étin með svipuðu móti næst þegar fjárfest verður í slíkri gersemi.

Flórsykurnef eru hið nýja svart.

Yfir og út.


Sunnudags-tuðið

Vara skal við matarbiturð síðar í þessum bloggpistli. Viljir þú halda geðheilsunni skaltu ekki lesa lengra en að kvöldsalatinu.

Takk fyrir!

Síðasti fimmtudagur átti að vera sushidagur til að halda uppá ofurErnu en forfærðist yfir á mánudaginn, morgundaginn, sökum...

beef burguignon

...beef bourguignon a la mama!

beef burguignon

beef burguignon

Kjötið svoleiðis lak í sundur! Þvílík endemis ofur dásemd. Mikið sem ég eeeeelska kjöt matreitt á þennan máta. Hægeldað-lekurafbeininu hamingja. Kjötsúpukjöt og vabeha... *slef*.

Þetta var afskaplega, aaafskaplega jákvætt át og nákvæmlega ekki baun í krús út á það að setja.

Síðan þá hafa dagarnir yfirleitt farið á þennan veg!

  • Vakna
  • Grautur/banana sjúfflé
  • Hjóla - ræktast (fætur murkaðar á föstudagin, core í sprettformi á laugardaginn, hringþjálfun í sprettformi í dag)
  • Hámark/Hleðsla
  • Hádegissalatfjall
  • Skyr/möndlur/vatnsmelóna (er með vatnsmelónublæti aldarinnar ákkúrat núna)
skyrið og möndlurnar

vatnsmelonge
  • Hjóla heim + smá auka rúntur
  • Kvöldsalat með kjúlla + möndlum + ofurdressingu

Kvöldsalatfjall

Kvöldsalatfjall með kjúlla og möndlum

Undantekningin, á þessum annars nauðalíku rútínudögum, var systurát í gærkveldi þar sem förinni var heitið á TGI-Fridays að systuróskum.

  • Nei, ég át ekki systur mína.
  • Nei, við átum ekki aðrar systur.
  • Nei, það var engin Hannibal Lecter stemning í gærkveldi.

Pantaði mér kjúklinga caesar salat með hvítlauksbrauði. Aukasalat í kjölfar þess, þar sem ég var nokkuð viss um að ég fengi lítið annað en kál og kjúlla.

Ég skal svoleiðis segja ykkur það mín kæru... ha! Fyrir þennan pening. Jú, ég vissi vel við hverju ætti að búast og þetta kom mér svo sannarlega ekki á óvart en einusinni, bara einusinni, væri gaman að labba út hoppandi kátur.

Eitt orð!

RUSLOGDRASL

Salat, kjúlli - gott og blessað, alltaf eins og ekkert sem kveikir á hamingjutrylli. Í þessu földu sig svo brauðteningar sem orðnir voru gegnsósa og óætir.

Fyrir utan eggjaskurn í mat, harðar eggjarauður, hákarl og hval, þá eru blautir brauðteningar eitt af því mest hræðilegasta, áferðalega séð, sem ég veit um.

Þessari dýrð í niðurlægðum fylgdi einnig sorglegasta afsökun fyrir hvítlauksbrauði sem ég nokkurntíman hef augum litið.

Draslkjúlli á TGI fridays

Afskorin örbylgjuhituð baquette sneið, ekki einusinni ristuð/krispí, með örlítilli hvítlauksolíu og ostasulli ofaná.

Hún var eigi borðuð.

Hvítlauksbrauðsdvergur á tgi

Og þetta var aukasalatið mitt. Hahh!! Það voru 3 munnbitar.

Og já, brauðteningarnir í þessu smásalati voru líka gegnsósa.

Mmhmmm.

smásalat

Af hverju ég geri þetta trekk í trekk, að panta mér kjúllasalat á stöðum sem þessum, er ofar mínum skilningi. Gríninu þarf ég því alfarið að kyngja, ein og óstudd. Held ég bendi líka hæðnislega í átt að sjálfri mér og flissi pínkulítið. En guð má vita að þangað mun ég aldrei nokkurntíman fara að borða aftur.

