Færsluflokkur: Snarl og pill

Fíkjur, undursamlegar fíkjur

Þurrkaðar fíkjur eru æðislegar. Dísætar og karamellukenndar. Gaman að bíta í þær. Seigar að utan, mjúkar og djúsí að innan með pínkulitlum fræjum sem poppa þegar bitið er í þau! Fullkomnar sem sætusnarl, ef maður er t.d. í 'nammibindindi' og sykurpúkinn alveg að stúta sálartetrinu. Þessi kúlublanda var einróma samþykkt í vinnunni minni. Sem er gleðilegt fyrir mig og átvaglið hið innra.

Fíkju og fræboltar

Fíkju og fræboltar1 bolli þurrkaðar fíkjur. Um það bil 170 gr.

1 bolli sólblómafræ

Niðurrifinn börkur af lítilli sítrónu

2 msk hörfræ. Má sleppa.

1/4 tsk salt

1 - 3 msk hunang og/eða agave sýróp

Viðbætur, ef vill, sem hægt er að bæta í deigið eða rúlla kúlunum uppúr: kanill, kakóduft, flórsykur, hnetumulningur, kókos....

Hella sólblómafræjunum í matvinnsluvél og mala þangað til nokkuð fínt. Þá bæta við fíkjunum og jú, hræra þangað til nokkuð fínt. Ef þú vilt gera matvinnsluvélinni greiða, þá er gott að skera þær í minni bita. Þegar fræ og fíkjur eru orðin að svo til fínu mjöli, bæta við sítrónuberki, salti, hörfræjum og 1 msk hunangi. Hræra vel saman. Ef hægt er að útbúa kúlur úr deiginu, á þessu stigi, þannig að þær haldist saman, þá má byrja að rúlla. Annars bæta við annarri msk hunangi og hræra aftur eða þangað til kúlurnar molna ekki sundur. Bæta núna 'viðbótum' við, ef vilji er fyrir hendi, annars rúlla upp úr kakódufti, kanil ofr.

Fíkju og frækúla

Hafið þið ekki smakkað samskonar fíkjukex og sést á myndinni hér fyrir neðan?

Fíkjukex

Ef svo er, þá eru þessar kúlur svo til eins og gumsið sem er inn í kexinu hvað áferð varðar. Bragðið er æði. Sítrónubörkurinn gefur skemmtilegt "Hmm.. hvað er þetta?" í hvern bita og frískar mjög upp á sætar fíkjurnar! Karamelluboltar með meiru og hunangið lætur aðeins vita af sér. Dúllið sem liggur svo utan á kúlunum gefur þeim mismunandi líf, kanill og súkkulaði eru í uppáhaldi hjá mér. Svo eru þær að sjálfsögðu á holla listanum, sem er alltaf jákvætt. Mikið gott.. mikið gaman!

Fíkju og fræboltar


Heilsusamlegt "nammi"

Ég var að spá í að taka mig til og prófa að búa mér til nokkrar uppskriftir af "trufflum" eða nammikúlum í hollari kanntinum. Einfaldlega af því að ég á tonn af fræjum, hnetum og gumsi og það er einfalt og skemmtilegt að útbúa svona nammi. Ekkert fár. Yfirleitt fer allt hráefni í blender, það blandað til bana og húðað (eða ekki) með einhverju sniðugu. Svo er líka svo gaman að borða svona bitastórt nammi!

Hafra- og ávaxtakúlurHafra- og ávaxtakúlur

1/2 bolli hafrar

1/3 bolli graskersfræ

1/3 bolli hnetur. Ég notaði möndlur. Átti ekkert annað.

1 msk rúsínur

1/3 bolli þurrkaðir ávextir. Ég notaði ferskjur og kirsuber.

1 msk mulin hörfræ

2 msk döðlu- og jarðaberjasulta. Eða hvaða sulta önnur sem þú átt og kýst frekar.

Mylja hafra þangað til fínir. Ég muldi mína í matvinnsluvél. Bæta þá við hnetum og graskersfræjum og mylja aftur þangað til nokkuð fínt, mega vera stórir bitar hér og þar. Bæta þá við rúsínum, þurrkuðum ávöxtum og hörfræjum. Blanda aftur en í þetta skipti má blandan vera grófari - þangað til allir stórir bitar af þurrkuðum ávöxtum eru svo til horfnir. Stærstu mættu vera á stærð við grjón. Þá er ekkert annað eftir en að bæta við sultunni. Blandan er tilbúin þegar hún fer að festast við veggi matvinnsluvélarinnar. Þá er deigið, ef deig má kalla, mótað í litlar kúlur og stungið inn í ísskáp.

Hafra- og ávaxtakúlur

Skemmtilegt á bragðið. Sætt og súrt á sama tíma með hnetukeim og skondnu kikki frá graskersfræjunum. Held ég myndi prófa t.d. sólblómafræ næst og jafnvel einhverja sniðuga hnetublöndu.

Hafra- og ávaxtakúlur

Áferðin er flott. Deigkenndar, ef það er til, þéttar. Eins og litlar karamellur. Mjúkar, með fræ- og hnetubitum inn á milli. Alls ekki þurrar. Það væri jafnvel hægt að móta botn úr þessu deigi nú eða "granola" stykki. Ekki hafa áhyggjur þó þær líti út eins litlar kjötbollur - þær leyna á sér.

Hafra- og ávaxtakúlur

Ekkert sem er ekki 'æskilegt' við þessar elskur. Sykurlausar, fullar af flóknum kolvetnum, trefjum, hollum fitum og próteinum. Fullkomið snakk milli mála, í morgunmat, með kaffinu nú eða bara til að bíta í þegar snarl-andinn kallar!


Nýja uppáhalds uppáhald

Myndirnar segja ekki helminginn af sögunni, en þetta er eðal nasl í mínum kladda!

Hýðishrísgrjón, kotasæla, epli og kanill

1/2 bolli köld hýðishrísgrjón blandað saman við 100 gr. kotasælu og niðurskorið epli. Toppað með kanil að sjálfsögðu. Þið sem þekkið grjónagraut - þá er þetta svo til aaalveg eins! *slef*

Mmhmm þetta var svo gott. Hitti beint í mark!

Hýðishrísgrjón, kotasæla, epli og kanill

Farin út í sólina aftur. Fiskiveisla í gúmmulaðihöllinni í kvöld - humar, harpa, smokkfiskur! Eeeek... get ekki beðið!


Sweet'n'spicy hnetu- og fræmix

Er nammidagur í dag? Það held ég nú! Ég bara varð að setja þetta hingað inn, svo gott er það. Krydd, hunang, hnetur, fræ - ristað í ofni. Hið fullkomna nart-snakk! Geri þetta stundum hérna heima þegar ég vil narta nú eða til að bjóða gestum. Elska hnetur og fræ.

Sweet'n'spicy hnetumix

Sweet'n'spicy hnetumix1 tsk olía

1,5 tsk púðursykur

1,5 tsk hunang

1 tsk kanill

1/8 tsk - salt, cardamommur, engifer, paprikukrydd, negull

Smá svartur pipar

1/2 bolli möndluflögur, eina sem ég átti.

1/4 bolli pistasíur

1/4 bolli 5 korna blanda og sólbómafræ

 

Hræra fyrstu 6 atriði saman og inn í örbylgju í 30 sek. Hella hnetu- og fræmixinu saman við kryddblönduna og hræra þangað til allt gums er vel þakið. Inn í 175 gráður heitan ofn, 10 - 12 mínútur. Hræra í krumsinu eftir 5 mínútur og passa að það brenni ekki. Taka út úr ofni þegar möndlurnar eru rétt brúnaðar, og leyfa að kólna! Njóta....

Sweet'n'spicy hnetumix

Þetta er líka æðislegt yfir salat, með AB-mjólk, ofan á graut, með ís! Gæti hámað þetta í mig endalaust! Skemmtilegt hvernig þessi krydd vinna saman, sterkt, sætt, salt... sæælgæti!


Æðisleg döðlu og jarðaberjasulta

Einn lesandi af þessu bloggi mínu, Ásta, benti mér á sultu sem hún býr sér stundum til. Mér fundust þessi hráefni og tegund af sultu frábær og prófaði að sjálfsögðu samdægurs að búa hana til! Það er einfalt að búa sultuna til, hráefnin sem fara í hana eru einungis tvö, hún er sykurlaus - meiriháttar bragðgóð og skemmtileg! Við mister Paulsen erum svakalega hrifin af henni!

Döðlu og jarðaberjasulta

150 gr. frosin jarðaber

100 gr. döðlur

Sjóða saman í potti, hita vel, merja saman og kæla. Getur þetta verið auðveldara?

Heimatilbúin döðlu og jarðaberjasulta í bígerð

Ég notaði þurrkaðar döðlur, án efa betra að nota ferskar. Hægt að kaupa þær í t.d. Bónus. Úr þessum hráefnum urðu til um það bil 280 gr. af sultu. Nógu mikið til að fylla krukku eins og þessa.

Heimatilbúin döðlu og jarðaberjasulta

Það er reyndar ekki mikið eftir í þessari krukku. Palli er búinn að vera að beyglast og möndlusmjörast í nokkra daga! Sultan er nokkuð þykk og í henni leynast smá bitar úr jarðaberjum og döðlum. Ég, eins og sönnum víking sæmir, notaði handafl og stappaði gumsið með gaffli. Líklega betra að nota t.d. töfrasprota eða matvinnsluvél.

Heimatilbúin döðlu og jarðaberjasulta

Þetta er best! Sultan góða og heimagerða möndlusmjörið! Hamingja og gleði í einni lítilli skeið eða á brauð eða ofan á graut eða með kotasælu....

Heimatilbúin döðlu og jarðaberjasulta og möndlusmjör

Bestu þakkir Ásta fyrir meiriháttar uppskrift! Ég kem án efa til með að eiga alltaf skammt af þessari snilldar sultu í ísskápnum hjá mér!


Sykurlausar smákökur

Ég skundaði niður í Smáralind í hádegismatnum og rambaði á Super Megastore eða hvað þessi búð heitir nú aftur. Búð sem hefur að geyma nánast allt sem maður þarf ekki á að halda en verður að eiga! Plastílát, eitthvað sem ég virðist aldrei eiga nóg af, matvöru, eldhúsáhöld, dót... og allt á 200 krónur eitthvað slíkt.

Ég stakk nefinu að sjálfsögðu inn í búðina, rölti þar einn hring og rak augun í matvöruhilluna! Þar sá ég nokkra poka sem á stóð, stórum rauðum stöfum, "Sugar-Free". Ég að sjálfsögðu staldraði við, las betur og komst snarlega að því að pokarnir innihéldu smákökur.

Sykurlausar amerískar smákökur

Súkkulaðibita, hafra, hnetu. Allskonar. Eins og sannri efasemdadollu sæmir reif ég einn pakkann úr hillunni og byrjaði að leita að næringargildi gumsins. Jújú, enginn sykur 'skráður' en honum er skúbbað út fyrir efnið Maltitol. Maltitol er í stórum dráttum sykur-staðgengill, sætari en eiginlegur strásykur, inniheldur færri hitaeiningar og fer hægar út í blóðið - er þar af leiðandi hentugri fyrir sykursjúka.

Sykurlausa smákakan..

Nú er ég enginn næringarfræðingur og get lítið tjáð mig um 'hollustu'gildi svona köku. Ég, persónulega, myndi ekki gúlla þessu í mig bara af því þær eru stimplaðar sykurlausar. Hver skammtur eru um það bil 4 - 6 kökur, fer eftir gerðinni og 100 hitaeiningar. Í hverjum skammti eru 5gr af fitu, 15gr kolvetni, 2gr prótein og svo 6gr af þessu Maltitol sætuefni.

Sykurlausar amerískar smákökur - næringargildi

Ég hef svosum séð það verra, ég segi það ekki. Þetta er líklega ágætis "Ég þarf svo mikið kex" bani eða til að bíta í eftir máltíð. Það er líka notuð Canola olía í kökurnar sem er góða gerðin af olíu. En ég er efasemdin uppmáluð, ef ég fæ mér smákökur eða kex þá er það yfirleitt eitthvað sem ég hef bakað sjálf og það virkar bara flott! Allt sem merkt er sykur- og fitulaust fær alltaf hornauga frá mér!

Sykurlausar amerískar smákökur

En jú, þær eru sykurlausar og án efa aðeins betri kostur en smákökur sem eru stútfullar af sykri - ef maður passar sig að éta ekki allan pokann í einu að sjálfsögðu! Cool


Granola stangir sem ekki þarf að baka

Taka 1

Langaði mikið til að útbúa mér granola stöng sem ekki þarf að baka eða hita. Svolítið í takt við hráfæðisfílinginn, fyrir þá sem ekki vilja hita matinn sinn. Tek það fram að ég er ekki þarsmegin við línuna, ég borða líka kjöt og mikið af sykri þegar vel stendur á. Það er hinsvegar mjög gaman að prófa að elda og bragða á grænmetisréttum og hráfæði til að breyta til og borða eitthvað öðruvísi.

Ég útbjó einn skammt af granola stöngum í dag sem ég stakk inn í ísskáp eftir að hráefnunum hafði verið skóflað saman.

Hráefni í granola stöng sem ekki þarf að baka

Leit alltsaman voðalega vel út þegar ég tók skammtinn út úr ísskápnum.

Granola hráefni, nýkomið út úr ísskáp - á eftir að skera

Náði að skera helminginn af gumsinu í nokkra fallega bita. Greinilega verið þeim megin í fatinu sem ég hef náð að þrýsta með 10 tonna þunga á hráefnið!

Granola stangir sem ekki þarf að baka

Hinn helmingurinn sprakk í loft-upp og ákvað að halda sig við pjúra granola formið!

Granola stöng í þátíð

Sem er alls ekki slæmt. Ég tók krumsið, bakaði það inn í ofni og ætla að nota yfir grauta og skyr eins og múslí. Þessi skammtur er æðislegur á bragðið og um leið og ég hef gert uppskriftina þannig að allt gúmmulaðið haldist saman, þá hendi ég henni hingað inn!


Granola prótein stangir

Geri yfirleitt granola stangir til að eiga. Sem viðbit, eftirrétt, nart eða til að mylja yfir grauta og jógúrt. Gerði meiriháttar góðar stangir um daginn, prótein og eggjalausar. Stangirnar áttu svolítið til að molna, hefði líklegst þurft að setja meira hunang eða agave. Vildi því breyta smá til og sjá hvort próteinið og eggjahvíturnar gæfu skemmtilegri áferð á kostnað sykurs og olíu. Nánast sömu hráefni en 'bindiefnin' eru önnur.

Granola prótein stangir - 16 stangir +/-

Granola prótein stangir1 bolli hafrar

1 bolli puffed wheat

1/2 bolli sólblómafæ

1/3 bolli 5 korna blanda

1/3 bolli hörfræ

1/4 bolli graskersfræ

1/2 bolli heilar möndlur eða hnetubland

1/2 bolli skornar ferskar döðlur

4 smátt skornar fíkjur

nokkrar rúsínur

2 skeiðar hreint prótein 1/2 bolli. Má sleppa eða nota t.d. mjólkurduft.

1 msk 100% hnetusmjör, lífrænt. Ég notaði reyndar heimatilbúið. 

3 msk hunang

2 eggjahvítur

1 tappafylli vanilludropar

kanill eftir smekk

Blanda öllu mjög vel saman. Setja á bökunarpappír og í eldfast mót. Þrýsta blöndunni vel ofan í mótið og inn í 375 gráðu heitan ofn í 20 - 25 mínútur, eða þangað til brúnað í kanntana. Bíða eftir því að blandan kólni alveg og skera þá í bita. Mér þykir persónulega best að halda öllum fræjum, hnetum og krumsi heilu í staðinn fyrir að mylja það niður. Gefur skemmtilegri áferð í hvern bita og gerir stöngina mun girnilegri. Ef þið viljið stökkari stöng þá hafa gumsið lengur inn í ofni.

Granola prótein stangir

Frábærar! Finnur ekki fyrir próteininu á nokkurn hátt. Próteinið gerir áferðina karamellukennda og límir hráefnin skemmtilega saman. Stangirnar sjálfar eru ekki stökkar eins og hinar, heldur seigar og skemmtilegar að bíta í. Allt bragð af fræjum, hnetum og ávöxtum skilar sér fullkomlega. Rosalega fínar og vel heppnaðar. Ég er að sjálfsögðu rómaður hnetu- og fræ sjúklingur. Eeelska bragðið!

Granola prótein stangir

Niðurstaða: Jú, það er hægt að bæta próteindufti í granola stangir án þess að það hafi áhrif á bragð hráefnanna og án þess að bæta við meiri sætu í formi hunangs eða agave... ekkert nema jákvætt! Fullar af flóknum kolvetnum, hollum fitum, vítamínum, próteini og gleði!


Síðdegisviðbitið og nýtt dót

Yfirleitt fæ ég mér próteinshake, grænt monster eða skyr/jógúrt í síðdegiskaffi og ávöxt -"síðdegisviðbitið". Ég hlakka alltaf til þessa tíma dags, sérstaklega þegar ég veit að ég fæ að bíta í íískalt brakandi epli eða mjúkt, safaríkt mango. Það eru sumsé uppáhalds síðdegisávextirnir mínir að meðtöldum ýmsum gestaávöxtum sem smokra sér inn á milli af og til. Stundum blanda ég ávöxtunum í shake-inn, stundum blanda ég shake-inn sér og nýt þess að borða ávöxtinn og stundum, þegar gúmmulaðiálfurinn sparkar í rassgatið á mér, læðist ég niður í mötuneyti og ræni mér handfylli af múslí. Hohooo... múslíinu blanda ég í próteinið mitt eða skyrið...

Prótein með trefjamúslí

...sker ávöxtinn niður...

Prótein með trefjamúslí og niðurskorið epli

...og skófla múslíblandinu upp með ávextinum. Það er, ef ávöxturinn leyfir það. Væri töluvert erfiðara að eiga við þetta með t.d. bláberjum - en þið megið reyna.

Prótein með trefjamúslí á eplaskeið!

Þetta þykir mér sérstaklega gleðileg leið til að borða viðbitið mitt og góð tilbreyting. Svo er að sjálfsögðu alltaf gott að skera ávöxtinn í litla bita og hræra saman við próteinið. Létt og gott, heldur manni ansi góðum fram að kvöldmat. Það er líka miklu skemmtilegra að borða t.d. prótein og epli saman en í sitthvoru lagi. Munið þið... ís og nóakropp! Fullkomin blanda.

Annars kom móðir mín kær í óvænta heimsókn í vikunni og gaf mér.. já, gaf mér nýtt dót!

Nýja ofurdótið

Ótrúlega fínt!! Milljón rifjárn og gleðilegheit sem sniðugt er að nota. Get ekki beðið með að nýta þetta í næstu máltíð... næstu máltíðir! Mamma er svo yndislega fín, algerlega best í heimi!


Ljúffengur lax og sætu kartöfluflögur

Eins og ég hef sagt áður, þá tek ég fullan þátt í því að elda góðan mat á stuttum tíma. Hvort sem ég þurfi að galdra allt frá grunni eða kaupa það sem þarf til að gera eitthvað æðislegt. Ég ákvað að vinna mér inn smá tíma í kvöld og kom við í Fiskiprinsinum á leiðinni heim í dag. Ég elska þessa fiskibúð. Æðislegt starfsfólk, skemmtilegt hráefni sem hefur aldrei klikkað. Keypti mér tvennskonar lax. Annar í sweet chilli og hinn þakinn kókosblöndu. Eftirleikurinn auðveldur! Skar niður gulrætur, brokkolí og sætar kartöflur. Ein varð eins og hjarta í laginu - ótrúlega fín!

Sæt hjartalaga kartafla

Henti grænmetinu í eldfast mót, setti inn í ofn í 20 mín. Eftir það tók ég grænmetið út úr ofninum og bætti laxinum ofan á grænmetið og inn í ofn aftur. Ohh hvað þetta lítur vel út... mmhm! Við ætluðum að hafa grillpartý en þar sem gaskúturinn ákvað að gefast upp þá varð ofninn fyrir valinu.

Lax frá Fiskiprinsinum - sweet chilli og kókosblanda

Á meðan laxinn var að hangsa í ofninum ákvað ég að prófa að búa til sætu kartöfluflögur. Ekkert nýtt á nálinni svosum. Skar sæta kartöflu í mjög þunnar sneiðar, lagði sneiðar á disk, spreyjaði pínkulítið með olíu og inn í örbylgju í 2 - 3 mínútur. Flögurnar brennast auðveldlega, best að fylgjast með þeim.

Sætu kartöflu snakk í bígerð

Komu ótrúlega vel út fannst mér. Ég er að fíla þetta í botn! Crunch factorinn alveg að gera sig, sætu kartöflu bragðið skemmtilegt. Kemur líka "snakk" bragð af þessum flögum. Get í raun ekki útskýrt það betur nema hvað það er að virka flott og eins og 'alvöru' snakk. Svo er hægt að krydda með t.d. kanil, sterku nú eða bara smá salti. Þetta er sko samviskulaust snakk mín kæru. Algerlega samviskulaust og gerir allt sem snakk á að gera - nema að fita ykkur! Cool

Sætu kartöflu snakk

Loks var kvöldmáltíðsbiðin ógurlega á enda og fiskurinn bjútifúl nýkominn út úr ofninum.

Lax frá Fiskiprinsinum - sweet chilli og kókosblanda

Smakkaðist vel, tók innan við 40 mínútur, hollt, gott og hamingjusamur magi!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband