Heilsusamlegt "nammi"

Ég var að spá í að taka mig til og prófa að búa mér til nokkrar uppskriftir af "trufflum" eða nammikúlum í hollari kanntinum. Einfaldlega af því að ég á tonn af fræjum, hnetum og gumsi og það er einfalt og skemmtilegt að útbúa svona nammi. Ekkert fár. Yfirleitt fer allt hráefni í blender, það blandað til bana og húðað (eða ekki) með einhverju sniðugu. Svo er líka svo gaman að borða svona bitastórt nammi!

Hafra- og ávaxtakúlurHafra- og ávaxtakúlur

1/2 bolli hafrar

1/3 bolli graskersfræ

1/3 bolli hnetur. Ég notaði möndlur. Átti ekkert annað.

1 msk rúsínur

1/3 bolli þurrkaðir ávextir. Ég notaði ferskjur og kirsuber.

1 msk mulin hörfræ

2 msk döðlu- og jarðaberjasulta. Eða hvaða sulta önnur sem þú átt og kýst frekar.

Mylja hafra þangað til fínir. Ég muldi mína í matvinnsluvél. Bæta þá við hnetum og graskersfræjum og mylja aftur þangað til nokkuð fínt, mega vera stórir bitar hér og þar. Bæta þá við rúsínum, þurrkuðum ávöxtum og hörfræjum. Blanda aftur en í þetta skipti má blandan vera grófari - þangað til allir stórir bitar af þurrkuðum ávöxtum eru svo til horfnir. Stærstu mættu vera á stærð við grjón. Þá er ekkert annað eftir en að bæta við sultunni. Blandan er tilbúin þegar hún fer að festast við veggi matvinnsluvélarinnar. Þá er deigið, ef deig má kalla, mótað í litlar kúlur og stungið inn í ísskáp.

Hafra- og ávaxtakúlur

Skemmtilegt á bragðið. Sætt og súrt á sama tíma með hnetukeim og skondnu kikki frá graskersfræjunum. Held ég myndi prófa t.d. sólblómafræ næst og jafnvel einhverja sniðuga hnetublöndu.

Hafra- og ávaxtakúlur

Áferðin er flott. Deigkenndar, ef það er til, þéttar. Eins og litlar karamellur. Mjúkar, með fræ- og hnetubitum inn á milli. Alls ekki þurrar. Það væri jafnvel hægt að móta botn úr þessu deigi nú eða "granola" stykki. Ekki hafa áhyggjur þó þær líti út eins litlar kjötbollur - þær leyna á sér.

Hafra- og ávaxtakúlur

Ekkert sem er ekki 'æskilegt' við þessar elskur. Sykurlausar, fullar af flóknum kolvetnum, trefjum, hollum fitum og próteinum. Fullkomið snakk milli mála, í morgunmat, með kaffinu nú eða bara til að bíta í þegar snarl-andinn kallar!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Kúlurnar eru ÆÐÐÐÐI!!!

Fríða (IP-tala skráð) 5.8.2009 kl. 10:19

2 Smámynd: Elín Helga Egilsdóttir

Já, þær eru nefnilega alger snilld. Ekkert smá kát með þær.

Fríða er tilraunasmakkarinn minn í vinnunni! Sérlega fínn smakkari!

Elín Helga Egilsdóttir, 5.8.2009 kl. 10:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband