14.6.2009 | 11:15
Tvíþætt hafragrautsveisla
Af því að það er nú sunnudagur þá ákvað ég að ganga aðeins yfir hafragrautsstrikið og leika mér svolítið. Þar sem ég átti afgangs hráskinku og melónu síðan í gær, nýtti ég mér tækifærið. Ég er nokkuð viss um að margir taki andköf og hugsi með sér hvað verið sé að bruðla með úrvals hráefni í eina grautarskál - en þetta var mjög gott og trúið mér, þetta er ekki daglegt brauð á mínu heimili! Þó það væri að sjálfsögðu ekkert slor!
Þar sem ég var búin að ákveða hráefni í graut fyrir hinn helminginn þá vildi ég gera sætari graut handa sjálfri mér. Endaði að sjálfsögðu á því að við borðuðum grautana í mikilli sameiningu.
En getið þið nú bara hvað ungfrúin frékk sér!! Hafragrauts Splitt! Ójá!
Hafragrautur ríka mannsins
1/3 bolli grófir hafrar
1/3 bolli kotasæla
2/3 bollar vatn
Nokkrir bitar cantaloupe melóna
2 niðurskornar ferskar döðlur
Nokkrir möndlubitar
Smá bútur af hráskinku. Kannski 1 msk
Hafragrautsskraut:
Einni sneið niðurskornum Camembert raðað fagmannlega yfir heitan grautinn svo hann nái að bráðna. Nokkrar þunnar sneiðar af Cantaloupe melónunni lagðar yfir ost og graut og restin af hráskinkusneiðinni ofan á melónuna. Þarnæst er niðurskorinni ferskri döðlu komið fyrir, bæði á hráskinkunni og yfir grautinn. Loks er meistaraverkið toppað með hunangsdreitli.
Rosalega skemmtilegur þessi. Hráskinkubitinn sem soðinn var með gefur mjög gott bragð í grautinn sem vinnur vel með sætunni í döðlunum og melónunni. Kotasælan gerir áferðina mjúka og rjómakennda og einstaka sinnum bítur maður í möndlu. Algerlega geggjað. Það er líka æðislegt að fá bragðið af ostinum með í spilið. Kemur flott út!
Hafragrauts Splitt fyrir undirritaða
1/3 bolli grófir hafrar
1 skeið hreint prótein
1 tappafylli vanilludropar
1 msk hörfræ
1/3 bolli Undanrenna
1/3 bolli vatn
Hafragrautsskraut:
1 banani, skorin langsum og lagður á disk. Grautnum er þarnæst hellt á milli banana-helminganna og yfir þetta er stráð 1 tsk dökku súkkulaði, 1 msk hnetusmjöri og 1 tsk sykurlausri sult. Ég notaði hnetusmjör sem ég bjó til í gær. Þarnæst er jarðaberjum og hindberjum dreift yfir grautinn. Dropa af skyri er vandlega komið fyrir í miðju grautsins og herlegheitin toppuð með uppáhalds múslíinu.
Hversu ógeðslega skemmtilegt er að borða þetta? Tala nú ekki um gleðina sem fylgir því að fá bráðið súkkulaði í morgunmat. Mmhmm!
Þó svo sætir grautar séu að sjálfsögðu góðir, þá er alveg jafn frábært að fá sér grauta sem eru hinum megin við strikið. Hafrarnir bjóða svo vel upp á það!
Góðir grautar á góðum degi!
Meginflokkur: Matur og drykkur | Aukaflokkar: Hafragrautur, Prótein | Breytt 23.9.2010 kl. 21:20 | Facebook
Athugasemdir
Djöööö....... núna bíð ég eftir að þú komir á nesið og bjóðir upp á morgunmat - ója!
Dossa (IP-tala skráð) 15.6.2009 kl. 09:26
Lítið mál að koma því við :)
Elín Helga Egilsdóttir, 15.6.2009 kl. 09:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.