Meira prumpið.

Já... prump!! Borga fyrir þetta tæpan handlegg og uppskera matarbiturð á háu stigi. Ég meina.... gott fólk!

Biturt matardæmi:

Saffran - 1500 tæpar.

Saffran

Saffran kjúklingur

Risastórt Saffran kjúklingasalat með sesamdressingu

Saffranhumar

vs.

TGI - 2000 tæpar.

Draslkjúlli á TGI fridays

Frekar kaupi ég mér, fyrir sama pening, salatbar í Hagkaup á 500 kall, ís í eftirrétt, lítinn bíl, playstation og 500 gr. af trufflum. Ég ætti þá amk. smávegis klink í afgang til að kaupa mér happaþrennu.

Meira að segja salatsullið mitt, ofar í þessum tuðpistli, er svaðalegra en þetta lofttæmi!

Mikið er nú dásamlegt að vera tuðkerlingin á þessum annars ágæta sunnudegi. Mætti halda að ég hafi bitið í appelsínubörk.

- Sem væri þó meira fullnægjandi, matarlega séð, en þessi blessaða máltíð.

HAAAAAHHHHHH....... Cool

Best að halda sig við það sem maður veit að virkar. Amk þegar maður er matsárt græðgisátvagl! GetLost


Áskoranir

Markmið.

Innávið. Útivið!

Strengdi heit núna í maí. Það held ég nú.

Þetta verður "Hið Aktíva ÚtivistarSumar" á góðri íslen-d-sku!

Ha?

Hohaaah!!!

Hvað finnst ykkur um það? Átvalgið útþanið af eldmóð og sumarlegum metnað. Með trýnið svo þráðbeint upp í himinhvolfið að það fyllist af ösku med det samme.

Föðurlandsástarsperringur 2011.

Ekki nærbrókin þó... sem væri samt frekar fyndið svona þegar ég les þetta aftur yfir.

Föðurlandsást!

fl

Eins gott að standa við stóru orðin.

  • Hjóla/labba/skokka til að komast milli staða í staðinn fyrir að nota Aspasinn, er búin að spara 16.000 kr. bara núna í maí gott fólk!
  • "Brennsla" í formi fjallaklifurs, labbitúra, hjólarúnta... þá meina ég langbrannslu dauðans á rassatæki/hlaupabretti/innitæki sem er svo grútmygluð að maður fær drep í heiladingulinn.
  • Nýta sumarið og birtuna og hlýjuna... bwaahahaa, hlýjuna! Njóta þess að vera úti og hafa það notalegt. Brjóta upp rútínuna og nota hvíldardaga í labbitúra, bæjarrölt, skokk, Esjubrokk, hjólagleði, sund...

...hvað sem er í staðinn fyrir inniveru, rassaþjapp (langsetur) og sjónvarpsgláp!

Eða heiladingulsdrep.

Æfa úti. Labba úti. Borða úti... SOFA ÚTI...

...nei ok, ok. DJÓK. Óþarfi að verða manískari en amma andskotans. En, númer eitt, tvö og þrjú...

...vera úti!

*gleði*

Rass upp í loft

Skyrát á esjunni

Gleraugnaglens

Labbandi átvagl 

Ég nota enn ræktarhús fyrir almenna rækt og lóðamyrðingar, Tabata og ketilbjöllur.

En það sem kallast gæti brennsla, sumarið 2011, verður í allskostar öðru formi en sorginni sem fylgir ískrandi ræktartæki.

Humlur, fuglasöngur, lækjaniður, rigningadropar, gróðurlykt, öldugangur og eitthvað meira stórkostlega dramatískt í staðinn fyrir ískrið.

Hver vill vera memm?

Sumarlegt Ísland, já takk!


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband