Heilhveiti pönnsur og grænt monster

Heilhveiti pönnsur, grænn goblin og ávextir í hádegismatNæstum eins og hafra- og heilhveiti pönnsur, næstum eins og crepes... en bara næstum!

Pönnsur í hvaða formi sem er, eru gleðilegar. Þessar voru rosalega bragðgóðar og skemmtilegar. Munurinn á þessum og crepe pönnsunum sem ég gerði um daginn er að þessar eru ekki sætaðar, engin mjólk - þar af leiðandi þykkara deig, ekkert hvítt hveiti og bara eitt egg. Mér tókst líka að setja ekki kanil í degið. Þrefallt húrra fyrir mér myndi ég segja!

Munurinn á þessum pönnsum og hafrapönnsunum er hinsvegar aðeins minni. Hafrar og heilhveiti í staðinn fyrir heilhveitið og hveitikímið í þessum. Þið sem borðið ekki hafra getið því fengið ykkur svona snilld í staðinn.

Hádegismaturinn í dag samanstóð því af heilhveiti pönnsum, ávöxtum og einu stykki grænu monsteri. Monsterið var að þessu sinni hrært saman úr 1/2 peru, frosnum banana, spínati, 1/2 bolla mjólk, 1/2 bolla vatni, hörfræjum og klökum. Mmhmmm! Þar að auki var ísköld vatnsmelóna í skál með þessu og jarðaber með pönnsunum. Mjög jákvæður hádegismatur skal ég ykkur segja. Fullt af ávöxtum, grænmeti, flóknum kolvetnum og hollri fitu. Pönnsurnar eru líka á góða listanum!

Ég hef einnig, farsællega, komið grænu monsteri ofan í hinn helminginn við góða undirtekt tilraunadýrsins = hip hip húrra!

Heilhveiti pönnsur

Heilhveiti og hveitikíms pönnsur3/4 bolli hveiti

1/4 bolli hveitikím

1 egg

1 bolli létt AB-mjólk

1 tsk lyftiduft

1/4 tsk salt

2 msk olía (t.d. canola)

 

Allt hrært saman, verður nokkuð þykkt degið, og steikt á pönnu. Ég nota ekki olíu á pönnuna. Geri eins og með hafra- og heilhveitipönnsurnar, set deig á pönnuna og krem pönnsuna niður eftir að ég hef snúið henni við. Þá verður hún líka þykk og fín. Ég prófaði að dreifa úr nokkrum áður en ég sneri þeim við, urðu öllu þynnri en áferðin alveg jafn góð! Þeir sem vilja þunnar pönnsur geta því með góðu móti fengið sér þunnildi.

Heilhveiti pönnsur - nokkrar þunnar

Fékk mér eina sem ég fyllti af jarðaberjum, smá sultu og dreitil af létt AB-mjólk. Gómsætt!

Heilhveiti pönnukaka með jarðaberjum og létt AB-mjólk

Hádegismatnum lauk svo með skyrskál, fullri af ferskum jarðaberjum, quinoa flögum og smá hnetu og rúslumixi.

Skyr með jarðaberjum, quinoa flögum og hnetumixi

Annað í fréttum... jújú, ég bjó til kanilsnúða í gær og nei, þeir komust ekki á snobblistann - en næstum því þó. Ætla að reyna við þá í annað sinn og ef það heppnast vel, þá birtast þeir án efa á þessari síðu á næstunni. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband