12.6.2009 | 06:07
Sumarlegt kjúklingasalat í fréttablaðinu
Haldið þið að þessi uppskrift hafi ekki barasta verið birt í fréttablaðinu í dag! Blaðsíðu 19. Já, það held ég nú!
Kjúklingasalat er annars alltaf gott. Það er svo einfalt að búa það til, fljótlegt og þú sem meistarakokkur ræður algerlega hollustustigi réttarins. Sem er að sjálfsögðu frábærlega fínt! Það er tilvalið að nota afgangs kjúkling og skella í ferskt salat á yndislegu sumarkvöldi og jafnvel vera djarfur og súpa á smá hvítvíni með! Líka voðalega gott að grilla kjúklinginn fyrst, rífa niður og kæla, kemur svo assgoti gott bragð af honum.
Ég var ekki alveg klár á því hvernig ég myndi mixa salatið eða hvað ég ætlaði að nota í það. Ég vissi bara að mig langaði í ávexti, létta dressingu og kjúkling. Þetta er því gúmmulaðið sem ég átti á lager.
Afgangs kjúlli, Cantaloupe melóna, mango, jarðaber, bláber, tómatar og sellerí. Úr þessum hráefnum varð þetta salat til. Það er nú svolítið grinó ekki satt?
Sumarlegt og ferskt kjúklingasalat - fyrir 2 sem aðalréttur
Salat:
2 skinnlausar bringur af kjúkling. Um það bil 230 gr.
1 bolli skorið mango, vel þroskað, en samt ekki ofþroskað.
1 bolli skorin hunangsmelóna, Cantaloupe.
1 stilkur smátt skorið sellerí
Nokkrir kirsuberjatómatar skornir til helminga
Muldar kasjúhnetur, mætti rista þær - kæmi svakalega vel út
Dressing:
1/3 bolli jógúrt/létt jógúrt/létt AB-mjólk
Safi úr einu lime, minna eða meira eftir smekk
1,5 tsk hunang. Ég nota acacia hunang.
1 tsk þurrkuð cilantro lauf
Dijon sinnep eftir smekk
Þessi dressing var meiriháttar fín! Mjög fersk og lyfti réttinum skemmtlega upp. Mikið svakalega er ég ánægð með hana!
Salatið var æði!! Hitti beint í mark hjá mér og skemmtileg tilbreyting frá majones, eggjagumsinu sem maður borðar yfirleitt. Þetta er líka svo yndislega einfalt. Ávextirnir komu ofboðslega vel út saman á móti kjúllanum. Sæt melóna á móti súru/sætu mangoi. Mangoið var fullkomlega rétt þroskað! Virkilega skemmtilegt að bíta í crunchy sellerí og hnetur inn á milli, gáfu gott bragð og meiriháttar áferð í réttinn. Dressingin var svo til að toppa hvern bita. Ég segi ykkur satt, þetta er næstum eins og að borða eftirrétt. Það er hreinlega spurning um að bæta jarða- og bláberjunum út í næst!?! Samviskulaust, gott fyrir kroppinn, létt í maga en samt mettandi.
Ég fékk mér bæði salat á diskinn og salat í sjóðandi heitt heilhveiti pítabrauð. Þetta var geggjað!
Hinn helmingurinn fékk sér salat í hálfgerða brauðbollu.
Átvaglið var svo gripið glóðvolgt inn í stofu að éta meira salat!
Ohh men þetta var góð máltíð. Ætla að gera mikið af svona í sumar - vefja inn í crepe, nota á pönnukökur, í baguette, með quinoa, ofan á hrökkbrauð....
Meginflokkur: Matur og drykkur | Aukaflokkar: Hádegismatur, Kjúklingur/Kalkúnn, Pressan | Breytt 23.9.2010 kl. 21:17 | Facebook
Athugasemdir
omm nomm nomm - lang´í :)
dossa (IP-tala skráð) 12.6.2009 kl. 09:31
Ég þarf að leyfá þér að smakka, þetta mikið mikið gott :)
Elín Helga Egilsdóttir, 12.6.2009 kl. 10:08
Spurning hvort að næsti lunch verði ekki bara þú að elda fyrir mig ;) ´Gúmmilaðidrotning ;)
Ólína (IP-tala skráð) 12.6.2009 kl. 13:46
Ótrúlega girnilegt! :)
Erna (IP-tala skráð) 12.6.2009 kl. 15:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.