Færsluflokkur: Matur og drykkur

Daim hnetukaramella

Síðan í fyrra. Jú... mikið sem gleymdist í ógleymanlegum skilningi.

Ég held ég þurfi ekkert að segja neitt um þetta. Myndin gott fólk... myndi segir allt sem segja þarf.

Óguð!

Daim hnetukaramella 

Daim hnetukaramella1 bolli sykur

1/2 bolli ljóst sýróp

1/4 tsk salt

1/4 bolli vatn

2 msk smjör

1 bolli hnetur

1 tsk matarsódi

 

Aðferð:

1. Setja bökunarpappír í bökunarform/glerfat, ferhyrnt/kringlótt/hjartalaga, og leggja til hliðar.

2. Í stórum potti, yfir meðalhita, sjóða sykur, sýróp, salt og vatn þangað til sykurinn er uppleystur.

3. Hræra hnetunum út í og halda áfram að sjóða þangað til hiti á hitamæli nær 300 °F eða 150°C. Ég held ég hafi verið yfir pottinum í rúmar 40 mín. Þori samt ekki að segja alveg til um það. Líka hægt að athuga hvort gleðin sé til með því að hella smá karamelludropa í mjög kalt vatn. Ef hann skilur sig strax í harða þræði þá er þetta tilbúið.

4. Taka af hita, hræra smjöri/smjörlíki strax samanvið svo og matarsóda, og hella í ílátið með bökunarpappírnum. Hér er svo hægt að strá súkkulaðibitum yfir og dreifa úr þeim þegar þeir bráðna. Þarf ekki.

Pff.. þarf ekki.

Það gerir krumsið samt einstaklega ofurgott. Þið vitið það. Ekki reyna að neita því.

Kæla svo aðeins við stofuhita og koma fallega fyrir inn í ísskáp. Taka svo út úr ísskáp (neiii Elín, í alvöru?) og brjóta í bita.

Þið vitið hvað þið gerið næst. Mmhmmm!


Jólafárið

Jóla f. árið = Jóla fyrir árið?

Alveg að gera útavið þetta, greinilega, fyrrum heilsuátaksæfingaráeinariblogg!

Næstum því!

Þetta er samt svo gaman! Baka! Hvað ég eeelska að baka.

Eitthvað við það að geta blandað saman smjöri, sykri, hveiti og hamingju og úr verður kaka! Pönnsa! Muffins! Terta! Brauð.... svo ég tali nú ekki um ilminn sem leggur um húsið við gjörninginn.

Ohhh! Lykt af smjörblönduðum sykri. Gerlykt við brauðgerð... heimilislegt!

Jæja. Til að snúdda þessu aðeins við. Fá smá jafnvægi. Þó svo pistlar síðusta daga vinni upp sykur- og smjörstig þessa bloggs svo ríflega að allar "hollustufærslur" samanborið við kaloríubomburnar enda á núllpunkti - og ekki er allt búið enn!

EN

Smábrennsla í morgun sökum einskærrar leti, en smábrennsla engu að síður. Upp í vinnu í grautarmall. Hræringur af næstbestu-sort, næstbesu vegna ó-skyrsins.

skyr og grautur

Hádegisfundur!

Dóninn hið innra lét sér ekki segjast og mætti galvaskur á samkomuna með matinn sinn. Heppilegt að vinnufólkið mitt er sérlega almennilegt og vel af guði gert!

Vantar reynar Rip, Rap og Andrés Önd inn á þessa mynd. Þeir voru gleyptir í heilu, á leiðinni á fundinn blessaðan. Soðnar kjötfarsbollur áttu ekki hug minn allan þennan daginn en soðna hvítkálið sem fylgdi er önnur saga.

Er með hvítkálsblæti á hágu stigi þessa dagana! Ugh!

Græna hádegisfjallið

Eftirmiðdagurinn kemur svo til með að samanstanda af einum Karvelio. Skemmtileg æfing í dag.

Karvelio gærdagsins var þó alveg jafn erfiður og fyrir viku síðan. Uss. Eins og ég væri nýkomin úr sturtu eftir atið. Bara gaman að því. Var meira að segja komin með blóðbragð í hálsinn.

Gott eða slæmt?

Hið minnsta góður áreynslumælikvarði. Bandit

Alveg að fara koma tími á ískalda ofureplið sem bíður mín inn í ísskáp. Aaalveg að fara að koma tími.


Snjóboltar - kókosboltar

Meira 2009 konfekt. Eitthvað sem ég hef verið að búa til frá því ég var púpa. Ég á það til að detta í kókosgírinn og kókos getur verið svo ljúffengislega góður. Þessir boltar eru æði. Karamelló, stökkir utaná og mjúkir að innan!

Það heyrist "kram knús krús" þegar þú bítur í þá = mjöög hár átvagls- og áferðaperrastuðull.

Ef þú borðar Bounty... þá borðar þú þessar krúttusprengjur svo sannarlega líka.

Snjóboltar - kókosboltarSnjóboltar

  • 1 dl kókos
  • 1 dl sykur
  • 1 dl hveiti
  • 1 eggjahvíta
  • Súkkulaði að eigin vali. Til að húða (þarf ekki)

Eiiinfaalt

Aðferð:

1. Setja allt saman í skál og hræra vel. Deigið verður mjög klístrað.

2. Móta litlar kúlur úr deiginu. Stærð efti skapi og nennu - muna þá að aðlaga bökunartímann. Rúmlega tíkallastærð = fullkomlega krispí og mjúkir og karamella og hamingja og regnbogar og hvolpar!!!

Alls ekki hlutdræg... þið ráðið auðvitað stærðinni mín kæru.

Tíkallastærð!! En þú veist... þið ráðið!

*regnbogar*

Ráðið alveg sjálf.

Raða kúlum á bökunarpappír.

 Snjóboltar - kókosboltar

3. Setja inn í 175° heitan ofn í 4 - 6 mínútur eða þangað til botninn er rétt gylltur. Taka út úr ofni og kæla.

Snjóboltar - kókosboltar

4. Bræða súkkulaði og velta boltunum upp úr því.

Snjóboltar - kókosboltar

5. Borða, njóta, brosa og að sjálfsögðu... regnbogar.


Æfingin skapar meistarann

Mikið satt, ekki logið.

Þannig er það nú bara. Æfing - meistari, æfing - meistari... nema þú sért með yfirnáttúruelga hæfilega til að aðlaga þig að hverskonar aðstæðum og tæklir vandamál með litlu tánni einnisaman.

Sem væri stórmerkilegt að sjá!

litlata

Eftir komment frá henni Jóhönnu Hlín og tvö ímeil, sem bárust mér um helgina, frá einstaklingum sem vildu vita hvernig mér þætti best að "æfa" mig í hinum ýmsustu... æfingum?

Að auki við æfingar vikunnar, stundaði ég (stunda) það iðulega, þegar ég var fokvond yfir því að geta ekki gert hnébeygju á einari, að taka eina eða tvær tilraunir þegar ég fór t.d. á klósettið í vinnunni!

Jú ég gerði það víst!!

Klósett - þvo hendur - hnébeygjur.

Hélt mér dauðahaldi í hurðahúninn og hlammaðist niður trekk í trekk. Hurðahúnninn gekk í bylgjum og fólk hélt að klósettið væri andsetið. Sérstaklega þegar undirrituð gekk út fnasandi hástöfum með svitaperlur á enninu!

  • Grunlaust vinnufólk: "Guð minn góður Elín... hvað gekk á? Var þetta erfið fæðing?" 
  • Átvaglið: "NEI... ég var ekki að gera númer 18,2 og NEI, engar baunir í gær"

Mitt ráð til þín!

Notaðu lausan tíma yfir daginn og æfðu þig í að gera t.d. armbeygjur. Þó það séu ekki nema bara 5 stykki, hér og þar. Inn í stofu, eldhúsi... hræra í grautinn og á meðan hann mallar, reyna við eitt stykki Pistol (einars hnébeygja) á meðan.

Eftir æfingu, prófa að hífa þig upp í eitt skipti. Gera þetta í hvert skipti sem þú ferð á æfingu, jafnvel þegar þú ert í göngutúr og séð girnilegan upphífaingarstað - prófa.

Ég geri þetta reglulega, þegar ég get, þegar ég man. Stundum er það í formi armbeygja með allskonar twisti - staggered, fætur upp, superman, armbeygja á einari. Upphífingar áttu sér reglulega stað í Gúmmulaðihöllinni, 3 - 4 mánuði kannski, móður til ævarandi hamingju og gleði.

  • "Elín Helga, þú færð svo feitast að mála þennan póst þegar þar að kemur!"

Pistol er búið að vera mallandi project í tæpa tvo mánuði og loksins er ég búin að ná tökum á því! Kannski ekki fallegasta form af pistol, en það kemur með áframhaldandi... klósettferðum!

FootinMouth

Ahhh - hvað er næst? Hmm... armbeygja á einari held ég.

  • Upphífingar eru áframhaldandi verkefni. Stefni á að ná amk. 5 dauðum í röð.
  • Pistol, 10 í röð á hvorum fæti fyrir sig, að auki við gullfalegt og óaðfinnanlegt form.

Jú, vitið þið, ég held það barasta. Næst á dagskrá -> armbeygja á einari!

Byrja á hnjánum og vinn mig upp. Kannski sá draumur verði að veruleika vor.


Oreo trufflur

Síðan á síðasta ári. Eitt af því vinsælasta sem fylgdi með jólapakkanum!!

Svo einfalt. Skammarlega einfalt. Lítur vel út, bragðast eins og draumur í dós og fullkomið nart!

Oreo trufflurOreo trufflur

450 gr. Oreo kex

225 gr. rjómaostur

Hvítt/dökkt súkkulaði til bræðslu

Krums ef vill. Hnetumulningur til að velta uppúr (ég sleppti)

 

 

Aðferð:

1. Setja Oreo kex í matvinnsluvél og hræra þangað til mjög fínt. Engir stórir kögglar. Ef ekki er til vél þá beint í poka og fá útrás fyrir reiðinni/gleðinni. Þið vitið hvað ég er að tala um...

2. Bæta rjómaosti út í Oreo mulninginn. Hafa rjómaostinn kaldann og hræra vel saman. Hér væri svo hægt að bæta út í bragðefnum - vanilludropum, kaffi, líkjör.. ef vill!

3. Móta litlar kúlur, leggja á bökunarplötu og setja inn í ísskáp í 1 - 2 tíma, eða þangað til vel stífar.

Oreo trufflur

4. Bræða súkkulaði, ég bræddi mitt barasta í örbylgju, og húða kúlurnar.

Oreo trufflur

5. Voila! Syndsamlega auðvelt og gott nom! Bjóst ekki við hversu mikið nom... nom nom!

Nohhm!


Jóla, jóla jóla... og hnébeygja á einari

Það sem titillinn segir.

Jólakaffihús.

Jólakaffihús

Þykjustunni jóla "hollustukaka" því hún inniheldur hafra. En ó... smjör- og sykurbragðið fannst langar leiðir.

*gleði*

Jólakaffihús

Jólaþorp.

Jólaþorp

Jólaljós.

jólaljós

Jólahundur.

jólahundur

Jólahnébeygja á einari!! LOKSINS

Gerði sex jólahnébeygjur, á einari, á báðum... óstudd og elegant, í morgun!

 

 

Jóla jóla jóla jóla! Hihiiiii..

*hopp*

nei.. ég meina

*jólahnébeygja á jólaeinari*


Pumpkin pie ostakaka

Graskers-ostakaka hljómar eitthvað svo ógirnilega illa! Finnst þér ekki?

Pumpkin-pie ostakaka með stökkum engiferköku- og pecanhnetubotni! Já takk. Já takk fyrir kærlega.

Pumpkin-ostakaka

Pumpkin pie ostakaka með engiferköku- og pekanhnetubotni

Botn

  • 150 gr. engiferkökur, jafnvel piparkökurþ. Ég notaði gingersnaps.
  • 1 bolli muldar pecanhnetur
  • 4 msk púðursykur
  • 4 msk sykur
  • 115 gr. bráðið smjör

Fylling

Skref 1

  • 3/4 bolli sykur
  • 3/4 bolli maukað grasker (ég eldaði mitt í ofni og maukaði sjálf - butternut squash)
  • 3 eggjarauður
  • 1,5 tsk kanill
  • 1/2 tsk engifer
  • 1/2 tsk múskat
  • 1/4 tsk salt 
Skref 2
  • 680 gr. rjómaostur. (Ég notaði 250 gr. mascarpone og 430 gr. venjulegan rjómaost) 
  • 1 heilt egg
  • 1 eggjarauða
  • 1/4 bolli + 2 msk sykur
  • 2 msk rjómi
  • 1 msk sterkja (ég notaði maizena)
  • 1/2 tsk vanilludropar
  • 1/2 tsk sítrónudropar

Aðferð

Botn

Mylja kex í matvinnsluvél. Bæta þá við sykri og hnetum, púlsa í nokkur skipti. Loks smjeri og hræra þangað til blandan er nokkuð þétt.

Hella í bökunarform, best að nota smelluform, og þrýsta deiginu niður og rétt upp með könntum. Geyma inn í ísskáp á meðan fyllingin er útbúin.

Pumpkin-ostakaka

Fylling

ATH:

  1. Hafa egg, ost og rjóma við stofuhita!
  2. Ekki hræra á hárri stillingu. Hræra á lágri stillingu, svo ekki komist loft í deigið, og hræra allt gumsið vel saman.

Skref 1 

Hræra allt vel saman, sykur/eggjarauður/grasker/krydd í miðlungs stórri skál og setja til hliðar.

Skref 2

Setja rjómaost í skál og hræra duglega, eða þangð til hann er orðinn mjúkur og léttur. Bæta þá sykrinum við - hræra þangað til vel blandað saman. Næst bæta egginu við og hræra þangað til það hefur blandast vel saman við ostamallið, þá eggjarauðunni og loks rjómanum. Loks setja út í herlegheitin sterkjuna og bragðdropana og hræra þangað til silkimjúkt og fínt. Graskersblöndunni hrært samanvið í restina.

Nú er fyllingunni hellt yfir botninn og komið fallega fyrir inn í 175 gráðu heitum ofni, í 50 - 60 mínútur, eða þangað til kanntarnir eru orðinir nokkuð stífir en mijðan mjúk. Hálf hristist þegar þú slærð í bökunarformið.

Lærðu á ofninn þinn fyrst.

Annars verður kakan eins og mín á litinn - heldur dökk blessunin.

Getur svosum alltaf falið hana í karamellu!

Geyma í forminu inn í ísskáp yfir nótt og reyna að drepast ekki úr eftiráts-spenningi!

Pumpkin-ostakaka

Hún er skemmtilega þétt og kryddin vinna vel saman á móti ostinum. Graskerið gerir vart við sig, hefði jafnvel mátt vera aðeins meira grasker fyrir minn smekk. Ef þið hafið smakkað pumpkin-piiieee, þá er þetta svo gott sem nákvæmlega það sama nema osturinn spilar á móti sætunni og botninn er skemmtilega stökkur, eins og hörð karamella.

Ughhh hvað hún var góð!

Gleeeðihamingja með rjóma og karamellusósu!

Pumpkin-ostakaka með karamellusósu


Tvær... vikur... til jóla!

Jóhóla!

Hlakka svo til.

24. desember gott fólk! Sjáið þið þetta ekki fyrir ykkur???

Ómanneskjulegt jólaát, konfekt, smákökur, jólakökur, jólaönd.. jólaönd... jólafylling, jólaönd, risalamande, rjómi... ohhh hvað ég eeelska rjóma!

Egils malt og appelsín! AppEL(s)ÍN! HAHH!

Mikið að gera í gær. Búið að vera mikið að gera undanfarið. Tók samt myndir af almennu áti, dugleg stelpan, en rankaði við mér í morgun með tölvuskessuna í fanginu. Skulum því bæta upp fyrir myndalausan gærdaginn.

* Játningar fyrir 09.12.2010 hefjast10.12.2010 - 08:27 *

Morgunmatur. Skjör, kanilgrautur, múslí.

Vinnan er æði.

Hræringur

Hádegismatur. Grænfjallið, kotasæla og smábiti af grísahnakka.

Er ekki alveg nógu ástfangin af Hlöðveri grís... amk ekki til átu.

grænfjall

Æfing átti sér stað seinnipartinn. Graðgaði í mig grófri brauðsneið, eggjahvítum og grænmetisfjalli fyrir þann gjörning. Eftir æfingu komst ég að því að Hleðslunni hafði ég gleymt í heimahúsi svo ég reddað'essu með GRS-5.

GRS-5

Kvöldmatur var í formi kjúlla á Austurlanda Hraðlestinni. Ohhh mama!

* Játningum fyrir 09.12.2010 lokið 10.12.2010 - 08:30 *

Tók svo einn af tveimur þrekhringjum a-la Karvelio í morgun. Gúllaði því einn einfaldan um 5 leitið, æfing klukkan 6 og áfram með smjörið.

Meistarinn var á staðnum blessaður. Ég heppin... eða óheppin? Tounge

Ég heyrði spangólað af og til "Elín... settu fótlegginn upp í þessari æfingu, það er erfiðara", "Hmm, 2 mín planki er hálf pervisið...".

Hendur, miðja og bak eru amk "sátt". Veit ekki hvort minn innri vorkennari sé það hinsvegar.

Mjög, mjöööög kát með þessar æfingar samt sem áður og viti menn - bæting síðan í síðustu viku! Svo ég taki dæmi - "Staggered" armbeygjur. Þurfti að hvíla mig 4 sinnum síðast og náði 1/3 af uppgefnum fjölda í fyrsta setti. Þurfti bara að hvíla mig 2 núna og kláraði 3/4! Hænunú!

Eftir-æfinguátið mitt í dag var Toraniblandað skyr og brakandi, brakandi fersk græn gleðisprengja.

Já, ég gat ekki beðið og beit í eplið fyrir myndatöku.

Kærið mig!

gott kombó

Skera -> dolla -> HRÆRA

að preppa

HRÆRA

Borða  uppúr uppáhalds átfati.

Uppáhalds átfat

Þetta var játningafærsla dagsins í dag. Svoleiðis þuuulið upp hvað ofan í svarholið hvarf.

Set inn ostakökuuppskrift á eftir. Smáköku- og konfektpistlar fylgja svo fast á hæla hollustunnar næstu daga.

Bara tvær vikur þangað til gott fólk! Hihiiiiii....


Hvatning, jafnvægi

Við erum alltaf að leita að hvatningu. Hvað er það sem hvetur þig áfram? Hvað þarf að gerast til að þú sparkir í rassgatið á sjálfum þér? Hverju þarftu að verða vitni að?

Hvatningin kemur úr öllum áttum, hvort sem það er frá okkur sjálfum eða utanaðkomandi ofuröflum.

Hef talað um það áður hvurslags hvatningu við sækjumst eftir og oftar en ekki er það talan á vigtinni og spegilmyndin sem hafa mest að segja. Skiljanlega. Ef þú sérð kíló niðurávið eina vikuna, viltu í alvörunni eyðileggja það með því að vera aðeins of góður við sjálfan þig næstu vikuna?

Hvatning.

Þetta er erfitt ferli.

Þetta er skítt.

Það þarf aga til að koma sér af stað. Það þarf aga til að halda þessu við, því það gerir það enginn nema þú sjálf(ur).

Utanaðkomandi hvatning getur oftar en ekki skipt sköpum, hvort sem það er frá fjölskyldu/vinum/manninum í búðinni eða bíósætinu sem þú passar allt í einu í.

Að deila sinni reynslu með öðrum er einnig form af hvatningu fyrir þá sem gjörninginn bera augum og geta samsamað sig einhverju af því sem sagt/skrifað er. Síðan mín hefur vonandi reynst einhverjum hvatning því til þess er hún blessuð. Ég, hinn almenni hambó, í svaðilför um draugaheima heilsuáts og hreyfingar. Gúbbi sem ákvað að lyfta upp hægri rasskinn fyrir góðum 3 árum, eftir 24 ára sófakartöflu- og nóakropps-session, og plummar sig svona líka fínt.

Búin að gera mörg, mörg mistök.

Líka búin að læra af þeim.

Líka búin að gera margt, margt gott.

Hef fengið ógeð og hætt.

Hef svelt mig, ofétið, ofþjálfað og vabeha.

Hef átt mörg miður skemmtileg samtöl við "sjálfa mig".

  • "Nei Elín, þetta er of stór skammtur."
  • "Bara kál og vatn á morgun eftir þennan dag"
  • "Fokk, nú þarf ég að brenna lengur á morgun"
  • "Langar bara að losna við nákvæmlega þessa spik-klessu héér"
  • "DJÖFULL NENNI ÉG ÞESSU EKKI"
  • "Ómægod hvað mig langar í pizzu"
  • "Nei ekki fá þér þessa kexköku, gætir þyngst um 5 kg"
  • "Jæja, dagurinn hvort eð er ónýtur, ét þetta líka"
  • "Shit, shit shit, shit - af hverju eru buxurnar aðeins þrengri í dag en í gær?"
  • "Crap, komst ekki í ræktina í dag - ætla að vinna það upp með því að mæta þrisvar á morgun"

Hef fundið jafnvægi... og rústað því jafn óðum.

Hef verið í ójafnvægi og fundið jafnvægi aftur.

Er í jafnvægi og held því! 

Lífstílsbreyting er ekki kapphlaup. Árangurinn kemur með tímanum og ef þú heldur þér jafnt og þétt við efnið, þá helst hann.

Tvö, þrjú... tíu kíló upp? Ekkert mál! Taktu þér nokkra mánuði í að ná þeim af aftur. 

Ekki berja á sjálfum þér fyrir að vera ekki með nákvæmlega "svona" útlítandi rass. Ekki drepa sjálfið á því að neita þér um allt. Ekki drepa sjálfið á því að fá ógeð á æfingunni sem þú stundar.  Finndu eitthvað sem hentar.

Taktu þér viku í frí... tvær. Taktu þér tvo mánuði í frí. Haltu svo áfram.

Hvaða árangri, frá því þú byrjaðir, hefur þú náð? Ekki einblína á það sem er "eftir" því það er gefið að þú gefst upp með þá hugsun í kollinum.

  • JESS....  er búin að ná af mér 20 kg. og er komin upp í 35 kg. í bekk!
  • Æjiii... á 20 kg. eftir og næ ekki að lyfta 35 í bekk nema 10 sinnum.

Hvað er eftir? Virkilega?

Er lífstílsbreytingin einhverntíman á enda?

Jákvæð - hvatning, hvatning og hvatning! Bara brotabrot mín kæru.


Seigar hafra- og rúsínusmákökur, eggjalausar

Var að koma heim úr vinnunni, síðan kl. 7 í morgun. Ég er löt. Ekkert lasagna. Þið fáið kökur í staðinn!

Þið vitið að ég er forfallinn karamellusjúklingur... er það ekki?

Þið vitið að ég er 70% vatn og 30% hafrar... er það ekki alveg örugglega?

Þið vitið vel að ég og karamella eigum í leynilegu matarperrasambandi, ekki bara af því að karamella inniheldur orðið Ella. Egósentrískt eintak með yfirburðum!

Þessar kökur eru ólseigar! Stökkar að utan, djúsí og karamellukenndar að innan. Þið sem þurfið því ykkar skammt af stökkum smákökum fáið ykkar áferðarhimnaríki fullnægt í bland við mjúka miðjuna. Sömu sögu er að segja um seiga fólkið!

Bragðið milt, hafrarnir koma skemmtilega í gegn og gefa kökunni smá hnetukeim. Uss elsku bestu. Bæta út í þetta heilum heslihnetum og þið þurfið ekki aðrar kökur í jólaundirbúninginn!

Æji bara... prófið þessar.

Eggjalausar hafra- og rúslusmákökur

Hafra- og rúsínusmákökur - eggjalausar 

  • 226 gr. smjör
  • 2 bollar púðursykur
  • 1 bolli sykur
  • 1 tsk vanilludropar
  • 2 msk vatn
  • 2 msk balsamic edik (eða epla, eða hvítt, eða eða)
  • 2,5 bollar hveiti 
  • 3 tsk. lyftiduft
  • 1 tsk matarsódi
  • 1/4 tsk salt
  • 2 bollar hafrar (ég notaði rauðu solgryn)
  • 1 bolli rúslúr (má nota súkkulaðidropa í staðinn... eða bæði)
  • 1 bolli hnetur (má sleppa)

Stilla ofn á 175°C.

  1. Blanda saman smjöri og sykri. Bæta þá við vanilludropum, ediki og vatni og hræra vel.
  2. Í annarri skál, hræra saman hveiti, lyftidufti, matarsóda og salti. Hræra létt saman og bæta þá hveitimixtúrunni saman við smjörsykurhamingjuna, ásamt rúslum/súkkulaði og höfrum. Ef þú bætir út í þetta hnetum, þá er góður tími að bæta þeim við núna.
  3. Rúlla deigi í litlar kúlur, raða á bökunarpappír.
  4. Baka í 10 mínútur, taka út, leifa að kólna vel.

Pottþétt með 

Kökurnar líta ekki út fyrir að vera tilbúnar eftir 10 mínútur, en til þess að þær verði seigar og djúsí, með stökka skorpu, þá eru 10 mínútur alveg málið. Fer kannski svolítið eftir ofninum þínum.

Þú veist best.

Veit ekki nákvæmlega hvernig þær bragðast 2 - 3 dögum eftir bakstur, eða hvernig áferðin er. Þær eru aldrei til í nógu langan tíma fyrir mig ti lað prófa það.

Gott eða slæmt?

Mjög... mjög gott!

Reyndu svo að borða þær ekki allar í einu.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband