7.9.2009 | 18:55
Pestó rækjur með tómötum og basil
Jú, rækjurnar eru enn á topplista hjá mér. Held það sé nú bara af því að ég veit af þeim í frystinum og það er einfalt/fljótlegt að elda þær! Skellti í einn skammt Pesto-risarækjur með tómötum og basil. Svakalega gott, sérstaklega með ristaðri heilhveiti- eða speltbollu!
Blandaði 1 msk rauðu pestó og einu niðurrifnu hvítlauksrifi saman við 150 gr. risarækjur. Steikti svo smá niðurskorinn lauk og 2 niðurskorna ferska tómata á pönnu með dass af þurrkaðri steinselju og basiliku. Tómatarnir soðna niður og búa til hálfgerða sósu/súpu. Út á pönnuna hellti ég svo rækjugumsinu, þegar tómatarnir voru farnir að losna úr skinninu, og léttsteikti, eða þangað til rækjurnar voru orðnar bleikar. Skreytti með þurrkaðri steinselju og ... ójá... raspaði smá parmesan yfir herlegheitin. Punkturinn yfir I-ið!
Þetta er æðislegur réttur. Einfaldur, hollur, bragðgóður en smakkast eins og flókið ofurgums. Þarf svosum ekkert að krydda frekar því pestóið er fullt af kryddi og hvítlaukur, tómatar og basil klikka aldrei. Svo verður til smá "súpa/sósa" í botninum á skálinni, út af tómötunum, sem er æðislegt að dýfa brauði í! Bara frábært - sérstaklega yfir síðasta þættinum af True Blood. Ég er alveg að fíla þessa þætti í botn!
Meginflokkur: Matur og drykkur | Aukaflokkar: Fiskur, Kvöldmatur | Breytt 24.9.2010 kl. 10:10 | Facebook
Athugasemdir
Hæ, hvernig rækjur notar þú?
Ég er mikil rækju aðdá-önd en eins mikið og ég get elskað GÓÐAR rækjur get ég HATAÐ vondar rækjur :) Er því stundum ansi smeyk við frosnu rækjupokana í stórmörkuðum...
Helena (IP-tala skráð) 8.9.2009 kl. 10:46
Úhhh sammála þér þar! Vondar rækjur eru svo hræææðilega vondar! ((hrollur)) Sérstaklega þegar maður bítur í þessa einu, sem leynist í rækjusalatinu, sem hlær illkvittnislega þegar bitið er í hana. (já.. ég á það til að ímynda mér það )
Ég kaupi/panta litlu rækjurnar mínar hjá Hagfisk. Hefur ekki klikkað hingað til. Þessar stóru fann ég hjá Fiskiprinsinum, á móti Nings, í Kópavoginum. Svaka flottar, skurnflettar og æðahreinsaðar.
Elín Helga Egilsdóttir, 8.9.2009 kl. 10:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.