Færsluflokkur: Grænmeti
25.11.2009 | 20:13
Ofnbakað rósakál
OH ÉG FÉKK SVO GÓÐAR FRÉTTIR Í DAG! Ég er öll bubbly og hamingjusöm í hjartanu! *gleði*
Er að taka til kvöldmatinn í dag og matinn fyrir morgundaginn. Þá umbreytist eldhúsið mitt í haug af allskonar... allskonar! Snyrtilegt, ekki satt?
En svo við snúum okkur að rokkstjörnu dagsins. Rósakál... hvar hefurðu verið allt mitt líf? Þetta datt mér ekki í hug. Fann þessar krúsíbombur í búðinni um daginn og ákvað að prófa. Hreinsaði smá, skar í tvennt, skellti í fat með gulrótum og olíu, saltaði, pipraði og beint inn í 200°C heitan ofn.
Leifði þeim að hangsa þar í dágóða stund, hrærði aðeins í gumsinu aftur og inn í ofn í 5 - 10 mín í viðbót. Hefði mátt vera lengur upp á áferð - en ég var of svöng og gat ekki beðið.
Fallega brúnir og fínir knúbbar og... bíðið aðeins... GÓÐIR! Alveg svakalega góðir - stökkir og skemmtilegir að bíta í að utan, karamellukenndir að innan. Ohh, gleðilegt nokk. Ætla að tilraunast með þessa dýrð við tækifæri. Ég var gríðarlega hamingjusamt kvendi á meðan áti stóð. Þvlílíkt nammi. Hakkið steikti ég með sveppunum, saltaði, pipraði og chilli-aði veeel. Reif mjög vel í eins grámuskulegt og það lítur út á þessari mynd.
Svo er hleðsludagur á morgun. Já nei takk, ekki aftur hleðsla á laugardögum. Búin að setja saman smá seðil sem hentar vinnudegi - ekkert ofur, en tilhlökkunarvænt.
Viljið þið svo sjá...
...oh my babies! Smjör biscotti (dökkur) vs. ólífu olíu biscotti (ljós). Þessir dökku voru betri. Stökkir, bragðgóðir og skemmtilegir að bíta í. Ljósu voru svaka fínir líka, nokkuð stökkir, svolítið skonsulegir en hinir unnu með ansi mörgum stigum bæði hjá Paulsen og smökkurunum niðrí vinnu. Ætla að prófa mig áfram með súkkulaði biscotti um helgina.
Ég gerði líka stórt og mikið skammastrik í síðustu viku. Stóðst ekki mátið og keypti RAUÐA KASSANN!
Fylgist með. Rauði kassinn verður afhjúpaður innan tíðar!
Vina þakkargjörð um helgina og svo Boston. Tíminn líður hraðar en það tekur átvaglið að borða ís!
Grænmeti | Breytt 24.9.2010 kl. 11:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.11.2009 | 09:12
Sætu kartöflu kartöfluflögur
SKK! Þessi aðferð við át á sætunni kemur mér ætíð í gott skap. Skera dýrið í þunnar sneiðar, pama smá, inn í örbylju (eða ofn = meira crispy) þangað til stökkar og gleðilegar. Krydda eftir smekk. Paprika, chilli, salt, pipar er ekkert nema nammi! Ef þið viljið hollari, ódýrari og alveg jafn frábærlega fínar, ef ekki betri, snakkflögur en olíusullið sem þið kaupið út úr búð - þá búið þið þessar til! Ójá!
Ég á það stundum til, í mínum hellisbúalega heimi, að nota flögurnar sem uppskúbbelsisáhald fyrir mat sem hefur enga sérstaka lögun - gacamole sem dæmi. Í dag var þetta hálf fátæklegt en gott engu að síður. Áferðaperrinn fór svoleiðis úr hamnum við átið. Sæt, ó svo sæt og stökk kartöfluflaga ásamt stöppuðum eggjahvítum með hot sauce og salsa.
Af hverju engin mynd? Jú... ungfrúin tók myndavélina með sér en skildi batteríið eftir heima. Fullhlaðið og tilbúð að takast á við allan mat heimsins.
Örvæntið þó eigi, ég uppskúbbaði í morgun... ég uppskúbbaði eggjahvítum eins og vindurinn!
Grænmeti | Breytt 24.9.2010 kl. 11:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
12.11.2009 | 20:40
Æðisleg tær grænmetissúpa
Súpur geta verið svo góðar - sérstaklega þegar, jah.. þær eru góðar!
Ohh hvað þessi snilld var ákkúrat það sem mig langaði að bíta í eftir veikindaviku. Svona súpur eru alltaf í uppáhaldi hjá mér. Soðsúpur, stútfullar af grænmeti og gleðilegheitum. Einfaldar, fljótlegar, bragðgóðar. Átvaglið má líka borða þangað til eitthvað gefur sig... gæti ekki verið betra!
Steikti fullt af gróft skornum rauð-/hvít-/púrrulauk upp úr 1 msk olíu, ásamt gulrótum, sellerí og niðurrifnum engifer, þangað til laukurinn var orðinn mjúkur og gullinn. Bætti þá tæpum 6 bollum af vatni í pottinn ásamt 2 teningum af grænmetiskrafti. Já, ég veit, svindl. En þeir gefa gott bragð. Lét þetta malla saman þangað til vatnið var farið að bubbla og þá bætti ég rest af grænmeti út í. Barasta það sem ég fann í ísskápnum. Blómkál, gulrætur, niðursoðnir heilir tómatar (frá Ítalíu), kartöflur, sætar kartöflur, paprika og rófa. Skorið gróft í um það bil jafn stóra bita.
Sjóða þangað til gulrætur/kartöflur eru tæplega al dente! Ég vil hafa rótargrænmetið aðeins undir tönn en ekki maukað. Voila! Guðdómlegt gums í skál! Það væri reyndar hægt að gera þetta enn meira gúmmó og bæta út í súpuna t.d. byggi.
Bætti reyndar út í súpuna mína örbylgjuðum eggjahvítum og já, þetta verður hádegismaturinn minn á morgun. *Get ekki beðið* Eftirrétturinn var gúrmey. Kanilristaðar og crunchy!
Átvaglið er mætt á svæðið! Nú er ekkert sem stoppar kvendið fram að jólum!!
Grænmeti | Breytt 24.9.2010 kl. 11:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
19.10.2009 | 11:06
Íslenskt bankabygg
Ég hef nú áður romsað í gegnum ágæti þessarar afurðar og hef enn og aftur fengið byggfluguna í hausinn. Geri fastlega ráð fyrir því að bygg muni koma mikið við sögu á þessu bloggi, í margskonar myndum, á næstunni. Tel því viðeigandi að setja inn svo gott sem eina mynd af bygggjörning dagsins.
Kjúklingabringa skorin í litla bita ásamt einum tómat og smátt skornum rauðlauk. Sett í skál ásamt því magni af byggi sem þig langar að bíta í. Smá skvetta af salsasósu og hot sauce og loks basilika og steinselja. Einfalt, bragðgott og afskaplega fljótgert!
Skera, skála, krydda, hræra og það besta af öllu. Borða!
Grænmeti | Breytt 24.9.2010 kl. 10:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.10.2009 | 17:54
Grænmeti er góðmeti
Hrátt, grillað, soðið, steikt eða afskaplega mikið ofnbakað! Kannski aðeins of mikið...
...en það skipti ekki máli! Karamellukennt, sætt, smá saltað og al dente! Bara gott!
Og ég lofa... þetta er gulrót, ekki pylsa!
Grænmeti | Breytt 24.9.2010 kl. 10:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
11.9.2009 | 11:23
Hermikráka
Nýtti mér kvöldmatarhugmynd miðvikudagsins í hádeginu í dag.
1. Af því að ég fíla upprúllaðan mat í kálblöðum þessa stundina!
2. Af því að ég á kálhaus heima sem er jafn stór og tunglið Hann skal nýta!
Bjó mér til hálfgert kjúklingasalat í gær, svipað og ég hef gert áður, með tómötum, sætri kartöflu, grænum baunum, jalapeno, dukkah og öðrum gleðilegheitum. Pakkaði svo niður kálblöðum og salati og skúbbaði með mér í vinnuna.
Eins og ég hef sagt svo oft áður, þá er, af einhverjum ástæðum, miklu meira fútt í því að borða mat, þegar búið er að rúlla honum upp! Kannski af því að það er svo gaman að geta borðað matinn með höndunum, sem gæti mögulega leitt þá staðreynd af sér að kannski sé svona stutt síðan átvaglið sveiflaði sér niður úr trjánum, ég veit það ekki - en hver sem ástæðan er, þá kætir þessi framsetning á mat mig alltaf jafn mikið!
Húrra fyrir þeim sem bjó til burrito númer 1!
Grænmeti | Breytt 24.9.2010 kl. 10:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.8.2009 | 18:42
Einföld hráefni, æðisleg útkoma
Gott, gott, gott! Fjögur hráefni umbreyttust í æðislega máltíð með aðstoð herra Foreman og náins vinar hans, örbylgjuofnsins! Jújú, nútíma letieldamennska í sinni hreinustu mynd! Ungfrúin var svöng þegar hún kom heim úr vinnunni og skrokkurinn hreinlega gargaði á mat hið snarasta.
Frosin kjúklingabringa inn í örbylgju og afþýdd með hraði. Eftir það var dýrið kryddað með oregano, timian, basil, pipar og smá salti og skellt í grillun a-la Foreman, ásamt tómötum og rauðlauk. Á meðan hitaði ég sæta kartöflu í örbylgjunni. Þegar mín heittelskaða sæta kartafla var að verða til skellti ég henni í grillið með hinu gúmmulaðinu svo hún fengi nú líka fallegar grill rendur. Allt fyrir útlitið!
Yfir tómatana fór smávegis þurrkuð steinselja og salt. Aukalega hafði ég með þessu lauk-chutney blandað saman við AB-mjólk. Kom æðislega vel út. Hefði eiginlega ekki þurft því kjötið og tómatarnir voru svo safarík blanda, en kjúllinn og kartaflan áttu vel saman með sósunni. Mmmmhh...
Voila! Hollt, gott, fljótlegt - hráefni sem flestallir eiga til á lager! Bambinn kátur í dag!
Grænmeti | Breytt 23.9.2010 kl. 22:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.8.2009 | 19:12
Meðlæti munar öllu
Brokkolí og blómkál... mjög misskilið grænmeti að ég held. Ekki margir sem gleypa yfir því nema þá kannski sem aukahlutverk í súpu eða pottrétt. Sérstaklega í mat þar sem það "sést ekki" greinilega. Ég eeelska B-in tvö. Hrá, steikt, soðin, grilluð, hituð, á pizzur, pasta, súpur, sósur, ídýfur, gratín... blómkálið sérstaklega. Mhhh...
Kjúklingabringa og sætar kartöflur á boðstólnum í kvöld. Alltaf gott. Með var að sjálfsögðu blómkálsbland. Blómkál, rauðlaukur, laukur, baunir og krydd af ýmsum toga. Hitað í ofni og voila. Bara gott!
Jæja, ætla að heisækja Gúmmulaðihöllina og sjá hvað eftir er af eldhúsinnréttingunni. Móðir mín kær tók sig til og byrjaði að rýma fyrir þeirri nýju - upp á eigin spítur. Mér var tjáð í dag að eldhúsið liti út eins og eftir Hiroshima, pabba til mikillar gleði, þar sem hann er fastur út á sjó (að finna nýja og fína fiska fyrir fjölskylduna til að prófa að elda) og getur enga umsjón með niðurrifi haft! Ætla að taka þetta út og meta stöðuna... kannski furðufiskarnir verði eldaðir hérna í Gúmmulaðihellinum þegar þeir mæta loks í hús!
Grænmeti | Breytt 23.9.2010 kl. 22:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
29.7.2009 | 18:59
Kvöldmatur 1, 2 og 3
Sársvöng þegar vinnu lauk klukkan 17:00 í dag. Ekkert merkilegt til í gúmmulaðihellinum svo við hentumst inn í Hagkaup og keyptum lauk, sveppi, papriku og tilbúinn kjúlla! Hvað svo? Inn í ísskáp sá ég graskersmaukið góða og hálftóma dós af tómatpúrru. Skyndilega kviknaði pínkulítið ljós! Graskers kjúklinga kássa! Hljómar ekki vel, en kom á óvart og bragðaðist sérstaklega gleðilega!
Graskers 'kjúklinga' kássa
Fyrir 3 svanga eða 4 ekki svo svanga.
Sauð upp kjúklingakraft (notaði tening) og setti til hliðar. Steikti á pönnu, uppúr 1 msk olíu, 1 rauðlauk, nokkra niðurskorna sveppi, papriku og 1 smátt skorið hvítlauksrif. Þegar rauðlaukurinn var orðinn mjúkur þá færði ég rúmlega helminginn af gumsinu í skál (hélt þetta yrði of mikið). Kryddaði laukgumsið sem eftir var á pönnunni með 2 tsk paprikukryddi, 1 tsk kanil, 1 tsk cumin og chillipipar. Ef ég hefði átt kóríander hefði ég notað það líka. Þessu leyfði ég svo að malla í 2 - 3 mínútur. Þá hellti ég 1,5 bolla af kjúklingasoðinu saman við, ásamt 1 bolla graskersmauki, 1/2 niðurskornu epli og 1 msk tómatpúrru. Þessu leyfði ég svo að malla þangað til þeirri þykkt og áferð, sem mér þykir best, var náð. Rétt áður en ég bar gumsið fram þá kreysti ég smá sítrónusafa út í. Hér er þetta enn bara graskers kássa. Sem er reyndar líka æðisleg og hægt að nota í, og með, allskonar réttum.
Ég guggnaði og bætti kjúllanum ekki samanvið, eins og ég litla ljósið sem kviknaði hafði ætlað - hafði hann sér til að byrja með.
En bara til að byrja með!
Hér verður graskers 'kjúklinga' kássan til. Það væri örugglega æðislegt að stinga þessu inn í pítabrauð eða rúlla upp í tortillu.
Þetta var virkilega gott. Graskersmaukið er alger snilld í svona. Væri hægt að útbúa pottrétt (fisk eða kjúkling) og setja ost yfir og inn í ofn, lasagnað sem ég tala endalaust um, pastasósu! Næst prófa ég pastasósu og fiffa uppskriftina aðeins. Bæti út í hana einhverjum góðum osti! Bara æðislegt, sérstaklega þar sem 1 bolli af graskersmauki eru 80 hitaeiningar. Það er ekki neitt!
Mjög gaman þegar tilraunir heppnast vel!
Grænmeti | Breytt 23.9.2010 kl. 22:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
19.7.2009 | 15:59
Kósýness og leti heimafyrir
Veðrið er notalegt, góð helgi að baki og sunnudagurinn nýttur í almennt hangs og leti! Vöðvar rétt hreyfðir til að finna sér gott ét inn í eldhúsi og skipta um rás á sjónvarpinu. Ljúfa líf.
Hádegismaturinn var léttur og góður. Virkilega. Átti eina risastóra sæta kartöflu sem ég henti inn í 200 gráðu heitan ofn þangað til skinnið losnaði frá. Ætli hún hafi ekki fengið að malla í 1 eða 1,5 tíma. Verða súper sætar og djúsí þegar þær eru ofnbakaðar! Kartöfluna skar ég svo í tvennt og smurði með kotasælu-skyrblöndu.
Kotasæla, skyr, Dijon honey mustard, þurrkuð steinselja = hamingja! Toppað með papriku hummus.
Þetta létt- en ljúfmeti var svo klárað með einni af þessum yndislegu ponku litlu perum sem flæða í öllum verslunum. Rauðar og gular, æðislegar á bragðið! Þær sem ég hef bitið í, ég veit ekki hvernig skal lýsa því. Karamelukenndar! Mmmm...
Grænmeti | Breytt 23.9.2010 kl. 21:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)