16.9.2009 | 10:09
Litli ljóti grauturinn
Mér tókst, í gær, að búa til hræðilegasta lit á hafragraut fyrr og síðar! Mér líður svolítið eins og brjáluðum vísindamanni að búa til sinn fyrsta Franken-graut! Hvernig varð þessi ljótgrautur að veruleika?
Tilraunin fólst í örbylgjuhituðum jarðaberjum, hreinu próteini og ósoðnum höfrum. Setti nokkur ber í skál og inn í örbyglju þangað til þau urðu að hálfgerðu gumsi og byrjuð að bubbla. Út í berin hrærði ég svo próteininu. Fagurbleikt og krúttaralegt. Gomma af ósoðnum höfrum fékk svo að fylgja með ásamt köldu vatni eða þangað til grauturinn var orðinn að mínu skapi. Inn í ísskáp yfir nótt (hafrarnir drekka í sig vökvann). Í morgun blandaði ég svo kanil og vanilludropum út í herlegheitin.. og viti menn! Franken grauturinn varð til! Ég er ekki frá því að einni eldingu hafi lostið niður þegar kanillinn fór út í grautinn og smá "MUAHAHAAAA..." komið frá mér af einhverjum dularfullum ástæðum!
Ljótari graut hef ég ekki gónt á í langan tíma. Hræðilegri lit er ekki hægt að hugsa sér á mat af þessum toga. Húðlitað, semi ljós-fjólubleikt, glansandi... ((hrollur)). En gott var gumsið! Ójá! Karamellukenndur eftir ísskápsveru, rétt hitaður í vinnu örra til þykkingar... mmm! Enda kláraðist hann á met tíma.
Fyrir utan að vera besti morgunmatur í heimi, þá má lærdóm draga af hafragrautsmalli gærdagsins. Ekki er allt gull sem glóir mín kæru! Ljótgrauturinn var góðgrautur engu að síður.
Úff... það er svakalegt hafragrauts zen í gangi hérna! Alveg svakalegt!
Meginflokkur: Matur og drykkur | Aukaflokkar: Hafragrautur, Prótein, Ragga Nagli | Breytt 24.9.2010 kl. 10:21 | Facebook
Athugasemdir
Þetta hefur mér ekki dottið í hug...að gera grautinn kvöldinu áður og demba í ísskápinn, snildarráð :o) Það er satt hjá þer ekki er hann fallegur að sjá heheh
Jóna Lind (IP-tala skráð) 16.9.2009 kl. 15:23
Það er svaka gott og skemmtileg tilbreyting. Ég geri stundum svona eða bý til hafraköku.
Líka gott að bleyta upp í höfrum og múslí (með mjólk, vatni, möndlumjólk) og bæta út í það jógúrti, skyri ofr. um morguninn, eftir ísskápsveru. Þarf ekki endilega að setja jógúrtið út í strax.
Ohh svo margir skemmtilegir möguleikar
Elín Helga Egilsdóttir, 16.9.2009 kl. 15:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.