Gulrótarkökugrautur

Reyndar engin kaka.

Bara.. gulrótargrautur. En, það hljómar svo, svo, ekki rétt.

Gulrótar-gratur! Gulrótar-köku-grautur! Þetta er hið minnsta grautur með gulrótarköku-innihaldsefnum.

Numero uno

Skelltu rót í blender!

Ég fékk töfrasprota í jólagjöf... elsk, elsk... elsk! Eeeelska hann blessaðan.

Gulrótarblender

RÖRA

Gulrótarkökugrautur í bígerð

Numero dos 

Um það bil 20 gr. hafrar í skál ásamt slatta af vanillu/heslihnetu torani og vatni, örbylgja í góða mínútu. Kannski 1,5 min. Bæta þá kúfuðum 3 tsk gulrótarrifrildi út í og hræra.

Gulrótargrautur

Numero tres 

Næst slást í leikinn um það bil 100 gr. af eggjahvítum og gumsinu hrært vel saman. Aftur inn í örbylgju, kannski mínútu. Taka þá út og bæta við kanil, múskati, negul og smá salti. Hræra vel.

Mest af kanil, næstmest af múskó og minnsta af negul - það er amk. það sem flýtur mínum bát.

Gulrótarkökugrautur í bígerð

Numero quatro 

Aftur inn í öbylgju, 1 - 2 mínútur eða þangað til "þurrt". Taka þá út og hræra upp, hella aukalegum jah, 20 gr. eggjahvítu útí og hræra saman þangað til vel blandað og mjúkt og fallegt og fiðrildi. Eggjahvítan eldast þegar hún er hrærð saman við sjóðandi heitt gumsið. Ég geri þetta til að fá svona eðalfína silkiáferð. Krydda meira ef vill.

Hafragrautsskraut

Blanda saman smá torani + skyri, ekki borða. Alls ekki borða takk, grauturinn á þetta skyr.

Framsetning - mjög mikilvægt fyrir bragð og gæði grautsins

Koma graut fallega fyrir í þartilgerðri gulri skál, sletta með skyri og skreyta með rest af rifrildi.

Borða strax eða ísskápa.

Ég ísskápaði.

Gulrótarkökugrautur

Gulrótarkökugrautur

Smakkast eins og gulrótarkaka. Ég segi það satt og lýg enganveginn. Skelfilega jákvætt átið sem átti sér stað í morgun og allsvaðaleg matarperviskan sem fylgdi í kjölfarið. Hægt að "betrumbæta" með t.d. smá púðursykri, hörfræjum og jafnvel chia. Ég tala nú ekki um muldar valhnetur.

...

Nei... ég ætla ekki að tala um þær!

Gulrótarkökugrautur.

Gulrótarkökugrautur

Gulrótarkökugrautur

Kominn til að vera þessi elska. Kominn til að vera.


Á meðan ég man...

...þá innihélt þetta hið minnsta hvítkál, lauk, hvítlauk, papriku, sellerí, tómat, balsamic edik, dijon sinnep, sojasósu, pipar, karrý, KANIL, múskat, chilli, kotasælu og egg ásamt eggjahvítukrumsi og örugglega einhverju öðru dularfullu kryddi!

Balsamiksteikt grænmeti með eggjahvítuhræru og heslihnetum!

Balsamiksteikt grænmeti með eggjavítum og heslihnetum

Í hverskonar hlutföllum hef ég ekki grænan guðmund eða fjólubláan fettmúla.

Var það gott?

Balsamiksteikt grænmeti með eggjavítum og heslihnetum

Jebb. Mjög mjög gott.

Mjög... gott. Og það er búið :(

Balsamiksteikt grænmeti með eggjavítum og heslihnetum

Undirrituð er kannski ekki alveg jafn minnug og hana grunti!

EN

Þetta er fínt á kreppumatseðilinn... ekki satt?

Grænmeti sem þú finnur inn í ísskáp, skorið í smátt. Steikja lauk, hvítlauk og sellerí uppúr smá olíu þangað til meyrt, þá bæta við kryddum. Steikja þangað til vel ilmandi, hella þá balsamic + soja við, malla eilítið og þá gúlla rest af gleðimeti samanvið. Bæta eilitlu vatni við. Hræra, malla, bæta við dijon og kotasælu, diska, eggja, hneta, borða!

Eða, í mínu tilfelli -> mynda, borða.

Takk annars fyrir mig. Þetta var ánægjulega gleðilegt með marakósku ívafi í bland við allan fj...

...geypilegur kokkur sem ég er. Hmm hmm!


Hamingjunnar Herkúles

Það sem titillinn segir!

Fyrstu alkóhóleindum þessa árs var sporðrennt í gærkveldi við mikinn fögnuð... alls... þess... sem...

...hmmm...

...ég hef ekkert!

En ég afrekaði það að borða ekkert sveittara en eggjaköku í dag. Ekki viljandi þó. Alls ekki viljandi.

Ég ætti í allri alvöru að vinna einhverskonar verðlaun. Get svo svarið það.

Alkóhól étið og nokkrar sykurhnetur japlaðar á meðan á því stóð. Tvö snökk. Hambó í bland við 100 tonn af piparosti. Því þannig rúllar undirrituð.

Svo leið og beið og það var tjúttað, dansað, tryllt og hlegið.

Taskan týndist.

Taskan fannst.

Góðu kveldi lauk svo 12 tímum síðar og undirrituð át sér skyr og kotasælu fyrir svefninn. Hreinlega af því að ekki voru neinir sveittir skyndibitastaðir opnir í nánd við Gúmmulaðihellinn.

Þegar múmían loks rankaði við sér í morgun var hungrið svo óyfirstíganlegt, eins og svo oft gerist þegar skrokkurinn er í alkóhólísku ástandi, að dauðinn var hinumegin við hæðina.

DAUÐINN!!

Það viljum við ekki.

Þannig að útbúin var eggjakaka á nóinu með öllu grænmeti undir sólinni. Grænmetið átti ekki nokkurn séns enda bitið í alla lausa enda á meðan eldamennsku stóð.

grænmeti í þynnkunni

Þetta er þó eina sönnun þess að ég hafi í raun borðað eggjaköku. Myndavélin er ekki efst á forgangslista þegar hungur fær einkunn 9.8. Ekki samt halda að ég hefði valið eggjakökuna framyfir sveittan burger eða ostapasta hefði það legið fyrir framan mig. Uss...

Rakst annars á mikinn "fund" áðan.

TADAAAA!!

Nóakropp

En því miður. Því verr og miður. Vonbrigði.

Venjulega ljósrjómasúkkulaðisykursæta kroppið er langtum ofurbetra að mínu dísæta mati. En ég er sykurgrís að guðs náð svo ekki taka of mikið mark á mér.

Dökkar súkkulaðirúsínur eru þó betri en ljósar. Ekki að það komi þessu máli eitthvað við!

Ljúft kvöld kæra fólk.

Knús og kram.


Ég græt af gleði

"Af hverju?" gætir þú spurt sjálfa(n) þig.

Af hverju?

Hví?

Jah. Það er pottþétt ekki út af þessu kjúklingasalati sem ég fékk á Ruby Tuesday í gær.

Kjúklingasalat á Ruby

Pottþétt ekki út af þessu kjúklingasalati sem ég bað sérstaklega um að allt meðlæti, með læti, yrði sett í lítil krúttaraleg ílát svo það væri nú ekki að flækjast fyrir mér, eins og hræðilega illa steikta beikonið og sósan sem var sætari er allt sem er sætt sætt.

Pottþétt ekki út af þessu yndislega fjalli af pekanhnetum sem stóð ekki neinstaðar á matseðli að búið væri að sykra.

Sem er svosum ekki alslæmt. Eða... ekkert slæmt. 

Enda át ég þær. 

Ekki allar.

Næstum allar.

Af hverju sykra fullkomlega æðislegar ristaðar pekanhnetur? Pfff!

sykraðar pecan - sviiiindl

Ég gæti mögulega hafa grátið af gleði eftir að hafa útbúið þetta listaverk úr salatafgöngum ásamt dyggri aðstoð frá Sölva. Hann lét af hendi tvær fröllur í gjörninginn.

We call him Bob.

bannað að leika með matinn

Mögulega... grátið. 

Svei þér kerlingarálka. Bannað að leika með matinn. Hvernig varstu alin upp? Áttu heima í helli? Hvað ertu gömul?

  1. Ég var alin upp af eðal hrossabjúgum takk. 
  2. Ég á heima í Gúmmulaðihelli já.
  3. Ég er 26 ára. Verð 27 ára eftir tæpan mánuð.

Gráta af gleði?

Ég grét þó pottþétt af gleði um 5 leitið í morgun. Þegar ég opnaði ísskápinn og sá...

Einn einfaldur kaffi

... EINN, EINFALDAN, 'búinn til kvöldinu áður-KAFFI'! Óguð!!!

Dustaður með kanil, kakó og jú, smá meira kaffi.

Einn einfaldur kaffi

Sjáið... það er hægt að sker'ann! Gamli áferðaglaði vin!

Það gæti mögulega hafa slæðst skyr með í fyrstu 5 bitunum. Dæmi hver fyrir sig.

Einn einfaldur kaffi - skorinn

nohm nohm *grát* nohm  *grát*

OG

Nýtt Karvelio plan í næstu viku!!! Hihiiiii.... *grát*


Saumfó

Saumaklúbbar?

Kjafta, tala, hlæja, borða!

Kökur, bakkelsi, ostasyndblæti og samviskunag?

Ekki okkar ofurhittingar.

Oooneiii!

saumfó

Ohm nohm nohm!

Takk fyrir mig í gær mínar kæru Heart

Annars verða bloggskrif að lúta í lægra haldi næsu vikuna eða svo. Snýti hér inn almennilegheitum þegar færi gefst.

Spennó vika í vændum. Allskonar... allskonars pennó.

Og bara svo ég játi nú eitthvað eitt í anda þessa bloggs - þá er jólamörin farin að leka af. Fyrst núna. Spöðunum haldið hárrétt síðan 03.01. smá tjútt um helgina og svo verða subbulegheit og almennt ofát tekið fyrir 21.01.

"Allt í lagi barnið gott. Það verða þá 10 froskar, 25 situps, 10 mínútur á brettinu og þrjár dauðar upphífur. Amen"


Spurningum svarað

Kannski kjánaleg spurning, en ertu ekkert hrædd við að "fitna" aftur eða detta í sama farið?

Enganvegin kjánaleg spurning og á fullkominn rétt á sér!

Alltaf aftast í kollinum. Ruslakistan blessuð ásækir heilabúið og vitundina eins og skugginn og stundum fæ ég "Hóólí hell það er að koma aftur - best að brenna" tilfinninguna í heiladingulinn. Reyni þó eftir bestu að halda barasta ró minni og anda í bréfpoka eða einbeita mér að því að fyrirlíta tær almennt.

Wink

Eins og ég hef þó sagt, ég var kannski ekki í alslæmum málum fyrir, og ég vil meina að ég hafi náð að grípa í rassinn á Nóakropps-líferninu í fyrra laginu, en jú, þetta er alltaf aftast í kollinum. Ég er líka ein af þeim sem bókstaflega "má ekki" borða allt sem fyrir augum ber því ég bæti mjög hratt á mig auka mör og hamingju.

Nóakropp og dökkar súkkulaðirúslur

Systir mín sem dæmi, er slanga af guðs náð. Hún getur borðað hvaða hroðbjóð sem er án þess svo mikið sem blása úr nös eða... blása út. Ef ég gerði slíkt hið sama, án þess að hreyfa mig, þá kæmi ég til með að "stækka" heldur hratt :)

Ég er hið minnsta ein af þeim sem virkilega þarf að hafa fyrir því að halda mér á góðu róli, veit líka af því og er því nokkuð hress með að hafa náð á þennan stað sem ég er í dag, þó sérstaklega hvað t.d. matarræði varðar. Er búin að halda mér á þessum stað í rúmt ár.

Nú veist þú hvernig þú átt að "hegða" þér, hvað er rétt og hvað er rangt. Gerir þú einhverntíman eitthvað sem ekki myndi teljast "rétt"?

Gott dæmi er t.d. eftir ofurát. Massíft ofurát, þá helst þessi sem eru "óplönuð". Þó svo ég viti að það geri í sjálfu sér lítið gagn að drattast á brettinu/stigavélinni, 40 mín á dag næstu 2 vikurnar, þá langar mig óstjórnlega að láta það eftir mér. Líka það, að éta á sig gat einn daginn, og borða samt 6 máltíðir daginn eftir. Á það alveg til að hugsa "nei andskotinn, ég át um það bil 8000 kaloríur í gær, reynum að slaka á í dag".

Í svona tilfellum er ágætt að slökkva bara á heilanum og fara eftir plani. Jújú, ég hef alveg tekið brennslupakkann á þetta eftir að ég "sá ljósið", get ekki neitað því. Er þó yfirleitt snögg að snúa mig út úr því og halda venjulegu rútínunni áfram. En það tók smá tíma, viðurkenni það líka, að láta undan því sem í raun er "rétt" fyrir því sem þú telur að sé betra. :)

Einhver hreyfing mín kæru er samt betri en engin! Ég er alls... ekki... að setja út á það!

Þykja þér einhverjar æfingar leiðinlegar, eða leiðinlegri en aðrar?

Ein leiðinlegasta æfing sem ég geri er dauðaganga/framstig. Ég fæ grænar, gubba pínkulítið upp í mig og upplifi almenn, allsherjar ömurlegheit og satan.

  1. Satt - allt sem er "erfitt" er "leiðinlegt" og farmstig/uppstig/dauðaganga er svo sannarlega erfitt með tilheyrandi blóðbragði í hálsinn ef vel er á því tekið.
  2. Þegar ANNAR fóturinn er búinn, þá er HINN eftir. Tvöfalt... tvöfaldur tími. Ughh! *dauði**leti**sjálfsvorkunn*

En manni líður alltaf jafn ógeðslega vel þegar þetta er yfirstaðið! Sérstaklega þegar rass-sperrurnar daginn eftir byrja að pína þig.

Rass... kúlurass!

Er gaman að eiga Aspas?

Um tvo bíla að velja. Svartan og Aspasinn.

  • Pabbúla: Jæja, svipaðir bílar, hvort viltu?
  • Átvaglið: Grænan
  • Pabbúla: Elín?
  • Átvaglið: Grænan.
  • Pabbúla: Elín, í alvöru..
  • Elín: Grænan.
  • Pabbúla: Þið eigið hvort annað skilið.

Aspasinn minn

Vigtar þú þig reglulega, mælir og tekur fitu %?

Ég stíg á vigt kannski 1 - 2 í mánuði fyrir forvitnisskir. Hef ekki ummáls mælt mig í hálft ár eða tekið stöðu á % tölunni minni. Núna er ég svolítið að spila hreyfinguna mína eftir eyranu. Hef sett mér nokkur markmið í formi æfinga, ekki endilega að komast niður fyrir x kíló/ fitu%. Ef buxurnar fara að þrengjast óeðlilega mikið þá borða ég aðeins "minna". Ef þær víkka óeðlilega mikið þá borða ég meira. Það er, ef ég er eitthvað hvumpin í eigin skinni.

Langar helst að ná markmiðunum mínum fyrir næstu jól og halda jafnt og þétt áfram. Líður vel í eigin leðri þessa stundina og ætla mér að viðhalda því formi sem ég er í, og þá er ég ekki endilega að meira "útlits" formi.

Markmiðin eru meðal annars:

  • 10 dauðar upphífur
  • 15 hnébeygjur á einari, á báðum
  • 5 armbeygjur á einari, á báðum
  • 20 fullkomnar barbell complex með 25kg, samfleytt
  • 20 fullkomnar concept róðravéla maga/bak æfingar
  • 30 fullkomnir froskar með hoppi, samfleytt
  • 100 armbeygjur

Hefurðu alltaf verið íþrótta álfur? Varstu mikið í íþróttum sem krakki?

Aldrei!

Eða... kannski ekki aldrei. Var í jazzballet í nokkur ár. Annað en það ekki neitt. Hef aldrei verið neitt sérstakleg íþróttalega sinnuð og hélt í alvöru talað að ég myndi aldrei verða það. Ein af þeim sem fékk alltaf 7 eða minna í íþróttum...

...þangað til þeir ákvaðu að breyta þessu blessaðir og gefa einkunn eftir mætingu, ekki eftir því hver gæti kastað bolta, úr 5 metra fjarlægð, á milli tveggja stanga sem voru 20 cm. frá hvor annarri!

Nei... ég er ekkert bitur.

Kom svo sannarlega annað á daginn :)

Datt ekki í hug að ég myndi nokkurntíman ná því að taka svo mikið sem eina armbeygju eða hlaupa samfleytt í 30 mín. Ná því í raun að massa mig upp, antilópast, tónast, mjókkast, matarræðast, vakna klukkan 6 til að ræktast... ast ast... bara... hvað sem er. Þetta er því mikill sigur og geypilegt afrek að mínu mati í mínum eigin íþróttaálfs kladda.

Stórgott.

Áttu "feituföt"? Þú veist. Föt sem þú átt á legar ef ske kynni að þú ætir pizzu í öll mál í heilan mánuð? Varaföt?

Vildi óska að ég gæti sagt nei. En ég get það ekki.

Ójá. Ég á feitubuxur.

Gerði samt nokkuð magnað um daginn og gaf öll "feitufötin" mín. Það tók á. Ég segi það satt. Föt í dag eru fok-andsk. dýr og ef ég þarf að fara að byrgja mig upp af nýjum flíkum sökum ofáts þá eru mér allar bjargir bannaðar.

Ég "neyðist" því til að halda mig á beinu brautinni! Svona... þannig ;)

Jú, ég á því EITT SETT (hoho, eitt sett) af varaflíkum ef ske kynni að alheilagur pizzaandinn smokraði sér inn í systemið og æpti "SVEPP OG PEPP OG XTRA OST" endurtekið!

Eldbökuð pizza með rjómaosti, kjúlla, jalapeno, lauk, papriku og oregano

Hvað er uppáhalds svindlið þitt?

Óguð. Stress. Hvernig er hægt að velja?

Stress stress stress!

EN því subbulegra, því betra, og subbulegt í minni bók er allt sem er sveitt!

Pönnsur, kökur, jólaönd, eplakrums, nautasteik - allt gott og blessað en í subbulegum ítroðslu-svindl-dögum er ekkert sem blivar nema "quick and dirty" og pönnsur eru dæmi um eitthvað sem skal njóóta.

ÞANNIG AÐ

Matarkyns:

  • KOLVETNI OG BRÁÐINN OSTUR - deadly duo. Svindlblætið mitt.

Eiginlega sama í hvaða formi þetta tvennt er. Ostur og kolvetni er bara combó sem getur ekki klikkað í minni bók og bráðinn ostur gott fólk... dont even go there!

  • Bolognese með miiikið af osti ofaná.
  • Lasagna!
  • KARTÖFLUGRATÍN!! óguð... ég dey!
  • Doritos kjúklingur 
  • Sveitt, djúsí ostapasta með hvítlauksbrauði á kanntinum!
  • Pizza, pizza, pizza og pizza.
  • Ostafondú!
  • Risastór BLT samloka, ristuð, með beikoni/eggi/camembert (og mikið af honum).
  • Panini!!!
  • Bráðinn Camembert með sultu/hunangi á milli og valhnetum + ritz!
  • Doritos með ostasósu. Bíó-Doritos! Láta flögurnar liggja í ostasósunni svo þær verði mjúkar og ógeðslegar og löðrandi í ógleðinni! Oghhh!
  • Risastór nachoskammtur stútfullur af sósudrulli og bráðnum osti ofaná.

Doritos kjúlli

Ofnbakað Ziti

Nammikyns:

  • Nóakropp/Nóapopp = súkkulaði, knús og kram
  • Fylltar appololakkrísreimar
  • Ís - rjómi - vanilla vanilla vanilla
  • Eitthvað sem inniheldur karamellu, rjómakennt vanillublandað saltbragð og hamingja
  • Hunangsristaðar, sykurhúðaðar, súkkulaðihúðaðar, hvernig sem er hnetur

Kropp og fylltar lakkrísreimar

Nammidags bragðarefur 

Er með nokkrar svona spurningar á lager og kem til með að pósta í og með, með leyfi sendanda að sjálfsögðu. Gaman að þessu Grin


Kreppumatseðill

Búin að vera að hugsa!

NEI?? Ég trúi þér ekki!!

Jú. Ótrúlegt en satt - þá á ég það til.

Meiningin með þessu bloggi, til að byrja með, var svolítið að skrá og skjalfesta það sem upp í svartholið fór... hvarf.

Og er enn að mörgu leiti.

Þróaðist svo í smá tilraunabakstur, eldamennsku og almennt allt sem er hollt hollt, bragðast vel á innan við 30 mínútum.

Og... er enn... að mörgu leiti.

Svo kom kreppa. Preiiiis ðe laaaawd allmighty.

Í dag -> Ella llama, reynsla, matur, eldamennska, lífið, tilveran, æfingatilraunir í bland við fettmúla og aðra múla.

Í stuttu gott fólk. Það að tilraunast, með mat og annað nátengt, er farið að kosta meira en bara frumburðinn og útlimina. Hef því reynt að halda mig við það klassísa, sem ég veit að virkar en getur orðið heldur þreytt til lengdar og í alvöru talað, hver nennir að góna á eggjahvítur, hnetur og salat alla daga?

Þó svo það gleðji átvaglið ætíð á meðan gúlli stendur, þá er það varla þess virði að festa á filmu. Er það? Hmmm... haa...

Var því að spá að taka smá törn í kreppufæði. Enginn sem segir að tilraunir og almennt eldhús-stúss þurfi að steypa hinum íslenska hambó í skuldir viljir viðkomandi halda sig á mottunni hvað "hollustu" varðar. Ódýrt þarf ekki að þýða "óhollt", pakkasúpur, pasta, grjón og þurrir hafrar.

Því við viljum ekki eyða of miklu... vatni!

Sjáum hvað setur. Ætla að reyna að særa fram nokkrar uppskriftir, nýta afganga og lifa á aðeins meiru en bara tómötum í einu horni og kjúllabita í hinu.

Kjúllabitatómatasúpa?

Taka svo nokkrar skemmtilegar myndir í kjölfarið.

Best að fara að sanka, skrifa niður og vesenast.


Glæný 40 ára panna

Sjáið hvað hún er geggjaðslega fín!

Pönnukökupannan hennar Löngu

Pönnukökupannan hennar Löngu

Svona gersemi er ekkert nema gleðin einar að hafa til taks í sínu sérlega eldhúsi.

Amma mín átti hana!

Heart

Pönnsur eru fyrirsjáanlegar í nánustu framtíð! Mikið... af pönnsum!

 

Skotbolti með vinnunni á morgun. Lasagna og smá spælingar í bland.

En núna - kerti, leti, Juno.

Ahh!


Gaddfreðið snjallræði!

Nýtum skítakuldann og frystitíðina sem honum fylgir!

  1. Settu skeið ofan í íþróttatöskuna þína/hafðu ávallt skeið í bílnum.
  2. Skildu t.d. Hleðsluna þína eftir út í bíl á meðan þú ert að æfa.
  3. Æfðu... æfðu eins og vindurinn!
  4. Ekki hlaupa út úr ræktarhúsi í íþrótta-kvartbuxunum þínum (aha... gef sjálfri mér prik hérna)
  5.  I
  6. Atriði númer 5. er ég... að gefa sjálfri mér prik.
  7.  ÓKEIII
  8. Þegar út í bíl er komið þá skaltu rífa hleðsluna upp með látum og.... VOILA!

Bílfrosin Hleðsla


Bílfrosin Hleðsla

Þú ert með eitt stykki Hleðslu-ís, tilbúinn á kanntinum, handriðinu, skemlinum, hliðarlínunni...

...í bílnum!

Ohm nohm nohm!


Gleymt eða ekki gleymt?

Mikið ofboðslega er himininn búinn að vera fallegur undanfarið. Því miður gerir myndavélin mín þessari litadýrð engin skil. Sólarupprás extraordinaire. Eins og það sé kviknað í!

Það var mjög erfitt að hætta að horfa á þetta í morgun.

sólarupprás

Ahhh!

Sneri þó inn í hlýjuna í þessum tilgangi! Vinnugrautur og skyr í bréf/plast/ekki gler... máli.

Vinnubollahræringur

Hræringur eins og í gær. Skyrið felur sig undir grautargleðinni þó og já... málið bansett lak. Þar af leiðandi er bróðir þess að knúsa hið fyrrnefnda.

Ég virðist þó aldrei ætla að læra... eða, ölluheldur, muna. Að minnsta kosti ákveðin atriði sem heilinn, eða nennan, vilja ekki viðurkenna.

Kannist þið ekki við þetta?

  • "Óguð - ég ætla aldrei, aldrei að borða aftur" Jáh, einmitt... ofátsmælirinn skráir ofát á grjónagraut aldrei í matarminnið og undirrituð grætur grjónum hver einustu, einustu jól!
  • "Mikið djöööf***i er kalt úti. Get svo svarið það..." Eins og við höfum aldrei upplifað kulda áður. Allir alltaf jafn hissa þegar fyrsti frostdagur lítur dagsins ljós.
  • "Ahh jólasnjór. Snjóaði á jólunum í fyrra?"
  • "Þvíílík umferð á Kringlumýrarbrautinni í morgun!!! Tók mig 40 mínútur að komast í vinnuna" Hvert eiiinasta ár þegar skólarnir byrja.

Sama á við um þann heimskulega verknað "að hlaupa út úr húsi klukkan 06:00 að morgni, dag eftir dag, á kvart - íþróttabrók" vitandi vel að það er janúarmánuður. Á Íslandi.

Janúar gott fólk. Ísland.

Það er svosum ekki hægt að álasa okkur. Janúar á Íslandi og það er ekki einusinni snjór! Hitamælirinn sýndi plús tölu í síðustu viku! Ekki nema furða að aumingjans íslendingurinn fari allur í keng og vitleysu þegar það byrjar að kólna aftur. Við erum greinilega of góðu að venjast.

Að öllu gamni slepptu mín kæru, trúið mér, treystið mér... munið eftirfarandi með mér:

Þér skuluð aldreigi... aldreigi skilja íþróttaföt eftir út í Aspas sé ætlunin að hreyfa á sér rassmusinn seinna um daginn þegar talan á hitamælinum segir MÍNUS.

Það, að þurfa að klæða sig í skítkaldan, gaddfreðinn íþróttafatnað þarfnast meiri sjálfsaga en að sleppa því að borða súkkulaði. Ég segi það satt. Gæsahúð aldarinnar lætur á sér kræla og þú byrjar að ofanda. Og nei, ég er ekki að tala um þægilegu gæsahúðina sem þú færð þegar heitt sturtuvatn rennur á þig.

Ég greip því, í einu skjótu handbragði, töskuhrygluna mína með inn í vinnu í morgun.

Hún hvílir sig við einn borðfótinn, stillt og prúð. Segir ekki múkk.

Samt eins og hún sé að baula. "BÖÖÖ...."

eðall

Hryllilega er ég minnug og æðisleg.

Ætli ég verði samt ekki búin að "gleyma" þessu á morgun þó. Blóta svo sjálfri mér í sand og Eyjafjallaösku þegar vonda gæsahúðin hlær lymskulega að mér og íþróttatoppurinn þverneitar að losa takið bara smá.

Góða við þetta er þó að illu er best af lokið og 10 sekúndum eftir að brókin er límd utan á rassinn þá verður manni heitt... en mikið assgoti eru þessar 10 sekúndur ömurlegar eitthvað.

Sjálfskaparvíti upp á sitt besta.

Sjálfskaparvæli er því lokið og þetta.... jebb. Þetta, er það sem ég át mér í hádegismat. Svínið og lundirnar og grænmetisfjallið og hamingjan.

Nákvæmlega ekkert neikvætt við þennan disk! Mmhmm!

svínalundir og grænmetisfjallið,

Mmmgmm

Gott hádegisspis.

Vel heppnað fimmtudagsvæl.

Móaflatarkjúlli í kvöld. Jólin eru formlega yfirstaðin!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband